Haugar

IMG_3187

Það hefur varla farið fram hjá neinum að sumarið er komið í öllu sínu veldi. Gamall maður sagði við mig í gær að hann hefði heyrt að sumarið yrði svipað og í fyrra, sem var once in a lifetime sumar víða um land, og yrði það hreint út stórmerkileg upplifun að fá tvö slík í röð.

Þeir eiga það til að vera óvæntir dagarnir með ábendingum úr ýmsum áttum. Helgin var tekin of geyst enda skein sól í heiði og við Matthildur mín skruppum um fjöll og firnindi. Skriðdalurinn var skreppitúrinn á sunnudaginn, sem endaði óvænt á biluðum Cherokee upp í fjallshlíð.

Innst í Skriðdal eru Haugar, bær sem kenndur er við einhver mestu skriðuföll á landi hér, enda heitir dalurinn hvorki meira né minna en Skriðdalur. Þjóðvegur eitt hlykkjaðist þarna á milli hauganna á síðustu öld. Var ein skíring á þeirri skringilega hlykkjóttu slóð að belja hefði verið látin marka vegstæðið.

IMG_3189

Dalbotninn er sléttur rétt innan við Haugahólana, vinstra megin á myndinni er hægt að sjá hvernig skriðið hefur úr fjallinu, en hægra megin á myndinni er fjallshlíðin heil. Eins og glöggir lesendur hafa áttað sig á þá er þessi mynd af Cherokee

Nú liggur þjóðvegurinn í beinni og breiðri braut rétt ofan við haugana í botni dalsins og rétt neðan við haugana þar fyrir ofan sem ná upp í fjallsrætur. Það gekk sennilega mikið meira á þegar Haugar urðu til en það eitt að belja gengi um dalbotninn eins og þegar vegurinn var lagður og varð manni ósjálfrátt hugsað til Íslendingasagnanna og Landnámu.

IMG_3195

Matthildur rifjar upp söguna af því hvernig vegurinn var upphaflega lagður í gegnum Haugana, en þá sögu heyrði hún í Atlavíkurferð

Það var á dögum Haralds konungs hins hárfagra, Hálfdanar sonar hins svarta, Guðröðar sonar veiðikonungs, Hálfdanar sonar hins milda og hins matarilla, Eysteins sonar frets, Ólafs sonar trételgju Svíakonungs, að sá maður kom skipi sínu til Íslands í Breiðdal, er Hallfreður hét. Það er fyrir neðan Fljótsdalshérað. Þar var á skipi kona hans og sonur, er Hrafnkell hét. Hann var þá fimmtán vetra gamall, mannvænn og gervilegur.

Hallfreður setti bú saman. Um veturinn andaðist útlend ambátt, er Arnþrúður hét, og því heitir það síðan á Arnþrúðarstöðum. En um vorið færði Hallfreður bú sitt norður yfir heiði og gerði bú þar, sem heitir í Geitdal. Og eina nótt dreymdi hann, að maður kom að honum og mælti:

"Þar liggur þú, Hallfreður, og heldur óvarlega. Fær þú á brott bú þitt og vestur yfir Lagarfljót; þar er heill þín öll."

Eftir það vaknar hann og færir bú sitt út yfir Rangá í Tungu, þar sem síðan heitir á Hallfreðarstöðum, og bjó þar til elli. En honum varð þar eftir göltur og hafur. Og hinn sama dag, sem Hallfreður var í brott, hljóp skriða á húsin, og týndust þar þessir gripir; og því heitir það síðan í Geitdal. (Hrafnkels saga Freysgoða)

Hrafnkels-saga talar um Geitdal en sá dalur er norðurdalur Skriðdals, en á þessu svæði öllu má sjá gríðarleg ummerki skriðufalla. Landnáma greinir örlítið öðruvísi frá sama atburði, en í huga má hafa að ættfærslan gengur sennilega betur upp tímalega í Hrafnkels sögu.

Hrafnkell hét maður Hrafnsson; hann kom út síð landnámatíðar. Hann var hinn fyrsta vetur í Breiðdal. En um vorið fór hann upp um fjall.

Hann áði í Skriðudal og sofnaði; þá dreymdi hann, að maður kom að honum og bað hann upp standa og fara braut sem skjótast; hann vaknaði og fór brutt. En er hann var skammt kominn, þá hljóp ofan fjallið allt, og varð undir göltur og griðungur, er hann átti. (Landnáma Sturlubók)

 IMG_3205

Upp í fjallshlíðinni liggur háspennulína, og hefur sennilega ekki verið notast við belju við þá lagningu, enda tylla staurarnir sér niður á hæðstu hauga 

Margir hafa efast um að þessar sögur eigi eitthvað skylt við sannleikann, en ekki alls fyrir lögnu rakst ég á einhverja úttekt sem greindi frá því að húsatættur gægðust undan einum haugahólnum.

Mér hefur alltaf þótt áhugavert að vita hvernig þessi undur og stórmerki gátu gerst, hvort þá hafi verið jarðskjálftar samfara steypiregni. Um þetta var velt vöngum í Haugahólunum um helgina.

Þegar heim var komið hafði ég fengið e-mail frá vini mínum í Ástralíu með sennilegri skýringu.


Hatursorðræða stjórnmálamanna

Nú kveður svo rammt að virðingu alþingis að biskup þjóðkirkjunnar hefur séð sig tilneyddan að kallað einn af klerkum sínum á teppið og veita honum tiltal fyrir að vitna í Biblíuna. Hvort áminningin er vegna guðlasts eða hatursorðræðu er ekki gott í að spá, enda hefur ekkert verið um það upp gefið og telst málinu lokið að hálfu biskups.

Klerkur tók fram hina helgu fésbók eftir fund sinn með biskupi og bætti um betur með því að fara í frelsarans slóð og minna á farísea. Og ekki er laust við að klerkurinn hafi þar með bætt í Biblíutilvitnanirnar.

Klerkur undanskildi þá að vísu fræðimenn og hefur þar með gert sig sekan um pólitískan tvískynjung, -ef ekki hræsni, enda hefur biskup ekki séð nokkra ástæðu til að kalla hann á teppið þess vegna.

Hver mannvitsbrekkan um aðra þvera geysist nú um víðan völl við að spá í spilin og finnst sumum að stjórnmálamenn eigi orð klerksins inni, á hvorn veginn sem þau vigti, svo lengi sem fræðimönnum er haldið utan við Biblíutilvitnanir.

Fyrrverandi fer þó undan flissandi í flæmingi og segir að þeir ofsóttu séu í stöðugri endurskoðum. Dómsmálaráðherra veltir vöngum og er allavega búin að koma því á framfæri, -að ef fjölskyldufólk á annað borð tórir tíu mánuðina á landinu bláa verði það ekki sent til Grikklands.

Guð blessi Ísland.


Vesterålen

IMG_0701

Vesturállinn eru eyjar nyrst í Nordland fylki í Noregi. Staðsettur rétt norðan við Lofoten og vestur af Hynneyju. Sortland er stærsti bærinn, staðsettur nálægt miðju eyjaklasans. Vesterålen nær yfir Andey, Langey, Hadseley og Skógey ásamt fleiri smáeyjum. Þar eru sveitarfélögin Andøy, Bø, Hadsel, Sortland og Øksnes.

Map-of-Norway-Hiking-Regions-N

Vesterålen er á mörkum 68°- 69°N rétt vestur af Harstad í Troms fylki sem er á Hynneyju, stærstu eyju við Noregsstrendur. Einungis Svalbarði er stærri af eyjum á yfirráðasvæði Noregs. Hluti sveitafélagsins Andøy í Vestrålen er á Hynneyju.

Það sama hefur gerst í N-Noregi og á Íslandi með sameiningu sveitarfélaga, minni byggðirnar hafa veikst og ekki endilega orðið til nein heild. Þar virðist vera það sama uppi á teningnum og hér á landi, að horft er meira til ákveðins íbúafjölda frekar en hvað íbúarnir eiga sameiginlegt. Þessi þróun er auðséð í Vesturálnum sem á verulega í vök að verjast.

IMG_0789

Nordmela á Andeyju er lítið sjáaþorp. Byggðirnar á ystu ströndum Atlantshafsins muna fífil sinn fegri þegar öllu skipti að fá byr í seglin og lífið var saltfiskur

Sumarið 2012 var Matthildur mín hjá mér í Harstad. Reyndar vorum við stærstan hluta sumarsins norður í Finnsnesi í Troms ásamt vinnufélögum mínum við múrverk í járnblendiverksmiðju. Bjuggum þar á tjaldstæði og í íbúðarhúsi byggingastjóra verkefnisins, sem hét Arna og var samísk, hún lánaði okkur og vinnufélögunum húsið á meðan hún var í sumarfríi.

Ég ef sagt frá þessu sumri í pistlum um Senja og Lofoten, en nú ætla ég að segja aðeins frá ferð út í Vesterålen, sem var kallaður Vesturállinn af forfeðrunum okkar vikningunum. Þeirra byggðir voru við ströndina og á ystu eyjum. Inn til landsins voru byggðir sama (finna). Og náði það sem kallað er Finnmörk lengra suður í Noreg en þar sem Finnmörk er nú skilgreind.

Sumarið 2012 átti Matthildur mín fimmtugs afmæli og við 25 ára brúðkaupsafmæli. Þetta var erfitt sumar ég í útlegð, Matthildur glímdi við líkamlega vanheilsu og bankinn bauð upp á afarkosti. Við Matthildur gerðum okkur þó dagamun á þessum tímamótum með því að þvælast um helgar í boði Mette framkvæmdarstýru Murbyggs á vinnubílum, eða á hennar bíl þegar hún fór í sitt sumarfrí siglandi á skútunni sinni til Svalbarða.

IMG_0790

Hvítar sandstrendur við bæinn Bleik eru himneskar. Sjávarplássið er orðið að nokkurskonar sumarleyfisstrandbæ líkt og Borgarfjörður-eystri. Í þríhyrningslöguðum eyjunni sem rísa úr hafi er stærsta lundabyggð við Noreg 

Eftir ferð okkar í Vesterållen bað Mette mig lengstra orða að minnast ekki á þær eyjar við nokkurn lifandi mann, þegar hún varð var við hrifningu okkar á þeim. Hún sagði að þennan hluta N-Noregs vildu Norðmenn hafa fyrir sjálfa sig, í friði fyrir túristum. En nú ætla ég að ganga á skjön við fyrirmæli Mette þrátt fyrir alla greiðasemina. Enda spurning hvað maður getur lengi haldið kjafti yfir fjársjóði.

Vesturállinn er með magnaðri stöðum sem við Matthildur höfum heimsótt, með öllum sínum sveitum, litlu sjávarplássum, hvítu sandströndum á skógi vöxnu eyjum. Það má teljast með ólíkindum að eins fallegt svæði og vel úr garði gert frá náttúrunnar hendi skuli eiga undir högg að sækja byggðalega, hefur fjármagninu meir að segja komið til hugar að hefja stórfellda olíuvinnslu í Vesturálnum til að bjarga málum, -eða þannig.

Einn af þeim bæum sem við heimsóttum var Nyksund á Langeyju, bær sem var alfarið yfirgefinn árið 1970. Rúmlega 30 árum seinna í upphafi 21. aldarinnar fór bærinn að glæðast lífi á ný með búsetu listafólks. Ég heyrði reyndar frá norskum vinnufélaga, sem sagði mér upphaflega frá tilvist þessa bæjar, að það hefði verið moldríkur þjóðverji sem hefði keypt bæinn á einu bretti, hvorki með manni né mús, en ótrúlegri höfn frá náttúrunnar hendi og öll sín hús.

Þó svo að Nyksund hafi verið upphaflegi hvatinn að því að fara út í Vesturálinn þá heillaði margt fleira, m.a. strandlengjan við bæinn Bleik en þaðan er opnumynd þessarar bloggsíðu. Þessi helgi úti í Vesturálnum var bæði silfurbrúðkaups- og fimmtugsafmælis virði og í geislaspilaranum í bílnum suðuðu íslenskar dægurflugur.


Blessaður njólinn

Apaplánetan á leiðinni til landsins, vöruverð upp úr öllu og varla von á öðru en fólk verði farið að japla á skósólunum sínum þegar líða tekur á haustið. Því hefur verið haldið fram á þessari síðu að svokallað illgresi hafi verið talin mannamatur í hallærunum á öldum áður. Það sem varla yrði talið til skepnufóðurs nú á dögum einkennalausra drepsótta.

Undanfarin ár hefur vorkomunni verið fagnað á þessari síðu með njóla, fíflum og hundasúrum við eldhúsboðið. Ég hef gert þessum matseðli skil á bloggi undanfarin vor og þá hollustunni, en nú eru þau orðin fimm vorin síðan ég prófaði þennan matseðil fyrst.

Vorkoman í ár er vonum framar. Fyrsta njólasúpan var á borðum 28. apríl og hefur aðeins einu sinni komist þangað fyrr en það var 20. apríl 2019. Í fyrra voru þessi herleg heit ekki í boði fyrr en 25. maí. Svona er ná njólinn stabíll hitamælir, -naskur á næturfrostin.

Það má segja að þessi sérviska nái samt mun lengra aftur í tíman en síðustu árin, því árið 2011 hafði ég lesið mér til um hvernig mætti matbúa þessar jurtir og ákveðið að prófa þær þá um vorið en endaði þess í stað lengst norður í Noregi við gull og græna skóga.

Það var svo ekki fyrr en vorið 2018 að ég lét af verða og komst þá að því að um svo mikið gæðahráefni er að ræða, að hvern vetur síðan bíð ég með óþreyju eftir vorkomunni með það í huga að komast í heilsusamlegt illgresið.

Um hollustuna þarf engin að efast því hver sem hefur séð rollur skjögra til fjalla að vori, gráar og guggnar með lömbin, ætti að hafa tekið eftir því að þær breytast í ofurkindur á nokkrum dögum. Það sem meira er að þessi matseðill kostar lítið meira en útveru við farfuglasöng í náttúru fullri af D-vítamíni.

