Færsluflokkur: Dægurmál

Fasistafraukurnar herða hreðjatökin – og fólk á ekki eitt einasta orð

það má vera öllum ljóst að sami svika leikurinn er leikin af valkyrjunum og dúkkulísunum þegar sýslumenn eru annars vegar. Íslandi skal komið til andskotans hvað sem það kostar. Þessar sprengjudúkkur leika leikinn fyrir flugumenn stjórnsýslunnar sem eru ákveðnir í að koma landinu bláa undir unionið.

Samkoman á alþingi er því miður öll eins og hún leggur sig orðin að samsafni ógæfufólks sem virðist hafa selt sál sína. Umræðan sem viðruð er af almenningi virðist komin í sama farveg. Opinberlega segir engin neitt gegn óskapnaðinum þó hvíslað sé um landráð djöfuls snillinga á tveggja manna tali úti í bæ.

Stjórnmál eru orðin aumkunarverð samsuða stjórnmálaflokka sem eru allir orðnir opinberar stofnanir á fjárlögum ríkisins, og sama á við fjölmiðlana. Engin kemur fram með það sem skiptir mestu máli. Þá staðreynd að það þarf að segja upp EES samningnum, ganga úr NATO og hætta í Schengen.

Umræðan á samfélagsmiðlum er í boði þóknanlegra, sem raða sér t.d. upp hér á blogginu og tyggja daglega upp hver eftir öðrum andstöðu sína við bókun 35 án þess að minnast nokkurntíma á það sem skiptir mestu máli, -að það þarf að segja upp EES samningnum.

Þetta er aðferðafræði sem ekki bara stelur umræðunni, -hún drepur hana. Fólk er orðið hundleitt á því að þurfa að setja sig inn í pólitískar lagaflækjur til að taka afstöðu með eða móti kostum sem engan heilla, og allir eru afleitir. Eins og þjóðskáldið þá er komið svo að venjulegt fólk á ekki eitt einasta orð.

 


Þeir í suðrinu segja að í helvíti sé góður félagsskapur


Hrak

Ég segist stundum varla komast yfir götu nú orðið, en þess á milli tala ég um að ganga á fjöll. Það er varla í frásögur færandi en núna í vikunni fór ég upp í Fljótsdal í Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, -keyrandi auðvitað eins og flestra minna ferða.

Fljótsdælingar, -í einu ríkasta sveitarfélag á landsins vegna Kárahnjúkanna, -eru nú komnir með myndavélar á súlustanda a, la ISAVIA til að rukka vegfarendur, ef keyrt er fram hjá þeim að Hengifossi sem er utan þjóðgarðs. -Þeir hyggjast einnig reisa vindmyllur í samstarfi við danska félagið Copenhagen Infrastructure Partners í nágrenni þjóðgarðsins og myndavélanna.

Bílastæði, salerni, göngustígar og allt sem er innan foto zone er gert fyrir almannafé, svokallaða skattpeninga. Nú sitja Fljótsdælingar mest megnis keikir upp til hópa og reikna, -eða þá reita sinu, meðan beðið er eftir pening úr camerunum. -Vini mína í Fljótsdal vantar ekki hyggjuvitið þó margt annað virðist hafa farið úrskeiðis á milli eyrnanna.

Þessi ökuferð mín var 24 stiga heita daginn núna í vikunni, daginn fyrir 26 stiga daginn. Það þurfti að klára smá viðgerð í kjallara Gestastofu hússins. Þegar ég kom var miði við innganginn sem sagði að opnunartíminn væri frá 10 – 16 límdur við hliðina á vönduðu gluggaskrauti um opnunartíma stofnunarinnar.

Þetta skiptir náttúrulega engu máli því þarna kemur varla hræða til að skoða uppstoppaða hreindýrið meðan má sjá þau lifandi út um bílgluggana eins og vinnufélagi minn er vanur að sega, -og gæsina ekki gleyma henni bæti ég þá vanalega við, já og tófuna segir þá einhver annar. -Þannig að mér gafst tími til að keyra inn að Gunnarshúsi skálds á Klaustri.

Þar lagði ég og labbaði yfir götuna niður á tún til að skoða klausturuppgröftinn, en þangað hafði ég komið áður en þá allur tíminn farið í að finna leiðið hans Jóns Hrak og farist fyrir að rangla um ganga klaustursins sem er talið hafa verið byggt árið 1500.

Þetta klaustur var ekki lengi við lýði því eftir siðaskiptin lokuðu Danir klaustrum á landinu bláa og stálu öllu steini léttara. Svo rækilega var Skriðuklaustur rænt að Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur fann enga silfurmuni fyrir utan eitt lítið Maríulíkneski á Englandi sem hafði verið falið í fjósvegg.

Steinunn komst svo að því seinna að megnið af Íslandssilfrinu, sem klaustrin höfðu verið full af hafði verið flutt til Danmerkur upp úr siðaskiptunum, og telur ekki ólíklegt að Rósenborgarhallar ljónin séu steypt úr bræddu Íslandasilfri. -Varla nema von að valkyrjurnar vilji gera fraukuna Fredriksen að málsvara Íslands þegar skattpeningar eru annars vegar.

Ég ranglaði um klaustrið og kom við hjá Jóni kolleika mínum Hrak áður en ég skakklappaðist laf móður standandi á öndinni upp í móti yfir götuna aftur og upp í bíl til að keyra út í Vatnajökulsþjóðgarðsgestastofuna.

Þar var búið að taka sjálfrennihurðina úr lás en engin samt innandyra, ekki einu sinni í afgreiðslunni, hvað þá á klósettinu og allar skrifstofur tómar. Uppstoppaða hreindýrið var náttúrlega á sínum stað en ég sá hvorki gæsina né tófuna, kannski hefur tófan verið búin að éta gæsina og látið sig hverfa. -Ég endaði á að fara niður í kjallara en þar voru holurnar sem átti eftir að steypa uppí.

Í kjallaranum hitti ég tvær undrandi stúlkur við störf, sem spurðu mig hvort það hefði nokkur verið á ferðinni uppi: -Nei, -sagði ég; -áttuð þið von á því. -Ég kláraði að steypa í holurnar og fann svo stúlkurnar til að kveðja þær þar sem þær voru í sólinni utan við hús að reita sinu.

En um Jón Hrak stendur þetta á standi við legsteininn hans rétt utan við gömlu klausturkirkjuna.

Aðeins einn legsteinn er sýnilegur í kirkjugarðinum. Í hann eru greipt orðin JÓN HRAK. Um Jón þennan eru til sagnir víða um land en það er gömul trú að hann hvíli í kirkjugarði klaustursins á Skriðu. Hann var flækingur og sagt er að hann hafi verið grafin út og suður, öfugt við það sem venja er. Stephan G Stephansson orti fagurt kvæði um Jón Hrak og lét hlaða upp leiðið hans um 1920. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri bætti svo um betur og gaf legstein yfir Jón um miðja síðustu öld. Um Jón Hrak er til þjóðvísa sem margir kunna.

Kalt er við kór bak

kúrir þar Jón Hrak

Ýtar snúa austur og vestur

allir nema Jón Hrak


Þrjár nafnkunnar konur

Einu sinni fyrir langa löngu var ung stúlka á Sótastöðum frekar en Víðidal, sem átti í vinfengi við karlmann í Möðrudal. Segja sumir, að það væri sjálfur presturinn. Stúlkan hét Guðrún. Hún átti af greindum ástæðum tíðförult í Möðrudal. Í einni slíkri ferð varð hún úti. Fannst lík hennar í skútanum undir klöppinni í Vegaskarðinu. Hefur klöppin borðið nafn stúlkunnar síðan.

Í Víðidalsfjöllum, á leiðinni milli Möðrudals og Víðidals, er skarð, sem nefnist Vegaskarð. Þar kemur fram í skriðunni, í hlíðinni öðru megin skarðsins, klöpp, klofin og skúti inn undir; heitir hún Gunnuklöpp. Um nafn hennar er þessi saga.(Sögn Jóns A Stefánssonar / Þættir úr sögu Möðrudals á Efra-fjalli bls 86)

 

Einu sinni var ófrískri konu sem Halla hét neitað um gistingu á bæ í Reyðarfirði eystra. Hún fór þá um Oddskarð til Norðfjarðar. En á leiðinni ól hún barnið við stóran stein neðan við tvær brekkur. tók hún af sér fötin til að hlúa að barninu en króknaði þá. Ferðamenn röktu blóðslóðina eftir hana að steininum og fundu hana látna. Barnið dó skömmu síðar. Eftir það heita brekkurnar Blóðbrekkur og steinninn Höllusteinn. (Sigfús Sigfússon. Íslenskar þjóðsögur og sagnir)

Blóðbrekkur eru ofarlega í Oddsdal við gamla veginn niður úr Oddskarði til Norðfjarðar.

 

Meðfram þjóðveginum rétt utan við Hvítá á hægri hönd þegar farið er inn eftir, er fremur lágt klettabelti. Yst í því er Þuruskúti. Sagan segir að kona, Þura að nafni, hafi orðið þar úti eftir að hafa alið barn í skútanum. Henni hafði verið úthýst í Urðarteigi. (Aðalheimildarmaður þessarar örnefnalýsingar er Lilja Skúladóttir, fædd í Urðarteigi 1932 og þar uppalin og hefur auk þess dvalið þar lengst af. Skrásett af Nönnu Guðmundsdóttir 1973)

Þuruskúti er nefndur svo af því, að þar fannst dáin kona og barn nýfætt, líka dáið. Hafði verið vísað frá Urðarteigi nokkrum kvöldum áður, en þá alveg komin að fjölgun það kvöld. Þetta var í gamladaga og sorglegt mjög. (Bergsveinn Skúlason 1842-1939 bóndi í Urðarteigi)

Þuruskúti er við þjóðveg eitt í sunnanverðum Berufirði.


Lagarfljótsormurinn og Hringur

IMG_5662 (1)

Þegar dagarnir voru hvað dimmastir í vetur hafði blaðamaður samband við mig út af Lagarfljótsorminum. Hann spurði mig hvort ég og félagi minn værum tilbúnir til að segja opinberlega frá tilveru hans, en honum hafði verið sagt að fáir vissu betur hvernig hann hefði orðið til á kaupfélagsveggnum.

Mig grunaði strax að hann hefði heyrt úti í bæ, að við félagarnir hefðum sagt að ekki væri allt með felldu í 100 ára sögu Kaupfélags Héraðsbúa, -og þar með orminn á kaupfélagsveggnum. Félagi minn hefur sagt að flest í þeirri bók sé lygi.

Það kom til þegar ég spurði hann á kaffistofunni á okkar vinnustað hvers vegna engin mynd væri af honum í 100 ára afmælisbók Kaupfélags Héraðsbúa, -manns sem unnið hefði hjá kaupfélaginu frá 12 ára aldri fram undir fimmtugt, eða allt þar til að það fór á hausinn í hinu svokallaða hruni.

Kaupfélag Héraðsbúa fór reyndar ekki í gjaldþrot, svo því sé haldið til haga, rekstur þess var yfirtekin af Samkaup og N1. Það þótti smekklegra að láta sem svo að kaupfélagið hefði verið lagt niður á 100 ára afmælinu, -sett ofaní í skúffu sem á engan samastað lengur.

Félagi minn sagði að honum hefði ekki komið til hugar að láta þá sem  með lygina fóru hafa myndir og sagðist hafa harðbannað þeim að birta myndir af sér í þessu afmælisriti sem kom út eftir öll ósköpin sem gengu yfir Ísland.

Ég tók undir með honum að ekki væri allt rétt í bókinni. Þó að mætti greina mig á mynd, væri hvergi á mig minnst, ekki einu sinni varðandi orminn hans Hrings. Þó gerð væru skil á í bókinni hvaða pollar að því grjótkasti komu, mig minnti það vera aðrir pollar og ef ekki væri um misminni að ræða þá væri sá kafli allavega ekki alveg sannleikanum samkvæmur.

 

IMG_0146

 

Þannig að einn morgunninn i svartasta skammdeginu hafði ég afmælisritið með mér í vinnuna og lagði á kaffistofuborðið fyrir framan félaga minn. Hann sagði: -Hvað á ég eð gera við þetta, ég hef einu sinni opnað þessa bók því mér var gefin hún svo ég kunni ekki við annað, en það breytir ekki því að þar sem ég opnaði hana var logið svo ég lokaði henni og ætla ekki opna aftur.

Ég sagði honum að nú gæfist okkur tækifæri á að leiðrétta smá villu, hvort hann væri ekki til í það að koma með mér til rannsóknablaðamanns. Eftir að hafa sagt honum um hvað málið snérist sagði hann að það kæmi ekki til greina því hann hefði ekki komið nálægt þessum Lagarfljótsormi.

Nú hverjir voru það þá; -hváði ég. - það varst þú og bróðir bakarans sem mulduð í hann gjótið;  -sagði félagi minn. - Hvað hét hann; -spurði ég illa þjáður af elliglöpum, -mig minnti að það hefði verið sonur bakarans. - Nei; -sagði félagi minn, -það var bróðir hans hann var bara svo miklu yngri en bakarinn að það héldu margir að hann væri sonur hans. 

- Og hvað hét hann; -þráspurði ég alveg blankur á milli eyrnanna. - Hann hét ábyggilega það sama og frændi þinn í Ástralíu. - Helgi. - Já heitir hann Helgi, nei veistu ég man bara ekki hvað hann hét, en hann kom hingað austur eitt sumar úr Reykjavík og fékk vinnu eins og margir aðrir pollar hjá Völundi í trésmiðju kaupfélagsins.

Ég hafði svo samband við Hrólf Gunnlaugsson kolleika minn í steypunni, sem er fyrir löngu hættur að steypa, og spurði hann hvort hann myndi eitthvað eftir orminum hans Hrings á kaupfélagsveggnum. Því mig minnti að við hefðum einhvertíma talað um þetta kolleikarnir með Braga heitnum Guðjónssyni. Hvort það gæti verið að Bragi hafi múrað orminn upp á kaupfélagsvegginn með Hring. -Nei það var ég; -sagði Hrólfur.

Með þetta fór ég til blaðamanns Austurgluggans og útkoman fór út um þúfur eins vænta mátti og má sjá hér.

Annars set ég þetta hér inn í tilefni sumardagsins fyrsta, til minningar um bræðurna frá Haga í Aðaldal, þá Hring og Völund Jóhannessyni, sannkallaða vormenn Íslands síðustu aldar, sem víluðu ekki fyrir sér að taka með sér pottorma til stórvirkja þó þeir væru varla vaxnir upp úr grjótkastinu.

Um leið óska ég lesendum gleðilegs sumars.

IMG_0143 

 


Maríuerlan mætt - Lítið til fugla himinsins

Það er getur verið snúið fyrir okkur mannskepnurnar að sjá að við stöndum málleysingunum langt að baki í því að skynja orku náttúru og umhverfis. Lítil fluga sem vaknar að vori er jafnvel okkur mannfólkinu fremri þegar þar að kemur. Þessu veldur hinn heilagi hagvöxtur sem enginn skilur lengur frekar en stöðugleika stríðsæstra stjórnvalda.

Já það hefur verið að læðast að vorið. Maríuerlan fyrir nokkru mætt frá V-Afríku á svalirnar mínar, komin í múslíið eftir að flugurnar lögðust aftur í dvala páskahretsins sem mætti samviskulega á pálmasunnudag. Heiðloftin höfðu fært Héraðinu 17 stiga hita og farfugla dögum saman. Þá datt niður tuga sentímetra snjór sem ekki hefur vikið í meira en viku.

Snjórinn fær samt ekki þrifist til lengdar úr þessu frekar en hagvöxturinn, -nema þá á neytendunum. Þess vegna er snjór varla til í hagtölum frekar en fólk, nema hann komi úr snjóframleiðslu vélum skíðasvæðanna.

Til að búa til hagvaxna neytendur er aftur á móti miklu til kostað, við að nýta ekki orkuna sem dags daglega er í kringum okkur, þess í stað er níðst á svokölluðum orkuauðlindum til að koma þeim í tæki og eyðilögð um leið eftirvænting mannfólksins og orka jarðar.

Það fær ekki nokkur manneskja, sem inn í þennan heim kemur, -að vera lengur með sjálfri sér nema rétt á meðan hún er ómálga brjóstmylkingur og svo aftur þegar hún er komin þar sem kallað er út úr heiminum fyrir aldurs sakir.

Um leið og barnið lærir einföldustu orð á við mamma, þá er barnið sett í hagvaxtar hakkavélina því það skal ekki nokkur manneskja fá að fæðast inn í þennan heim án þess að borga fyrir það, ekki bara með lífinu, -heldur skal hún vera upptekin við að trekkja áfram hagvöxtinn frá vöggu til grafar.

það kæmi ekki nokkrum farfugli til hugar að hafa greiðslukort á sér til að greiða fyrir það að vera til, ímyndaðu þér ef maríuerlurnar færðu ekki ófleygum ungungum flugu í hreiðrið nema á milli kl 12-13 á meðan þeir væru í þjálfun við að grafa holu fyrir hagvöxtinn áður en flogið er úr hreiðrinu.

Já við mannfólkið virðumst standa fuglum himins langt að baki þegar kemur að því að nýta okkur orku umhverfisins og uppeldi unganna okkur til yndisauka. Þó svo að maður geti hagvaxtarins vegna gaukað nokkrum múslí fræjum að maríuerlunni á þessum síðustu og verstu eftir langferð hennar frá Afríku.


Heilagir hundar, perlur og svín

Þeir geta verið margir og misjafnir vinirnir á facebook, kannski sem betur fer, en sumir eiga það til að deila þar hreinum gersemum. Svo er með Seyðfirðinginn og Þórshafnarbúann Jón Gunnþórsson, -frænda minn.

Ég hef þekkt Jón frá því ég man eftir mér, og hitt hann af og til á förnum vegi í gegnum tíðina og ef það hefur verið á hans heimaslóð hefur hann boðið í kaffi og kökur.

Eftir að hafa unnið við drunur stórvirkra vinnuvéla mest allt sitt líf, færir Jón okkur nú hugljúfar gersemar á hverjum disknum af öðrum.

Nú dælir hann út perlum úr harmonikkunni sinni á samfélagsmiðlum, okkur hinum til yndisauka, -hér fyrir neðan er ein við ljóð Guðmundar Böðvarssonar.

 


Örvænting Trumps


Geldar gæsir

Það hefur verið unnið markvisst að því s.l. 20-30 ár að brjóta niður hina svokölluðu vísitölu fjölskyldu síðustu aldar, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Og valkyrjurnar herða róðurinn með  afnámi samsköttunar.

Nú stendur til að afnema samvinnu hjóna um verkaskiptingu, einungis vegna þess að þetta lið, -sem einskís aflar, -skilur hana ekki, -hefur aldrei verið í þeim reynsluheimi. Um leið verður fjárhag margra heimila rústað með tilheyrandi upplausn fjölskyldunnar.

Það má ætla sem svo að stjórnsýslan sé orðin það einræktuð, að þar sé engin lengur innanborðs sem hafa mígið i saltan sjó, eða hefur nokkurn snefil af á hverju fólk í þessu landi lifir, -fólkið sem hefur í gegnum tíðina haldið fáviskufabrikkum stjórnsýslunnar gangandi.


mbl.is „Þetta er einfaldlega skattahækkun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kanarífuglinn í kolanámunni

Man einhver eftir hinu svo kallaða hruni og kanarífuglinum í kolanámunni, -aðdragandanum og eftirköstunum? -Nei, það gerir gullfiskaminnið.

Ef svo væri þá vissi almenningur hvað víxlurunum fyrir vestan gengur til með því að rústa hinum svo kallaða hagvexti með ofurtollum.

Bandaríkin og auðrónarnir þar skulda stjarnfræðilegar upphæðir, eru því sem næst gjaldþrota. En til allrar lukku þá eru skuldirnar í dollurum.

Dollarinn er illa laskaður eftir ævintýri BRICKS landanna sem hófu viðskipti sín á milli í vöruskiptum eða með eigin gjaldmiðlum. Petró dollarinn er ekki á neinum sérstökum stalli lengur, ekki frekar en fatalausi keisarinn.

Það er stundum sagt að hin og þessi lönd séu notuð til að gera tilraunir með hvernig hitt og þetta virkar. Ísrael t.d. þegar kemur að öfga öryggisgæslu á við gettóið á Gaza. -Já einmitt, -álfarnir á Íslandi þegar kemur að öfga fjármálaverkfræði á við verðtryggðu húsnæðislánin. -Og þegar við fengum flatskjáina, -manstu.

En hvað kemur þetta hinu svo kallaða hruni við og kanarífuglinum í kolanámunni?

Í hinu svo kallaða hruni var stóra vandamálið Jöklabréfin, -snjóhengjan, -manstu. Með því að dumpa krónunni setja bankana á hausinn og flytja óvefengjanlegar skuldir óreiðumann yfir á almenning hvarf vandamálið, og kanarí fuglinn í kolanámunni flaug frá Íslandi, -hafði lokið sínu hlutverki á landinu bláa.

Auðvitað voru auðrónarnir búnir að fljúga sínum krónum áður aflands á háa genginu. -Jöklabréfin voru skuldir í íslenskum krónum. -Skuldir Bandaríkjanna eru í dollurum, að mestu í erlendri eigu,  -t.d. ofurtollaða kallsins í Kína.


mbl.is Óvinsældir Trumps aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband