Blessaður njólinn

Apaplánetan á leiðinni til landsins, vöruverð upp úr öllu og varla von á öðru en fólk verði farið að japla á skósólunum sínum þegar líða tekur á haustið. Því hefur verið haldið fram á þessari síðu að svokallað illgresi hafi verið talin mannamatur í hallærunum á öldum áður. Það sem varla yrði talið til skepnufóðurs nú á dögum einkennalausra drepsótta.

Undanfarin ár hefur vorkomunni verið fagnað á þessari síðu með njóla, fíflum og hundasúrum við eldhúsboðið. Ég hef gert þessum matseðli skil á bloggi undanfarin vor og þá hollustunni, en nú eru þau orðin fimm vorin síðan ég prófaði þennan matseðil fyrst.

Vorkoman í ár er vonum framar. Fyrsta njólasúpan var á borðum 28. apríl og hefur aðeins einu sinni komist þangað fyrr en það var 20. apríl 2019. Í fyrra voru þessi herleg heit ekki í boði fyrr en 25. maí. Svona er ná njólinn stabíll hitamælir, -naskur á næturfrostin.

Það má segja að þessi sérviska nái samt mun lengra aftur í tíman en síðustu árin, því árið 2011 hafði ég lesið mér til um hvernig mætti matbúa þessar jurtir og ákveðið að prófa þær þá um vorið en endaði þess í stað lengst norður í Noregi við gull og græna skóga.

Það var svo ekki fyrr en vorið 2018 að ég lét af verða og komst þá að því að um svo mikið gæðahráefni er að ræða, að hvern vetur síðan bíð ég með óþreyju eftir vorkomunni með það í huga að komast í heilsusamlegt illgresið.

Um hollustuna þarf engin að efast því hver sem hefur séð rollur skjögra til fjalla að vori, gráar og guggnar með lömbin, ætti að hafa tekið eftir því að þær breytast í ofurkindur á nokkrum dögum. Það sem meira er að þessi matseðill kostar lítið meira en útveru við farfuglasöng í náttúru fullri af D-vítamíni.

Þeir sem vilja fræðast frekar um eitthvað fíflalegt lesa meira hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þar sem ég var í sveit þar var af og til grautur á borðum sem ég hélt að væri rabbabara grautur en heldur ljósari að lit og fanst mér hann engu síðri eftir að ég komst að því að þetta væri njóla grautur.

 

Ég sagði mömmu frá og kannaðist hún við njóla graut frá því að hún var stelpa og bað mig að útvega sér njóla ef ég vissi um, sem ég og gerði. Svo kom grauturinn og var alveg eins á litin og rabbara grautur og heldur betri en í sveitinni en það er ekkert að marka, það var allur matur betri hjá henni mömmu.

Hrolfur Hraundal (IP-tala skráð) 25.5.2022 kl. 09:48

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa fínu frásögn Hrólfur. Það þurfti oft ekki mikið til í sveitinni svo góður matur væri á borðum. Í seinni tíð verð ég alltaf hrifnari og hrifnari af gamla sveitamatnum, -súrmat og slátri.

Ég ólst upp við berjamó og móðir mín fór með okkur krakkana á grasafjall, sem varð til þess að ég hef alltaf vitað hvar og hvernig fjallagrös og ber er að finna, þau eru í hafragrautnum hjá mér á hverjum morgni allt árið um kring.

Njólinn, hundasúrurnar og fíflarnir vaxa út um allt og eru sérdeilis góður matur í maí og júní. Við búum í gósenlandi mest allt árið.

Magnús Sigurðsson, 25.5.2022 kl. 14:06

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Bestu þakkir fyrir þennan góða pistil Magnús og ekki var nú verri fróðleikurinn hjá honum Hrólfi Hraundal, UM NJÓLAGRAUTINN.  Ekki veitir af að við Íslendingar förum að nýta eitthvað af hinum gríðarleg auð sem landið okkar býður uppá....

Jóhann Elíasson, 25.5.2022 kl. 14:16

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það veitir ekki af því Jóhann, að við lærum betur að meta og nýta landið okkar á heilbrigðan hátt. Ég segi það stundum við pólska vinnufélaga að Íslands sé ríkasta land í heimi. Þeir mótmæla því ekki, enda hingað komnir til að hafa það betra.

Já hún er góð frásögnin hans Hrólfs, nú þarf maður bara að prófa að sjóða njólann með sykri eins og rabbabaragraut. Ég bjó mér óvart til góðan njólajafning um daginn með því að nota aðeins of mikið hveiti út í súpuna.

Fyrsta hugmyndin sem ég fékk um hvernig mátbúa mætti njóla var frá gamalli konu í sveit fyrir mörgum árum, sem sagði mér að hann hefði verið notaður í jafning með kjöti fram eftir sumri, þangað til kartöflurnar voru sprottnar.

Sæt njólastappa var borin fram með steiktu kindakjöti í veislu sem Jörundi hundadagakonungi var haldin í Viðey árið 1809, en annað meðlæti með steikinni var vöfflur, flatbrauð og kex.

Magnús Sigurðsson, 25.5.2022 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband