Heiðmyrkur og Hermann

Það er til veður fyrirbæri sem kallast heiðmyrkur. Íslenskt orðnet gefur upp skýringarnar þoka, þokudrungi eða þokumyrkur á fyrirbærinu auk 123 vensla. Þetta mun samt vera sérstök tegund lágþoku í heiðskýru verði, stundum sögð það sama og dalalæða. Það eru ekki margar heimildir til þar sem nafnið á fyrirbrigðinu kemur við sögu. 

Við austurströndina er kaldur hafsstraumur sem rennir sér suður með Austurlandi og býr til hina frægu Austfjarðaþoku í samspili við hlýtt loft. Um helgina var ég niður á Stöðvarfirði og gafst færi á að fylgjast með fyrirbærinu heiðmyrkur af sólpallinum, sem ég hef reyndar oft séð áður án þess að íhuga hvað það kallaðist annað en þoka.

Heiðmyrkvi

Myndin að ofan er af heiðmyrkri sem birgði sýn þegar þoka af hafi kom inn á sólríkan fjörðinn með innfalli og hafgolu. Neðri myndin er með sama útsýni frá kvöldinu áður

Vorkvöld

 

Í vetur las ég þjóðsöguna um Hermann litla sem bjargaði fólkinu sínu undan Hundtyrkjanum, en þá var heiðmyrkur.

Er Tyrkir fóru ránsferð sína 1627 komu þeir að Eyjum í Breiðdal fyrir miðjan morgun. "Náðu þeir öllu fólki heima, tóku það allt og bundu, nema dreng einn fjögurra ára er Hermann hét. Síðan fóru þeir burtu og leituðu fleiri bæja. Heiðmyrkur var á mikið. Þegar þeir voru farnir sagði móðir Hermanns við hann: -Hefurðu ekki busann þinn í kotinu þínu svo þú getir skorðið af mér böndin? Drengur hvað já við því, kom með busann og gat um síðir skorið svo böndin, að önnur höndin losnaði. Tók hún þá við busanum og skar öll bönd af sér og síðan af þeim manni sem næstur var. Fékk hún síðan þeim manni busann og bað hann að losa hitt fólkið, en hljóp sjálf til fjalls með Hermann litla. Slapp allt fólkið með þessum hætti. Þegar Hermann var fulltíða réðst hann á skip og var lengi í siglingum, var mælt að hann hafi síðar eignast Berunes. (Ættir Austfirðinga, 11307)

Hermann Ásmundsson var fæddur 1623 og passar aldurinn við þjóðsöguna. Hann er fjögurra ára er Tyrkjaránið var 1627. Í jarðarbréfum frá 16.-17. öld (s.280) sést að Hermann eignast 200 í Berunesi, en átti jörðin alla samkvæmt bréfi dagsettu 13.júlí 1687. Hermann bjó á Berunesi þar til hann lést upp úr 1695. (Dvergasteinn - þjóðsögur og sagnir / Alda Snæbjörnsdóttir)

Því er þessi sögn af Hermanni tilfærð hér af heiðmyrkri, að þegar Tyrkir rændu við Berufjörð og í Breiðdal, þá kom þokan mörgum til bjargar, en í veðurlýsingum var blíðviðri þá daga sem Tyrkir dvöldu í Berufirði, enda hásumar. Ræningjaskipin lágu út á Berufirði á móts við Berunes og Djúpavog í fimm daga og hertóku 110 manns auk þess að drepa 9, -í Hamarsfirði, Berufirði og í Breiðdal, náðu fáum í Breiðdal.

Tyrkjaránssaga hefur verið talin sannsögulegt plagg enda var hún skrásett sem samtímaheimild. Tyrkir fóru frá Austfjörðum í Vestamannaeyjar og létu þar nokkra Austfirðinga lausa til að hafa pláss fyrir fleiri Vestamannaeyinga sem þeim þótti álitlegri söluvara. Saga ránanna fyrir austan var síðan skráð eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti.

Þjóð- og munnmælasögur hafa því ekki átt upp á pallborð fræðimanna hvað Tyrkjaránið varðar, nema þá sem kviksögur. Sagan af Hermanni skýrir kafla sem má finna í Tyrkjaránssögu um það hversvegna Tyrkjum tókst ekki að ræna prestsetrið Heydali. Um það hefur Tyrkjaránssaga þetta að segja.

Nú er Hamarsfólkið var til skips komið þ. 7. júlíum, fóru nokkrir af illvirkjunum enn strax aptur um fjörðinn að Berunesi, þustu svo norður yfir fjöllin, til þess þeir komu í Breiðdal. Þeir voru alls átta illmennin. Þessir komu fyrst á þann bæ, sem Ós heitir. Þar fundu þeir átta karlmenn og bundu á þeim bæði hendur og fætur og voru þar eptir tveir Tyrkjar að gæta þeirra, meðan hinir fóru yfir um ána til þeirra manna, er þeir sáu hinu megin árinnar, hverjir voru menn frá síra Höskuldi Einarssyni frá staðnum Heydölum, sem áttu að koma undan kistum nokkrum fullum af gripum, því spurzt hafði þangað af illvirkjunum. En í þessum atriðum kom að Ósi gangandi neðan úr byggðinni með sitt fólk sá maður, sem hjet Jón, af bænum Streiti. Hann vissi ekki að ófriðarmenn voru komir í Breiðdalinn. En sem þeir tveir illgjörnu vaktarar þetta fólk sáu, flýðu þeir upp í fjallið, en nefndur Jón á Streiti leysti þá þrjá menn hina bundnu, Gísla Þórarinsson með sínum syni og Ásmund Hermannsson, og flýðu þeir svo gangandi með Jóni inn eptir Breiðdal og upp í hjeruðin. Þeir menn, sem með kistur síra Höskuldar fóru, yfir gáfu þær, en flýðu síðan. úr þeim kistu tóku ræningjarnir nær 30 hundruð í silfri og klæðum, en klufu þar eptir kisturnar í sundur. Heim til staðarins fóru ræningjarnir ekki, því þeim sýndist þar klettur vera, sem staðurinn var. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðasá)

Munnmælin segja frá atburðum í Breiðdal á svipaðan hátt og Tyrkjaránssaga þó svo Hermanns litla sé ekki getið í Tyrkjaránssögu. Hermann og móður hans voru á bænum Eyjum, sem er bær fyrir innan Ós. Hvers vegna aðeins karlmenn voru heima við í böndum á Ósi gæti stafað af því, eins og reyndar kemur fram um kistur séra Höskuldar, að spurst hafi til Tyrkjanna við Berufjörð. Líklegt er að Ásmundur Hermannsson, einn af þeim sem leystur var úr böndum á Ósi, hafi verið faðir Hermanns litla.

Munnmælunum ber nokkuð vel saman við Tyrkjaránssögu um atburðina á Ósi, en hefur það þó til viðbótar að vera staðkunnug. Við Ós hef ég heyrt að hafi verið ferjustaður áður fyrr yfir Breiðdalsá og Heydalir eru handan ár, ekki er ólíklegt að þeir menn sem voru að flytja kisturnar hafi forðað sér á bát yfir ána án kistnanna og síðan í Heydali.

Þjóðsaga í safni Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnaritara segir frá því að Tyrkir hafi oftar en einu sinni reynt að komast í Heydali en hafi ítrekað tínt bænum eða sýnst hann vera kletta. Þar er þess getið að séra Höskuldur hafi farið til kirkju og bænhita hans þakkað að bærinn fannst ekki, en ekki er ólíklegt að heiðmyrkri sé að þakka hvort sem séra Höskuldur bað þess í bænum sínum eða lét almættið um með hvaða hætti hann verndaði Heydali.

Það kemur víða fram í Tyrkjaránssögu hvernig dyntótt Austfjarðaþokan kom sér fyrir fólkið þessa ógnardaga, bæði vel og illa. Ein sagan er af dreng sem var fluttur úr Breiðdal í böndum ásamt fleirum. Þegar hann sá sér færi, á bænum Núpi á Berufjarðaströnd, hljóp hann inn í þokuna með hendur bundnar aftur fyrir bak. Hann komst inn í þokuna með ræningjana á hælunum en missti þá niður um sig buxurnar og féll, lá síðan grafkyrr, ræningjarnir leituðu allt í kring, svo nálægt að hann heyrði tal þeirra, en þeir fundu hann ekki, svo skyndilega getur heiðmyrkur úr Austfjarðaþokunni skollið á í glaða sólskini.

IMG_2995

Orðabók Menningasjóðs hefur þetta að segja um orðið heiðmyrkur; "þoka á láglendi en tindar bjartir og heiður himinn. Íslensk Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal hefur ekki orðið heiðmyrkur, en um orðið heið segir; "skýlaus himin, bjart loft" og um myrkur; dimma, ljósleysi


1. maí baráttudagur verkalýðsins

Ég fór með einn af eldri vinnubílunum í dekkjaskipti í vikunni. Þetta er gamall lúinn jálkur, sem engin nennir lengur að keyra, en er notaður til að sækja hádegismatinn í steypuverksmiðjuna. Það gafst stund á milli stríða hjá mér enda orðin eldri og lúnari en gamli rauður.

Þegar ég var þarna var ung kona á símafundi í snjallsímanum sínum fyrir utan dekkjaverkstæðið, þar sem drundi í loflyklum og glamraði í affelgunar vélum. Konan hafði gengið yfir planið og stóð á grasbala þar sem hún hafði stillt sér tígurlega upp og beindi símanum að sér svo hún sæist sem best í selfí.

Hvort unga litfríða og ljóshærða konan var að tala við ritarinn sinn veit ég náttúrulega ekkert um, en ef svo hefur verið þá hefur ritarinn væntanlega þurft að segja þeim sem áttu erindi við hana að hún væri ekki viðlátin hún væri á fundi.

það getur verið flókið að vera á vinnustað án mætingarskyldu og ætti að borga dekkjastrákum og gömlum lúnum jálkum, sem hafa ekkert gáfulegra að gera en spá í skýin, betra kaup fyrir þess lags álag.

Nei ég segi nú bara svona, -til að segja eitthvað á baráttudegi verkalýðsins.


Tvöfeldni sannleikans

Að búa í tveimur heimum, -að minnsta kosti, er daglegt brauð. Aðeins með því að láta hafa sig að fífli er hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að raunveruleikinn er margfaldur og oftast er hægt er að velja sér þann sannleika sem best hentar.

Sem dæmi þá sit ég núna við tölvuna framan við stofugluggann og hamra þetta inn. Ef ég opna á fjölmiðlana þá vofir þriðja heimstyrjöldin yfir, -allt eins með kjarnorkuvetri. Tveggja ára drepsóttin er sem betur fer á niðurleið en alls endis óvíst hversu lengi það ónæmi varir.

Þegar horft er út til heimsins í gegnum medíuna má fyllast ótta vegna blekkinga, óstöðugleika, hópuppsagna, ringulreiðar og stríðs. En þegar ég horfi út um stofugluggann sé ég vorkomuna í allri sinni dýrð. Þrestina gæða sér á eplum frá henni Matthildi minni og hrafninn svífa yfir í von um að ég muni eftir honum.

Auk þess sé ég inn allt Hérað þar sem spegilslétt Lagarfljótið hlykkjast inn að Snæfelli í morgunnkyrrðinni. Ef ég fer út á svalir þá heyri ég gæsir og álftir kvaka á Egilsstaðanesinu í bland við lóunnar dýrðin dí og get hlustað á þytinn í stéli hrossagauksins þar sem hann steypir sér niður að Gálgaklettinum við kirkjuna.

Svona snemma morguns yfirgnæfir meir að segja niðurinn í Eyvindaránni úr fjarska, hvininn í loftræstisamstæðunum á skólaþakinu þar sem minni kynslóð var kennt að opna glugga til að hleypa nýjum degi inn með fersku andblæ um leið og mætt var til kennslustofu. Já, -bí bí og blaka, -álftirnar kvaka, -ég læt sem ég sofi, -en samt mun ég vaka.

Ég hafði fullkomið val um að fara strax út í þennan veruleika, sem er fyrir utan stofugluggann, með því einu að fara út á svalir, en hef í staðin freistast til að kíkja á fréttir í tölvunni, áður en ég fer út í daginn til vinnufélaganna í steypunni, til að standa ekki á gati, -og er medían ekki beint kræsileg frekar en fyrri daginn.

Um síðustu helgi slapp ég undan krananum í heila tvo sólahringa. Við Matthildur mín fórum niður á sælureitinn við sjóinn, í Sólhólinn okkar þar sem úthafsaldan brotnar í grýttri fjöru á hleinunum neðan við kot. Endurheimtum gónhólinn úr flækju þyrnihríss og sinu, svo nú má góna berfættur á skýjabólstra bera við hafsauga frá besta stað í morgunnkyrrðinni.

Við búum svo vel að hafa góðan aðgang að tveimur veruleikum. Annar er loftkastali með sama útsýni og kirkjuturninn, sem er eitt það besta á Héraði. Má segja að það sé hús vindanna þar sem golan þýtur um miðjan daginn í trjátoppunum neðan við svalirnar á leið sinni inn um opnanleg gluggafögin með fögnuði yfir enn einum dásemdar deginum.

Hinn sannleikinn er niður við hafið þar sem æðarfuglinn úar í fjöruborðinu sem er neðst í garðinum. Þar á skarfurinn sinn stað á hleininni og þegar hafgolan rennir sér inn fjörðinn með innfallinu, þerrar hann vængina líkt og prestur sem blessar söfnuðinn. Yfir og allt um kring syngja þrestir og máríerlur ásamt suðandi hunangs humlum í garðsins hrísi.

Við dvöldum sem sagt í gula bárujárnshjallinum okkar niður við hafið bláa hafið um síðustu helgi, laus við allan ófögnuð því þar höfum við aldrei haft nettengingu eða sjónvarp, hvað þá snjallsíma um hönd og útvarpið er notað til spari þegar hlustað skal á óm angurværra dægurlaga frá síðustu öld.

Annars sitjum við bara úti á palli við öldunnar nið og vaggandi blæ til að fylgjast með skýjum himinsins, prjónandi eða lesandi. Ég las um Gísla á Uppsölum enda missti ég af honum í sjónvarpinu á sínum tíma, því ekki orðin vanþörf á að kynnast lífshlaupi og ljóðum Gísla, -á svefnsins örmum svífur -sálin í draumalönd inn, -líður um ljósa heima -líkama fráskilin.

Í seinni tíð hefur þeim farið fækkandi þessum dásemdar dvalar dögum niður við hafið. Börnin og þeirra fjölskyldur hafa komist upp á lagið. Sonur minn sagði við mig fyrir stuttu; pabbi ég óttast það mest að verða á endanum eins og þú. -Hvernig þá; spurði ég. -Þú et eini maðurinn sem ég hef heyrt segja að það væri skemmtilegra að sitja heilan dag og fylgjast skýjunum á ferð þeirra yfir himininn frekar en að horfa á sjónavarp, ég er ekki frá því að ég sé farinn að fatta hvað þú áttir við, -sagði hann.

En nú ætla ég ekki að hafa þetta eintal lengra hérna við bansetta tölvuna. Krummi er löngu mættur og svífur fyrir framan svalirnar. Tími til komin að svífa úti á svölum í smástund með krumma, fara síðan út í sumarið til að steypa og vera ég sjálfur.


Hvað helgar daginn?

Þeir eru fáir dagarnir sem hafa jafnstór fyrirheit í nafninu og Sumardagurinn fyrsti. Það veit samt engin lengur hvað helgar þennan dag annað en nafnið, en upp á hann hefur verið haldið á Íslandi frá því land byggðist.

Hvað helgar daginn annað en það sem felst í nafninu er sem sagt ekki vitað. Einhversstaðar rakst ég á að dönskum kirkjuyfirvöldum hefði þótt rétt á 18. öld að banna guðþjónustur á þessum degi í íslenskum kirkjum, þegar þau fréttu af því að þessi dagur hefði verið brúkaður sem messudagur á Íslandi frá alda öðli.

Sumir telja helgi dagsins komna aftan úr heiðni. Nú í seinni tíð hefur aðallega verið sótt að Sumardeginum fyrsta sem helgidegi með því að færa hann til og bæta honum við langa helgi. Stundum hefur heyrst að bæta eigi svona dögum við sumarfrí eða aðra orlofsdaga launþega, -færa fram á sumarið.

Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur mánaðarins Hörpu í gamla íslenska tímatalinu og ber alltaf upp á fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl. Hann er auk þess svo kallaður yngismeyjadagur. Þessi dagur var talin mikill hátíðisdagur áður fyrr, gjafir voru gefnar þennan dag og hjá yngra fólki var dagurinn álíka hátíðlegur og aðfangadagskvöld.

Það góða við sumardaginn fyrsta er að hann er alltaf á sumardaginn fyrsta, -hvernig sem viðrar.

Gleðilegt sumar.


Svaðalegar kerlingabækur

Þetta er svaðalegt var stundum sagt og er kannski sagt enn. Er þá átt við svakalegt, hrikalegt eða eitthvað verulega slæmt. En hvaðan er svaðalegt upprunnið? Um upprunann má lesa í fyrstu hallærum íslandssögunnar.

Árin skömmu fyrir 1000 voru slæm hallærisár með hörðum vetrum. Veturinn 975-976 var talin harðastur á þjóðveldisöld, þó svo að fleiri slæmir kæmu fyrir árþúsundamótin. Vildu sumir meina að þessi hallæri hafi flýtt fyrir kristnitöku á Íslandi.

"þá átu menn hrafna og melrakka, og mörg óátan ill var étin. En sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir og drepnir. Þá vógust skógarmenn sjálfir, því það var lögtekið að ráði Eyjólfs Valgerðarsonar, að hver frelsti sig, sá er þrjá dræpi seka". (viðauki Skarðsbókar)

Í Svaða þætti og Arnórs kerlingarnefs kemur glöggt fram hversu harðneskjan var mikil, en þar tókust á tveir pólar, -harkan og gæskan. -Gleðilega páska.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Mikil og margföld er miskunn allsvaldanda guðs í öllum hlutum og háleitur hans dómur er hann lætur öngan góðgerning fyrirfarast heldur kallar hann elskulegri mildi þá sem eigi kunna hér áður til að nema, skynja og skilja, dýrka og elska sinn lausnara sem vor herra Jesús Kristur, lifandi guðs son, hefir sýnt í mörgum frásögnum þó að vér munum fár tína. Svo sem yfirboðan miskunnar tilkomu og fullkomins kristindóms á Íslandi sýnir guð í þeim frásögnum sem eftir fara að hann styður og styrkir hvert gott verk þeim til gagns er gera en hann ónýtir og eyðir illsku og grimmd vondra manna svo að oftlega fyrirfarast þeir í þeim snörum er þeir hugðu öðrum.

Nokkuru eftir utanferð Friðreks biskups og Þorvalds Koðránssonar gerðist á Íslandi svo mikið hallæri að fjöldi manns dó af sulti. Þá bjó í Skagafirði nokkur mikilsháttar maður og mjög grimmur er nefndur er Svaði, þar sem síðan heitir á Svaðastöðum.

Það var einn morgun að hann kallaði saman marga fátæka menn. Hann bauð þeim að gera eina mikla gröf og djúpa skammt frá bæ sínum við almannaveg. En þeir hinir fátæku urðu fegnir ef þeir mættu hafa amban erfiðis síns með nokkuru móti og slökkva sinn sára hungur. Og um kveldið er þeir höfðu lokið grafargerðinni leiddi Svaði þá alla í eitt lítið hús.

Síðan byrgði hann húsið og mælti síðan til þeirra er inni voru: "Gleðjist þér og fagnið þér því að skjótt skal endir verða á yðvarri vesöld. Þér skuluð hér búa í nótt en á morgun skal yður drepa og jarða í þeirri miklu gröf er þér hafið gert."

En er þeir heyrðu þann grimma dóm fyrir sitt starf, er þeim var dauði ætlaður, síðan tóku þeir að æpa með sárlegri sorg um alla nóttina. Þar bar svo til að Þorvarður hinn kristni, son Spak-Böðvars, fór þá sömu nátt upp um hérað að erindum sínum en leið hans lá allsnemma um morguninn hjá því sama húsi er hinir fátæku menn voru inni. Og er hann heyrði þeirra grátlegan þyt spurði hann hvað þeim væri að angri.

En er hann varð vís hins sanna mælti hann til þeirra: "Vér skulum eiga kaup saman ef þér viljið sem eg. Þér skuluð trúa á sannan guð þann er eg trúi á og gera það sem eg segi fyrir. Þá mun eg frelsa yður héðan. Komið síðan til mín ofan í Ás og mun eg fæða yður alla."

Þeir sögðu sig það gjarna vilja. Tók Þorvarður þá slagbranda frá dyrum en þeir fóru þegar fagnandi með miklum skunda ofan í Ás til bús hans.

En er Svaði varð þessa var varð hann harðla reiður, brá við skjótt, vopnaði sig og sína menn, riðu síðan með öllum skunda eftir flóttamönnum. Vildi hann þá gjarna drepa en í annan stað hugsaði hann að gjalda grimmu sína svívirðu er hann þóttist af þeim beðið hafa er þá hafði leysta. En hans illska og vondskapur féll honum sjálfum í höfuð svo að jafnskjótt sem hann reið hvatt fram hjá gröfinni féll hann af baki og var þegar dauður er hann kom á jörð. Og í þeirri sömu gröf er hann hafði fyrirbúið saklausum mönnum var hann sjálfur, sekur heiðingi, grafinn af sínum mönnum og þar með hundur hans og hestur að fornum sið.

En Þorvarður í Ási lét prest þann er hann hafði með sér skíra hina fátæku menn er hann hafði leyst undan dauða og kenna þeim heilug fræði og fæddi þá þar alla meðan hallærið var.

Það segja flestir menn að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi skírður verið af Friðreki biskupi en Gunnlaugur munkur getur þess að sumir menn ætla hann skírðan verið hafa á Englandi og hafa þaðan flutt við til kirkju þeirrar er hann lét gera á bæ sínum. En móðir Þorvarðs Spak-Böðvarssonar hét Arnfríður, dóttir Sleitu-Bjarnar, Hróarssonar. Móðir Sleitu-Bjarnar var Gróa Hrafnsdóttir, Þorgilssonar, Gormssonar hersis, ágæts manns úr Svíþjóð. Móðir Þorgils Gormssonar var Þóra dóttir Eiríks konungs að Uppsölum. Móðir Herfinns Eiríkssonar var Helena dóttir Búrisláfs konungs úr Görðum austan. Móðir Helenu var Ingibjörg systir Dagstyggs, ríks manns.

Á þeim sama tíma sem nú var áður frá sagt var það dæmt á samkomu af héraðsmönnum, og fyrir sakir hallæris og svo mikils sultar sem á lá var lofað að gefa upp fátæka menn, gamla, og veita öngva hjálp, svo þeim er lama var eða að nokkuru vanhættir og eigi skyldi herbergja þá. En þá knúði á hinn snarpasti vetur með hríðum og gnístandi veðrum.

Þá var mestur höfðingi út um sveitina Arnór kerlingarnef er bjó á Miklabæ í Óslandshlíð. En er Arnór kom heim af samkomu þessi þá gekk þegar fyrir hann móðir hans, dóttir Refs frá Barði, og ásakaði hann mjög er hann hafði orðið samþykkur svo grimmum dómi. Tjáði hún fyrir honum með mikilli skynsemd og mörgum sannlegum orðum hversu óheyrilegt og afskaplegt það var að menn skyldu selja í svo grimman dauðann föður sinn og móður eða aðra náfrændur sína.

"Nú vit það fyrir víst," segir hún, "þó að þú sjálfur gerir eigi slíka hluti þá ertu með öngu móti sýkn eða hlutlaus af þessu glæpafullu manndrápi þar sem þú ert höfðingi og formaður annarra, ef þú leyfir þínum undirmönnum að úthýsa sínum feðginum eða frændum nánum í hríðum og jafnvel þó að þú leyfir eigi ef þú stendur ekki í mót með öllu afli slíkum ódáða."

Arnór skildi góðfýsi móður sinnar og tók vel ásakan hennar. Gerðist hann þá mjög áhyggjufullur hvað er hann skyldi að hafast. Tók hann þá það ráð að hann sendi þegar í stað sína menn um hina næstu bæi að safna saman öllu gamalmenni því er út var rekið og flytja til sín og lét þar næra með allri líkn.

Annan dag stefndi hann saman fjölda bónda.

Og er Arnór kom til fundarins mælti hann svo til þeirra: "Það er yður kunnigt að vér áttum fyrir skömmu almennilega samkomu. En eg hefi síðan hugsað af sameiginlegri vorri nauðsyn og brotið saman við þá ómannlegu ráðagerð er vér urðum allir samþykkir og gáfum leyfi til að veita líftjón gamalmenni öllu og þeim öllum er eigi mega vinna sér til bjargar með því móti að varna þeim líflegri atvinnu. Og hirtur sannri skynsemd iðrast eg mjög svo illskufullrar og ódæmilegrar grimmdar. Nú þar um hugsandi hefi eg fundið það ráð sem vér skulum allir hafa og halda. Það er að sýna manndóm og miskunn við mennina svo að hver hjálpi sínum frændum sem hver hefir mest föng á, einkanlega föður og móður og þar út í frá, þeir sem betur mega fyrir sulti og lífsháska, sína aðra náfrændur. Skulum vér þar til leggja allan vorn kost og kvikindi að veita mönnum lífsbjörg og drepa til hjálpar vorum frændum faraskjóta vora heldur en láta þá farast af sulti svo að engi bóndi skal eftir hafa meira en tvö hross. Svo og eigi síður sá mikli óvandi er hér hefir fram farið að menn fæða fjölda hunda svo að margir menn mega lifa við þann mat er þeim er gefinn. Nú skal drepa hundana svo að fáir eða öngir skulu eftir lifa og hafa þá fæðu til lífsnæringar mönnum sem áður er vant að gefa hundunum. Nú er það skjótast af að segja að með öngu móti leyfum vér að nokkur maður gefi upp föður sinn eða móður, sá er með einhverju móti má þeim hjálpa en sá er eigi hefir lífsnæring til að veita sínum náfrændum eða feðginum, fylgi hann þeim til mín á Miklabæ og skal eg fæða þá. En hinn er má og vill eigi hjálpa hinum nánustum frændum þá skal eg grimmu gjalda með hinum mestum afarkostum. Nú þá mínir kærustu vinir og samfélagar heldur en undirmenn, fremjum í alla staði manndóm og miskunn við vora frændur og gefum ekki færi til óvinum vorum því oss að brigsla að vér gerum með of mikilli fávisku við vora náunga svo ómannlega sem á horfist. Nú ef sá er sannur guð er sólina hefir skapað til þess að birta og verma veröldina og ef honum líkar vel mildi og réttlæti sem vér höfum heyrt sagt þá sýni hann oss sína miskunn svo að vér megum prófa með sannindum að hann er skapari manna og að hann megi stjórna og stýra allri veröldu. Og þaðan af skulum vér á hann trúa og öngan guð dýrka utan hann einn saman ríkjanda í sínu valdi."

Og er Arnór hafði þetta talað þá var þar Þorvarður Spak-Böðvarsson við staddur og segir svo: "Það er nú sýnt Arnór að sá hinn sami guð er þú kvaddir að þínu máli hefir sinn helgan anda sent í þitt brjóst til að byrja svo blessaðan manndóm sem þú hefir mönnum nú tjáð í tölu þinni og það hygg eg ef Ólafur konungur hefði þig heyrt slík orð segja að hann mundi gera guði þakkir og þér fyrir svo fagran framburð og því trúi eg að þá er hann spyr þvílíka hluti að hann verði forkunnar feginn og víst er oss það mikill skaði að vér skulum hann eigi mega sjá eða heyra hans orð sem mér þykir ugganda að hvorki verði."

En er allir þeir er þar voru saman komnir létu sér þetta allt vel viljað er hann hafði talað þá slitu þeir með því þinginu. Þá var hinn snarpasti kuldi og frost sem langan tíma hafði áður verið og hinir grimmustu norðanvindar en svelli og hinu harðasta hjarni var steypt yfir jörð svo að hvergi stóð upp. En á næstu nótt eftir þennan fund skiptist svo skjótt um með guðlegri forsjá að um morguninn eftir var á brottu allur grimmleikur frostsins en kominn í staðinn hlær sunnanvindur og hinn besti þeyr. Gerði þaðan af hæga veðráttu og blíðar sólbráðir. Skaut upp jörðu dag frá degi svo að af skömmu bragði fékk allur fénaður nógt gras af jörðu til viðurlifnaðar. Glöddust þá allir menn með miklum fagnaði er þeir höfðu hlýtt því miskunnar ráði er Arnór hafði til lagt með þeim og tóku þegar í mót svo nógan velgerning guðlegrar gjafar að fyrir þá skyld gengu allir þingmenn Arnórs, karlar og konur, fljótt og feginsamlega undir helga siðsemi réttrar trúar með sínum höfðingja er þeim var litlu síðar boðið því að á fárra vetra fresti var kristni lögtekin um allt Ísland.

Arnór kerlingarnef var son Bjarnar Þórðarsonar frá Höfða. Móðir Bjarnar hét Þorgerður, dóttir Þóris ímu og Þorgerðar dóttur Kjarvals Írakonungs. Höfða-Þórður var son Bjarnar byrðusmjörs, Hróaldssonar hróks, Áslákssonar, Bjarnarsonar járnsíðu, Ragnarssonar loðbrókar.(Svaða þáttur og Arnórs kerlingarnefs)

Málsháttur páskaeggsins þessa páska er; "Bregður ávexti til rótar".


Indiana Jones

IMG_0949

Sum verkefni valda meiri heilabrotum en önnur og þurfa hvorki að vera stór né merkilegt til þess. Eitt af þeim fáu verkefnum sem ég gafst gjörsamlega upp fyrir var ekki stórt. Það veldur mér samt enn heilabrotum, tæpum níu árum seinna. Ég ætla nú að reyna að segja frá þessu ómerkilega verkefni í máli og myndum.

Sumarið 2013 vorum við vinnufélagarnir Juma, -súdanskur höfðingi flúinn stríðshrjáð Darfur, og ég flóttamaður -hins svokallaða íslenska hruns, -sendir upp í Bláfjöll á Skånland í Troms. Við áttum að aðstoða samann Karstein við að endurbyggja jarðhýsi.

Ég hafði farið með Karstein og tveimur samískum starfskonum samasetursins Vardobáiki upp í Bláfjöll á snjósleða um veturinn í skoðunarferð. En verkefnið kom til Murbygg í gegnum samasetrið eftir að við Juma höfðum endurhlaðið fjósmúrinn í Gallgiedde, sem ég sagði frá í pistli hér á blogginu í vetur.

IMG_3596

Þetta verkefni virtist hvorki vera umfangsmikið né merkilegt, u.þ.b. fjögra fermetra jarðhýsi sem hafði verið matavælageymsla þeirra sama sem bjuggu seinni hluta 19. aldar í litlum afskekktum dal upp í Bláfjöllum.

Það hafði að vísu sótt á mig smá óhugnaður þegar ég leit inn, eftir að við vorum búin að grafa okkur niður á jarðhýsið um veturinn, sem þá var á kafi í snjó og mér þótti undrum sæta að Karstein fyndi í snjóbreiðunni.

Hugmynd hafði kviknað á Várdobáiki um að auðveldara gæti verið að standa að endurbyggingu meðan enn væri frost í jörðu. En Karstein sló á þá hugmynd með sannfærandi rökum. Þetta væri jarðhýsi og það væri ekki í frosinni jörð, heldur frostfríum og sendnum jarðvegi, enda héti skógurinn í hlíðum Bláfjalla Sandmarka.

IMG_1110

Það virkar kannski hálf hjákátlega að fara inn í jarðhýsi með hjálma þegar aðrir eins hnullungar eru í þaksperrum og þarna er yfir höfði

Um mitt sumar sendi Mette í Murbygg okkur Juma óvænt upp í Bláfjöll til að aðstoða Karstein við að endurbyggja jarðhýsið. Staðurinn heitir Vilgesvarre og er úr alfaraleið, án rafmagns, símasambands og allra nútíma þæginda. Eftir nokkurra km labb upp í Bláfjöll frá næsta vegslóða komum við ofan í nokkurskonar Múmíndal þar sem samísk stórfjölskylda hafði búið í torfbæjum í 3 ættliði. Þau voru forforeldrar Karsteins, en dalurinn hefur verið gerður að samísku safni.

Karstein hafði verið að laga til hleðslurnar sumarið áður með því að ýta til steinum í veggjunum með bíltjakk og stöng sem hann spennti veggja á milli. Við það verk hafði fallið steinn inn úr vegg og húsið súnkaði saman án þess þó að hrynja. Veggir og þak var allt hlaðið úr grjóti þannig að Karstein mátti teljast heppnir að ekki fór ver. Hann sagaði svo niður  tré í birkiskóginum í kring og notaði þau við að stífa undir þakið og út í veggi til að tryggja að húsið hryndi ekki saman. Þannig að inn í húsinu var varla meira en 20-40 cm á milli trjábola.

IMG_0960

Trjábolir, sem héldu undir þakið til öryggis, stóðu það þétt, -þannig að þarna var hvorki hlaupið inn né út í skyndi, við þurftum að fækka trjábolunum talsvert í upphafi bara til að komast inn

Karstein hafði ekki tíma til að stoppa lengi þegar við komum upp í Vilgesvarre, skildi okkur Juma eftir og fór niður í byggð með hreindýrabóndanum Nils sem hafði flutt Karstein og búnað okkar upp í fjöllin á fjórhjóli. Hann sagðist þurfa að komast niður í byggð til að skrifa tímaskýrslu vegna vinnu frá sumrinu áður þar sem aðstoðarmaður hans frá því þá væri hreint að gera hann brjálaðan vegna þess að samasafnið sem hélt utan um ríkisstyrkinn, sem fjármagnaði endurbygginguna, vildi ekki greiða honum launin frá fyrra sumri nema gegn tímaskýrslu frá Karstein.

Hann sagði að forstöðukonunni, sem hefði með þetta að gera, væri fyrir munað að átta sig á því að hann væri ekki 18 ára lengur, heldur 63 ára, og því af sem áður var þegar hann gat leikandi verið á tveimur stöðum í einu. En nú þyrfti hann auk þessara tveggja að fara til læknis og jarðarfarar daginn eftir. Tímaskin sama virðist vera heldur fjölbreyttara en á Jökuldalnum í denn, þar sem sagt var að til lítils væri að gefa úr í fermingagjöf, betra væri að fá dagatal.

IMG_0913

Hreindýrabóndinn Nils að ganga fá búnaði á fjórhjólið áður en lagt var upp í Bláfjöll. Suðagærur eru eitt af því sem samar telja nauðsynlegan fjallabúnað

Áður en Karstein fór til byggða kom það fram hjá hreindýrabóndanum Nils að það væri óvíst hvenær hann gæti skutlað honum aftur fótalausum upp í Bláfjöll, hann þyrfti nefnilega fljótlega að fara í hreindýrasmölun á fjórhjólinu. Mér varð á að spyrja Nils hvað hann ætti mörg hreindýr en þá brosti hann bara og hvarflaði augunum á Karstein. Ég spurði þá hvort það væri eins með samíska hreindýrabændur og íslenska hrossabændur að þeir þættust aldrei vita hvað stofninn teldi.

Karstein leit djúpt í augun á mér um leið og hann sagði alvarlega; -að þetta hefði ekkert að gera með íslenska hesta. Maður spyr einfaldlega ekki samískan hreindýrabónda svona spurningar frekar en ég spyrði þig að því hvað mikið þú eigir inn á bankabókinni þinni; -sagði hann. Eftir þetta stein hélt ég kjafti, enda ekki yfir miklu að gorta. En í kveðjuskini benti Karstein okkur Juma á hlaupandi rollu í hlaðvarpanum, sem ekki væri góður fyrirboði. Nils skutlaði svo Karstein aftur upp í Bláfjöll kvöldið eftir.

IMG_0954

Trjástofnar héldu við hálfhrunin vegg, ýmislegt nærtækt var notað til að stýfa út í hleðsluna 

IMG_1083Ég hafði komið auga á kosti við þetta verkefni, þó ekki væri nem bara vegna þess eins að við áttum að gista í torfbæ á meðan á því stæði, sem var eitthvað sem gaman væri að upplifa. Þar að auki var ég talsvert spenntur að vita hvaða hughrif algert áhrifalleysi rafmagns hefði á sálina en það hafði ég heyrt að gæti verið þess virði að veita eftirtekt.

Torfhúsið sem við gistum í var ekki stórt kannski ca. 5.5 m X 3m sem skiptist í tvö rými annað þar sem komið var inn á moldargólf með steinhellum í gangveginum og svo innan við einfalt timburþil stærra rými með timburgólfi sem hafði að geyma tvö rúmstæði sem stóðu meðfram vegg, gafl í gafl, annað 1,70 m á lengd hitt 1,75, gamla viðareldavél, borð og tvo stóla. Veggir og loft í innra rýminu voru panelklædd en ytra rímið með bert torf og grjót í útveggjum. Pottar og önnur eldhúsáhöld héngu upp um veggi, hvorki rennandi vatn né salernisaðstaða var í húsakinnunum. Okkur kom saman um að Juma fengi lengra rúmið því hann væri stærri þar sem hann slagar í 1,90 m.

Það er helst frá því að segja að rafmagnleysið hafði þau áhrif á sálina að það var eins og öll mörk á milli himins og jarðar hyrfu, svona eitthvað svipað og að vera undir stjörnubjörtum himni og ætla að telja stjörnurnar. Þegar ég lá andvaka í rúminu hans Ola í Vilgesvarre, sem var húsbóndi einni öld fyrr í þessu húsi, liðu samtöl og myndir í gegnum hugann, sem ég henti ekki nokkrar reyður á, ekki bara fyrstu nóttina heldur allar.

IMG_1078

Gamma kalla samar sín torfhús, þetta var svefnstaður okkar Juma. Karstein var mikill fróðleiksbrunnur um hvernig gamma væru byggð, enda hafði hann endurbyggt nokkur og sagði að svona hús væru ekki byggð nema með gróandanum í fullri sátt við náttúruna. Vatn þurftum við að sækja í mýrar brunn skammt frá, ef við vildum betra vatn var þó nokkur spölur í næsta fjallalæk

Fyrstu nóttina heyrði ég fótatak sem mér fannst nálgast millihurðina sem var fram í rýmið með moldargólfinu. Ekki var hurðin opnuð, en fótartakið hélt áfram og nú inni, fyrir rest gat ég staðsett það í lausu lofti rétt fyrir ofan rúmgaflinn. Þá heyrðist hvæs og skruðningar og hvít flyksa rann fram hjá glugganum í veggnum á móti, en krafsaði sig svo upp í glugga tóftina, og ég horfðist í augu við rollu í gegnum stráin þar sem hún var á beit í gluggakistunni. Sennilega var þetta sama hlauparollan og Karstein hafði haft á orði að væri ekki góður fyrirboði sem nú hafði flogið ofan af þakinu.

Rabarbaragraut höfðum við í matinn á hverjum degi, Juma brosti út undir eyru eftir að hafa smakkað það góðgæti í fyrsta sinn og sagði "jæja mister Magnús héðan förum við allavega ekki fyrr en rabarbaraakurinn er búinn". Það var loks að fjórum dögum liðnum að reiða komst á andvöku óráð rafmagnsleysisins. Eftir að við Juma skildum við Karstein eftir árangurlausar tilraunir við að endurbyggja hálfhrunið jarðhýsið með undirsláttaruppistöðum, bíltjakki, járnkalli og kúbeini, þar sem hvorki var við komið samískum galdri né afríkönsku vúúddúi hvað þá hugmyndaflugi minnislauss múrarameistara.

IMG_0953

Þaksperrur voru úr löngu hnullungs grjóti, sem hvíldu ofan á veggjunum, ofan við þær glitti í flatt hellu grjót á milli þeirra. Grasi vaxin hóllin var svo efsti hluti þaksins. Þetta grjót var hvergi finnanlegt í nágreninu, en Karstein vissi um þessa bergtegund í fjalli í nokkurri fjarlægð og gat sér til að það hefði verið flutt á staðinn með sleðum að vetrarlagi

Endir uppbyggingarinnar varð sá að annar steinn gekk út úr veggnum á móti þegar við reyndum að þrykkja hrunda steininum frá sumrinu áður á inn sinn stað. Þannig var jarðhýsið nær því að hrynja saman en nokkru sinni. Við höfðum ekki verið sammála um þetta verklag, en á endanum framkvæmdum við Juma það sem Karstein fór fram á. Eftir þetta var um lítið annað að ræða en forða sér út úr jarðhýsinu sem byggt var efst inn í háan hól.

Það gekk sem sagt ekkert með endurhleðsluna, enda hefðum við þurft að lyfta vegg og þaki ásamt hólnum til að koma hnullungunum aftur fyrir á sinn stað í vegginn, -með samískum galdri. Þó svo að við værum vel að Guði gerðir, með blátt álfablóð í æðum, afríkanskan jötunmóð og samískan galdur blandaðan heilablóðfalli til halds og trausts, fór ekki betur en raun bar vitni.

IMG_1076

Við stilltum uppistöðu á milli veggja með blanka á bak við tjakk sem var á milli til að ýta á steininn. Tjakkurinn undir steininum er til að halda undir hann. Hina uppistöðuna höfðum við svo til að halda við stein við hliðina sem var á leiðinni út úr veggnum. En allt kom fyrir ekki, þegar við létum reyna á 20 tonna tjakkinn við hinn endan á uppistöðunni gaf veggurinn á móti sig, sá sem ekki sést á myndinni

Skömmu eftir að við Juma komum af fjöllum var aldrei þessu vant byrjaður að vinna hjá Murbygg ungur og öflugur Norðmaður, en þeir eru sjaldséðir hvítir hrafnar í múrverki þarna norðurfrá. Hann sótti í að vera í kringum okkur útlagana, en í því verkefni var afganski flóttamaðurinn Yasin kominn með í hópinn. Þegar ég spurði þann norska hverju sætti að svona væri komið fyrir honum, þá sagðist hann hafa glapist á að læra fornleifafræði og væri því atvinnulaus. Hann hefði í bernsku látið sig dreyma um að verða nýr Indiana Jones.

Ég sagði honum að nú blasti gæfan við honum, hann væri akkúrat komin á réttan stað í lífinu. Að fyrir lægi verkefni hjá Murbygg sem hefði ekkert meira með múrara að gera en fornleifafræðinga. Enda hafði Karstein sýnt mér annað jarðhýsi neðar í hólnum, sem þarfnaðist endurhleðslu, og sagði að þau væru fleiri. En hann ætlaði að bíða með að sýna samísku minjaverndinni þau, því að þetta væri langtíma verkefni. Því ekkert þarna norður frá væri betur styrkhæft og samískar fornminjar.

Karstein efaðist reyndar um að þessi jarðhýsi hefðu upphaflega haft með sama að gera, þau væru mörg hundruð eða þúsundum ára fyrir búsetu hans fólks í Bláfjöllum, jafnvel alveg frá dögum Múmínálfanna. Hans fólk hefði sennilega í upphafi sest þarna að, af því það vissi af jarðhýsunum og gat notast við þau á meðan verið var að koma sér fyrir í óbyggðum. Miðað við aðstæður gæti ég einmitt trúað að svo sé, enda eru gamma torfhús samana með svipuðu byggingarlagi og íslenski torbærinn, torf og grjót í veggjum, burðarvirki og þak úr tré, birkihrís lagður á þak og tyrft yfir.

Þess er skemmst að minnast að hinn norski Indiana Jones junior trúði ekki einu orði af því sem ég sagði honum og gerðist fljótlega eftir þetta lagermaður hjá vöruflutningafyrirtæki.

IMG_1082

Það er hvorki hátt til lofts né vítt til veggja í gamma. Mikill raki og mýflugur voru á þessum árstíma við mýrina sem torfhúsið stóð, þannig að við Juma rauðkynntum viðar eldavélina um há sumar til að losna við raka og mý

 

IMG_1019

Rúmið hans Ola í Vilgesvarre var ekki stórt, útdraganlegt svo hægt væri að breikka það og u.þ.b. 1,70 cm á lengd. Það varð minn svefnstaður

 

IMG_1109

Juma fylgist með Karstein við að snikka til trjábol, sem átti að verða nokkurskonar mæniás í jarðhýsið. Fyrir hafði verið grautfúinn rauðviðar bolur sem hafði ekkert með burðavirkið að gera. Karstein taldi að hann hefði verið notaður svo hægt hefði verið að hengja í hann ýmislegt. En ég giskaði á að hann hefði verið notaður til að koma björgunum í þakið á sínum tíma þó svo að það væri sjálfberandi eftir að þau voru komin á sinn stað 

 

IMG_1113

Karstein er algjör Völundur og var, að því ég frétti, feikna mikill verkmaður og víkingur til vinnu á meðan heilsan leifði, hafði byggt fjölda gamma víðsvegar í byggðum sama. Í seinni heimstyrjöldinni brenndi þýski herinn flestar byggðir sama á undanhaldi sínu undan Rússum í Finnmörku, því er gert talsvert af því að halda við minningunni um mannvirki sama. Þessi rauðviðar tegund sem var í lofti jarðhýsisins, vex ekki í N-Noregi, var því tilvera trjábolsins í þessu jarðhýsi ráðgáta. Rauðviðarbolinn, sem Karstein snikkar, hafði þurft að sækja langt suður í Noreg og flytja með erfiðismunum aftan í fjórhjólinu hans Nils upp í Bláfjöll svo allt væri samkvæmt ritúalinu

 

IMG_1014

Juma í matpásu við útiborð sem var upp á hólnum, sem jarðhýsið var í, nokkurn veginn yfir því miðju. Það var ekki nokkur leið að sjá að þarna var hús undir nema vegna þess að dyr voru á hólnum. Hitt jarðhýsið sem Karstein sýndi okkur var ósýnilegt utanfrá. Við Juma unnum oft saman árin sem ég var hjá Murbygg, vorum góðir félagar. Hann sagði mér frá því hvernig hús voru byggð í heimahögum hans í Afríku. Sú húsagerð er ekki framkvæmd nema í fullri sátt við náttúruna og væri efni í mun lengri pistil 

 

IMG_1120

Það gerðist svo fyrir tilviljun þegar við stoppuðum örþreyttir á heimleiðinni, eftir vonlaust verk, við lítið upplýsingaskilti til að hagræða hryggsekkjunum, að skyndilega fengu samtöl og myndir andvökunáttanna samhengi. Á skilti stóð að John Johnsen og hans kona Kirsten Andersdatter hefðu tekið sig upp 1868 og flutt til fjalla í leit að jarðnæði. Þau, börn þeirra og barnabörn, hefðu svo byggt sér torbæi í dalverpi í Bláfjöllum sem þau nefndu Vilgesvarre. Þar hafði stórfjölskyldan búið allt til ársins 1958

 

IMG_0956

Við Juma afrekuðum samt að lagfæra einn stein í hleðslu neðst í vegg með því að krafsa undan honum með kúbeini til að búa til pláss, og notuðum svo stífu og tjakk til að ýta hnullungnum inn undir vegginn um leið og við stýrðum honum með járnkalli. Karstein varð ekki hrifinn, -sagði að við hefðum svindlað

 

IMG_0962

Vilgesvarre

 

IMG_1017

 

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0-

 

Ps. Fyrir þá sem hafa náð að lesa þetta langt og langar til að fá einhvern botn í hvað það á að fyrirstilla að segja frá þvílíkri sneypuför, -þá hef ég komist að því að jarðhýsið í Bláfjöllum er ekkert einsdæmi.

Mér hefur oft dottið í hug að Vilgesvarre eigi sér hliðstæður mjög víða, t.d. á Orkneyjum á stað sem heitir Skara Brae. Þar sem talin eru vera mannvirki frá forsögulegum tíma, 4-5000 ára gömul.

scotland-orkney-skara-brae-071819-ch

Veturinn 1850 gerði mikinn storm á Orkneyjum. Það var ekkert sérstakt við storminn, annað en að þá var óvenjulega hásjávað svo að öldurótið svipti grasi af stórum hól. Þetta jarðrask opinberaði útlínur fjölda steinbygginga er undir voru, -sem eru jafnvel taldar eldri en Stonehenge og Píramídarnir í Gísa

Það er víðast hvar í heiminum líkur á að finna ævaforn mannvirki sem láta lítið fyrir sér fara í landslaginu. Ef einhver skyldi hafa áhuga á hversu algengt, þá er þetta video um leyndarmál steinanna.

 


Það verður varla logið upp á þetta lið

Nú hafa sömu fálkar og tæmdu Íslandsbanka innanfrá um árið fengið að kaupa hann á sérstöku tilboðsverði. Enda að verða fátt um fína drætti í fjárplógstarfsemi í allri dýrtíðinni og bankinn því orðinn hinn álitlegasti eftir að almenningur fékk hann í fangið, sælla minninga.

Sumum hefur orðið mikið niðri fyrir, -svo mikið að jafnvel fjárfrekar fraukur úr samspillingunni hafa lýst vandlætingu sinni. Gleðifréttin er samt sem áður sú að grínkompaníið Bananalýðveldið ehf sá sér leik á borði og fékk að klófesta hlut á afslætti náhirðarinnar.

Why Iclend viðundrið bíður svo bablandi í seðlabankanum tilbúið til að skrúfa upp vextina svo um munar á blessaða bjálfana og unga fólkið, búnu að koma sér á vonarvöl með húsnæðiskaupum á verði sem komið var uppi úr þakinu.

Dregin var fram gömul skrautfjöður úr hatti bananakippunnar til að sjá um óskapnaðinn, -sú sama og átti að dikta icesave í landann eins og graut ofaní óþægt barn um árið, -í góðri trú um að hægt væri að bera fyrir sig persónuverndarlögum.

En hvað um það, alltaf hefur reynst best að fá hneyksli ofan í hneyksli þegar þarf að krafsa yfir skítinn á stjórnarheimilinu. Já það er margt skrýtið sem freyðir fram þessa dagana og upp á þetta lið verður varla logið úr þessu.


Animal Farm

Nú hafa gölturinn og lofthænan valdið fjaðrafoki innan Bændasamtakanna með lélegum bröndurum. Atað framkvæmdastýruna tjöru og feykti formanninum frá framsóknarfjósinu.

Fjölmiðlar hafa verið fullir fyrirlitningar við að upplýsa óskapnaðinn án þess að svo mikið sem spyrja þeirrar einföldu spurningar hvað bændur væru að gera með slíka forystusauði á jötunni.

Hvað þá að því sé haldið til haga að þjóðin býr við uppgjafa dýralækni innanbúðar í innviðaráðuneyti og innvígða bankadömu úr gjaldþrota seðlabanka í nýsköpunarráðuneyti eftir að hafa mútað medíunni og lögsótt kynsystur sína fyrir að hafa leiðtað réttar síns.

Nú er bara að vita hvort framsókn var að losa sig við atkvæði eða berja í brestina, sem komnir voru í fjósbásana. Og þá hvort latínu lið lögfræði í Garðabænum eða lepjandi latte liðið í 101 Reykjavík matar krókinn á gjörningnum, með starfstöð án staðsetningar og mætingaskyldu.

Guð blessi samt sem áður allt Ísland.


Ég legg metnað minn í það að míga úti

Það fer ekki yfirleitt ekki mikið fyrir lýsingum af því hvernig salernisferðum var háttað fyrr á tíð og mætti jafnvel ætla að Iss, piss og pelamál púðursykur og króna. Þegar mér er mikið mál pissa ég bara í skóna, -hafi verið lenskan.

Samt má víða finna lýsingar á því hvar hlandforinni var fyrirkomið heima við bæ, og að koppar hafi verið undir rúmum gömlu baðstofunnar. Stærri stykki má ætla að hafi oftast verið gerð í fjósflórinn enda oft innangengt úr bæ í fjós, ef baðstofan var þá ekki yfir fjósinu sjálfu svo mætti notast við ylinn frá kúnum.

Karlmenn hafa líklega flestir lagt metnað sinn í að míga úti rétt eins og segir í Stuðmannaslagaranum, þó svo að kvenfólk hafi frekar kosið fjósið. Ólíku hefur verið saman að jafna við glæsileg salerni nútímans. Nokkrar lýsingar má þó finna á því í rituðu máli hvernig fólk sinnti kalli náttúrunnar fyrir daga nútíma salernis.

Húsaröðin austur að hlaðinu var þá þessi: Syðst austurhlið baðstofunnar, torfveggur og torfþekja, með fjórum gluggum niðri og fjórum uppi, þá bæjardyraþil með dyrahurð og litlum glugga yfir, og loks skemmuþil með tveimur gluggum niðri og einum uppi. Á bak við og vestan við þessi þrjú hús var svo búr, eldhús og fjós, og innangengt í öll frá vesturenda bæjardyra. Voru það hlunnindi fyrir mjaltakonur á vetrum að þurfa ekki út til mjalta, og fyrir alla yfirleitt að hafa innangengt á náðhúsið. En það var fjósflórinn. Þannig var þessu fyrir komið um allt Hérað, eða víðast. (Um húsaskipan í Þingmúla 1891 - Endurminningar sr Magnúsar Blöndal II bindi)

Þrír strompar voru á eldhúsinu, og safnaðist sjaldan mikill reykur í það, en sótleki var oft til óþæginda. Í gegnum norðurvegginn var trérenna. Í hana var helt skólpi úr bænum út í hlandforina, sem var norðan undir eldhúsveggnum. Þótt rennan væri lokuð með hlera, kom stundum óþægileg lykt um hana inn í eldhúsið og bæinn allan, einkum ef norðanátt var í aðsigi, var hún nokkurn veginn öruggur veðurviti. Í eldhúsinu stóð kerald eitt mikið og fornt, svo engin vissi aldur þess. Í það var safnað öllu þvagi, sem til féllst á nóttum til ullarþvottar á vorin. (Innanbæjarlýsing Norðlenskt sveitarheimili í upphafi 20. aldar - Steindór Steindórsson frá Hlöðum)

Lýsingin að norðan á við gamla hlóðaeldhúsið, sem þá orðið var aðallega notað til að baka brauð, sláturgerðar og stórþvotta. Nýrra eldhús var komið til sögunnar á þessum tíma til daglegra nota, sem var gengt gamla eldhúsinu og var með eldavél kynntri mó og taði.

Það er farið að glitta í nútímann fyrir um hundrað árum síðan á norðlenska sveitarheimilinu, þegar sagt er frá hvernig hlandforin var breidd á túnið: Sóðalegasta og á ýmsan hátt erfiðasta vorverkið var að koma forinni á túnið. Norðurundir bænum var allstór safnþró, steinsteypt. Lá renna í hana úr gamla eldhúsinu, og var hellt í hana allskonar skólpi. Salerni var einnig yfir þrónni, og í hana var fleygt ýmsu rusli sem rotnað gat. Var hún nær full á hverju vori. 

Ekki er lýsingin gleggri en svo að erfitt er áð átta sig á hvort um postulínssalerni hefur verið að ræða eða kamar, sem hefur verið gengið í utanhúss, eins og víða var orðin lenska í höfuðstaðnum.

Ég legg metnað minn í að míga úti sungu Stuðmenn. Einhver tíma heyrði ég af manni sem ég þekkti, sem hefði átt lengi erfitt með að míga inn í miðju húsi, þó svo að þar væri hefðbundið prívat postulínsklósett.

Nú á dögum hefur femínisminn komið metnaði kalmannsins í fjósið, ef svo má segja. Þeim verði hált á haldforinni, sem verði á að míga úti, jafnvel þó svo að það sé torgi í landnámi Ingólfs, kenndu við sjálfan fyrsta landnámsmanninn.

Iss, piss og pelamál púðursykur og króna komi sér því betur, ef karlmanni verður mikið mál. Svo mikil hefur framförin orðið á innan við öld.


Íslandssaga til útfluttnings

Þeir sagnfræðingarnir Karla Smári Hreinsson og Adam Nichols hafa gefið út þrjár bækur um Tyrkjaránið á ensku. Fyrir u.þ.b. viku kom efni á youtube byggt á einni bókinni, reisubók Ólafs Egilssonar. Tyrkir rændu hátt á fjórða hundrað íslendinga frá Grindavík, af Austfjörðum og úr Vestmannaeyjum sumarið 1627.

Ólafur Egilsson var prestur í Ofanleiti, Vestmannaeyjum. Hann skrifaði reisubók sína eftir að heim kom, ári eftir að hafa verið numinn af landi brott og fluttur til Alsír ásamt eiginkonu og börnum þeirra tveimur það þriðja fæddist í hafi á leiðinni til Alsír.

Myndbandið á youtpe er á rás sem kallast Raddir þess liðna. Greinilegt er á viðbrögðum youtube áhorfenda að Tyrkjaránið við Íslandsstrendur vekur verulega athygli og hefur fengið tæp 700.000 áhorf og hátt í 7000 athugasemdir.

Athugasemdirnar eru þó misáreyðanlegar og sú sem hefur fengið mesta athygli er frá The Zapan 99 sem segir; Enn er minningarskjöldur í Reykjavíkurhöfn sem segir að Tyrkir hafi drepið meira en þriðjung íbúa eyjarinnar í þessum ránum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband