7.12.2021 | 05:47
Aðventusaga - níu líf kattarins og kraftaverk flugunnar
Það þarf ekki alltaf að vera svo að hrakföll leiði til ófarnaðar. Á þetta var ég minntur fyrir skemmstu þegar vinnufélagi á táningsaldri í steypunni hafði hringt á mánudagsmorgni og boðað forföll. Hann hafði lent í óhappi kvöldið áður, hafði missti stjórn á bíl í krapa með þeim afleiðingum að bíllinn þeyttist út af veginum, endastakkst og kútveltist áður en hann lenti svo aftur á hjólunum. Sjálfur hafði vinnufélaginn flogið út um hliðarrúðuna og lent mjúklega í sinumóa, stóð upp til að slökkva ljósin á bílnum og hringja eftir aðstoð.
Hann sagði þegar hann hringdi í vinnuna að það amaði ekkert að sér, en þau á sjúkrahúsinu vildu halda honum inni til öryggis, en hann vonaðist til að geta mætt þegar liði á daginn. Þó svo að hann hafi ekkert mætt þennan mánudag var hann mættur galvaskur fyrir klukkan átta daginn eftir alveg órispaður að sjá og kannaðist ekki við að neitt væri að sér, að vísu væri hann aðeins aumur í hnénu, en það væri vegna þess að hann hefði verið að eltast við rollur á laugardeginum.
Við gömlu steypukallarnir ræddu það hvort það væri gæfa eða gjörvileiki sem skildi á milli, eða jafnvel hvoru tveggja. Sá sem yfirleitt hittir naglann á höfuðið sagði; svona sleppa menn ef þeir ná því að vera eins og fluga. Ég spurði hvað hann meinti. Hann sagði að flugan gæti stoppað tímann. Þegar það ætti að slá hana, flygi hún undan högginu akkúrat á því augnabliki sem hún hefði átt að verða að klessu. Þetta gerðist vegna þess að flugur sæju atburða rásina fyrir fram, ramma fyrir ramma og næðu að hugsa hvernig best væri að bregðast við á meðan tíminn stæði í kyrr á milli ramma. Ungi félagi okkar hefði séð að best væri að láta sig svífa út um hliðargluggann á hárréttu augnabliki til að geta haldið áfram að lifað lífinu.
Ég hef stundum haft þá speki yfir ungum vinnufélögum á andaktinni, að þeir verði að hafa það á bak við eyrað að mannslíkaminn toppi á tuttugasta og níuna aldurs ári. Eftir það liggi leiðin niður á við og ef einhver líf af níu lífum kattarins séu eftir 29 ára aldurinn taki hvert líf sinn toll. Sá sem best hittir naglann á höfuðið skýtur þá stundum inn í, að hugurinn haldi áfram að vera 29 ára fram undir sjötugt, þannig að svona speki sé nú til lítils. En af eigin reynslu þekki ég það að endastingast á hjóli eða mótorhjóli, jafnvel fara flikk-flakk og heljarstökk er ekkert tiltökumál fram undir þrítugt, án þess að hálsbrotna. En eftir það verður voðinn vís.
Fyrir 30 árum var ég á ferð í Lóni á samskonar bíl og ungi vinnufélagi minn, léttum og sprækum pikcup á túttum. Þá var einbreitt bundið slitlag víða á hringveginum, m.a. í Lóni. Vegna augnabliks andvarleysis lenti bíllinn með hjólin öðru megin út fyrir slitalagið með þeim afleiðingum að hann fór að rása. Framundan var einbreið brú þannig að ég gaf allt í botn til að keyra bílinn upp úr því að rása. Það gekk að hitta brúna og ég taldi mig í eitt augnablik hólpinn. Framundan var smá beygja og brekka, en þar affelgaðist framdekk með þeim afleiðingum að bíllinn endastakkst og sveif hátt í 15 metra, -eftir því sem ég komst að seinna, -áður en hann kom niður á skúffu gaflinn í vegkantinum.
Það kom sem sagt ekki til af góðu þegar þetta uppgötvaðist með 29 árin, níu líf kattarin og að flugan yrði ein til bjargar eftir þrítugt. Ég var að flýta mér heim frá Reykjavík eftir vinnutörn og átti eftir hálftíma heim á Djúpavog á stjörnubjörtu kvöldi og nýju tímameti, þegar bíllinn fór þetta heljarstökk með þeim afleiðingum að ég fór út í gegnum framrúðuna og niður í götu. Mín síðasta hugsun, meðan tíminn stóð kyrr á milli ramma, og rétt áður en ég setti hausinn í gegnum framrúðuna, var sú að þetta væri ekki búið ég væri ekki kominn heim til Matthildar minnar og barnanna. Allt sem ég ætti eftir að gera rann í gegnum hugann í algjörri kyrrð.
Þegar ég stóð upp af malbikinu úti í stjörnubjartri desembernóttinni, sá ég bílinn í fjarlægð fyrir utan veg upp undir klettum eins og upp lýstan. Ég gekk að bílnum en komst ekki lengra inn, en til að liggja í gólfinu við símann, þar þraut mig allan kraft. Þegar ég ætlaði að hringja heim náði ég fyrstu stöfunum í númerinu, en svo hvarf síminn í blóði ásamt sjóninni. Það svaraði maður á Hornafirði. Þá mundi ég ekki lengur hvar ég var, en taldi að ég væri rétt fyrir sunnan Höfn, og vonaði að maðurinn héldi ekki að ég væri blindfullur. Hann lét tengdamóður sína hafa símann, fór út og hafði samband við lögreglu. Konan talaði við mig þangað til að ég allt í einu mundi að ég var við Reyðará í Lóni, talsvert fyrir norðan Höfn. Hún lagði þá á til að geta hringt og látið vita.
Þetta var áður en símar voru í hverjum lófa, í bílnum var Dancal NMT og því hundaheppni að símasamband var þar sem bíllinn stóð upp undir klettum talsvert fyrir utan veg. Áður en sjúkrabíll og lögregla komu á staðinn hafði fólk frá Djúpavogi komið að slysinu, farið svo heim að Reyðará og fengið teppi til að breiða yfir mig þar sem ég lá úti í frostkaldri nóttinni. Ég heyrði þau tala saman en sá ekki neitt og hafði ekki mátt til að tala.
Síðan tók við flugferð til Reykjavíkur aftur, og erfiðasti sólahringur sem ég hef lifað, með klesst andlit, brotinn haus, slitna öxl og samfallna hryggjarliði. Fyrstu klukkutímana var ég sjónlaus með blæðandi úr eyra og heyrði sagt "við erum að missa hann" en það var mikill misskilningur því í mínum huga var það alveg á hreinu að ég var á leiðinni heim til alls þess sem ég átti og ef þau voru að missa eitthvað þá voru það sjúkrabörurnar. Þar að auki var ég á leiðinni til þeirra óþrjótandi verkefna sem í jólavinnutörninni urðu að lukkast til að halda sýslumanninum rólegum. Það var svo skítið með sýslumenn að þeir ærðust á aðventunni á þessum árum.
En á þessari aðventu upplifði ég kraftaverkið. Á öðrum degi á Borgarspítalanum var ég farin að finna batamerki, sérstaklega eftir að sérfræðingarnir á háls, nef og eyrna komu til að kíkja á mig með gorm, svipaðan og er notaður til að beygja rafmagnsrör, tróðu honum upp i nasirnar á mér þangað til að ég fann fyrir honum lengst niður í koki, rugguðu svo til nefinu svo gnast í og spurðu svo; geturðu nú andað með nefinu. Foxillur með samanbitna skolta kinkaði ég kolli. Þeir höfðu á orði þegar þeir stormuðu frá rúminu að á þennan þyrfti að kíkja betur. Það væri öruggt að hann sæi tvöfalt og að bitið væri skakkt þannig að það þyrfti að raspa af tönnunum og rétta stefnuna á blóðsprengdum glyrnunum.
Tveimur dögum seinna var komið til að flytja mig í hjólastól niður á háls, nef og eyrna. Þangað var mér trillað og sagt að bíða. Þar var mikið um að vera. Úr litlum sofandi polla voru rifnir hálskirtlarnir, hann réttur í fangið á foreldrunum um leið og blóðugir kirtlarnir glumdu í rusladallinum. Mér varð hugsað til frásagnar vinnufélaga míns af svipuðum atburði, sem ég hafði ekki trúað, en sá nú að var sannleikanum samkvæm. Eins var ungur maður með skakkt nef sagt að leggjast upp á bekk og nefið skoðað varfærnislega áður en töng, sem falin var aftan við bak - svipuð og notuð er við útigrill, -var eldsnöggt skellt á nefið og snúið upp á þangað til small í með tilheyrandi angistarveini unga mannsins. Sérfræðigarnir skoðuðu síðan mig og sögðu sín á milli; -nei hann er ennþá of bólginn.
Það var eftir heimsóknina á háls nef og eyrna sem kraftaverkið gerðist. Eftir þá heimsókn stóð ég upp úr hjólastólnum, fór í símann og hringdi í hana Matthildi mína til að biðja hana um að koma með skósíða svarta frakkann, ég hefði verið útskrifaður. Hún hafði verið búin að gera sig klára til að yfirgefa börn og bú, leggja upp í langferð þvert yfir landið til að heimsækja mig og færa mér slopp á spítalann.
Þegar Matthildur mín kom og var búin að leggja svarta frakkann yfir axlirnar á mér, tilbúnum til brottfarar, stóð gamall maður fram á ganginum við sjúkrastofudyrnar, og studdi sig við stöng á hjólum, sem hafði að geima poka með næringu í æð og súrefni, hann sagði við Matthildi; -jæja, svo þú ætlar bara að fara heim með víkinginn þinn, -gangi ykkur vel. Ég hef alltaf síðan verið einstaklega ánægður ef ég er heiðraður með víkings nafnbótinni. Þetta var aðventusaga kattarins frá því árið 1991, og í dag eru akkúrat 30 ár síðan ég varð fluga.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.12.2021 | 05:03
Vísdómur hrafnsins
Það kemur fyrir að ég glugga í bók daganna og lít á gömul skrif. Haustið 2012 vann ég hjá Murbygg í Harstad. Við höfðum verið að vinna allt sumrarið norður í nesi finnanna. Það virtist vera heldur dauft fram undan varðandi múrverk hjá Murbygg þannig að ég hafði orð á því við Mette framkvæmdastýru hvort ég ætti ekki að taka mér vetrarfrí. Hugsanlega gæti hún samt lánað mig til Mortens múrarameistara í Finnsnesi.
Þessar hugmyndir blés Mette samstundis út af borðinu og sagði að það væri verkefni framundan í Evensmarka þar sem ætti að endurhlaða samískt fjós. Hún hefði hugsað sér að ég yrði í þessu verki ásamt öðrum hvorum norðmannanna Rune eða Allan til að byrja með, en síðan Sudananum Juma. Því Rune og Allan hefðu hvorugur áhuga fyrir verkefninu.
Við Mette og Rune fórum til að kanna þetta verk í desember. Þetta var hátt uppi í skóginum, undir háu fjalli, staðurinn heitir Gállogieddi. Eigandi bæjarins bjó niður við þjóðveginn um sveitina og átti að vera okkur til halds og traust meðan á verkinu stæði, með snjómokstur upp hlíðina og þess háttar. Annars var Samasetrið Vardobáiki með umsjón og fjármögnun verksins, þetta voru sem sagt fornminjar.
Þeim félögum mínum, ásamt eigandanum, leyst þannig á, að þetta væri illvinnanlegt verk. Hvað þá að vetrarlagi. Fjósið var hlaðið úr grjóti undir heyhlöðu og stóð þannig í brekkunni að farið var inn í hlöðuna af jafnsléttu að ofan, en neðri hlið fjóssins var öll ofanjarðar og með gluggum. Það var veggurinn sem snéri upp í brekkuna sem var að hruni kominn og hafði verið stífaður með plönkum með minna en meters millibili þvert yfir fjósið í neðri langvegginn.
Þegar við losuðum stein úr veggnum þá hrundi úr bakkanum inn í fjósið og voru flestir á því að öll brekkan kæmi inn í fjósið þegar losað yrði um stífurnar. Ég fór út og gekk hringinn í kringum húsið og sá að klöpp stóð upp úr götunni rétt upp við hlöðu dyrnar. Sunnan við fjósið og hlöðuna var svo smá klappar horn upp úr veginum. Þá rann það upp fyrir mér hvernig þessum stóru steinum, sem voru í veggnum, hafði verið fyrir komið, en þeir stærstu voru um 300 kg.
Þegar ég kom inn aftur sagðist ég vera viss um að það væri ekki mikill jarðvegur sem myndi hrynja úr bakkanum inn í fjósið, því það stæði upp við klett og þegar steinunum var hlaðið í vegginn hafi þeir verið látnir síga fram af klettinum. Þetta fannst öllum furðuleg staðhæfing og þó svo að ég fengi þau út til að sjá klapparnibburnar þá áttu þau erfitt með að sjá þetta fyrir sér. Það væri ekkert sem benti til þess að þetta væru ekki bara steinar sem stæðu upp úr. Ég bauðst til að teikna þetta upp og þá sæist hvernig í þessu lægi og hvernig væri best að standa að þessu verki.
Um kvöldið dundaði ég mér við að teikna fjósið, hvernig það stóð upp við klettinn áður en jarðvegurinn hafði verið fylltur að hliðinni þar sem hlöðudyrnar voru. Morguninn eftir hafði ég teikninguna með mér í vinnuna. Mette sagði strax að nú væri þetta auðskilið og þessa teikningu ætlaði hún að leggja fyrir skrifstofu Samanna í Vrdobáiki svo þau gætu tekið ákvörðun um hvort þau tæku áhættuna af því að fara í verkið að vetrarlagi.
Þess er skemmst að geta að við Juma vörðum vetrinum fram í mars við múrinn í fjósinu á Gállogieddi. Allt reyndist eins og ég hafði teiknað. Það sem meira var að bakkinn fyrir ofan hús beinfraus í bleytutíð þegar komið var fram í janúar. Þannig að ekki hrundi korn inn í fjósið, sem gerði verkið mun auðveldara. Þann jarðveg sem við þurftum að losna við urðum við að meitla burt með rafmagnsbrothamri.
Juma gat því frætt mig á fjölmörgum sögum úr heimahögunum. Sagði mér m.a. frá því þegar hann var smali kindahjarðar föður síns, hvernig þeir ferðuðust með hjörðinni yfir gresjuna mánuðum saman og létu hana ráða hvar nótt nam undir kolsvörtum afrískum stjörnuhimni. Aldrei hræddust þeir ljónin, enda tóku þau aldrei kind, en hælbítandi hýenurnar voru varasamar.
Áætlað var að verkið tæki tvo mánuði og stóðst það upp á dag. Við lok verks barst Murbygg þakkar bréf frá skrifstofu Samasetursins Vardábaiki og í framhaldinu var óskað eftir að fyrirtækið tæki að sér annað minja verkefni upp í Bláfjöllum á Vilgesvarre í Sandmarka.
Þetta hafði ég skráð í bók daganna að verki loknu:
Hinn sterki Súdani, Juma frá Darfur, ásamt mér gamla safnvíkingnum erum búnir að koma björgunum fyrir í múrinn. Eftir að hafa rifið niður 120 ára fallandi fjósmúrinn á samíska safninu á Gallogiedde og staflað honum upp aftur, -erum við sammála um að tækninni í byggingalist fer aftur í hárnákvæmu samræmi við það hvað menntun múrara fleytir fram. Það má sjá best á því að með öllum tæknibúnaði og þekkingu dagsins í dag hafa múrarar aldrei verið eins langt frá því að geta reist mannvirki á við pýramídana. Þess vega erum við bara nokkuð ánægðir með að hafa getað farið aftur í tímann við að endurhlaða fjósmúr Samana og teljum okkur þannig hafa komist 120 árum nær því að geta reyst pýramída.
Annars vorum við báðir farnir að hafa orð á því í lokin að réttast væri að treina sér jobbið. Það væri lúxus að klappa steinunum upp í fjallshlíðum, sötra kaffi þess á milli og virða fyrir okkur sveitina niður í dalnum, meðan ernirnir hnituðu hringi í uppstreyminu fyrir ofan fjallsbrúnina. Elgirnir voru að vísu fyrir löngu búnir að naga það sem þeir náðu í úr trjánum í túnfætinum og farnir í aðra haga. En í þeirra stað mættu hrafnarnir til þinghalds, svo þá gafst mér færi á að láta ljós mitt skína varðandi visku hrafnsins. Jafnvel fara með vísuna um krumma sem krunkar úti og kallar á nafna sinn.
Ég gat frætt Afríkumanninn á hrikalegri greind hrafnsins. Hvernig hann hefði fundið Ameríku fyrir víkingana langt á undan Kolumbusi. Einn daginn að loknum fjósverkum stóð Juma fyrir framan fjósdyrnar tilbúinn til heimferðar og beið eftir að ég drattaðist upp túnið, en ég hafði farið í ljósmyndaleiðangur niður að girðingu. Þá renndi hrafn sér niður hlíðina, þegar hann var rétt fyrir ofan höfuðið á Juma snéri hann sér á bakið í fluginu og skellti í góm með bjölluhljóm. Svo þegar hann kom yfir mig nokkrum vængjatökum neðar gerði hann nákvæmlega það sama, nema þá snéri hann sér á hinni hliðinni. Ég þurfti ekki að sannfæra Súdanann frekar um það að hrafninn væri fjölkunnugur fugl.
3.12.2021 | 21:43
Vögum vér og vögum vér
Sturluð sóttvarnaryfirvöld virðast hafa beðið almenning um að ganga af göflunum. Tæplega 8000 manns í sýnatöku í borginni í dag. Hvað margir yfir landið allt hafa ekki enn verið gefnar út tölur um. Það má allt eins ætla að sýnatöku pinnarnir frá Kína eigi eftir að valda stórauknu álagi á heilbrigðiskerfið á næstunni, ef ekki drepsótt.
Skimunarstýran segir bolmagnið hafa aukist enda séu þau sífellt að bæta við sig starfsfólki. Þá segir hún ekki tilfinnanlegan mun á fólki vegna Ómíkron-afbrigðisins, fólk taki þessu almennt rólega líkt og sóttvarnayfirvöld hafa biðlað til fólks um að gera. Skildi manneklan í sóttkví á Landspítalanum vita af þessu?
Í fjölmiðlum má sjá biðraðirnar hlykkjast um borg og bý í vetrarkuldanum þar sem grímuklætt fólk norpar í nepjunni, grunað um að vera smitað af lífshættulegu lungnakvefi sem gæti valdið drepsótt ef það fer út á meðal manna. Einhvern tíma hefði fólki verið rálagt að halda sig heima og fara vel með sig ef það efaðist um heilsu sína í stað þess að standa norpandi í biðröð.
Þegar ég fór heim úr vinnu í dag náði biðröðin niður á nes, enda greindist víst hvorki meira né minna en smit í leikskóla í gær. Börnin áttu fullt í fangi með að standa á svellunum skjálfandi úr kulda. En þetta stendur víst allt saman til bóta því áform eru uppi um fjölda bólusetningar í skólum eftir áramótin með vægari skammt af bóluefnunum sem virkuðu ekki, en passa þá uppá að gefa ungum karlmönnum ekki Moderna vegna hættu hjartabólgu.
Já -vögum vér og og vögum vér með vora byrði þunga upp er komið það áður var í öld Sturlunga í öld Sturlunga.
![]() |
Tæplega átta þúsund manns í sýnatöku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.12.2021 | 06:00
Hérasmellir - jarðarfarir
Síðast liðið sumar kom út bókin Hérasmellir sem inniheldur broslegar sögur af Héraði. Baldur Grétarsson tók efni bókarinnar saman, en 2017 hafði hann ásamt Jóni Inga Aðalsteinssyni tekið álíka efni saman og þeir gefið út bókina Hérasprettir.
Hérasmellir hefur m.a. að geima nokkrar stuttar frásagnir af jarðarförum þar sem sr Einar Þorsteinsson Eiðaprestur kemur við sögu. Einar tók við sem klerkur út-Héra af sr Sigurjóni Jónssyni á Kirkjubæ, sem hafði lengi verið guðsorðamaður á út-Héraði og þótti mikill hagyrðingur.
Þegar Einar prestur spurði sr Sigurjón forvera sinn hvernig honum hefði gengið prestsverkin á löngum embættisferli á Héraði, svaraði Sigurjón: Mér gekk alltaf vel að skíra, ferma og gifta, en þeir sem ég jarðaði, gengu allir aftur.
Hvort sr Einari gekk betur að jarða menn með sínu lagi en Sigurjóni fara af tvennar sögur. - Þegar sr Einar var að jarða Vigfús póst í Hróarstungu hóf hann líkræðuna með þessum orðum: Hann Fúsi póstur er dáinn! Þá heyrðist Sigurður í Húsey tauta lágt: Það þurfti svo sem ekki að segja okkur það.
Séra Einar var að jarða Ágúst Þorsteinsson, fyrrum bónda á Kleppjárnsstöðum í Tungu. Ágúst hafði stundað stangarstökk á yngri árum með góðum árangri. Einar komst svo að orði í líkræðunni: Nú er Ágúst í stökkinu stóra og enginn veit hvar hann kemur niður.
Þegar séra Einar var að jarða Guttorm í Hleinagarði og komst hann svo að orði: Einu sinni mætti ég Guttormi í stiga, þá var hann á leiðinni upp en nú er hann á leiðinni niður.
Þórhallur bóndi á Breiðavaði var sonur Jóns Eiríkssonar, búnaðarskólastjóra á Eiðum, sem síðan keypti nágrannabæinn Breiðavað og hóf þar búskap. Þórhallur hafði því fylgt föður sínum er hann flutti frá Eiðum í Breiðavað á sinni tíð. Þegar Þórhallur dó var hann jarðsunginn frá Eiðakirkju en jarðsettur á Breiðavaði. Séra Einar sá um athöfnina. Í líkræðunni komst hann svo að orði: Nú er Þórhallur að leggja upp í ferð sem hann hefur oftsinnis farið áður.
Af ástæðum, sem ég man ekki lengur hverjar voru, var sr Einar fenginn til að jarða föður minn, þó svo að hann hafi ekki verið út-Héraðsmaður. Er það eina prestverkið sem ég þekki til sr Einars. Ég vil taka fram að hann var við það bæði nærgætinn og virðulegur. Þeir faðir minn þekktust, voru m.a. gamlir Lions-félagar.
Einari hafði það eins og í frásögnunum hér að ofan, að leggja út frá ferðalaginu. Ferðalagið sem hann tók föður minni í var á Ford Bronco, sem Einar hafði keypt nýjan í Reykjavík, og faðir minn hafði fengið far með. Líkræðan var um ágæti Bronco jeppans, en það sem mér þótti öllu verra var að móður mín heitin var vitlaust feðruð.
Ég var á þessum tíma bæði ungur, sorgmæddur og lítt sjóaður í jarðaförum, öðrum en foreldra minna og ömmu. Afi var ekki síður sorgmæddur en við systkinin að sjá á eftir syni sínum á besta aldri.
Ég gat ekki stillt mig um að setja út á líkræðuna á leiðinni til grafar, þá sagði afi; blessaður vertu ekki að svekkja þig á þessu nafni minn, ég hef lent í miklu verri jarðarför hjá honum en þessari.
Ég hef ekki heyrt þess getið, að svo slysalega hafi viljað til, að þeir hafi gengið aftur sem sr Einar jarðaði.
Ps. Bókin hans Baldurs fæst í flestum stærri matvöruverslunum s.s. Netto og Bónus á Egilsstöðum.
Dægurmál | Breytt 4.12.2021 kl. 07:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)