Þeir sem vilja fræðast frekar um eitthvað fíflalegt lesa meira hér.


Droplaug og Darraðardansinn

Lítið hefur farið fyrir því í gegnum tíðina að Íslendingasögunum sé hampað sem kvennabókmenntum. Kannski má kenna því helst um að þeir sem skrifuðu þær hafi verið karlmenn sem og einnig þeir sem túlka þær inn í nútímann.

Í vetur tók ég mig til og las Njálu í fyrsta skipti. Auðvitað kunni ég Njálu nokkuð vel enda hafði ég lesið um söguhetjur og er alinn upp á málsháttum þeirrar bókar eins og flestir íslendingar á mínum aldri. Tekið hefi ég hér hvolpa tvo eða hvað skal við þá gera?

Njála er eitt gleggsta dæmið um kvennabókmenntir Íslendingasagnanna. Þær sögupersónur sem þar ráða örlögum og eru afgerandi hvati sögunnar eru Bergþóra Skarphéðinsdóttir á Hvoli og Hallgerður langbrók Höskuldsdóttir á Hlíðarenda.

Það sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir, áður en sagan var lesin í heild, var hversu mikil tengsl sagan hefur við Bretlandseyjar. Í henni er að finna Brjánsbardaga í Dublin í ljóðinu sem Darraðardansinn er kenndur við, einn magnaðasta kveðskap fornbókmenntanna og var sá vefur spunnin af konum.

Barði Guðmundsson fyrrum Þjóðskjalavörður á að hafa getið sér þess til að Njála sé skrifuð af Þorvarði Þórarinssyni, síðasta goðanum, og fékk hann litla þökk, -og enn minni athygli fyrir þá tilgátu. En Þorvarður varð síðastur til að ganga Noregskonungi á hönd á Þjóðveldisöld og þar með var íslenska Þjóðveldið formlega fallið um allt land.

Þorvarður lifði lengst þeirra sem fóru með goðorð á Íslandi. Hann var frá Valþjófstað í Fljótsdal, hafði búsetu á Hofi í Vopnafirði. Hann aðstoðaði Magnús lagabæti Noregskonung við ritun laga Jónsbókar þegar landsmenn gátu ekki sætt sig við lög Járnsíðu, sem tók við af þjóðveldislögum Grágass, -og þáði hann m.a. riddara nafnbót að launum.

Þorvarðar og Odds bróður hans er getið í Sturlungu, þeir voru af ætt Svínfellinga sem réðu Austfirðingafjórðungi. Brennu Flosi frá Svínafelli, sem kemur við Njálssögu, er einn af forfeðrum þeirra bræðra og áttu þeir kvonfang á söguslóðum Njálu. Í pistlinum Síðasti goðinn og bróðir hans eru því gerð skil hversu afgerandi mark konur settu á Sturlungaöld og kemur það vel fram í sögu þeirra Valþjófstaðabræðra.

Það er því kannski ekkert einkennilegt þó svo Barði Guðmundsson hafi getið sér þess til að Njála hafi verið skrifuð af, -eða að undirlagi síðasta goðans. Því svipuð kvenleg sagnaminni má finna í Austfirðingasögum og ber þau hæðst í Droplaugarsonasögu. Og ekki er ólíklegt að Þorvarður riddari Þórarinsson hafi haft hönd í bagga með því hvernig saga landnáms og þjóðveldis í Austfirðingafjórðungi varðveittist.

Það sem gerir hlut kvenna stóran í Austfirðingasögum má finna í gengum nöfnin Arnheiður, Droplaug og Gróa, ekki er ólíklegt að þar sé um að ræða formæður og frænkur síðasta goðans. Það sem einkennir þessar áhrifamiklu konur er hve vandasamt reynist að ættfæra þær til göfugra ætta landnámsmanna. Sjálfur hef ég trú á að Arnheiður hafi enn fremur haft með nafngiftir á Íslandi að gera, sem má lesa um í pistlinum Hvaðan kom Snæfellið?

Arnheiður var ambátt sem landnámsmaðurinn Ketill þrymur keypti af Véþormi vini sínum í Jamtalandi sem nú er í Svíþjóð. Hún var dóttir Ásbjörns skerjablesa á Mön í Suðureyjum. Þau byggðu Arnheiðarstaði í Fljótsdal og hefur sá bær borið nafn Arnheiðar frá landnámi. Arnheiður var föðuramma þeirra Droplaugarsona.

Droplaug er sögð í Droplaugarsonasögu frá Giljum á Jökuldal og lítið meira um uppruna hennar sagt annað en hún varð kona Þorvaldar Þiðrandasonar, sonarsonar Arnheiðar og Ketils þryms á Arnheiðarstöðum, og settist þar að.

Miklar og ótrúlegar vangaveltur er að finna í Austfirðingasögum um hver Droplaug raunverulega var og ekki er farið í grafgötur með að hún var mikill skörungur enda synir hennar við hana kenndir en ekki föður sinn sem varð skammlífur.

Söguþráður Droplaugarsonasögu umhverfist um það hvernig synir hennar, Helgi og Grímur, verja sæmd móður sinnar. Og hvernig hún giftist aftur til ríkidæmis í þeirra óþökk með þeim afleiðingum að hún og Helgi sonur hennar eru stefnt fyrir dóm grunuð um samantekin ráð vegna manndráps til fjár. Þar teygir sagan sig í nokkrum torskyldum setningum til Írlands. Droplaug fór til skips í Berufirði áður en til dóms kom og keypti jörð í Færeyjum.

Tvær aðrar Austfirðingasögur eru í reynd um Droplaugu, þ.e. Brandkrossa þáttur og Fljótsdæla. Í Brandkrossaþætti er reynt að ættfæra Droplaugu til ókenndra göfugra ætta í Þrándheimi. Það er gert með ævintýralegri sögu af nautinu Brandkrossa í Vopnafirði sem synti á haf út og fannst hjá hellisbúanum Geiti í Þrándheimi og viðurkenndi Geitir að hafði tælt nautið til sín.

Geitir gifti Droplaugu dóttur sína í Vopnafjörð sem nokkurskonar skaðabætur fyrir Brandkrossa er best naut var á öllu Íslandi. Droplaug Geitisdóttir er þar amma Droplaugar á Arnheiðarstöðum sem er samkvæmt Brandkrossa þætti dóttir Gríms úr Vopnafirði sem bjó á Giljum á Jökuldal.

Fljótsdælasaga segir svo að Droplaug á Arnheiðarstöðum sé dóttir Arnheiðar sem Arnheiðarstaðir eru skírðir eftir og þær mæðgur hafi komið saman frá Hjaltlandi þar sem Þorvaldur Þiðrandason sonar sonur Ketils þryms og Arnheiðar á Arnheiðarstöðum bjargaði henni frá jötninum Geiti sem hafði numið Droplaugu frá föður sínum Björgólfi jarli á Hjaltlandseyjum.

Það má segja að ættfærsla Droplaugar sé hálf vandræðaleg samkvæmt Brandkrossaþætti og Fljótsdælasögu, en það segir m.a. Arneiður móðir hennar átti mörg skilgetin börn og var hún þá ekkja er hún átti þessa sína dóttir, Droplaugu. Þar er reyndar margt fremur einkennilegt í ljósi þess að ekkert er legið á ambáttar uppruna Arnheiðar á Arnheiðarstöðum í Droplaugarsonasögu.

Þess er getið eitt sumar að skip kom af hafi í Reyðarfjörð. Kona ein réð fyrir skipinu sú er Gróa hét. Hún var systir Droplaugar, mjög rík að fé. Fór hún af því út hingað að bóndi hennar hafði andast og þá seldi hún lendur sínar og keypti skip og ætlaði að finna móður sína. Droplaug ríður til skips og býður systur sinni til sín og það þiggur hún. Og þennan vetur er Gróa er þar voru sveinarnir Helgi og Grímur heima og var Gróa vel til þeirra. Ástúðugt var með þessum frændum. Fundu menn það að hvorri þeirra systra var yndi að annarri. (Fljótsdæla saga)

Gróa á Eyvindará er svo enn einn kvenkyns örlagavaldur Droplaugarsonasögu. Hún er sögð í Droplaugarsonasögu systir Þorvaldar Þiðrandasonar, en í Fljótsdælasögu systir Droplaugar og kemur óvænt á skipi sínu til Íslands, þá á besta aldri búin að missa mann sinn og kaupir Eyvindará að undirlægi Droplaugar systur sinnar, rífur skip sitt og notar í húsviði.

Hún var kvenna minnst en afbragðlega sjáleg, greyp í skapi og skörungur mikill og forvitra. Svo mikill fégróður hljóp að Gróu að Eyvindará að nálega þóttu tvö höfuð á hverju kvikindi. Menn fóru úr ýmsum héruðum og báðu Gróu og hnekkti hún öllum frá og kvaðst svo misst hafa bónda síns að hún ætlaði öngvan mann að eiga síðan. (Fljótsdæla saga)

Það má að endingu geta þess að það er Gróa sem ræður endi og örlögum Droplaugarsonasögu sem gengur einna best upp Íslendingasögulega séð í tíma og ættfærslum. Þarft verk væri sögufróðra sagnfræðinga, sem þora að lesa á milli línanna, -líkt og Barði Guðmundsson gerði með Brennu Njálssögu, -að gera því skil hversu miklar kvennabókmenntir má finna Íslendingasögunum.


Tími og peningar

Hvað er það sem fær fólk til að lesa bloggpistil? Eins og með flesta texta eru það líklega fyrirsagnir. Það sem er efst á baugi gefst vel í fyrirsagnir eða formála. Nú um stundir virðist það vera Rússar, Úkraína, Pútín og Selinskí. Fréttatengd blogg eru einnig vel til fallin að lesendur eiga auðveldara með að komast inn í hugrenningar bloggarans.

Þessar síðu ritstýrir sérvitringur sem hefur ekki mikinn áhuga á heimsmálunum, -forðast fréttir fjölmiðlanna og horfir ekki á sjónvarp. Í sem stystu máli má segja að þetta sé vegna þess að á heimsmálunum eru oftast fleiri en tvær hliðar og lítil áhrif hægt að hafa á lygina. Málefni einstaklingsins á sinni sérvitru gönguför skipta síðuhafa meira máli.

Þess vegna eru flest bloggin hérna um eigin sérvisku. Stundum gríp ég þó til þess að ausa úr skálum reiði minnar og gefa gildisdóma úr vogaskálum visku minnar um menn og málefni í fréttum, og þá aðallega vegna þarfarinnar fyrir að láta ljós mitt skína.

Hér á blogginu held ég úti annarri síðu með þeim hjartans málum sem mér finnst skipta meira máli en dægurþras medíunnar. Þar læt ég aðra um það að fara með spekina, en reyni að koma því á framfæri að það sé svo skrýtið að eftir því sem fólk ráði meira sínum hugsunum hafi það meiri tíma og þurfi minni pening.

Efnishyggja og glötun sálar lesa meira


Dæmisaga úr sjoppunni

Það kemur ekki oft fyrir að boðinn er forgangur fatlaðra. Við vinnufélagarnir vorum staddir við N1 núna í vikunni við að steypa örlitla skábraut við bílastæði merkt fötluðum. Höfðum komið snemma morguns full græjaðir og lagt bílnum í fatlaða stæðið. Svo gjörningurinn gengi sem hraðast fyrir sig höfðum við hraðsteypu til verksins sem þurfti að tvíhræra með ca. 5 mínútum á milli.

Á meðan við biðum 5 mínúturnar settumst við í stóla við sjoppuvegginn og nutum blíðunnar. Þá kom maður á aldri við okkur (rúmlega 60 +) á bíl og reyndi að troða sér í fatlaða stæðið. Þegar það gekk ekki snaraðist hann út úr bílnum með þennan flotta vindil í munnvikinu og skírteini í hendinni sem hann otaði að okkur og spurði hvort við værum alveg sjónlausir og vildum ekki fá merki fyrir fatlaða.

Þar sem 5 mínúturnar voru u.þ.b. liðnar stóð ég stein þegjandi á fætur og hóf seinni hræruna í steypunni. Á meðan félagi minn sagði manninum, -sem var á góðri leið með að láta góða morgunnstund með vindlinum sínum fara til spillis, -að grjót halda kjafti. Hvort hann sæi ekki að við værum að vinna. Ég sagði við félaga minn, þegar við vorum búnir að hella úr steypu stampinum, að nú skildi hann færa bílinn og bjóða þeim fatlaða stæðið með virktum, en þá keyrði hann í burtu með vindilinn.

Á sama augnabliki kom ungur starfsmaður N1 æðandi út um sjoppu dyrnar að eldri konu, sem var að reykja fyrir utan, og benti henni á að það væri bannað. Konan sagði strax fyrirgefðu vinur -og gekk svo fram hjá mér við steypuna og ég sagði; ekkert má nú lengur. Hún brosti og sagði; þetta var alveg rétt hjá unga manninum það er skilti þar sem ég stóð sem sýnir að reykingar séu bannaðar, ég tók bara ekki eftir því, það var fallegt af honum að láta mig vita svo ég stæði ekki við skiltið eins og vitleysingur.

Þessi viðbrögð hafa valdið mér heilabrotum og minntu mig á þegar við Matthildur mín komum seinni part dags úr Axarferð á Djúpavog í drullu fyrir nokkrum árum. Þá datt mér í hug að koma við á þvottaplaninu hjá N1. Þegar ég beygði inn á það var flautað, mér fannst að flautið kæmi úr gljáfægðri rútu þar sem rútubílstjórinn var á tali við einhvern út um gluggann við bensíndælurnar.

Þegar ég var byrjaður að þvo bakkaði rútan þétt upp við bílinn hjá mér þannig að ég varð að færa mig til að verða ekki undir henni. Þá sá ég að rútan var ekki jafn gljáfægð að aftan og að framan og fattaði hversvegna rútubílstjórinn hafði flautað. Þó svo að það væru þvottastæði fyrir 8-10 bíla þá vorum við einir á öllu þvottaplaninu, þá fattaði ég líka að þetta var kústinn og stæðið hans.

Þannig að þegar rútubílstjórinn kom út rétti ég honum kústinn og sagði; fyrirgefðu ég vissi ekki að þetta væri stæðið þitt, ég færi mig bara. Matthildur mín sat sallaróleg inn í bíl og prjónaði á meðan ég færði bílinn um nokkur stæði, þangað sem kústarnir með löngu slöngunum voru fyrir stóru bílana. Fattaði þá fljótlega hvers vegna rútubílstjórinn vildi ekki vera þar, -kústarnir voru eins og klístraðar tjöru tuskur.

Ég lét mig samt hafa það að baksa við að nudda drulluna af bílnum, en fékk þá óvænta aðstoð. Allt í einu stóð ég vatnsbunu og heyrði kallað; þú vissir það víst ég sá þegar þú heyrðir að ég flautaði. Ég komst í skjól hinu megin við bílinn. Heppnin var með mér því slangan, sem var í kústinum hjá rútubílstjóranum, náði ekki lengra og ég gat haldið áfram að þvo í þurru.

Matthildur mín var þá hætt að prjóna og snaraðist út úr bílnum. Sagði við mig, nú stein þegir þú Maggi, enda var ég þetta sumar nýlega stiginn upp úr hjartaáfalli. Svo snaraðist hún að rútunni og skrifaði niður bílnúmerið og spurði rútubílstjórann um símanúmerið hjá fyrirtækinu sem rútan var merkt.

Rútubílstjórinn steinhætti að reyna að sprauta á mig og sprautaði á Matthildi mína í staðin þangað til að hún komst í skjól inn í bíl orðin holdvot. Ég grjót hélt bara kjafti og kláraði að þvo bílinn. Kallaði svo til rútubílstjórans áður en ég fór, þú ættir svo að fara inn og biðja þá hjá N1 að merkja stæðið þitt með skilti, -svo ekki þyrfti að koma til þess að eldra fólk stæði bálsteytt í vatnslag á tómu þvottaplani að kvöldi dags.

Honum var runnin reiðin og reyndi ekki einu sinni að sprauta á mig. Matthildi minni var líka runnin reiðinn og byrjuð aftur að prjóna þegar ég settist inn í bíl, og datt ekki einu sinni í hug að hringja í rútufyrirtækið, sagði bara; sennilega hefur hann átt erfiðan dag blessaður.

Já þeir eru liðnir þeir tímar sem maður gat veitt sér þann munað að fara allan skalann upp á há c-ið, gera allt snar brjálað og lalla svo sallarólegur í burtu eins og ekkert hefði skeð. Ef þú hefur náð að lesa þetta langt lesandi góður, þá passaðu þig á gömlu brýnunum við sjoppurnar í sumar, þó að þau séu ekki með skilti.


Gömul steypa og tomma sex

Það má segja að steinsteypan hafi verið það efni sem kom Íslendingum inn í nútímann. Steypan varð byggingarefni 20. aldarinnar. Nú eru tímarnir breyttir og til landsins streyma gámar með einingahúsum krosslímdum úr timbri og gifsi, sem eru jafnvel farin að mygla í gámunum og silfurskottur geta fylgt með í kaupbæti.

Það má segja að hundaheppnin hafi losað landann við mygluna mest alla 20. öldina. Á meðan hús voru byggð á þann hátt að keypt var fyrst af öllu efnið í þakið; -1X6 tommu timbur sem var notað til að slá upp fyrir steypu mótum áður en það fór í þakklæðninguna. Með því vannst m.a. það að timbrið fékk mygluvörn með sementsefjunni, önnur byggingaefni voru að mestu myglufrí.

Á síðasta áratug 20. aldarinnar hófust gríðarlegar breytingar í byggingariðnaði. Innflutt efni streymdi til landsins. Innflytjendur, verkfræðingar og fjárfestar urðu allsráðandi á byggingarmarkaði, studdir af regluverki uppdiktuðu af latínuliði Langtíburtukistan. Reynsla byggingarmeistaranna er fokin út í veður og vind sem einskisverð sérviska. Hendur Jóns og Gunnu festar betur enn nokkru sinni fyrr við skuldaklafann með því að slá á hvern einasta fingur.

Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd af húsi yfir fjölskylduna og hafa framkvæmdavilja til hrinda henni í framkvæmd. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistara réttindi til, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn.

Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra, sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistari, -öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið af gæðaeftirlit vottuðu af viðurkenndri skoðunarstöð og allur heildar pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins.

Tryggvi Emilsson lýsti því þegar hann byggði íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri fyrir hátt í hundrað árum, en hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Síðuhafi hefur haft steypuna að áhugamáli og atvinnu ævina alla. Nú er sumarið framundan og þá er farið út um þúfur, mela og móa til að dást að steypu, -nýrri og gamalli. Gamla steypuhefð 20. aldarinnar með sinni tommu sex, sem má sjá til sveita, er óðum að hverfa ofan í svörðinn með fullveldinu og fólkinu, -en mikið asskoti var það heilbrigður lífsmáti þegar Jón og Gunna byggðu sitt hús laus við myglu, mæðu og silfurskottur kerfisins.

 

IMG_1443

 

img_7497 17.07.2016

 

IMG_7783

 

IMG_0668

 

IMG_3764

 

IMG_0694

 

IMG_2480

 

IMG_4350

 

IMG_8456

 

IMG_2509


Hreppurinn kominn á hreppinn

Það fer varla fram hjá neinum að fyrir dyrum standa kosningar bæði til lands og sjávar - ríkis og borgar- sjálfur Selinskí hefur ávarpað þjóðina. Ísland fyrir Íslendinga var einu sinni vinsæll frasi fyrir kosningar. Nú dettur ekki nokkrum heilvita frambjóðenda í hug að viðhafa svoleiðis orðfæri án þess að eiga yfir höfði að vera kallaður rasisti. Frekar að reynt sé að finna út á hvaða tungumáli sé best að ná til kjósenda. Mörg sveitafélög úti á landi eru komin með allt að helming kjósenda glóbalska.

Ættfærðir íslendingar eru fyrir löngu orðnir eins og hverjir aðrir fábjánar í eigin landi sem hafa ekki við að fá frábærar hugmyndir á færibandi til að láta ljós sitt skína á medíuna. Það sem er sammerkt landanum er að vera orðin handlama þegar koma á öllu hugarfluginu í framkvæmd. Varla að landinn sé fær um að tjalda, hvað þá að búa um rúm eða byggja hús. En ræður ennþá nokkuð vel við að skella í selfí til að senda heim frá Tene.

Flugumenn frelsisins gægjast nú glottandi úr hverri gátt tilbúnir til að selja ömmu sína, ættarsilfrið og stúta endanlega fullveldinu í skiptum fyrir að vera lausir undan mætingaskildu og starfstöð á fjarfundi í símanum sínum. Þvílík er uppbyggingin framundan að hornsteinum er nú hent að heilu hverfunum svo ekki sé skautað fram hjá þjóðarhöllunum og skýjaborgunum sem þessa dagana birtast eins og sápukúlur upp úr hattinum.

Í mínum smáheimabæ birtist nú í vikunni; innviðaráðherrann ásamt forstjóra mannvirkjastofnunnar ríkisins og fagfjárfestis af hrafnshól. Þetta andans lið fór um sinumóann í norðaustan nepjunni, ásamt sveitarstjórnarfólki, með byggingahjálma og öryggisgleraugu skartandi gulum vestum og lögðu hornstein með símanum sínum við löngu gleymdan moldartroðning.

Þessi slóði var eina veðið sem stóð eftir fyrir 2,2 milljarða skuld korter eftir “hið svo kallaða hrun” sem núverandi meirihluti sameinaðs sveitarfélags hefur endurheimt úr klóm veðhafa með málaferlum í á annan áratug. Sett var upp smá skilti fyrir símana og sjónvarpstökumanninn við enda troðningsins gegnt hornsteininum sem á stendur Construction Area authorized personnel only, m.a. með táknmyndum af öryggismyndavél og byggingahjálmi.

Það var ekki seinna vænna en að smella í selfí fyrir ríkissmedíu okkar landsmanna allra, -og hræra steypu í hornstein. Fagfjárfestirinn á hrafnshólnum hefur með handverkið að gera, hefur unnið að lofsverðum framkvæmdum í sveitarfélaginu, með því fá grafna holu í miðjan fótboltavöllinn á Seyðisfirði fyrir átta íbúðum. Holunni var reyndar skilað, en byggðar hafa verið þess í stað fimm holur neðanjarðar á Djúpavogi sem ekki hefur alveg tekist að klára vegna tæknilegra atriða.

Heir, heir! Selenskí ávarpar alþingi íslendinga. Já það er munur að búa í stóru samfélagi en vera ekki eins og hreppari í einhverju krummaskuði úti á landi. Enda er hreppurinn sjálfur, sem hefur verið til sem hallærisleg stjórnsýslueining frá þjóðveldisöld, komin á hreppinn.

Farið hefur fé betra varla eru menn á móti uppbyggingu kann einhver að spyrja, -eftir stanslausa fólksfjölgun undangenginna áratuga. En þegar betur er að gáð þá hefur Íslendingum lítið fjölgað við innrás glóbalsins, nema þá í kirkjugarðinum, eins og kunningi minn á grafarbakkanum benti á.

Guð blessi Ísland.


Á Reykjavík að ganga í ESB?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband