18.10.2021 | 19:23
Er stríðið búið?
Fyrir tæpum 20 mánuðum var lýst yfir heimsstyrjöld gegn drepsóttar veiru. Nú virðist sjá fyrir endann á þeim hernaði. Við vinnufélagarnir fórum t.d. grímulaust í byggingavöruverslun um daginn, eins var komið fyrir öðrum viðskiptavinum.
Þar sem við stóðum í biðröð við kassann komu gangandi inn maður og kona bæði grímuklædd. Einhvern veginn fór félagi minn að því að bera kennsl á fólkið og stökk til hliðar, heilsaði með handabandi og sagði; komdu sæll og blessaður frændi langt síðan við höfum hittist.
Eftir stutt spjall um daginn og veginn, á meðan þeir héldust í hendur, spurði félagi minn; hvað ertu ennþá að bjálfast um með grímu. Frændinn leit í kringum sig og sá engan með grímu nema konuna, hann tók grímuna í gætilega niður og stakk henni í vasann.
Á leiðinni út sagði félagi minn við mig með forundran; frændi minnir mann bara á söguna af Japönsku hermönnunum sem fundust skógum Asíu áratugum eftir stríð og höfðu ekki hugmynd um að seinni heimstyrjöldinni var löngu lokið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.10.2021 | 19:01
Vinur er sá er til vamms segir
Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.
Hrörnar þöll
sú er stendur þorpi á.
Hlýr-at henni börkur né barr.
Svo er maður
sá er manngi ann.
Hvað skal hann lengi lifa?
Sumar heilræðavísur Hávamála eru þannig orðaðar að þær smella inn í nútímann svo ekki þarf að leita orðskýringa, þannig er fyrri vísan og vísar til ávinnings vináttunnar.
Sú seinni er öllu snúnari en hún tekur í raun til hins sama og sú fyrri, samt með öðrum formerkjum. Einstæðingurinn hversu lengi skal hann lifa? -er spurt.
Ætla má að vináttan eða vinaleysið komi til með að ná út yfir gröf og dauða. Þöll er visin trjábolur sem enn stendur uppi, þorp er stundum túlkað sem berangur eða jafnvel haugur (grafreitur), manngi = engin, -eða jafnvel margir engir. Já hversu lengi verður þess minnst sem engin ann.
Flestir afla sér vina snemma á lífsleiðinni og stundum endist sú vinátta út lífið, en oftast er það svo að vinunum fækkar eftir því sem á ævina líður. Því er mikilvægt að hlúa að vináttunni og eiga gott samband við fjölskyldu, hvort sem er lifað lífinu eða í minningunni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.10.2021 | 18:46
Töffarar allra landa sameinist!
Nú þegar veröldin er orðin yfirfljótandi af femínistabullum og jellyböngsum, búið að kellingavæða KSÍ og lögregluna.
Og fréttir berast af því út um heimsbyggðina að Brown Sugar sé komið á svartalistann hjá rétttrúnaðar liðinu.
Þá verður ekki lengur hjá því komist að taka ákvörðun um hverskonar heim við viljum skilja eftir fyrir Keith Richards.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.10.2021 | 20:24
Dauðadæmdur dæmir til dauða
Stóridómur eru einhver þau hörðustu siðferðislög sem sett hafa verið á alþingi. Sennilega hafa engin lög á landi hér kostað eins mörg mannslíf. Til voru menn sem höfðu uppi burði til að verja sig gegn valdinu. Einn af þeim var Jón Jónsson á Litla Steinsvaði í Hróarstungu sem var það vel lesin að hann gat frætt sýslumann og meðdómendur hans á hvaða siðferðislögmálum Biblíunnar stóridómur hvíldi. Hann var samt sem áður dæmdur til dauða ásamt Kristínu Rustikusdóttur á grundvelli laga stóradóms árið 1791.
Kristín var þá 37 ára ekkja og Jón hafði nýlega misst eiginkonu sína. Jón hafði ráðið Kristínu sem vinnukonu á heimilið á Litla-Steinsvaði. Höfðu þau hugsað sér að giftast, en þar sem Kristín hafði áður eignast barn utan hjónabands með Magnúsi bróður Jóns, þá var þeim bent á að meinbugir gætu verið á hjónabandsáformum þeirra og vissara væri fyrir þau að sækja um leyfi til konungs. Áður en svar barst við málaleitan þeirra varð Kristín ólétt og eignuðust þau barn.
Ákæran á hendur Jóni Jónsyni og Kristínu Rustikusdóttur byggði á að stóridómur gerði ráð fyrir því að dauðarefsing væri við því að maður eignaðist barn með konu bróður síns. Þessi lagarök munu hafa verið sótt í 3. Mósebók þar sem taldar eru upp þær konur sem karlmönnum er óleyfilegt að leggjast með, og höfðu sennilega þess vegna lent inn á dauðalista dómsins.
Málsvörn Jóns byggði á því að ekki væri um brot á Móseslögum ræða þar sem Kristín væri ekki kona bróður hans heldur frilla þeirra bræðra beggja, sem þeir báðir hefðu eignast með barn. En Magnús var á þessum tíma, kvæntur annarri konu og bjó á Seyðisfirði, hann og Kristín höfðu aldrei gifst. Jón benti m.a. á 5. Mósebók 25:5 Þegar bræður búa saman og annar þeirra deyr án þess að hafa eignast son skal ekkja hins látna ekki giftast neinum utan fjölskyldunnar heldur skal mágur hennar ganga inn til hennar, taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana. Lög stóradóms sem byggði á tilmælum Mósebókar ættu hvergi við í þeirra tilfelli, því andi Móses laga væri allt annar. Þarna væri því um barnseignarbrot að ræða, og í mesta lagi tvöfalt hórdómsbrot, sem mætti sekta fyrir en væri ekki dauðasök.
En vörn Jóns Jónssonar breytti því ekki að bæði voru þau Kristín dæmd til dauða og bú þeirra tekið til skipta. En eitthvað hefur þvælst fyrir sýslumanni að fá dóminn fullnustan og varð hann að taka Kristínu á sitt heimili til að halda henni til fanga, ekki er vitað hvar Jón dvaldi þar til dómnum skyldi framfylgt. Að 6 árum liðnum berst síðan svar við fyrirspurn þeirra til kóngsins, um það hvort meinbugir væru á giftingaráformum þeirra, svarið var að þeir væru engir.
Þegar svo var komið er dauðadómurinn úr gildi fallin en eftir stendur eignalaust fólk sem hafði þar að auki ekki nokkurn arð af vinnu sinni í 6 ár. Þau Kristín og Jón giftust og byrjuðu búskap Þorbrandsstöðum í Vopnafirði, sem var jörð í eigu sýlsmannsættarinnar. Það má því segja að mál Jóns og Kristínar hafi verið leyst með nútímalegum hætti sé litið til þess hvernig almúgans ólöglega eignaupptaka var leyst eftir að fólk hafði verið borið út af heimilum sínum í krafti ólöglegra okurlána. Því boðin okurleiga í öðrum eignum sem sölsaðar hafa verið undir fjármálavaldið á svipaðan hátt. Allt í nafni fjármálastöðugleika, laga og réttar.
Það merkilega við Jón Jónsson er að hann var síðar dómkvaddur til að dæma yfir manni sem hafði eignast sitt 4. ólöglega getna hórbarn og tekur þar þátt í því með sýslumanni að dæma manninn til dauða. Sá dauðadæmdi fær vinaraðstoð valdamanns við að skjóta máli sínu til æðra dómstigs og er þar dæmdur sýkn saka. Þannig má enn og aftur sjá líkindi að fornu og nýju hvað afstöðu Jóns Jónssonar varðar, almúgamaðurinn er sannfærður um að lög skuli virða.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2021 | 06:11
Andskotinn og amma hans
Sá er sæll
er sjálfur um á
lof og vit meðan lifir.
Því að ill ráð
hefir maður oft þegið
annars brjóstum úr.
Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Auði betra
þykir það í ókunnum stað.
Slíkt er volaðs vera.
Heilræðin eru úr Hávamálum. Fyrri vísan er um hyggjuvitið, um gildi þess að hver verði sjálfum sér nægur um holl ráð. Því oft þiggur einstaklingurinn óheilindi af öðrum, eða umhverfinu.
Seinni vísan er snúnari og virðist fela í sér þá þversögn að mannvit mikið verði ekki fengið nema frá öðrum s.s. í skóla eða með óþrjótandi upplýsingum. Í fyrri tíma fornritaútgáfum var mannvit með einu enn-i, -manvit- sem höfðaði til minnis einstaklingsins.
Maðurinn ber ekki betri byrði á lífsleiðinni en skynsemina sem notuð er til að skilgreina og draga eigin ályktanir, taka ekki upplýsingum sem gefnum, -og til þess notar maður hyggjuvitið, -minnið- og er það meira virði en ríkidæmi, -jafnvel í fátækt.
7.10.2021 | 20:17
Stúdent
Það kom til tals á milli okkar vinnufélaganna á morgunnandaktinni hvað bókmenntir gætu verið stórbrotnar, en yfirleitt skorar latínuliðið ekki hátt hjá okkur steypuköllunum. Þarna var hins vegar rætt um bókmenntir heimahagana sem sumir kalla naive.
Einn félaginn sagðist hafa sagt upp áskrift af héraðsblaðinu Austra þegar Stefán frændi minn í Flögu hætti að senda fréttabréf úr Skriðdal. Í þessum fréttabréfum mátti lesa helstu tíðindi úr dalnum s.s. hver keypti hvaða bíl og hvaða fjölskyldumeðlimum væri hugsanlega um að kenna ef hann rispaðist.
Reyndar lagði Austri upp laupana sem héraðsfréttablað stuttu eftir að fréttabréfin hættu að berast úr Skriðdal. Stefán Bjarnason gaf út tvær bækur um sína ævi; Frá torfbæ til tölvualdar á 50 árum og Að duga eða drepast. Þó svo að þessar bækur hafi ekki farið hátt, og umhverfst um þúfu í Skriðdal þá á heimildagildið bara eftir að vaxa.
Í bókinni Að duga eða drepast er aragrúi smásagna sem auðvelt væri að láta sér til hugar koma að væru um nauðaómerkilega smámuni af bæjarhóli Stefáns. En þegar betur er að gáð eru þær stórskemmtilegar auk þess að segja sögu þjóðar.
Stefán segir t.d. frá því þegar Magnús bróðir hans varð fyrsti stútendinn sem Skriðdælingar eignuðust.
"Jafnan er það mikill atburður þegar fjölskyldumeðlimur tekur sitt áfangapróf, hvort heldur er búfræði, stærðfræði, verkfræði, guðfræði, eða læknisfræði, en sú síðasttalda er talin hvað erfiðust, og ábyrgðarmest. Það voru fleiri en fjölskylda og nánustu ættingjar, það var öll sveitin líka, eða svo var hér í Skriðdal, þegar Magnús Bl Bjarnason á Borg tók sitt stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949.
Það gekk svo langt að Kvenfélag Skriðdælinga hét á Strandarkirkju að Magnúsi gengi vel í prófum og sett var í gang söfnun, og söfnuðust 500 kr, sem var þó nokkur fjárhæð í þá daga. En kvenfélagskonur ætluðu að gera meira, þær ætluðu að standa fyrir kaffiveislu í félagsheimilinu, Magnúsi og fjölskyldu til heiðurs. Konur voru að grennslast eftir hjá móður hans, Kristínu Árnadóttir á Borg, hvenær prófi yrði lokið og Magnús væntanlegur heim. En móðir hans vissi nú lítið um það.
En víkur nú sögunni til Magnúsar sem þreytti stúdentspróf vorið 1949 og lauk því með ágætis einkunn.
En þegar þeim áfanga var náð, fór hann að spyrjast um eftir fari austur á land, það var nú ekki eins auðvelt þá eins og síðar varð. Hann hitti af tilviljun Pétur Jónsson, bónda á Egilsstöðum, sem var á austurleið, og talaðist svo til með þeim, að þeir skyldu verða samferða. Ekki sagðist Magnús muna til hvernig það atvikaðist, að þeir fengu far með Catalinu flugbát, sem lenti á Lagarfljótinu.
Svo þegar í Egilsstaði kom, tók Pétur Magnús heim með sér og gaf honum að borða. Að máltíð lokinni fór Magnús að hafa orð á því, að verða sér úti um bíl inn í Borg. Ekkert mál sagði Pétur og brá sér í síma. Þegar hann kom út á hlað stóð þar Cervolet fólksbifreið og Bergur Ólason sat undir stýri. Magnús heilsaði honum og þeir félagar komu farangri fyrir í bílnum. Að því loknu kvaddi Magnús Pétur og þakkaði honum fyrir alla hjálpsemi við sig og settist inn í bílinn hans Bergs, sem ók þegar af stað inn Vellina og síðan inn Skriðdalinn inn á móts við bæinn á Borg, sem var næst innsti bær í dalnum.
Allar þverár fjórar voru óbrúaðar og báðar dalsárnar Múlaá og Geitdalsá. Bergur nam staðar á bakka Múlaár á móti bænum Borg. Þar tíndu þeir farangur Magnúsar út úr bílnum og bauð Magnús honum borgun. Þá brosti Bergur og sagði: Við erum báðir Skriðdælingar og rétti Magnúsi hendina, þeir kvöddust og þakkaði Magnús honum veittan greiða. Er skrýtið að þeir Bergur hafa ekki hist síðan og eru þó báðir komnir yfir sjötugt, þegar þetta er skráð.
Magnús var sóttur austur yfir ána frá Borg á hestum og var vel tekið, eins og vænta mátti og boðinn velkominn heim.
Fór nú að verða uppi fótur og fit í sveitinni, konur í kvenfélaginu komu til fundar og ákváðu að hafa kaffisamsæti um næstu helgi í félagsheimilinu.
Þar var heiðursgesturinn boðinn velkominn heim í sveitina sína með smekklegri ræðu Friðriks Jónssonar, oddvita á Þorvaldstöðum, nokkrir fleiri fluttu stutt ávörp og heillaóskir. Allt fór þetta mjög virðulega og smekklega fram, þar sem þetta var í fyrsta skipti sem Skriðdælingur tók stúdentspróf en það gerði Magnús Bl Bjarnason og lauk því með miklum sóma og lauk síðan læknisnámi við Háskóla Íslands 1955."
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.10.2021 | 04:38
Vits er þörf þeim er víða ratar
Mig dreymdi þann draum að ég gengi niður stigahús fjölbýlishúss. Þegar niður kom steig ég til hliðar, í stað þess að stíga fram og út um aðalinnganginn, -fór ég í gegnum dyr, niður eitt þrep inn á langan gang lokaðan í endann.
Á ganginum var hvorki bjart né myrkt, ljós né skuggar. Til hægri voru rökkvuð skúmaskot með rekkum af starfsmannaskápum sem var gengt á milli. Til vinstri var veggur með gluggum hátt á þar sem grá skíma dagsbirtunnar tírði inn í gegnum glerið.
Þarna var einungis gráa súpu að fá og sjá; gerða úr burt flognum hænsnum, steiktum spýtum og teiknuðum kartöflum.
Hefði ég valið aðalinnganginn gekk ég út í litríkan daginn, í brennandi sól eða grimmdar frosti, -þar lá efinn.
Í stað þess gekk ég örugga leið á eftir einlitri gulrótinni er asnann dregur, sem var það eina er gaf ganginum lit.
Skyldi það vera að "draumur lífsins" væri appelsínugul viðvörun?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.9.2021 | 19:52
Hefðbundið klúður - eða lögbrot?
Það fer ekki hjá því að maður spyrji sig hvað hafi farið úrskeiðis á milli eyrnanna á þeim sem sjá um að telja kjörseðla, gefa í framhaldinu út lokatölur og úrslit kosninga. Skilja síðan kjörseðla eftir óinnsiglaða í sal á hóteli, jafnvel þó svo að hann hafi verið læstur, á meðan farið er heim að sofa.
Að loknum svefni er síðan komið saman aftur og endurtalið, -gefin út ný úrslit. Afleiðingarnar eru að tiltrú almennings og frambjóðenda á framkvæmd lýðræðislegra kosninga á Íslandi er fokin út í veður og vind, -kannski ekki að ástæðulausu.
En spurningin er fyrst og fremst sú; hvernig kom það til að það var endurtalið í NV kjördæmi eftir að úrslit voru kynnt úr því að engin fór í upphafi fram á það, -og hvernig gat það gerst að framkvæmdin er orðin með þeim hætti sem nú hefur opinberast?
![]() |
Vill að endurtalið verði á landinu öllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.9.2021 | 05:00
Gömul sannindi og ný
Þagalt og hugalt
skyldi þjóðans barn
og vígdjarft vera.
Glaður og reifur
skyli gumna hver
uns sinn bíður bana.
Ósnjallur maður
hyggst munu ey lifa,
ef hann við víg varast.
En elli gefur
honum engi frið,
þótt honum geirar gefi.
-0-0-0-
Eg veit einn
að aldrei deyr:
dómur um dauðan hvern.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2021 | 04:57
Já, sei, sei, nei
Hann kann að virðast framandi asninn sem gulrótin dregur. Undarlegri en hundurinn sem eltir sitt skott. Kunnuglegur er þó klárinn er leitar þangað sem hann er kvaldastur.
Nú rennur upp sú örstutta stund er lýðurinn í einrúmi valdið velur, en ekki Svarti Pétur með sína feitu peninga verði.
Sá sem í dag ekki gleðst við nýta sinn lýðræðislega rétt ætti því að grjót halda kjafti. Ég segi ekki meir, , , já, sei, sei, nei.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)