Færsluflokkur: Dægurmál

Friðþæging

Á meðan mennskan

speglar sig í blóðabaði barnanna

sem birtist í mósku daganna

á flatskjá staðreynda

varðveitum við mennskuna

með yfirgangi orðanna 

– í dómgreindum kærleika

- - og með því að lúta höfði

í hinni skinhelgu bæn

– anginn litli anginn minn

ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn

 

Hafi sú hugmynd kviknað í höfði einhvers að þessi orðhengilsháttur hefði eitthvað með keppnis að gera þá er það misskilningur, þetta er sett hér inn á síðuna sem firðþæging í vonleysi andleysis.

Mín upplifun af landinu helga er sú að þar eigi ég mörgum gott upp að unna. Um veru mína þar setti ég inn örstuttan pistil fyrir tæpum þrem árum síðan, með tengli á annan sjö sekúndur, sem má lesa hér


Út í hött

Þjóðarsáttin hefur verið að lauma sér í heimabankann undanfarið, -eins og þjófur á nóttu. Bifreiðagjöldin hækkuðu um 20% á milli ára og brunatryggingin hækkar um 12,5%. Nú er beðið í spenningi eftir að fasteignagjöldin laumist inn eins og hver annar gáttaóþefur

Hvern munar um fimmþúsundkall hér og fimmþúsundkall þar? -eins og litla lukkudýrið benti flissandi á í fjölmiðlum fyrir skemmstu. Allavega ekki sjálftöku liðinu sem í körum heljar hvílir allan ársins hring, -nema rétt á meðan gefið er á garðann.

Nú var það helst að skilja á þeim hluta hjarðarinnar sem situr vaktina með hendur í skauti ásamt sjálftökuliðinu, -að þau væru tilbúin til að semja um 2,5% þjóðarsátt til handa þeim sem draga vagninn.

það væri svo ofboðslega mikilvægt að ná vöxtunum niður, sem Why Iceland viðundrin á Svörtuloftum hafa verið hækka flugið á undanfarin tvö ár svo mylja megi þakið ofan af landsmönnum. Því þá færi verðbólgan niður líka og hægt að blása í blöðruna upp á nýtt.

Ég segi nú ekki annað en farið hefur fé betra.


Jarðeldar

Það var auðvelt að gera sér í hugarlund hvers vegna orðið jarðeldar er notað yfir eldsumbrot þegar sást hvernig sprungan við byggðina í Grindavík opnaðist. Hvað sem má segja um gagnsemi varnargarðanna við Grindavík þá er það nokkuð ljóst að sérfræðingar geta aðeins giskað á hvoru megin við þá jarðeldarnir verða og sagt að um gott gisk hafi verið að ræða í gær.

Það á samt eftir að koma í ljós hversu mikið tjón á eignum verður vegna þess að hitavatnslögnin fór af bænum, auk þess sem hann er rafmagnslaus, og nú frost framundan sem gæti haft slæmar afleiðingar fyrir húsnæði. Greinilegt var að varnargarðarnir stýrðu hraunrennslinu á hitavatnslögnin við Grindarvíkurveg og má segja að það hafi ekki verið gott gisk.

Jarðeldarnir við Grindavík eru þó aðeins smámunir miðað við það sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða, og er hætt er við að hamfarir í smáskömmtun geti haft verri áhrif á líf fólks, sem á allt sitt undir, en eitt og eitt gott gisk sérfræðinga. -Guð veri með Grindvíkingum.

Skaftáeldar árið 1783 eru einhverjir mestu jarðeldar sem orðið hafa á Íslandi og jafnvel í heiminum á sögulegum tíma. Gossprungan var tugir kílómetra á lengd og er gígaröð Lakagíga hátt í 30 kílómetrar. Til viðmiðunar hafa eldumbrotin á Reykjanesi einungis verið smágos fram undir þetta, jafnvel talin túristagos fram að tveimur síðustu.

Nýlega las ég ævisögu Jóns Steingrímssonar eldklerks, sem aldrei var ætluð til útgáfu, en Jón skrifaði dagbók á tímum Skaftárelda sem er einhver merkilegasta heimild sem til er um hamfaraeldgos á Íslandi. Jón notar talsvert pláss í eldriti sínu í að verja sjálfan sig því hann var ásakaður um að fara illa með opinbert fé sem ætlað var til hjálpar íbúum í Skaftárhreppi. Hann vandar yfirvöldum og sérfræðingunum þess tíma ekki kveðjurnar varðandi hjálparstarfið, -hann segir:

Þetta sama sumar (1784) reistu hingað til yfirskoðunar kammerherra og þar á eftir stiftamtmaður yfir landinu Hans Levetzow og herra Magnús Ólafsson Stephensen, skoðuðu hér jarðir og land, og fengu þær afspurnir um eldinn og hans verkanir, sem þeir þá kunnu að fá af þeim fáeinum, er hér voru til staðar, og urðu því miður margar óljósar. Þar eftir það sama sumar komu hingað fjórum sinnum befalingar, að skrifa upp tölu á mannfólki og skepnum, hvað margt af hverju væri dautt eða lifandi, sem þó aldrei gat orðið skiljanlegt eða afstemmandi, þar sem fólk var að flytja sig til og frá og sumir að deyja. Það nú lifði þessa viku, var dautt eða burt farið hina. Af þessu rugli varð síðast höfuð-botnleysa til engrar nytsemdar.

Ég tók saman pistil, sem kallaður var hér á síðunni Sautjánhundruð og súrkál; þegar dansinn dó, um hverskonar hamfarir Skaftáreldar voru, eitt mesta hallæri sem orðið hefur á Íslandi, og birti ritsmiðina þegar fyrsta túrista gosið var í Geldingadölum 2021. Sjá hér


Stríð á Norðurlöndum

Ameríski kraninn er sjálfsagt ekki ósvipaður þeim Evrópska enda er umræða Vesturlanda hönnuð af sama rétttrúnaði. Redacted greinendur benda þó á að ekki kemur fram í fjölmiðlum Vesturlanda að það er verið að klappa upp stríð á Norðurlöndum, og rétt eins og Úkraína verði þau látin sjá um sig sjálf þegar til kastanna kemur.

Greinendur Redacted eru Natali og Clayton Morris fyrrverandi fréttafélagi Tucker Carlson. Ekki er það svo að ég fylgist svo vel með heimsmálunum frekar en annarri Medíu, -sjónvarps og símalaus maðurinn. En ég er í góðu sambandi við vini mína og einn af þeim sem ég hef þekkt frá því ég man fyrst eftir mér býr í Ástralíu.

Þessi vinur minn fylgist með yfirhylmingu heimsmálanna og hefur sent mér í gegnum tíðina tíðindi af því sem er í vændum, en hvergi minnst á s.s af hruninu 2008 þar sem nákvæmlega var greint frá að smáríki eða borg yrðu sett á hausinn fyrstu vikuna í október 2008 þetta væri fyrirfram planað. Eins og kannski einhver man þá varð smáríkið Ísland.

Fyrir nokkrum dögum töluðum við saman á skype sem við gerum reglulega. Ég sagði vini mínu að ég hefði á tilfinningunni að það yrðu Norðurlönd, og fólk af okkar uppruna sem fengi að finna fyrir stríðsofsóknum fljótlega. Í morgunn sendi vinur minn mér þessa klippu frá greiningatíminu á Redacted. En auðvitað er ekkert um þetta hvorki á mainstream né mbl.


mbl.is Trump: Ef Evrópa sætir árás munum við ekki hjálpa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mennskan

Mig dreymdi undarlegan draum í ársbyrjun, þar sem ég var kominn fótgangandi niður á Reyðarfjörð. Eftir að hafa beygt fyrir Grænafellið blasti fjörðurinn við í allri sinni dýrð og það merkilega var að þar voru engin mannanna verk  lengur sjáanleg. Fjörðurinn spegilslettur og fagur, skriður, melar og hæðir vaxið grámosa.

Mér fannst ég þurfa að taka mynd af þessu því svona væri þetta ekki á hverjum degi og þarna sæi ég landið án áhrifa mannsins. En uppgötvaði þá að ég var ekki með myndavélina með mér, þannig að ég snéri við og ætlaði til baka að sækja hana.

Þegar ég byrjaði að ganga til baka fór jörðin að gliðna, svipað og hraun sem flýtur hægt fram hálfstorkið. Það var samt ekki rauð glóð sem ég sá í sprungunum í gegnum mosann og milli steina, heldur sá ég þar undir allt fullt náhvítum beinum dýra.

Mér datt í hug á meðan jörðin var að gliðna og opnast undir mér að ég hefði gengið út á gamla miltisbrands eða riðuveiki gröf. Ég ákvað því að forða mér upp í skriðuna áður en ég lenti ofan í sprungu og niður á milli beina hrúgnanna.

Ég reyndi að komast til baka í fjallshlíðinni og ætlaði aftur upp Fagradalinn. En ég rann stöðugt niður á lausum steinum í skriðunni í áttina að undirlendinu sem var alltaf að gliðna meira og meira. Þarna spólaði ég hraðar og hraðar á sama stað.

Ég hef verið reyna að átta mig á hvað þessi draumur merkir en hef ekki komist að niðurstöðu. Kannski er hann tíðarandans, þ.e.a.s. að það sé engin auðveld leið til baka þegar síðasti bærinn verður horfinn úr dalnum. Þá verði jafnvel of seint  að ná sviðsmynd í spálíkan fyrir gervigreind.


Skæklatog og hringavitleysa

Nú gnístir gamli nábítur saman gómunum þegar flestir voru hættir að trúa á glamrið í fölsku tönnunum, og til að andlitið falli ekki alveg saman á riðuskurðar skotta fylgja fordæmi djöfuls snillinga.

Tilkynna afsögn með tilþrifum og síðan ~ voilà ~ og upp úr hagsmuna hattinum skapast sátt um að bingóið haldi áfram. Skítt með skaða galtóms ríkissjóð það má alltaf finna fórnarlömb fyrir honum.

Nei má ég þá heldur biðja um ~ ciao ~ Þegar ábyrgð óstjórnarinnar samanstendur orðið af lögbrjótum, afglöpum og flissandi fábjánum svo ekki sé nú orði hallað á allar dúkkulísurnar.


mbl.is Stjórnin í hættu nema Svandís skipti um stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérfræðingaveldið

Þá er sendiherra dóttirin komin í gapastokkinn, -þó svo fyrr hefði verið. En sjálfsagt gapir hún bara áfram í aðra átt eins og golþorskur og allir verða sáttir. Fordæmi fyrir því.

Hrært verði í nefnd fyrir nýtt lagafrumvarp um að fagráð MAST fari með landslög og þá má fleira en íslenska sauðkindin fara að passa sig á fjöldagröfunum.

Það er svo ofboðslega inn núna að láta sérfræði álit og sviðsmyndir stjórna landinu ásamt því sem kemur í aflátsbréfum frá bírókratinu að utan.

Það má segja að Íslands ógæfu verði nú allt að vopni, gapandi ofvitar og flissandi fábjánar séu það sem landið bláa eigi skilið.

Enda er flest venjulegt fólk komið til Tene þar sem íslenskan er sögð blómstra þessa dagana.


mbl.is Hvalur mun krefjast skaðabóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumurinn sem dó

Nú rembast hinir svokölluðu aðilar vinnumarkaðarins við að skapa þjóðarsátt, þ.e.a.s. sá hluti sem ekki hefur þurft að díva hendinni í kalt vatn.

Enda er farið að fara um jötuliðið. Reykjavík gjaldþrota og skurðgröfurnar á landráðaskaga orðnar tekjulausar ef ekki væri fyrir svokallaða innviðagarða við Blanka lónið, Svartsengi og Grindavík.

Sviðsmyndaséníin nú þegar farin að klappa upp fyrir hamförum við Hafnarfjörð til að ná um innviðagjaldið sem ráðalaus ríkisstjórn með tóman ríkisjóð ætlar þeim á klakanum að borga sem hafa þak yfir höfuðið.

Allir sem muna lengra en gullfiskaminninu nemur vita að svokölluð þjóðarsátt frá því 1990 var sátt á milli jötuliðsins um hvernig kökunni yrði skipt þannig að þeir landsmenn sem drægju vagninn ættu ekki séns.

Erlent láglauna vinnuafl fjórhelsisins hefur streymt til landsins allar götur síðan, og leitun er að venjulegum Íslendingum sem hafa eignast annað en skuldir í þakinu yfir höfuðið sem skattstofn fyrir jötuliðið. En að öðru góðir landsmenn;

 

Mig langar að minnast draums

-um ástkæra fósturmold

árdags í ljóma

 

Hver á sér fegra föðurland

sem ungan dreymir

-sér til sóma

 

Þar sem sól slær

silfri á voga

og heiðarvötnin blá

-þar sem til voru fræ

er fengu dóma

 

Ekki er hægt að geta dreymandans að svo stöddu

þar sem ekki hefur náðst til aðstandenda

-þjóðina sem arfinn þinn geymir

 

En sértu velkominn heim

yfir hafið og heim

suður um höfin

að sólgylltri strönd

 

– Útförin verður auglýst síðar

af séra Kaldalóns úr Unaðsdal

–fyrirhugaðar eru sætaferðir

með æsslander og play


Haninn - minningabrot í steypu ársins

Gilsá

Á brúnni milli lífs og dauða, sem liggur fyrir ofan brúna, -sem liggur yfir eldri brú enn neðar, -stend ég og steypi.

Minningarnar streyma í steypunni eins og áin milli steina neðst í grýttu gilinu. Ein af annarri fá þær framrás líkt og ísaldarleir yfir það sem gerðist hér, -og steinsnar frá, -allt eins og væri í gær.

 

Ég sit á koppnum heima í skúrnum á Hæðinni, en ekkert kemur, biðin friðlaus eftir því að komast út í sólskinið og morgunninn.

Mamma kemur með volgt vatn í hraðasuðukatli eftir að hafa blandað niður með ísköldu, því það er engin heitur krani í skúrnum.

Hún reisir mig upp og hellir í koppinn, setur snáðann sinn svo aftur á koppinn, segir mér að sitja þar til bunar, og fer síðan að huga að litla bróðir.

 

Við erum komnir út á hlað í lognstillan morgunninn, -afi, Emil og ég 5 ára, að farast úr spenningi yfir því að nú styttist í að við förum á traktornum út á Fljótsmölina til að vitja um silunganetið í Keldunni.

Fljótið er einn rennisléttur spegill. Kyrrðin algjör – ef ekki væri fyrir suð í fiskiflugu og vellandi spóa, -og að þeir bændurnir Þórir og afi bjóða hvor öðrum góðan dag og tefja tímann með spjalli um blessuðu blíðuna – eins og það geti ekki beðið.

Ég nota tækifærið á meðan og flýgst á við Emil, sem pakkar mér skrækandi saman niður í grasið, - enda næstum fjórum árum eldri.

“Hann tekur undir við þig haninn á Ormarsstöðum Magnús minn”; -segir Þórir sposkur

– “passaðu þig bara á að hann fljúgi ekki yfir Fljótið og bíti undan þér”; -gala ég kominn í kút, -úr grasinu.

Útundan mér á milli grænna stráa sé ég á hinum bakka Fljótsins kirkjuna á Ási uppljómaða við annað hanagal í morgunnsólinni, minna fer fyrir Ormarsstöðum utar og ofar, -en ég sé hvergi hanann.

Afi spyr Emil íbygginn um leið og Þórir gengur klumsa í sitt fjós til purrrrandi mjalta;

– “heyrðirðu hvað hann sagði, -hvaðan hefur drengurinn þetta eiginlega”.

– Og við röltum allir þrír í fjósið hans afa.

 

Eftir hádegisblund ömmu og afa, -meðan ég hafði setið úti í sólinni, hlustað á sóninn í símalínunum með Sámi í sunna golunni, -fór ég með afa á Willysnum í Grófargerði.

Okkur var boðið í kaffi og formköku hjá gamla fólkinu – og Alfreð, -sem afi átti erindið við. – Ég sá sólskinið fyrir utan nellikurnar og gardínuna í suðurglugganum. Leiddist kaffimasið og hafði ekki lyst á að klára sneið með súkkati, -fór út á hlað til sólarinnar.

Hundurinn á bænum dormaði í skugganum norðan við neðstu tröppuna – geispaði, -teygði sig svo undirleitur út í sólina til að hnusa varfærnislega. – Ég gerði honum auðveldara fyrir og rétti til hans fót í hvítbotna gúmmískó, -rakkinn rauk upp og beit sig svo fastan og togaði með urri og gelti.

Á meðan ég snérist galandi og sparkandi eins fast og ég mögulega gat, komu afi og Alfreð út, en ekki hættu gólin, geltið, urrið og spörkin fyrr en þeir hundskömmuðust báðir tveir bændurnir.

Þegar ég var háttaður um kvöldið, og eftir kattarþvott og Jesú bróðir besta hjá ömmu, -mátti enn sjá far eftir tár á moldugri kinn rétt eins og hvert annað hundsbit í grasgrænni buxnaskálm.

 

Við systkinin erum þrjú komum út í skammdegisskímuna, -með mömmu. Jörðin er hrímgrá, hörð, -og ísköld – Þorpið frosið í gráma morgunsins fyrir neðan brekkuna.

Mamma er hljóð – Fyrsti veturinn minn í skóla – Mér er kalt, -rennilásinn á úlpunni minni er bilaður. Við löbbum skáhalt norður og niður Hæðina frá skúrnum til Frænku í Varmahlíð.

Þær tala í hálfum hljóðum um að Jonni, -og einn annar sé dáinn, -fleiri væru slösuð. Átta ungmenni í nýja Rússajeppanum með blæjunni lentu í gilið í nótt.

Tveim vart hugað líf. – Enginn skóli í dag – Tárin streyma, -og ég ekki ennþá búinn að læra í skólanum hvernig er að vera dáinn eins og Jonni frændi, -samt eru að koma jól.

 

Og þarna stend ég sólríkan dag undir Hátúna-Hetti – neðan við Hjálpleysuna, -orðinn grár og gamall maður af hita og þunga dagsins.

- Meðan steypan streymir í loka metrana á nýju brúnni, sem byggð var í sumar, yfir gilið dimmadauðadjúpa.

– Engin elsku mamma, -galvaskir félagarnir, -sem kalla ekki allt ömmu sína, -hamast við að slétta úr steypunni áður en hún grjótharðnar sem óhugnanlegur óskapnaður í sumarsólinni, -og ég gala á milli steypubíla,

– “viljiði að ég haldi áfram strákar!"

– Eins og það sé eitthvert val.

 

Ps. Hér má sjá hvernig brúar steypa yfir Gilsá er framkvæmd, -á 46 sekúndum.


Litla hryllingsbúðin

Ólyginn sagði mér, en hafið mig samt ekki fyrir því, að í minni heimasveit væri stunduð sprotaframleiðsla fyrir hamfaraórækt. Þetta á að hafa gerst í kjölfar þess að sérfræðingar að sunna kenndir við nýsköpun gáfu upp á bátinn að sigra heiminn með hryllingsplöntunni wasabi sem er notuð til að gera sushi endanlega óætt.

Málavextir eru þeir að gróðrarstöð Barra varð gjaldþrota fyrir ca 10 árum og hefur ýmsu verið reynt að koma á legg í þeim risa gróðurhúsaloftslagshúsum síðan. Reyndar er hamfaraforsagan mun lengri því Barri fór í þessa stórhuga uppbyggingu eftir hátt í 20 ára farsælt starf rétt fyrir hrun í meira en meðalstóru gróðurhúsi.

Þá seldi Kaupfélag Héraðsbúa land til sveitarfélagsins þar sem átti að rísa nýr miðbær fyrir Egilsstaði, rétt fyrir utan bæinn. Stærsta vertakafyrirtækið á Egilsstöðum keypti svo landið undan Barra við hlið fyrirhugaða nýja miðbæjarins af kaupfélaginu. Barri átti að græða á öllu saman eins og allir aðrir sem seldu þá hús sín til niðurrifs.

Skemmst er að geta þess að allt fór þetta gróðabrall á hausinn eftir að vertakafyrirtækið byggði nýjan Barra fyrir norðan Fljót. En áður hafði kaupfélagið keypt verktakafyrirtækið til að þurfa ekki að afskrifa góða sölu á landi úr bókhaldinu. Verktakafyrirtækið fór á hausinn strax í hruninu haustið 2008, kaupfélagið á 100 ára afmælisárinu í byrjun árs 2009,

Sveitarfélagið lenti í áralanga gjörgæslu, sem það er nýlega sloppið úr, og þurfti að leita á náðir nágranna til að fjármagna þak yfir grunnskólabörn því sveitarfélagið hafði látið rífa grunnskólann til að byggja nýjan á meðan gull glóði á hverju strái af landsölu fjármálsnilldarinnar í nýja miðbænum sem enn er órisinn.

Barri fór svo endanlega í þrot eftir að hafa verið margviðreistur af Byggðastofnun. Var meir að segja reynt að rækta erfðabreitt bygg í gróðurhúsunum fyrir botox og silicon bjúdíiðnaðinn um tíma. En allt kom fyrir ekki, byggið fauk að endingu út um víðan völl þegar gróðurhúsin skemmdust í einu óveðrinu. En þá komu bara ný nýsköpunarséníi til bjargar, -Wasabi Iceland.

Í gróðrarstöð Barra hefur verið haldinn vinsæll jólamarkaður í fjölda ára, eina dagstund á aðventunni, sóttur af fólki um allt Austurland, nokkurskonar fjórðungsmót. Þar hefur heimafólk selt framleiðslu sína án rafrænna sjálfsafgreiðslu kassa, og átti svo að vera einnig í ár.

Skyndilega var þeim áformum breytt og fyrirhugað er að hafa markaðinn í brunarústum Vasks sem nú er verið að loka fyrir veðrum og vindum með krossviðarspjöldum. Ástæðan reyndist sú, samkvæmt ólygnum, að Wasabi Iceland hafði náð samningi um að selja Skórækt ríkisins sprota til hamfaraóræktar kolefniskirkjunnar.

Nýsköpunarséníunum datt það snjallræði í hug s.l. vor að fá foreldrafélag íþróttafélagsins til að klippa sprota af Alaska öspum í görðunum heima hjá sér og koma fyrir í gróðurhúsunum í fjáröflunarskini. Vökvun og lýsing gróðurhúsanna er sjálfvirk, þannig að engin þurfti að vinna á meðan framleiðslan ávaxtaði sig sjálf.

Það kom svo óvænt í ljós nú fyrir skemmstu, þegar farið var að huga að jólamarkaði, að asparsprotarnir höfðu ávaxtað sig betur en landsala kaupfélagsins um árið, skotið rótum í allar áttir þannig að nú er ófært um gróðurhúsið fyrir Alaska ösp

Það ku víst hafa komið nýsköpunar sprota sérfræðingunum að sunnan nokkuð á óvart að öspin skildi ekki haga sér eins og kryddjurtin wasabi og léti illa að stjórn í gegnum rafrænan fjarfundarbúnað.

Þessa sögu úr litlu hryllingsbúðinni sel ég samt ekki dýrara en ég keypti, það verður sennilega Byggðastofnun að gera.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband