1.4.2017 | 19:41
Mara, sendingar og sálfarir
Fyrir stuttu var athyglisvert frásögn á Vísi, sem byggir á viðtali við þekktan sjónvarpsmann þar sem hann lýsti svefntruflunum sem höfðu angrað hann fyrr á ævinni. Truflanirnar sagði hann hafa verið líkar því að hafa eitt heilu nóttunum í forgarði helvítis. Frásögnin var notuð til fræðilegrar skýringar á því sem kallað er svefnrofalömun við kynningu á nýrri bók Erlu Björnsdóttur um svefn, en Erla er doktor í sálfræði. Í bókinni, sem heitir einfaldlega Svefn, segir að svefnrofalömun lýsi sér í því að einstaklingurinn lamast algjörlega þegar hann sofnar eða þegar hann vaknar. Þá getur hann hvorki hreyft legg né lið en er þó með fullri meðvitund. Ofskynjanir geta stundum verið hluti af svefnrofalömun en lömunin varir oftast stutt og er hægt að fá viðkomandi úr þessu ástandi með því að snerta hann eða tala við hann.
Það sem ekki var síður athyglisvert, en frásögn sjónvarpsmannsins, voru kommentin sem lesendur settu undir fréttina. Því flest þeirra bættu talsverðu við þessa örstuttu fræðilegu skýringu á svefnrofalömun. Í kommentum mátti finna frásagnir fólks sem hefur frá svipaðri reynslu að segja, svo sem þessar:
Þetta er ásókn illra afla handan þessa heims. Þekki þetta af eigin reynslu....
Hef upplifað þetta síðan ég var unglingur og kemur enn (51 árs) en sem betur fer ekki oft. Síðast reyndi ég að kalla á manninn minn sem var frammi (ég heyrði vel i honum) hann heyrði einhvern kalla og fór í herbergi sonar okkar því hann heyrði karlmannsrödd...ég fann líka að þetta var ekki mín rödd, heldur djúp karlmannsrödd þegar ég kallaði á hann og þurfti ég að kalla mörgum sinnum þangað til að hann áttaði sig hver þetta væri....
Ég er 42 ára og hef barist við þetta alla ævi síðasta kastið fékk ég í gær og var það mitt fyrsta á erlendri grund. Ég heyrði mikinn barnsgrátur og var sannfærður um að þar færi draugur látins barns á ferð og öskraði ég á hjálp til móður minnar sem sat ekki nema 3 metra frá mér en hún heyrði ekki píp í mér, oftast eru þetta draugar eða árar en einstaka sinnum börn að leik og grínast þau í mér og verð ég ekki hræddur....
Ég hef dílað við þetta nkl sama og þú líka síðan ég var 14 ára. Ég náði ekki að losna við þetta fyrr en ég eitt skiptið alveg ómeðvitað, ákveð að krossa mig í þessum aðstæðum....
Bara kalla á Jesú ef þetta gerist þannig sigraðist ég á þessu....
Það sama geri ég þegar ég er lömuð og veit ég um aðra konu sem kallar líka á Jesú og það virkar....
Þetta ástand hefur alltaf kallast "sálfarir", ég hef glímt við þetta síðan ég var barn og hef mikla reynslu í þessu ;) þetta gerist þegar sálin er að tengjast líkamanum eftir að hafa verið fjarverandi, þetta getur gerst bæði þegar maður er að fara að sofa og þegar maður vaknar en yfirleitt gerist þetta þegar maður vaknar, þá "lamast" maður oft á meðan sálin er að ná tengingu við líkamann....
Þetta hefur verið þekkt öldum saman og þetta er einfaldlega ásókn drauga og púka og hefur ekki með neitt annað að gera....
Það finnst flestum sínir draumar merkilegir og að þeir hljóti að boða eitthvað. Jafnframt þá hafa fáir mikinn áhuga á draumum annarra og geta venjulega tekið undir þau sjónarmið að draumar séu ekki til að hafa miklar áhyggjur af, en Erla segir; "Þetta tengist oft álagi, óreglulegum svefntímum og þetta er ekki hættulegt. Það er mjög mikilvægt að maður viti það þegar þetta gerist því þetta er mjög óhugnanlegt og óþægileg reynsla." En í þessu tilfelli þar sem martröð fylgir svefnrofalömun virðist flestir hafa frá ógn að segja og ekki er það af kommentunum að skilja að um meinlausa upplifun sé að ræða.
Án þess að fara djúpt í það, þá hef ég sjálfur orðið fyrir svipuðum upplifunum í svefni. Fyrr á ævinni tengdi ég þetta óreglu, eins kom fyrir að svipuð líkamleg áhrif gerðu vart við sig í vöku, þ.e. andnauð og brjóstverkur sem varði yfirleitt í stutta stund. Eftir að hafa gist hjartadeild fyrir 16 árum síðan, með tilheyrandi rannsóknum sem leiddu ekki ljós læknisfræðilega áhættuþætti hjartasjúkdóma né að sérstakrar eftirfylgni væri þörf, gerðist það fyrir tveimur árum að hjartað skemmdist við að upplifa þessa tilfinningu síendurtekið í vöku, sem svefni, og þá með tilheyrandi draumarugli. Hjartaáfall var eitthvað sem átti ekki að geta komið fyrir mann eins og mig. Vegna eftirkastanna hef ég mikið velt fyrir mér hverju sætir. Einna helst hefur mér dottið í hug aðsóknir fyrirbrigða, sem kallast í þjóðsögunum mara og sendingar.
Mara er samkvæmt þjóðtrúnni, óvættur sem ræðst á sofandi fólk. Það að fá martröð er að vera troðin af möru. Í orðabók Menningarsjóðs, 1988, er mara skilgreind sem óvættur sem ætlað var að træði á fólki eða þjarmaði að því í svefni; sbr. martröð: mara treður einhvern; það hvíldi á honum eins og mara, sem í yfirfærðri merkingu þýðir að hann hafði þungar áhyggjur. Venjulega finnur sá sem fyrir martröð verður eitthvað þrýsta fast á bringu sér, svo að það verður óbærilegt. Læknavísindin rekja þetta til hindrunar á andardrætti, sökum veikinda t.d. kæfisvefn, eða jafnvel óþægilegrar legu og þess að rúmföt hafi dregist yfir vitin.
Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar frásagnir af fyrirbærinu. Þar er frásögn af möru sem Sveinn Jóhannesson frá Seljamýri í Loðmundarfirði fékk á Skálum á Langanesi þegar hann var þar á vertíð 1914. Það vildi þá til Sveini fannst komið að sér og lagst ofan á sig svo úr honum dró allan mátt og leið honum þá mjög illa áður en af honum létti og hann gat snúið sér. Sveinn hugsaði nú að þetta kæmi til af óhentugri legu og óhagkvæmri blóðrás. Skömmu síðar kom þó aftur fyrir það sama og öllu verra nema nú gat hann brotist um og snúið sér og hvarf þá loks maran. En enn skýrði Sveinn þetta sem fyrr á lækna vísu. Í þriðja sinn kom mara og tróð Svein. Var það nú svo lengi að honum þótti tvísýnt hversu færi þangað til hann gat rekið upp org og létti þá á honum. Þá var Sveinn orðinn reiður mjög, því skapríkur var hann þótt stilltur sé. Kallar hann þá hástöfum: Ef hér er nokkur djöfullinn sem er að ónáða og kvelja mig þá fari hann til Helvítis. Upp frá þessu tróð engin mara Svein að Skálum.
Ein frásögn Sigfúsar er frá Víðivöllum í Fljótsdal þar sem sama maran leggst hvorki meira né minna en á fjóra í svefni sömu nótt, hvern á fætur öðrum. Sá fyrsti hafði verið vakin af öðrum þegar hann varð var við martröð hans, sá sofnað síðan, en ekki sá sem fyrir mörunni varð. Síðan fær sá martröð stuttu seinna og sá sem hana fyrstur fékk vakti þá hann. Þar sem þeir lágu nú báðir andvaka verða þeir varir við að þriðji félagi þeirra er kominn með martröð svo þeir vekja hann. Þegar þeir þrír bera sig saman um hvað þá hafi dreymt var það eins hjá öllum, þeim fannst eitthvað hafa lagst ofan á sig. Á meðan þeir eru að tala saman heyra þeir uml í stúlku sem svaf við stigaskör fyrir ofan þá og vekja hana. Þegar hún var spurð hvað hefði angrað hana segir hún að einhver djöfullinn hafi lagst ofan á sig.
Fleiri sagnir af möru eru í þjóðsögum Sigfúsar og þar er m.a. sagt frá því hvað Færeyingar kalla fyrirbærið. Eins má lesa samantekt Þorsteins frá Hamri um möru í Þjóðviljanum frá því 1975 og hversu útbreidd vitneskjan um hana hefur verið frá fyrstu tíð. Mörunnar verður vart um allan heim og talið er að 1 af hverjum 5 verði fyrir barðinu á henni einhvertíma á lífsleiðinni. Á doktor.is má sjá svar Bryndísar Benediktsdóttur um möru, hún er sérfræðingur í heimilislækningum, með svefnrannsóknir sem sérsvið.
Þegar ég skoðaði hvort þjóðsögurnar greindu frá aðsóknum, þar sem svipuð líkamleg þyngsli koma fram í vöku og þegar mara treður mann í svefnrofalömun, þá rakst ég fljótlega á söguna um Brest. Þar segir frá Páli Pálssyni, sem bjó í Kverkártungu á Langanesströnd upp úr miðri 19. öld og fékk sendingu sem hann vildi aldrei tjá sig um og fór því sennilega vitneskjan um hvers eðlis sendingin raunverulega var í gröfina með Páli. En þessi sending fór samt ekki fram hjá neinum sem umgengust hann í lifanda lífi eftir að ásóknin hófst. Þetta er ein þekktasta frásögn af sendingu og er í því sem næst öllum þjóðsagnasöfnum. Auk þess að vera ekki einungis munnmælasaga, heldur skráð heimild þegar atburðirnir gerast. Það sem vakti öðru fremur athygli mína, var ekki sagan af sendingunni sjálfri, heldur endalok Páls.
Þegar að Páll hafði flosnað upp og nokkru eftir að konan hrökklaðist að heiman, fór hann til vinar síns á Vopnafirði og bað hann um að fá að deyja undir hans þaki. Vinurinn bauð hann velkominn, en fannst ekkert benda til að hann væri dauðvona. En Páll sagðist vera orðinn kaldur upp að hnjám og því yrði ekki aftur snúið. Það fór svo að Páll var allur innan sólahrings. Það var þessi útlimakuldi Páls sem fékk mig til að taka sérstaklega eftir sögunni um Brest, því kuldinn hlyti að hafa stafað af hjartaáfalli, svo vel kynntist ég þeim vágesti þegar hann var mér sendur.
Þjóðsögurnar hafa að geyma sagnir af ýmsum gerðum sendinga, og með hvaða kunnáttu þær voru uppvaktar. Tilgangur þeirra til forna er aðallega talinn hafa verið að leita fregna um það sem fram ætti eftir að koma. En á seinni öldum sýnist tilgangur sendinga vera stefnt til höfuðs öðrum. Sigfús Sigfússon segir að munurinn á sendingum og afturgöngum sé sá að sendingar séu séu uppvaktar af eigingirni manna sem knýi þær til illra verka í sína þágu, á meðan afturgöngur fari um af eigin hvötum. Sendingum sé ætlað að fullnægja verstu hvötum mannsins s.s.heiftarhefnd og drápi, þó séu þær einnig stöku sinnum framkallaðar af fégræðgi. Algengastir voru snakkar, tilberar og árar.
Ætla mætti að allar þessar gerðir sendinga væru það sem einu nafni kallast púkar, eða djöflar í Biblíunni. En það er þó ekki svo einfalt. Samkvæmt Íslenskri orðabók Máls og menningar er sending, -ar 3 uppvakningur, sendur til að gera öðrum mein, sem er í fullu samræmi við Sigfús. Þar er djöfull 1 illur andi, andskoti, fjandi, púki, og samkvæmt sömu orðabók er púki 1 ári, smádjöfull. Þetta má svo finna um djöful í Biblíunni, Opinberun Jóhannesar 12.9; Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum. Það er því nokkuð ljóst að sendingar eru í sjálfu sér ekki djöflar, heldur eru þeir sem þær uppvekja og senda, haldnir djöflum.
Reyndar er gert ráð fyrir því í flestum trúarbrögðum að jörðin sé djöfulsins. Í norrænni goðafræði var afkvæmi Loka, Miðgarðsormurinn erkifjandi Ása, sem umlukti Miðgarð mannanna. Í Múhameðstrú búa púkar meðal mannanna sem kallast Jinn, ámóta mýtur má finna í flestum trúarbrögðum. Margir líta á frásagnir Opinberunarbókar Nýja testamentisins af djöflinum, sem og annarra trúarrita, sem hið mesta óráðshjal eða í mesta lagi spádóm sem gæti átt eftir að koma fram.
En allt eins getur verið að gjörföll heimsbyggðin sé nú þegar afvegaleidd af djöflinum. Þannig að þeir sem verða fyrir því, sem kallað var sendingar sendi þær sjálfum sér. Í Nýja testamentinu er þess getið hvernig Jesú losaði þá við illa anda sem voru þeim haldnir. Matth 8.16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá er sjúkir voru læknaði hann.
"Með orði einu" hvernig má það nú vera? -það orð inniheldur vissuna um að allt fari vel. Þannig að ef trúin væntir einungis þess góða og þá verður útkoman eftir því. Þetta er sama trúin og flytur fjöll, nokkurskonar ímyndun, placebo effect. Illir andar og sjúkdómar fá ekki staðist fyrir slíku. Sömu áhrif má virkja í gagnstæða átt. Það hefur sjúkdómavæðingin gert í gegnum fjölmiðla. Þar er fólki talin trú um að það fái litlu ráðið um eigin heilsu án hjálpar lyfja, sem hefur með tímanum leitt til þess að maðurinn er sjúkasta dýrategund jarðar og hefur undirgengist þrælsok huglægs ótta.
Hvað er það sem hugsar? Það eru augun sem sjá, eyrun sem heyra, nefið sem finnur lykt, tungan bragð og fingurgómarnir sem snerta, kölluð skilningsvitin fimm. En höfum við einhverntíman velt því fyrir okkur hvað það er er sem hugsar? Sjálfsagt myndum við í fljótu bragði álykta sem svo að það værum við sjálf með heilanum. En með innrætingu frá blautu barnsbeini hefur okkur verið tamið að hugsa með heilanum á rökrænan hátt. Hugsanir eru sú tegund orku sem stýra okkur meðvitað fram á veginn.
Það hefur komið í ljós að þegar heilinn er í slökun s.s. í hugleiðslu, þá fer minna í árvekni, rökhugsun, gagnrýni og streitu. Við slökun er jafnvel talið að sálfarir geti átt sér stað, þar sem sálin yfirgefur líkamann um stund en kemur síðan aftur. Þær eiga sér því oft stað í svefni eða svefnrofum þegar hugsunin veldur ekki áreiti. Sálfarir lýsa oftar en ekki góðri tilfinningu sem inniheldur fagra drauma, en geta jafnframt verið þess eðlis að vitneskja fæst um ýmislegt sem er fjarlægt.
Stundum geta sálfarir verið ferðalag utan tíma og rúms um fjarlægar slóðir og lýst atburðum sem þar gerast án þess að sá sem förina fór hafi átt nokkurn möguleika á að vita um atburði öðruvísi. Þetta er því stundum kallað þriðja augað eða astral travel og mætti jafnvel líkja við gandreið þjóðsagnanna nema sá fararmáti þarfnaðist skuggalegri undirbúnings en hugleiðslu og slökunar.
Eitt af kommentunum við fréttina á Vísi gerði ráð fyrir að svefnrofalömun stafaði af sálförum. Annað lýsti sálförum; Sem unglingur þá gat ég stundum þegar ég var að festa svefn, ferðast úr líkamanum, horft á sjálfa mig í rúminu og svifið yfir fallega dali. (man mest eftir fallegu landslagi) Mér fannst þetta magnað og gaman, það var ekkert illt í þessu, engar verur eða neitt og tilfinningin var stórkostleg. Ég las mig til um að þetta sé algengt á unglingsárunum. Man samt ekki eftir að ég hafi lamast. Kannski annað fyrirbrigði.
Það hafa sjálfsagt allir dreymt fagra drauma í svefni þar sem þeir eru á ferð um kunnar jafnt sem ókunnar slóðir. Fyrir nokkru dreymdi mig að ég kom á byggingarstað, sem systir mín og mágur voru að byggja sér hús í suður Frakklandi. Það var ekkert óeðlilegt við það að mig dreymdi þennan draum vegna þess að þau voru að byggja hús á þessum tíma og fluttu í það fyrir rúmu ári síðan. Draumurinn var um stað sem ég hafði einu sinni komist í grennd við áður, en það var fyrir rúmum tuttugu árum við brúðkaup litlu systur. Þá var farið í heimsókn til tengdamóður hennar, sem bjó í smábæ. Hún átti smá landskika hinu megin við götuna skáhalt á móti húsinu hennar utan í skógivaxinni hæð.
Þennan landskika hafði hún seinna gefið ungu hjónunum og á hann var ég kominn í draumi til fylgjast með húsbyggingunni. Ég horfði niður að húsi tengdamömmu systur minnar og sá því að ég var á réttum stað. Þarna kom svo systir mín með börnunum sínum án þess að þau yrðu mín vör. Þetta var kannski ekkert skrýtið vegna þess að ég hafði oftar en einu sinni rætt það við systur í síma hvar nákvæmlega húsið yrði staðsett og taldi mig vera með nákvæma mynd í huganum af því hvernig landið lá þó svo að ég hefði aldrei komið þarna megin við götuna, upp á þessa hæð.
Það sem mér fannst sérkennilegra við drauminn og gera hann óraunverulegan var hvað það var mikið af öðrum húsum ofar á hæðinni. Eftir að systir og fjölskylda höfðu flutt í húsið hugkvæmdist mér að heimsækja hana á google earth og ganga síðasta spölinn á street wiew. Og viti menn húsin sem höfðu gert drauminn óraunverulegan voru á street view nákvæmlega eins og í draumnum.
Séra Jakob Jónsson lýsir sálförum í tímaritinu Morgunn 2 tbl árið 1940. Þessa för hafði mágur hans farið til að heimsækja systur sína yfir langan veg og greint frá um leið og henni lauk. Það var því vitað að hann átti ekki að geta vitað um það sem hann varð áskynja, nema hafa verið á staðnum þegar atburðurinn gerðist. Séra Jakob hafði þetta að segja um sálfarir; Læt ég lesendum mínum eftir að hugleiða það, hvers eðlis hinar svonefndu sálfarir eru í sjálfu sér; sjálfur nota ég orðið í þeirri merkingu, að sá hluti persónuleikans, sem skynjar og hugsar, hafi fluzt um stundarsakir úr efnislíkamanum, og sé því ekki háður skynfærum hans og heilastarfsemi, svo að fundið verði.
Það má því segja að heimarnir sem við upplifum í vöku og svefni geti því allt eins verið jafn sannir og í báðum tilfellum upplifum við líf okkar. Munurinn á þessum tveimur vitundarstigum er að upplifanirnar verða til vegna mismunandi næmni okkar innra sjálfs. Draumaheimurinn er ekki bundinn þeirri rökhugsun sem okkur er innrætt frá blautu barnsbeini, hvað er raunverulegt er svo okkar að meta.
Í myndinni hér að neðan er svefnrofalömun í hinum ýmsu menningarheimum gerð skil á einstaklega áhugaverðan hátt.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 20.4.2017 kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2017 | 21:56
Galdur, fár og geimvísindi
Það er sagt að galdur sé andstæðan við vísindi, svona nokkurskonar bábiljur á meðan vísindin byggi á því rökrétta. Því séu þeir sem trúi á galdur draumórafólk í mótsögn við sannleik vísindanna.
Svo hafa þeir alltaf verið til sem vita að galdur byggir á hávísindalegum lögmálum sem hafa mun víðtækari tengingar en rökhyggjan, s.s. krafta náttúrunnar, traustið á æðri mætti og síðast en ekki síst vissunni fyrir eigin getu við að færa sér lögmálin í nyt.
Ef sönn vísindi væru einungis rökhyggja sem byggði á því sem þegar hefur verið reynt, væru þau þar að leiðandi eins og sigling þar sem stýrt er með því að rýna í straumröst kjölfarsins. Þá nýta þau fortíðar staðreyndir sem ná ekki að uppfylla þrána eftir því óþekkta. Þannig vísindi munu aðeins færa rök gærdagsins á meðan þau steyta á skerjum og missa af draumalöndum sem framundan eru vegna trúarinnar á að best verði stýrt með því að rýna í kjölfarið.
Um miðjan áttunda ártug síðustu aldar tók það um ár fyrir geimförin Víking 1 og 2 að komast til Mars, lögðu þau af stað frá jörðu 1975 og lentu á Mars 1976. Mun lengri tíma tekur að fá úr því skorið hvort líf gæti verið á rauðu plánetunni og það eru ekki nema örfá ár síðan að almenningi voru birtar myndir frá ökuferð þaðan. NASA sendi svo Voyager nánast út í bláinn 1977 til að kanna fjarlægustu plánetur í okkar sólkerfi. Og fyrir nokkrum árum komst hann þangað, sem að var stefnt fyrir áratugum síðan, vegna þess að markmiðið var fyrirfram skilgreint úti í blánum.
Nýlega voru kynntar niðurstöður geimvísindamanna sem höfðu fundið sólkerfi sem hafi plánetur svipaðar jörðinni, þar sem talið er að finna megi líf. Plánetur sem eru þó í tuga ljósára meiri fjarlægð en en þær fjarlægustu í okkar sólkerfi þangað sem Voyager komst nýlega. Með tilliti til vísindalegra mælieininga s.s. ljóshraða og fjarlægðar er ekki nema von að spurningar vakni um hvernig geimvísindamenn komust að þessari niðurstöðu úr fjarlægð sem fyrir örfáum árum síðan var sögð taka mannsaldra að yfirvinna, jafnvel á ljóshraða.
Það þarf að láta sig dreyma eða detta í hug töfrandi skáldskap, nokkurskonar galdur, til að skýra hvernig fjarlægðir og tími er yfirunninn geimvísindalega. Þá er líka skýringin einföld; tíminn er mælieining sem vanalega er sett framan við fjarlægðina að takmarkinu, með því einu að setja þessa mælieiningu aftan við fjarlægðina þá er hægt að komast án þess að tíminn þvælist fyrir, hvað þá ef bæði fjarlægðin og tíminn eru sett fyrir aftan takmarkið.
Þannig draumkennda galdra virðast geimvísindamenn nota við að uppgötva heilu sólkerfin og svartholin í órafjarlægð. En þarna er hvorki um að ræða skáldskap né rökfræði, samt sem áður fullkomlega eðlilegt þegar haft er í huga að tíminn er ekki til nema sem mælieining. Það sama á við um fjarlægðina sem gerir fjöllin blá með sjónhverfingu.
Sjónhverfingar mælieininganna má best sjá í peningum sem eru mælieining á hagsæld. Síðast kreppa íslandssögunnar stóð yfir í góðæri til lands og sjávar, ekkert skorti nema peninga sem eru nú orðið aðallega til í formi digital bókhaldstalna.
Allar mælieiningar búa við þau rök að verða virkar vegna þess samhengis sem við ákveðum þeim. Það dettur t.d. engum í hug að ekki sé hægt að byggja hús vegna skorts á sentímetrum, en flestir vita jafnframt að sentímetrar eru mikið notuð mælieining við húsbyggingar. En varla er hægt að byggja hús nú til dags ef peninga skortir þó nóg sé til af byggingarefni, vinnuafli og sentímetrum.
Svo lengi sem við samþykkjum hvernig með mælieiningarnar skuli farið þá verður okkar veruleiki byggður á þeim, rétt eins og víst er að tveir plús tveir eru fjórir, eða jafnvel verðtryggðir 10, svo lengi sem samkomulagið heldur.
Þeir sem á öldum áður fóru frjálslega með viðurkenndar mælieiningar voru oftar en ekki, rétt eins og nú litnir hornauga, jafnvel ásakaðir um fjölkynngi eða fordæðuskap. Hvoru tveggja eru gömul íslensk orð notuð yfir galdur. Fjölkynngi má segja að hafi verið hvítur galdur þar sem sá sem með hann fór gerði það sjálfum sér til hagsbóta án þess að skaða aðra. Fordæðuskapur var á við svartan galdur sem var ástundaður öðrum til tjóns. Síðan voru lögin notuð til að dæma, og viðurlögin voru hörð.
Nú á tímum er auðvelt að sjá að mælikvarðar laganna sem notaðir voru til að brenna fólk á báli vegna galdurs voru hinn raunverulegi fordæðuskapur. En það var ekki svo auðvelt að sjá galdrabrennurnar í því ljósi á þeim tíma sem mælikvarðar galdrafársins voru í gildi. Rétt eins og nú á tímum eru tölur með vöxtum og verðbótum viðurkenndar sem mælikvarði á hagsæld, burt séð frá dugnaði fólks og hagfelldu árferði, ef reglum mælistikunnar er fylgt.
Ofsóknir með tilheyrandi galdrabrennum hófust hér á landi árið 1625, og er 17. öldin stundum kölluð brennuöldin, en talið er að 23 manneskjur hafi þá verið brenndir á báli. Þetta gerðist næstum hundrað árum eftir að galdraofsóknirnar í Evrópu náðu hámarki. Þar með hófst skelfilegt tímabil fyrir fjölfrótt fólk þegar þekking þess var lögð að jöfnu við galdra. Tímabil þetta er talið hafa náð hámarki með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi.
Því hefur verið haldið fram í seinni tíð að geðþótti og fégræðgi valadamanna hafi verið orsök galdrabrenna á Íslandi, en ekki almanna heill. Þorleifur Kortsons sýslumaður í Strandasýslu átti þar stóran hlut að máli umfram aðra valdsmenn, þó er þessi neikvæðu mynd af honum ekki að finna í ritum samtímamanna hans. Hvort þeir hafa haft réttara fyrir sér en þeir sem stunda seinni tíma fréttaskíringar sem gera hann að meinfisum fjárplógsmanni fer eftir því við hvað er miðað. Þorleifur átti til að vísa málum aftur heim í hérað og krefjast frekari rannsóknar ef honum fannst rök ákærunnar léleg. Röksemdir Þorleifs breytir samt ekki þeim mælikvarða að hann er sá íslenski valdsmaður sem vitað er að dæmdi flesta á bálið.
Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir galdur var Jón Rögnvaldsson, var hann brenndur fyrir kunnáttu sína með rúnir. Stórhættulegt var að leggja sig eftir fornum fræðum, hvað þá að eiga rúnablöð eða bækur í fórum sínum, sem og að hafa þekkingu á grösum til lækninga, en slíkt bauð heim galdragrun.
Hin fornu fræði, sem í dag eru talin til bábilja, sem var svo viðsjálfvert að þekkja á 17. öldinni voru á öldum þar áður talin til þekkingar. Í fornsögunum má víða lesa um hvernig fólk færði sér þessa þekkingu í nyt. Eru margar frásagnir af þeim fræðum hreinasta bull með mælikvörðum nútímans. Nema þá kannski geimvísindanna.
Egilssaga segir frá þekkingu Egils Skallagrímssonar á rúnum og hvernig hann notaði þær í lækningarskyni þar sem meinrúnir höfðu áður verið ristar til að valda veikindum. Eins notaði hann þessa þekkingu sína til að sjást fyrir sér til bjargar í viðsjálu.
Grettissaga segir frá því hvernig Grettir var að lokum drepinn út í Drangey með galdri sem flokkaðist undir fordæðuskap og sagan segir líka hvernig sá sem átti frumkvæðið af þeim galdri varð ógæfunni að bráð með missi höfuðs síns.
Færeyingasaga segir frá því hvernig Þrándur í Götu beitti galdri til að komast að því hvað varð um Sigmund Brestisson og lýsir hvernig hann leiddi fram þrjá menn til vitnisburðar sem höfðu verið myrtir.
Í Eiríkssögu rauða segir frá Þorbjörgu lítilvölvu, sem sagan notar orðið "vísindakona" yfir, þar sem hún breytir vetrarkulda í sumarblíðu. Þetta gerði Þorbjörg vísindakona á samkomu sem líst er í sögunni, sem tilkomu mikilli skrautsýningu með hænsnafiðri og kattarskinni svo áhrifin yrði sem mest. Þar voru kyrjaðar varðlokur sem þá var kveðskapur á fárra færi, svona nokkurskonar Eurovision.
Allar sagnir af galdri bera það með sér að betra er að fara varlega þegar hann er við hafður, því fordæðuskapur þar sem vinna á öðrum mein kemur undantekningalaust til með að hitta þann illa fyrir sem þeim galdri beitir. Hins vegar má sega að fjölkynngi hafi oft komið vel og til eru heimildir um fólk sem slapp við eldinn á brennuöld vegna kunnáttu sinnar. Má þar nefna heimildir tengdar Jóni lærða Guðmundssyni og Ingibjörgu Jónsdóttur Galdra Imbu.
Nú á tímum er gengið út frá því að snilli mannsandans sé hugsunin, sú sem fer fram í höfðinu. Á meðan svo er þá er rökfræðin oftast talin til hins rétta og ekki rúm fyrir bábiljur. Jafnvel þó svo að rökfræðin takamarki okkur í að svara sumum stærstu spurningum lífsins, líkt og um ástina, sem seint verður svarað með rökum.
Áskoranir lífsins eru náttúrulega mismunandi eins og þær eru margar, sumar eru rökfræðilegar, á meðan öðrum verður ekki svarað nema með hjartanu. Svo fjölgar þeim stöðugt nú á 21. öldinni, sem þarfnast hvoru tveggja.
Það er sagt að heilinn ráði við 24 myndramma á sekúndu sem er ekkert smáræði ef við búum til úr þeim spurningar sem þarfnast svara. Svo er sagt að við hvert svar verði til að minnsta kosti tvær nýjar spurningar. Upplýsingatækni nútímans ræður við, umfram mannsheilann, milljónir svara sem býr til síaukinn fjölda spurninga á sekúndu. Þannig ætti hver viti borinn maður að sjá að rökhugsun mannsins ein og sér er ofurliði borin.
Því er tími innsæisins runnin upp sem aldrei fyrr. Þess sem býr í hjartanu, því hjartað veit alltaf hvað er rétt. Nútíma töframenn vita að galdur felur í sér visku hjartans við að koma á breytingum í hugarheiminum, sígilda visku Gandhi þegar hann sagði "breyttu sjálfum þér og þú hefur breytt heiminum".
Fólk á brennuöld gat verið sakað um galdur fyrir það eitt að fylgja innsæinu opinberlega. Langt fram eftir síðustu öld fann hinsegin fólk sig knúið til að vera í felum vegna fordóma ef það opinberaði hjarta sitt.
Galdur sem fjölkynngi er byggður á margþættri vísindalegri greind, á tónum mannsandans þegar hann hefur slitið sig úr viðjum tíðarandans til að njóta töfra tímaleysisins og verður því sjaldnast sýnilegur með mælikvörðum samtímans, því ef svo væri gengi fjölkunnáttan oftar en ekki í berhögg við lög fordæðunnar.
Galdur | Breytt 26.3.2017 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2017 | 21:40
Sjö sinnum það sagt er mér
Þær fréttir sem ítrekað berast af húsnæðisvanda fólks eru þyngri en tárum taki. Meir að segja hefur þingkona nýlega lýst ráðaleysi við að komast undir eigið þak þrátt fyrir að hafa hátt í eina og hálfa milljón á mánuði.
Hvernig fólk fór að því áður fyrr við að koma þaki yfir höfuðið virðist ekki eiga við nú á dögum. Reglugerðafargan nútímans, með öllum sínum kostnaði og kröfum, virðist vera komið á það stig að ekki er neinum meðal Jóni mögulegt að byggja.
Leiði þeirra Möðrudalshjóna, Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen og Stefáns Jónsonar
Tilefni þessara vangaveltna eru að í sumar sem leið var sýning í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, um þúsundþjala smiðinn Jón Stefánsson í Möðrudal. Jón í Möðrudal var engin meðal Jón og vílaði fátt fyrir sér.
Ég hafði hugsað mér að gera þessari áhugaverðu sýningu skil hérna á síðunni, en finn ekkert af því efni sem ég var búin að viða að mér og hef þar að auki glatað flest öllum myndum frá sumrinu 2016 í tölvuóhappi.
Því verð ég að gera þessari merkilegu sýningu öðruvísi skil en ég hafði hugsað mér og er þá efst í huga kirkjan sem hann byggði í Möðrudal. Því það vafðist vel að merkja ekki fyrir Jóni að koma sér upp kirkju, frekar en þaki yfir höfuðið. Kirkjuna byggði hann með eigin höndum fyrir eigin reikning.
Ég rakst á skemmtilegt viðtal við Jón á youtube þar sem hann lýsir því fyrir Stefáni Jónssyni fréttamanni hvernig og hvers vegna hann byggði kirkjuna. Jón var einnig listamaður og málaði altaristöfluna sjálfur auk þess að smíða rammann utan um hana. Hann fékk svo biskupinn til að vígja kirkjuna.
Í þessu örstutta viðtali lýsir Jón þessu auk þess að syngja ljóð og lag um Hallgrím Pétursson. Seinni hluti viðtalsins er við annan höfðingja austanlands sem vandar ekki hagfræðingum kveðjurnar og gæti umræðuefnið eins haf verið í dag og fyrir tæpum 60 árum.
Ps. Þeir sem hafa áhuga á að heyra hvað listamenn dagsins í dag gera með söng Jóns í Möðrudal þá má smella á þetta remix hér.
Hús og híbýli | Breytt 19.3.2017 kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2017 | 19:19
Hrævareldar
Eru hrævareldar sem loga um nætur villuljós, sem eiga sér enga samsvörun í upplýstum heimi nútímans og eiga þar með það sameiginlegt með álfum og huldufólki þjóðtrúarinnar að hafa horfið af sjónarsviðinu þegar raflýsingin hélt innreið sína?
Eða eru hrævareldar kannski til? og gæti þá líka verið að það mætti sjá álfa við rétt skilyrði?
Ég fór að velta þessu fyrir mér vegna lesturs bókar Halldórs Pálssonar um Knútsbyl, sem gekk yfir Austurland 7. janúar 1886, en þar er að finna þessa frásögn frá Ósi í Breiðdal; Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hrævarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.
Þarna er sagt þannig frá hrævareldum, líkt og þeir ættu að vera hverju mannsbarni þekktir ekki síður en norðurljósin, sem hafa heillað ljósmyndara nú á tímum. Þegar ég las frásögnina hugsaði ég með mér "já, það er mýri þarna fyrir innan fjárborgina" en í votlendi grunaði mig að gæti verið von hrævarelda, þó svo að ég hafi þá aldrei séð og þekki engan sem það hefur gert, og viti varla hvernig þessari hugmynd skaut niður í kollinn. En eitthvað truflaði hugmyndina um mýrarljósið, því Knútsbylur var fárviðri og því ekki líklegt að logi lifði í þeim veðraham, hvað þá að Jón hafi séð frá sér á móti dimmviðrinu. Því fór ég að grennslast fyrir um eðli Hrævarelda sem þjótrú fyrri alda er full af frásögnum af, en fáir virðast hafa séð nú á tímum.
Kleifarrétt, þar sem Jón gætti fjárins niður við sjó í Knútsbyl, skarð hefur verið gert fyrir þjóðveginn í gegnum klettinn
Strax í fornsögunum er hrævarelda getið. Í Grettissögu segir frá því þegar Grettir kom til Háramarsey á Suður Mæri í Noregi og sá elda á haug Kárs gamla og gekk í hauginn, rændi gulli Kárs og afhöfðaði draug hans með sverðinu Jökulnaut. Gullið færði Grettir syni Kárs, Þorfinni bónda á Háramarsey. Samkvæmt frásögninni má ætla að það hafi verið hrævareldar eða mýrarljós, sem loguðu á haug Kárs og vísaði Grettri á grafhauginn. Því í vísu um þennan gjörning talar hann um "Fáfnis mýri" eftir að hafa áður haft á orði að "margt er smátt það er til ber á síðkveldum".
Þjóðsaga segir að sjá hafi mátt bjarma frá landi við Djúpavog, sem loga átti á haug Melsander Raben úti í Papey. En engin vissi fyrir víst hvar Melsander hafði borið beinin né hvað af auðæfum hans varð, því hvoru tveggja hvarf vofaginlega þar úti í eynni. Samt grunar mönnum að gull Melsanders kunni að vera grafið undir kirkjugólfinu. Þessi hrævarelda bjarmi sem menn töldu sig áður fyrr verða vara við út í Papey gætu því verið af sama toga og greint er frá í öllum þeim þjóðsögum, sem til eru um gull á álagablettum en þegar reynt var að grafa það upp þá sýndist kirkjan loga.
Eftir að hrævareldar hafa komið við sögu í þjóðtrúnni í þúsund ár, viðurkenna vísindi nútímans að stundum sé nokkur sannleikskorn í alþýðutrúnni. Samkvæmt Vísindavef Háskólans er skýringin á fyrirbærinu; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum. Yfirleitt er þá metangas að brenna en það myndast við sundrun jurtaleifa í mýrum. Engin ástæða er til að ætla annað en að fyrirbærið hafi verið þekkt frá alda öðli. Það er nefnt í gömlum íslenskum textum og til að mynda eru ensku orðin um fyrirbærið gömul í ensku ritmáli".
Þó verður það að teljast undarlegt að um leið og vísindavefurinn viðurkennir hrævarelda sem eðlilegan bruna metangass, þá er þetta einnig tekið fram; "hrævareldar eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum en færast undan mönnum ef reynt er að nálgast þau". Það undarlega er að ef gengið er að metangasloga úr prímus, þá færist hann ekki undan. Það má því segja að vísindin komist að svipaðri niðurstöðu og þjóðtrúin gerði, þ.e. að hrævareldar geti leitt menn út í kviksyndi eða aðra villu vegar.
Í athyglisverðri grein Ólafs Hanssonar í Mánudagsblaðinu 5. október 1959 segir; "Oft eru hrævareldar settir í samband við haugaelda og þeir taldir loga yfir gröfum, þar sem gull er fólgið. Stundum loga þeir á leiðum, þó að ekkert gull eða fé sé þar. Þetta mun ekki vera eintóm hjátrú, það er talin staðreynd, að hrævareldar sjáist mjög oft í kirkjugörðum, og mun rotnun líkanna valda þeim með einhverjum hætti. Það er ekki að furða, þótt þetta fyrirbæri í reit hinna dauðu hafi komið margvíslegri hjátrú af stað. Sú skoðun er talsvert algeng, að eldarnir séu sálir framliðinna. Einna almennust er sú skoðun, að hér séu á ferðinni sálir sjálfsmorðingja, sem séu á sífelldu reiki og finni engan frið. Líka þekkist sú trú, að hér séu andar manna, sem hafi látizt af slysförum, og reiki æ síðan um í námunda við slysstaðinn. Sú trú, að slíkir andar séu á sveimi í námd við slysstaði er mjög algeng á Íslandi".
Gamla fjárborgin á Ósi hægra megin við þjóðveg 1, mýrin vinstra megin
Samt sem áður getur þetta varla verið skýringin á þeim hrævareldum sem getið er um að Jón hafi séð við fjárborgina á Ósi í Knútsbyl, þó svo mýrin sé nálæg, því varla hafa verið veðurskilyrði fyrir slíkan loga í því aftaka veðri sem talið er hafa farið yfir með fellibylsstyrk.
Á heimasíðu Veðurstofunnar segir frá hrævareldum af öðrum toga, þeim sem fylgja veðrabrigðum s.s. eldingarveðri. Þar er lýsing þriggja manneskja sem telja sig hafa upplifað hrævarelda á Eiríksjökli 20 ágúst 2011, þó svo engin hafi verið þar eldurinn. Þar segir m.a.; "Stundum er hrævareldum ruglað saman við mýraljós (will-o´-the-wisp á ensku), en þau gefa dauf ljós við bruna mýragass (metans). Áður gerðu menn sér stundum ekki grein fyrir að um ólík náttúrufyrirbæri væri að ræða, en mýraljós eru bruna-fyrirbæri á meðan hrævareldar eru raf-fyrirbæri". Frásögnin á Eiríksjökli segir af hagléli og réttum viðbrögðum við eldingahættu, þegar umhverfið er orðið það rafmagnað að hárin rísa. Þessi réttu viðbrögð stemma við þau ráð sem gefin voru í þjóðtrúnni, sem sagði að ekki mætti benda á eða berja hrævarloga því þá gætu þeir ráðist á menn og brennt og ef reynt væri að slökkva hrævareld af vopni dytti maður dauður niður.
Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar árið 1772 er lýsingu úr Kjósarsýslu þar sem segir: "Þrumur, eldingar og önnur óvenjuleg loftfyrirbæri eru sjaldgæf hér. Helst verður þeirra vart á vetrum. Þegar dimmviðri er með stormi og hríð á vetrum, verður vart leiftra í neðstu loftlögunum. Þau kalla menn snæljós. Eins konar Ignis fatuus, sem á íslenzku kallast hrævareldur og líkt og hangir utan á mönnum, er sjaldgæfur á þessum slóðum".
Líklegast er því að hræfareldarnir sem Jón Einarsson frá Ósi sá við fjárborgina í Knútsbyl hafi stafað af völdum rafmagnaðra veðurskilyrða, svipaðra og greint er frá á síðu Veðurstofunnar að fólkið á Eiríksjökli hafi upplifað sumarið 2011. Líklega hafi þetta því verið sú tegund hrævarelda sem getið er í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772, og sagt er þar að menn kalli snæljós. En greinilegt er að hrævareldar hafa verið fólki mun kunnuglegra fyrirbæri hér áður fyrr en þeir eru nú til dags. Og virðast vísindin ekki skýra til fulls þá tegund hrævarelda sem stundum voru kallaðir mýrarljós eða haugeldar.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 19.3.2017 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2017 | 18:53
Vandamálið er verkfræðin og veðráttan
Það er gott til þess að vita að verkfræðistofurnar eru farnar að gera sér mat úr myglu og vonandi á verkfræðin eftir að gangast þar við ábyrgð.
Það er margt til í máli Ríkharðs Kristjánssonar þó svo að full mikil einföldun sé að einskorða vandamálið við hinn "íslenska útvegg". Myglu má reyndar finna í flestum húsum enda væri rétt fyrir íbúana að forða sér út ef engin mygla lifði af í gerilsneyddu húsi, því þá væri eins víst að næst væri komið að þeim sjálfum.
En höfuð vandinn varðandi myglu er að ekki eru viðhafðar byggingaraðferðir sem hæfa íslenskri veðráttu, sem er eins og flestir þekkja umhleypingarsöm og vot. Því er rétt að hús hafi góða veðurkápu alveg eins og mannfólkið og það er rétt að betra er að einangra steinsteypta veggi að utan. Þetta hefur verið þekkt í áratugi þó svo hönnuðir og verkfræðingar hafi oft kosið að líta fram hjá þessum staðreyndum.
Síðan er rétt að geta þess að mygla hefur margfaldast sem vandamál eftir að farið var að nota pappaklætt gifs bæði við að klæða útveggi að innanverðu og í milliveggi. Þessir veggir eru oftar en ekki með tvöföldu gifsi og ef kemst raki í pappann á milli gifslaga þá verður þar mögnuð mygla sem er ósýnileg, en getur valdið fólki ama, jafnvel heilsutjóni án þess að orsökin verði sýnileg.
Rétt eins og með torfbæina, sem þjónuðu íslendingum í þúsund ár, þá leikur veðráttan og umgengni íbúanna aðalhlutverkið varðandi heilnæmi húsa. Torfbærinn gat enst vel í 50-100 ár inn til landsins norðan heiða á meðan vætan og umhleypingarnar við ströndina syðra gerðu það að verkum að endingin var styttri og myglan meiri.
Í nútímanum hefur verkfræðin síðan átt sinn þátt í myglu með svipuðum hætti og umhleypingasöm veðráttan, sem sjá má á sögu flatra þaka á Íslandi. Þau skjóta upp kollinum með vissu millibili, að því að virðist vegna þess eins að sigldum hönnuðum finnst fallegt eyðimörkinni, því ekki er góðri reynslu fyrir að fara af flötum þökum í íslenskri veðráttu.
Það má segja að Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrverandi menntamálaráðherra hafi hitt naglann á höfuðið varðandi íslenskar byggingaraðferðir þegar hann sagði; "þó svo Bakkabræður hafi stundað mögnuð heimskupör hefði þeim aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka".
![]() |
Vandamálið er hinn íslenski útveggur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2017 | 19:07
Knútsbylur
Það hefur verið vetrarveður núna síðustu dagana eftir einstaklega hlýjan og snjóléttan vetur. Meir að segja komst ég í þá aðstöðu að vera fastur í skafli á Vatnsskarði s.l. þriðjudag. Það hvessir hressilega á Vatnsskarði og hefur vindmælir vegagerðarinnar þar ósjaldan fokið, þannig að ekki er ólíklegt að þar hafi verið slegin vindmet.
Þó áður fyrr hafi ekki verið óvanalegt að leiðin til Borgarfjarðar-eystri væri lokuð vegna snjóa á þessum árstíma er nú svo komið að erlendir ferðamenn bruna í alla skafla á smábílunum og því er reynt að halda opnu flesta daga vikunnar. Enda leið ekki löng stund þar til að ég hafði félagskap ungs Japansks pars.
Alveg símasambandslaust var í skaflinum, sem betur fer kom eftir stutta stund vel bílandi innfæddur Borgfirðingur en ekki vildi betur til en að þegar hann ætlaði að snúa á veginum bakkaði hann ofaní ræsi, þannig að bílarnir voru þá orðnir þrír fastir tvist og bast í blindunni. Sá innfæddi vissi um blett um það bil 1 km neðar í fjallinu þar sem hægt var að ná símasambandi og fór þangað og hringdi í björgunarsveitina sem kom svo til að bjarga málum.
En ekki var nú meiningin að segja frá svona smá skafrenningi á fjallvegi heldur frá sjálfum Knútsbyl, um það mannskaðaveður las ég í blíðviðrinu í vetur, kannski ekki laust við að maður væri farin að sakna vetrarins sem nú virðist loksins kominn í venjulegan gír.
"Skaðaveðrið 7. janúar 1886 var kennt við almanaksnafn dagsins og kallað Knútsbylur. Veðrið gekk mest yfir Múlasýslur og Austur-Skaftafellssýslu. Það skall á snemma dags á milli miðmorguns og hádegis svo snöggt sem kólfi væri skotið. Víðast hvar var búið að reka fé til beitar, en stöku menn voru svo veðurglöggir eða höfðu þann veðurugg, að þeir ráku ekki fé frá húsi. Hvergi varð fé, sem út hafði verið látið náð í hús um daginn. Næsta dag var upprof en frosthelja. Náðist þá megin hluti fjárins hrakið og úr fönn dregið, en víðast fórst til dauðs fleira og færra. Sumstaðar hraktist fé í vötn og sjó. Þannig hrakti flesta sauðina í Hrafnsgerði í Lagarfljót og í Fjörðum sumstaðar rak fé undan veðrinu í sjó.
Mikill mannskaði og margskonar annar skaði varð í þessu veðri. Sex menn urðu úti, þrír á Fljótsdalshéraði, tveir í Reyðarfirði og einn í Breiðdal. Bátur fórst frá Nesi í Norðfirði með 4 mönnum og annar í Reyðarfirði með 5 mönnum norskum. Þrjár skútur rak á land í Seyðisfirði og brotnuðu tvær þeirra mikið. Þök rauf af húsum víða og mörg urðu fleiri smærri tjón. Mikið tjón á sauðfé varð í Knútsbyl í Austur-Skaftafellssýslu. Á þremur bæjum rak allt sauðfé í sjó og hross sumstaðar. Kirkjan fauk á Kálfafellstað og þök af húsum víða."
Þetta má lesa í Austurland III bind um bylinn sem kenndur er við Knút hertoga. Um þetta óveður hefur einnig verið skrifuð heil bók sem nefnist Knútsbylur og hefur Halldór Pálsson þar tekið saman frásagnir eftir fólki á Austurlandi sem mundi eða hafði heyrt talað um þetta veður. Þar segir að bylurinn hafi verið líkari fellibyl en aðrir byljir vegna mikils vindstriks. Lítillega hafði snjóað nóttina fyrir bylinn en logn var á undan honum, svo flestir settu út sauðfé til beitar, en þetta reyndist svikalogn því veðrið brast á í einni svipan með ægilegum vindstyrk snjókomu og frosti. Margar frásagnir greina frá því hve erfiðlega gekk að koma forystu fé úr húsum þennan morgunn og í sumum tilfellum mun veðurskyggni forustufjárins hafa komið í veg fyrir tjón. Eins er víða sagt frá veðurdyn sem heyrðist rétt á undan veðrinu þó svo lygnt væri og varð það einhverjum til bjargar.
Í Suðursveit var snjólaust þegar gekk í Knútsbyl en þar fauk m.a. kirkjan á Kálfafellstað, um eftirköstin segir: Eftir Knútsveðrið var jörð mjög illa farin. Allur jarðvegur var skafinn upp, og þar sem áður voru fallegir víðirunnar, blasti við svart flag. Víða var jarðvegurinn í fleiri ár að ná sér eftir þetta áfall.
Í Breiðdal segir Sigurður Jónson sem var unglingur að Ósi m.a. svo frá eftir að hann reyndi að komast úr fjárhúsi örstutta leið heim í bæ þegar veðrið brast á: ...uns ég kom að bæjarhorninu sem ég þurfti að beygja fyrir til þess að komast að bæjardyrunum. Þá hrakti stormurinn mig frá veggnum, því út með norðurhlið bæjarþorpsins stóð stormurinn, og ég rann undan vindinum niður hlaðbrekkuna. Líklega hefði ég reynt að skríða upp bæjarbrekkuna og heim í bæjardyrnar, sem voru á norðurvegg bæjarþorpsins, en hvort það hefði tekist, er óvíst, því að áður en til þess kæmi, að ég reyndi það, var tekið í mig og ég leiddur heim í bæjardyrnar. Þetta gerði Gunnar Jósepsson húsbóndinn á bænum.
Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hræfarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.
Það var farið að daga þegar lagt var af stað að heiman og út með sjónum til að leita föður míns og fjárins. Þeir mæta föður mínum, þar sem heitir Ósleiti, á réttri leið heim til bæjar, en stirður var hann þá til gangs,mest vegna þess að klakahella svo mikil var fyrir andliti hans, að hann sá varla nema upp í himininn. Hann var maður alskeggjaður, svo að í skegginu og andlitinu fraus hríðarkófið sökum líkamshitans. Fram eftir nóttu braut hann af andlitinu svellhúðina, svo hann sæi frá sér, en svo fór andlitið að sárna undan sífelldu nuddi með frosnum vettlingum, svo hann varð að hætta að hreinsa af andlitinu klakann, en öndun hans hélt þó opnum götum, að hann sá nokkuð upp fyrir sig. Er klakinn var þíddur af andlitinu, kom í ljós að hann var blóðrisa, einkum á enninu, nefinu og kinnbeinunum.
Við þetta má bæta að trúmennska Einars við Ósféð var svo mikils metin að Guðmundur húsbóndi á Ósi gaf honum bestu kindina sína eftir þetta veður enda lifði allt féð sem var úti við Kleifarrétt.
Í Mýnesi í Eiðaþinghá á Héraði bjó í Knútsbyl Ólafur Magnússon ásamt Guðmundi tengdasyni sínum. Hjá Ólafi var þá Einar sonur hans, rösklega tvítugur að aldri. Hann hirti fé á beitarhúsum austur frá Mýnesi, hafði látið féð út þennan morgun, var komin heim aftur og var að hjálpa föður sínum við að taka til nauthey í hlöðu, þegar hríðin skall eins og reiðarþruma á þekjuna. Þreif hann vettlinga og hljóp út í fárviðrið lítt búinn og hugðist bjarga fénu í hús, en kom eigi aftur. Þegar veður tók að lægja, svo komist var í húsin, voru húsin tóm. Fannst Einar daginn eftir, helfrosinn skammt frá túninu í Mýnesi. Það heita Vallnaklettar, þar sem hann fannst. Ólafur Sigurðsson vinnumaður Sigfúsar Oddsonar á Fljótsbakka, fannst frosinn í hel á holtunum út af Mýnesi , niður af Skagagili, hann var sagður 36 ára.
Þessi húsgangssaga er frá Ketilstöðum á Völlum: Sigurður hét vinnumaður Sigurðar bónda Hallgrímssonar. Hann var að reka sauðina í haga upp til fjalls, er í bylinn gekk. Hann kom sauðunum í Beinárgilið stutt frá Flatarhúsunum. Þetta voru 100 sauðir. Hann stóð hjá sauðunum þann dag og næstu nótt og lét þá ekki fenna. Ekki er vitað um klæðnað hans, en ókalin komst hann heim. Fjármaður Gunnars Pálssonar, er hirti féð á Grundinni, hafði meðferðis tvo poka úr togbandi. Er bylinn gerði, var hann á milli fjárhúsa og bæjar, fer hann þá í annan pokann, en setur hinn yfir höfuð sér, lagðist síðan niður og lét fenna yfir sig. Þannig bjargaðist hann ómeiddur frá þessum voða byl.
Úr dagbók Sölva Vigfússonar á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal: 7. Janúar 1886, norðan bráðófært veður, það allra hvassasta. Hann var bjartur fyrst um morgunninn, svo búið var að setja út féð í Hrafnsgerði, en veðrið kom á smalann, og hann missti féð úr höndum sér, og það hrakti í fljótið, en meðfram landi var krapi, sem það festist í, svo fraus að því um nóttina, og drapst 56 en 56 fannst hjarandi. 8. Janúar, norðan með kófi -14°C. Við vorum að bjarga því sem lifandi var af Hrafngerðis fénu, úr fljótinu og grafa það í fönn.
Frásögn Gísla Helgasonar í Skógargerði Fellum: Í Hrafnsgerði í Fellum voru sauðir heima á túni, og vildi smalinn reka þá allsnemma þennan morgun. Svartur forustusauður var í húsinu og fékkst ekki út. Hann hljóp kró úr kró. Þá vildi smalinn handsama sauðinn og draga út úr húsinu, en það tókst ekki, því að þá stökk Svartur upp í garðann og yfir hann; þó hann hefði aldrei verið garðakind. Varð úr þessu garðaleikur, sem sauðamaður tapaði. Þá tók hann það ráð að leita liðveislu hjá fjósamanni. Tókst þeim í félagi að handsama Svart og draga hann út. Síðan rak sauðamaður hópinn yfir Hrafngerðisána, og segja þó sumir, að þá væri veðrið að skella yfir, er hann hélt heimleiðis. Ekki þarf að orðlengja um það, að þessi hjörð týndist öll í Lagarfljótið, sem þá var að leggja, en engri skepnu fært.
Vissi ekki Svartur lengra fram en maðurinn?
Landsins-saga | Breytt 7.2.2023 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2017 | 19:01
Jarðálfarnir aftur komnir á kreik
Nú eru þeir sprottnir fram enn og aftur gömlu Geysir green energy heimsmetshafarnir í útrás og boða hvorki meira né minna en byltingu á heimsvísu.
Þeir eru ekki af baki dottnir jarðálfarnir sem véluðu hitaveituholurnar af almenningi eftir að bæjarstjórnirnar höfðu verið fábjánavæddar.
Hvað jarðálfarnir ætla svo að gera við heimsmetið er hulin ráðgata. Nema kannski að nýju viðreisn sé ætlað að veita ívilnanir fyrir hönd skattgreiðenda til að reisa fleiri kísilver í þéttbýli.
En það vefst nú varla fyrir Bjarna ice-hot, Þorgerði kúlu, Bensa frænda og sakleysingjanum henni Þórdísi að finna út úr því, ásamt hinum álfunum á alþingi.
![]() |
Gæti leitt til byltingar á heimsvísu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2017 | 23:26
Grasa-grautur
Í Landnámu er sagt frá Atla graut Þiðrandasyni sem nam austurströnd Lagarfljóts þ.e. frá Atlavík út undir Vallanes. Viðurnefnið grautur segir þjóðsagan að Atli hafi fengið vegna fjallagrasa sem hann sauð í graut eftir að hann hafði verið dæmdur skógarmaður, þ.e. 20 ára útlegð frá Íslandi, réttdræpur ella. Atli vildi ekki yfirgefa landnám sitt og leyndist í Hallormstaðaskógi og lifði á grösum og því sem bóndadóttirin á Hallormstað gaukaði að honum. Þjóðsögurnar greina víða frá því að íslenskir útilegumenn hafi lifað á fjallagösum. Það þarf reyndar ekki þjóðsögur til, því enn í dag eru margir sem tína fjallagrös sér til lífsnauðsynlegrar heilsubótar í seyðið eða grautinn.
Alla okkar búskapartíð höfum við Matthildur mín haft það fyrir sið að fara í berjamó, fyrst barnanna okkar vegna og núna í seinni tíð vegna barnsins í okkur sjálfum. Aðallega er tínt upp í sig og berin étin dag hvern á meðan berjatíminn er og getur hann staðið hátt í tvo mánuði. Ef vel viðrar fara því margir eftirmiðdagarnir út um þúfur ár hvert. Þau bláber sem ekki er torgað á berjatínslutímanum fara svo í frost og eru höfð út á hafragrautinn á morgnanna. Frosnu berin hafa enst stöku sinnum fram yfir áramót og er eftir það sárt saknað fram á næsta haust.
Því fórum við fyrir nokkru síðan að huga að fleiru sem hægt væri að hafa út úr því að fara út um þúfur sem mætti nota í grautinn. Fljótlega lá svarið ljóst fyrir og hafði legið fyrir fótum okkar alla tíð, en það voru fjallgrös. Fjallagrösin má auk þess tína allt árið og hafa þau núna síðustu árin gefið okkur ástæðu til að fara ýmsar fjallabaksleiðir þegar vel viðrar, því hvað er betra fyrir sálina en tína fjallgrös við svanasöng og sól í heiði. Nú er svo komið að þúfna gangurinn er orðinn að fíkn og móinn maulaður við morgunnverðarborðið svo til allt árið því byrgðir af frosnum bláberjum endast núorðið nánast allan veturinn og fjallagrösin má nálgast um leið og snjóa leysir.
Morgunngrauturinn hefur því þróast í tímans rás úr því að vera venjulegur hafragrautur með smá múslí og rúsínum saman við, í magnaðan grasa-graut með bláberjum og öðru gúmmelaði. Uppistaðan er auðvitað áfram gamli góði hafragrauturinn með ristuðum sesamfræja og hessleyhnetu múslí, en soðin með lúka af fjallgrösum og saltið í grautinn Himalaya. Út á þetta er svo sáldrað hampfræi, grófu kókosmjöli og hnetukurli. Auk þess að vera bragðgóður þá er þessi grasagrautur einstaklega seðjandi, maður finnur ekki til svengdar næstu 5-6 klukkutímana. En það var ekki fyrr en ég fór að kanna það á gúugúl að ég komst að því sem mig grunaði, að þessi grautur er meinhollur.
Rétt eins og á landnámsdögum Graut-Atla þá er á fjallagrösum nánast hægt að lifa enn þann dag í dag. Árið 1972 safnaði þjóðminjasafnið upplýsingum um notkun íslendinga á fjallagrösum í gegnum tíðina. Þau má nota til matar á margvíslegan hátt, auk þess sem þau hafa lækningarmátt og styrkja ónæmiskerfið. Í Læknablaðinu 4. tbl. 2000 er fróðleg grein um fjallagrös eftir Hallgerði Gísladóttur. Hún segir m.a.: "Íslendingar notuðu fjallagrös gríðarmikið á fyrri öldum til að drýgja naumt kornmeti í brauð og grauta. Auk þess voru þau mikill læknisdómur,,," og eru þau þannig notuð enn í dag, hér á landi og víðar. Sem dæmi þá hafa Þýsk heilbrigðisyfirvöld samþykkt notkun fjallagrasa til að meðhöndla slímhúðarertingu í munni og hálsi, eins eru þau víða seld dýrum dómum í apótekum og heilsubúðum.
Nútímavísindi segja ýmislegt um gagnsemi fjallagrasa t.d. gegn hósta, kvefi, öndunarfærakvillum og magaólgu. Uppistaðan í fjallagrösum - 40-50 % - eru slímkenndar fjölsykrur. Slímið þenst út og verður að hlaupkenndum massa þegar það kemst í snertingu við vatn og sefar þannig og verndar viðkvæmar slímhimnur sem verða aumar og bólgnar vegna kvefs, hósta eða þrálátrar barkabólgu. Slímsykrurnar meltast í þörmum og það útskýrir hvers vegna eðlisávísun fólks rak það til þess að leggja sér fjallagrös til munns til að sefa og fylla magann þegar það hafði ekkert annað til að borða.
Varðandi Bláber hefur það lengi verið þekkt að þau eru full af andoxunarefnum sem vinna á móti hrörnun líkamans og einnig hefur verið sýnt fram á með nútíma rannsóknum að bláber geta fyrirbyggt ristilkrabbamein. Bláber eru líka sögð holl hjartanu þar sem þau vinna á slæma kólesterólinu og þau gagnast einnig við þvagfærasýkingum. Bláberin eru einstaklega holl meltingunni þar sem þau bæði verka á niðurgang og harðlífi. Þau minnka einnig bólgur í meltingarvegi og vinna gegn bakteríusýkingum.
Salt er ekki bara salt því gott salt hefur fjölda steinefna sem eru holl líkamanum, en venjulegt borðsalt er í raun iðnaðarframleiðsla því sem næst gjörsneytt steinefnum. Himalaya salt hefur fjölmörg steinefni umfram hefðbundið borðsalt, sem hefur oft á tíðum verið hreinsað af steinefnum um leið og mengunarefni hafa verið aðskilin við vinnslu. Himalaya salt er margra milljóna ára gamlir bergkristallar, því hreint og ósnortið af nútíma mengun. Það inniheldur 84 steinefni sem eru líkamanum nauðsynleg. Himalayasaltið gengur undir nafninu "hvíta gullið" fyrir mannslíkamann.
Hafrar eru uppistaðan í grautnum, og um þá þarf ekki að hafa mörg orð, svo vel þekkja flestir til hafragautsins sem helst hefur haft það óorð á sér að vera tengdur við nánasarhátt og kenjar. Um hollustu hafra hefur aftur á móti enginn þurft að efast. Auk þess að vera lágir í kaloríum innhalda þeir mikið af trefjum og prótíni, eitthvað sem fer fram úr villtustu vonum þeirra sem versla inn dýrindis fæðubótarefni.
Ef dægurflugan hefur farið með rétt mál um árið þegar hún suðaði að það væri "þjóðlegasti siður að koma útsæðinu niður" þá má segja það að svona grautargerð sé hreinasta afdalamennska í sinni tærustu mynd.
Dægurmál | Breytt 29.1.2017 kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2017 | 17:35
Missing Links
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2017 | 19:38
Lygin sem við lifum
Undanfarið hef ég verið að lesa bókina "Leitin af svarta víkingnum". Þetta er bók þar sem Bergsveinn Birgisson rithöfundur og norrænu fræðingur segir frá því hvernig hann fór að því að skrifa sögu Geirmundar heljarskinns. Eins leyndardómsfyllsta landnámsmanns Íslandssögunnar. Geirmundur var sagður dökkur og ljótur, með mongólska andlitsdrætti af konunglegum uppruna, "göfugastur landnámsmanna" samkvæmt Landnámu, og á að hafa riðið um sveitir Íslands með áttatíu vígamenn, átt mörg stórbú þar sem hann hélt mörg hundruð þræla. Lítið meira er til um hann í fornum heimildum, en Bergsveinn grófst fyrir eftir krókaleiðum um hver maðurinn var og ritaði sögu hans fyrir nokkrum árum sem kom upphaflega út 2013 á norsku undir heitinu "Den svarte viking", en árið 2015 á íslensku sem "Saga Geirmundar heljaskinns".
Án þess að ég ætli að tíunda frekar hér hvers Bergsveinn varð áskynja um Geirmund, þá má segja í stuttu máli að þrælaveldi Geirmundar við norðanverðan Breiðafjörð, á Vestfjörðum og á Hornströndum var tilkomið vegna rostunga. En tó úr rostungaskinni og lýsið þótti í þá tíð nauðsynleg heimsmarkaðsvara til gerðar og viðhalds víkingaskipa. En það sem mér þótti ekki minna athyglivert var hvernig höfundurinn lýsti þrælahaldi á upphafstímum Íslandsbyggðar og hvernig það má sjá óslitin þráð allt til okkar daga. Það má segja að þrælahaldið hafi gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina s.s. mansal, vistarband, verðtrygging, mismunandi eftir því hvort þrælahöfðinginn sá um fæði og húsnæði í skiptum fyrir vinnuframlag.
Bergsveinn segist vera kominn í 30. lið af Geirmundi, reyndar setti ég sjálfan mig inní Íslendingabók og komst að því sama. En það sem ekki síður er merkilegt í bók Bergsveins er það sem hann segir frá sinni fjölskyldu sem bjó í landnámi Geirmundar s.s. af búsetu afa síns og ömmu í Hrappsey á Breiðafirði.
"Hér bjó móðurfjölskylda mín frá 1940-1945; foreldrar móður minnar, Magnús og Aðalheiður með börnin sín tíu; þau urðu þrettán í allt. Fjölskyldan hefur einatt verið fámál um árin í Hrappsey og smásaman hefur mér orðið ljóst hversvegna. Einar einn móðurbræðra minna, sagði síðar ef ekki hefði verið fyrir byssu afa míns, hefðu þau haft lítið sem ekkert að borða. Leigan fyrir að búa í Hrappsey var nefnilega 24 kg af hreinsuðum æðardún sem var nákvæmlega það sem eyjan gaf af sér. Á tilteknum tíma árlega átti að afhenda dúninn Magnúsi á Staðarfelli, en hann var forsvarsmaður Háskóla Íslands, sem þá var orðinn eigandi þessa eggvers. Eitt árið náðu þau ekki að safna 24 kílóum. Ekki fóru menn í mál við þau af þessum sökum, en af heimildum að dæma lá þeim við refsingu. Afi fór margsinnis í land og reyndi að semja um að fá leiguna lækkaða en allt kom fyrir ekki.,,,Afi og amma voru því tekjulaus á meðan þau bjuggu í Hrappsey. Allt vinnuframlag þeirra gekk upp í leigukostnað."
Í bók Bergsveins kemur fram að á dögum Geirmundar heljarskinns voru dæmi þess að þrælar við Breiðafjörð hefðu keypt sér lausn með þriggja ára launum af vinnu sem þeim til féll samhliða þrældómnum. "Afi Magnús hefði hefði hinsvegar aldrei náð að kaupa sér lausn frá Hrappsey ef hann hefði verið þræll þar".
Hvers vegna erum við í fangelsi þegar dyrnar standa galopnar?
Flestir kannast við það að þegar þeir eru í fríi þá líður tíminn hratt og eyðslan miðar að því að peningarnir endist út fríið, svo framarlega sem "draumaferð í krúser" um karabíska hafið hefur ekki verið valin. Oftast er tilhlökkunin fyrir næsta fríi og hugsanir skjóta upp kollinum á fyrstu vinnudögum eftir frí "þarf þetta að vera svona". Nú á dögum þegar það er til of mikið af öllu má segja að það sem helsta vantar sé lítið.
Það eru nokkur ár síðan að ég neyddist til að fara víking til Noregs, í þriggja ára útlegð, þar sem hver einasta króna útilegunnar gekk upp í skuld við bankann, "heljarskinns" okkar tíma. Þessi skuld var ekki beint tilkomin vegna húsnæðis heldur vegna tímabundinnar persónulegrar ábyrgðar í atvinnurekstri á byggingastarfsemi, starfsemi sem hvarf í hruninu. Í Noregi eignaðist ég samt annað verðmætara en peningana sem bankinn fékk, en það var skilningurinn á því í hverju verðmæti eru fólgin, eða á frelsinu með því að ráða eigin tíma.
Þá staðfestist sú vissa að hægt væri að lifa ágætu lífi af mun minni vinnu og því sem nemur lægri tekjum, meir að segja heima á Íslandi. En umhverfið er yfirleitt þannig að maður vinnur 40 tíma vinnuviku eða hefur ekki vinnu. Atvinnurekendur, viðskiptavinir og vinnufélagar eru venjulega í þéttsetinni 40 tíma-plús vinnuviku rútínu, svo það er varla raunhæft að biðja um að hafa frið eftir hádegi, jafnvel þó hægt væri að sannfæra sjálfan sig og vinnuveitandann.
Fyrir rúmum tveimur árum hafði ég fært þetta oftar en einu sinni í tal við vinnufélagana en fengið dræmar undirtektir um að þetta gengi upp í samvinnu við aðra. Svo gerðist það um svipað leiti, að heilsan bilaði og ég var tilneyddur til að slá af og virtist sem það myndi verða varanlega. En vinnuveitandinn bauð mér að vera áfram á þann hátt sem ég vildi og gæti. Í ljós kom að heilsunni hæfir ca. 4 tíma vinnudagur. Ég hef því fengið tækifærið á því að sannreyna kenninguna.
Hefðbundinn átta tíma vinnudag má rekja til iðnbyltingarinnar í Bretlandi á 19. öld. En tækni og aðferðir hafa þróast þannig að starfsmenn í öllum atvinnugreinum eru færir um að framleiða meira en þörf er fyrir á styttri tíma. Þetta hefur vissulega leitt til til styttri vinnudaga en var á tímum iðnbyltingarinnar þegar þeir voru jafnvel 14-16 tímar, en samt ekki stillt vinnutíma fyrir þarfir einstaklingsins.
Það er vegna þess að 8 klst vinnudagar eru arðbærir fyrir hagkerfið, ekki vegna þess að afköst í átta tíma séu endilega hagkvæmust þannig (meðaltals skrifstofumaðurinn fær minna en 3 tíma verkefni á 8 tíma vinnudegi og því fer mikið af vinnudegi hans í að láta tímann líða). Ef Þú hefur heyrt um Parkinsons lögmálið þá veistu að; því meiri tími sem hefur verið gefinn til að koma einhverju í verk, því meiri tíma mun það taka. Það er ótrúlegt hverju er hægt að koma í verk á tuttugu mínútum ef aðeins tuttugu mínútur er í boði. En ef þú hefur heilt síðdegi, myndi það líklega taka það sem því nemur. Þetta sama lögmál var útskýrt í stuttu máli á þá leið að hægt væri að setja á stofn 500 manna vinnustað án þess að það þyrfti nokkhverntíma að leita að verkefnum útfyrir hann, vinnustaðurinn yrði sjálfbær hvað verkefni varðaði.
Vegna þess hvað það gerir mikið fyrir kaupgetu almennings er talið ásættanlegt að stór hluti vinnustaða tæknisamfélagsins inni af hendi vinnu sem engin hefur þörf fyrir. Til þess að hámarka eyðslu almennings þarf frjáls tími jafnframt að vera af passlega skornum skammti, sem geri það að verkum að fólk borgi meira fyrir ímynduð þægindi og hafi minni tíma til að komast upp á lag með að skipuleggja eigin tíma. Þetta heldur m.a. fólki óvirku utan vinnu við að horfa á sjónvarpið, og auglýsingar af því sem er sagt að því vanti.
Við erum föst í menningu sem hefur verið hönnuð af færustu markaðsfræðingum í að gera okkur þreytt, eftirlátsöm af áreiti, tilbúin til að borga fyrir þægindi og skemmtun, og síðast en ekki síst fyrir það sem hefur ekki það sem þarf til að uppfylla væntingar okkar. Þannig höldum við áfram að vilja það sem við gerum til að geta keypt það sem okkur vantar ekki, vegna þess að okkur finnst eitthvað skorta.
Vestræn hagkerfi neyslunnar hafa þannig verið byggð upp á útspekúleraðan hátt til að búa til fíkn og fullnæga henni með óþarfa eyðslu. Við eyðum til að hressa okkur upp, til að verðlauna okkur, til að fagna, að fresta vandamálum, að gera okkur meiri í augum náungans og síðast en ekki síst til að draga úr leiðindum. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það myndi leika hagvöxtinn ef við hættum að kaupa dót sem okkur vantar ekki og hefur ekkert raunverulegt gildi í lífi okkar til lengri tíma. Það væri hægt að stytta vinnudaginn, minka við sig húsnæðið (þar með húsnæðislánin) og gera sorphirðuna verkefnalausa.
Vandamál, svo sem offita, sjúkdómar, mengun og spilling, eru tilkomin vegna kostnaðarirns við að halda uppi hagvexti. Heilbrigðu, hamingjusömu fólki finnst því ekki þurfa svo mikið af því sem það hefur ekki, og það þýðir að það kaupir minna af rusli og þarf minn af afþreyingu sem það finnur ekki sjálft.
Vinnumenningin er hagvaxtarins öflugasta tól, þar sem launin gera það kleyft að kaupa eitthvað. Flest okkar fara á þann hátt með peninga að því meir sem er þénað því meiru er eytt. Ég er ekki að halda því fram að það verði að forðast vinnu og fara þess í stað út um þúfur í berjamó. En það er hverjum og einum holt að gera sér grein fyrir á hverju hinn heilagi hagvöxtur þrífst og hvort hann sé sá leiðtogi sem við fylgjum í þessum heimi. Það hefur verið lögð í það ómæld vinna að hanna lífstíl sem byggir á því að kaupa það sem vantar ekki fyrir peninga sem ekki verða til fyrr en þú hefur látið frelsi þitt í skiptum, jafnvel ævilangt.
Þrælaveldi Geirmundar heljarskinns leið undir lok þegar rostungum hafði verið gjöreytt úr landnáminu, þá fóru sögur af þrælum sem teknir voru fyrir suðaþjófnað. Fer eins fyrir þrælum hagvaxtarins, missa þeir máltíðir þrælahöfðingjans þegar kemur að því að peningar eru allt?
Dægurmál | Breytt 17.3.2017 kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)