Færsluflokkur: Dægurmál

Grasa-grautur

Grasagrautur

Í Landnámu er sagt frá Atla graut Þiðrandasyni sem nam austurströnd Lagarfljóts þ.e. frá Atlavík út undir Vallanes. Viðurnefnið grautur segir þjóðsagan að Atli hafi fengið vegna fjallagrasa sem hann sauð í graut eftir að hann hafði verið dæmdur skógarmaður, þ.e. 20 ára útlegð frá Íslandi, réttdræpur ella. Atli vildi ekki yfirgefa landnám sitt og leyndist í Hallormstaðaskógi og lifði á grösum og því sem bóndadóttirin á Hallormstað gaukaði að honum. Þjóðsögurnar greina víða frá því að íslenskir útilegumenn hafi lifað á fjallagösum. Það þarf reyndar ekki þjóðsögur til, því enn í dag eru margir sem tína fjallagrös sér til lífsnauðsynlegrar heilsubótar í seyðið eða grautinn.

Alla okkar búskapartíð höfum við Matthildur mín haft það fyrir sið að fara í berjamó, fyrst barnanna okkar vegna og núna í seinni tíð vegna barnsins í okkur sjálfum. Aðallega er tínt upp í sig og berin étin dag hvern á meðan berjatíminn er og getur hann staðið hátt í tvo mánuði. Ef vel viðrar fara því margir eftirmiðdagarnir út um þúfur ár hvert. Þau bláber sem ekki er torgað á berjatínslutímanum fara svo í frost og eru höfð út á hafragrautinn á morgnanna. Frosnu berin hafa enst stöku sinnum fram yfir áramót og er eftir það sárt saknað fram á næsta haust.

Því fórum við fyrir nokkru síðan að huga að fleiru sem hægt væri að hafa út úr því að fara út um þúfur sem mætti nota í grautinn. Fljótlega lá svarið ljóst fyrir og hafði legið fyrir fótum okkar alla tíð, en það voru fjallgrös. Fjallagrösin má auk þess tína allt árið og hafa þau núna síðustu árin gefið okkur ástæðu til að fara ýmsar fjallabaksleiðir þegar vel viðrar, því hvað er betra fyrir sálina en tína fjallgrös við svanasöng og sól í heiði. Nú er svo komið að þúfna gangurinn er orðinn að fíkn og móinn maulaður við morgunnverðarborðið svo til allt árið því byrgðir af frosnum bláberjum endast núorðið nánast allan veturinn og fjallagrösin má nálgast um leið og snjóa leysir.

IMG_0267

Morgunngrauturinn hefur því þróast í tímans rás úr því að vera venjulegur hafragrautur með smá múslí og rúsínum saman við, í magnaðan grasa-graut með bláberjum og öðru gúmmelaði. Uppistaðan er auðvitað áfram gamli góði hafragrauturinn með ristuðum sesamfræja og hessleyhnetu múslí, en soðin með lúka af fjallgrösum og saltið í grautinn Himalaya. Út á þetta er svo sáldrað hampfræi, grófu kókosmjöli og hnetukurli. Auk þess að vera bragðgóður þá er þessi grasagrautur einstaklega seðjandi, maður finnur ekki til svengdar næstu 5-6 klukkutímana. En það var ekki fyrr en ég fór að kanna það á gúugúl að ég komst að því sem mig grunaði, að þessi grautur er meinhollur.

Rétt eins og á landnámsdögum Graut-Atla þá er á fjallagrösum nánast hægt að lifa enn þann dag í dag. Árið 1972 safnaði þjóðminjasafnið upplýsingum um notkun íslendinga á fjallagrösum í gegnum tíðina. Þau má nota til matar á margvíslegan hátt, auk þess sem þau hafa lækningarmátt og styrkja ónæmiskerfið. Í Læknablaðinu 4. tbl. 2000 er fróðleg grein um fjallagrös eftir Hallgerði Gísladóttur. Hún segir m.a.: "Íslendingar notuðu fjallagrös gríðarmikið á fyrri öldum til að drýgja naumt kornmeti í brauð og grauta. Auk þess voru þau mikill læknisdómur,,," og eru þau þannig  notuð enn í dag, hér á landi og víðar. Sem dæmi þá hafa Þýsk heilbrigðisyfirvöld samþykkt notkun fjallagrasa til að meðhöndla slímhúðarertingu í munni og hálsi, eins eru þau víða seld dýrum dómum í apótekum og heilsubúðum.

Nútímavísindi segja ýmislegt um gagnsemi fjallagrasa t.d. gegn hósta, kvefi, öndunarfærakvillum og magaólgu. Uppistaðan í fjallagrösum - 40-50 % - eru slímkenndar fjölsykrur. Slímið þenst út og verður að hlaupkenndum massa þegar það kemst í snertingu við vatn og sefar þannig og verndar viðkvæmar slímhimnur sem verða aumar og bólgnar vegna kvefs, hósta eða þrálátrar barkabólgu. Slímsykrurnar meltast í þörmum og það útskýrir hvers vegna eðlisávísun fólks rak það til þess að leggja sér fjallagrös til munns til að sefa og fylla magann þegar það hafði ekkert annað til að borða.

Varðandi Bláber hefur það lengi verið þekkt að þau eru full af andoxunarefnum sem vinna á móti hrörnun líkamans og einnig hefur verið sýnt fram á með nútíma rannsóknum að bláber geta fyrirbyggt ristilkrabbamein. Bláber eru líka sögð holl hjartanu þar sem þau vinna á slæma kólesterólinu og þau gagnast einnig við þvagfærasýkingum. Bláberin eru einstaklega holl meltingunni þar sem þau bæði verka á niðurgang og harðlífi. Þau minnka einnig bólgur í meltingarvegi og vinna gegn bakteríusýkingum.

Salt er ekki bara salt því gott salt hefur fjölda steinefna sem eru holl líkamanum, en venjulegt borðsalt er í raun iðnaðarframleiðsla því sem næst gjörsneytt steinefnum. Himalaya salt hefur fjölmörg steinefni umfram hefðbundið borðsalt, sem hefur oft á tíðum verið hreinsað af steinefnum um leið og mengunarefni hafa verið aðskilin við vinnslu. Himalaya salt er margra milljóna ára gamlir bergkristallar, því hreint og ósnortið af nútíma mengun. Það inniheldur 84 steinefni sem eru líkamanum nauðsynleg. Himalayasaltið gengur undir nafninu "hvíta gullið" fyrir mannslíkamann.

Hafrar eru uppistaðan í grautnum, og um þá þarf ekki að hafa mörg orð, svo vel þekkja flestir til hafragautsins sem helst hefur haft það óorð á sér að vera tengdur við nánasarhátt og kenjar. Um hollustu hafra hefur aftur á móti enginn þurft að efast. Auk þess að vera lágir í kaloríum innhalda þeir mikið af trefjum og prótíni, eitthvað sem fer fram úr villtustu vonum þeirra sem versla inn dýrindis fæðubótarefni.

Ef dægurflugan hefur farið með rétt mál um árið þegar hún suðaði að það væri "þjóðlegasti siður að koma útsæðinu niður" þá má segja það að svona grautargerð sé hreinasta afdalamennska í sinni tærustu mynd.

29

 


Missing Links


mbl.is Heitasta árið frá 1880
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygin sem við lifum

Vinnuvikan 

Undanfarið hef ég verið að lesa bókina "Leitin af svarta víkingnum". Þetta er bók þar sem Bergsveinn Birgisson rithöfundur og norrænu fræðingur segir frá því hvernig hann fór að því að skrifa sögu Geirmundar heljarskinns. Eins leyndardómsfyllsta landnámsmanns Íslandssögunnar. Geirmundur var sagður dökkur og ljótur, með mongólska andlitsdrætti af konunglegum uppruna, "göfugastur landnámsmanna" samkvæmt Landnámu, og á að hafa riðið um sveitir Íslands með áttatíu vígamenn, átt mörg stórbú þar sem hann hélt mörg hundruð þræla. Lítið meira er til um hann í fornum heimildum, en Bergsveinn grófst fyrir eftir krókaleiðum um hver maðurinn var og ritaði sögu hans fyrir nokkrum árum sem kom upphaflega út 2013 á norsku undir heitinu "Den svarte viking", en árið 2015 á íslensku sem "Saga Geirmundar heljaskinns".

Án þess að ég ætli að tíunda frekar hér hvers Bergsveinn varð áskynja um Geirmund, þá má segja í stuttu máli að þrælaveldi Geirmundar við norðanverðan Breiðafjörð, á Vestfjörðum og á Hornströndum var tilkomið vegna rostunga. En tó úr rostungaskinni og lýsið þótti í þá tíð nauðsynleg heimsmarkaðsvara til gerðar og viðhalds víkingaskipa. En það sem mér þótti ekki minna athyglivert var hvernig höfundurinn lýsti þrælahaldi á upphafstímum Íslandsbyggðar og hvernig það má sjá óslitin þráð allt til okkar daga. Það má segja að þrælahaldið hafi gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina s.s. mansal, vistarband, verðtrygging, mismunandi eftir því hvort þrælahöfðinginn sá um fæði og húsnæði í skiptum fyrir vinnuframlag.

Bergsveinn segist vera kominn í 30. lið af Geirmundi, reyndar setti ég sjálfan mig inní Íslendingabók og komst að því sama. En það sem ekki síður er merkilegt í bók Bergsveins er það sem hann segir frá sinni fjölskyldu sem bjó í landnámi Geirmundar s.s. af búsetu afa síns og ömmu í Hrappsey á Breiðafirði.

"Hér bjó móðurfjölskylda mín frá 1940-1945; foreldrar móður minnar, Magnús og Aðalheiður með börnin sín tíu; þau urðu þrettán í allt. Fjölskyldan hefur einatt verið fámál um árin í Hrappsey og smásaman hefur mér orðið ljóst hversvegna. Einar einn móðurbræðra minna, sagði síðar ef ekki hefði verið fyrir byssu afa míns, hefðu þau haft lítið sem ekkert að borða. Leigan fyrir að búa í Hrappsey var nefnilega 24 kg af hreinsuðum æðardún – sem var nákvæmlega það sem eyjan gaf af sér. Á tilteknum tíma árlega átti að afhenda dúninn Magnúsi á Staðarfelli, en hann var forsvarsmaður Háskóla Íslands, sem þá var orðinn eigandi þessa eggvers. Eitt árið náðu þau ekki að safna 24 kílóum. Ekki fóru menn í mál við þau af þessum sökum, en af heimildum að dæma lá þeim við refsingu. Afi fór margsinnis í land og reyndi að semja um að fá leiguna lækkaða en allt kom fyrir ekki.,,,Afi og amma voru því tekjulaus á meðan þau bjuggu í Hrappsey. Allt vinnuframlag þeirra gekk upp í leigukostnað."

Í bók Bergsveins kemur fram að á dögum Geirmundar heljarskinns voru dæmi þess að þrælar við Breiðafjörð hefðu keypt sér lausn með þriggja ára launum af vinnu sem þeim til féll samhliða þrældómnum. "Afi Magnús hefði hefði hinsvegar aldrei náð að kaupa sér lausn frá Hrappsey ef hann hefði verið þræll þar".

Hvers vegna erum við í fangelsi þegar dyrnar standa galopnar? 

Flestir kannast við það að þegar þeir eru í fríi þá líður tíminn hratt og eyðslan miðar að því að peningarnir endist út fríið, svo framarlega sem "draumaferð í krúser" um karabíska hafið hefur ekki verið valin. Oftast er tilhlökkunin fyrir næsta fríi og hugsanir skjóta upp kollinum á fyrstu vinnudögum eftir frí "þarf þetta að vera svona". Nú á dögum þegar það er til of mikið af öllu má segja að það sem helsta vantar sé lítið.

Það eru nokkur ár síðan að ég neyddist til að fara víking til Noregs, í þriggja ára útlegð, þar sem hver einasta króna útilegunnar gekk upp í skuld við bankann, "heljarskinns" okkar tíma. Þessi skuld var ekki beint tilkomin vegna húsnæðis heldur vegna tímabundinnar persónulegrar ábyrgðar í atvinnurekstri á byggingastarfsemi, starfsemi sem hvarf í hruninu. Í Noregi eignaðist ég samt annað verðmætara en peningana sem bankinn fékk, en það var skilningurinn á því í hverju verðmæti eru fólgin, eða á frelsinu með því að ráða eigin tíma. 

Þá staðfestist sú vissa að hægt væri að lifa ágætu lífi af mun minni vinnu og því sem nemur lægri tekjum, meir að segja heima á Íslandi. En umhverfið er yfirleitt þannig að maður vinnur 40 tíma vinnuviku eða hefur ekki vinnu. Atvinnurekendur, viðskiptavinir og vinnufélagar eru venjulega í þéttsetinni 40 tíma-plús vinnuviku rútínu, svo það er varla raunhæft að biðja um að hafa frið eftir hádegi, jafnvel þó hægt væri að sannfæra sjálfan sig og vinnuveitandann.

Fyrir rúmum tveimur árum hafði ég fært þetta oftar en einu sinni í tal við vinnufélagana en fengið dræmar undirtektir um að þetta gengi upp í samvinnu við aðra. Svo gerðist það um svipað leiti, að heilsan bilaði og ég var tilneyddur til að slá af og virtist sem það myndi verða varanlega. En vinnuveitandinn bauð mér að vera áfram á þann hátt sem ég vildi og gæti. Í ljós kom að heilsunni hæfir ca. 4 tíma vinnudagur. Ég hef því fengið tækifærið á því að sannreyna kenninguna. 

Hefðbundinn átta tíma vinnudag má rekja til iðnbyltingarinnar í Bretlandi á 19. öld. En tækni og aðferðir hafa þróast þannig að starfsmenn í öllum atvinnugreinum eru færir um að framleiða meira en þörf er fyrir á styttri tíma. Þetta hefur vissulega leitt til til styttri vinnudaga en var á tímum iðnbyltingarinnar þegar þeir voru jafnvel 14-16 tímar, en samt ekki stillt vinnutíma fyrir þarfir einstaklingsins.

Það er vegna þess að 8 klst vinnudagar eru arðbærir fyrir hagkerfið, ekki vegna þess að afköst í átta tíma séu endilega hagkvæmust þannig (meðaltals skrifstofumaðurinn fær minna en 3 tíma verkefni á 8 tíma vinnudegi og því fer mikið af vinnudegi hans í að láta tímann líða). Ef Þú hefur heyrt um Parkinsons lögmálið þá veistu að; því meiri tími sem hefur verið gefinn til að koma einhverju í verk, því meiri tíma mun það taka. Það er ótrúlegt hverju er hægt að koma í verk á tuttugu mínútum ef aðeins tuttugu mínútur er í boði. En ef þú hefur heilt síðdegi, myndi það líklega taka það sem því nemur. Þetta sama lögmál var útskýrt í stuttu máli á þá leið að hægt væri að setja á stofn 500 manna vinnustað án þess að það þyrfti nokkhverntíma að leita að verkefnum útfyrir hann, vinnustaðurinn yrði sjálfbær hvað verkefni varðaði.

Vegna þess hvað það gerir mikið fyrir kaupgetu almennings er talið ásættanlegt að stór hluti vinnustaða tæknisamfélagsins inni af hendi vinnu sem engin hefur þörf fyrir. Til þess að hámarka eyðslu almennings þarf frjáls tími jafnframt að vera af passlega skornum skammti, sem geri það að verkum að fólk borgi meira fyrir ímynduð þægindi og hafi minni tíma til að komast upp á lag með að skipuleggja eigin tíma. Þetta heldur m.a. fólki óvirku utan vinnu við að horfa á sjónvarpið, og auglýsingar af því sem er sagt að því vanti.

black-friday

Við erum föst í menningu sem hefur verið hönnuð af færustu markaðsfræðingum í að gera okkur þreytt, eftirlátsöm af áreiti, tilbúin til að borga fyrir þægindi og skemmtun, og síðast en ekki síst fyrir það sem hefur ekki það sem þarf til að uppfylla væntingar okkar. Þannig höldum við áfram að vilja það sem við gerum til að geta keypt það sem okkur vantar ekki, vegna þess að okkur finnst eitthvað skorta.

Vestræn hagkerfi neyslunnar hafa þannig verið byggð upp á útspekúleraðan hátt til að búa til fíkn og fullnæga henni með óþarfa eyðslu. Við eyðum til að hressa okkur upp, til að verðlauna okkur, til að fagna, að fresta vandamálum, að gera okkur meiri í augum náungans og síðast en ekki síst til að draga úr leiðindum. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það myndi leika hagvöxtinn ef við hættum að kaupa dót sem okkur vantar ekki og hefur ekkert raunverulegt gildi í lífi okkar til lengri tíma. Það væri hægt að stytta vinnudaginn, minka við sig húsnæðið (þar með húsnæðislánin) og gera sorphirðuna verkefnalausa.

Vandamál, svo sem offita, sjúkdómar, mengun og spilling, eru tilkomin vegna kostnaðarirns við að halda uppi hagvexti. Heilbrigðu, hamingjusömu fólki finnst því ekki þurfa svo mikið af því sem það hefur ekki, og það þýðir að það kaupir minna af rusli og þarf minn af afþreyingu sem það finnur ekki sjálft.

Vinnumenningin er hagvaxtarins öflugasta tól, þar sem launin gera það kleyft að kaupa eitthvað. Flest okkar fara á þann hátt með peninga að því meir sem er þénað því meiru er eytt. Ég er ekki að halda því fram að það verði að forðast vinnu og fara þess í stað út um þúfur í berjamó. En það er hverjum og einum holt að gera sér grein fyrir á hverju hinn heilagi hagvöxtur þrífst og hvort hann sé sá leiðtogi sem við fylgjum í þessum heimi. Það hefur verið lögð í það ómæld vinna að hanna lífstíl sem byggir á því að kaupa það sem vantar ekki fyrir peninga sem ekki verða til fyrr en þú hefur látið frelsi þitt í skiptum, jafnvel ævilangt.

Þrælaveldi Geirmundar heljarskinns leið undir lok þegar rostungum hafði verið gjöreytt úr landnáminu, þá fóru sögur af þrælum sem teknir voru fyrir suðaþjófnað. Fer eins fyrir þrælum hagvaxtarins, missa þeir máltíðir þrælahöfðingjans þegar kemur að því að peningar eru allt?


Þú vissir af fiylgifiskum hátíðanna - You've Felt It Your Entire Life


Stóra brúneggjamálið í hnotskurn


Í sannleika sagt er 90% lygi


Sannleikurinn úr sófanum


Sannleikurinn um lygina


Hvað með Hróarstungu?

Hvort Hróar Tungugoði hafi átt víkingasverðið og lærbeinið sem gæsaskyttur fundu að Ytri Ásum er ekki gott að vita. En það eru til fleiri kenningar um hvar goðorð Hróars Tungugoða hafi verið og ef eitthvað er til í þeim þá fluttist Hróar alla leið austur á Fljótsdalshérað.

Í Lesbók Morgunnblaðsins 13. ágúst 1994 má lesa eftirfarandi grein eftir Sigurð Sigurmundsson; 

"Í Landnámu segir, að Uni son Garðars Svavarssonar, þess er fyrst fann Ísland, hafi farið þangað með ráði Haralds konungs hárfagra. "Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós og húsaði þar. Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar. En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast. Uni fór suður í Álftafjörð enn syðra, en náði þar eigi að staðfestast. Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi og tók hann við þeim." Uni þýddist Þórunni dóttur Leiðólfs og var hún með barni um vorið. Talið er samkvæmt örnefnum að Skógahverfi hafi verið í Vestur-Skaptafellssýslu. En lok málsgreinarinnar eru þessi: "Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði. Hann tók arf Leiðólfs allan og var hið mesta afarmenni. Hann átti Arngunni dóttur Hámundar systur Gunnars á Hlíðarenda. Þeirra son var Hámundur hinn halti er var enn mesti vígamaður." Sagt er að til hafi verið sjálfstæð saga Hróars Tungugoða sem glötuð sé. Frá henni muni þessar frásagnir vera runnar og Sturla Þórðarson styðjist við hana í Landnámugerð sinni. Hann virðist ætla að Hróar og Arngunnur Hámundardóttir hafi búið í Skógahverfi syðra, en getur aðeins Hámundar halta sem vígamanns, nefnir ekki bústað hans.

Þá er næst, til samanburðar, að geta þess hvað Njála hefur til þessara mála að leggja. Fræðimenn telja fullvíst að Njála sé óháð Landnámu enda ættartölur hennar aðrar. Höfundurinn hefur þá heldur ekki þekkt hina glötuðu sögu Hróras Tungugoða og frásögn Landnámu af hrakningi Una suður í Skaptafellsþing og búsetu Hróars þar. Í 19. kapitula Njálu er Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda fyrst kynntur og ættfærður. Síðan kemur eftirfarandi málsgrein: "Arngunnur hét systir Gunnars; hana átti Hróar Tungugoði sonur Una eins óborna Garðarssonar; sá fann Ísland. Son Arngunnar var Hámundur halti er bjó á Hámundarstöðum."

Þá er að huga að því hvernig hugur Njáluhöfundar var að verki er hann samdi þessa málsgrein. Það er ekki að sjá að hann viti annað um Hróar en nafn hans og hjónaband þeirra Arngunnar og soninn Hámund halta, sem Njála telur búa á Hámundarstöðum. Að lokinni þessari málsgrein fer vart á milli mála hvar hugur Njáluhöfundar dvelur. Hann virðist þekkja bæjarnafnið Hámundarstaði svo vel, að hann gleymir að taka fram að þeir séu í Vopnafirði. Höfundur Fljótsdælu nefnir og Hróar Tungugoða sem búið hafi á Hofi í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði og hún dregið nafn af honum. Þar sem Njáluhöfundur hefur engar spurnir af öðrum Hróari má nærri víst telja að hann álíti að Arngunnur Hámundardóttir hafi verið gift honum og þau búið á Hofi í Hróarstungu. Höfundur Fljótsdælu segir Hróar barnlausan, en þar ber þeim ekki saman þar sem hinn (Njáluhöfundur) segir Hámund halta á Hámundarstöðum son þeirra. En tveir synir hans koma síðar fram í Njálu í liði Flosa eftir Njálsbrennu, Hróar Hámundarson og Vébrandur, en ekkert segir af heimkynnum þeirra. Þeir gátu verið norðan úr Vopnafirði. Komið hefur fram sú skoðun, að þessi Hróar Tungugoði hafi aldrei verið til, bær hans Hof, ekki fundist, en þjóni vissu hlutverki í Fljótsdælasögu sem skáldverki. En Njáluhöfundur má hafa vitað betur. Gagnmerkur fræðimaður, Halldór heitinn Pétursson, upprunninn úr Hróarstungu, lét sér ekki lynda að þessi Hróar hafi aldrei verið til, en setur fram þá skoðun sem hér fer á eftir: "Hér bendir ekkert til þess að Hróar hafi komið sunnan úr Skaptártungu. Hitt sýnist mér liggja beint fyrir að hér hafi kunnugur maður um vélt, því að dagleið er frá Hofi í Krossavík. Það hefur alltaf verið vefengt að Hof í Hróarstungu hafi verið til, en þar er ég á öðru máli. Skulum við nú snúa okkur að hinum týnda stað og freista þess að leita Hofs í Hróarstungu. Það skal fyrst hafa í huga, að yfirleitt voru ekki Hofsnöfnin lögð niður með kristni, en slíkt gat átt sér forsendur ef Hofsbær var færður úr stað. Milli Gunnhildargerðis og Kirkjubæjar í Hróarstungu heitir Fornistaður og stendur á samnefndum ás. Þarna eru geysimiklar rústir sem aldrei hafa verið rannsakaðar. Fleirum en mér mun finnast nafnið "Fornistaður", búa yfir einhverju ósögðu, hér hljóti að búa einhver saga á bakvið."

Halldór Pétursson var sannfærður um að Austfirðingur hafi skrifað Njálu. Hann gerði merkar staðfræðilegar athuganir þeirri skoðun til styrktar. Niðurstöður þeirra athugana, sem hér hafa verið fram bornar, verða því sem hér segir: Njáluhöfundur sem best þekkti til á Austurlandi (að líkindum upprunninn frá Valþjófsstað) virðist telja að Arngunnur Hámundardóttir hafi gifst Hróari Tungugoða á Fljótsdalshéraði og Hámundur halti búið á Hámundarstöðum sem áður getur. Virðist ekkert mæla á móti því að svo hafi verið."

Greinina má lesa í heild sinni hér.


mbl.is Átti Hróar Tungugoði sverðið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þotuslóðir

Hvort sem efnaslóðar eru úr lausu lofti gripnir eða ei, þá eru þotuslóðir það ekki, þær getur hver maður séð dag og dag sem lítur til himins í heiðskíru. Svo má velta því fyrir sér hvað fer fram fyrir ofan skýin þá daga sem þau þekja himinhvolfið. 

IMG 5025

Þotuslóðir yfir Egilsstöðum 2. júní s.l.

Höfundur þessarar síðu hefur haft skýjaskoðun að áhugamáli frá því hann fyrst man, og gert þotuslóðum áður skil hér á síðunni og má sjá hér. Þá var bent á að ákveðinn vísinda verkfræði væri í gangi á himninum svo kölluð geoenginrering.

Það sem kalla má þotuslóðir er sagt af tvennum toga, þ.e. cemtrail (efnaslóðir) eða contrail (slóði farþegaþotna). Þotuslóðir hér í denn entust nokkrar þotulengdir fyrir aftan þotuna síðan varð himininn aftur jafn blár og áður, það er þær sem kallaðar eru á ensku contrail. Nú á dögum krota þoturnar himininn þvers og kruss líkt og herþotur voru látnar gera á hersýningum hér áður fyrr með hjálp efnaformúla, svo lái hver sem vill samsæriskenningasmiðunum.

Nú ber svo við æ oftar að slóð þotnanna þvera himininn og skilja eftir sig skýjaslóða svo jafnvel getur dregið fyrir sólu ef nógu margar þotur eru á ferðinni. Þetta gerist samt ekki alla daga þrátt fyrir látlaus ferðalög túrista um himininn, þess vegna eru kenningar uppi um að ekki sé allt með felldu.

Þeir "sem sjá samsæri í hverju horni" telja þennan dagamun sem er á sýnileika þotuslóðanna vera vegna efnaslóða sem stafi af fikti vísindamann og heryfirvalda sem fram fari suma daga, eins geti ákveðnar aðstæður s.s hitastig loftsins sem flogið er í gegnum valdið slóðinn. Samt sem áður er þetta mun algengara fyrirbæri en var fyrir fáum áratugum síðan.

Fróður maður um flug sagði mér að sá munur sem væri á því hve slóði þotna væri sýnilegri nú en í okkar ungdæmi stafaði af því að mikið að lofti væri tekið í gegnum þotuhreyfilinn sem skilaði sér sem heit gufa á eftir, en áður fyrr hafi einungis hitinn vegna brennslu eldsneytis farið í gegnum hreyfilinn. þetta gerði það að verkum að mikið meira skýjafar væri á eftir þotum dagsins í dag.

Hvort sem þetta eru efnaslóðir eða gufustrókar sem stafa af nýrri gerð þotuhreyfla þá er þögnin í kringum þetta fyrirbæri undarleg. Flestir gleðjast yfir sólskinsstundunum þess vegna ætti fyrir löngu að vera farið að heyrast hljóð úr horni vegna þessara skýjaslóða af mannavöldum sem strika himininn.

Á meðan að þeir sem hafa orð á fyrirbærinu eru afgreiddir af "færustu vísindamönnum" og "upplýsandi fjölmiðlum" sem fólk "sem sjái samsæri í hverju horni" er ekki nema von að þeir sem hafa velt málinu fyrir sér láti lítið fyrir sér fara. Fjölmiðlamönnum sem vilja upplýsa málið væri nær að kynna sér það og upplýsa fyrir almenningi hvað er á ferðinni, frekar en að láta það eitt nægja að birta opinberar fréttatilkynningar af internetinu.

Við skulum átta okkur á því að svo kölluð "vísindi" eru því sem næst trúarbrögð okkar daga, og svokallaðir sérfræðingar þeirra "æðstuprestar". Því ætti hver og einn að líta upp af skjánum til himins og velta því fyrir sér hvað þar er á ferðinni. Það gæti verið að þá yrði ályktunin á því önnur en sjá má á skjánum sem niðurstöðu færustu vísindamanna.

 

IMG 6334

Þotuslóðir á Egilsstöðum, eftir að þær eru farnar að leysast upp

 

IMG 5523

 

Þotuslóð sem flogið er í aðra þotuslóð sem farin er að breiða úr sér

 

IMG 5524

 

Tærleiki himinsins eftir yfirflug þotna


mbl.is Efnaslóðar úr lausu lofti gripnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband