Aumingi með hor

Það hefur færst í vöxt seinni ár að fólk barmi sér opinberlega og að ekki teljist til dyggða lengur að bera harm sinn í hljóði. Svo rammt hefur að þessu kveðið að fyrir nokkrum árum sá þekktur geðlæknir sig knúinn til að skrifa um þetta pistil og minntist þar systur sinnar sem sagði að ekki kæmi út það helgarblað í landinu þar sem aumingi vikunnar færi ekki yfir hrakfarir sínar.

Í minni bernsku þótti það með verri uppnefnum að vera kallaður aumingi með hor, og var farið sparlega með svoleiðis trakteringar. Ef ég man rétt þótti mér þetta það ljótur leikur að ég hafði þessi orð ekki um nokkra sálu í orrahríð orðanna, jafnvel þó svo að slýgrænt hor illi úr nösum leikfélaganna og leppar umlykju eyrnabólguna, sem ekki var óalgengt fyrir tíma pípulagna í eyru.

Undanfarið hef ég verið frekar slappur til blogga hér á síðuna og kemur það til af of góðu. Þennan veturinn hefur verið mikið að gera við ekki neitt. Þó það hafi lengst af verið of kalt til að steypa, hef ég ekki fundið tíma til að þvæla í langloku. Ævi hefur verið heimagangur og við svoleiðis sólargeisla hefur maður athyglina alla, hvort sem hún syngur “afi minn fór á honum rauð”, eða bara húðskammar mann eftir að hafa talið upp á tíu á þremur tungumálum, því hún sé ekki bara þriggja ára Ævi heldur líka Rayja prinsessa.

Það er samt ekki svo að ekkert hafi verið tilefnið til að vola um daginn og veginn. Því talsverðar breytingar hafa staðið fyrir dyrum. Fyrirtækið sem ég hef mætt til vinnu hjá s.l. sjö ár stendur í hreppaflutningum, eins og hver önnur fiskistofa, -ef svo má segja. Þessir flutningar, hefðu fyrir nokkrum árum, hvorki meira né minna en verið yfir í aðra sýslu, þó þetta sé nú bara rétt norður fyrir Lagarfljótsbrúna eins og staðan er í dag. Nú þarf ekki einu sinni að umskrá bílaflotann af U yfir á S númer.

Það er samt meira en að segja það að flytja margra tuga manna fyrirtæki hreppaflutningum innan sama bæjarfélags og kokgleypa steypueiningaverksmiðju með manni og mús í leiðinni. Pólsku vinnufélagar mínir hafa spurt mig áhyggjufullir undanfarna morgna, þegar ég kem skjögrandi fyrir hornið, -þar sem þeir púa reyknum í átt til dagrenningarinnar, hvernig ég ætli að fara að eftir helgi. En undanfarin 5 ár hef ég gengið eða hjólað til vinnu svo blóðið haldist passlega hringrásandi.

Ég hef svarað því til að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, og minnt einn félagann á það þegar hann ætlaði að taka upp á því að hjóla og fór fyrstu ferðina á laugardagsmorgni niður í sjoppu og lét mig þá vita af því að þetta helvíti gerði hann aldrei aftur, því það hefði verið svo seinlegt að fara til baka upp brekkurnar. Þá þurfti ég að leiðbeina honum með það að þó svo hann næði að hjóla niður í sjoppu til að kaupa sér sígarettur þá yrði hann að passa sig á að kveikja ekki í þeim á bakaleiðinni í brekku.

Ég hef semsagt notað þennan spöl til og frá stuttum vinnudegi fyrir ráðlagðan dagskammt hreyfingar og skætings. Morgnarnir byrja á hálftíma teygjuæfingum og graut eftir stirðleika næturinnar áður en ég vagga til vinnu eins og morrandi mörgæs í morgunnkulinu með lopaprjónelsið hennar Matthildar minnar fyrir smettinu til að sía sárasta kulið. Ef frostið hefur farið yfir átta gráður, ætla ég hreint út sagt að kafna lopalaus.

Svo á sumrin hef ég hjólað sömu leið og náð með gapandi ferð, þegar leiðinni hallar heim, að innbyrða heil ósköp af súrefni. Nú eru þessir sælutímar á enda runnir eins og það sé ekki nóg að eldast þó svo að önnur áföll bætist ekki ofaná. Þetta ferðalag til vinnu hefur komist upp í vana og þessir flutningar raskar honum, óttast ég að sakna hans á flatneskjum Egilsstaðanessins.

Þegar ég fór gangandi mátti segja að áfangarnir væru þrír, sem ég skipti með snýtingum á völdum stöðum. Þegar fyrsta hallanum upp gamla bæinn lauk fór ég á bak við fyrst skuggsæla tré og snýtti úr mér slýinu sem vellur upp frá lungunum við minnsta áreiti. Ekki veitti af, því á þeim hluta sem að baki var voru oft fjaðrasófar grænir forhitaðir í lausagangi meðfram veginum á hrímuðum morgnum til að flytja notendur sína til þægilegrar innvinnu þegar stundin nálgaðist.

Í næsta áfanga fór ég hjá bernskuheimilinu á hæðinni sem var innsta og efsta byggða ból í bænum þegar ég fyrst man. Síðan inn í iðnaðarhverfið fram hjá margmærðri moltugerðinni þar sem austantjaldskan er töluð fjálglega snemma dags og starfsmenn hins Íslenska gámafélags sitja í aflóga sófasettum sorphauganna á hlýjum morgnum, en norpandi á bak við vigtarskúrinn á þeim svölu, og láta tóbaksreykinn líða til móts við roðann í austri.

Þar eru vanalega að auki fjórir skarnatrukkar í díselreykjandi lausagangi tilbúnir fyrir fyrstu ferð með flokkaðan farminn til þess að hylja hann í holu út í sveit. Eða ferðast lengra til með verðmætin sem á að senda til þriðja heimsins, jafnvel alla leið til Kína. Þaðan sem frétts  hefur af draslinu koma fljótandi til baka um heimshöfin í risastórum plasteyjum.

Já ég hef ómældar áhyggjur af því hvernig rútínan verður eftir helgi ef ég tek upp á að þramma margfalt ráðlagðan dagskammt hvern dag með bláæðarnar bólgnar af bjúg og tilheyrandi töppum, -hversu lengi ég þurfi þá að liggja með tærnar upp í loft að ferðalaginu loknu. Mér hefur meir að segja dottið til hugar að fá mér snjallúr til að verða ekki ráðvilltur.

Það má nú samt segja sem svo að aumingi vikunnar eigi það til að skapa sitt víti sjálfur. Og það var helst við moltugerðina sem ég tók andköf. En þá greikkaði ég kolefnissporið yfir á næsta leiti og snýtti aftur úr mér óhræsis slýinu, og skjögraði svo síðasta spölinn meðfram Moldóvunum sem eru búnir að koma, fara og byggja stærsta húsið í bænum á ári fjórhelsis og farsóttar, sem sérlegir sérfræðingar íslenskrar starfsmannleigu.

Þarna hefur risið kínverskt stálgrindarmusteri öllum að óvörum vandlega CE vottað fyrir Mannvirkjastofnun íslenska ríkisins, u.þ.b. 500 metrum fyrir innan kofa minninganna sem við pollarnir klömbruðum saman með hor í nös í denn. Nú stendur þetta ferlíki út í miðja tjörnina þar sem ég í bernsku missti fótanna á skautum og skall með hnakkann á ísinn. Þegar ég stóð upp með dúndrandi hausverk og blóðbragð í munni hét því að gera það helvíti ekki aftur. 

Síðustu metrana fór ég svo vanalega standandi á öndinni niður fyrir hornið til félaganna á gamla vinnustaðnum, -nýsnýttur, -en ekki eins og aumingi með hor.


Gautavík

Gautavík fb mynd

Þessi staður hefur komist í fréttir undanfarið vegna hampræktunar. Ábúendurnir fluttu úr Reykjavík austur í Berufjörð til að láta draum rætast um sjálfþurftarbúskap og sjálfbærni. Gautavík hafði verið í eyði í nokkur ár, en var sennilega bæði leynt og ljóst ein af höfuð höfnum landsins fyrr á öldum. 

Fljótlega eftir að landnám hófst á Íslandi munu norræn skip hafa komið af hafi til Berufjarðar til þess meðal annars að eiga viðskipti við fólk sem hafði tekið sér bólfestu um sunnanverða Austfirði. Bæði í Njálu og Fljótsdæla sögu er sagt frá verslunarstaðnum Gautavík við innanverðan Berufjörð. Þar versluðu Þjóðverjar á tímum Hansakaupmanna þar til þeir fluttu bækistöð sína suður yfir fjörðinn til Fýluvogs (Fúluvíkur) upp úr 1500. Rústir í Gautavík eru friðaðar og hefur hluti þeirra verið kannaður með fornleifauppgreftri. (texti Djúpivogur wikipedia)

Fáeinir miðaldaverslunarstaðir hafa verið rannsakaðir að einhverju marki hér á landi. Eru það Gautavík í Berufirði, Maríuhöfn í Hvalfirði, Gásar í Eyjafirði og Kolkuós í Skagafirði. Rannsóknirnar í Gautavík skiluðu ekki miklum upplýsingum, en þó virðist staðurinn hafa átt sinn blómatíma á 14. öld og svo aftur á þeirri 15., en elsta ritaða íslenska heimildin er frá lokum 12 . aldar. Mest áberandi fundarflokkurinn voru leirker og járnnaglar. Einnig fundust þar byssukúlur úr blýi. Nýlega hefur því verið haldið fram að verslun í Gautavík hafi varað fram undir lok 16. aldar. (Bjarni F Einarsson fornleifafræðingur/ Bærinn sem hvarf í ösku og eldi 1362 bls 127)

Í annálum 14. og 15. aldar er Gautavíkur oft getið sem verslunarhafnar. Þjóðverjar ráku þar verslun fram á síðari hluta 16. aldar og var þá ein aðalverslunarhöfn á Austurlandi. Gautavíkur er getið nokkrum sinnum í Íslendingasögum og þá jafnan sem verslunarstaðar og hafnar. Rústirnar eru báðum megin við Búðaá og ein á sjávarbakkanum austan við ána. Friðlýst 1964. (Sjóminjar á Íslandi)

Daniel Bruun var einna fyrstur til að rannsaka fornleifar íslenskra kaupstaða frá miðöldum. Hann kom í Gautavík árið 1901 og í bókinni Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár er þetta um þá heimsókn. "Berufjörður er þriggja mílna langur fjörður á Austurlandi sunnarlega. Nokkuð innan við fjarðamynnið er á norðurströndinni lítil vík, er Gautavík heitir og við hana samnefndur bær. Þar er þyrping með 6 tóttum, sem Olavius segir að munnmæli hermi, að séu leifar verslunarstaðar írskra kaupmanna. Af sögunum sést, að Norðmenn hafa siglt til Gautavíkur (Kålmlund bls 200), og í Njálu er staðarins getið sem lendingarstaðar kaupskipa. Loks herma íslenskir annálar, að þar hafi verið mjög fjölsótt höfn á 14. og 15. öld.

Árið 1589 fengu Hamaborgar kaupmenn kónginn í Kaupannahöfn til að veita sér verslunarleyfi á Djúpavogi við Berufjörð. Þar áður höfðu Brimar kaupmenn haft leifi til að versla við Fýluvog, sem er nánast á sama stað á Búlandsnesinu og Djúpivogur, munurinn var sá að inn á Fýluvog var siglt úr Hamarsfirði en inn á Djúpavog úr Berufirði. Talið er að rentukammerið í Kaupmannhöfn hafi ekki áttað sig á að þarna var um sama staðinn að ræða og bjuggu því íbúar í nágrenni Djúpavogs við fágæta samkeppni í verslun um það leiti sem einokunarverslun hófst á Íslandi.

Kort

Sagan um Þórð í Dýjakoti heitir "það segir fátt af einum", leið hans til Gautavíkur er lýst nokkuð nákvæmlega og hefur legið að mestu um óbyggðir

Það skildi ætla að verslun við Gautavík hafi verið alfarið úr sögunni þegar tveir verslunarstaðir voru komnir við minni Berufjarðar. Fyrir nokkrum árum rakst ég á athygliverða sögu í bókinni Syndir feðranna, eftir Gunnar Þorleifsson, og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur. Sé eitthvað að marka söguna þá var verslað við Gautavík um aldamót 17. og 18. aldar.

Þessir atburður er sagður gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 – 1787.

Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í annálum. Margt í sögunni passar samt ekki við sagnfræðina.

En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Dýjakots, minnist ég ekki að hafa heyrt annarsstaðar getið. Miðað við staðarlýsingar í sögunni, hefur það verið inn af Fljótsdal gæti hafa verið rétt austan við Laugarfell.

Leið Þórðar í verslunarferðinni til Gautavíkur virðist hafa legið sunnan við Hornbrynju, niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.

Í sem stystu máli lendir Þórður í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft.

Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum, -og enn pakkar Þórður honum saman.

Þórður á að hafa farið sömu leið heim samkvæmt sögunni. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim til konu og barna, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot.

Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í fjárgöngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju illa farið, og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu. Þetta gæti allt eins verið skáldsaga því ef Gautavík hefur verið verslunarstaður með erlendar skipakomur fram að 18. öld skortir þar um allar heimildir.

Scan_20210206 (2)

Þó svo að talið sé að fornleifarannsóknir í Gautavík hafi ekki skilað miklum upplýsingum, þá kom múrsteinshleðsla í ljós. Þessi fundur er viss ráðgáta sem setur verslunarstaðinn síðar í tíma en sagan hermir, en tilgáta er nú um að múrsteinarnir séu hluti lýsisgerðarhúss

Um endalok verslunar í Gautavík segir; -"Þar sem ekki fundust neinar leifar eftir þyrpingu innlendra bóndabæja við víkina, má gera ráð fyrir að hún hafi öll verið yfirgefin þegar endalok hennar urðu að veruleika. Vísbendingar um eyðileggingu eru samt ekki fyrir hendi. Allt smálegt sem var nýtilegt hefur verið flutt burtu. Ef til vill stóðu einungis veggir búðanna uppi á meðan annað nýtanlegt byggingarefni, eins og timbur, hefur einnig verið fjarlægt. Veggirnir voru skildir eftir til þess eins að grotna niður, enda var byggingarefni þeirra ekki æskilegt til endurnýtingar. Sérstaklega var tekið eftir því að múrsteinahringurinn var ekki grafinn upp og fluttur með öðrum varningi, þó steinarnir væru örugglega mikils virði og heldur ekki erfitt að grafa þá upp og nota þá aftur. Svo virðist þó sem að efri hluti kúpulsins hafa fljótlega verið fjarlægður." (Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands.)

Það eru til fleiri sagnir um Gautavík fyrri á öldum eftir að verslun í Gautavík var hætt, sem mætti flokka sem þjóðsögur, Gautavíkur er og getið í Tyrkjaránssögum frá 1627. Í bók Öldu Snæbjörnsdóttur, Dvergasteinn – Þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi, segir frá skriðu sem féll við Gautavík 26. júní 1792. Þar sem hluti fjallshlíðarinnar, sem er óravegu frá sjó, virðist hafa losnað og fallið alla leið í sjó fram. Þá fórust hjónin í Gautavík Jón Jónsson matrós og Ásdís Hermannsdóttir kölluð hin fagra.

Heimildir um þetta er að finna í kirkjubók Berufjarðakirkju. “30. júní grafinn hreppstjóri Jón Jónsson bóndi í Gautavík. Varð fyrir skriðuhlaupi í því mikla storm -og hretviðri hinn 26. s.m. á sínu aldurs 44. ári fannst upptekinn af sjónum þann 27. s.m.; ásamt honum deyði kona hans Ásdís Hermannsdóttir hvörrar lík fannst ekki og meinast begrafin undir hlaupinu 32 ára. Þau eftirlétu 4 ungabörn, kýr og meginhluta ærifjár um 27 kvíaær.”

Bókin Sópdyngja – þjóðsögur, alþýðlegur fróðleikur og skemmtan í útgáfu þeirra Braga og Jóhanns Sveinssona er ítarlegri frásögn af þessum atburði. Þar er sagan höfð eftir Antoníu Jónsdóttir á Arnarstöðum í Núpasveit við Öxarfjörð, en hún var ein af afkomendum Jóns og Ásdísar í Gautavík. Þar segir frá því að Jón hafi farið upp á Fljótsdalshérað að sækja fé og í rekstri hans hafi verið grákollótt kind sem kerling á Héraði hafi ásælst, en Jón ekki viljað láta. Þetta á að hafa verið að haustlagi og þá sennilega haustið áður en skriðan féll. Kellingin á að hafa haft í hótunum við Jón vegna kindarinnar.

Þegar var farið að grafast fyrir um hvernig þessi mikla skriða gæti hafa fallið á að hafa komið í ljós að smalar hefðu séð kerlingu á fjallinu daginn áður. Við upptök skriðunnar hafi sést spor en enginn ferill fundist. Eins kemur fram í frásögninni að Ásdís og Jón hafi verið það efnuð að hægt hafi verið að sjá fyrir fjórum ungum börnum þeirra. Sagt er að einn sonur þeirra hjóna hafi heitið Jón og lengi búið í Núpshjáleigu á Berufjarðarströnd. Nafn og aldur smalans í Gautavík kemur einnig fram í frásögninni, en sá var grunaður um að hafa stolið peningakistli og skorið silfurhnappa af fötum Jóns.

Það má segja, þó undarlegt sé, að upphaf þessa Gautavíkur vangaveltna megi rekja til Bæjarins sem hvarf í ösku og eldi. En í jólagjöf fékk ég samnefnda bók Bjarna E Einarssonar fornleifafræðings um uppgröftinn á Bæ í Öræfum og rannsóknir honum tengdar. Það er talið að allt að 600 manna sveit hafi horfið af yfirborði jarðar með manni og mús á dagparti árið 1362. Ein af blómlegri sveitum landsins, sem áður var nefnd Litla Hérað, fékk þá nafnið Öræfi eftir sprengigos Hnappafellsjökli, þar sem nú nefnist Öræfajökull.

Saga þessarar sveitar glataðist í hamförunum, önnur en þau örlitlu brot sem má finna í kirkjubókum Stafafellskirkju um eignir kirkna í Litla Héraði. Stafafellskirkja er í Lóni, hátt í 200 km fjarlægð. Af uppgreftrinum á Bæ má draga þá ályktun að margt í Íslandssögunni hafi verið með öðrum blæ en heimildir eru fyrir, t.d. að lýsisframleiðsla og sala hafi verið mikilvæg útflutningsvara landsmanna, en lýsi var m.a. notað til að lýsa upp bæi og borgir Evrópu. Vangaveltur í þessa veru má einnig finna í bók Bergsveins Birgissonar, rithöfundar dr í norrænum fræðum, "Svarti víkingurinn", en Bergsveinn telur að þrælaveldi landnámsmannsins Geirmundar heljarskinns hafi m.a. byggst upp á útflutningi á lýsi. 

Það virðast hafa verið snögg umskipti á Íslandi í gegnum tíðina hvort staðir voru blómlegir eða ekki, náttúruhamfarir hafa ráðið þar mestu. Það fer t.d ekki mikið fyrir sögu Reykjavíkur fram eftir miðöldum, annað en að þar setti fyrsti landnámsmaðurinn sig niður. Hugsast gæti að þau eldsumbrot sem hafa verið á Reykjanesskaga á þeim tíma hafi orðið til þess að sá landshluti naut sín ekki á sama hátt og hann gerir nú á tímum. 

Gautavík DB

Gautavík; teikning Daniel Bruun 1901


Hvaðan kom nafnið?

IMG_4725

Það getur verið forvitnilegt að vita hvernig nafngift varð til og hvað hún merkir. Þetta þekkja flestir varðandi eigin nöfn. Í barnaskóla var Guðmundur heitinn Magnússon kennari og síðar sveitarstjóri á Egilsstöðum oft með skemmtilegt námsefni, eins og að setja það fyrir sem heimaverkefni að finna út hvað nöfnin okkar þýddu. Ég varð yfir mig ánægður þegar ég fann það út að mitt nafn merkti "hinn mikli". Þó svo ég vissi að það hafi ekkert með nafngift mína að gera, heldur það að afi minn hét Magnús.

Í minningunni áttu kennarar það til að leifa krakkahópnum að ráfa um fjallahringinn í huganum og geta sér til um hvernig nafngiftir hæstu tinda væru til komnar. Það má segja að frá þessum barnskólaárum hafi þörf verið til staðar að vita hvað nafnið merkir og hvernig það er til komið. Snæfellið er eitt af einkennum Fljótsdalshéraðs sem ber nafn sem maður skildi ætla að ætti að vera auðskilið hverju mansbarni hvers vegna.

Snæfellið er fjallið, sem Björg amma fékk sér kvöldgöngu inn fyrir bæ, til að sjá, -því það sást ekki úr gluggum íbúðarhússins á Jaðri í Vallanesinu. Ef ekki bar ský í Snæfellið að kvöldlagi sagði þjóðtrúin að heyskaparþurrt yrði daginn eftir. Snæfellið blasti við úr stofuglugganum á mínu æskuheimili á Hæðinni á Egilsstöðum. Og enn í dag er það fyrsta og síðasta sem ég lít í áttina að kvölds og morgna frá Útgarðinum til að taka veðrið. Í mínum huga hafði í gegnum tíðina ekki farið á milli mála hvernig nafnið var til komið, fjallið bæri það hreinlega utan á sér í heiðríku.

En fyrir nokkrum árum fóru ský efasemda að draga upp á hvolfið í höfðinu á mér við upplýsingar frá Sigurði Ólafssyni á Aðalbóli, áður Siggi Óla í Útgarði eða réttara sagt Búbót. Hann býr mun nær Snæfellinu en ég og hafði verið á ferðalagi á eynni Mön, þar hafði hann einnig séð Snæfell sem er hæsta og eina fjall Manar. Einhvern veginn hef ég ekki náð að sjá sama Snæfellið eftir að Siggi sagði mér frá þessu og jafnvel talið að okkar gæti verið  falsað. Mig fór að gruna Arnheiði nokkra Ásbjörnsdóttur um verknaðinn. Þannig að ég ákvað að lesa Droplaugarsonasögu aftur. Jú einmitt, sagan byrjar á því að segja frá landnámsmanninum Katli þrym í Fljótsdal, sem kaupir ambáttina Arnheiði af Véþormi vini sínum í Jamtalandi sem nú er í Svíþjóð.

Í tilhugalífi þeirra Ketils trúði Arnheiður honum fyrir því að hún væri höfðingjadóttir úr Suðureyjum en þeir Ormar, Grímur og Guttormur bræður Véþorms víkings í Jamtalandi hefðu drepið faðir hennar Ásbjörn skerjablesa ásamt öllum karlmönnum á hennar heimili en selt kvenfólkið mansali. Þegar Ketill hafði gengið frá kaupunum á Arnheiði af Véþormi vini sínum sigla þau til Íslands og setjast að í Fljótsdal að Arnheiðarstöðum, gegnt Atla graut bróður Ketils sem setti sig niður austan við Lagarfljótið í Atlavík. Það eitt að Arnheiðastaðir hafi borið nafn þessarar konu í meira en þúsund ár bendir til að hún hafi átt því að venjast að hafa sitt fram.

Þegar hér var komið sögu leitaði ég ásjár heilags gúggúls, bæði himins og jarðar. Lausnarorðið sem ég sendi var „skerjablesi“ og viti menn upp kom saga Manar. Þar hafði verið uppi höfðingi sem hét Ásbjörn skerjablesi laust fyrir árið 900 sem er sagður hafa verið drepin af skyldmennum Ketils flatnefs, norsks hersis sem haldið hafði til á Suðureyjum í áratugi þar á undan. Í gúggúl jörð setti ég svo inn Snaefell, og viti menn hæsta fjall Manar heitir einmitt Snaefell. Eins heitir gata í nágrannaborginni Liverpool Snaefell avenue. Snæfells nöfnin er reyndar fleiri á þessum slóðum á Bretlandseyjum.

Börn Ketils flatnefs, forvera Ásbjörns skerjablesa á Suðureyjum, settust mörg hver að á vestanverðu Íslandi, svo sem Auður djúpúðga og Björn austræni. Björn austræni er sagður landnámsmaður á Snæfellsnesi og Auður í grennd við hann í Dölunum. Það er ekki ósennilegt að nafn á nesið og þess hæsta kennileiti Snæfellsjökul hafi orðið til um landnám.

Þannig er nú farið að ég er ekki lengur viss um að Snæfell sé nefnt eftir snævi þöktum  hlíðum þess, það geti allt eins verð eftirlíking af felli sem sjaldan festir í snjó á Bretlandseyjum. En eitt er víst að Snæfellið var haft í öndvegi í stofu æskuheimilisins og ef það sást ekki út um gluggann vegna skyggnis þá var annað hangandi upp á vegg málað af meistaranum sjálfum, Steinþóri Eiríkssyni.

Snæfell SE

ps. pistillinn hefur birst áður hér á síðunni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband