6.5.2021 | 20:09
Eru ekki allir í stuði?
Nú er aldeilis kátt í Höllinni á bólusetningadögum heilbrigðisiðnaðarins, sannkölluð Þórðargleði. Ice Hot One töff í dag eins og sá klári, -æðstistrumpur og popparinn. Heilbrigðisráðherfan, ný bólusett blessunin, sagði að þetta væri svolítið eins og í söngleik.
Heyrst hefur að þeir sem líði út af séu bornir til hliðar og að þeim hlúið, þangað til þeir ná að skjögra heim í fráhvarfi, -sem staðfestir jú bara stuðið.
Facebook vinur minn var ekki í hátíðarskapi með Dadda disco plötusnúð í dag. Á vegginn hafði hann skrifað þetta:
Fékk í vikunni boð í "bólusetningu", mitt svar til þeirra "Sæl verið þið. Ég hef verið boðaður í bólusetningu 06.05.21 klukkan 11:00.
Þar sem ég hef ekki nokkurn áhuga á að gerast tilraunadýr fyrir alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem stjórnað er af siðlausum glæpamönnum, þá getið þið strokað mig af þessum lista ykkar.
Þá vil ég einnig benda ykkur á að þið sem takið þátt í að sprauta þessu efni, sem þið kallið "bóluefni", í fólk, munið eflaust ekki geta frýjað ykkur af ábyrgð ef/þegar þetta tilraunaverkefni fer illa. Ekki frekar en böðlar Hitlers sem voru bara að framfylgja skipunum og vinna sína vinnu, við vitum flest hvernig fór fyrir þeim. Kveðja"
Já, sumir lemja hausnum við steininn, á meðan flestir eru í taumlausu stuði innan um alla þá sem snappa með selfý. Sjálfur er ég farin að þrá kyrrðina til fjalla.
![]() |
Þjóðhátíð í Laugardalshöllinni í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2021 | 06:01
Ísbjörn og lopapeysa
Nú streyma ferðamennirnir til landsins og kannski má búast við að innan skamms opni lundabúðirnar aftur með gore-tex ísbirni við innganginn og asískar lopapeysur á boðstólunum. Sennilega verður minna um grímulaus viðskipti handverksfólks við túristana eins og þegar það sat auðum höndum fyrst eftir "hið svokallað hrun", sælla minninga.
Það var einn sumarmorgunn í Sólhólnum á Stöðvarfirði um árið að Matthildur mín hafði sett út prjónelsið sitt til viðrunar, lopapeysur og fleira, að það kom þýskur ferðamaður að forvitnast. Hann keypti eina peysu og Matthildur kallaði svo í mig og bað mig um að tala við manninn því hann væri að spyrja um eitthvað sem hún væri ekki viss um að geta svarað. Maðurinn var að spyrja um opnunartíma á sjoppunni upp á morgunnhressingu.
Þar sem klukkan var ekki orðin átta og langt í að yrði opnað, þá bauð ég honum inn í kaffi. Þegar við fórum að spjalla þá sagði hann vera nýkomin frá Grænlandi og hefði þurft að millilenda á Íslandi. Hann sagðist hafa tekið skyndiákvörðun um að stoppa í nokkra daga en það hefði ekki verið planið. Til Íslands hafði hann komið 4 sinnum áður, en aldrei á Austfirðina og þessa daga ætlaði hann að nota til að skoða þá.
Hann sagðist vera atvinnuljósmyndari, sem hefð verið ævistarfið til þessa, og þegar ég spurði hann hvort það væri ekki gott starf til að ferðast, -þá sagðist hann vera atvinnulaus. Hann sagði að þangað til fyrir nokkrum árum hefði starfið boðið upp á mikil ferðalög s.s. þegar hefði þurft að gera auglýsingaefni fyrir nýjar árgerðir af bílum þá hefði jafnvel bíll verið fluttur alla leið til Íslands.
Myndtökumenn hefðu fylgt með bílnum og lifað við lúxus til að gera sem flottast auglýsingaefni með myndum af nýjustu árgerðinni í framandi umhverfi. Nú væri svoleiðis vinna framkvæmd af forriturum í tölvu, þar í heiminum sem launin væru lægst. Síðan hefði hann farið að vinna fyrir STO í múrefnageiranum.
Þar sem ég hafði farið í starfsþjálfun til Þýskalands hjá STO árið 1989, þá var þarna komin áhugaverður umræðugrundvöllur. Svo ég spurði hvort STO væri ennþá með höfuðstöðvar í S-Þýskalandi. Hann sagði svo vera, alla vega þegar hann vann síðast. En nú væru fyrirtæki í byggingageiranum farin að gera allt sitt auglýsingaefni í ódýrum tölvum þannig að hann hefði notað tímann til að ferðast og hefði hann farið til Grænlands þetta sumarið.
Ég spurði hvort hann hefði ekki náð góðum myndum á Grænlandi, -og kannski af ísbjörnum. Þá tók hann upp símann sinn og sýndi mér myndir í honum. Þetta voru ekki góðar myndir og satt best að segja átti ég erfitt með að átta mig á hvað væri á þeim í fyrstu, að öðru leiti en þær voru teknar úti á berangri, í móum með snjó í bakgrunni.
Þegar hann stækkaði mynd kom í ljós ísbjörn sem sat í litríkri hrúgu sem voru rústir eða rifrildi af tjaldi. Hann sagði mér að þetta væri tjaldið hans. Hann hefði vaknað snemma morguns og fengið sér göngutúr en þegar hann kom aftur í sjónfæri við tjaldið hefði ísbjörn verið að snuðra í kringum það og rifið svo gat á það, og þarna á myndunum væri hann að gæða sér á nestinu. Allur ljósmyndabúnaðurinn hafði verið í tjaldinu og hann aðeins með snjallsímann til að ná myndum af ráni ísbjarnarins.
Þegar ísbjörninn var búinn að borða morgunnmatinn og farinn, hafði hann tekið saman dótið sitt. Hann sagðist ekki hafa gist fleiri nætur í tjaldi á Grænlandi, heldur keypt sér gistingu með morgunnmat.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2021 | 06:00
Þarf að endurskrifa Íslandssöguna?
Ég hef farið víða, ég hef verið hér og þar, og ég veit að við öllum þessum spurningum er til eitt og annað loðið svar, -söng nafni minn þjóðskáldið um árið. Svo er það æskufélagi minn sem sjaldnast fer neitt en lendir hingað og þangað. Segja má að svipað eigi við um mig upp úr því að sumardagurinn fyrsti hefur litið sólarupprásina og ég geri hlé á því að lesa á milli línanna eftir há-skaðræðis tímann.
Milli-línu-lestur er sömu lögmálum gæddur og lesblinda. Maður tekur ekkert eftir því sem stendur í leiðbeiningunum, heldur því sem sleppt var að segja þegar þær voru skrifaðar. Rekur svo tærnar oftar en ekki á það sem liggur beint fyrir framan nefið á manni. Þessu heilkenni má einna helst líka við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríinu sínu en var ekki kominn lengra en í næsta fylki þegar sumarfríið varð búið.
Þegar Íslendingasögurnar eru lesnar þá liggja gríðarlegar upplýsingar á milli línanna. Sem dæmi þá er ég með blátt skol í æðum, kominn af Haraldi hárfagra. Er þá styst að rekja til nafna míns berfætts sem stundum hefur verið kallaður síðasti víkingakonungurinn og var drepinn á Bretlandseyjum. Þetta get ég fengið staðfest í Íslendingabók. Svo má líka finna það út að ég sé kominn af Mýrkjartani konungi á Írlandi. Þó svo megi lesa á milli línanna þá gæti þurft að umsnúa einhverjum þúfum til að fá þær staðfestingar að Norðmenn hafi verið gamlir Írar sem áttu eitt sinn heima suður við Svartahaf.
Það á að hafa verið sagt af þjóðminjaverði seint á síðustu öld að það borgaði sig ekki að fara út í þann þúfnaviðsnúning svo það þyrfti að endurskrifa Íslandssöguna vegna einhverra moldarkofa sem finnast í móum landsins. En eftir því sem tækni til aldursgreininga fornminja verður fullkomnari fer æ fleirum að gruna landnámið fyrir landnám, sem Árni Óla skrifaði um, eigi við áþreifanleg rök að styðjast. En ekki einungis að einstaka lesblindingi hafi mislesið Landnámu og Íslendingasögurnar.
Bjarni F Einarsson fornleifafræðingur og hans fólk hafa verið við uppgröft á Stöðvarfirði í nokkur sumur og rannsakað þar hús og gripi, sem Bjarni hnaut um í þýftu túninu á Stöð, fyrst árið 2007. Bjarni segir æ fleira koma í ljós, en fjöldi gripa hefur fundist við rannsóknina auk húsa og telur hann eldri skálann, sem talinn er frá því um 800, vera útstöð frá Norður Noregi þaðan sem fólk hafi ferðast og haft sumardvöl á Íslandi og nýtt sér auðlindir sjávarins, fisk, hval og sel.
Þarna reynir Bjarni að rugga ekki Landnámu um of, en hún greinir svo frá "Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri. Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét engu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi og eru frá honum Stöðfirðingar komnir." -hvernig sem bann við drápi villtra dýra svo samrýmist út-Stöðvar kenningunni og það að hvalir hafi verið dregnir langt inn í dal.
Fornleifarannsóknin á skálanum að Stöð í Stöðvarfirði hefur leitt í ljós að þar hafi verið gríðarlega öflugt býli. Svo virðist sem þar hafi búið höfðingi sem síðar hafi horfið úr sögunni. Ef við horfum á þá kvarða sem notaðir eru til að mæla auð, völd og stöðu þá er þetta orðið öflugasta býli sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Það er samt alls ekki það sama og að um sé að ræða öflugasta býli landsins. Það er sama á hvaða gripaflokk litið er. Við erum alls staðar með fleiri en fundist hafa í fyrri rannsóknum hérlendis. Þetta er líka stærsti landnámsskáli sem rannsakaður hefur verið. Stærðin er yfirleitt ein öruggasta vísbendingin um velsæld. Þarna virðist hafa búið höfðingi sem síðan hefur horfið úr sögunni. Þetta segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrt hefur uppgreftrinum að Stöð frá því hann hófst formlega sumarið 2016.
Rannsóknir á landnámsskála (hugsanlegum) og mögulegri útstöð höfðingja á Stöð í Stöðvarfirði fengu hæsta styrkinn úr Fornminjasjóði í ár (2021), fjórar milljónir króna. Lítið fé til fornleifarannsókna veldur því að aðeins er hægt að vinna í mánuð á sumri. Með þessu áframhaldi tekur tíu ár til viðbótar að ljúka uppgreftrinum.
Nú er semsagt öldin önnur og menn komnir fram fyrir Landnámu þó styrkir séu smáir og hægt gangi þúfnagangurinn. Á sumardaginn fyrsta fórum við Matthildur mín að Stöð í Stöðvarfirði, sem er farið að kalla út-Stöð svo ekki þynnist um of bláablóðið sem Landnáma var skrifuð upp úr á kálfskinnið.
Þegar við komum að út-Stöðvar-uppgreftrinum voru þar tveir Stöðfirðingar fyrir og sögðu okkur að lítillega ætti að gramsa í moldarflagi Bjarna þúfnabana í sumar og freista þess að finna nokkrar perlur í viðbót með teskeiðinni, en þessi uppgröftur er einhver sá ríkulegasti að fornmunum á Íslandi hingað til, auk þess að innihalda stærsta landnámsútskála sem fundist hefur hér á landi.
Gallinn er aftur á móti sá að þessi risa skáli er frá því fyrir skráð landnám og því eru styrkveitingar til rannsókna vandfundnar. Það ku víst vera allt eins auðvelt að fá styrki hér á landi til að grafa upp coke dósir og skrá, sem Bandaríski herinn skildi eftir á öskuhaugunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.5.2021 | 05:34
Lofoten
Á góðu ferðalagi ætti upphafið eða áfangastaðurinn ekki að vera málið, því gott ferðalag á sér hvorki annað upphaf né endi en heima. Það eru aftur á móti slæm fyllerí sem eiga sér upphaf og endi. Fyrir 10 árum lenti síðuhöfundur á vergang, fór til Noregs til að steypa, enda lítið að gera, -og launin lág, fyrir iðnaðarmann á landinu bláa.
Til stóð að Matthildur mín fylgdi í kjölfarið, en svo fór að hún átti lengst af við heilsubrest að stríða árin þrjú sem ég var í Noregi og kom því þangað einungis í heimsóknir og dvaldi þá mislengi. Ég aftur á móti fór þrisvar á ári heim til Íslands og skipti þá sumarfríinu mínu á milli vors og hausts, auk þess að vera heima hjá fjölskyldunni um jól.
Hver einasta króna þessarar Noregsdvalar fór í að friða gjaldþrota banka vegna persónulegrar ábyrgðar sem við hjónin höfðum skrifað okkur fyrir vegna atvinnurekstrar í íslenskri steypu. Þar að auki fóru sumarfríin í að halda utan um stökkbreytt skuldahalahúsnæði fyrir bankann, sem leigt var til vetrargeymslu hjólhýsa og húsbíla.
Það lenti svo á Matthildi minni að taka á móti þungbrýndum stefnuvottunum á meðan ég naut mín í norsku steypunni. Svo tókum við saman á móti brosandi fólki í sumarskapi á leiðinni í og úr fríi.
Þegar ég var búin að vera handan við hafið í heilt ár og þrauka niðdimman norður-norskan vetur, langt fyrir norðan heimsskautsbaug með örbylgjuofn og skaftpott að vopni upp á hanabjálka, búandi í starfsstöð fyrirtækisins, fór ég að velta því fyrir mér hvar ég væri staddur og komst fljótlega að því að ég væri í rauninni á nyrstu og stærstu eyju Lofoten eyjaklasans.
Robuer (gamlar verbúðir) hafa gengið í endurnýjun lífdaga á Lofoten og eru leigðar út sem lúxus gististaðir fyrir ferðamenn
Mette framkvæmdastýra Murbygg hafði margboðið mér sumarið áður að nota bíla fyrirtækisins til að skoða mig um, en því hafði ég alveg sleppt. Hún spurði mig þá hvers vegna ég hefði ekki áhuga á að nota tækifærið og ferðast um fallegasta hluta Noregs þessi ár sem útlegðin stæði, en við höfðum samið um að ég yrði í 3 5 ár. Ég sagði henni að göngutúrar í heimabænum Harstad dygðu mér alveg fyrsta árið.
Þegar Matthildur kom sumarið 2012 höfðum við fjölþjóðlegi múrarflokkurinn verið sendir norður í nes Finnanna til að hlaða og pússa veggi næstu 4 mánuðina og bjuggum þar á tjaldstæði, en fórum heim um helgar. Matthildur var þar með okkur og svo fórum við sunnudagsrúnta á vinnubílunum í boði Mette þegar við vorum heima í Harstad, auk þess sem hún lánaði okkur bílinn sinn í sumarfríinu sínu.
Það var þá sem við fórum heila helgi niður allan Lofoten og gistum í robuer, -aflögðum verbúðum sem hafa verið snilldarlega endurnýttar sem lúxus gististaðir fyrir túrista. Þegar við vöknuðum að morgni vorum við komin út á bryggju um leið og útidyrnar voru opnaðar, eitthvað fyrir hana Matthildi mína sjómannsdótturina úr sjávarplássinu þar sem lífið snerist í kringum bryggjuna.
Ég ætla ekki að lýsa Lofoten öðruvísi en með þessum myndum sem fylgja færslunni og svo myndbandinu hér að neðan, -þegar Matthildur dældi myndaum á það sem fyrir augu bar út um framrúðuna á meðan bíllin brunaði suður Lofoten með mig við stýrið og sígild Íslensk dægurlög í spilaranum. Þeir sem frekar vilja ferðast í lofti um Lofoten í fyrirsjáanlegu dróna myndbandi með örlagasinfóníu um eina mestu náttúruperlu Noregs ættu að klikka hér.
Skreiðarhjallar úr trönum og spírum, fast við verbúðir eru víða að finna syðst á Lofoten og er litið með stolti á þessar byggingar sem menningarverðmæti, auk þess sem fiskur og hausar eru ennþá þurrkaðir í þeim á veturna, -eitthvað sem mátti sjá víða á Íslandi fyrir ekki svo löngu síðan
Eitt af því sem einkennir strendur Lofoten er að þar er víða skjannahvítur sandur
"Ó hve gott á lítil lind leika frjáls um hlíð og dal". -Já það mætti ætla að dægurtextinn "Sem Lindin tær" hafi orðið til á Lofoten. -"Að öllu skyldi kveða óð um unað, ást og trú sem aldrei bregst en hugga lætur"
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 08:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)