Haustlægð í slagtogi með ríkisstjórninni

Síðasta föstudag, rétt áður en fyrsta haustlægðin gekk yfir landið, varð mér á að setja inn blogg í hugsanaleysi. Ég jós mér yfir ríkisstjórnina og stóð svo ekki fyrir máli mínu hér á síðunni. Ekki nóg með það, rétt á eftir lenti ég í slagtogi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar án þess að láta liðið fá það óþvegið.

Það kunna kannski einhverjir að álykta sem svo að ég hafi ruglast í ríminu, en svo er ekki. Málið er að þegar ég setti inn síðasta pistil átti ég eftir að taka mig saman í andlitinu fyrir flug. Ég hafði ákveðið að bregða mér af bæ, eða eins og Matthildur mín orðaði það; -hvernig ætlar þú að fara að því?

Þannig var að ég hafði fyrir löngu ákveðið að fara til Reykjavíkur ef yngsti bróðir kæmi frá Englandi í tilefni þess að árin hans eru 50 og eiga nokkra samverudaga með systkinum mínum. Lengi vel hélt ég því fram að ég ætlaði að keyra, en svo gerðist það að fyrirtækið, sem ég mæti hjá, keypti bíl sem ég hafði heimtað í æðiskasti i vor.

Þannig að ég komst undan því að láta reyna á efasemdir Matthildar með því að fara með flugi og með því að láta litli bróðir sjá um aksturinn austur. Sjálf fór hún á Djúpavog til að vera ömmugullinu Ævi til halds og trausts, sem er byrjuð allt of snemma í skóla, og vegna þess að snáðinn átti að fæðast þann fjórða fannst henni vissara að fara strax.

Eftir að hafa sett skammirnar um ríkisstjórnina í loftið hér á síðunni og búin að taka mig til fyrir flug ákvað ég að labba niður á flugvöll milli bleikra akra í blessaðri morgunnblíðunni á Egilsstaðanesinu. Ég settist svo einn á afskektan stað í flugstöðinni þar sem ég sá daginn fæðast út um gluggann úr mistri morgunnsólar.

Ég hélt jafnvel að ég væri einsamall staddur í paradís, en var ekki lengi einn. Kunningi kom og spjallaði um myndlist og svo annar um ósegjanlegan harm. En skyndilega vorum við umkringdir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, nema sendiherradótturinni sem sjálfsag hefur þótt jafn skynsamlegt og okkur að fara með veggjum.

Þegar út í flugvél var komið þá settist ég við austur gluggann. Ein dúkkulísa ríkisstjórnarinnar tók strauið aftur vélina og stefndi til mín, á eftir henni var kona sem mér fannst ég kannast við. Dúkkulísan settist fyrir framan mig, en konan við hliðina á mér og bauð um leið góðan dag. Ég tók undir og spurði hvort hún héti ekki örugglega Nína.

Konan spurði hissa hvernig veist þú það, -hvort við þekktumst. Ég sagði að við hefðum búið í sama húsi fyrir akkúrat 40 árum síðan, og gaf upp götu og númer. Þú hefur þá verið á Barða sagði hún. Þá voru tímarnir aðrir, botnlaus vinna, stuttur tími til skemmtana og gleðskapurinn eftir því, annað en í dag.

Við spjölluðum um gamla tíma á meðan flugvélin flaug í heiðríkjunni yfir víðernunum norðan Vatnajökuls. Ég skimaði á meðan eftir vinnufélögum mínum út um gluggann, sem áttu að vera að múrhúða leiðivegg við Desjaárstíflu austan við Kárahnjúkinn.

Hún sýndi mér myndir af nýjum Barða við bryggju í símanum sínum, en hún hafði verið á Neskaupstað að passa barnabörnin síðustu vikurnar, sagði að hún byggi á Vesturlandi og væri Vesturlands goði Ásatrúarfélagsins.

Af forvitni spurði ég hvort hún teldi að goðar þjóðveldisins hefðu verið trúarleiðtogar eða pólitíkusar. Hún taldi að þá hafa verið hvoru tveggja. Við vorum sammála um að lýðveldið væri á braut glötunar rétt eins og þjóðveldið á sínum tíma vegna landlægrar spillingar, græðgi og minnimáttarkenndar fyrir erlendum áhrifum.

Eftir að hafa skoðað myndirnar betur sagði ég, -að þó að manni fyndist lítið til þess nýja koma nú til dags þá væri Barði mun stærri en skuttogarinn nafni hans fyrir 40 árum. Hafskipabryggjan og vöruskemman væru eins og krækiber í helvíti miðað við fjölveiðiskipið, en þá hefði hafskipabryggjan verið stór og skuttogarinn lítill.

Ég sagði frá bíltúr sem ég fór með litla bróðir um austfirði fyrir tæpu ári síðan. Þá komum við í Neskaupsstað þar sem öll skip Síldarvinnslunnar voru bundin við bryggju, varla hræða á götunum. Allur bærinn kominn á laugardagskvöldi út til Gdansk að snæða hátíðarkvöldverð í boði Síldarvinnslunnar. Heilu þotuförmunum af fólki flogið frá Egilsstaðaflugvelli.

Öðru vísi áður brá þegar togari mátti ekki stoppa meira en 30 tíma í landi, -annars varð búsetubrestur og voðinn vís. Utanlandsferðin var í þá daga í mesta lagi sölusigling til Grimsby eða Hull. Við fyrstu haustlægðina þann stutta tíma sem ég var á Barða komum við einmitt að hafskipabryggjunni vegna veðurs á laugardagskvöldi.

Þá var stutt í vaktaskipti, ball í Egilsbúð, og á minni vakt voru við flestir ungir og einhleypir því tilhlökkunin mikil. Það kom í okkar hlut að binda, á meðan fjölskyldufeðurnir stauluðust frá borði niður vaggandi landganginn í rigningu og roki. Allt í einu kallaði Hebbi í kallkerfið úr brúnni "sleppa", auðvitað trúðum við ekki eigin eyrum.

Hvort sem landfestarnar slitnuðu í ólgu sjó eða Hebbi lét í haf, þá sigldum við með slitnar landfestar út fjörðinn og vorum andvaka úti á Norðfjarðarflóanum til morguns. Svo var siglt inn í höfn þegar lægði í birtingu, landað, tekinn ís og farið út aftur eftir 30 tímana til að sjá frystihúsinu fyrir hráefni.

Þegar flugvélin flaug inn til lendingar í Reykjavík var farið að hvessa svo öldutopparnir voru hvítfrissandi út Kollafjörðinn og ókyrrð jókst til muna yfir Stjórnarráðinu. Þegar inn í flugskýlið á Reykjavíkurflugvelli var komið, þökkuðum við hvort öðru fyrir skemmtilega samfylgd og höfðum bæði á orði hvað það væri gott að hafa sloppið við að sitja við hliðina á ráðherra í þessu flugi. Það væri á pari við að sleppa lifandi.

Helgin leið vindasöm við glaðværð í systkina hópnum af Hæðinni, fjögur vorum við mætt til að fagna 50 árum litla bróðir. Yngri systirin ein hafði ekki komist frá S-Frakklandi, þar sem hún hefur búið í meira en 30 ár, þó svo að hún hafi átt hugmyndina af hittingnum, -fékk ekki sumarfrí á réttum tíma í Frans þegar á reyndi.

Við litli bróðir lögðum svo að stað austur í birtingu á mánudagsmorgunn í logni, en vaðandi túristavaðli, á kassabíl með hraðatakmörkun í 90 km. Þannig að þegar túristavaðallinn var á 70-80 vegna ókunnugleika á því hvar Reynisfjara væri var ekki um annað að gera en dóla á sama hraða.

Mér lá náttúrulega mikið á því að það var kominn fjórði og snáðinn væntanlegur í heiminn. Enda stóð ekki á því að hann mætti á réttum tíma á mánudagskvöldi og dóttir okkar allan tímann með á hreinu að þeir sem fæddust í meyju væru bæði stundvísir og áreyðanlegir.

Dagana síðan þá hefur verið keyrt meira en til Reykjavíkur og til baka og Matthildur mín ekki minnst einu orði á hvernig ég hafi farið að því, -þrjá daga yfir Öxi á Djúpavog. Þaðan firðina á Neskaupstað, fram og til baka með hana og Ævi til að hitta snáðann. Þess á milli verið hálfan daginn i steypunni.

Þetta er nú ástæðan fyrir því að ég hef ekki haft tíma til að skammast út í ríkisstjórnina í heila viku, þó svo að full ástæða hafi verið til. Ég hef semsagt ekki lent á glapstigum ennþá, þrátt fyrri að hafa verið í slagtogi með slektinu í haustlægðinni.

Síðustu dagar hafa einfaldlega verið þannig að ég hef hvorki haft tíma til að lesa né skrifa, hvað þá verða óður og rífa kjaft. Fyrir náð almættisins hefur lífið einfaldlega leikið við mig og mína þrátt fyrir ríkisstjórnina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er það sem mestu skiptir í lífinu.

Til hamingju með þann nýfædda, afastrákinn, meistari Magnús.  

Og megi almættið leika við líf þitt og allrar, stækkandi, fjölskyldu þinnar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.9.2023 kl. 13:31

2 identicon

... en, í guðanna bænum, gefðu þér annað slagið tóm til að skamma ríkisstjórnina.

Það er okkur, sem lesum þína lifandi og skemmtilegu bloggpistla, andleg hressing.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.9.2023 kl. 13:41

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér kærlega fyrir Pétur Örn, -að hafa orð á því sem skiptir mestu máli.

Ætli það verði ekki áfram næg tilefni til að skamma ríkisstjórnina þrátt fyrir náð almættisins, ég hef allavega ekki mikla trú á öðru.

Magnús Sigurðsson, 8.9.2023 kl. 17:28

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Mér fannst þessi pistill reyndar vera á öðru og æðra tilverustigi en jarðbundnar skammir, þó vissulega mátti glögglega lesa festar milli þess jarðneska og hins ójarðneska, dúkkalísa og sendiherradóttir eru þessa heims, en ekki þess andaheims sem ég las og meðtók.

Hebbi lét sleppa því hann vildi ekki slitna, það þurfti ekki mörg orð til að kallinn kæmi margefldur hér á síðum Moggabloggsins, blessuð sé minning hans.

Slíkur er galdur þinn Magnús, og aðeins minnst á brotabrot af þeim seið sem þú magnaðir upp hér að ofan, okkur hinum til yndisauka.

En börn þarf að passa, og blessun fylgir hverju nýju barni, og aldrinum fylgir ekki bara grá hár og stirðleiki í liðum, heldur líka nýtt hlutverk, að vera til staðar og sjá ekkert annað en ljósið sem umliggur þetta nýja líf, og slokknar aldrei á meðan við drögum andann sem afi eða amma.

Til hamingju Magnús, ásamt Takk fyrir mig.

Ég sit að myndbrotum sem vöktu Forðum dag til lífs, sem og hugrenningartengingum sem tengja við A-in tvö, Andann og Almættið.

Ríkisstjórnin!!!, hvað er það nú aftur??

Kveðja í efra frá logninu í neðra, megi steypan steypast vel í haust, fé koma vænt af fjalli, og byggðirnar okkar blómstra.

Óskirnar eru sjálfsagt fleiri, en þessar duga alveg í lokaorð.

Ómar Geirsson, 8.9.2023 kl. 22:05

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, -og kærar þakkir fyrir athugasemdina.

Sjálfum fannst mér pistillinn klénn, enda langt frá því að fanga öll þau hughrif sem atburðir undanfarinnar viku hefur vakið. Samt fannst mér skylt að halda því til haga hvers vegna ég svaraði ekki fyrri mig eftir að hafa atyrt ríkisstjórnina.

Þessi orð þín og Péturs Arnar innramma vel um hvað lífið raunverulega snýst. Og okkur gömlu mönnunum ber að vera til staðar með okkar vitnisburði og koma því góða úr fortíðinni áfram. Minnast fólksins sem eru og voru raunverulegar vættir þessa lands.

Hughrifin sem maður verður fyrir á einum klukkutíma spanna stundum hálfa öld, eru rétt eins og lenda í tímavél. Á flugvellinu á Egilsstöðum ræddi ég við tvo kunningja, annar austfirðingur alla ævi, hinn búin að vera hér fyrir austan í aldarfjórðung.

Í flugvélinni hitti ég svo konu sem ég hafði ekki hitt í 40 ár. Hún tengdi mig við áhöfnina á Barða en ekki steypu. Togaraskipstjórinn Herbert Benjamínsson var í mínum augum mikilmenni. Svona fólk eru raunverulegar vættir þessa lands.

Fólk sem hefur borið þessa þjóð okkar fram veginn, já okkur ber að vera til staðar til að koma vitneskunni áfram til þeirra, sem koma inn í þennan heim, um það sem skiptir mestu máli. 

Takk fyrir athugasemdina, með kveðju úr morgunnsólinni í efra.

Magnús Sigurðsson, 9.9.2023 kl. 07:38

6 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég vona að ég sé ekki að trana mér fram í þessar fallegu hugleiðingar með of mikilli pólitík, ég tek undir allar góðar kveðjur frá Pétri og öðrum, en mér finnst ég geta lesið örlitla gagnrýni útúr pistlinum, nema hún er bara frekar dulin og ekki nema fyrir þá sem vilja finna hana. Það er bara orðið dúkkulísa, sem er stytting úr Davos dúkkulísa - fyrir þá sem þannig vilja þetta túlka. Við vitum að þær standa fyrir afsal á landi og siðgæði eiginhagsmuna, ef við munum eftir vísunum í eldri pistla Magnúsar og sannar umvandanir þar við prinsessur sem gefast gróðaöflunum á vald.

En burtséð frá því, aðalmálið er að geta lyft sér uppúr því dægurþrasi, og Ómar hefur rétt fyrir sér, þessi pistill er á æðra tilverustigi. 

Eins og Megas orti: "Því deildarstjórinn hann er drottins barn eins og við

þess dyljist engin sál,

en þótt hann tali hafi heyrn bæði og sjón

er honum fyrirmunað mennskra mál."

 

Dúkkulísur og deildarstjórar ættu að gera meira af því að brosa og sjá fegurð landslagsins, og svo að taka mark á öðru fólki. Þá myndi rofa til hjá ríkisstjórninni líka.

En góð heiðríkja yfir þessari grein, takk fyrir.

Ingólfur Sigurðsson, 9.9.2023 kl. 12:47

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrri þín orð Ingólfur, -nei þú ert ekki að trana þér fram öðru nær, athugasemdir eru vel þegnar, hvað þá þegar með fylgir ljóð eftir meistara Megas

Þetta með dúkkulísuna er eins og þú greinir; -gagnrýni. Dúkkulísa er nokkurskonar klæðskiptingur, er í raun grímuklæddur leikari stjórnsýslunnar. Davos dúkkulísur eru svo þær sem hafa látið glepjast af young gobal leaders innrætingunni.

Þessi tiltekna dúkkulísa vill vera þjóðholl, -eða þannig, lætur sig íslenskuna skipta máli allavega í orði og á borði með erlendu gervigreindar appi, þó svo að hún haldi sig annars innan stjórnsýslu glóbalsins.

Það er þannig með liðið sem lætur glepjast af öflum spillingar, græðgi og minnimáttarkenndar fyrir erlendum áhrifum, að það á ekkert annað í að sækja en eigið land. Það er engin eftirspurn eftir þessu landráðaliði önnur en í gegnum íslenska stjórnsýslu. 

Öfugt við fólkið sem ég tala um í pistlinum þá er það fólk metið að verðleikum  og er eftirsótt víða um lönd. Þetta fékk ég sjálfur, ásamt tugþusundum íslendinga, að sannreyna eftir hið svokallaða hrun á erlendri grund. Þar var ekki eftirspurn eftir einum einasta íslenskum stjórnmálamanni.

Magnús Sigurðsson, 9.9.2023 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband