Hútar

Það er nokkuð ljóst að hafsvæðið sem Hútar herja á við strendur Jemen hefur frá alda öðli verið Vesturlandabúum varasamt. Í bókinni Jón Indíafari Reisubók getur Jón Ólafsson úr Álftafirði vestra þessa hafsvæðis með þessum orðum

Eitt eyland, liggjandi í því Rauða hafi, kallast Zocotora og heyrir til Afríka. Það með lyktar hér um meira að tala. Út af því Rauða hafi koma þrátt í veg fyrir Indíafara nokkur smáskip og skútur, sem kallast barkar, hver skip þeir taka með harðri hendi og alla vöru.

Á þeim eru egypskir og arabískir menn. Sumum sleppa þeir tómhentum, en suma aflífa þeir, sem morðingjar og sjóreyfarar. Þar fá þeir oftlega mikið herfang, og nær svo ber við, að þessi smáskip koma út af þeim Rauða sjó í móti þeim, en á vorri leið skeði það ei, og ei komum vér við nokkur lönd, fyrr en við komum að Ceylon.

Þetta má lesa í Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara þegar hann sigldi á vegum Danakonungs á skipinu Kristjánshöfn til Indlands árið 1622. Þarna er hann að lýsa hluta leiðarinnar á milli Madagascar og Ceylon (Siri Lanka). Það sem Jón kallar Zocotora er eyja við minni Adenflóa.

Jón dvaldi um tíma á Indlandi og segir m.a. frá því í Reisubókinni, sem hann skrifaði fyrir um 400 árum síðan, að á Indlandi hafi hann skrifað bréf til Halldórs bróður síns í Súðavík. Hann segir að félagar hans hafi sagt að þetta væri í fyrsta skipti sem fréttir hefðu farið á milli Indlands og Íslands.

Jón gerir grein fyrir hvaða leið bréfið fór til Íslands og hvernig það komst alla leið. Það fór með skipinu Kristjánshöfn milli Indlands og Danmerkur. Bréfið fór svo í kaupfar á Eyrarsundi sem var á leið til Skutulsfjarðar við Ísafjarðardjúp.


mbl.is Skutu niður eldflaugina á síðustu stundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Sagt er að Jemen sé grafreitur innrásarherja, og Afagnistan sé grafreitur heimsvelda, og að Rauða hafið sé blóðið úr Medúsu ...

Guðjón E. Hreinberg, 2.2.2024 kl. 23:49

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er ekki ólíklegt Guðjón, -og vel gæti ég trúað þessu með Medúsu.

Það sagði mér amerískur prófessor ekki fyrir svo löngu, sem hafði þjónað í her heimsveldisins bæði á Íslandi og í Afganistan, að afganir væru huguðustu hetjur í þessum heimi, -þar af leiðandi ósigrandi. Þeir væru nokkurskonar Sturlungar og vildu fá að vera það áfram.

Eins hef ég kynnt mér svolítið Jemenska byggingarlist og komist að því að í Jemen eru einhver endingabestu hús í heimi. Þar er enn búið í húsum sem byggð voru á tímum Jóns Indíafara og jafnvel 100 árum fyrr, þrátt fyrir allt sprengju regnið.

Magnús Sigurðsson, 3.2.2024 kl. 07:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband