Færsluflokkur: Hús og híbýli

Camping með sól, skútu og fýr úr flís

IMG 1299 

Nú er langt liðið á þriðja sumarið hérna 69°N, en hingað kom ég í maí 2011 þjakaður af  atvinnuleysi og verðbættum stefnuvottum, með þær hugmyndir að hugsanlega yrði veran hér sem sumarfrí sem gæfi þar að auki smá salt í grautinn. En upphaflega réði ég mig í þrjá mánuði til reynslu hjá norsku múrarafyrirtæki. Bankinn var fljótur að skrifa mér rándýrt bréf eftir að það kom í ljós að ég hefði tekjur, ykkur að segja þá kostar staðlað bréf frá innheimtudeild banka um 300 þúsund og þar á bæ er nóg af lögfræðingum tilbúin að fjölfalda svoleiðis póst gegn þóknun.

En núna að áliðnum sólríkum sumarfríum var ekki meiningin að fara að básúna leiðindi á öldum alheimsnetsins, heldur hvernig útilega getur orðið til þess að sumri er varið við leik á tjaldstæði þó ekki sé það beinlínis sumarfrí. Í fyrra sumar var það tjaldstæðið í Finnsnesi, en þar dvöldum við vinnufélagarnir frá Afganistan og Súdan við að múra og pússa veggi í hvæsandi málmbræðslu. Sem betur fer dvaldi Matthildur mín með okkur bróðurpartinn úr sumrinu við sefandi prjónaglamur. Undraveröld eyjunnar Senja var svo hinumegin við Finnsnessundið, þannig að einn og einn eftirmiðdagur fór í sólríka bíltúra um spegilslétta firði Senja. 

Sumrinu núna var svo eftir vinnu að stórum hluta eytt á tjaldstæðinu í Harstad. Þar var reyndar meiningin að dvelja síðasta sumar en vegna Finnsnesferðarinnar datt það upp fyrir. Tjaldstæðið í Harstad stendur við Kanebogen sem er mikil náttúruperla inn í miðjum bæ. Fjörurnar í Kanebogen voru þær fyrstu sem ég lallaði um eftir að ég skyndilega datt niður úr skýjunum í annan heim eftir að hafa flogið yfir himin og haf í öskugosinu mikla vorið 2011. Í einmanaeika mínum hafði ég ráfað út um útidyrnar einn sunnudagsmorguninn í austurátt til móts við sólarupprásina og viti menn allt í einu var ég staddur í kríuskýi. 

Fjörurnar í Kanebogen, þar sem Harstad Camping er staðsett, urðu strax uppáhalds fjörurnar, þarna gat ég setið tímunum saman og fylgst með kríunum. Sennilega hafa eigendur Tjaldstæðisins, sem er í einkaeign og rekið af stórfjölskyldu, verið farnir að taka eftir gráa kallinum sem þvældist um fjörborðið fleytandi kerlingar inna um kríuskýið. Svo gerðist það veturinn eftir að óskað var eftir múrara til flísalagna í þjónustuhúsi tjaldstæðisins. Mette framkvæmdastýra Murbygg taldi rétt að senda mig þar sem þarna gæti ég stofnað til kunningsskapar við fólk sem vissi upp á hár ef íslendingar væru á flækingi um norðurhjarann.

Þegar verkinu var að ljúka í apríl 2012 vorum við Ívar einn af eigendum tjaldstæðisins orðnir vel málkunnugir. Hann spurði mig hvort ég væri fáanlegur til að gera við sprungur á veggjum mótöku tjaldstæðisins, sagðist hafa fengið þá hugmynd að líma flísar yfir sprungurnar og það mættu þess vegna vera marglitir afgangar sem ég réði sjálfur hvernig raðað yrði saman. Þegar minnst var á liti fór eins og vanalega allt á flug í höfðinu á mér, að íslenskum hætti varð svarið "ok ekkert mál" frístundum sumarsins 2012 yrði ráðstafað á Harstad Camping.

Í lok ágúst í fyrra kom Ívar eina helgina sem ég var í fríi frá Finnsnesi og bankaði upp á í loftkastalanum mínum til að grennslast fyrir um það hvers vegna að ég hefði ekkert látið sjá mig allt heila sumarið. Ég sagði honum að ég hefði verið sendur norður í nes Finnanna en spurði svo hvernig stæði á  því að það hefðu ekki verið neinar kríur í skerinu þetta sumarið. Ívar sagðist hafa veitt þessu athygli en myndi ekki eftir að þetta hefði gerst áður. Spurði svo hvort ég væri til í að fara í sprunguviðgerðina næsta sumar. Hann fékk staðlað svar "ekkert mál".

Núna í júní kom einn vinnufélaginn með skilaboð frá Ívari hvort ég væri ekki til í að svara símanum, hann væri búin að reyna að ná í mig dögum saman. En þannig er að ég svara ekki norskum númerum sem ég þekki ekki eftir að ég svaraði óvart skoðanakönnun sem ég nennti ekki að taka þátt í. Tveimur dögum seinna var bréf í póstkassanum sem tilgreindi að það varðaði við kóngsins lög frá 1989 að svara ekki skoðanakönnuninni. Þegar ég spurði norska vinnufélaga út í þetta urðu þeir forviða og spurðu hvort ég svaraði virkilega símhringingum úr ókunnugum númerum, þetta gæti varðað háum fjársektum.

En eftir að ég vissi símanúmeri hjá Ívari svaraði ég honum og við mæltum okkur mót á tjaldstæðinu. Hann byrjaði á því að tilkynna mér að krían hefði komið þetta vorið, sem ég reyndar var búin að komast að, hann hafði drepið tvo minka í skerinu í vetur og fundið þar að auki einn sem otur hefði drepið. En hann taldi að oturinn gerði kríunni ekkert mein. Þannig að nú væri ekkert að vanbúnaði með að láta hendur standa fram úr ermum.

Fljótlega eftir að ég byrjaði flísalögnina yfir sprungurnar missti  ég mig í mósaík og smá veggur varð að ótal flísa verki út og suður. Svo komst ég fljótlega að því að ég tímdi þar að auki ekki að klára verkið því þarna hafði ég afsökun fyrir því að hanga tímunum saman innan um kríur og túrista.

Tjaldstæðið í Harstad er friðsæl ævintýra veröld þar sem hægt er að leigja kajaka, fiskibáta eða bara að dorga fram af kæjanum. Þarna komst ég að því að það eru fleiri en ég sem líkar að hanga á Harstad Camping, því fólk kom til að spjalla með það að yfirskini að það væri búið að fatta hvaða mynd ætti að vera á veggnum. Margir koma um langan veg til að dvelja þarna sumar eftir sumar. Það voru samt ekki allir sem áttuðu sig á því að þarna væri ekki verið að gera mynd af því sem fyrir augu bar úti á Vogsfirðinum heldur væri um að ræða sprunguviðgerðir eftir norskum staðli.

Eins fékk ég við sprunginn vegginn tilsögn í Nostradamusi, fræðslu um lækningamátt kvarssteina, hvernig olían hefur eyðilagt norskt samfélag og margar fleiri áhugaverðar upplýsingar. Útsýnið frá veggnum er stórfenglegt, yfir tjaldstæðið, eyjar og sker merlandi Vogsfjarðarins. Það ætti ekki að fara fram hjá neinum sem sér þetta kennslu myndband um norska sprunguviðgerð að svona eiga sumarfrí að vera.

 


Fimmtudags bíó - endir.

Enn er það steypa sem er á videoi kvöldsins, en nú er komið að endi á þessum steypu myndum.  Þessi er frá 1990 og þar er verið að steypa bílastæðið hjá Hilmari mági mínum.  Það er Jón Ingvar Hilmarsson sem á heiðurinn af því að þessi steypuvinna festist á filmu heimilisvídeóvelarinnar í Áshlíð.

Þarna eru þeir kapparnir Kalli og Sindri í aðalhlutverkum, en þeir voru með mér því sem næst allan Mallands ferilinn minn sem náði nokkhvern veginn frá 1987 þar til í lok árs 2000.  Malland var stofnað utan um rekstur sem ég hafði haft í nokkur ár af okkur Kalla og Bjössa Heiðdal.  Malland er ennþá til sem gólflagna fyrirtæki með epoxy gólf og keyrir á upprunalegri kennitölu næstum aldarfjórðungs gamalli, geri önnur fyrirtæki betur.

Mér er ekki kunnugt um hverjir eru eigendur af Malland í dag en veit þó að Gísli vinnufélagi til margra ára er þar innsti koppur í búri. Síðan 2001 hef ég svo til engar spurnir haft af Malland þá hófst nýr kafli, svolítið skrítið því Malland var nánast eins eitt af börnunum mínum. En það var orðið þannig árin eftir 1996 að gíróseðla bunkinn var horfinn af borðinu mínu, kellingin í Íslandsbanka hætt að hringja heim í hádeginu, þau hjá Lýsingu höfðu ekkert samband ekki einu sinni lögfræðingar og sýslumaður nenntu að setja sig í samband því eins gott að snúa sér að einhverju nýju.

Í sárbætur fyrir lélegt fimmtudagsbíó er má finna hér nýsutu bláu myndirnar okkar Matthildar á flækingi okkar um norðurhjarann í gær var það Húsey á Senju. http://magnuss.blog.is/album/flakingur_2012/

 

 

 https://www.youtube.com/watch?v=kcj66lk-a1o

 


Fimmtudags bíó - í upphafi skyldi endirinn skoða.

Aldrei þessu vant er videó kvöldsins ekki um steypu sem er að harðna heldur um niðurbrotna steypu. Það var nú akkúrat málið að þegar verkefnin voru farin að snúast um niðurbrot en ekki sement og sand sem hafði verið blandað með vatni sem þurfti að láta hendur standa fram úr ermum við móta þá skildi endirinn skoða.  Því þó svo að það að brjóta niður, viða að endurnýja veggi og gólf, hjúpa svo allt saman í epoxy hafi gefið meira í vasann en að steypa heilu skýborgirnar, þá gerði það ósköp smátt fyrir sálina.

Þessar myndir fann ég nýverið og hafði aldrei séð þær frá því að ég tók þær sennilega um jólin1997. Það sem mér finnst merkilegt við þær er að þarna má sjá helstu samstarfsmenn til margra ára sem sjaldan voru allir samankomnir að verki í sama skiptið.  Á þessum tíma voru samt smíðaðar skýjaborgir þó þær væru ekki úr steypu. Á árunum 1997 og 1998 tók ég þátt í  epoxyfyrirtæki í Ísrael og var þar í verkefnum um tíma á árunum 1997 og 1998.  En það er önnur saga.

https://www.youtube.com/watch?v=TBxyZcF0ITE

 


Fimmtudags bíó - Síðustu Móhíkanarnir.

Í fimmtudagsbíói kvöldsins er um tóma steypu að ræða.  Á árunum í kringum 1990 var mikið steypt á Djúpavogi, 1984 - 1988 var byggður fjöldi íbúðarhúsa auk heimavistar við grunnskólan og heilsugæslustöðvar  Frá 1991 - 1994 voru byggð kirkja, íþróttahús, elliheimili auk fjölda íbúða.  Flestar þessar byggingar voru úr steypu. 

Eitt af því sem mörgum var ofarlega í huga var að nota það byggingarefni sem nærtækast var og því koma steypan inn í dæmið.  Menn standa nánast á byggingarefninu ekki bara á Djúpavogi heldur um allt Ísland, það er allt um kring.  Á þessum árum voru þrjú verktakafyrirtæki á Djúpavogi sem réðu yfir steyputækni og gátu framleitt steypu nánast hvar sem þau voru stödd.  Þetta gerði það að verkum að fjöldi ungra manna var við störf vítt og breytt um Austurland á vegum þessara fyrirtækja. 

Myndirnar í kvöld eru af þeim verkefnum sem Malland stóð fyrir á Djúpavogi 1991 - 1992 en á þeim má einnig sjá starfsmenn annarra fyrirtækja á Djúpavogi því oftar en ekki var um margvíslegt samvinnu að ræða.  Sennilega þikja þessar steypumyndir ekki gáfulegar á 21. öldinni.  Í síðasta gróðaæri var höfuð málið að reka saman íbúðarhús úr gibbsi og hraðvöxnum skógum í Eystrasaltslöndunum, þótti nóg að hönnunin væri íslensk.  Flytja þau svo í opnum flatgámum til landsins, reisa þau með Pólverjum og klæða síðan með innfluttu blikki.  Að vísu mun dýrari hús og ekki sambærileg að gæðum, jafnvel orðinn skemmd af raka á flutningnum yfir hafið einum saman. 

Svo voru Kanadísku plasthúsin sem litu út eins og Skandinavísk timburhús geysi vinsæl í gróðærinu, þar var ekki einu sinni hönnunin íslensk.  Þó svo að þessi innfluttu hús hafi aldrei verið samkeppnishæf í verði, þá hafði því þá þegar verið snaggaralega bjargað með ströngum reglugerðum um það hverjir mættu hræra steypu.  Við það urðu til hin fjölbreyttustu störf reglugerða sérfræðinga og eftirlitsaðila svo megin þungi byggingariðnaðarins fluttist í hendur þeirra sem aldrei hafa byggt hús en eru algjör séní með pappír.  Þannig má segja að fimmtudagsbíó kvöldsins sé um síðustu Móhíkanana.


Fimmtudags bíó - .....við veginn.

Það er áfram algjör steypa þetta fimmtudagskvöld, nú mest megins við veginn sem kallaður er Hlíðarhæðin í daglegu tali á Djúpavogi. Ef ég man rétt var þessi framkvæmd á fimmtudegi fyrir 20 árum síðan og átti að taka tvo daga en þegar leið að kvöldi gátu kapparnir ekki hætt og þetta var klárað þegar kom fram á bjarta sumarnóttina. 

Steypublandarinn sem var sá eini sinnar tegunda á Íslandi fékk að finna fyrir því, gekk rauðglóandi hátt í sólahring.  Annars var það merkilega við þessa steypuhrærivél að það var streymið sem þurfti að ganga upp, ekkert rúmmál eða einn hluti af þessu á móti tveimur hlutum af þessu með þremur lítrum af vatni og 50 ml af loftblendi.  Heldur var bara hraðinn á færibandinu og lokurnar á efniskörum, vatni og loftblendi stilltar, olíugjöfin skrúfuð í botn og tekið í eitt handfang.  Einfalt en tók mig viku að komast inn í hugsunarhátt streymisins. Það tókst aldrei að koma verkfræðingi í skilning um hvernig svona tæki virkaði. Þess vegna urðu verkefnin fyrr steypuhrærivélin takmörkuð við eigin verkefni.

Matthildur á heiðurinn af því að þessi moment festust á filmu.  Aldrei þessu vant má greina mig myndafælna manninn heynsklast í lamasessi eftir bílslys ársins á undan, reyndar með ráðleggingar læknis um að finna mér annað að gera. En það var bara ekki hægt að hugsa sér að vakna upp til annars en að hræra steypu með þessum köppum, það var einfaldlega tilveran og lífið sem ég vildi ekki vera án. 

Stórsöngvarnaum Kalla vann ég með í 14 ár, en hann er enn að blanda saman efnum sem harðna þó svo það sé ekki sandur og sement, heldur sandur, herðir og base í epoxy.  Kalli átti það til að syngja Bubba lög betur en Bubbinn sjálfur. Tók einu sinni þátt í látúnsbarka keppni Íslands. En ef ég man rétt lenti hann í öðru sæti, sú sem valin var í það fyrsta hét Birna Mjöll og er dóttir Gauksins.  Mörgum fannst Gaukurinn hafa unnið látúnsbarkann það árið, því við hæfi væri að múrarinn væri í því að steypa áfram.

Litli bróðir hann Sindri var einn af köppunum í Hlíðarhæðinni, hann steypti með okkur Kalla frá 13 ára aldri en datt í hug um tvítugt að fara í háskóla, einhverskona gráðu fræði. Í einni epoxy ferðinni norður í land ákváðum við að keyra suðurleiðina og koma við hjá Sindra því að hann væri örugglega orðinn leiður á Háskólanum, tókum hann með svo hann gæti gleymt háskólanum sem hann og gerði. Hann náði sér samt í mastergráðu í verkfræði nokkrum árum seinna í dönskum tækniskóla, sem hann bjargaði sér út úr með því að hafa master ritgerðin um steypu.  Eftir það hélt hann að hann gæti unnið sem fræðingur með gráðu, en gaf það upp á bátinn í miðri Hörpunni og gerðist þess í stað Budda munkur.

Hinir kapparnir eru Helgi sem nú ræktar Margarítur og heldur hænur í Ástralíu auk þess að bana þotuslóðum með göldrum. Hann var í fríi á Íslandi sumarið 1992 eins og glögglega má sjá á fimmtudags bíómyndunum. Kom heim til Íslands í fyrsta sinn eftir langa veru í Ástralíu. En þangað fór hann aleinn á íslenskunni einni saman með spjald á maganum sem á stóð " I am going to Australia" því þangað varð hann að komast til að giftast ástinni sinn henni Gyðu og rataði svo ekki heim aftur fyrr en hann mætti einn daginn í steypu með heila fjölskyldu, gott ef það var ekki á 17. júní rúmum átta árum seinna.  

Svo má ekki gleyma honum Eddi Pólska sem lék við hvern sinn fingur, steypti í 13 mánuði samfellt áður en hann hélt heim til sinnar fjölskyldu í Pólandi.  Síðan hefur ekkert til hans spurst, frekar en sögunni um hana Búkollu.

 https://www.youtube.com/watch?v=2RX1HDXKWsI

 


Fimmtudags bíó - Sumarið er tíminn.

Sumarið er tíminn þegar hjartað verður grænt söng Bubbi um árið.  Mér áskotnuðust gömul video úr videovélinni minni sem hreyfði við hjartanu sem má segja að hafi verið tínt og tröllum gefið.  Yfirleitt var aldrei þokusuddi á sumrunum í denn hvað þá slydda, þau voru alltaf sólrík, allavega í minningunni.  Hugmyndin er að setja hérna á síðuna nokkur video þegar ég er búin að klippa þau til og setja þau inn á fimmtudagskvöldum.  Í kvöld er bíóið frá sólríku Austfirsku sumri í denn.

Í lok maí tók ég frí frá í Noregi og fór heim í tvær vikur, sól og sumar nánast allan tímann. Eftir fjarveru í hátt á fimmta mánuð beið mín eins og gefur að skilja ýmislegt skemmtilegt m.a. hafði Matthildur látið setja okkar gömlu video tökur okkar á DVD. Þetta eru myndir sem ekki hafði verið horft á árum saman eða jafnvel aldrei, enda videoið síðast í lagi árið 2001. 

Eins og gefur að skilja eru flest videoin fjölskyldumyndir sem ég er búin að lofa að setja ekki í loftið án þess að þær hafi verið ritskoðaðar í nefnd.  En mikið af þessum videoum eru vinnumyndir teknar á Djúpavogi og Egilsstöðum.  Það getur verið að einhverjir hafi ánægu af því að sjá gamlar myndir frá þessum stöðum þó svo að ekki sé hægt að reikna með því að nema einstaka fan hafi áhuga á steinsteypu og þá helst svona álfar eins og ég sem eru með höfuðið fullt af steypu. 

Það er með svona áhugamanna video að þau verða áhugaverðari með tímanum.  Fyrst fimmtudags bíóið verður í lengra lagi en þetta eru myndir frá 20 ára gömlu sumri á Egilsstöðum þar sem hetjur steypa stéttar.  Mér fannst ekki hægt að hafa þessa hetjumynd styttri þar sem inn í hana fléttast sumarstemmingin á Egilsstöðum júní daga 1992 með barnaleikhúsi og bæjarhátíð.

 https://www.youtube.com/watch?v=EjxDwZ_WOs4


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband