Einu sinni enn

Það kom um páskana með gulri viðvörun Veðurstofunnar, þó svo að það hafi mátt greina veðrabrigði dagana undan. Enn er samt svo að ég ligg andvaka í nætur myrkrinu, -og það eru fleiri sem vaka.

Kliður unga fólksins berst inn um gluggann frá flóðlýstum körfuboltavellinum með þessum þungu droppum og hringlanda glamri í spjaldinu.

Þögn og smá dúr með draumi um krumma, losa svefnrofana við píkuskræki í fjarska, á balli með Stjórninni í Valaskjálf, -eftir að helgi föstudagsins langa lauk.

Sný mér á hina hliðina og næ í lítinn kríublund og dreymi krumma, Þegar skellinaðra rífur þrautseig og þrusandi þögnina. Einhver á leið fram Tjarnarbrautina, ekki á neinu hljóðu hoppi, -heldur er silast langt aftur tímann.

Krummi er hættur að krunka fyrir utan gluggann upp úr kl 5, -búin að skella í góm, tína saman sprekin og brúkar nú flugfjaðrirnar til meira áríðandi starfa, -ég sakna krumma um stund.

Ævi er uppi fyrir allar aldir, komin í bleikt, brosið ljómar í fyrstu sólargeislum morgunsins, vindurinn leikur um hárið. Hún skellir niður hælunum í 30 ára jólaskóm af mömmu, -nú dansar Ævi í rauðum skóm úti á svölum fyrir ömmu.

Já það er komið vor, –einu sinni enn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband