24.7.2017 | 21:24
Himnaríki eða helvíti sjálfstæðs fólks
Allt fram á nítjándu öld þótti íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur væri furðu ljótur, heldur þótti Mývatsveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss. Varla eru eftir hafandi núna þær samlíkíngar sem þjóðleg bílífa okkar, þjóðsögur Jóns Árnasonar, velja því. Rómantíkin þýska gaf okkur fjöllin og gerði þau okkur kær og kendi Jónas Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og unna þeim í ljóði; og eftir hann kom Steingrímur og kvað Ég elska yður þér Íslands fjöll; og hefur sá skáldaskóli auðsýnt þeim tignun fullkomna fram á þennan dag. Á okkar öld hefur það þótt hæfa kaupstaðarfólki, sem var eitthvað að manni, að eignast vángamyndir af eftirlætisfjöllum sínum að hengja upp yfir sóffanum og hafa slíkir eftirlætis gripir verið nefndir sóffastykki að dönskum sið. Fólkið horfði svo lengi á þessi landslög uppá veggjum hjá sér að marga fór að lánga þángað. Svona mynd veitti áhorfana í rauninni sömu lífsreynnslu og horfa út um glugga uppí sveit.
Þennan texta má finna í bókinni "Reginfjöll að haustnóttum" eftir Kjartan Júlíusson frá Skáldastöðum efri, og er í formála bókarinnar, sem Nóbelskáldið skrifaði. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér framan af ævi og fyrri alda íslendingum, að hafa ekki þótt mikið til fegurðar fjallana koma frekar en annarra faratálma.
Á seinni árum hefur komist í tísku að kalla stóran hluta heiða, fjalla og óbyggða Austurlands, víðernin norðan Vatnajökuls. Hluti þessara víðerna er svæði sem oft er kallað Jökuldalsheiðin og er jafnvel talið að Nóbelskáldið hafi sótt þangað efniviðinn í sína þekktustu bók Sjálfstætt fólk. Þar hafi Bjartur í Sumarhúsum háð sína sjálfstæðisbaráttu.
Það má segja að það hafi ekki verið fyrr en í fyrrasumar að ég fór að gefa Jökuldalsheiðinni gaum þó svo að hún hafi allt mitt líf verið í næsta nágrenni og ég hafi farið hana þvera oftar en tölu verður á komið, þó svo að ég hafi ekki fyrr en fyrir nokkrum árum áttað mig á helgi hennar. En eftir að hún fangaði athygli mína má segja að hún hafi haft hana óskipta eins og Hjaltastaðaþingháin hefur fengið að finna fyrir síðustu árin.
Sænautasel stendur við suðurenda Sænautavatns
Í síðustu viku keyrði ég, ásamt Matthildi minni og Helga frænda mínum sem var í Íslandsheimsókn frá Ástralíu, heiðina þvera og endilanga. Sú leið lá frá Kárahnjúkum út á miðheiðina við Sænautavatn fyrsta daginn, þar sem drukkið var kaffi og kakó ásamt lummum í rafmagnslausu torfbænum í Sænautaseli.
Næsta dag var farið í Vopnafjörð og upp á heiðina í Möðrudal og gamla þjóðveginn þaðan yfir hana þvera austur með viðkomu á Grjótgarðahálsi í Skessugarðinum. Um þetta stórmerkilega náttúrufyrirbrigði má fræðast á Vísindavefnum. Einnig er þjóðsaga í safni Sigfúsar Sigfússonar, sem ekki er síður sennileg, sem greinir frá því að þarna sé um fornan landamerkjagarð að ræða sem tvær skessusystur gerðu í illindum sín á milli.
Á Grjótgarðahálsi, norðan við Skessugarðinn
Núna á sunnudaginn hófum við svo þriðja heiðar daginn í morgunnkaffi og lummum í Sænautaseli. Þennan dag þræddum við slóðana meðfram vötnunum suður heiðina í sólskini og 24°C hita. Fórum svo vestur yfir í Möðrudal fyrir sunnan Þríhyrningafjallgarðinn og þaðan út á gamla þjóðveg eitt norður í Möðrudal, ævintýralega hrjóstruga leið.
Í þessum sunnudagsbíltúr heimsóttum við þau heiðarbýli sem við vegslóðana voru. En alls urðu heiðarbýlin 16 sem byggðust af sjálfstæðu fólki um og miðja 19. öldina. Um þessa heiðarbyggð í meira en 500 m hæð má lesa í I bindi Austurland safn austfirskra fræða. Þar segir Halldór Stefánsson þetta um tilurð þessarar heiðarbyggðar. Bygging þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri. Á þessum sunnudegi náðum við að heimsækja 5 býlanna.
Halldór Laxness gerði kröpp kjör þessara heiðarbúa heimsfræg í bókinni Sjálfstætt fólk. Það er erfitt að ímynda sér annað á góðviðrisdögum sumarsins en að heiðarlífið hafi verið himnaríki á jörð. Allt við höndina, mokveiði silungs í bláum vötnunum, gæsavarp í mýrunum, hreindýr, túnræktun óþörf því laufengi og mýrar eru grasmikil og búsmalinn á beit heima við bæ. Þó svo veturinn væri harður þá komið sumarið yfirleitt eins og hendi væri veifað.
Í Skessugarðinum
En það gat líka verið hart að búa á heiðinni af fleiri orsökum en Nóbelsskáldið tilgreindi. Í byrjun árs 1875 hófst eldgos í Dyngjufjöllum. Á páskadag hófust gríðarlegar sprengingar í Öskju, sem sendu vikurmökk út yfir Mið-Austurland. Vilborg Kjerúlf, sem þá var átta ára gömul stúlka á Kleif í Fljótsdal, lýsir morgni þessa páskadags svo í Tímanum 1961.
Mamma vaknaði um morguninn áður en fólk fór að klæða sig, og sá eldglæringarnar, sem komu hvað eftir annað. Það var hlýtt og gott veður og féð látið vera úti um morgunninn, en það tolldi ekki við og rásaði fram og aftur. Það fann á sér gosið. Klukkan 10 kom það. Það voru nú meiri ósköpin þegar það dundi yfir. Myrkrið varð alveg biksvart, og maður sá ekki handa sinna skil. Það var alveg voðalegt þegar þrumurnar riðu yfir og hávaðin óskaplegur. Það glumdi svo mikið í hamrabeltinu fyrir ofan bæinn. Svo lýstu eldingarnar upp bæinn þegar dynkirnir riðu yfir. Það var eins og snjóbyljir kæmu yfir þegar askan dundi á húsinu. Já það voru nú meiri ósköpin.
Kleif í Fljótsdal er í rúmlega 70 km fjarlægð frá Öskju. Um það hvernig umhorfs var eftir að sprengingunum lauk, segir Vilborg þetta; askan lá yfir öllu, og ég man að ég sópaði henni saman með höndunum og lék mér að henni, og hún var glóðvolg í höndunum á mér. Mér fannst þetta vera hnoss og hafði gaman að leika mér að henni. Hún var svona í ökkla í dældunum. Það var svo einkennilegt, að þykkasti mökkurinn fór aðallega út Jökuldalinn, og lenti meira þar en hjá okkur.
Tóftir Heiðarsels við suðurenda Ánavatns
Öskulagið var víða 20 cm á Jökuldalnum og heiðinni, enda lagðist byggð því sem næst af um tíma í heiðinni, og bar ekki sitt barr eftir Öskjugosið. Mikið af heiðafólkinu flutti til Ameríku og síðasti bærinn Heiðarsel fór í eyði 1946. Það var undir lok byggðarinnar sem Halldór Laxness fór um heiðina.
Í tímaritinu Glettingi 11. árg. 1.tbl. segir Hallveig Guðjónsdóttir Dratthalastöðum á úthéraði m.a. frá kynnum af sínum nágrönnunum í Sænautaseli en hún er fædd í Heiðarseli; Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var.
En nú er svo komið fyrir mér eins Höllu hans Eyvindar, að mig dregur þrá. En þau Eyvindur og Halla dvöldu lengi vel á öræfunum suður af heiðinni og austur af Öskju, og um þessa þrá hafði Nóbelsskáldið þetta að segja í formála bókarinnar Reginfjöll að haustnóttum;
Reynslan er sambærileg við það sem þeim manni verður, sem svo leingi hefur skoðað mynd af Parísarborg að hann stenst ekki leingur mátið og fer þángað. Þegar hann kemur heim til sín aftur veit hann ekki fyr til en Parísarborg er orðin miðpúnktur í lífi hans. Hugur hans heldur áfram að snúast í tilhlökkun til endurfunda við þessa borg með undrum sínum og uppákomum, stórum og smáum furðum, og smáhlutum síst lítifjörlegri en þeir stóru; ekkert í heiminum jafnast á við að hafa fundið þessa borg. Hversu marga landa höfum við ekki þekt sem hafa nákvæmlega af þessari reynslu að segja um París, og margir skrifað um það í bókum hvernig þeir lifðu í stöðugri heimþrá þángað, jafnvel eftir að þeir eru komnir að fótum fram. Sá sem skilur þetta skilur sæludali þjóðsögunnar; og hann skilur líka útilegukonuna Höllu sem sat farlama á leiði í kirkjugarðinum á Stað í Grunnavík, og tautaði: "fagurt er á fjöllum núna".
Lautarferð á laufengi í heiðanna ró
Ferðalög | Breytt 21.1.2018 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2017 | 19:53
Fjallið og Múahameð
Þegar fjallið kemur ekki til Múhameðs má segja sem svo að Múhameð verði að fara til fjallsins. Eitthvað á þennan veg hefur sjálfsagt margur landinn hugsað þegar utanlandsferðin í sólina hefur verið versluð þetta sumarið. Þó svo sumarið sem af er hafi verið með betri sumrum hvað gróanda jarðar varðar og langt frá því að vera með meiriháttar úrkomusumrum, hvað þá kalt, þá hefur sólina vantað. Og þegar gengi krónunnar er sterkt þá bíður landinn ekki eftir sólinni að sumarlagi heldur fer þangað sem hún skín.
Það er fjall hérna rétt innan við hús, sem í skyggni gærdagsins var þrjóskara en fjallið sem kom til Múhameðs, þannig að við hjónakornin ákváðum að fara til fjallsins. Fjallið, sem er hæsta fjall landsins utan jökla og trúað var fram eftir öldum að væri hæsta fjall Íslands. Þetta fjall blasir við úr stofuglugganum flesta daga en í gær morgunn voru skúrir og þokubólstrar á víð og dreif sem skyggðu sýn á Snæfellið.
Það var því ekki um annað að ræða en láta sig hafa það að panta sólarlandaferð í 16 stiga hita og skúrasömu blíðviðri, eða leggja upp í óvissuferð til fjallsins og sjá hvernig viðraði þar um slóðir. Síðan Kárahnjúkavirkjun varð að veruleika er auðvelt að skjótast inn að Snæfelli, ferðlag sem tók jafnvel einhverja daga fyrir nokkrum árum tekur nú fáar klukkustundir. Og þó svo að ekki sé hægt að hringkeyra Snæfellið þá er hægt að fara því sem næst inn að rótum Vatnajökuls bæði að austan- og vestanverðu um útilegumannaslóðir þjóðsagnanna.
Við Laugafell, horft með austanverðu Snæfelli inn að Eyjabakkajökli
Við byrjuðum á því að fari inn með því að austan í sólskini og sunnan blæ, þó svo hitastigið væri ekki nema 12 14 gráður þá mátti vel búast við meiru þegar liði á daginn enda enn bara miður morgunn. Þarna er hægt að keyra á malbikuðum vegum Landsvirkjunar langleiðina inná Eyjabakka, þ.e.a.s. að uppistöðulónum Ufsaveitu. Þarna er með góðum vilja hægt að hæla Landsvirkjun fyrir fleira en veginn, því þar hefur nokkurn veginn tekist varðveitt sýnishorn af fyrrum Vatnajökulsbláa lit Lagarfljóts í lónunum neðan við Eyjabakkana sem náttúrverndarfólki tókst að fá þyrmt í stærstu framkvæmd íslandssögunnar.
Þegar við fórum þarna um kom lítil saga upp í hugann sem ég rakst óvænt á í bókinni "Syndir feðranna" og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur þarna í nágreninu, nánar tiltekið við Hornbrynju. Dýjakot, sem ég minnist ekki að hafa heyrt getið um, gæti hafa staðið á þessum slóðum miðað við staðarlýsingar í sögunni, eða rétt austan við Laugarfell. Það er reyndar ýmislegt í sögunni sem passar ekki alveg við þær hugmyndir sem sagnfræðin hefur komið inn hjá manni í gegnum tíðina.
Þessir atburðirnir er sagðir gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 1787. Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í sögubókum.
Norður af Ufsaveitu, þar sem Dýjakot gæti hafa staðið. Laugarfell ber hæðst vinstra megin
En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Hann fer sunnan við Hornbrynju niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.
Í sem stystu máli lendir hann í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft. Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum og enn pakkar Þórður honum saman.
Þórður á að hafa farið sömu leið heim, um þriggja daga ferðalag. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot. Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í göngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju í, illa farið og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu.
Vestan við Snæfell á bökkum Hálslóns, fremri Kárahnjúkur fyrir miðri mynd
Eftir að hafa ferðast um í kyrrðinni austan við Snæfellið, þar sem einungis urðu tvenn þýsk hjón á vegi okkar fórum við vestur fyrir fjallið á hin margrómuðu Vesturöræfi. þar sem hreindýraskyttur og gangnamenn einir kunnu áður fyrr að greina frá undrum Svörtugljúfra, Kringilsárrana, Töfrafoss o.fl., sem nú er á botni Hálslóns. Á leiðinni norðan við Snæfell tókum við ungt par frá Frakklandi uppí, en þau voru á leið í Kárahnjúka og svo þaðan vestur í Öskju, með engan farangur, en full eftirvæntingar og bjartsýni. Þau höfðu verið við vinnu á Héraði frá því í maí og ætluðu að nota tímann þar til í September til gönguferða um hálendið norðan Vatnajökuls.
Sauðfé, sem lengi var talið mesti skaðvaldur íslenskrar náttúru, á fyrrum Vesturöræfum nú uppgræddum bökkum Hálslóns. Snæfell í baksýn
Við keyrðum svo vestan við Snæfellið inn með Hálslóni Kárahnúkastíflu eins langt og við komumst á vegi Landsvirkjunar. Þarna var allt annað skyggni en í tæra fjallaloftinu austan við Snæfell því það rauk af leirum Hálslóns í suðvestan golunni og byrgði sýn. Í suðvestan átt getur það verið fleira en þoka, ský og skúrir sem byrgja útsýnið á Snæfellið úr stofuglugganum heima. Það eru nefnilega líka dagar sem fokið af leirunum kemur í veg fyrir skyggni, jökulryk sem hefur sama lit og Lagarfljótið hefur núorðið.
En ekki er víst að mögulegt hefði verið að skoða stóran hluta víðernanna norðan Vatnajökuls á dagsstund án afleiðinga Kárahnjúka.
Við Kárahnjúkastíflu á góðviðrisdegi, Snæfell í fjarska hægra megin
Laugafellsskáli, rétt austan við Snæfell
Horft í áttina að Hálslóni og Vesturöræfum úr lofti í suðvestan golu, Snæfell í baksýn
Ferðalög | Breytt 21.1.2018 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2017 | 10:48
Breyttur lífstíll
Þeir Kjartan og Wallevik koma inn á það að ýmsar mismunandi ástæður geti verið fyrir myglu en hvers vegna hún varð af faraldri á Íslandi er þeim ráðgáta.
Vinnufélagi minn sem hefur unnið við húsbyggingar og viðhald ævina alla viðraði þá hugmynd, við litla hrifningu viðstaddra, að mygla hefði ekki verið vandamál í húsum fyrr en hætt var að reykja innandyra. Það skildi ekki vera að hann hefði eitthvað til síns máls, því meiri loftræsting fylgdi reykingunum.
Eins má nefna að nú á tímum fer flest fólk í sturtu einu sinni á dag og því fylgir mikill raki innandyra. En fyrir nokkrum áratugum var laugardagur hinn heilagi baðdagur.
Þó svo að böð hafi verið stunduð af flestum um langa hríð oftar en einu sinni í viku hefur ýmislegt breyst til dagsins í dag í því sambandi. T.d. eru flestir sturtubotnar sjálft gólfið, jafnvel á timburgólfum.
Áður var notast við vatnsþétt baðkör og sturtuklefa með botni, sem þóttu erfiðari í umgengni. Frágangur gólfniðurfalla er t.d. annar og lakari á Íslandi en í Noregi.
Einnig má nefna það að allur þvottur er nú orðið þurrkaður innandyra í stað þess að blakta úti á snúrum. Þó svo að þurrkarar eigi að vera það fullkomnir að þeir skili rakanum frá sér á réttan stað þá þekkja sjálfsagt flestir hvað þungt og rakt loftið getur verið í þvottaherberginu.
Hér er minnst á fleiri ástæður fyrir myglu sem sjaldan er talað um
![]() |
Blómabeðið getur valdið myglu innandyra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hús og híbýli | Breytt 26.11.2017 kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2017 | 21:15
Besta aðferðin til að ná árangri í lífinu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2017 | 19:29
Undir grænni torfu týndist tíminn
Það er stundum sagt um tímaskin Færeyinga að þar sé ávalt nægur tími og ef þeir verði dagþrota þá komi bara meiri tími á morgun. Dagskrá landans er öllu strekktari þó svo að Bjartmar hafi fyrir skemmstu sungið um "flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið þar sem af týndum tíma er af nægu að taka" um leið og hann bauð landann "velkomin á bísan", þegar allt virtist stefna í að leita þyrfti í reynslubanka Bjarts í Sumarhúsum.
Eftirminnilegt er að Færeyingar hikuðu ekki við að lána Íslendingum stórfé á meðan hinar frændþjóðirnar veltu vöngum ásamt alþjóða gjaldeyrissjóðnum yfir því hvernig mætti koma böndum á fjármálaverkfræði sem kennd var við útrásarvíking. Úti í hinum stóra heimi þótti þetta náttúrulega ekki gáfulega farið með fé hjá frændum vorum í Færeyjum, en þeir sögðu þá bara að gáfur og gæska þyrftu ekki endilega að fara saman. Skilyrðislaust bæri að hjálpa sínum bróðir í neyð.
Í síðustu viku fórum við Matthildur mín loksins í langþráða Færeyjaferð og vorum yfir Hvítasunnuhelgina. Þetta var nokkurskonar systraferð þar sem við tengdasynir Sólhóls fengum að fljóta með sem bílstjórar á Norrænu frá Seyðisfirði til Þórshafnar. Þessi ferð hafði verið á dagskrá í mörg ár og má segja að við skipulag hennar hafi lífsspeki Færeyinga verið höfð að leiðarljósi, um að á morgun komi meiri tími.
Daginn fyrir brottför bað góður Borgfirðingur mig um að skila kveðju til allra sem ég hitti í Færeyjum, því þar byggi besta fólk í heimi, svo vel fann hann í hjarta sínu gæsku Færeyinga. Auðvitað reyndi ég að koma kveðju hans til skila þegar gafst til þess tími. Þessi Hvítasunnuhelgi er samt ekki sú fyrsta sem ég dvel í Færeyjum því fyrir 33 árum síðan átti ég því láni að fagna sem ungur maður að kynnst þessum frændfólki okkar, þá hafði ég ráðið mig í vinnu hjá dönskum múrarameistara í Þórshöfn og var þar fram eftir sumri.
Eftir Hvítasunnuhelgina í denn þurfti ég að tína saman tómu bjórflöskurnar úr herberginu og koma þeim í verð hjá kaupmanninum niður á horni. Því við félagarnir sem leigðum þá á farfuglaheimili Verkakvennafélags Þórshafnar höfðum týnt útborgununum okkar í miklum gleðskap undir grænu torfþaki farfuglaheimilisins og áttum ekki fyrir mat, en nóg af tómum bjórflöskum. Þegar ég hafði sett flöskurnar í svartan ruslapoka reyndust þær allt of þungar til að bera og stútarnir stungust út úr skósíðum pokanum, sem ég var að sligast undan. Því varð að ég hnupla hjólbörum rogast með flöskupokann upp í þær.
Þó ekki væri torfærunum fyrir að fara og leiðin greið niður á við í hverfisbúðina á horninu, þá var hjólið á börunum ryðgað fast. Því þurfti ótrúleg átök í að ýta þeim niður brekkuna og halda um leið jafnvægi með dýrmætan farminn. Ég veit ekki enn í dag rúmum 30 árum seinna hvort það var fyrir að hafa fjarlægt flöskurnar af gistiheimili Verkakvennafélagsins eða liðka hjólbörurnar fyrir þær,sem varð til þess að okkur var ekki vísað á dyr, en það hafði mér verið tilkynnt að stæði til í upphafi ferðar, en var aldrei minnst meira á eftir að hjólbörunum var skilað.
Kirkjubær; Múrinn til vinstri, Reykstofan fyrir miðju og kirkja Ólafs helga til hægri.
Þann stutta tíma, sem ég vann við múrverk í Færeyjum fékk ég að taka þátt í skemmtilegum verkefnum. Eitt af þeim var að gera við vegghleðslur kirkju Ólafs helga í Kirkjubæ og endurkalka hvíta veggi hennar. Þá vann ég með dönskum og færeyskum múrurum og hafði ekki grænan grun um hvað merkilegt verkefnið var, hvað þá þolinmæði fyrir svona fornminja gaufi. Enda leið ekki á lögnu þar til ég var settur í nýbyggingar verkefni þar sem ungur athafnamaður, Jakub A Dul, byggði sinn fyrsta Rúmfatalager, ef ég man rétt. Auk þessa vann ég við að banka steinhellur niður í stéttar og bílastæði tryggingafélags.
Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég uppgötvaði hversu sérstakt verkefnið var í Kirkjubæ. Þar eru tvær eldgamlar kirkjubyggingar, það er kirkja Ólafs helga sem er sögð byggð á 12. öld og dómkirkja Magnúsar sem er í daglegu tali kölluð Múrinn byggð um 1300, en sú bygging komst aldrei undir þak. Síðustu ár hefur verið unnið að viðgerðum á hleðslum í Múrsins. Einnig er Reykstofan í Kirkjubæ, sem er byggð í kringum 1100 og talin eitt elsta timburhús í heimi sem enn er í notkun.
Þegar steinar losna í hlöðnum veggjum Múrsins, Ólafskirkju og Reykstofunnar í Kirkjubæ, er gert við þá með því að raða flötum smásteinum á milli þeirra í kalk-múrblöndu til að festa þá á sínum stað. Þetta er mikið þolinmæðisverk og hefur viðgerð veggja Magnúsar kirkju tekið mörg ár.
Auðvitað voru gömlu staðirnir mínir skoðaðir í ferðinni. Kirkjurnar í Kirkjubæ voru á sínum stað, meir að segja voru hellurnar ennþá í stéttunum og bílastæðunum í Þórshöfn. En þegar komið var í gömlu götuna mína reiknaði ég með að hjólbörurnar væru undir skrifstofuglugga verkakvennafélagsins, en þar brá mér heldur betur í brún. Gamla notalega svarta timburhúsið með torfþakinu, þar sem hægt var að opna kvistgluggann út á græna grasþekjuna til að reykræsta herbergið, var horfið. Þess í stað var komið nýtísku íbúðarhús og engin merki sáust um hjólbörur, ekki einu sinni svört hjólförin í malbikinu, hvað þá glerbrot eða tægjur af svörtum ruslapoka. Og litla búðin niður á horni orðin að íbúð.
Annars er það heilt yfir svo í Færeyjum að engu líkara er, en að þegar jarðýtan var flutt til Íslands um árið, og hér notuð á árangursríkan hátt við að jafna byggingasöguna við jörðu, þá hafi hún algerlega farið fram hjá Færeyjum og á það helvíti er varla hægt að minnast ógrátandi. Þar má finna heilu þorpin ennþá úr torfi og grjóti, meir að segja er búið í mörgum þessara húsa.
Hvernig myndi t.d. Þórshöfn líta út ef hún hefði farið í gegnum sama Dubai drauminn og Reykjavík? Þá væru grænu torfþökin nú komin undir malbik og þar væru svartir turnar klæddir í gler og innfluttar flísar, sem teygðu sig upp í þokuna. Það væru dapurleg skipti miðað við líflegan gamla bæinn, sem geymir söguna til dagsins í dag. Við skulum því rétt vona að það sé ekki bara vegna þess að Færeyingar vita að á morgun komi meiri tími, sem þeir hafa ekki ennþá ræst jarðýtuna eins og tímatrekktir frændur þeirra á sögueyjunni.
Múrinn, eða dómkirkja Magnúsar í Kirkjubæ
Götumynd frá Þórshöfn
Götumynd frá Þórshöfn
Þinganes í Þórshöfn, stjórnarráð Færeyja
Þorp í Húsavík á Sandey
Færeyskt hús í Kúney
Saksun
Bær á Vogey
Stéttar í Þórshöfn
Höfundur á fornum slóðum
Hús og híbýli | Breytt 21.1.2018 kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2017 | 20:24
Jón hrak
Það má segja að sagan af Jóni hrak verði undarlegri með hverri jarðarförinni. Ég hafði lengi hugsað mér að kanna sannleiksgildi hennar og fara að leiði þessarar dularfulli þjóðsagna persónu. En hann á að vera grafinn í gamla kirkjugarðinum á Skriðuklaustri og því stutt að fara.
Í dag fórum við hjónin svo á glæsilegt kaffihlaðborð í klausturkaffi í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri þar sem hægt er að éta á sig tertusvima á vöffluverði. Eftir kræsingarnar fórum við á efri hæðina og fengum leiðsögn um vistarverur Gunnars Gunnarssona, rithöfundarins sem sumir segja að hafi ekki verið verður Nóbelsins vegna óljósra tengsla við nasismann. En Gunnar er eini íslendingurinn sem vitað er til að hafi átt fund með Hitler og lengi gekk sú saga að glæsihús hans á Skriðuklaustri hafi verið teiknað af sama arkitekt og teiknaði Arnarhreiðrið fyrir Hitler.
Við vorum ein á ferð með leiðsögumanninum og fljótlega barst talið að uppgreftrinum á klaustrinu sem fór fram á fyrstu árum þessarar aldar. Klaustrið mun hafa verið nokkurskonar sjúkrahús og fólk komið víða að til að leita sér lækninga við hinum ýmsu meinum ef marka má þau bein sem upp komu úr kirkjugarðinum. Fljótlega bryddaði ég upp á áhugamáli mínu um það hvernig best væri að finna leiði Jóns hrak og vísaði leiðsögumaðurinn okkur á leiðið á mynd af uppgreftrinum á klaustrinu.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar hafa þetta að segja um Jón hrak:
Maður hét Jón og var kallaður Jón flak. Hann var undarlegur og lítt þokkaður af sveitungum sínum. Þótti hann smáglettinn og ei unnt að hefna sín á honum. Þegar Jón dó gjörðu líkmennirnir það af hrekk við hann að þeir létu gröfina snúa í norður og suður. Jón var grafinn að kórbaki í Múlakirkjugarði. En á hverri nóttu á eftir sótti hann að líkmönnum og kvað vísu þessa:
Köld er mold við kórbak,
kúrir þar undir Jón flak.
Ýtar snúa austur og vestur
allir nema Jón flak,
allir nema Jón flak.
Var hann þá grafinn upp aftur og lagður í austur og vestur eins og aðrir. Aðrir segja að vísan hafi heyrzt upp úr gröfinni í kirkjugarðinum.
Mjög hefur farið mörgum sögnum um Jón er séra Skúli Gíslason segir að hafi verið kallaður Jón hrak, því hann hafi verið varmenni mikið og grunur hafi legið á því að hann hafi loksins fargað sér sjálfur, hafi hann því verið grafinn án yfirsöngs að kórbaki og látinn snúa norður og suður. Nóttina eftir dreymdi sóknarprestinn er ekki var viðstaddur greftrun hans að Jón kæmi til sín og kvæði:
Kalt er við kórbak,
hvílir þar Jón hrak;
allir snúa austur og vestur
ýtar nema Jón hrak.
Kalt er við kórbak.
Daginn eftir lét prestur grafa hann upp og snúa honum rétt. Sótti Jón þá ekki framar að honum.
Fyrir vestan er sú sögn um nafna minn að hann hafi átt vonda konu er hafi látið grafa mann sinn svo sem fyrr er getið til þess að gjöra honum enn skömm í gröfinni. Þá er það og enn ein sögn um Jón að lík hans hafi verið látið svo í gröfina af því vonzkuveður hafi gjört er hann var moldu ausinn, en ekki af illvilja þeirra er að stóðu og hafi því líkmennirnir flýtt sér að koma honum einhvern veginn niður.
Aðeins einn legsteinn er sýnilegur í kirkjugarðinum og hafði leiðsögumaðurinn upplýst okkur um það, að þegar uppgröfturinn á klaustrinu og garðinum fór fram 2002-2012 þá hafi sérstaklega verið athugað hvort Jón væri á sínum stað undir steininum. En á honum stendur daufum stöfum JÓN HRAK. Svo einkennilega hefði viljað til að undir þeim steini fundust engin bein og ekki var hægt að ætla að önnur bein sem upp komu í þessum mikla uppgreftri tilheyrðu Jóni.
Það er því búið að grafa Jón hrak tvisvar upp samkvæmt heimildum og í annað sinn kom í ljós að hann var ekki við kórbak. Leiðsögumaðurinn hafði heyrt eina munnmælasögu sem segði að vetrarhörkur hefði verið og frost í jörðu þegar átt hafi að jarðsetja Jón og því hefðu menn sennilega losað sig við líkið á auðveldari máta. En hvar og í hvaða skipti vissi engin.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 15.5.2017 kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2017 | 20:10
Byggingar í böndum bírókratísins
Það brást ekki að vorið kom með trukki á nýju tungli þann 24. síðasta mánaðar. Einhvern veginn er það alltaf þannig á vormorgnum þegar sól skín í heiði og fuglasöngur fyllir loftið þá kviknar framkvæmdaþráin, jafnvel hjá gömlum safnvíkingum. Hér á árum áður hefðu svona ljúfir vordagar ekki verið látnir fara forgörðum, steypihrærivélin hefði verið ræst og byrjað að byggja. Þó svo að ég vinni við sömu iðn og áður, þar sem pólskir vinnufélagar mínir sjá nú orðið um að gera það skemmtilega, þá er því ekki lengur svo fyrir að fara að framkvæmdaviljinn, steypuhrærivélin og vinnuaflið dugi til að byggja hús. Nú sem aldrei fyrr hefur allt verið niðurnjörvað með reglugerðarfargani.
Pólverjar hafa hirt flest skemmtilegustu störfin frá íslendungu án þess að landinn hafi heilaburði til að fatti það, innihúkandi rígnegldur fyrir framan tölvuskjáinn við að koma heim og saman á exele skjali hvernig skuli fara að því að gera hvað sem er arðvænlegt fyrir fjárfesta. Einagnveginn tekst samt að fá í útkomuna hvernig svoleiðis húsnæði hentar ungu fólki sem sárvantar hagkvæmt húsaskjól. Öllum þessum vandræðum samfara þarf langskólagenginn landinn að greiða af námslánunum og er því eina leiðin til að halda sjó að útbúa regluverkið það flókið að hæfi sérstaklega vel borgaðri menntun, alls óskildri þekkingu á húsbyggingum. þannnig regluverk ræður svo úrslitum um hvort hús verður byggt.
Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd og hafa vilja til að hrinda henni í framkvæmd þegar skal byggja hús. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistarar, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn. Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistarinn, öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið með gæðaeftirlit sem vottað er af skoðunarstöð og allur heili pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins.
Marteinn Mosdal - hvað?
Tryggvi Emilsson segir frá því þegar hann byggði fyrir rúmum 90 árum íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri. En hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.
Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.
Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.
Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)
Þó svo að við félagarnir á Djúpavogi höfum ekki þurft að hafa það frumkvæði til að bera að byggja steinsteypt hús eftir að hafa ekki þekkt annað en torfbæi þá var ennþá hægt að hrinda húsbyggingu í framkvæmt á hagkvæman hátt á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Að því leitinu var byggingaaðferðin áþekk torfbæ, að við notuðumst mikið við heimafengið í sinni tærust mynd, það er eigið hugmyndaflug, afl og mölina, sem lá því sem næst undir fótunum.
En þess ber að geta að á þeim tíma vorum við lokaðir inniá verndarsvæði eins og síðustu Móhíkanarnir, öfugt við það þar sem starfsleyfi steypustöðva í boði vinnu-, heilbrigðis og nefndu það eftirlits voru farin að gera afdalmennsku óhægt um vik.
Hús og híbýli | Breytt 26.11.2017 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2017 | 05:57
Bölvaður sé sá er mígur upp við vegg
Það kannast flestir iðnaðarmenn við hvað aðstöðuleysi til að létta á sér getur verið bagalegt. Þó svo að sumir verið sér úti um færanlegan kamar þá er sjaldnast gert ráð fyrir slíkum kostanaði þegar unnið er fyrir Pétur og Pál út um borg og bý. Eitt sinn þegar ég vann utanhúss múrverk við íbúðarhús víðlesins spekings kom til umræðu lögmál sem hefur leitað á hugann þegar mér verður mál utandyra allar götur síðan. Í meira en 30 ár þar til í gær að ráðgátan upplýstist.
Eins og oft vill verða á vinnustað þar sem er ekkert klósett þá hafði ég farið bak við hús til að míga og vonaðist til að ekki sæist til mín. Þegar ég var rétt byrjaður þá kom húseigandinn fyrir hornið. Hann sagði ábúðarfullur bölvaður sé sá er mígur upp við vegg. Um afleiðingar þessa gæti ég lesið mig til um í Biblíunni.
Ég var snöggur að svara honum að því lygi hann, ég væri búin að lesa Biblíuna spjaldanna á milli og þetta stæði hvergi í henni. Hann þagði í smástund en sagði svo íbygginn á svip að þetta stæði kannski ekki í allra nýjustu útgáfu hennar. Auðvita laug ég því að hafa lesið Biblíuna spjaldanna á milli. En þetta samtal varð til þess þegar ég lét verða af því hafði ég það í huga hvort það gæti virkilega verið að þetta stæði í hinni helgu bók.
Eftir lestur næst nýjustu útgáfu Biblíunnar gat ég hvergi greint að ígildi þessarar bölbænar væri þar finna. Svo var það í gær að ég las bók Stefáns Jónssonar, Ljós í róunni. Þar er áhugaverð úttekt á þessari biblíutilvitnun og það sem meira er Stefán hafði rannsakað, gjörsamlega út í hörgul, sannleiksgildi þess að hana mætti finna í hinni helgu bók. Því rétt eins og ég trúði hann því ekki að óséðu.
Rannsókn Stefáns leiddi það í ljós að þessi tilvísun í bölvunina fyrir að míga upp við vegg væri í erlendum útgáfum Biblíunnar, en hefði af einhverju undarlegum ástæðum ævinlega verið sleppt við þýðingu hinnar helgu bókar yfir á íslensku. Tilvitnunina mætti finna í annarri konungabók þar sem Guð talaði í gegnum Elísa spámann um Jeróbam konung.
Komst Stefán helst að því að ástæða þess að þetta vantaði í íslensku útgáfur Biblíunnar væri af svipuðum toga og það að austfirðingar eru öðruvísi en annað fólk. En austfirðingurinn lætur segja sér það þrisvar sem nægir að ljúga einu sinni í suma aðra. Og sumu trúir hann aldrei hvað oft sem hann heyrir því logið.
Það er oft þannig með lausn á ráðgátum að þegar ein leysist þá virðist svar við annarri berast á undarlegan hátt á sama tíma og þá oft úr ólíkri átt. En nú var það ekki svo í þetta sinn, heldur rakst ég fyrir stuttu á texta Þórbergs Þórðarsonar, sem einnig er rithöfundur úr austfirðingafjórðungi. Þar varpar hann ljósi á það sem margir telja landlæga plágu nú á tímum þó svo að ekki séu bölbænir við gjörningnum að finna í Biblíunni.
Þó að iðnaðarmenn eigi til að leggja metnað sinn í að míga úti þá er fáheyrt að þeir geri stærri stykki utandyra. En eins og flestir hafa frétt, eða jafnvel séð myndbirtingar af á facebook, þá hefur borið á því að túristar skíti á víðavangi þrátt fyrir að salerni séu á næsta leiti. Jafnvel hefur mörgum komið til hugar að réttast væri að láta þá borga fyrir að gera þarfir sínar því svo vel sé fólk skólað í að greiða fyrir að vera til, að því detti ekki í hug að fara á salerni ókeypis.
En texti Þórbergs í Bréfi til Láru upplýsir hvað fer raunverulega fram í sálarlífi túristans við þessar aðstæður. Og við því geta hvorki fjársektir né Biblían átt nægilega sterkar viðvaranir, hvað þá að gjaldskyldir kamrar komi að gagni.
Það var logn og heiður himinn. Sól skein í suðri. Sumarfuglarnir sungu suðræn ástarljóð í runnum og móum. Fram undan blasir við fagurt hérað, skrýtt skógarkjarri og grösugum eldfjöllum. Fjöllin eru frumlega gerð og einkennileg, rétt eins og forsjónin hefði skapað þau með sáru samviskubiti út af hrákasmíð sinni á Rangárvöllum. Fyrir neðan skógarbrekkurnar glampar á hafið himinblátt, alsett eyjum og vogum, - helgi og fegurð svo langt sem augað eygir.
Þetta er dásamlegur heimur. Þessi mjúka stemming yfir hafi og hauðri, ilmur úr grænu grasi og skógarangan. Hvar er ég? Er ég komin suður á Ítalíu? Er þetta hið himinbláa Miðjarðarhaf, sem Davíð Stefánsson kvað um pervislegt kvæði? Eða er þetta kannski sumarlandið, þar sem Raymond drakk himnesk vín og reykti vindla sáluhólpinna tóbakssala? Ég settist niður í skógarrunn og skeit. Á setum sínum kemst maður í andlegt samfélag við náttúruna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2017 | 19:44
Svartidauði í sparifötum
Hversu oft hefur einhver sem þú þekkir orðið ölvaður og hagað sér á þann hátt sem ekki var von á? hækkað róminn óvanalega mikið við að upphefja eigið ágæti, jafnvel beitt ofbeldi, gert sig sekan um kynferðislegt lauslæti, orðið valdur af eyðileggingu á eignum, eða staðið að einhverjum öðrum neikvæðum aðgerðum sem ekki eru eðlislægar?
Hugleiddu þetta í augnablik - eins hvort þetta eigi eitthvað skylt við birtingarmyndir heilsteypts persónuleika, kærleika eða jákvæðni? - Samfélagið viðurkennir áfengi sem félagslega jákvætt hjálparmeðal og þar með væntanlega birtingamyndir þess, jafnvel þó það þurfi stundum að nota afsakanir á við; hann eða hún gat nú lítið að þessu gert sökum ölvunar.
Þetta sama samfélag telur sjálfsagt að gera einstaklingnum erfitt fyrir við að skaða sjálfa sig og aðra með tóbaksreykingum þar sem fólk hittist á almannafæri. Þó svo að fylgifiskar tóbaks séu ekki sambærilegir, þá eru þær saklausar hjá andsetningu persónuleikans. Það er t.d. óþekkt að einhver hafi tapað sér við að reykja pakka af sígarettum og hafi af þess völdum gengið í skrokk á öðrum, splundrað heimili eða drepið mann.
Þrátt fyrir að áfengi hafi fylgt manninum í gegnum aldirnar þá hefur almenningur sennilega aldrei verið fjær því að fá haldbærar skýringar á þeim andlegu afleiðingum sem neysla þess veldur. Skaðsemi áfengis á mannsandann getur verið djöfulleg og ætti því að vera opinberlega viðurkennt að orsakanna er að leita í ósýnilegum andaheimi, - en það er ekki svo í heimi nútíma efnishyggju.
Til að átta sig á hvers konar öfl er við að eiga er rétt að skoða merkingu orða sem höfð eru yfir áfengi, s.s. brennivín, vínandi (spíritus), alkóhól osfv. Þarna er um líkingamál að ræða, sem á m.a. að höfða til lífsins vatns, að mestu ættað úr Mið-Austurlenskri gullgerðarlist.
Það mætti ætla að orðið vínandi skýrði sig að fullu sjálft í því samhengi þegar talað er um huga, líkama og sál. Með skírskotun til þess að andinn sé sá hluti þeirrar þrenningar sem samsvari sálinni. Þessari merkingu vínandans hefur þó verið haldið til hlés í vestrænu samfélagi þar sem alkahól er viðurkennd efnafræði til félagslegra nota.
Efnafræðilega skíringin á vínanda er sú að hann sé gerður úr gerjuðum vökva, sem er hitaður og sýður þá áfengið á undan vatninu og myndar gufu. Þegar gufan er leidd í rör og kæld þéttist hún og verður að vökva sem er mun sterkara áfengi en t.d. vín og bjór. Slíkur vökvi fékk latneska heitið spíritus, -vínandi.
Orðið alkóhól er sagt upphaflega dregið af arabíska orðinu "Al-Kuhl" enska afsprengið er alcohol. En samkvæmt arabísku er Al-Kuhl eða al-gohul, andinn yfirtekur holdið. Alkóhól er, samkvæmt þessari Mið-Austurlensku þjóðtrú, illur andi sem sækist eftir mannsholdi.
Þetta er eftirtektarvert í því ljósi að áfengi er bannað til félagslegrar iðkunnar í flestum Mið-Austurlanda. Í vestrænum ríkjum þykja áfengisbönn bábiljur og hér á landi kallaði ríkið sinn vínanda "Íslenskt Brennivín".
Það fór samt ekki fram hjá þjóðarsálinni um hverskonar anda var að ræða, sem kallaði Brennivín ríkisins umsvifalaust Svartadauða. Eins þekkir þjóðarsálin hugmyndir um að drukkið sé í gegnum einhvern, þegar persónuleiki viðkomandi verður óþekkjanlegur vegna áfengisdrykkju.
Við getum litið svo á að líkaminn sé bústaður hugans, jafnframt því að vera farartæki sálarinnar í efnisheiminum. Hugurinn hefur að geyma persónuleikann sem við staðsetjum okkur með gagnvart öðrum, stundum kallað egó. Sálin er hin æðri vitund sem tengist alheimsorkunni nokkurskonar stýrikerfi huga og líkama í gegnum lífið.
Með eimingu áfengis er kjarna vínanda náð. Með því að setja alkóhól í líkamann þá er þessi andi innbyrtur, sem gerir einstaklinginn berskjaldaðri fyrir nálægum öflum sem mörg hver eru á ósýnilegri tíðni. Þetta telja flestir áhættunnar virði til að losa um félagsleg höft t.d. feimni og stundum er sagt að öl sé innri maður.
En jafnhliða slævir áfengið dómgreind og þegar of mikið er drukkið slokknar á henni og hugurinn dettur út af og til eða jafnvel sofnar. Það sama þarf samt ekki að gerast með líkamann það er hægt að vaknað upp síðar á allt öðrum stað en þeim sem hugurinn hvarf frá, jafnvel frétta af fullu fjöri í aðstæðum sem ekki er kannast við, þetta er stundum kallað blackout, og öl verður annar maður.
Það sem gerist í blakcout er að sá góði andi sem við köllum sál ákveður að yfirgefa partýið vegna þeirrar eitrunar sem hefur orðið á huga og líkama. Orkubrautir sálarinnar eru ekki lengur tengdar líkamanum, ókunnug myrk öfl hafa yfirtekið stýrikerfið og halda partý í blokkinni til að fróa sínum sjálfhverfu hvötum í líkama annars manns burtséð frá hans anda og eðli. Það verður erfiðara eftir því sem þetta gerist oftar fyrir sálina að snúa til baka í óreiðuna og persónuleikinn getur brenglast varanlega.
Efist einhver um að blackout geti haft svo geigvænlegar afleiðingar að jafnvel illir andar taki yfir persónuna þá eru til mýmörg dæmi þess og þarf ekki að fara aftur í tíma Jóns Hreggviðssonar til að finna hliðstæður. Nú á tímum getur andsetning meir að segja orðið svo alger að erfitt getur reynst að finna DNA slóð þess einstaklings sem er andsetinn á vettvangi. Það er örfá ár síðan dómsmál vegna manndráps sýndi þetta svo ekki verður um villst, sjá hér.
Til að endurheimta sálu sína verður að endingu það eitt til ráða að leita aðstoðar þeirra sem hafa komist út úr vítahring alkóhólisma með andlegri vakningu. Losa þannig um ógnartök ókunnra afla alkóhólsins hvort sem við köllum þau Svartadauða upp á íslensku eða Al-ghoul upp á Mið-Austurlenskan máta. Þá verður einungis hægt að viðurkenna vanmátt sinn gegn áfengi og treysta á æðri mátt.
Nú vil ég taka fram að ég tel mig ekki vera fanatískan bindindismann og er ekki að leggja öðrum lífsreglur. En vegna reynslu minnar af áfengi vildi ég reyna að benda á hvað leynist undir spariklæðnaði þeirra myrku afla sem eru fylgifiskar áfengisneyslu.
Dægurmál | Breytt 7.3.2020 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2017 | 06:02
Séra Jón - aumasti prestur á Íslandi
Þetta sagði biskup um séra Jón, og lét hann einnig hafa það eftir sér að ekki gæti hann ímyndað sér að til væri vesælli og fátækari prestur í veröldinni. Í bréfi biskups kemur fram að séra Jón hafi flosnað upp, flakkað um verganginn, en börn og kona gengið betlandi bæ af bæ. Séra Jón tapaði oftar en einu sinni aleigunni, meir að seigja sænginni sinni. En hann tapaði aldrei fjölskyldunni.
Einu sinni var það svo að ættfræði þóttu mikil alþýðuvísindi. Eftir að Íslendingabók varð öllum aðgengileg hefur farið minna fyrir þessum fræðum enda getur hver sem er flett sjálfum sér upp í einrúmi og komist að því til hvaða höfðingja rætur liggja. Þó svo gagnagrunnur Íslendingabókar sé ekki tæmandi og stundum tínist þráðurinn er hæpið að hægt sé að bæta við þá vitneskju með frekari eftirgrennslan.
Fyrir rúmum 30 árum síðan var ég heilan vetur hjá afa mínum og nafna. Þá sýndi hann mér ættartölu sína sem honum hafði nýlega verið færð og þótti okkur þetta athyglisvert plagg. Það sem mér fannst merkilegast þá í þessari ættartölu var hvað mikið af Jónum var ætt afa míns, ekki nóg með að hann hafi verið Jónsson þá hét móðir hans Jónbjörg Jónsdóttir. Ættleggur Jónbjargar fór fljótlega út um víðan völl í eintómum Jónum því það var ekki nóg með þeir væru mann fram af manni heldur voru systkinahópar stundum með tveimur og að mig minnir þremur Jónum, ef einhver Jóninn hafði fallið frá í æsku. Það var samt svo með Jón föður Magnúsar afa að hann var Sigvaldason og síðan var hæfilega mikið af Jónum í þeim legg, þannig að halda má þræði langt aftur í aldir.
Þennan vetur sátum við nafnarnir við eldhúsborðið, sem Jón Sigvaldason hafði smíðað, kvöld eftir kvöld og ræddum horfna tíð og sagði hann mér þá oft hvað það hefði verið bagalegt hvað hann hefði haft lítinn áhuga á ættum sínum á yngri árum því þegar hann mundi fyrst eftir sér hefðu gömlu konurnar haft það alveg á hreinu hver var hvaða Jón.
Þjóðsögurnar hans Sigfúsar Sigfússonar voru svo eitt áhugamálið sem kom til umræðu við eldhúsborðið, svona nokkurn veginn um leið og ég las þær. Þar mátti finna mikla þjóðasagnapersónu sem var Jónsdóttir úr ættartölunni, sem ekki verður gerð skil að þessu sinni. En einn var sá Jón sem við afi minn stoppuðum sérstaklega við, hann var Brynjólfsson, sá sem Hannes biskup Finnsson kallaði aumasta prest á Íslandi. Nú á dögum er því sem næst hægt er að kalla fram hvaða Jón sem er úr fortíðinni á alheimsnetinu, svo ekki sé talað um séra Jón, þar sem má nánast fá ævisöguna alla.
Þegar forvitnast er um séra Jón Brynjólfsson kemur í ljós að hann var ekki eins aumur og orð biskups gefa til kinna, ef miðað er við þróunarkenninguna, því hann mun nú vera einn af helstu ættfeðrum austfirðinga. Þó svo 225 ár séu á milli mín og séra Jóns, þá er tiltölulega fljótlegt að fletta honum upp á netinu þannig að heillegt æviágrip fáist og ekki er verra að fræðimaðurinn Ármann Halldórsson hafði gefið út bókina Mávabrík fyrir daga netsins þar sem hann hefur tekið saman efni viðkomandi ævi Jóns Brynjólfssonar.
Það er yfirleitt meira vitað um presta en alþýðufólk fyrr á tíð, af þeirri einföldu ástæðu að þeir þurftu að fylla út kirkjubækur og skrifuðu talsvert um sjálfa sig í því málavafstri sem bréflega fór á milli þeirra og yfirvalda. Í þetta efni sökkti Ármann Halldórsson sér í ellinni og sagðist hafa gert það a.m.k. tveimur orsökum. Séra Jón Brynjólfsson og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir, eru einhverjir mestu ættarforeldrar á Austurlandi. Önnur er sú að ævi hans er söguleg, því að líklega er um að ræða átakanlegustu fátækrasögu nokkurs manns í prestastétt. Eins sver Ármann ekki fyrir, að áhugi hans á þessum örsnauðu presthjónum hafi með það að gera að hann á ætt til þeirra að rekja.
Íslendingabók hefur þetta æviágrip að geyma; Jón Brynjólfsson Fæddur um 1735, látinn á Ormsstöðum í Eiðasókn, S-Múl. 15. febrúar 1800. Djákn á Skriðuklaustri 1758-1760. Prestur á Hjaltastað í Útmannasveit 1760-68, Skeggjastöðum á Langanesströnd 1768-76, mun þó hafa flosnað upp þaðan 1775. Kom börnum sínum og konu sinni fyrir á Austurlandi en fór sjálfur suður á land þá strax. Þjónaði Landþingum veturinn 1776-77 og settur prestur í Holtaþingum í Landsveit mestallt árið 1779. Fékk Fjarðarsókn í Mjóafirði, S-Múl. 1780 og var þar í Firði 1780-83, kom þangað sunnan úr Holtum í Rang. Var á Hesteyri í Mjóafirði 1783-84 og Krossi í Mjóafirði 1784-85 er hann fór að Eiðum. Prestur á Eiðum í Eiðaþinghá frá 1785 til dánardags 1800.
Kona hans var Ingibjörg Sigurðardóttir fædd í Eyvindarmúla í Fljótshlíð 1744, látin í Dölum í Hjaltastaðaþinghá 4. september 1834. Prestfrú á Eiðum. Vinnukona í Krossavík, Refsstaðarsókn, Múl. 1801. Barnfóstra á Hofi, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1816. Faðir Jóns var kallaður Brynjólfur allstaðar Markússon eða Tuttugubýla Brynki.
Eiðavinir hafa tekið þetta saman á vefinn sinn um Jón Brynjólfsson (1735-1800) varð prestur á Eiðum 1785. Kona hana var Ingibjörg, systurdóttir Hans Wium (Bóel). Jón var Sunnlendingur, og hafði gegnt prestþjónustu á ýmsum stöðum, m.a. á Austurlandi, en hafði lengst af búið við sára fátækt og ómegð, svo mjög að Hannes biskup kallar hann aumasta prest á Íslandi í bréfi 1792, enda hafði hann oftar en einu sinni komist á vonarvöl. Hans Wium aumkar sig yfir þennan, tengdamann sinn, og byggir honum Eiða 1785, og þar kallast hann bóndi næstu árin.
Nokkru áður en Hans lést (1788) hafði hann selt Þórði Árnasyni mági sínum Eiðastól. Flutti Þórður í Eiða 1789 og hrökklaðist séra Jón þá í Gilsárteig og síðan í Ormsstaði, sem þá voru í eyði, bjó þar til æviloka árið 1800, og virðist hafa búnast sæmilega. Þau hjón áttu fjölda barna; af þeim komust 10 á legg og 9 eignuðust afkomendur. Er mikill ættbogi af þeim kominn. Þar á meðal eru nokkrir helstu fræðimenn og rithöfundar Austurlands, svo sem Jón Sigurðsson í Njarðvík, Halldór Pétursson frá Geirastöðum, Sigurður Óskar Pálsson og Ármann Halldórsson, en hann ritaði þátt um forföður sinn og birti í bók sinni Mávabrík (1992).
Það má kannski segja að litlu væri við þetta að bæta ef ekki kæmi til Mávabrík Ármanns Halldórssonar. En þar kemur fram rétt eins og hjá Eiðavinum að Ingibjörg Sigurðardóttir kona Jóns var dóttir Bóelar, dóttur Jens Wium sýslumanns, sem var systir Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Jón var sunnlenskur að ætt og ekki gott að sjá hvort hann var fæddur í Rangárvalla eða Árnessýslu því eins og kemur fram í viðurnefnum föður hans, tuttugubýla Brynka eða Brynjólfur allstaðar, bjó hann víða.
Það er á Skriðuklaustri undir verndarvæng Hans Wium sýslumanns sem Jón Brynjólfsson hefur sinn starfsferil, sem djákni því þó svo að hann hafi þá verið búin læra til prests hafði hann ekki aldur til vígslu. Ingibjörg sem átti eftir að verða kona hans er fædd á Suðurlandi en hefur sennilega alist upp á Austurlandi og þau kynnst þar. Sigurður faðir hennar var sunnlenskur og hafði hann farið með klausturumboð á Suðurlandi, en drukknaði í Lagarfljóti og hefur þá sennilegast búið á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð því Bóel kona hans var yfirleitt kennd við Surtsstaði.
Jón hafði útskrifast frá Skálholtsskóla 1755 og var djákni á Skriðuklaustri 1758-1760, þegar hann vígist í Skálholti sem prestur á Hjaltastað. Eldklerkurinn Jón Steingrímsson var vígslubróðir hans og áttu mestu harðindi Íslandssögunnar eftir að marka líf þeirra beggja. Jón og Ingibjörg giftast 1765 en árið áður fæðist elsta barn þeirra. Ingibjörg hefur sennilega talist vera það sem kallað var ættgöfug manneskja því hún var af Wium ætt sem stærði sig af tengslum við dönsku konungsfjölskylduna. Afi hennar Jens Wium var danskur og hafði komið til Íslands sem undirkaupmaður við Reyðarfjörð og varð síðar sýslumaður í Múlaþingi með aðsetur á Skriðuklaustri.
Þau Ingibjörg og Jón eru á Hjaltastað til ársins 1769 og höfðu þau þá eignast þrjú börn, þau Sigurveigu, Elísabetu og Brynjólf. Þá taka þau sig upp og flytjast í Skeggjastaði á Langanesströnd, ekki er vitað hvað varð til þess. Þar er Jón prestur til 1775 en þá flosnar hann upp. Það að flosna upp þýðir á þessum tíma að verða matarlaus, heylaus og jafnvel eldiviðarlaus. Þá höfðu bæst við í barnahópinn Sigurður, Bóel, Níels og Kristín. Í bókinni Árferði á Íslandi í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen, segir að 1774 hafi stórharðindi verið í Múlasýslum og fólk dáið úr hungri, 60 manns í Norður-Múlasýslu og presturinn á Skeggjastöðum flosnað upp og yfirgefið brauðið.
Til eru heimildir um hvernig brotthvarfi séra Jóns var háttað, m.a. vegna þess að hann var sakaður um að hafa selt pott sem hann hafði veðsett. Biskup segir í bréfi vegna þess máls að ekki sé rétt að sakfella Jón vegna pottsölunnar þar sem hann hefði selt hann í neyð og kaupandanum hafi verið fullkunnugt um veðböndin sem á pottinum hvíldu. Eins kemur fram í ferðabók Olaviusar, sem kemur í Skeggjastaði nokkrum árum eftir brottför Jóns, að Skeggjastaðir séu eitt lélegasta brauð í öllu landinu.
Sagt er í Íslendingabók að Jón hafi komið fjölskyldunni fyrir á bæjum á Héraði eftir brottförina frá Skeggjastöðum og sjálfur farið suður á land og haldið þar til næstu árin. Ármann Halldórsson telur þó að fjölskyldan hafi verið með honum á Suðurlandi þann tíma, nema þá Sigurður sem hafi verið hjá Bóel ömmu sinni á Surtsstöðum. Það merkir hann m.a. á því að Ólafur sonur þeirra hjóna fæðist fyrir sunnan og þá sennilega Guðrún. Eins það að Bóel dóttir þeirra giftist og staðfestist síðar á Suðurlandi. Bendir það til þess að annaðhvort hafi hún átt þar tengingu frá æskuárum eða orðið þar eftir þegar fjölskyldan flutti aftur austur.
Árin 1776-1780 á Suðurlandi voru Jóni erfið en þar er hann sagður hafa þjónað í Land- og Holtaþingum tímabundið og í afleysingu, þess á milli er hann talin hafa hokrað eða jafnvel verið á vergangi við að framfleyta sér og sínum. þó að biskup hafi verið honum innanhandar með íhlaupaverkefni þá hafi hest og klæðleysi stundum komið í veg fyrir að hann gæti nýtt sér það. Jón hafði haft von um að komast að sem prestur í Einholti á Mýrum í Hornafirði þegar hann fór frá Skeggjastöðum, en af því varð ekki.
Það var ekki fyrr en 1780 að Jón var aftur settur sem sóknarprestur og þá í Firði í Mjóafirð, en þar var bændakirkja þannig að jörðin var öll í bændaeign en kirkjan hafði hana hálfa fyrir prestinn. Þegar Jón kom með fjölskylduna í Mjóafjörð var fyrrverandi prestfrú í Firði, þannig að fjölskylda Jóns hafði ekki í önnur hús að venda en kirkjuna fyrst um sinn. Skömmu eftir að þau komu í Fjörð keypti Hermann Jónsson Fjörð af gömlu prestfrúnni,sem var tengdamóður hans, og flutti úr Sandvík í Mjóafjörð. Samdist þeim séra Jóni um að Hermann hefði Fjörð allan gegn því að hann greiddi ákveðna upphæð til Jóns fyrir að láta eftir afnot af kirkjuhluta jarðarinnar.
Jón flutti sig síðan út á Hesteyri þar sem kirkjan hafði ítök í henni hálfri og var þar með lítilsháttar búskap auk þess að drýgja preststekjur sínar með smíði. Hermann greiddi honum ekki alla þá umsömdu upphæð fyrir að víkja af Firði, taldi það eiga að ganga upp í viðgerð á kirkjunni, sem hefði látið á sjá í Jóns tíð í Firði. Fjölskyldan flytur síðan út í Kross sem er yst í Mjóafirði og hefur þá verið löng leið fyrir séra Jón að fara til að messa í Fjarðarkirkju inn í fjarðarbotni. Það virðist vera að Hermann hafi fengið Mjófirðinga á sveif með sér í að hrekja Jón og fjölskyldu úr Mjóafirði.
Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harð bannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir. (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)
Þau voru tvö stór áföllin sem dundu á séra Jóni og fjölskyldu í Mjóafirði. Annað var koma Hermanns í Fjörð og hin voru móðuharðindin sem gengu yfir landið 1783-1785. Sumarið 1784 reikuðu um sveitir landsins uppflosnað fólk máttvana af hor og hungri. Því auk eiturmóðunnar hafði veturinn á undan verið óhemju harður, firði hafði lagt út til ystu annesja og víða náði frostið hátt í metra ofaní jörðu. Hörmungarnar léku búsmalann jafnvel enn verr en mannfólkið, sem stráféll úr hor og hungri.
Þann 10. júní sumarið 1784 skrifaði, Jón Sveinsson sýslumaður S.Múla sýslu, sem hafði aðsetur á Eskifirði, bréf sem fór með vorskipinu frá Djúpavogi til Kaupmannhafnar þar sem m.a. mátti lesa þetta; ... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel nú í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti,,, verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara yðar þrautpíndu fátæku undirsáta .... Það var við þessar aðstæður sem Hermann í Firði átti samtalið við prestfrúna á Krossi.
Það fór svo að séra Jón hrökklaðist úr Mjóafirði, en fram á vor dvelur hann samt í Firði undir verndarvæng Hermanns, eftir að fjölskylda hans hafði verið leyst upp á og send burt úr firðinum. Hermann hafði af manngæsku tekið að sér framfærslu prestsins gegn 16 ríkisdala meðgjöf, sem ekki kemur fram hver átti að greiða. Þegar Jón yfirgefur Mjóafjörð hirðir Hermann af honum smíðaverkfærin og sængina upp í skuld. Innheimtuaðgerðir Hermanns á hendur Jóni stóðu lengi yfir. Rúmum sex árum seinna, árið 1791, kærir Hermann hann fyrir kirkjustjórnarráði, stiftamtmanni og biskupi, að því er virðist vegna vangoldins uppihalds og skuldar við kirkjuna í Firði. Þá eru Jón og fjölskylda búin að búa bæði á Eiðum, Gilsárteigi og komin Ormsstaði.
Eiðavinir segja hér að ofan, að svo virðist sem Jóni hafi búnast sæmilega síðustu árin á Ormsstöðum. Það þó svo að bærinn hafi verið í eyði árin á undan og jafnvel talin óíbúðarhæfur þegar fjölskyldan kom í Ormsstaði. Ályktanir um góðan búskap telur Ármann Halldórsson vera dregnar af gerðabók hreppstjóra Eiðahrepps um tíundarskýrslu. Þar koma fram gjöld frá Ormsstöðum og að eitt árið hafi einungis tveir bæir í hreppnum verið hærri gjaldendur. En þá ber til þess að líta að börn hjónanna voru uppkominn og þeir Brynjólfur og Níels vinnumenn heima á Ormsstöðum.
Séra Jón þjónaði á Eiðum í 15 ár eftir að hann kom upp í Hérað úr Mjóafirði, en hafði sótt um lausn snemma árs 1800, stiftamtmaður synjaði honum viðstöðulaust um lausnina fyrr en á fardögum 1801. Það bréf barst Jóni aldrei því þegar bréfið kom í Ormsstaði "þá hafði séra Jón fengið lausn fyrir fullt og allt eftir armæðusamt líf og átakanlega ævihagi". Ingibjörg átti langt líf fyrir höndum þar sem ekki er alltaf kunnugt um hvar hún dvaldi, en hún lést 91 árs að aldri í Dölum Hjaltastaðþinghá hjá Ólafi syni sínum.
Börn þeirra hjóna eru talin hafa orðið alls 13 og 10 þeirra komust til fullorðinsára, Sigurveig þeirra elst fædd á Hjaltastað og Magnús þeirra yngstur fæddur í Mjóafirði. Er ekki óvarlegt að ætla að einhver barnanna þriggja sem ekki komust til fullorðins ára, hafi látið lífið í móðuharðindunum. Um þau er lítið vitað annað en að ein stúlka mun hafa heitið Bolette. Í Íslenskum æviskrám segir: Mikill kynbálkur er af séra Jón Brynjólfssyni og Ingibjörgu Sigurðardóttir, margt myndarfólk. Í ættum Austfirðinga segir: Margt var efnalítið af afkvæmi hans, en margt vel greint og góðsemdarfólk og ráðvant.
Nú þegar ég hef rakið í Íslendingabók ættartölu til "aumasta prests á Íslandi" og rifjað upp það sem við afi minn ræddum við eldhúsborð Jóns Sigvaldasonar um árið, hef ég m.a. komist að því að Jón Sigvaldason faðir afa míns átti báðir ættir að rekja til séra Jóns og Ingibjargar. Móðir hans Guðrún Jónstóttir var komin af Níels sem var bóndi á Hrollaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Og faðir hans Sigvaldi Einarsson var komin af Sigurveigu elsta barns þeirra presthjónanna, hún var húsfreyja í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá. þau Guðrún og Sigvaldi voru þremenningar.
Það er ekki laust við að ég finni fyrir stolti yfir því að eiga ættir að rekja til svo þrautseigra og samheldinna hjóna, sem létu ekki erfiðleika sundra fjölskyldunni. Eins fyrrverða ég mig ekki fyrir það að eiga jafnlangt genin að sækja til annars austfirsks ættarhöfðingja, sem var Hermann Jónsson í Firði. En um Hermann er sagt í Íslendingabók; Hár vexti og sæmilega gildur. "Heldur þótti hann eigingjarn en ekki nískur, ráðríkur og ágengur nokkuð". Og í íslenskum æviskrám: "Var héraðshöfðingi í sveit sinni, auðgaðist mjög að jörðum og lausafé, búmaður góður og mikill atorkumaður til sjósóknar, rausnsamur og stórgjöfull við fátæklinga". Þetta fólk varð fyrir þeirri ógæfu að leiðir lágu saman í Mjóafirði, þegar yfir gengu mestu hörmunga ár Íslandssögunnar.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 30.4.2017 kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)