1.5.2015 | 08:41
Hvaðan kom nafnið?
Þau eru mörg til staðarnöfnin sem hafa haldið sér frá því landið byggðist og jafnframt til heimildir um tilurð þeirra. Svo eru önnur nöfn sem virðast hafa verið til frá landnámi, en aðeins óljósar sagnir þeim tengdum má þar nefna nöfn eins og Papey, Papaós, Papafjörður ofl. En mörg nöfn eiga sér einungis stoð í þjóðsögum má þar nefna Vattarnes sem þjóðsagan segir að hafi fyrst verið numið af heljarmenni sem hét Vöttur og Kolfreyjustað sem sagan segir að hafi fyrst verið byggður af skessunni Kolfreyju.
Fossárvík í Berufirði
Í sautján ár bjó ég á Djúpavogi við Berufjörð, það var ekki flókið á átta sig á nafngiftinni Djúpivogur. En Berufjörður flæktist fyrir mér árum saman. Bera er að vísu þekkt íslenskt kvenmannsnafn sem samkvæmt nafnskýringum merkir birna. Berufirðirnir eru tveir á Íslandi en engar sagnir um birni hef ég rekist á þeim tengdum.
Lítið hef ég heyrt um tilurð nafnsins annað en Bera átti að hafa búið á bænum Berufirði, heimildir um þá búsetu er einungis þjóðsagan. Söguna heyrði ég fyrst á fundi fyrir mörgum árum á Djúpavogi þar sem stofna átti til félagsskaparins Axarvinir. Þar upplýsti einn fundarmanna Berufjarðarnafnið með skýringu sem ég hef látið mér nægja í gegnum árin.
Það eftirminnilegasta frá þeim fundi var snilldarfrásögn af ferðalagi hjónakornanna Beru og Sóta yfir erfiðan fjallveg í botni Berufjarðar. Þessa frásögn rakst ég á í Þjóðsögum Jóns Árnasonar án stórskemmtilegra stílfæringa sagnamannsins á fundinum forðum. Þar er fjallvegurinn sem um ræðir ekki Öxi og dalurinn er ekki Skriðdalur en allt kemur heim og saman í botni Berufjarðar;
Berufjörður dregur nafn sitt af Beru sem bjó í Berufirði. Bera var auðug af gangandi fé og sjást enn kvíatóftir hennar í túninu á Berufirði; tóftin er fjórðungur úr dagsláttu og er kölluð Berukví. Sóti hét bóndi Beru. Einu sinni fóru þau að heimboði upp í Breiðdal, en á heimleiðinni villtust þau á fjallinu og margt manna með þeim. Veður var svo illt að allir förunautar þeirra dóu á hjalla þeim sem síðan er kallaður Mannabeinahjalli.
Þau héldu nú áfram tvö ein og urðu loks aðskila á fjallinu. Sóti komst rétt á móts við bæinn í Berufirði og þrammaði þar fram af fjallinu sem heitir Sótabotnsbrún. Af því beið hann bana og er þar dys hans í Sótabotni. Bera lét hest sinn og hund ráða förinni eftir það hún var ein orðin og vissi hún eigi fyrr en hesturinn fór inn í hesthúsið í Berufirði. Var þá svo mikil ferð á hestinum að hún skall aftur af honum og rotaðist. Hún er heygð í Beruhóli, en sá hóll stendur fram undan bænum í Berufirði.
Þessi skýring á Berufjarðarnafninu dugði mér fullkomlega þar til í vetur en þá fóru að renna á mig tvær grímur þess efnis að nafnið gæti verið gamall misskilningur.
Valgerður H Bjarnadóttir magister í femínískri menningar og trúarsögu, kom fram með þá tilgátu að tröllkonan Grýla hafi hafi verið landnámskessa frá Skotlandi og hafi þar gengið undir nafninu Bhéara.
Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar má finna sögn tengda nafninu Bera sem skýtur stoðum undir tilgátu Valgerðar og skýrir einnig það sem mér hefur verið hulin ráðgáta í gegnum árin hvers vegna áin í Skriðdal er kennd við Grím.
Í tilefni þess að til stendur að minnast 160 ára árstíðar austfirska þjóðsagnaritarans Sigfúsar Sigfússonar á þessu ári læt ég fylgja sögu sem skýrir vel hvers eðlis Bera var.
Það er til eldgömul alþýðusögn að í fyrndinni hafi tröllkarl og tröllkona búið undir fossinum í Grímsá á Völlum í helli þeim er gengur inn undir bergið og verður illa í komist nema á ís þegar hylurinn er lagður. Þessi tröll voru ektapar og hétu Grímur og Bera. Þau áttu að sumra sögn tíu syni og þótti lýður þessi umfangsmikill í grenndinni. Löngum sáust reykir þar úr gljúfrinu er þau suðu sér til matar. Mest fóru þau til fanga á nóttu því þau voru nátttröll.
Þegar fram liðu tímar leiddist þeim veran undir fossinum og fastréðu að flytja sig í svonefnt Tunghagaklif handan ár gagnvart bænum. Hófu þau nú ferð sína á nýársnótt á svartasta lágnættinu. Tók hvert sína byrði og afréðu að þræða eftir ánni því eigi sér þar sól fyrr en hún hækkar nokkuð á lofti vegna dýptar gilsins. Grímur varð fyrstur, þar næst fóru synir hans í einfaldri fylkingu en Bera seinust.
Stóðst það á endum að þá er Grímur var kominn út að Tunghagatúninu þegar Bera byrjaði för sína. En þegar hún kom út úr hellinum varð henni bilt við því þá kastaði morgunsólin sínum fyrstu árgeislum í norðurbarm gilsins. Varð hún þá að dranga þeim er þar stendur og sömu urðu forlög hinna allra að þau urðu til í réttri röð þar sem þau voru þá komin og er þar halarófan með jöfnu millibili. Af Grími þessum dregur áin nafn sitt.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 28.2.2016 kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2015 | 17:40
Þetta er ekki fyndið lengur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2015 | 07:45
Harpa og sumardagurinn fyrsti
Harpa er fyrsti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu og hefst hún ævinlega á fimmtudegi á bilinu 19. til 25. apríl, með sumardeginum fyrsta. Í elstu heimildum um fornu norrænu mánaðarnöfnin, Bókarbót frá 12. öld og Snorra-Eddu frá 13. öld, er Hörpu ekki getið uppruni nafnsins því óviss, það virðist ekki heldur eiga sér samsvaranir í norðurlandamálunum .
Aðeins í Snorra-Eddu eru allir mánuðirnir með nöfn og heitir fyrsti mánuður sumars þar Gaukmánuður. Bæði er getið Hörpumánaðar og Hörputungls í 17. aldar rímhandritum. Hugsanlega vísar nafnið Harpa til skáldlegrar hörpu vorsins, en á 17. öld vor voru oft vond og mikill fellir fjár, gæti nafnið Harpa því allt eins verið skylt orðinu herping. Þegar komið er fram á 19.öld er rómantíkin ráðandi, virðist Harpa þá verða að persónugervingi vorsins.
Sumardagurinn fyrsti er einhver elsti hátíðisdagur þjóðarinnar. Hann er nefndur í Íslendingasögum og elstu lögbókum landsins. Í Ynglinga sögu er getið um sumarblót í ríki Óðins og í Egils sögu og Ólafs sögu helga er minnst á sumarblót bænda í Noregi. Sumarblóta á Íslandi ert getið í Vatnsdæla sögu, blóts Ljóts á Hrolleifsstöðum. Sumargjafir eru þekktar allt frá 16. öld og þær því miklu eldri en jólagjafir.
Fyrsti dagur sumars var frídagur frá vinnu hér áður fyrr og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við nágranna. Þá var dagurinn einnig helgaður ungum stúlkum og stundum nefndur yngismeyjadagur. Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á. Um miðja 19. öld þegar skipulega er byrjað að safna alþýðu heimildum kemur fram að sumardagurinn fyrsti hafi verið mesta hátíð ársins næst á eftir jólunum.
Þó það sé hvergi sagt berum orðum í lögum, virðast hafa verið litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum, og enn er svo um aldur húsdýra. Lengi vel eftir kristintöku var messað og lesinn húslestur á sumardaginn fyrsta. Það þekktist hvergi annars staðar. En þegar eftirlitsmenn danskra kirkjuyfirvalda uppgötvuðu þessa íslensku sérstöðu um miðja 18. öld létu þeir banna messur á þessum degi.
Árstíðaskipting er með ýmsu móti í heiminum. Samkvæmt gamla íslenska tímatalinu er árinu skipt í tvo nærri jafnlanga helminga, vetur og sumar sem mætast á sumardaginn fyrsta. Þó svalt sé oft í veðri á þessum árstíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því dagarnir frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin eru hlýjustu dagar ársins. Nú til dags teljast árstíðirnar fjórar á Íslandi, stendur veturinn frá og með desember til og með mars, vorið er þá apríl og maí, sumarið júní til september og haustið er október og nóvember, samkvæmt skilgreiningu Veðurstofu Íslands.
Víðast hvar í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum eru árstíðirnar taldar jafnlangar, vetur er þá desember til febrúar, vorið mars til maí og svo framvegis. Að eldri hætti var vorið í Evrópu talið byrja við vorjafndægur, sumarið við sumarsólstöður, haustið við haustjafndægur og veturinn hófst við vetrarsólstöður. Allar þessar skiptingar eiga rétt á sér og eru skynsamlegar á sinn hátt. Víða í heiminum eru aðrar skiptingar.
Gamla íslenska misseristalið var eitt fullkomnasta tímatal síns tíma og full ástæða til að sýna því þá ræktarsemi sem það á skilið.
Nú hefur vetur af vörum spýtt
virðist sá oft galinn.
Komið er sumar sælt og blítt
og sólin skín um dalinn.
Svarri
Heimildir;
http://www.vefir.nams.is
http://www.arnastofnun.is
http://www.is.wikipedia.org
http://www.visindavefur.is
Gamla tímatalið | Breytt 5.12.2015 kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2015 | 21:03
Níu heimar
Það er ekki á hverjum degi sem greinaskrif hræra upp í skilningsvitunum. Greinin sem um ræðir er frá því 2010, eftir A. True Ott PhD sem skreytir sig með háskólagráðu í listum frá Cedar City University, Utah 1982 og doktorsgráðu í heimspeki frá American College, Washington DC 1994. Það er með ólíkindum að maður sem hefur dvalið á æðri menntastofnunum í áratugi hafi heilabú til að skrifa slíka hugvekju.
Enda kom í ljós þegar gæinn var gúgglaður að þarna er á ferð gyðingahatari sem logið hefur upp á sig gráðum rétt eins og hver annar framsóknarmaður auk þess að vera þjóðernissinni með tengsl við ný-nasista og öfga kristna, í ofanálag djöfladýrkandi. Þetta höfðu rannsóknarblaðamenn áreyðanlegra fjölmiðla komist á snoður um varðandi A. True Ott og sett hefur verið upp heimasíða svo fólk geti varast fýrinn. það er því með hálfum hug sem ég birti þessar hugleiðingar sem byggðar á eru hugvekju hans um níu heima og slæðurnar sem þá hylja.
Til að sjá bak við hulurnar sem leyna vitundina heimana níu er gagnlegt að hafa í huga að forn hugmyndafræði gerði ráð fyrir að ákveðin öfl stýrðu okkar lífi. Dulspekin gerir einnig ráð fyrir að heimarnir sem umlykju okkur séu fleiri en þessir þrír sem kirkjan bauð upp á í árhundruð, þ.e.a.s. jarðlífið, himnaríki og helvíti.
Nærtæk er goðafræðin sem kennd er við Ásatrú sem gerði ráð fyrir níu heimum, hafði eigin sköpunarsögu og þeir sem hafa kynnt sér það sem nýlega hefur lekið út á alheimsnetið, þ.e. Annunaki geta fundið samsvörun í Völuspá. Heimurinn virðist því ævinlega vera sú hugmynd sem samþykkt er af fjöldanum á hverjum tíma, jafnvel þó tálsýn sé. Speki goðafræðinnar væri rangt að telja til trúarbragða, miklu frekar væri að telja hana til hugmyndar fólks um heim þess tíma og lífsviðhorfa sem honum tengdust.
Að sumu leiti liggur það í augum uppi að heimarnir sem umlykja okkur eru fleiri en við viðurkennum, þetta er nokkuð skýrt hjá barnsálinni þar til henni hafa verið innrætt lífsviðhorf rökhyggjunnar. Flestir áhangendur innrættrar rökhyggju, sem láta þó það uppi að þeir trúi á trúleysið, telja að stærðfræðilegur sannleikur talnanna getur hvorki falið í sér dulspeki né trúarbrögð. En þær geta samt sem áður villt sýn eftir því í hvaða samhengi þær eru fram settar.
A. True Ott bendir á að tölurnar eru ekki margar, eða alls níu á bilinu 1 9 sem þarf til að fá allar útkomur. Yfirleitt er talnafræði kennd almenningi til reiknings eða stærðfræði og mikið notaðar nú á tímum til að sýna fram á lygilega hagfræði. Stundum er samsetning talnanna kennd sem brotareikningur í formi þokugrárrar algebru þar sem barnsálin rammvillist í ósýnileka óþekktra stærða, en sjaldnast eru töfrar talnanna kynntir sem heilög rúmfræði (sacret geometry).
Þess virðist því vera vandlega gætt að töfrar talnanna séu huldir barninu þegar því eru innrætt notagildi þeirra, kannski er þetta gert til þess heimarnir sem umlykja barnsálina trufli ekki við það að búa til nýtan þjóðfélags þegn. Svo markviss er 2+2=4 akademían að margt sem áður var þekkt eru orðið að afgangsstærð. Þannig að flest börn sem breytast í rökhugsandi menntamenn sem vilja láta taka sig alvarlega, skila auðu varðandi tilvist himnaríkis og helvítis fyrir trú sína og von á hagvöxt jarðlífsins.
Hvað ef okkur væri innrætt tölfræði á töfrandi grunni?
(1 x 8) + 1= 9
(12 x 8) + 2 = 98
(123 x 8) + 3 = 987
(1234 x 8) + 4 = 9876
(12345 x 8) + 5 = 98765
(123456 x 8) + 6 = 987654
(1234567 x 8) + 7 = 9876543
(12345678 x 8) + 8 = 98765432
(123456789 x 8) + 9 = 987654321
Magnað er það ekki; fullkomin speglun, As Above, So Below, ætli lífsins tré hafa svipað til þessa þegar búið var að umreikna þess óendanlega óþekktu stærð?
Það er kannski ekki undarlegt að helstu hugsuðir heimsins hafi verið talnaglöggir s.s. Arkímedes, Copernicus, Sókrates og DaVinci. Það ætti að vera jafn auðvelt skilja að allt frá spádómum Biblíunnar til DNA stiga nútímans er byggt á mynstri einfaldra talnaformúla. En hvað kemur það þessum níu heimum við?
Íhugum ef svokallaðir mystery schools, skólar galdra til forna, þar sem seiður ásamt þekkingu á heilagri rúmfræði vísaði veginn til þess sem ætti að vera hverjum nytsamt, þ.e. uppgötvunum á tilurð þessa heims þar sem sköpun hans væri opinberuð. Að halda því fram að opinber menntun sé til þessa að rugla barnsálina í ríminu, er auðvitað bara samsæriskenningin. En hversvegna er svona erfitt að sjá þann sannleika sem mun gera okkur frjáls?
Því telur A True Ott best svarað með orðum sem hann eignar vini sínum Don Harkins. Á undanförnum árum hef ég leitast við að setja fram kenningar varðandi það hvers vegna fólk sér ekki sannleikann, jafnvel þó það fái hann óþveginn beint í andlitið. Þau okkar sem eiga auðvelt með að sjá samsærið hafa örugglega átt óteljandi samræður við fólk sem gremst það að deilt sé á stofnanir samfélagsins, jafnvel þó að færa megi fram skjalfest rök fyrir því hvernig kerfið er markvist notað til að koma okkur í ánauð svo hægt sé að nota okkur í þágu hagvaxtar hinna fáu. Líklegasta skíringin á þessu er sú að fólk vilji hreinlega ekki sjá hvað er að gerast
Því er oft þannig farið að heimsins ráð brugga vondir menn, sem koma því þannig fyrir að grasið er grænna hinu megin við lækinn þannig að við sækjumst eftir glysinu líkt og asni sem eltir gulrót, tilhneiging er til að líta á þann sem á það bendir sem samsæriskenninga smið. Enda ráða heimsins öfl launuðum störfum, fjölmiðlum og afþreyingu sem eitthvað kveður að. Meir að segja tímaritið Forbes greinir frá því árlega að 1% íbúa jarðar ráði yfir 50% af auði hennar, svo má ætla innan við 1% íbúa heimsins sjái eitthvað samsæri við það í gegnum hulurnar.
Það er ekki þannig að þeir sem ekki sjá frelsið hverfa ofan í hagvaxtar skrímslið vilji ekkert sjá og haldi ráðabruggi vondra manna gangandi meðvitað. þeir einfaldlega geta ekki séð hvað er að gerast vegna þess að trúin á að heimurinn sé ekki annað en okkar innrætta útgáfa af jarðlífinu lokar sýninni á aðra heima og svo er þetta auðvitað líka atvinnuspursmál.
Fyrsta heimur mótast af stjórnmálum og efnislegu umhverfi, að vera virkur í samfélaginu með því að kjósa á milli viðtekinna viðhorfa. Skoðanir taka mið af efnahagsmálum; við vitum af uppeldinu að það á að bera virðingu fyrir embættismönnum, fjölmiðlar fara með sannleika, undirstrikaðan af helstu sérfræðingum samfélagsins. Níutíu prósent okkar munu lifa og deyja án þess að svo mikið sem efast um þessa heimsmynd.
Annar heimur, þeir sem þangað koma munu kanna söguna, tengslin milli einstaklingsins og stjórnvalda í hennar ljósi. Öðlast skilningi á því hvernig valddreifing getur stjórnskipulega farið saman við stjórnarskrárbundnum réttindum einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að leita lengra þrátt fyrir að gera sér grein fyrir að ríkisvaldið hefur í gegnum tíðina sífellt gengið lengra á stjórnarskrárvarinn rétt einstaklingsins.
Þriðji heimur, þeir sem hingað kíkja mun finna óyggjandi sannanir fyrir því að auðlindir heimsins, þar á meðal fólk, er stjórnað af mjög auðugum ættum sem byggja á gömlum auði heimsins, sem þær viðhalda með nútímalegri fjárkúgun sem felst í því að skuldsetja hagkerfi þjóðanna. Níutíu prósent af fólki í þessum hópi mun lifa og deyja án þess að sjá meira.
Fjórði heimur, þeir sem í þennan heim sjá munu komast að því að það eru til leynileg samtök manna s.s. Illuminatti, frímúrarar ofl. sem styðjast við forna dulspeki, táknfræði og helgisiði. Þessi samtök eru byggð upp á svipaðan hátt og pýramídi þannig að upplýsingarnar færast frá breiðum grunni upp á toppinn þar sem þær komast í þjónustu fámenns hóps án þess að þeir sem starfa á lægri stigum hafi nokkra hugmynd um hvernig . Halda allt eins að þeir starfi í góðgerðasamtökum. Um níutíu prósent fólks, sem þó þetta sér, mun ekki sjá til næsta heims.
Fimmti heimur þar sem lærist að með leyndarhyggju hefur verið svo langt á veg komist að tæknilega er fjarhrifum, tímaflakki og heilaþvotti engin takmörk sett. Með því móti er hægt að stjórna hugsunum og gerðum fólks þannig að það gegnir, líkast því og þegar við segjum börnunum að fara að sofa. Líkt og á dögum syndaflóðsins er ákveðin tækni notuð af ráðandi öflum til að ráðskast með heiminn, rétt eins og ákveðnir menn fari með umboð Guðs.
Sjötti heimur þar sem komist er að því drekar, eðlur og geimverur sem við héldum að væri skálduð skrímsli barnabókmenntanna eru raunveruleg ráðandi öfl á að baki leyndarhyggjunni sem uppgötvuð var í fjórða heimi. Níutíu prósent af fólki í þeim hópi sem sér inn í þennan heim mun lifa og deyja án þess gægjast í þann sjöunda.
Sjöundi heimur er ótrúlegur heimur heilagrar rúmfræði þar sem lögmál alheimsins verða skilin og meðtekin. Frumsköpunarkraftur alheimsins verður að fullu sýnilegur í formi tölulegra "leyndardóma" þar á meðal tilurð tíma og rúms, hliðstæðra heima, og aðgangur að þeim opinberast. Þeir snilldarhugsuðir sem komast í þennan sjöunda heim munu flestir láta glepjast af loforðum um stórfelldan auð úr hendi elítunnar, og þannig munu yfir níutíu prósent þeirra sem hingað komast lifa og deyja án þess að vísa fjöldanum veginn og kynnast þeim áttunda.
Áttundi heimur er þegar við sjáum í gegnum blæjuna sem kom í veg fyrir að við greindum ljós almættisins, þar upplifum við þá hreinu orku sem gengur undir heitinu skilyrðislaus kærleikur og fyrirfinnst í öllu í lífi á jörðu, sem er eitt og hið sama sama í hvaða formi sem er. Djúpstæðrar auðmýktar er þörf til þess að sjá í næsta heim.
Níundi heimur þar sem fullkomnunar hreinnar orku kærleikans er náð með því að verða eitt með almættinu og sköpunar þess. Með fullkomnun þessarar hreinu orku, mun kærleikurinn skapa fullan skilning á því að dauðinn er ekki fórn heldur endurlausn; lífið sjálft verður sannarlega hringferli þar sem þú munt munt líta heiminn á ný með augum saklaus barns, enn með skilningi sem það gaf og varð endanlega til við að uppgötva skilyrðislausan kærleika lífsins.
Það kaldhæðnislega er að því meira sem þeir upplýsa sem færir eru um að sjá umfram fjöldann, þeim mun geðveikari eru þeir taldir vera af fjöldanum. Jafnvel svo veikir að nauðsynlegt hefur talist að loka svoleiðis samsæriskenningasmiði inn á hæli, eða meðhöndla á þann hátt sem hentar tíðarandanum og auðkenna þá sem væntanlega hryðjuverkamenn. Í fyrstu tveimur heimunum lifir og hrærist yfirgnæfandi meirihluti fólks. Munurinn á þeim fyrsta og öðrum er í meginatriðum sá að þeir sem þekkja innviði annars heims útvega stjórnmálamönnum meðvitað fallbyssufóður á vígvöllinn með því kjósa þá áfram í hreinni firringu. Þeir sem hafa heimsótt 3 5 heim gera ríkisvaldinu erfiðra fyrir að hygla elítunni með ábendingum sínum, en með því fórna þeir oft tengslum við vinafólk og fjölskyldu. Verðlaunin verða svo þau að vera taldir ruglaðir af megin þorra fólks.
Ekki þurfti samt háskólagráðurnar hans A. True Ott til að uppgötva þetta allt saman. Í þjóðsögunum íslensku má vel sjá að fólk hafði vitneskju um hina ýmsu heima í gegnum aldirnar sem þykja kannski ekki eiga erindi við daginn í dag. Þriðja bindi þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar hefur að geima álfasögur og þar má finna söguna af Steini á Þrúðvangi, sem var bóndi á austanverðu Íslandi skömmu eftir að kristni var meðtekin, og samtali sem hann varð vitni að þar sem hann dormaði á milli svefns og vöku á jóladag; ,,,sjáið samt til að elskan hvort heldur á hlutum til dæmis auðæfum eður persónum verði svo sterk að elskan til Guðs tapist með öllu. Í einu orði ef þér gætuð viðhaldið þessum tveimur grundvallarstólpum Lúsífersríkis, hatri og óleyfilegri elsku, þá mun allt annað illt leggjast til: Guð og hans orða forakt, óhlýðni við yfirboðarana, manndráp, hórdómur og blóðskammir, þjófnaður lygar og að ég ei tali um allra handa vondar girndir. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er útgáfa sögunnar af Steini á Þrúðvangi mun styttri, en þar segir af því þegar menn fréttu af vitrunum hans; Könnuðust menn þá við anda þessa og það voru þeir sem menn kalla jólasveina. Ganga þeir um byggðirnar og eru þá illir viðfangs, ránsamir og hrekkjóttir, einkum við börn.
Líkt og með jólasveinana sem voru einn og átta samkvæmt þjóðvísunni, þá hafði goðafræðin sína níu heima til að skýra myndina. Nú nægir einn heimur með einum jólasveini.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 28.2.2016 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.4.2015 | 07:36
Er landnáma lygi?
Hvað ef öll mankynssagan væri meira og minna lygi skrifuð af þeim sem valdamestir voru á hverjum tíma og skáldsagna ritarar á við Dan Brown færu nær sannleikanum? Það er reyndar oftast svo að ríkjandi öfl sjá um að skrásetja opinbera útgáfu sögunnar. Þegar Íslendingasögurnar eru skoðaðar þá má samt greina að þær hafa ekki verið skráðar undir handleiðslu Noregskonunga þó þær geymi heimildir sem til eru um upphaf konungsríkis í Noregi. Það virðist ekki hafi verið nein hefð fyrir sagnaritun í Skandinavíu þegar norðmenn námu Ísland né fyrir þann tíma, það má næstum segja að miðalda saga Noregs væri ekki til nema fyrir Ísland.
Hvernig stóð þá á því að saga þessa tímabils varðveitist á Íslandi? Ágiskun hefur m.a. verið uppi um að það sé vegna þess að á Íslandi séu langir og dimmir vetur og því hafi landsmenn drepið tímann með því að segja sögur af uppruna sínum og landnámi (874-930) mann fram að manni þar til einhverjir sáu ástæðu til að skrásetja þær, jafnvel mörghundruð árum seinna s.s. Snorri Sturluson upp úr 1200 og Landnáma einhvertíma upp úr 1100. Langir vetur með skammdegismyrkri eru ekki síður í Noregi svo varla kom þörfin fyrir það að skrásetja sagnahefðina þaðan með landnámsfólki.
Við lestur Völsungasögu vakna margar áleitnar spurningar s.s. hvernig stóð á því að sú saga varðveitist á Íslandi sem er talin hafa verið skráð 1270 en sögusviðið er Evrópa 800 árum fyrr á tímum Atla Húnakonungs (406-453) auk þess sem Völsunga saga hefur að geyma heimildir um hugsunarhátt heiðinna manna og sögu norrænnar goðafræði sem ríkjandi var í norður Evrópu þess tíma.
Egils saga sem er talin hafa verið rituð um 1200 segir frá atburðum í Noregi, Englandi og víðar í Evrópu á tímabilinu 850-1000. Egilssaga segir svo háðuglega frá Noregskonungum að útilokað er annað en sögunni hefði verið eitt af samtíma konungum í Noregi hefðu þeir vitað af tilvist hennar. En hvað sem öðru líður þá segir sagan á hárnákvæman hátt frá Noregi þess tíma auk þess að gefa magnaða innsýn í heiðinn hugarheim í gegnu Egil. Það hefur komið betur í ljós eftir því sem fornleifarannsóknum hefur fleytt fram hvað Egilssaga er nákvæm heimild.
Grettis- og Laxdælasaga geta landnámsfólks sem kom frá Skotlandi. Önundur einfætti forfaðir Grettis fór til Suðureyja Skotlands til að þola ekki ofríki Haraldar hárfagra Noregskonungs. Laxdæla greinir frá landnámi Auðar djúpúðgu sem kom frá Skotlandi og hefur tengsl við konung á Írlandi. Báðar þessar sögur gera sambandi sögupersóna við Noreg góð skil en geta þess aðeins lauslega hvar þetta fólk hafði alið manninn við Skotland.
Eina kenningu sem lítið hefur farið fyrir, um landnám Íslands og tilurð íslendingasagna, má finna í ritgerða safni Jochum M Eggertsson frá 1948. Þetta ritgerðasafn heitir einu nafni Brísingamen Freyju og kemur inn á norræna goðafræði, rúnaletur ofl. Í 5. kafla er svo kenning um hvernig Ísland byggðist sem einna helst má líkja við skálsöguna Da Vinci Code, enda var Jochum ekki hátt skrifaður hjá fræðimannasamfélaginu. Þrátt fyrir merkilegar rannsóknir sínar varð hann aldrei annað en utangarðs fræðimaður.
Í 5. kafla Brísingamens Freyju leggur Jochum út frá orðum Gísla Oddsonar biskups í Skálholti á árunum 1632-1638, sem Gísli lætur falla í bók sinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands. En þar segir biskup: "Þann 18. Apríl, 1638 byrja ég á lýsingu þeirra undraverðu hluta, sem fyrir koma í föðurlandi mínu, og vildi ég óska, að árangurinn yrði að sama skapi farsæll, sem viljinn er einlægur, hugurinn hreinskilinn og áhuginn fyrir sannleikanum.
Síðan bendir Jochum á merkilegan hluta í frásögn Gísla biskups í kaflanum Jarðskjálftar og ýmiskonar hræðileg eldgos; -Til þess að ég þreyti ekki lesarann eða virðist ætla að segja neitt ógeðfellt, mundi ég engu bæta við þetta, ef gagnstæður kraftur skapferlis míns kallaði ekki fram í huga mér á þessum stað, að ég hef fræðst um það af gömlum annálum fornmanna, að ófreskju skuggar og áþreifanleg Egipsk myrkur hafi einhvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin. En þetta eru ekki þau myrkur, sem taka alveg fyrir sól og dagsljós og koma af sandskýjum á vissum stöðum og í fjöllum, á meðan þau eru að spýa eldi, heldur einhverjir aðrir furðulegir skuggar".
Þessa frásögn Gísla Oddsonar telur Jochum vera stórmerkilegan útúrdúr frá efni bókarinnar og að Gísli hafi haft aðgang að fornum annálum í Skálholti sem greindu frá falinni fortíð. Eins sagðist Jochum sjálfur hafa yfir hinu glataða fornriti Gullbringu að ráða þar sem kæmi fram ítarlegri útgáfa af landnámi Íslands en um væri getið í Landnámu sem getur þess þó lítillega að fyrir í landinu hafi verið fólk af keltneskum uppruna.
Sú útgáfa sem kemur fram í Gullbringu er í stuttu máli á þá leið að þegar þeir landnemar komu til Íslands frá Noregi sem vildu forðast ofríki Haralds konungs hárfagra var fyrir á Ísland byggð. Nánar tiltekið hafi sú byggð átt uppruna sinn að sækja til eyjarinnar Iona sem er ein af Suðureyjum Skotlands. Á Iona hafi verið varðveitt viska sem rekja megi til Egipsku píramídana. Þessi vitneskja sem síðar var kennd við galdur hafi upphaflega verið til staðar í fornum menningarheimum en flust frá Egiptalandi til Iona eyja sem eru í eyjahafi Grikklands, þaðan hafi fræði þessarar visku flust til Hebredes eyjar í Suðureyjum Skotlands og þaðan til smá eyjar í Suðureyjum sem hafi fengið nafnið Iona eftir hinum Grísku eyjum. Eins kemur fram hjá Jochum að Skotland hafi verið nafn á Írlandi á þeim tíma. Þegar ekki var lengur öruggt að varðveita þessa launhelgu visku á eyjunni Iona við Skotland var hún flutt til Íslands u.þ.b. árið 700, nánar tiltekið til Krýsuvíkur.
Þetta gerist löngu fyrir landnám og tekur þetta fólk sem fyrir er á Íslandi vel á móti flóttafólki þegar landnám norrænna manna hefst. Eins segist Jochum þess fullviss af heimildum úr fornritinu Gullbringu að Íslendingasögurnar séu m.a. ritaðar að undirlagi Kolskeggs vitra Ýberíasonar sem hafði aðsetur í Krýsuvík, m.a. kemur fram að mestur hluti Heimskringlu Snorra sé upphaflega rituð af Grími Hrafnsyni af Mýramannakyni auk þess sem hann hafi ritað Egils-sögu Skallagrímssonar frænda síns. Grímur þessi hafði aðsetur á Vífilsstöðum ásamt Jóni hinum gamla Kjarvalssyni, þar sem fræðisetur á að hafa verið samhliða því í Krýsuvík. Þeir Jón Kjarvalsson og Kolskeggur vitri Ýberíason eiga að hafa samið Völuspá og Hávamál.
Því sem næst 200 árum seinna á Snorri Sturluson, sem var að upplagi íslenskur höfðingi en ekki fræðimaður, að hafa komist yfir rit þeirra Krýsvíkinga og gert sér grein fyrir um hverskonar verðmæti var að ræða, ráðið til sín skrifara til að endurskrifa og varðveita heimildirnar. Þegar þessi fornu rit voru endurrituð á skinn undir handleiðslu Snorra hafi pólitískt ástand á Íslandi og staða Snorra (sem var lénsmaður Noregskonungs) verið með þeim hætti að það hafi frekar verið varðveitt úr þeim sem var hliðhollara Noregskonungum.
Örlög Kolskeggs, sem á að hafa verið drepinn 1054 í Kapelluhrauni, urðu þau að með tímanum fékk hann nafnið Kölski í íslenskri tungu, þar sem þau fræði sem upprunnin voru úr fornum menningarheimi og varðveitt voru í Krýsuvík þóknuðust ekki kirkjunni. Megi rekja upphaf þess til laga sem sett voru á alþingi 1032 og um er getið í Grettissögu en þar segir "að allir forneskjumenn skyldu útlægir af landinu".
![]() |
Segir Kverkhelli frá um 800 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 24.1.2017 kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2015 | 10:16
Sakleysið uppmálað.
Veturinn 2010 kom ASÍ að því ásamt stjórnvöldum og Vinnumálastofnun, að móta það sem þeir kölluðu þá "metnaðarfulla áætlun um átak á sviði menntunar og vinnumarkaðsúrræða" til næstu ára. Aðrir aðilar vinnumarkaðarins voru einnig sagðir taka þátt í þessari metnaðarfullu áætlun.
Áætlunin var fjármögnuð fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar og stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þessi "metnaðarfulla" áætlun, sem hrint var í framkvæmd atvinnuleysisveturinn mikla 2010, gekk út á að hvetja atvinnulausa í nám af atvinnuleysisbótum.
Til að fjármagna dæmið í upphafi var það sem sparaðist í greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóð notað, síðan varð námsfólkið sem varð til fyrir þennan "metnað" að fjármagna sig á lánum til að lifa.
Núna 5 árum seinna koma sömu aðilar fram og segja að "Ísland þurfi að gera mun betur í þessari greiningavinnu" þegar í ljós er komið að ekki er þörf fyrir allt það háskólamenntaða fólk sem til er orðið eftir að það hefur verið glapið til að draga fram lífið á námslánum árum saman í stað þess að njóta lögbundinnar aðstoðar í gegnum tímabundið atvinnuleysi.
![]() |
Lítil þörf fyrir hópa menntafólks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.3.2015 | 06:18
Einmánuður.
Einmánuður er sjötti mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar, eða 20. til 26. mars. Elstu heimildir um einmánuð eru úr Bókarbót frá 12. öld og Skáldskaparmálum Snorra Eddu frá 13. öld. Hann ásamt gormánuði, þorra og góu eru einu mánaðarnöfnin í gamla norræna tímatalinu sem koma fyrir í fleiri en einni heimild. Líklega er nafnið dregið að því að hann var síðasti mánuður vetrar líkt og orðið eindagi sem þýðir síðasti dagur.
Fyrsti dagur einmánaðar er helgaður piltum eins og harpa stúlkum og þorri og góa húsbændum og húsfrúm og kallaður yngismannadagur. Áttu stúlkur þá að fara fyrstar á fætur til að taka á móti einmánuði og veita piltum glaðning.
Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um vorverk í Einmánuði að ef vorgott væri þá væri hentugur tími að stífla vatn, sem veitast skal yfir land svo vatnið standi þar á meðan vorleysing er mest. Það átti að vera vegna þess að það grugg, sem setur sig undir leysingavatnið á meðan það stendur yfir landinu væri betra en nokkur áburður.
Eins að sá sem vill ná grjóti upp úr jörð, því sem upp úr stendur, hann geri það þá þegar jörð er hálfa alin þíð ofan til eða nokkuð minna. Þá væri það bæði lausast og ylti líka á klakanum svo erfiðið yrði minna.
Einmánuður er auk þess að vera síðasti mánuður vetrar, sá þriðji af útmánuðum en svo voru þrír síðustu mánuðir vetrar kallaðir, þau þorri, góa og einmánuður. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. Í gamla daga gat þessi síðasti mánuður vetrar verið fólki erfiður. Ef til vill var matur af skornum skammti og lítið hey handa búfénaði. Eftirfarandi vísa um útmánuði er úr Rangárvallasýslu og er eignuð álfkonu:
Langi Þorri leiðist mér
lata Góa á eftir fer.
Einmánuður yngstur er,
hann mun verða þyngstur þér.
Í þjóðsögum austfirðingsins Sigfúsar Sigfússonar er þetta haft eftir álfkonu; Þurr skyldi þorri, þeysin góa, votur einmánuður og þá mun vel vora.
Heimildir: http://is.wikipedia.org/wiki/Einm%C3%A1nu%C3%B0ur
Gamla tímatalið | Breytt 14.4.2021 kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2015 | 19:24
Grái úlfurinn.
Árið 2011 kom út bókin "Grey Wolf: The Escape of Adolf Hitler" eftir Simon Dunstan, þar sem því er haldið fram að Hitler hafi dáið í Argentínu 1962.
Þá þóttu mér það svo mikil tíðindi að vel rökstudd bók um þetta efni væri að koma út, að ég hafði orð á því við Pólskan vinnu félaga minn. Honum þótti lítið til þessara frétta koma, sagði að þetta vissi annarhver Pólverji, það mætti bara ekki tala um það.
![]() |
Fundu leynistað nasista í Argentínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2015 | 21:09
Vorjafndægur.
Það rökkvaði stutta sund í Reykjavík við sólmyrkvann í morgunn.
Í dag eru jafndægur að vori, þá eru dagur og nótt jafnlöng. Með orðinu jafndægur er átt við þá stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar, sem í fornu máli hét jafndægurshringur, og dagur og nótt eru jafnlöng um alla jörðina.
Notuð eru orðin og orðasamböndin vorjafndægur, vorjafndægri, jafndægur á vori og jafndægri á vori og eru þau á tímabilinu frá 19.-21. mars en haustjafndægur, haustjafndægri, jafndægur á hausti eða jafndægri á hausti eru á bilinu 21.-24. september.
Orðið jafndægur er til í skyldum málum. Í dönsku er til dæmis talað um jævndøgn. Í latínu var talað um aeqvinoctium af aeqvus "jafn" og -noctium sem leitt er af nox "nótt". Í hinu forna Rómaríki var því miðað við nóttina en hér í norðri við daginn.
Til forna var upphafsdagur ársins ýmist miðaður við vorjafndægur , haustjafndægur eða vetrarsólstöður. Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu segir um vorið að það sé frá jafndægri að vori til fardaga en þá taki við sumar til jafndægurs á hausti. Vorið nær því samkvæmt því frá 19. til 21 mars og fram að fardögum sem voru á fimmtudegi í 7. viku sumars eða á bilinu 31. maí til 6. júní.
Í dag var jafnframt sólmyrkvi kl. 10:37 þannig að á þessum vetri ríkti myrkrið örlítið lengur en vanalega, ef tekið er tillit til þess að sól er yfir miðbaug klukkan 22:45 að kvöldi.
Það má segja að veturinn í vetur hafi einnig verið hryssingslegri en undanfarin ár. því læt ég fylgja með ljóð eftir Egilsstaðabúann Svein Snorra Sveinsson sem má finna á vegg vallarhúss Vilhjálmsvallar á Egilsstöðum. Þar hef ég notað upphitaðar hlaupabrautir til að staulast í hringi frekar en að paufast á svelli. Það má segja að þetta ljóð lýsi vel mínum vetri.
Von
Í frosnu vetrarhjarta
býr ævagamalt loforð
um að vorið
leysi klakabönd
og hjartað slái
á ný.
Sveinn Snorri Sveinsson
Heimild: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=53774
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2015 | 17:25
Rugludallar
Dægurmál | Breytt 30.6.2018 kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)