Rauðar íslenskar.

IMG 2779 

Það hefur verið einstök veðurblíða austanlands frá vorjafndægri til haustjafndægurs, eða í hálft ár og reyndar allt til dagsins í dag. En nú er farið að blása hressilega með köflum svo að flaggið slitanaði úr stönginni á Sólhólnum um helgina.

Þrátt fyrir einmuna veðurblíðu er ekki enn búið að taka upp kartöflurnar, enda verður seint sagt um rauðar íslenskar að þær séu fljótsprottnar hvað þá að það sé hætta á að það hlaupi í þær ofvöxtur.

Kartöfluupptakan hófst um helgina, þó svo að grösin standi enn, og restin verður sennilega tekin upp um næstu helgi.

 

 

 


Blámóða helgarinnar.

Síðastliðna þrjá sunnudaga hefur sólarupprásin verið tekin á Sólhól.  Þennan morguninn mætti skarfurinn á skerið til að þerra vængina í lognmollunni. Hitinn var um 10 gráður en vindinn vantaði. Æðarkollan var ennþá með unga í fjörunni sem ekki eru lengur dúnaðir heldur að verða nokkuð stálpaðir þó enn megi heyra þá tísta.
 
Músarindillinn söng örstutt um það leiti sem sólin lét sjá sig úti í móðunni, þrestirnir létu í sér heyra um leið og þeir nörtuðu í eplin sem komið hafði verið fyrir á trjágreinunum. Þegar fyrst var komið út var ekki gott að sjá hvað var þoka og hvað mistur, en sennilega hefur verið hvort tveggja. Þó leyndi mistrið sér ekki þegar sólin skein dauf í gegn. 
 
Núna eru vikurnar orðnar þrjár síðan gosið hófst í Holuhrauni og flesta daga síðan hefur mátt sjá mistur í lofti. Þetta er auðvitað nokkhverskonar gósentíð fyrir skýjaskoðara. Síðastliðna viku var samt þoka á Héraði í tvo daga þannig að ekkert sást til skýjanna né gosmistursins.
 
Skógurinn hefur fölnað og gerðist það því sem næst á einni nóttu þó svo ekki hafi verið næturfrostið og hitinn reyndar varla farið mikið undir 10 stig. En í vikunni voru fyrstu dagar september sem daghitinn nær ekki 15-17 stigum. Það er sérstakt að ekkert skuli heyrast um hvað mengunin í mistrinu geri gróðri og dýrum, enginn sem virðist kanna það enda hefði það truflandi áhrif á viðveru vísindamanna við tölvuskjáina.
 
Í gær talaði það fólk sem með mér var að þau finndu fyrir móðunni, því sviði í augu og öndunarfæri. Sjálfur hef ég ekki fundið fyrir slíku síðan gosið hófst nema smástund í tvö skipti þegar móðunni sló niður og í annað skiptið mældust hæðstu gildi brennisteins dioxíðs sem mælst hefur á Egilsstöðum.
 
Þó þetta sé ekki talið neitt stórgos sem er í Holuhrauni þá gefur móðan frá því smá hugmynd um það hversvegna Móðuharðindin fengu nafngift. Flestir eru á því að þessi móða skerði birtu sólar verulega. Þegar skýjað er þá er næstum rökkvað ef móðan er mikil.
 
Núna í vikunni auglýsti ein byggingavöruverslunin gasgrímur og á mínum vinnustað var mælst til að grímur væru hafðar við höndina. Sumir vinnustaðir hafa útvegað grímur fyrir alla sína starfsmenn. 
 
Á þessu videoi má sjá myndir af blámóðu helgarinnar í logninu niður á fjörðum og á héraði. 
 

Hrafnaþing að hausti.

IMG 2419 

Þegar ég settist út á Sólhólinn í morgunn til að taka sólarupprásina svifu fimm hrafnar hátt á lofti úti í fjarðarmynninu. Krunkið í hröfnunum var eini fuglasöngurinn sem gaf til kynna að sólarupprásinni væri fagnað. Inni í firði mátti síðan heyra í öðrum hrafni smella í góm og enn öðrum handan fjarðar. Þessi söfnuður tók sig síðan saman með stefnuna á Kambanesið sem ber við ysta haf.

Þetta vor, sumar og haust hafa fuglarnir hegðað sér um margt undarlega. Strax í vor voru túnin á Egilsstaðanesinu nánast eins og fjölþjóðlegur millilandaflugvöllur, ég minnist þess ekki að hafa áður séð aðrar eins fuglabreiður á nesinu. Lóur, gæsir, álftir, spóar öllu ægði saman innan um hreindýrin. Já og vel á minnst ekki hafa Egilsstaðabændur áður þurft, mér að vitandi, að reka hreindýr trekk í trekk úr túnunum hjá sér þar sem þau voru því sem næst kominn inn í miðbæ Egilsstaða.

Þessa óvenjulegu vor hegðun fugla og hreindýra mátti kannski skýra með miklum fönnum til fjalla. En þegar lóan var farin að draga sig saman í stóra hópa strax í byrjun ágúst skorti skýringar. Kunningi sagðist hafa tekið eftir hegðun lóunnar um mitt sumar. Fyrir stuttu spurði ég hvort hann hefði séð lóu frá því í byrjun ágúst; svarið var nei og lítið af gæs. Hann er mikill veiðimaður og sagði þetta með gæsina bagalegt. 

Þegar við ræddum þessa hegðun fuglanna nánar sagði hann mér frá því að þó svo að vorið hafi verið einstök blíða þá hefði æðarfuglinn í hans firði verpt seint. Þetta vissi hann vegna þess að hann væri vanur að gæða sér á kollueggi á hverju vori. Þegar leið á samtalið dró hann upp snjallsíma til að sækja sér upplýsingar um hvenær hann hefði fundið fyrstu kollueggin því í honum átti hann myndir af hreiðrum hinna ýmsu fugla frá varpinu í vor.

Þegar ég tók sólarupprásina á Sólhólnum um síðustu helgi lá blámóða yfir láði og legi. Söngur fuglanna lét á sér standa en tíst í æðarkollu ungum vakti athygli mína og í flæðarmálinu mátti sjá kollu kenna ungunum sínum að kafa eftir æti. Þá eins og núna í morgunn þagði máfurinn við sólarupprás eins og um vetur væri, ekkert veiðibjöllu vell. Hvort hegðun fugla og samkoma hrafna merkir eitthvað sérstakt eftir einstakt blíðviðris sumar leiðir tíminn í ljós.

Hér má sjá myndir frá haustinu 2014. 


Undir bláhimni.

IMG 2247

Sólarupprás á Stöðvarfirði 7.september 2014. 

Í heiðríkjunni austanlands um helgina, hefur lagst yfir láð og lög blá móða sem menn vilja kenna um bungunni hans Bárðar. Þó skyggnið sé skrautlegt læðist að manni óþægilegur grunur um hvernig umhorfs hafi verið á fyrstu dögum móðuharðinda.

 IMG 2269

Í Fáskrúðsfirði um hádegisbil. 

Um helgina dvöldum við í Sólhól úti við ysta haf, blámóðan var hvert sem litið var, vissulega var birtan bæði skrýtin og skrautleg. Nú segja vísindamenn að ekki hafi mælst eins mikið brennisteins dioxið í lofti síðan mælingar hófust árið 1970.

IMG 2285 

 Á brún Fjarðarheiði seinnipartinn, Egilsstaðir við Lagarfljótið niður í móðunni. 

 Þegar ég dvel við ysta haf tek ég venjulega sólarupprásinni fagnandi með fuglunum úti á Sólhólnum. Í morgunn var hún sérstök. Það sérstaka auk birtunnar var að fuglarnir sungu ekki þegar sólin kom upp á sjóndeildarhringinn og ylinn vantaði frá fyrstu sólargeislunum.

Einu fuglahljóðin lengi vel voru frá dúnuðum æðarkollu ungum í flæðamálinu, eins og júní væri. Ég minnist þess ekki að hafa séð áður kolluunga nýskriðna úr eggi viku af september. 

 


Undraland ævintýra.

"Nútíminn er trunta með tóman grautarhaus" var sungið í denn. Undanfarið hef ég reynt að notast við tóman grautarhausinn, vera í núinu og berast um á bylgjum tíðarandans með því einu að taka túristann á lífið og tilveruna.

Síðasta hálfa árið hefur tilveran snúist um ferðamenn, fyrst með vinnu við hótelbyggingar og svo með flækingi um landið. Það hefur ekki farið fram hjá mér þegar augunum er gjóað á ferðalanga erlendis frá að Ísland er undraland ævintýra, kannski eitthvað sem mann grunaði innst inni en var ekki viss fyrr en útlendingar benda á það.

IMG 1430

Melgresiskollar í Sandey, Djúpivogur undir Búlandstindi með regnbogann upp úr miðjum bæ.

Í sumar hef ég nokkru sinnum gist minn gamla heimabæ Djúpavog. Breytingarnar þar síðustu árin eru svipaðar og gengið hafa yfir Ísland, túrismi. Nú er ekki bara Hótel Framtíð, sem var verbúð fyrir nokkrum áratugum þar sem þreyttir ferðalangar gátu fengið gistingu í neyð, sneisafull af túristum heldur er heimavist skólans komin undir Framtíðina, elliheimilið sem lokað var í kreppunni orðið að gistiheimili og pósthúsið líka. Ferðamenn fylla götur með myndavélarnar á lofti.

Við Matthildur fórum að leita gamalla spora í Sandey sem er landföst utan við Djúpavog. Sporin höfðu afmáðst eins og árin. Þar sem áður var hægt að eigra um einn í sandfjörunum var nú fullt af ferðamönnum. Svartur sandur er víst merkilegt myndefni enda fer þeim stöðum fækkandi þar sem hann ber fyrir augu, meir að segja á Íslandi.

IMG 0685

Eðalsteinarnir láta oft ekki mikið fyrir sér fara en það getur þurft glöggt auga til að finna þá. Þessir steinar lágu allir á sama blettinum fyrir manna fótum þar til glöggt auga tók þá upp og slípaði þessa liti í gráu grjóti. 

Á flækingnum í sumar kom á óvart hvað gróður er farin að breyta ásýnd landsins. Heilu héruðin eru að sökkva í Síberíu lerki, Alaska ösp og meir að segja fjalla víðirinn í Víðidal á fjöllum er að hverfa í Beringspunt. Mýrdalssandur er orðin að Alaskalúpínu akri, Skógasandur er horfin og ekki sést lengur til Skógarfoss frá þjóðveginum vegna trjágróðurs. Ekki einu sinni Mývatnssveit fer varhluta af herlegheitunum, þar má sjá Síberíulerkið teygja sig til himins.

Ef fer sem horfir munu stórir hlutar Íslands breytast innan skamms í skógi vaxna Svíþjóð, þar sem ekkert er að sjá nema tré og útsýnið út um hliðarrúðuna á ferð er eins og að horfa í strikamerki stórmarkaða. Það fer því hver að verða síðastur til að sjá gamla góða Frón sem urð og grjót, nema þá að hamfara gos verði til að bjarga víðáttum auðnanna.

IMG 0714

Margir af gimsteinunum hans Aua eru ekki til sýnis á safninu því þá væri það einfaldlega allt of stórt. 

Sem betur fer eru enn til svartir sandar, urð og grjót við Djúpavog til að gleðja augað. Þar geta ferðamenn fundið fólk sem býður afþreyingu í grjótinu sem þarf svo sem ekki að koma á óvart ef litið er til nágrannastaðarins Stöðvarfjarðar þar sem rúturnar streyma með tug þúsundir ferðamanna til að skoða steina í Steinasafninu hennar Petru heitinnar.

Á Djúpavogi er eitt merkilegasta steinasafn sem ég hef séð, steinasafn Auðuns Baldurssonar. Það fór svo að ég eyddi bróðurpartinum úr degi við að skoða safnið hans Aua, fyrst góða morgunnstund svo með Matthildi eftir hádegi. Það að heyra Aua segja frá því hvernig þeir bræður fundu steinana og komu þeim til byggða eru lífsins ævintýri. Sennilega eru  stærstu bergkristalar sem uppgötvaðir hafa verið á Íslandi í þessu safni.

IMG 0731 

Aui, Auðunn Baldursson við stóra bergkristala í sýningarsalnum sínum. 

Steinasafn Aua á Djúpavogi hefur að geyma gimsteina austfirskrar náttúru. Það sem í fyrstu sýn getur virst grátt grjót en getur haft demant að geyma. Á safninu eru auk stórra bergkristala; amethyst, agat, chalcedon, calcite, opal, jaspis liparit, ofl. ofl. flest úr austfirskri náttúru og mest úr næsta nágrenni Djúpvogs, fjöllunum við Berfjörð og Álftafjörð.

Stærsti Bergkristalinn sem vegur rúm 400 kg fannst í fjöllunum fyrir ofan Kelduskóga við Berufjörð og voru þeir bræður, Auðunn og Brynjar heitinn sem lést langt fyrir aldur fram s.l. haust, tvo daga að draga hann á nokkhverskonar fólksvagen húddloki niður úr fjöllunum án þess að vera búnir að sjá hverskonar gersemar þeir voru með í næstum hálfu tonni af gráu grjóti. En Aui lýsir því listavel hvaða tilfinning gefur innsæi til að vita hvers vegna grár steinn er eftirsóknarverður.

IMG 0722 

Eftir að þeir bræður komu steininum til byggða á húddlokinu var hann fluttur til Reykjavíkur og sagaður í tvennt til að sjá hvað hann hafði að geyma, sem var ekkert annað en hreinn bergkristall í gegn. Þegar steinninn kom aftur á Djúpavog var demanturinn slípaður á heimasmíðuðum pönnum fyrir slípimassa. Þegar slípaðir steinarnir á safninu eru skoðaðir sést inn í aðrar víddir sem helst má líkja við ævintýraveraldir stjörnuhiminsins.  

En nú er að verða komið fyrir mér eins og lesblinda prófessornum sem ætlaði að ferðast þvert yfir Ameríku í sumarfríinu sínu en komst ekki nema yfir í næsta fylki því það var svo margt að skoða í næsta nágrenni. Til stóða að segja frá hringferð um Ísland, en í þessari langloku er ég bara kominn örstuttan spöl á Djúpavog.


Aumingjaskapurinn ríður ekki við einteyming.

Hvernig hrunaliðið launar Færeyingum höfðingskapinn um árið, þegar ráðamenn Íslands voru með drulluna upp á bak, hlýtur að vera umhugsunarefni.

Sem íbúi þessa lands lýsi ég mikilli hryggð með þá lögleysu sem aumingjar hafa sett í nafni íslensku þjóðarinnar.


mbl.is „Skammast mín að vera Íslendingur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launum lambið gráa.

Skora á landann að sýna hrunaliðinu hvar Davíð keypti ölið með því að kaupa Føroya Gull. Sýna Færeyingum ævarandi þakklæti fyrir að vera vinir í raun. Ölgerðin hefur fengið sínar afskriftir hjá hrunaliðinu.
mbl.is Sprenging í sölu á Føroya-Gulli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindunum fleytir fram.

"Sú kona var þar í byggð er Þorbjörg hét. Hún var spákona og var kölluð lítilvölva. Hún hafði átt sér níu systur og voru allar spákonur og var hún ein eftir á lífi.

Það var háttur Þorbjargar á vetrum að hún fór á veislur og buðu menn henni heim, mest þeir er forvitni var á um forlög sín eða árferð. Og með því að Þorkell var þar mestur bóndi þá þótti til hans koma að vita hvenær létta mundi óárani þessu sem yfir stóð. Þorkell býður spákonu þangað og er henni búin góð viðtaka sem siður var til þá er við þess háttar konu skyldi taka. Búið var henni hásæti og lagt undir hægindi. Þar skyldi í vera hænsafiðri.

En er hún kom um kveldið og sá maður er í móti henni var sendur þá var hún svo búin að hún hafði yfir sér tuglamöttul blán og var settur steinum allt í skaut ofan. Hún hafði á hálsi sér glertölur. Hún hafði á höfði lambskinnskofra svartan og við innan kattarskinn hvítt. Staf hafði hún í hendi og var á hnappur. Hann var búinn messingu og settur steinum ofan um hnappinn. Hún hafði um sig hnjóskulinda og var þar á skjóðupungur mikill. Varðveitti hún þar í töfur þau er hún þurfti til fróðleiks að hafa. Hún hafði kálfskinnsskó loðna á fótum og í þvengi langa og sterklega, látúnshnappar miklir á endunum. Hún hafði á höndum sér kattskinnsglófa og voru hvítir innan og loðnir.

En er hún kom inn þótti öllum mönnum skylt að velja henni sæmilegar kveðjur en hún tók því eftir sem henni voru menn skapfelldir til. Tók Þorkell bóndi í hönd vísindakonunni og leiddi hana til þess sætis er henni var búið. Þorkell bað hana þá renna þar augum yfir hjörð og hjú og híbýli. Hún var fámálug um allt.

Borð voru upp tekin um kveldið og er frá því að segja að spákonunni var matbúið. Henni var ger grautur af kiðjamjólk en til matar henni voru búin hjörtu úr alls konar kvikindum þeim sem þar voru til. Hún hafði messingarspón og hníf tannskeftan, tvíhólkaðan af eiri, og var af brotinn oddurinn.

En er borð voru upp tekin gengur Þorkell bóndi fyrir Þorbjörgu og spyr hversu henni virðist þar híbýli eða hættir manna eða hversu fljótlega hann mun þess vís verða er hann hefir spurt eftir og menn vildu vita. Hún kveðst það ekki mundu upp bera fyrr en um morguninn þá er hún hefði sofið þar um nóttina.

En að áliðnum degi var henni veittur sá umbúningur sem hún skyldi til að fremja seiðinn. Bað hún fá sér konur þær sem kynnu fræði það er þyrfti til seiðinn að fremja og Varðlokur heita. En þær konur fundust eigi. Þá var að leitað um bæinn ef nokkur kynni.

Þá svarar Guðríður: "Hvorki er eg fjölkunnig né vísindakona en þó kenndi Halldís fóstra mín mér á Íslandi það fræði er hún kallaði Varðlokur."

Þorbjörg svaraði: "Þá ertu fróðari en eg ætlaði."

Guðríður segir: "Þetta er þess konar fræði og atferli að eg ætla í öngvum atbeina að vera því að eg er kona kristin."

Þorbjörg svarar: "Svo mætti verða að þú yrðir mönnum að liði hér um en þú værir þá kona ekki að verri. En við Þorkel met eg að fá þá hluti hér til er þarf."

Þorkell herðir nú að Guðríði en hún kveðst mundu gera sem hann vildi. Slógu þá konur hring umhverfis en Þorbjörg sat uppi á seiðhjallinum. Kvað Guðríður þá kvæðið svo fagurt og vel að engi þóttist fyrr heyrt hafa með fegri raust kveðið sá er þar var.

Spákona þakkar henni kvæðið. Hún hafði margar náttúrur hingað að sótt og þótti fagurt að heyra það er kveðið var "er áður vildu frá oss snúast og oss öngva hlýðni veita. En mér eru nú margir þeir hlutir auðsýnir er áður var bæði eg og aðrir duldir. En eg kann það að segja að hallæri þetta mun ekki haldast lengur en í vetur og mun batna árangur sem vorar. Sóttarfar það sem lengi hefir legið mun og batna vonum bráðara. En þér Guðríður skal eg launa í hönd liðsinni það sem oss hefir af staðið því að þín forlög eru mér nú öll glöggsæ. Það muntu gjaforð fá hér á Grænlandi er sæmilegast er til þó að þér verði það eigi til langæðar því að vegir þínir liggja út til Íslands og mun þar koma frá þér ættbogi bæði mikill og góður og yfir þínum ættkvíslum mun skína bjartur geisli. Enda far nú vel og heil, dóttir mín."

Síðan gengu menn að vísindakonunni og frétti hver eftir því sem mest forvitni var á. Var hún og góð af frásögnum. Gekk það og lítt í tauma er hún sagði. Þessu næst var komið eftir henni af öðrum bæ og fór hún þá þangað. Þá var sent eftir Þorbirni því að hann vildi eigi heima vera meðan slík heiðni var framin.

Veðrátta batnaði skjótt þegar er vora tók sem Þorbjörg hafði sagt."

Eiríks-saga Rauða 


mbl.is Stóri skjálftinn vegna sigs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ægilegur og undrafríður.

Þar sem aldrei á grjóti gráu
gullin mót sólu hlæja blóm
og ginnhvítar öldur gljúfrin háu
grimmefldum nísta heljar-klóm, 
kveður þú, foss, minn forni vinur,
með fimbulrómi sí og æ;
undir þér bergið sterka stynur
sem strá í nætur-kulda-blæ.  
 
Alltaf er það eins með blessaða íslenska sumarið, það líður svo hratt, áður en varir er nóttin orðin dimm. Undanfarið hefur mátt hafa sig allan við að fanga undrin sem ævinlega koma á óvart með því að vera miklu stórfenglegri en barnsálina minnti.
 
Eftir að hafa varið síðustu þremur sumrum erlendis þá kann maður enn frekar að meta íslenska sumarið. Þó Norður-Noregur sé fagur með sínum háu fjöllum við spegilslétta firði baðaða í hlýrri miðnætursól, þá verður sú fegurð aldrei sambærileg stórbrotnum listaverkum íslenskrar náttúru.
 
Hápunkturinn sem af er þetta sumarið er auðn vindasamra öræfa og gróðursnauð gljúfur. Þó að ég hafi áður farið þessar slóðir eru þær nýjar í hvert sinn. Þar í öndvegi er fossinn sem ekki er hægt að lýsa, aðeins upplifa í djúpri lotningu.
 
Sá sem hefur komið næst því að lýsa fossinum með orðum er Kristján Jónsson, eftir hann eru ljóðlínurnar hér að ofan. Svo magnað þótti ljóð hans "Dettifoss" að hann hlaut nafnbótina Fjallaskáld í hugum íslendinga. 
 
Ljóð Fjallaskáldsins má lesa í heild sinni hér
 
 
 

Þjóðvegurinn, þessi grýtta braut.

IMG 0287

"Það tjáir ekki að neita því, að ægileg ertu, þar sem þú situr eins og ofvöxtur á íslenska landabréfinu, - þenur þig út með yfirlætislegum óravegalengdum um þagnarheima auðnarinnar og skapar með mörgþúsund ferkílómetrum hrauna og sanda óhugarlegt tómarúm hrjóstursins yfir eyjuna okkar hálfa."

Þannig er lýst ömurleika Þingeyjarsýslu og er þetta fyrsta setningin í sögunni sem var aldrei sögð um þjóðlíf í upphafi 20. aldar. Ég ætla ekki fara nánar út í þá sálma hvernig umhorfs var á Íslandi fyrir rúmum 100 árum samkvæmt bók Þorsteins Thorarensen, Gróandi þjóðlíf, heldur segja smá ferðasögu um brot þessa landsvæðis.

Þannig er að ég hef verið í sumarfríi þessa vikuna ásamt Matthildi minni og ákváðum við að láta slag standa með að keyra norður og niður Jökulsárgljúfur, en það ferðalag hefur verið að þvælast um í kollinum á mér í nokkur ár. Við Matthildur erum vön að ferðast án allra skipulagðra plana, því eru ferðalög okkar yfirleitt ekki lengri en dagsferðir. En það að fara upp og niður Jökulsárgljúfur krefst nætursetu ef eitthvað á að sjá annað en grýttan þjóðveginn.

Núna á tímum túrisma, þar sem orðið er gjaldskylt að hafa opin augun á Íslandi, er nánast útilokað að kaupa gistingu sem ekki kostar augun úr. Það hafði komið til tals að taka gamla Atlavíkurtjaldið hennar Matthildar með í þetta ferðalag en þótti ekki álitlegur kostur, enda hafði það síðast verið notað af krökkunum á Bræðslunni fyrir nokkrum árum og þau verið spurð hvort þetta væri tjaldið sem Jim Morrison dó í. Þar að auki voru enn í fersku minni fréttir frá því á góðærisárunum; af því þegar íslendingum með tjöld var meinaður aðgangur að tjaldstæðum vegna þess að þannig landar hlytu að vera ógæfufólk sem stundaði næturbrölt.

Ég hafði stungið upp á því fyrir nokkru að við færum á gamla Kangónum því erlendir ferðamenn þvælast um á svoleiðis bílaleigubílum með áletruninni "happy campers".  Matthildi leist ekki á þessa hugmynd því kassinn á Kangó væri ekki einu sinni eins og einbreitt rúm hvað þá mikið meira en 1.6 m á lengd. En þegar sjötug systir hennar birtist í heimsókn í síðustu viku, á svipuðum bíl með frænku sinni, sem þær notuðu sem gististað, voru engar afsakanir lengur.

Síðasta miðvikudagsmorgunn dröslaði ég yfirdýnunum út í Kangó ásamt fermigasvefnpokunum og við brunuðum á stað með kaffi og heimabökuðu kanilsnúðana. Til að upplifa auðnina í botn ákváðum við að fara gamla þjóðveg 1 um Möðrudal þó vegurinn væri rjúkandi stórgrýti og skoðuðum í leiðinni Skessugarðinn. Þegar við stoppuðum næst við Fjallakaffi í Möðrudal var rútustóð í hlaðinu og túristar á hverjum hól þannig að skyggði á sjálfa fjalladrottninguna, Herðubreið. Eftir að hafa kíkt á glugga í kirkjunni til að berja altaristöfluna augum, sem Jón í Möðrudal málaði um árið af Jesú Kristi að renna sér niður brekku, yfirgáfum við pleisið enda óþarfi að fara í biðröð eftir fjallakaffi með brúsann og kanilsnúðana í Kangónum.

Við áðum um sinn norðan við Biskupsháls. þar tók sig út úr þéttri umferðinni fjallabíll og keyrði að tjörninni sem við höfðum komið okkur fyrir, þarna var á ferð vinafólk frá árum áður sem við höfðum ekki hitt frá því 2008. Það var gaman að eiga kaffispjall um það sem á dagana hafði drifið við litla tjörn í hlýjum öræfavindinum. Eftir þetta stopp var haldið áfram, beygt af þjóðvegi eitt við Jökulsárbrú og stefnan tekin niður þjóðveg 864 við Jökulsána að austanverðu, niður Hólsfjöll.

"þessi andskotans vegur er sama stórgrýtis þvottabrettið og vanalega" kallaði ég til Matthildar; - "sama þvottabrettið og vanalega? eins og þú sért hérna á ferðinni dags daglega og vitir það" kallaði hún á móti. Kangóinn var orðinn fullur af óhljóðum og ryki.

Það er samt svo að ég fór fyrst þessi helvítis Hólsfjalla þvottabretti fyrir rúmum 40 árum til að skoða Dettifoss á sumarferðalagi með foreldrum mínum og hef af og til í gegnum árin þvælst þessa stórgrýttu leið vegna vinnu. Þá hefur nokkru sinnum verið farið að Dettifossi ef einhver hefur verið með í för sem ekki hefur séð hann. Matthildur hafði aldrei  Hólsfjöll farið, ekki einu sinni að Dettifossi og hafði því bara alls ekkert vit á þessu stórgrýti. 

Umferðin var þétt og rykmekkirnir stigu af veginum. Þegar við komum að fossinum voru öll bílastæði yfirfull og engu líkara en útihátíð stæði yfir, ekki um annað að ræða en parkera þétt með kamrinum. Í öll þau skipti sem ég hef áður komið að Dettifossi hefur ekki nokkur hræða verið á staðnum til að trufla andaktina, enda þjóðvegurinn um Hólsfjöll ekki fyrir neina sunnudagsbíltúra. Hvað þarna var margt fólk í stórgrýtinu er ekki gott að áætla en rútur og bílaleigubílar skiptu tugum. Dettifossi er ekki hægt að lýsa ekki einu sinn með ljósmyndum þannig er nú bara það.

Eftir að hafa setið við fossinn til að upplifa hann og séð útlendinga í röðum á öllum klettabrúnum eins og indíána í bíómyndum, héldum við áfram niður gljúfrin og stoppuðum næst við Hafragilsfoss. Eins og við Dettifoss flaug tíminn inn í stórbrotið landslag en þarna var færra fólk á ferð svo jafnvel minnti á gamlan tíma þegar hægt var að leggja metnað sinn í að míga úti. Síðan tók þvottabrettið aftur við niður í Öxarfjörð. Þar hafði sjoppan og tjaldstæðið við Ásbyrgi verið sprengd í loft upp með fólki þannig að ekki yrði þar hafður næturstaður.

Ásbyrgi verður seint lýst betur en að hætti þeirra sem fyrst það sáu; hóffar Sleipnis hests Óðins. Hvernig fornmenn sáu hóffarið án þess að hafa yfir flugvélum og þyrlum að ráða sem nú á tímum má sjá sveima með ferðamenn yfir Jökulsárgljúfrum, er mér hulin ráðgáta. Þó að ég hafi nokkrum sinnum komið í Ásbyrgi þá get ég ekki lýst því með öðrum orðum en þangað verður fólk að koma sem vill fá nasasjón af Íslandi.

Við keyrðum því næst upp niðurgrafinn moldarslóða sem telst vera þjóðvegur 862 vestan við Jökulsána, í Vesturdal þar sem er tjaldstæði. Þar voru þjóðgarðsverðir gengnir til náða þegar við komum, en pláss fyrir Kangó. Eftir að hafa rölt um nágrennið, sem við ákváðum að skoða betur fyrir allar aldir næsta morgunn, var næturgistingin gerð klár. Snemma, fyrir hefðbundnar túristaferðir voru klettaborgir skoðaðar sem við héldum að væru Hljóðaklettar en var með skilti sem vísaði á Eyjuna. Þegar við höfðum gert upp við þjóðgarðsvörð ákváðum við að renna niður bílslóða sem lá að Jökulsánni ef þar væri meira að sjá áður en við héldum aftur út á moldarslóða 862.

Þessi krókur var gulls ígildi því þarna voru þá þessir Hljóðaklettar, WOW og ég meina það. Inn á milli þessara stuðlabergs spírala, sem vófu sig tugi metra upp í himininn, gengum við dáleidd á meðan morgunnsólin bræddi hvert ský. Þó svo að ég hafi séð margar myndir úr Hljóðaklettum hef ég aldrei haft ímyndunarafl sem hefur náð hálfa leið utan um herlegheitin. Það að svona undur hafi getað orðið til á því sem næst augnabliks eldgosi og það að Jökulsárgljúfur hafi orðið til í hamfarahlaupi úr Vatnajökli sem sópaði jarðveginum frá þessum skúlptúrum, er einfaldlega meira en nokkur tíma hefur verið hægt að koma fyrir í öllum hamfaramyndum ljósvakans. 

Eftir að hafa eigrað um óendanlegar klettaborgirnar var stefnan tekin í suður og því sleppt að ganga um Rauðhólana enda fæturnir búnir og WOW-ið farið að lækka raddstyrkinn. En ekki tóku minni undur við í rykmekki umferðarinnar, við Hólmatungur tóku ský að hlaðast í loftið. Þegar við komum að Dettifossi að vestan voru komnar skúrir sem maður skilur hversvegna eru kallaðar "showers" á ensku. Fyrir túristana, sem voru hálfu fleiri við Dettifoss að vestan en austan daginn áður, var búið að koma fyrir kamraborgum frá gámaþjónustunni á malbikuðum bílastæðunum því þessir venjulegu náðhús voru með löngum biðröðum við hverjar dyr. Þrumuguðinn ræskti sig á himninum um leið og hann skolaði rykið af ferðamönnunum með sturtum. Síðan braust sólin í gegnum skýin með sólstöfum og regnbogum.

Það stefndi allt í að við yrðum dagþrota einn daginn enn eftir að hafa skoðað Dettifoss að vestan, þó ákváðum við að brenna vestur í Námaskarð áður en stefnan yrði tekin austur. Enda hver að verða síðastur til að fara þar um með opin augun án þess að vera rukkaður sérstaklega, og kannski bara hundaheppni að lögbann hafi verið sett á innheimtuaðgerðir svokallaðra landeigenda, gegn 40 milljón króna tryggingu s.l. mánudag. Ég sem hélt að tryggingin hefði verið fyrir posanum einum saman, en sá þegar ég kom á svæðið að einnig hafði verið kostað til uppsetningar á sjálvirku rúlluhliði svipað og tekur á móti aðgangsmiðum á lestarstöðvum.

Landslaginu sem gefur að líta í Þingeyjarsýslu verður sennilega ekki lýst með betri orðum en Þorsteins Thorarensen í upphafi þessa pistils. En ólík er sýnin þá og nú á það hvað "gróandi mannlíf" merkir. Það sem talið var standa fyrir þrifum sem ömurlegur ljótleikinn einn er nú orðið að söluvöru sem útlendingar leggja á sig að upplifa þrátt fyrir storm, slyddu og él, auk þess að bryðja ómælt ryk á skemmtiferð sinni yfir þvottabrettið. Svo mögnuð er þessi söluvara að sjálfsagt þykir orðið að afkomendur þeirra sem þoldu fyrr alda hörmungar greiði fyrir að hafa augun opin í eigin landi.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband