Fagurt er á fjöllum

IMG_4748

Í dag er dagur íslenskrar náttúru. Það var við hæfi að velja dag sem ber upp á fæðingardag Ómars Ragnarssonar, þess íslendings sem hefur átt stærstan þátt í að færa náttúru landsins íbúum þess í sófann. Ómar er nánast goðsögn í lifanda lífi og ef eitthvað vantar þar upp á, þá verður hann það í Íslandssögunni. Hann var áberandi talsmaður varðveislu víðernanna norðan Vatnajökuls og lagði þar allt undir.

Þegar sú barátta stóð yfir þá þekkti ég áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar ekkert af eigin raun, og taldi Ómar jafnvel fara offari. En þó grunaði mig innst inni að eitthvað byggi undir. Því Völundur frændi minn, sjálfur goðinn í Grágæsadal, hafði horfið inn á þessi víðerni hvert sumar frá því ég man, en undir leiðsögn Völundar byrjaði ég mína starfsævi í byggingaiðnaði 12 ára gamall.

IMG_4773

Pilthús goðans í Grágæsadal var áður kallað Safnaðarheimilið, en innan við húsið er önnur burst sem í er bænhús. Þó Völundur sé ekki viðlátinn í Grágæsadal er bænhúsið ávalt opið, en þar er ætlast til að beðið sé fyrir landinu 

Svo var það fyrir fjórum árum, þegar ég var nýlega kominn úr fjörbaugsgarðinum í Noregi, að við Matthildur mín ákváðu að kaupa okkur fjórhjóladrifinn fjaðrasófa til að skoða víðernin og höfum gert það á hverju sumri síðan. Þessar fjallaferðir hafa verið einstök upplifun í kyrrð auðnarinnar. Jafnvel hending ef maður rekst á landann og þá hefur komið fyrir að hváð sé „guði sé lof að hitta íslendinga“. Þá á ég ekki við þá náttúru upplifun sem fæst við sportveiðar en það er nú einu sinni þannig að sumir finna sig ekki í íslenskri náttúru nema við veiði. En eftir að skotveiðitímabilin hefjast er allt morandi af landanum á fjöllum austanlands.

Seinnipart sumars höfum við forðast fjöllin að mestu. Hreindýraveiðitímabilið er þá á fullu og stigmagnast skothríðin við gæsaveiðar sem stundaðar eru af kappi. Á þessum tíma hefur verið hitt á ráðvilltan og hrínandi hreindýrskálf í sólbjartri morgunnkyrrðinni og séð til stríðsklæddra útivistarkappa á næsta leit með milljóna græjur við að taka af sér selfí með dauðri móðurinni. Seinnipart sumars rís jafnframt margt fótboltafanið upp úr sófunum og dustar af sér kartöfluflögurnar til að njóta íslenskrar náttúru við að salla niður illa fleyga gæsarunga svo hægt sé að slíta úr þeim bringurnar.

Það sem mig hefur undrað við sportveiðarnar er að þá hverfa öll siðferðileg viðmið  yfir utanvegaakstur úr fjölmiðlum. Það virðist vera fullkomlega góðkennt að aka utanvegar svo framarlega sem það er gert í þeim tilgangi að drepa aðrar lífverur ánægjunnar vegna. Enda hafa kapparnir varla burði né tíma til að bera bráðina hvað þá til að reita og svíða gæsina eftir að heim er komið með fótboltann á fullu í sjónvarpinu og tungusófann tilbúinn. Og ef einhver er hugsanlega talin getað hafa farið sér að voða fótgangandi við njóta náttúrunnar á veiðum, þá eru sendar heilu vélaherdeildirnar utanvegar til leitar. Það stóð samt ekki til að fara með þennan pistil út um þúfur með leiðinda langlokum um hvernig íslenskrar náttúru er notið á annan hátt en ég hef geð og getu til, hvað þá á fjallabaksleið við goðsagnir.

Goðinn

Völundur er 89 ára gamall og má því segja að hann hafi slitið barnskónum í árdaga Zeppelín loftfaranna. Hér fer hann yfir ræktunar skilyrði rabarbara í meira en 600 m hæð. Hann segist senda rabarbara úr Grágæsadal einu sinni á sumri á heimaslóðir Eyvindar og Höllu, til skálavarðanna í Hvannlindum með fyrirmælum um hvernig skuli elda grautinn án sykurs, og bera hann fram með rabarbarablöðunum undir diskunum "því allt verður að hafa sína serímoníu sjáðu"

Sumarið 2016 þeystum við Matthildur mín semsagt í fyrsta sinn á fjöll og heimsóttum tvo bernsku nágranna mína af hæðinni. Þá Völund Jóhannesson og Jóhann Stefánsson, en þeir eru jafnaldrar. Jói hafði þá haldið til við Þríhyrningsvatn einn á öræfunum sumrum saman og Völundur frá ómunatíð inn við Grágæsavatn. Það var mjög sértök upplifun að heimsækja þessa öldnu nágranna þar sem þeir dvöldu einir við sitthvort vatnið úti í sandauðninni.

Þetta koma til tals milli okkar Völundar þegar við heimsóttum hann á öræfin núna í sumar. Hann segir þá Jóa heyrast í síma á hverjum morgni kl. 9 til að kanna hvort þeir séu báðir lifandi. Ef annar hvor þeirra svarar ekki og hinn er vant við látin á að hafa samband við Dag Kristmundsson, sem á þá að fara í að athuga málið, enda Dagur ekki nema rétt að slá í áttrætt og enn á þönum við dagleg störf.

Heimsóknin í Grágæsadal í sumar bar upp á verslunarmannahelgi og var létt yfir Völundi að vanda. Rétt eins og fyrir þremur árum var beðið fyrir landinu og ekki ónýtt að hafa með í för til þeirrar bænagjörðar jarðvinnuverktaka inn í helgi bænahússins í Grágæsadal. En það hús sem Völundur kallaði safnaðarheimili fyrir þremur árum hefur nú fengið nafnið Pilthús. Á degi Íslenskrar náttúru 2016 skrifaði ég pistilinn Völundarhús um önnur hús Völundar á hálendinu hann má sjá hér.

IMG_4755

Handan næsta leitis vestan við Grágæsadal eiga jökulfljótin Kreppa og Jökulsá á Fjöllum upptök sín í Vatnajökli. Hvort örlög Grágæsadals eiga eftir að verða þau sömu og dalsins austan við hann, sem geymdi Jöklu forðum og fór undir Hálslón, mun tíminn leiða í ljós 

Völundur gaf sér góðan tíma til að spjalla í heimsókninni um verslunarmannahelgina. Hann var með stórfjölskyldu úr Reykjavík í árlegri heimsókn við garðyrkjustörf, en í Grágæsadal er hæsti skrúðgarður landsins í yfir 600 metra hæð og hefur Lára Ómarsdóttir gert Ferðastiklu þátt um garðinn, sem má sjá hér.

Það kom til tals hvort dætur hans hefðu komið í dalinn þetta sumarið. Hann sagði að það stæði til; „en það er nú bara þannig með þetta unga fólk í dag að það er meira að flækjast erlendis en á landinu sjálfu og er jafnvel erlendis hálft árið“. Systurnar ungu eru á svipuðum aldri og ég, ekki nema rétt svo sitt hvoru megin við sextugt.

Áður en við fórum bauð Völundur okkur inn í bæ og vildi sýna mér eldhólf á eldavél sem hann hafði ætlað að fóðra með eldföstum steini sem ég hafði klofið fyrir hann í fyrravor. Vegna þess að hann lét mig hafa akkúrat jafn marga steina og hann þurfti, og að sama dag og ég hugðist kljúfa þá áætlaði Völundur að fara á fjöll, þá greip ég til varúðarráðstafana. Að morgni þess dags var ég við að steypa gólfplötu sem járnagrindin hafði verið stóluð upp með eldföstum steini sem var akkúrat í þykktinni sem vantaði því fékk ég mér steina ef eitthvað misfærist.

Ég bað svo vinnufélaga minn um að koma klofnu steinunum ásamt varasteinunum til Völundar, en sá hafði verið milligöngumaður. Vinnufélaginn sagði mér að Völundur hefði verið farinn á fjöll og hann hefði skilið alla steinana eftir þar sem hann gæti nálgast þá og valið um hverja hann notaði. Þarna við eldavélina sagðist Völundur ekki vera búin að koma þessu í verk, steinarnir væru allir niður í kjallara, hann spurði hvora sortina væri betra að nota. Þá létti af mér þungu fargi.

Ég sagði honum að nota steinanna sem hann kom með, sem voru gamlir og snjáðir eldhólfsteinar úr aflagðri bræðslu, þó svo hinir sem ég lét fylgja væru splunku nýir. Þeir væru nefnilega úr Alcoa, „ja það var eins gott að þú komst maður“ sagði Völundur. Ég sagði að ég hefði gert mér þessa ferð því þetta hefði legið þungt á mér í meira en ár, ég hefði nefnilega ekki verið viss um að uppruni steinanna hefði komist til skila. „Það eru ekki allar ferðir til einskýrs, það má nú segja“ sagði Völundur.

IMG_4784

Utan við skrúðgarðinn stendur íbúðarhúsið í Grágæsadal. Þar má sjá grasbalann sem skrýðir hluta dalsins í víðfeðmri auðninni

Fyrir skemmstu kom Völundur til byggða og leit við hjá okkur "hæðarstrákunum". Erindið til byggða var að kippa upp nokkrum kartöflum. Annars dvelur þessi aldni höfðingi vanalega sumarlangt í faðmi fjallanna. Hann ítrekaði hversu heppilegt það hefði verið að fá í heimsókninni í sumar vitneskjuna um uppruna Alcoa steinanna og sagði að nú væru þeir réttu komnir í eldavélarofninn. Svona í tilefni tíðarandans þá spurði ég hann að því hvort hann héldi að þær 8 milljarða raflínuframkvæmdir sem nú færu fram á hálendinu norð-austanlands væru undirbúningur undir annað og meira t.d. sæstreng.

Hann sagðist ekki vita til hvers þær væru frekar en aðrir, en sjálfsagt þætti það gáfulegt að hafa sem fjölþættasta tengingu á milli tveggja stærstu orkuvera svæðisins þ.e. Kárahnjúka og Kröflu. Eldri lína sem reyst var á fyrsta áratug aldarinnar yrði svo nokkurskonar vara lína á eftir, þó svo að hún væri ekki nema rétt rúmleg 10 ára gömul. Annars væri það nú bara þannig að almennt væri fólk orðið svo hugfangið af hagvextinum að alltaf þyrfti eitthvað að vera um að vera. Flest venjulegt fólk gæfi sér ekki tíma til að vera til hvað þá að spá í hvaða erindi nýjar loftlínur ættu á fjöllum. 

Við enduðum svo samtalið á að minnast löngu gengins verslunareigenda sem var vanur að hengja upp auglýsingu í búðargluggann þegar veðrið var gott og berin blá, sem á stóð "farinn í berjamó". Í þá tíð gaf fólk sér tíma til að fara til fjalla enda alltaf hægt að nálgast það seinna sem vantaði úr búð.

Kreppa

Kreppa rennur úr Brúarjökli inn við Kverkfjöllum rétt fyrir vestan Grágæsadal, og er Kverká þverá hennar sem rennur fyrir mynni Grágæsadals í suðri og er stöðuvatnið í dalnum ættað úr Kverká. Ef farið er upp á fellið milli Kreppu og Grágæsadals blasa við Hvannalindir, Herðubreið, Snæfell og Kverkfjöll auk þess sem sjá má yfir mest allt Norður og Austurland

Nóbelsskáldið skýrði eitt sinn út hvert gildi fjallanna hefði almennt verið fyrir íslendinga í gegnum tíðina og kom orðum að því undir rós eins og hans var von og vísa. 

„Allt fram á nítjándu öld þótti íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur væri „furðu ljótur“, heldur þótti Mývatnsveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss. Varla eru eftir hafandi núna þær samlíkíngar sem þjóðleg bílífa okkar, þjóðsögur Jóns Árnasonar, velja því.

Rómantíkin þýska gaf okkur fjöllin og gerði þau okkur kær og kenndi Jónasi Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og unna þeim í ljóði; og eftir hann kom Steingrímur og kvað Ég elska yður þér Íslands fjöll; og hefur sá skáldaskóli auðsýnt þeim tignun fullkomna fram á þennan dag.

Á okkar öld hefur það þótt hæfa kaupstaðarfólki, sem var eitthvað að manni, að eignast vángamyndir af eftirlætisfjöllum sínum að hengja upp yfir sóffanum og hafa slíkir eftirlætis gripir verið nefndir sóffastykki að dönskum sið. Fólkið horfði svo lengi á þessi landslög uppá veggjum hjá sér að marga fór að lánga þángað. Svona mynd veitti áhorfana í rauninni sömu lífsreynslu og horfa út um glugga uppí sveit.

Reynslan er sambærileg við það sem þeim manni verður, sem svo leingi hefur skoðað mynd af Parísarborg að hann stenst ekki leingur mátið og fer þángað. Þegar hann kemur heim til sín aftur veit hann ekki fyrr til en Parísarborg er orðin miðpúnktur í lífi hans. Hugur hans heldur áfram að snúast í tilhlökkun til endurfunda við þessa borg með undrum sínum og uppákomum, stórum og smáum furðum, og smáhlutum síst lítilfjörlegri en þeir stóru; ekkert í heiminum jafnast á við að hafa fundið þessa borg.

Hversu marga landa höfum við ekki þekkt sem hafa nákvæmlega af þessari reynslu að segja um París, og margir skrifað um það í bókum hvernig þeir lifðu í stöðugri heimþrá þángað, jafnvel eftir að þeir eru komnir að fótum fram. Sá sem skilur þetta skilur sæludali þjóðsögunnar; og hann skilur líka útilegukonuna Höllu sem sat farlama á leiði í kirkjugarðinum á Stað í Grunnavík, og tautaði: „fagurt er á fjöllum núna.“ (Brot úr formála bókar Kjartans Júlíussonar frá Skáldastöðum-efri - Reginfjöll á haustnóttum)

 IMG_4751

Leiðin inn í Grágæsadal er úr allri alfaraleið, meir að segja á skala víðernanna sjálfra. Aka þarf tímunum saman um hrjóstur og svarta sanda áður en komið er fram á brún dalsins sem er með grænum grasbala við norður enda vatnsins sem hann prýðir. Á leiðinni í 740 m hæð er lítill rabarbaragarður sem einhversstaðar hefur fengið nafnið Völundarvin "en það flokkast náttúrulega undir brot á náttúruverndarlögum að stunda rabarbararækt í þessari hæð"

Í tíðaranda dagsins í dag eru það goðsagnir á við Ómar og Völund sem hafa fært okkur "sóffastykkin" í sjónvarpið heim í stofu og vitneskjuna um víðernin, þessa kórónu Íslands sem fólk víða að úr heiminum flykkist til landsins að sjá í allri sinni dýrð. Hér fyrir neðan er Kompás þáttur um óviðjafnanlegu baráttu Ómars á sínum tíma, og við hæfi að rifja hana upp á degi íslenskrar  náttúru.


Svarti víkingurinn

Þó nú sé í fyrsta skipti fengin niðurstaða um íslenskan rostungastofn með DNA rannsókn. Þá hefur tilvera rostunga á Íslandi áður komið fram m.a. í bók Bergsveins Birgissonar rithöfundar og norrænu fræðings, -Svarti víkingurinn.

Þar segir hann frá því hvernig hann fór að því að skrifa sögu Geirmundar heljarskinns. Eins leyndardómsfyllsta landnámsmanns Íslandssögunnar. Geirmundur var sagður dökkur og ljótur, með mongólska andlitsdrætti af konunglegum uppruna, "göfugastur landnámsmanna" samkvæmt Landnámu, og á að hafa riðið um sveitir Íslands með áttatíu vígamenn, átt mörg stórbú þar sem hann hélt mörg hundruð þræla.

Lítið er til um Geirmund í fornum heimildum, en Bergsveinn grófst fyrir eftir krókaleiðum og með staðbundnum rannsóknum hver maðurinn var og ritaði sögu hans fyrir nokkrum árum sem kom upphaflega út 2013 á norsku undir heitinu "Den svarte viking", en árið 2015 á íslensku sem "Saga Geirmundar heljarskinns".

Án þess að ég ætli að tíunda frekar hér hvers Bergsveinn varð áskynja um Geirmund, þá má segja í stuttu máli að þrælaveldi Geirmundar við norðanverðan Breiðafjörð, á Vestfjörðum og á Hornströndum var tilkomið vegna rostunga. En tó úr rostungaskinni og lýsið þótti í þá tíð nauðsynleg heimsmarkaðsvara til gerðar og viðhalds víkingaskipa.


mbl.is Fundu séríslenskan rostungastofn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í EES við vögum vær með vora byrði þunga

Sú stund virðist nálgast óðfluga að þjóðin taki loks afstöðu til EES samningsins, sem hún var svikin um að fá að kjósa um hvort hún vildi undirgangast. Stjórnmálamenn hafa í reynd aldrei staðið vörð um hagsmuni almennings þegar EES hefur verið annars vegar þó svo að öll opinber umræða hafi mært þann samning fram til þessa. Nú síðast taldi landráðaliðið (sem staðið hefur verið að því kjararáðssópa ofan í eigin vasa) ekki verða hjá því komist að samþykkja erlent boðvald við að markaðsvæða orkuna.

EES samningurinn hefur opnað allar gáttir, eða eins og stjórnmálaforingjar síns tíma orðuðu það svo smekklega "allt fyrir ekkert". Ágætt er að hafa það á bak við eyrað, ef fólk hefur ekki verið vaknað nógu snemma í morgunn, að kl 7:15 var öllum kirkjuklukkum landsins hringt vegna þess mikla fíkniefnavanda sem við blasir í landinu. Það hefði ekki þýtt að segja það nokkrum lifandi manni eftir að stjórnmálmenn með EES stjörnurnar í augunum stefndu á fíkniefnalaust Ísland árið 2000 að öllum kirkjuklukkum landsins yrði hringd 2019, til að vekja fólk til vitundar um að fíkniefnavandinn í landinu hefði náð áður óþekktum hæðum, sama dag og forræðið yfir orkunni var látið af hendi

En hvað hefur EES samningurinn raunverulega fært Íslendingum? Nú síðast í dag voru orkuauðlindirnar settar í uppnám hvað íslenskan almenning varðar. Fyrr á árinu kom í ljós að í skjóli hans voru skorður á innflutningi hrárra kjötvara fallnar. Þær raddir hafa orðið háværari sem bent hafa á að fullt tollafrelsi gagnvart ESB hafi aldrei verið uppfyllt hvað sjávarafurðir áhrærir eins og til stóð þegar EES samningurinn var í upphafi kunngjörður.

Síðuhöfundur lét sig hafa það árið 1993 að lesa EES samninginn, þá íslensku útgáfu sem utanríkisráðuneytið bauð almenningi upp á, og komst þá að þeirri niðurstöðu að þetta væri vondur samningur sem gæti þýtt "allt fyrir ekkert" fyrir þann sem væri meiri máttar. Þegar EES samningurinn var kynntur fyrir almenningi, á sínum tíma, bar hæðst tollafrelsi á unnum sjávarafurðum sem brothættar byggðir landsins þurftu sannarlega á að halda. Allir vita hvernig fór stærstur hluti brothættu byggðanna brotlenti, og sjávarfang fer nú óunnið úr landi sem aldrei fyrr.

Um síðustu aldamót upplifði ég stór tímamót. Það Ísland sem ég þekkti var horfið og fiskimiðin endanlega komin á markað, breytingarnar tóku aðeins örfá ár. Síðasta árið sem ég bjó á staðnum, sem átti að verða mitt heima í þessu lífi, dundaði ég mér við að mála myndir. Einn daginn kom til mín vinkona, sem vann í fiski, með smásagnabók eftir Selmu Lagerlöf og bað mig um að mála mynd eftir einni sögunni í bókinni. Henni langaði svo mikið til að vita hvaða mynd ég læsi út úr sögunni. Ég varð við þessari bón og máliði mynd fyrir hana og lét texta fylgja.

 

Hreiðrið

Sagan Hreiðrið eftir Selmu Lagerlöf segir frá einbúanum Hattó sem fór út í auðnina og bað Drottinn engrar smábænar, hvorki meira né minna en um að tortíma heiminum. Því svo miklar voru syndir mannanna að frelsa þurfti þá ófæddu frá lífinu sjálfu. Þann tíma sem hann var á bæn komu máríerlurnar og gerðu hreiður í hendi hans vegna þess að eina tréð í nágreninu var greinalaust og Hattó líkari tré sem veitti skjól. Hattó fór smá saman að finna til samkenndar með íbúum hreiðursins og sannfæringarmáttur bænar hans dvínaði smátt og smátt. Að endingu bað hann hreiðrinu griða.

Sævar sjómaður hafði aldrei beðið bæna í líkingu við bæn Hattós. Hér áður fyrr þegar fiskverð var lágt, hafði honum í versta falli komið það til hugar að kaupfélagið væri dragbítur á framfarir og mætti því missa sig. Með tímanum tóku við nýir siðir sem Sævar átti erfitt með að skilja, hann mátti ekki veiða nema ákveðinn afla hvernig sem gaf. Það undarlega var að verðið sem hann þurfti að fá fyrir fiskinn fékk hann fyrir hann óveiddan og kallaðist þetta markaðsvæðing. Kaupfélagið fór á hausinn því það réði ekki við að kaupa óveiddan fisk á markaðsverði.

Svo hrundi vitinn í gjörningaveðrinu mikla og leiðsögnin brást. Á endanum varð hið gjöfula haf sem ófær eyðimörk fyrir Sævari og hann gat hvorki flotið burt á sínum brotna bát né séð fjölskyldunni farborða. Fram til þessa höfðu Sævar og Hattó aðeins átt eina bæn sameiginlega, þá að biðja Drottinn um að þyrma hreiðrinu.


Sturlunga

Vögum, vögum, vögum vær

með vora byrði þunga,

af er nú sem áður var

í tíð Sturlunga.

Varist þér og varist þér,

vindur er í lofti.

Blóði mun rigna á berar þjóðir.

Þá mun oddur og egg arfi skipta.

Nú er hin skarpa skálmöld komin.

Seggir sparir sverði að höggva.

Snjóhvítt er blóð líta.

Skæröld getum skýra.

Skarpur brandur fékk þar landa,

skarpur brandur fékk mér landa.

Rökkvar að éli, rignir blóði.

Hrýtur harðsnúinn hjálmstofn af bol.

Vögum, vögum, vögum vær

með vora byrði þunga,

af er nú sem áður var

í tíð Sturlunga

og í tíð Sturlunga.


mbl.is Utanríkisráðherra hefur fengið líflátshótanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorry speak english

Hvað ætli það hafi margir þjónustustaðir breyst „Sorry speak english“ staði á landinu bláa undanfarin ár? Mér varð hugsað til þessa í gær þegar ég þurfti vegna vinnu að heimsækja stað sem fyrir nokkrum vikum síðan var töluð íslenska og enska. En í gær bar svo við að íslensku kunnáttan virtist vera fyrir bý. Í nágrannalöndum s.s Noregi er lögð áhersla á það að þeir sem komi fram fyrir hönd fyrirtækis tali hið opinbera tungumál.

Þegar „hið svokallaða hrun“ dundi á landanum þurfti síðuhöfundur á endanum að flýja til Noregs til að losna við íslenskumælandi stefnuvottana af útidyrasnerlinum. Þar réði ég mig hjá norsku múrarafyrirtæki og var áður spurður hvort ég kynni norsku. Þó svo að ég svaraði á ensku þá sagðist ég ekki vera í nokkrum vandræðum með norskuna þyrfti bara smá æfingu. Annan daginn hjá fyrirtækinu í Noregi var ég spurður hvenær ég ætlaði að fara að tala norsku. Ég svaraði á ensku „eftir viku“ en meiri þolinmæði þyrfti með múrverkið það gæti tekið mig mun lengri tíma að læra það.

Fljótlega var ég settur inn í verkefni sem ég átti að vinna mig fram úr einn en norskur vinnufélagi var mér til halds og trausts fyrstu klukkutímana. Þar var verið að byggja kyndistöð fyrir fjarvarmaveitu og átti ég að hlaða veggi, sem þurfti að hífa hleðslusteininn í og forfæra á lyftara. Við vinnufélaginn töluðumst við á ensku. Sá sem var í hífingunum  sagði yggldur á brún við mig „hvis du skal jobbe her i norge, må du snakke norsk“.

Ég svaraði honum eins vel og ég gat á barnaskóla dönskunni minni; að það væri norski vinnufélagi minn sem talaði við mig á ensku því hann væri að æfa sig í henni. Og bara svo að hann vissi það þá væri ég sá eini af okkur þrem sem talaði ekta norsku en hana skildu þeir tveir ekki lengur. Þessi aldni kranabílstjóri heilsaði mér kumpánlega í hvert skipti sem við hittumst eftir þetta og ég komst fljótlega að því að norskan hefur orðið yfir ósvífni sem smitast hefur inn í íslenskuna, þ.e. orðið gálgahúmor.

Fyrsta daginn í nýja starfinu komst ég að því að vinnufélagarnir voru jafnmargir af erlendu bergi brotnir og norsku. Helmingurinn af þeim var frá Afganistan og Súdan, en þeir töluðu norsku. Þessir vinnufélagar hjálpuðu mér mikið með norskuna því enskan var þeim flestum framandi og eina ráðið til þess að skilja hvern annan var að tala saman á norsku. Fljótlega bættist málgefinn pólverji í vinnufélaga hópinn sem var búin að vera í fjölda ára í Noregi en talaði bara lélega ensku.

Við unnum tveir saman um tíma og þá sagði hann mér að hann hefði verið skildaður á norsku námskeið oftar en einu sinni og skildi vel norsku. Ég sagði honum þá að eftirleiðis talaði ég bara við hann á norsku. Hann þrjóskaðist við í þögn fyrsta daginn en fór svo að reyna að ná sambandi. Eftir nokkra daga vorum við farnir að rífast um það þegar við keyrðum yfir Tjadsundsbrúna, hvort málvenjan væri að segja Tjeldsundsbrua eða –bru á norsku. Þessi vinnufélagi sem talaði ekki norsku við aðra en mig, var á lægri launum en við hinir þrátt fyrir að vera með sömu afköst, og var sá fyrsti sem tók pokann sinn þegar verkefnin drógust saman.

Framkvæmdastýra fyrirtækisins hafði það oft á orði að það hefði verið furðulegt að verða vitni af því hvað ég varð fljótt altalandi á norsku eftir að hafa orðið uppvís af því að skrökva til um það á ensku að ég kynni hana. Einn norski vinnufélaginn, sá sem elstur og sigldastur var, sagði þá að hann grunaði mig um græsku. Hvort ekki gæti verið að danska væri kennd í íslenskum barnaskólum?

Þessi lífsreyndi norski vinnufélagi var u.þ.b. að ljúka sinni starfsæfi á þeim tíma sem ég var þarna við störf. Við spjölluðum oft um heima og geima og einu sinni sagði hann við mig „Magnús heldurðu að það hefði þýtt að segja mér það árið 1999, þegar fáheyrt var að útlendingur starfaði í norskum byggingaiðnaði, að um áratug seinna myndi ég vinna með eintómum útlendingum sem ekki væri hægt að tala við um norsk málefni“.

Þó svo að ég tæki þetta ekki til mín, því íslendingur í Noregi er fyrir norðmönnum nokkurskonar litli bróðir, þá fauk nett í mig og ég sagði honum það að norðmenn ættu kannski að hugsa aðeins út í hverskonar pólitíkusa þeir veldu sér og láta aðrar þjóðir í friði. Þegar ég sagði upp eftir þriggja ára veru til að halda heim á landið bláa, þá sagði sá gamli upp rétt á eftir. það var stutt í eftirlaunaaldurinn hjá honum og hann sagðist ekki lengur nenna að vera félagslega fatlaður á norskum vinnumarkaði.

Þetta rann allt saman eins og ísaldarleir á milli eyrnanna í gær þegar ég kom óundirbúinn inn á „sorry speak english“ stað. Þarna höfðu verið fyrir aðeins nokkrum vikum eintómir íslendingar við störf. Sennilega hafa einhverjir þeirra verið í sumarvinnu og eru nú komnir í æðri menntastofnanir, jafnvel til að læra að kenna ungdómnum hvernig á að stafa sorry speake english. Eða jafnvel að ná sér um háskólagráður, sem kannski nýtast ekki til annars en atvinnuleysisbóta, nema þau læri að segja sorry á fleiri tungumálum en ensku. Því acctually er það svo að basically þarf að tala þjóðtunguna hvar sem er í heiminum til að eiga góðan séns.

Varla verður því trúaða að auravonin ein stýri þar sem landsliðið í kúlu hefur haft hönd í bagga, að „sorry speak english“ sé gert að opinberri kveðju á Íslandi. Nema að það sé meiningin að Fly Bus4You rúturnar flytji einungis enskumælandi Greyline túrista inn á „sorry speak english“ staðina. Það gæti á endanum orðið erfiðara fyrir kúluspilarana að snúa sig út úr því en fyrir Air Iceland Conect að verða aftur að Flugfélagi Íslands.

Jafnvel erfiðara en það var fyrir óskabarn þjóðarinnar Eimskip að halda upp á 100 ára afmælið á splunku nýju kennitölunni um árið með angurværum auglýsingum á öllum sjónvarpsstöðvum, þar sem kona og börn tóku á móti fjölskylduföðurnum í íslenskri lopapeysu með viðlaginu „sértu velkominn heim, yfir hafið og heim“ .


mbl.is Hefur áhyggjur af íslenskunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkupakkinn - afsprengi sturlunar

Spilverk Þjóðanna söng um árið sönginn um Sturlu sem hefst á orðunum „Þú ert menntaður vel og styrktur“. Þetta dugir þó eitt og sér lítið til framdráttar þegar „vantar tólin og tækin og réttu vandamáli“. En Sturla var „boðinn og búinn til veislu“ sem endaði á því að hann gróf þeim gröf sem trúðu á nýtt og betra líf. Textinn endar svo í óræðri spurningu „hvort aka hetjur um hringbraut“.

Hringavitleysa íslensksrar óhamingju virðist nú á tímum vera að endurtaka sig með þeim hætti að erlent regluverk er íslenskum lögum æðri, sem byggja þó á hagsmunum Íslendinga.

Árið þúsund tóku landsmenn þá ákvörðun að hafa einn sið í landinu. Þegar Sturlungasaga er lesin má greina hversu erfiðlega landsmönnum gekk að ná málum sínum fram ef þau brutu í bága við kirkjuvaldið, sem sótti sitt umboð undir páfann í Róm. Samt telja landsmenn það hafa verið til heilla að hafa undirgengist einn sið, jafnvel þó svo að augljóst sé að einmitt það hafi kostað Sturlungaöld og sjálfstæði hátt í 700 ár.

Þó svo að lögfrótt fólk sem vill láta taka sig alvarlega, sverji fyrir að hagsmunamál landsins í dag byggi á trúarbrögðum, þá keppast hinir sömu við að mæra samninginn um evrópska efnahagsvæðið, sem nokkhverskonar einn sið, líkt og væri um heilaga kirkju að ræða. Það virðist vera nóg að minnast á hversu vel EES samningurinn hafi reynst til að rökstyðja rakalaust hvað sem er. Það má jafnvel líkja helgi EES við setningarbrot sem kom inn í íslenska tungu um siðaskiptin „í Jesú nafni amen“ og málið telst afgreitt.

Sá munur er þó á að um siðaskiptin árið 1000 þá voru málin rökstudd með kærleikanum sem fólst í boðskap Jesú Krists. Núna 1000 árum síðar er það hinn heilagi hagvöxtur sem dugir til að rökstyðja alla skapaða hluti. Jafnvel þó svo að hinn heilagi hagvöxtur sé komin með jarðarbúa fram á bjargbrúnina við að sólunda auðlindum jarðar einungis hagvaxtarins vegna. Evrópusambandið hefur sett upp regluverk í stórum stíl sem byggir á álíka vísindum og galdrabrennur fyrri alda svo viðhalda megi hinum heilaga hagvexti sjálfbært og þar má víst engin undan skerast.

Það hefur hver langskólagenginn sérfræðingurinn af öðrum verið kallaður fram til að hafa vit fyrir hundheiðnum landanum í orku einangrun sinni, sem ekki getur skilið hversu mikilsvert er að taka upp evrópskt regluverk landsins vegna. Ekkert af þessu hámenntaða vel styrkta liði hefur tekist að benda efasemdar mönnum á svo mikið sem eitt atriði sem gagnast myndi íslenskum almenningi. En keppast þess í stað við að skýra út hversu  veigamikill fyrirvari alþingis er sem undanþága frá hinum evrópsku lögum, enda myndi annað þýða lok lýðveldis á svipaðan hátt og þjóðveldis á sínum tíma.

Ein og ein mannvitsbrekka hefur þó haft sig í að segja að það beri að fá sem hæst verð fyrir orkuna á markaði, en vill samt halda inni fyrirvaranum um tengingu sæstrengs inn á Evrópska kerfið. Þetta þýðir á markaðsmáli mannanna að það beri að hækka orku til landans eins og mögulegt er, allavega á meðan ekki er hægt að koma okrinu úr landi á annan veg.

Það segir sig náttúrulega sjálft að það er illmögulegt að skýra það út fyrir almenningi hvaða hag hann hefur af svona regluverki. Og er varla nema von að þeir sem ætla að hagnast á regluverkinu einu saman vanti nú tólin og tækin og réttu vandamálin við að skýra sitt mál.


Sérviskan lengi lifi

Hvað er það sem fær miðaldra mann til að blogga? Við þessari spurningu er varla til neitt einhlítt svar, - og þó. Sá sem t.d. skoðar moggabloggið reglulega mun fljótlega komast að því að þar er að miklu leiti við ritstjórnina sundurleitur hópur samansúrraðra sérvitringa sem væru greindir einangrunarsinnar sem aðhyllast afturhald og þjóðernispopúlisma ef mælistika hinar pólitísku rétthugsunar er notuð.

Hjá mörgum bloggurum eru það fréttir sem kveikja neistann og pistlarnir því oft tengd við fréttir á mbl, og þar viðraðar aðrar skoðanir en fram koma í fréttum. Því má segja að flest blogg eigi sér þann uppruna að fara gegn rétthugsun sérfræðingaveldis samfélagsins sem kallað er á teppi fjölmiðlanna til að láta almenning vita hvað hagkvæmt sé að halda. Blogg er því oftar en ekki til að opinbera sérvisku í stað sérfræðiþekkingar.

Síðuhöfundur hefur bloggað á moggablogginu í meira en 10 ár og má segja að fyrstu árin hafi bloggin verið að mestu fréttatengd. Fljótlega upp úr hinu „svokallaða hruni“ fóru fréttir og sérvaldir álitsgjafar að verða aftur svo yfirgengilega einróma í síendurtekinni sérfræðiþekkingu sinni að ég slökkti endanlega á sjónvarpi og flatskjárinn flaug svo fram af svölunum eins og freesbeediskur nokkrum árum seinna.

Ástæða þess að svartur skjárinn fékk pláss svo lengi í stofunni var sú að hún Matthildur mín sagði að við myndum líta út eins hverjir aðrir sérvitringar ef á heimilinu væri ekkert sjónvarp sýnilegt þegar gesti bæri að garði. Hún sjálf var fyrir löngu hætt að horfa á sjónvarpið á undan mér, en hefur sennilega alveg rétt fyrri sér hvað álit fólks á sérvisku varðar.

Eins og mátt hefur greina í bloggum undanfarið og myndaalbúmi, þá höfðum við hjónin verið að fikra okkur Íslenska hringinn undafarnar vikur af eintómri sérvisku, og fórum hann furðulegan með fermingarsvefnpoka og tjald. Það má segja að við höfum farið með veggjum, eða kannski réttara sagt þokubökkum og sólstöfum. Þrætt annes og afdali, en annað slagið höfum við samt kíkt við í alfaraleið. Slóðin lá norður annes og inn til dala, út Strandir og yfir Þröskulda, upp Borgarfjörð um Uxahryggi ,og svo með rykkjum og skrykkjum alla leiðina austur um Öræfi heim.

Í þessu ferðalagi var hvorki kveikt á útvarpi né komið við í Reykjavík og við erum bæði svo svakalega sérvitur að hafa ekki tileinkað okkur snjallsímatæknina. Í lok þessarar ferðar heimsóttum við svo alsæl og utangátta vinafólk í hjólhýsaþyrpingu við rætur óbyggðanna heima, og var þá skyndilega kippt niður á jörðina þar sem við sátum úti með vinafólki. Á þessu sólbjarta sumarkvöldi birtist út úr einu hjólhýsi eldri kona skelfingu lostinn og spurði hvort við værum ekki að fylgjast með fréttum.

Í sjónvarpinu væri verið að segja frá seinna fjöldamorði dagsins í vestri, yfirvofandi flóðum hjá frændum vorum í austri og hamfarahlýnun. Við sem höfðum haldið okkur eiga indælis ferð og hitt á notalegt veður fyrir fólk rétt fyrir sextugt til að þykjast ungt í annað sinn. Á ferðalaginu um landið urðum við dagþrota hvern einasta dag og litum oftar en einu sinni í augu hvors annars vitandi upp á hár að þetta er allt saman farið styttist í annan endann. það þarf engar fréttir eða facebook statusa því til staðfestu.

Undanfarin ár hefur Ísland átt hug minn og má segja að bloggin mín hafi verið til að æfa íslenskan stíl. Það hefur nefnilega verið að læðast að mér sú hugsun með aldrinum, að það sé ekki tilviljun hvar við fæðumst og hvað því fylgir, og rétt sé að nota það á meðan tími gefst. Kannski er það með þetta eins og fleira að það þurfti erlendar fréttir og túrista til að augun opnuðust.

Nú orðið nota ég bloggin mín meira sem bók daganna um það sem má lesa á milli línanna og til æfinga í íslensku. Enda hefur pirringur minn farið vaxandi eftir því sem ég heyri fleiri, sem deila kjörum á landinu bláa, tjá sig á lélega mengaðri ensku. Ég hef fjargviðrast útí það hér í blogg að þjóðmenning mörlandans sé kynnt á ensku sem fyrsta máli, en þar er samt ekki kynnunum um að kenna heldur kannski skorti á íslenskum eyrum.

Eins hef ég sagt frá gamla Akureyringnum sem bauð mér "Good morning" við ruslatunnurnar til þess að vera alveg öruggur með að gera sig ekki að viðundri. Jafnvel þó ég væri hrolleygur bláskjár í gatslitinni lopapeysu í morgunn kulinu. Ég svaraði með "góðan daginn" á því ástkæra og ylhýra, sem kannski hefði betur verið látið ógert því sú kveðjan virkaði eins og kjaftshögg á þann gamla.

Eitt sinn í þessum hring þegar dagur var að kveldi kominn spurði ég 66° bláklæddan, rauðbirkinn tjaldsvæðisvörð hvort hægt væri að fá að tjalda. Hann  hastaði „speak english please“. Þau stóðu þarna fjögur saman svo ég spurði brosandi, -til fullviss mig alveg, -hvort það væru fleiri fábjánar hér og fór svo inn um dyr sem á stóð reception. Sá rauðbirkni stormaði inn á eftir og sótti geðuga konu sem sagði "hvað gengur eiginlega á". Þegar  sérviskan hafði verið greind, spurði hún með íslenskri alúð „get ég gert eitthvað fyrir þig“. Ég svaraði  „tjaldstæði fyrir tvo takk í litlu kúlutjaldi niður við lækinn“. -“ Það er bara ekkert annað“ sagði hún með brosi.

Í þessari hlykkjóttu hringferð þá ætluðum við að gista á einu af frægu tjaldsvæðunum. Þar fengust engar upplýsingar í verslun nema á ensku þó svo að verðlagið væri tvöfalt. Þegar ég ætlaði að fá upplýsingar í viðeigandi reception stóð svo á að verið var að setja nýjan starfsmann inn í starfið og var hún æfð á ensku spurði þá sem undan mér voru "and you are icelanders", -"no we are danish" sagði fjölskyldufaðirinn. Ég bar mitt erindi upp á því ástkæra og ylhýra en fékk strax til baka „speak english please“.

Það hafði ég ekki hugsað mér, og snéri mér því að þeirri leiðbeinandi og fékk langdregið og ljúft „sorry speak english please“, þrátt fyrir að gestir væru 80-90% Íslendingar. Ég brosti mínu blíðasta og sagði „nei takk“ á minni langt um langdregnari sérvisku. Við fórum á annað tjaldstæði í nágrenninu. Það er rekið í tengslum við gróðurstöð og hafði auk þess veitingasal. Þar starfaði íslensk fjölskylda og voru þau ekki í vandræðum með móðurmálið tókst meir að segja að fá fullan sal af Ítölum til að hlæja á því ástkæra og ylhýra.

Ég hef stundum sagt Pólverjunum sem ég vinn með að þeir séu búnir að hirða flest skemmtilegu störfunum frá Íslendingum og þá glotta þeir íbyggnir. Enda hafa þeir pappíra úr lærðum skólum ráðstjórnarinnar upp á hvað sem er, og vita upp á hár hvers þeir fóru á mis við að rýna í reglugerðina. Í síðustu viku mætti ég loks aftur til vinnu og var þá dubbaður upp í nýjan eldrauðann vinnugalla frá hálsi að hælum. Ein af mínum skildum er að sjá um að þeir fái að éta ef lengra er farið og þurfti ég í verslun til að sækja vistir.

Fyrir framan mig við kassann var íslenskur maður með sín innkaup, sem skyndilega skaust og náði sér í brauð réttar vefju til viðbótar. Þegar hann sá heildarútkomu viðskipta sinna gapti hann eins og naut á nývirki yfir 2001 krónu og bað um kvittun með svip. Kornung afgreiðslustúlkan spurði hikandi hvort ekki væri allt í lagi og hann spurði starandi á móti hvað er þetta og benti borandi fingri á línu á kvittuninni.

Annar eldri starfsmaður verslunarinnar var komin fyrir aftan mig í röðina og unga stúlkan á kassanum spurði hana hvort hún vissi hvað þetta væri. Hún snéri sér að manninum og spurði harðmælt „did you buy fish“; - „no I did not buy fish“ svaraði hann með þjósti. Eftir það fóru öll samskipti þessari þriggja landa minna við kassann fram á lélegri ensku. Á endanum var „did you buy fish“ bakfært og maðurinn gekk ánægður út með fullt fang af góssi hámandi í sig „did you buy fish“.

Ég stóð eftir eins og ljómandi jólasveinn í nýja rauða vinnugallanum mínum og reyndi að ropa upp kennitölu fyrirtækisins á íslensku svo hægt væri að reikningsfæra viðskiptin og gafst ekki upp þó svo að það þyrfti þrjár tilraunir til, þegar ég kom út var ég spurður "hvar er húfan" á kýrskýrri íslensku en þóttist ekkert skilja. Já hún getur verið sérstök sérviskan.


Hundakúnstir á Havarí

IMG_1118

Þá hefur þjóðvegur eitt verið formlega opnaður með bundnu slitlagi, allan hringinn. Þetta gerðist þegar samgönguráðherra klippti á borða austur á fjörðum við Berufjarðarbotn. Árið 2017 var þessi rúmlega 4 km vegspotti í Berufjarðarbotni, boðin út með flugeldasýningu og um leið boðuð mikil tímamót í samgöngusögu landsins.

Vegagerðinni, ásamt bændum og búálfum, hafði fundist Berufjarðarleiran álitleg sem vegstæði. Um leið var tilkynnt um þau tímamót að þjóðvegur eitt yrði allur orðinn með bundnu slitlagi 1. september 2018, þ.e. við verklok vegagerðarinnar í Berufirði. Reyndar var þjóðvegur eitt fluttur "um firði" við sama tækifæri, enda var fyrirsjáanlegt að tímamótamarkmiðið í samgöngumálum landsins myndi ekki nást nema með pólitískum skollaleik og sá þjóðvegur eitt sem svo hét til 2017 er reyndar ekki enn frír við holótta malarkafla.

Þessa ákvörðun tók þáverandi samgönguráðherra og lengdi með því þjóðveg eitt um tugi kílómetra. En eitthvað fóru áformin ekki alveg samkvæmt exelskjalinu, hvað þá dagatalinu, og varð ársseinkun vegna þess að vegurinn sökk í botnlausa leiruna. Eftir að hafa keyrt fjallshlíðum á haf út í tæpt ár frá fyrirhuguðum verklokum var nú loks hægt að opna vegspottann af núverandi samgönguráðherra sem plataði sig til samgönguráðherradóms með því að vera á skjön við þann sem hóf verkið hvað veggjöld varðar.

Eftir fánum skrýdda borðaklippingu voru boðnar veitingar á vegan veitingastaðnum Havarí sem er á fyrrum bújörðinni Karlsstöðum við Berufjörð. Þar héldu ráðherrann og forstjóri vegagerðarinnar, sem bæði eru dýralæknar, ræður þar sem rómað var að það takmark hefði náðst að ljúka við bundið slitlag á þjóðveg eitt allan hringinn. Jafnframt meig ráðherrann utan í veggjöld og vegtolla út og suður svo til vegstyttinga geti komið, jarðgangagerðar og almennra samgöngubóta. Enda mátti skilja á máli ráðherra að landsfeðrunum veiti ekki af hverri krónu sem hægt er að snúa út úr landanum.

Það má því segja að tímamótin í Berufjarðarbotni hafi verið vörðuð hundakúnstum og hafarí. Og er það kannski tímanna tákn að þegar hringurinn lokaðist var boðið upp á vegfjöld og vegan af uppgjafa dýralæknum.

IMG_1126


Út um þúfur

IMG_3988

Ennþá er búið í torfbæjum á Íslandi, það kom heldur neyðarlega í ljós í síðustu viku. En eins og þeir vita, sem hér líta inn, þá hef ég blæti fyrir því að ljósmynda torfbæi, og hef verið að reyna að venja frúna af því að liggja á gluggum rétt á meðan, svona myndana vegna. Um daginn keyrðum við að torfbæ sem ekki átti að vera til samkvæmt mínu registri. Við renndum í hlað og ég sagði strax og stoppað var; ekki liggja á gluggum eins og hver annar túristi, það er dónaskapur að liggja á gæjum hjá fólki. það hnussaði í; hva,,, heldurðu virkilega að það búi einhverjir ennþá í torfbæ.

Það leið ekki á löngu að út um bæjardyrnar á miðburstinni birtist sköruleg kona, sem bauð góða kvöldið á ensku og spurði hvort hún gæti eitthvað fyrir okkur gert. Ég áttaði mig fljótlega á að þetta var ekki álfkona. Við reyndum að bjarga okkur út úr aðstæðunum með því að þykjast ekkert skilja og töluðum bara íslensku, en það dugði skammt. Sú sem var greinilega ekki álfkona upplýsti okkur um það að hún og hennar fjölskylda væru Íslendingar sem byggju í þessum torfbæ og hefði það verið gert um aldir þó svo að stutt væri síðan að þau hefðu gert bæinn upp. Fljótlega fóru umræður út um þúfur eins og íslendinga er siður og hefðu leikandi getað endað í ættfræði eða jafnvel dagþroti ef ekki hefðu birst erlendir túristar til að bjarga málum.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem við Matthildur mín komum okkur í vandræði með forvitni. Fyrir nokkrum árum urðu við að gjöra svo vel að sitja í skammarkróknum því sem næst heila messu, ef svo má segja, en þá vorum við á ferð í Loðmundarfirði. Það á nefnilega það sama við um kirkjur og torfbæi að ég umkringi pleisið með myndavélina að vopni á meðan hún hefur áhuga á því sem fyrir innan er, og enn kemur fyrir að kirkjur eru ólæstar. Þegar við ætluðum að kíkja inn fyrir kirkjudyrnar á Klyppstað þá stóð þar yfir árleg messa í þessum eyðifirði sem telur enga safnaðarmeðlimi.

Þar var fyrrum lærimeistari minn hringjari og ekki var við annað komandi en okkur yrði troðið inn í yfirfulla kirkjuna. Það fór svo að við Matthildur sátum á milli prestanna upp við altarið og snérum að kirkjugestum. Prestarnir voru tveir sem messuðu, þær sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir. Sr. Davíð Þór Jónsson radíusbróðir, sem var þarna sem kirkjugestur, var einnig komið fyrir með okkur Matthildi við altarið og átti hann skilið að sitja í skammarkróknum enda hafði hann komið sér þangað af sjálfsdáðum.

Séra Sigríður Rún talaði úr stólnum og lagði út frá fjallræðunni, um það hvernig varast skyldi farísea og fræðimenn sem væru oftar en ekki sauðir í úlfsgærum. En sleppti því sem betur fer alveg að leggja út frá gluggagæjum. Hún kom síðan inn á að ekki væri samt sjálfgefið með að menn slyppu alfarið við heimsendinn þó svo að vísindamenn væru komnir á slóð óendanleikans.

Okkar tími kynnu þess vegna að líða undir lok á hraða ljóssins. Vísindamenn hefðu komist á slóðina þegar þeir áttuðu sig á að ljósið færi hraðar en hljóðið með því einu að hlusta eftir þrumunni, sem heyrist á eftir að eldingin birtist. Með þessa vitneskju að leiðarljósi hygðust þeir bjarga heiminum og komast aftur fyrir upphafið á hljóðinu og síðan á hraða ljóssins fram fyrir óendanleikann. Spurningin væri samt alltaf sú hvort tíminn hægði þá ekki það mikið á sér að hann stæði að lokum í stað svo allt yrði dimmt og hljótt, og tíminn jafnvel búinn, sem væri þá kannski bara heimsendir.

Litli drengurinn hennar sr. Sigríðar, sem var farið að leiðast langdregin prédikunin, þar sem hann sat með pabba sínum og eldri bróðir á fremsta bekk, hékk orðið á haus á milli fóta föður síns. Á hvolfi horfði hann upp í prédikunarstólinn á móður sína og rétt náði að segja; en mammaaa! áður en pabbi hans dreif sig með hann út úr kirkjunni svo ekki yrði frekari truflun á heimsenda hugleiðingunni.

Þeir voru fleiri feðurnir sem þurftu að fara út með óþreyjufull börn úr árlegri messu á Klyppstað þetta sumarið. Um miðja prédikun var ég farin að ókyrrast og hugleiða hvað það væri gott að hafa börn í sinni umsjá við að kíkja á glugga, en tók svo eldsnöggt þá ákvörðun að fara út með barnið í sjálfum mér þó svo að ég þyrfti að þramma kirkjuna endilanga, fram hjá prédikunarstólnum, á móti söfnuðinum með marrandi gólffjalir undir fótum. Mér er ekki örgrannt um að orð eins þjóðskáldsins gætu átt við þessa brottför barnanna úr Klyppstaðarkirkju "Á flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið af týndum tíma er af nægu að taka".

Hann var miklu skeleggari og skorinorðari kínverski túristinn sem Matthildur hitti í árlegri sumar heimsókn á heiðina um helgina. Þegar hún ætlaða að fara inn torfbæinn og kíkja á kettlinga sem það eru vanir að vera sumarlangt. Þá stóð skyndilega bálsteyttur Kínverji blásvartur í framan úti í bæjardyrunum, rétt eins og úrillur álfur út úr hól, og skrækti prívat, prívat.

 

Ps. Set hér fyrir neðan nokkrar myndir af þjóðlegum þúfnagangi í síðustu viku.

IMG_4002

Á Reykjum Reykjaströnd við Skagafjörð hafa torfhúsatóftir verið endurhlaðnar og eru notaðar sem þjónustuhús við tjaldstæði. Það er allt til alls í þessum húsum og er þetta með skemmtilegri tjaldstæðum sem við höfum gist. Rétt utan við tjaldstæðið er Grettislaug og Grettiscafé. Það var yfir á Reykjaströnd sem Grettir sterki sótti eldinn þegar hann þreytti Drangeyjarsundið um árið og yljaði sér í lauginni á eftir. Engir Íslendingar gistu tjaldstæðið þegar við vorum þar en margt var um erlenda ferðamenn sem vildu ekki fyrir nokkra muni missa af því að upplifa sólarupprás við Drangey.

 

IMG_4482

 Á Keldum Rangárvöllum er torfbær af fornri gerð og er hann jafnframt eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Keldur er einstök heild bæjar- og útihúsa frá fyrri tíð. Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu formgerð torfhúsa, þar sem framhúsin snúa langhlið að hlaði. Sandfok hefur eytt mjög landi kringum Keldur og hafa bændur þar lengi barist harðri baráttu til að bjarga landinu frá því að verða örfoka. Keldur draga nafn sitt af uppsprettum sem koma víða fram á bænum og hefur bærinn og ábúendur hans komið við sögu í mörgum fornum bókmenntum, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu. Gamli bærinn á Keldum er í umsjón Þjóðminjasafnsins og hægt er að skoða hann daglega á sumrin.

 

IMG_4755

Pilthús goðans í Grágæsadal var áður kallað Safnaðarheimilið, en innan við húsið er önnur burst sem í er bænhús. Þó goðinn sé ekki viðlátinn í Grágæsadal er bænhúsið ávalt opið en þar er ætlast til að beðið sé fyrir landinu. Við hjónin höfum tvisvar komið í Grágæsadal til að heimsækja Völund frænda minn, og höfðum með í för jarðverksverktaka ásamt fleira fólki um síðustu helgi komið til að biðja fyrir landinu okkar. Í Grágæsadal er landsins hæsti skrúðgarður í yfir 600 m hæð í þetta sinn var stórfjölskylda úr Reykjavík við garðyrkjustörf, þannig að goðinn gaf sér góðan tíma til að spjalla.

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er torfhús, talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju. Þjóðminjasafnið hefur sett tugi milljóna króna í viðhald og merkingar við gamla bænhúsið, en getur ekki hleypt ferðamönnum að bænhúsinu því jörðin og byggingarnar þar eru í einkaeigu.

 

IMG_4512

Neðan við Núpstað niður við þjóðveg er hengilás og keðja í heimkeyrslunni, í keðjunni hangir skilti með áletrun um einkaeign. Því er ekki hægt að komast til bæna í þjóðminjunum nema fara í gegnum hlaðið á Núpstað. Bærinn á Núpstað er samkvæmt mínu registri síðast torfærinn af Skaffellskri gerð sem uppi er standandi og væri verðugt verkefni að koma honum til vegs og virðingar þó svo að það væri ekki nema fyrir þær sakir einar, jafnvel þó hann yrði áfram prívat.


Túristatrekkjari úr torfi og steypu

Vök

Það hefur farið mikið fyrir fréttum af nýjum hótelherbergum á landinu bláa undanfarið og hafa þær hlutfallslega haldist í hendur við fréttir af fækkandi ferðamönnum. Það veitir því varla af að bjóða upp á eitthvað sem trekkir túristann svona allavega á meðan fjármála hrun, eldgos og önnur óáran trilla þá ekki til landsins.

Ég sagði frá því hérna í bloggi fyrir nokkru að mér hafði verið komið fyrir í rofabarði, og það um hásumar við skrapa niður grjótharða steypu því einhverjum stjörnuleikmönnum  landsliðsins í kúlu hefðu dottið í huga að fjármagna gamla og blauta drauma sveitavargsins á Héraði um ylströnd við Urriðavatn í svokölluðum Þvottavökum. Svo vildi til núna um helgina að Vök-Baths varða endanlega að veruleika.

Þessi framkvæmd er búin að ganga fram af flestum heimafengnum iðnaðarmönnum. Enda eru íslenskir iðnaðarmenn að mestu lúin lýður nátttrölla kominn á grafarbakkann, sem verður  brátt hvíldinni feginn. En ekki þótti annað við hæfi en opna herlegheitin í sumar, annað er víst svo slæmt „PR dæmi“ úr því að útsendarar kúluspilaranna voru búnir að þenja út bringuna og slá sér á bjóst. Auk þessi er talið afleitt að „opna inn í veturinn“ í þessum PR heimi landsliðsins, en flinkastir eru þeir á dagatal.

IMG_0984

Þessi hvínandi steypu skröpun í rofabarðinu hefur orðið til þess að ég tek mér langt sumarfrí það lengsta á ævinni, svo snakkillur varð ég þegar það var búið að hafa af mér að steypa ferska steypu úti í guðs grænni náttúrunni eins og vanalega. Að vinna fyrir aura landsliðsins í kúlu hefur af minni hálfu því sem næst kostað uppgjör við bæði guð og menn. Allavega eru pólsku vinnufélagarnir fyrir löngu búnir að tilkynna mér vinslit þó svo að þeim hafi ekki þótt taka því hingað til að skilja íslensku.

Núna við opnunina um helgina hitti ég svo verkfræðinginn við drulluskurðinn ofan við hús og hafði vit á að óska honum til hamingju með daginn. Ég sagði honum að þetta kæmi mér allt saman verulega að óvart, ég hefði ekki haft nokkra trú á öðru en að þeir hefðu allt niður um sig „inn í veturinn“ nema þá í besta falli sem PR dæmi með tölvugerðum myndum á facebook. En Vök-Baths hefur verið opið alla daga vikunnar á heimasíðunni 11 am - 11 pm frá því 1. maí, bara uppbókuð þar til nú um helgina vegna einkasamkvæmis iðnaðarmanna.

IMG_0979

Verkfræðingurinn tók brosandi hringinn í spaðann á mér þó svo að orðalepparnir mínir um vitsmuni verkfræðinga hafa dunið á honum í gegnum tíðina. Þrátt fyrir það hefur hann ekki ennþá tilkynnt vinslit líkt og Pólverjarnir sem ekkert skilja. En hann er nú reyndar óvenjulegur að því leiti að hann byrjaði sinn starfsferil sem handlangari í múrverki og hef ég aldrei skilið hvernig honum tókst að fara í hundana.

Það verður samt að viðurkennast að vel hefur tekist til með Vök-Baths og ætti þessi framkvæmd að vera síðuhafa til yndisauka, sem hefur hér margoft dásamað innlend byggingarefni á við torf, grjót og steypu. Það má kannski að sumu leiti segja að draumur hafi ræsts um að fá að taka þátt í byggingu mannvirkis úr svo heimafengnu efni, steypumöl úr hinni fornu horfnu Jöklu, torfi úr Tungunni og lerki úr Hallormstaðarskógi, í byggingu aðstöðuhúss við volgar vakir Urriðavatns. Eins verður trauðla hjá því komist að lofsama hönnuði fyrir efnistök og útlit.

IMG_0990

Þetta verkefni mitt í rofabarðinu miðaði að því að ná fram einhverskonar steypulúkki á gólf úr grjótharðri steypu. Eftir að hafa slípað, pússað og bónað um tveggja mánaða skeið varð árangurinn eins og gamall slitinn fjósflór. Stærstu kostirnir við verkið voru að sumt af grófustu fíneseringunum þurfti að vinna á nóttunni og sú vinna hitti á bjartasta tíma ársins. Björt sumarnóttin er eitthvað sem engin ætti að sofa af sér.

Þrátt fyrir þessa jákvæðu punkta þá ætla ég að þrjóskast eitthvað lengur í sumarfríi þó svo Austfjarðaþokan nái niður fyrir eyrnasnepla og þeim fari óðum fækkandi steypudögunum. Enda fer kannski að verða nóg komið af þessari steypu.

Vök steypa 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband