Færsluflokkur: Hús og híbýli

Hús fortíðarinnar kostuðu ekki krónu

Sem betur fer koma stöðugt fram hugmyndir um ódýrara húsaskjól. Oftast koma þeir með athyglisverðustu hugmyndirnar sem tilheyra ekki byggingabransanum. Svo virðist vera í því tilfelli, þar sem helstir virðast vera tilnefndir athafnamaður í plastbátaframleiðslu og viðskiptalærður ölgerðarforstjóri sem vakti athygli á sér fyrir skemmstu með því að benda Færeyingum á að ekki mættu þeir nota nafnið Gull lengur yfir Færeyjabjórinn sinn sem þeir seldu á Íslandi, vegna reglna um skrásett vörumerki, þó svo að Færeyjabjórinn hefði mun lengur gengið undir nafninu Gull á Íslandi en gullið frá Ölgerðinni.

Ástæðan fyrir því að hús kosta ekki lengur krónu eins og var með torfbæina í denn er óhóflegt reglugerðarfargan. Þetta getur hver sem er sannreynt með því að fara út í móa og gera tilraun til að byggja sér þak yfir höfuðið. Þó svo að hann steypti það upp úr viðurkenndri steinsteypu í staðlaðri vörugámastærð er líklegast að það yrði brotið niður af yfirvöldum áður en hann lyki verkinu. Meiri líkur eru á að sá sem reyndi að sniðganga byggingareglugerðirnar kæmist upp með að búa í vörugámi sem plantað væri niður úti í móum, jafnvel í nokkur ár. En yrði samt að gera sér að góðu bréfaskriftir frá yfirvöld þar sem farið væri fram á að umræddur gámur yrði fjarlægður og stöðugjalds krafist þangað til.

Sennilega er afturhvarf til fyrri tíma í við húsbyggingar hagstæðast fyrir allan almenning hvað kostnað varðar því allar líkur eru á því að fólki yrði ekki skotaskuld úr því að byggja sér hús fyrir ekki svo mikið sem krónu. Ef fólk efast eitthvað um að svo megi vera þá ættu það að kynna sér videoið hér að neðan þar sem aðeins þurfti að greiða þorpshöfðingjanum tvær hænur fyrir byggingaleyfið. Allavega mætti segja að á Íslandi sætu allir við sama borð, hvað kostnað við reglugerðafarganið varðar, ef þeim yrði ekki gert að greiða ráðherra húsnæðismála nema tvær hænur fyrir byggingaleyfið en hefðu síðan frjálsar hendur að öðru leiti og hugmyndafluginu væri um leið leift að njóta sín.

 


mbl.is Hús framtíðarinnar úr plasti?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gámavæðing íbúðamarkaðarins

Það verður að teljast undarlegt þegar forstjóri mannvirkjastofnunnar ríkisins talar hvað eftir annað eindregið fyrir innfluttu íbúðarhúsnæði. Fyrir rúmu einu og hálfu ári talaða að hann fyrir því að ungu fólki yrði útvegað leiguhúsnæði í vörugámum innréttuðum í Kína. Nú akíterar hann fyrir innflutnings fyrirtækið IKEA um ágæti innfluttra gáma úr timbri sem stafla mætti saman copy-paste eins og hann orðar það. Athyglisvert er að ráðherra gefur svo IKEA fundinum vægi með nærveru sinni. 

Það ætti öllum hugsandi fólki að vera það orðið ljóst að markaðsöflin hafa tröllriðið byggingageiranum og íbúðarhúsnæði fyrir lifandi löngu orðið allt of dýrt Íslandi. Ef ráðherra og forstjóra Mannvirkjastofnunnar ríkisins er ekki nú þegar ljóst hvers vegna ættu þau að kynna sér málið á heimavelli því þar er um að kenna fjármagnkostnaði, reglugerðafargani og græðgi sem þrífst í skjóli ríkisins.

Það er löngu orðið ljóst að húsnæði úr íslenskum hráefnum byggt af íslendingum fyrir íslenskar aðstæður er ódýrara og endingarbetra. Aðeins með því að pakka reglugerðarfarganinu ofaní skúffu verður húsnæði úr innfluttum byggingarefnum álíka dýrt og úr innlendum.

Dæmi undanfarinna ára sína að þegar hús eru flutt inn í heilulagi er eins og ekki þurfi að fara eftir byggingareglugerð á sama hátt og þegar er um hefðbundnar húsbyggingar sé að ræða. Þetta hefur síðan oft á tíðum leitt til stórtjóns fyrir íbúðaeigendur. Eins og dæmin sann þar sem heilu hverfin af innfluttum einingahúsum hafa verið talin óíbúðarhæf vegna raka.


mbl.is Ódýr timburhús alvöru kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá torfbæ til tölvualdar

IMG_5146

Elsta gerð íbúðarhúsa hér á landi eru svo kölluð langhús, sem höfðu einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið, þetta var húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til Íslands. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Gott dæmi um þennan stíl er þjóðveldisbærinn Stöng í Þjórsárdal. Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaðið. Þannig sköpuðu Íslendingar sér sína eigin húsagerð í gegnum aldirnar, torfbæinn, sem átti sér varla hliðstæðu annarsstaðar, en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld. Þá tók önnur íslensk gerð húsa við þar sem uppistaðan er áfram íslenskt jarðefni, það er steinsteypan.


IMG_5152Íslensk húsagerð hefur heillað mig svo lengi sem ég man enda hefur leikur og starf verið helgað húsum það sem af er æfi. Steinsteypa er það byggingarefni sem hefur hefur átt hug minn allan tímunum saman. Síðustu ár hef ég gert mér ferðir í sveitir til að skoða steinsteypt hús fyrri tíma þar sem regluverk hefur ekki verið að þvælast fyrir andaktinni og komist að því að margur steinsteypti sveitabærinn hefur tekið mið af torfbænum hvað húsaskipan varðar, s.s. með því að hafa innangengt í fjós úr íbúð. Þegar ég var í Noregi gat ég ekki látið hjá líða að leggja leið mína í langhús, en það var á víkingasafninu Borg á Lófóten í Hálogalandi. Íslenskir torfbæirnir eru ekki lengur á hverju strái en rústir þeirra má sjá víða sem grænar þústir í landslagi og er þá oft staldrað við. Eins höfum við Matthildur mín skoðað uppistandandi torfbæi saman en hún hefur látið sig dreyma um að búa í einum slíkum á meðan orð Magnúsar afa míns bergmála í mínum eyrum „minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn“.

IMG 2637

Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og gömlu torfbæjunum


Í sumar heimsóttum við Laufás í Eyjafirði sem er fornt heldrimannasetur, en úr bænum fluttu síðustu íbúarnir árið 1936. Fyrir nokkrum árum skoðuðum við Sænautasel sem er heiðarbýli og myndi flokkast sem kotbær miðað við Laufás. En sögur fara af því að hugmyndir af sögusviði Sjálfstæðs fólks hafi kvikknað hjá Laxness á Jökuldalsheiðinni og kom Halldór m.a. í heimsókn á Sænautasel þegar hann var að skrifa bókina. Það hefur verið mikill munur á koti og höfðingjabýli þó svo að hvoru tveggja hafi verið byggt úr torfi. Sú lýsing sem mér finnst passa hvað best við þær hugmyndir sem afi minn og nafni gaf mér um lífið í torfbæ má finna í bók Tryggva Emilssonar Fátækt fólk, en Tryggvi ólst upp í Eyjafirði og Öxnadal og hefur verið samtíðarmaður afa míns, eiga þeir það sameiginlegt að hafa alist upp í torfbæ í sitthvorum landshlutanum á fyrstu áratugum 20. aldarinnar.

Tek ég mér það bessaleyfi að láta lýsingu Tryggva á húsakosti í Öxnadalnum fara hér á eftir um leið og ég mæli með því að þeir sem ekki hafa þegar lesið Fátækt fólk verði sér út um bókina, sem er mögnuð lýsing á lífsbaráttu almúgafólks á Íslandi fyrir ekki svo ýkja löngu síðan.

"Flestir voru bæirnir hlaðnir úr torfi og grjóti og þökin tyrfð, framstafnar voru burstmyndaðir af standþiljum, og „hvít með stofuþil“. Þar sem best var að fólki búið voru baðstofur þiljaðar í hólf og gólf, á nokkrum bæjum voru þil bakatil við rúmin en annars staðar naktir torfveggir og súð, þar bjó fátækasta fólkið.

IMG_1830

 Sænautaselsbaðstofan ásamt áföstum útihúsum

 

Útihúsin voru öll hlaðin úr sama efni og bæirnir, það voru lágreist hús, fjósin heima við bæina en fjárhús og hesthús oftast í útjöðrum túna og voru fjárhúsin að jafnaði staðsett þar sem best lá við að hleypa fé í haga. Önnur bæjarhús en baðstofan voru óþiljuð víðast hvar, búr og eldhús, göng og skemmur, veggir voru víðast grjóthleðsla í einnar alinnar hæð og síðan klömbruhnausar með strengjum á milli og mold til uppfyllingar, víða voru þess hús manngeng út við veggi með nær alinnar rishæð. Stafnveggir voru hlaðnir í ristlögum og var höfð hella undir endum á mæniásnum en síðan reft af þeim ás og niður á vegglægjur. Vegglægjur og mænirás voru venjulega þverhandar þykkt tré ferköntuð, oft var ásinn sverari, jafnvel fimm sex tommur og úr rekaviði, eins var með rafta að í þá var keyptur rekaviður ef um hann var að gera, á sumum bæjum var hrístróð undir torfi á þökum.

IMG_5183

 Bæjargöngin í Laufási á björtum sumardegi

 

Erfitt var að halda þessum bæjum hreinum og tókst misjafnlega, krabbar og skúm sóttu í dimma afkima, moldarmmylgringur sáldraðist um búr og göng úr veggjum og þaki, sótfok var í eldhúsi en heyryk og veðraslæðingur barst inn um öll göng allt til baðstofu. Þar sem innangengt var í fjós áttu beljur leið um göng og bæjardyr ef engin var útihurðin á fjósinu, og svo háttaði á Gili en þar rak ég beljuna sem hraðast út úr bænum svo henni gæfist ekki tími til að leggja frá sér í göngin en ekki dugði það til í hvert sinn. Víða voru þökin lúalek og það svo að lækur rann fram göngin og því var oft tjörn í bæjardyrum sem lágu lægra en hlaðið, væri trassað að ausa vatninu út, fraus á pollinum og þá voru svellalög inn öll göng. Margir notuðu hlóðaösku til að þurrka upp lekavatnið og til marks um þrálátan leka í baðstofu er ein saga úr Geirhildargörðum, þá bjó ég á næsta bæ, Fagranesi, og bræddi kúamykju í lekastaði á þaki en það var algeng þrautarlending.

IMG_5169

 Þessi baðstofa er engin kotungs kytra, enda Laufás heldrimanna híbýli

 

Á Geirhildargörðum hefur sennilega verð léleg torfrista og leirkennd og kom það fram á þökum sem illa héldu vatni, baðstofan á þessum bæ var sílek og til þess að þurrka upp það vatn á gólfin settist var notuð hlóðaaska. Þegar Jón Sigurbjörnsson kom að Geirhildargörðum og settist þar að í baðstofu þótti honum furðu lágt undirloft og því tók hann sig til og stakk út úr baðstofunni. Gólfskánin sem gerð var að mestu leiti úr ösku, var samþjöppuð á milli rúma en lausari í sér undir rúmunum. Hæfilegt þótti Jóni að stinga út eina skóflustungu og það gerði hann og hafði það ráð þar sem skánin var hörð eins og grjóthella, að hann flagaði upp skánina. Þegar stungin var sem svaraði einni skóflustungu þótti Jóni bónda bregða undarlega við en þá kom hann niður á timburgólf fornt sem enginn vissi að vera ætti í þessari baðstofu. Gott þótti Jóni að fá pallinn en aldrei varð hann hvítskúraður í Jóns tíð og eins þó dreift væri á hann sandi í hvert sinn að þvegið var.

Dæmið frá Geirhildargörðum var ekki einsdæmi og til þess vissi ég að stungið var út úr baðstofum þykkt öskulag þó ekki kæmi pallur í ljós. Á Gili var stungið út úr baðstofunni annað sumarið sem ég átti þar heima en það verk var ekki á allra færi, ódaunninn var slíkur að flýja varð undir bert loft með stuttu millibili eins og opnast hefðu helheimar, eins og rotnandi lík í hverju öskulagi. Pabbi bar allt út úr baðstofunni og tók stafngluggann úr, síðan var sofið í heytótt í tvær nætur en á baðstofugólfið var borin ný taðaska.

IMG_5166

 Matthildur taldi sig ekki verða í vandræðum með að sjá um matseld í hlóðaeldhúsi

 

Bæirnir höfðu sterk áhrif á það fólk sem í þeim bjó og mótuðu svip þess, þeir réðu hvernig búshlutum var fyrir komið þar sem hver vistarvera var jafnframt geymsla og vinnustaður, í baðstofu og búri, hlóðaeldhúsi og skemmu og í bæjardyrum varð hver hlutur að vera á sínum stað, þar var engu um þokað og fólkið fylgdi þeim eftir, þeir voru heimilistækin. Allir höfðu þessir gömlu bæir líka húsaskipan en voru misstórir og fór það eftir stærð jarðarinnar og efnahag bóndans. Víða var þrifnaði ábótavant og sá það gestaugað glögga þó heimamenn fyndnu þar enga annmarka á. Þegar gengið var í bæinn lék straumur blandinnar lyktar manni um vit, mest bar á reykjarlyktinni þar sem voru hlóðaeldhús og gat orðið að fastelju ef eldur var illa falinn,í bland var þefur af rakri mold í lekabæjum, sótlykt úr eldhúsrjáfri og súr lykt úr búri, oft var innlokað loft í göngum, sérstaklega þeim sem voru samhlaðin og án rafta, það loft var mengað þef úr fjósi og af hundum sem bældu sig í göngum en hundar báru í sér stækan útiþef. Öllu þessu varð maður samdauna enda var ekkert að flýja, bærinn var heimilið, þar sem matast var og hvílst. Í sumum baðstofum var oft þungt loft þegar inn var komið þar sem forðast var að opna glugga vegna kulda en í þeirri vistarveru ægði öllu saman, matar og mannþef, þar voru þurrkuð plögg, jafnvel undir sér í rúmunum, þar var skæðaskinnið skorið á gólfi, gerðir nýir skór og stagað í garmana og saumaðar bætur, þar var unnið úr ullinni og tætt hrosshár, spunnið og fléttað og jafnvel þvegnir smærri þvottar, þar voru náttgögn undir rúmum sem menn tóku upp í rúmið til sín á nóttum þegar kastað var af sér vatni, kettir bældu sig ofaní brekánum og í sængum og þrifu sig þar, kannski nýkomnir neðan úr öskutroginu sem haft var í baðstofunni svo þeir gætu gert þar sín stykki á nóttum. Það var mikil vinna sem margar konur á sig lögðu að berjast gegn öllum þessum áleitna óþrifnaði og mjög víða sást furðumikill árangur þeirrar eljusemi.

IMG_5167

 Það er ekki í kot vísað í búrinu í Laufási

 

Í einum af næstu bæjum við Gil var fjósið til hliðar við baðstofuna og einfalt þil á milli gisið, þar naut fólkið þess að mikill ylur var í fjósi og því hlýrra í baðstofunni en ella. Væri autt rúm í baðstofu var algengt að hýsa þar lömb eða vanmetakindur og var þá gerð jata í öðrum enda rúmstæðisins, ylur var af þessum skepnum, fyrir kom að kálfar voru í auða rúminu um stundar sakir. Þegar Hannes stutti kom í baðstofuna í Húnavatnssýslu og sá folald í auða rúmstæðinu þá vildi hann ekki fallast á að um folald væri að ræða og sagði;

Þetta er ekki þriflegt grey,

Þetta er ljótur kálfur.

Enginn gefi honum hey,

hirði hann skrattinn sjálfur.

Sumum bæjum fylgdu draugar í einhverri mynd og átrúnaður og ekki þorði ég að gó augum að glugga á þessum bæjum, væri myrkur en gekk á snið við gluggana og barði þrjú högg á bæjarhurð, það var fullkristilegt, skrattinn var sagður berja tvö högg. Í lágum og þröngum torfbæjum hætti mönnum til að vera heimóttalegir, í lekalausum og velhýstum bæjum gengu menn uppréttari, þannig voru húsakynnin mótandi á manninn". (Fátækt fólk, Tryggvi Emilsson bls.234-237)

IMG_1943

Daniel Bruun ferðaðist ásamt fríðu föruneyti um Ísland á árunum 1890-1910 og safnaði ómetanlegum heimildum um húsakost og líf þjóðarinnar sem finna má í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Myndin er af hlóðaeldhúsi á höfðingjasetrinu Melstað í Miðfirði.

 

 


Verðtryggingar glæpóið.


mbl.is „Íbúðin var keypt á heila milljón“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnemið verðtrygginguna.

Ef verðtryggingin er afnumin og lánastofnanir telja sig þurfa að hækka óverðtryggða vexti til að mæta því, þá blasir það við að þær þurfa jafngildi dráttarvaxta af öllum húsnæðislánum.

Það höfðu fáir ímyndunarafl til að sjá það fyrir að það þyrfti að borga fasteignalán 4 sinnum til baka hvað þá 9 sinnum. En eftir að reiknivélarna komu hafa almennir lántakar eitthvað annað að miða við en 0% og þá blasir glæpurinn við, en þetta vissu nátúrulega alltaf þeir sem settu upp svikamylluna. 


mbl.is Fásinna að miða við annað en 0%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kofar og kumbaldar.

IMG 1824 

Gereyðing gamalla húsa hefur lengi verið landlæg og er eftirtektarvert hvað Íslendingum er tamt að fyrirverða sig fyrir eigin byggingar, sérstaklega þær sem byggðar eru úr innlendu efni.

Á 20. öldinni voru jarðýtur látnar um að varðveita sögu torfbæjarins, svo rækilega að fáir hafa þannig bæ gist jafnvel ekki séð, sem þó var heimili flestra landsmanni í þúsund ár.

Þeir eru fáir sem vilja afturhvarf til liðins tíma, ef marka má íslenska orðræðu. Eitt af því sem notað er til að stytta leið í rökræðum er; "viljið þið kannski aftur í moldarkofana". Önnur stytting sem tengist húsum og er notuð þegar lýsa þarf óskapnaði er orðið „steinkumbaldi".

 IMG 2068

Menntaskólinn Egilsstöðum 

Núna í upphafi 21. Aldar virðist vera komið að því að steinkumbaldinn verði jarðýtunni að bráð víða í sveitum landsins. Allt sem minnir á hversdagslega notkun alþýðufólks á innlendu byggingarefni á síðustu öld er óðum að hverfa ofan í svörðinn.

Húsafriðun á Íslandi hefur í megin atriðum falist í að varðveita innflutt timburhús sem byggð voru á nýlendutímanum. Húsin hafa verið gerð glæsileg í sinni upprunalegu mynd og oft það fjarlægt í leiðinni sem notað var af íbúum til að lengja líftíma þeirra bygginga miðað við staðhætti, svo sem bárujárnið sem var nánast það eina sem landsmenn bættu við hönnun þessara húsa.

scan0008 

Sólhóll Djúpavogi 

Það er ekki svo að moldarkofinn eða steinkumbaldinn séu endingarverri en innfluttu timbur húsin sem upphaflega urðu til fyrir erlendar aðstæður þar sem viður var til staðar. Einhvern veginn er það rótgróið í þjóðarsálina að líta fram hjá eigin byggingarefni þegar kemur að varðveislu húsa.

En rétt væri að hafa í huga orð hleðslumeistarans, Sveins Einarssonar heitins frá Hrjót, þegar kemur að byggingarsögulegum verðmætum. "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum".

Kannski á eftir að verða vitundarvakning með auknu vægi ferðaþjónustu, allavega má ætla að erlendum ferðamönnum þyki, auk náttúru Íslands, moldarkofar, steinkumbaldar og jafnvel bárujárnsklædd timburhús vera hluta af sjarma landsins.

 

IMG 1830 

Sænautasel var eitt haf kotbýlunum í Jökuldalsheiðinni, það þeirra sem var lengst í ábúð til ársins 1943. Íbúðarhús og gripahús voru sambyggð að hætti torfbæjarins. Húsin höfðu verið felld ofaní tóftina í stað þess að ryðja þeim um með jarðýtu. Því var tiltölulega auðvelt að endurbyggja bæinn árið 1993. Sænautasel er vinsæll áningastaður ferðamanna. 

 

 Beautiful and Green Icelandic Turf Houses3

Lindarbakki á Borgarfirði-eystri var upphaflega byggður í formi þurrabúðar. Húsið er að þeirri stærð að það hefur varðveist inn í nútímann og er enn í dag notað sem íbúðarhús. Það má segi að húsið beri íslensk sérkenni á fleiri en einn veg, auk þess að vera úr torfi eru stafnarnir bárujárnsklæddir. Sennilega er þetta það mannvirki sem mest er ljósmyndað af ferðamönnum sem til Borgarfjarðar koma.

 

IMG 1966 

Steinsteyptar kirkjubyggingar má finna víða um land sem eru íslenskri byggingalist til mikils sóma. Það má sega að steinkumbaldinn ná listrænum hápunkti í kirkjunni. Eins og með öll listaverk sýnist sitt hverjum. Á myndinni er Egilsstaðakirkja en frá vissu sjónarhorni var haft á orði á byggingatíma hennar að hún minnti á sköllóttan Fljótsdæling.

 

IMG 2262 

Opinberar byggingar eru oft verðugir minnisvarðar steinsteypunnar. Ég er svo lánsamur að búa við svoleiðis listaverk. Menntaskólinn á Egilsstöðum umlykur íbúðablokkirnar í Útgarði sem sennilega myndu flokkast sem steinkumbaldar af Sovéskri fyrirmynd. En þessi húsaþyrping sýnir að steinkumbaldar geta farið vel í réttu samhengi.

 

 IMG 1762

Sólhóll á Stöðvarfirði hefur tvisvar á tæpum 90  árum gengið í endurnýjun lífdaga. Húsið var upphaflega byggt á Kömbum á Kambanesi, 1944 var það flutt á Stöðvarfjörð. Árið 2006 hafði ekki verið búið í húsinu í fjölda ára og það talið ónýtt. Þetta er annað bárujárnsklædda norska timburhúsið með nafninu Sólhóll sem ég hef komist kynni við, hinn Sólhóllinn er á Djúpavogi þar sem Matthildur mín er fædd og við bjuggum fyrstu 9 ár okkar búskapar. Bæði húsin eru staðarprýði og vinsælt myndefni ferðamanna.

 

 IMG 2637

Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og  gömlu torfbæjunum. 

IMG 2626 

Bærinn á Bóndastöðum er byggður í nokkrum áföngum, árið 1958 flyst búseta í Laufás sem er nýbýli úr Bóndastaðalandi. 

 

IMG 2496 

Á Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá er líkast því að kastali hafi verið byggður úr steinsteypu. Íbúðarhús, útihús og hlaða byggð í hringlaga þyrpingu votheysturninn skarar upp úr einu horninu. Steinsteypt girðing umlykur trjá- og rabarbaragarð. Steinsteyptu húsin voru byggð í kringum eldra íbúðarhús sem byggt var 1882 úr rekavið.

IMG 2484 

Votheysturninn á Sandbrekku ber þannig merki að sennilegast hafi hann verið steyptur upp með skriðmótum, en þá voru steypumótin t.d. metri á hæð og færð upp jafnóðum og steypt hafði verið í og steypan sest. Dæmi eru um að heilu turnarnir hafi verið steyptir með þannig aðferð á einum degi.

IMG 2493

Nýja íbúðarhúsið á Sandbrekku er byggt á árunum 1966-68. Teiknað af Teiknistofu landbúnaðarins og ber tíðarandanum þjóðleg merki.

 

IMG 2930 

Lítið fer fyrir stórum steinsteyptum beitarhúsum í landi Ásgrímstaða Hjaltastaðaþinghá, byggðum 1949. Húsin eru með hlöðu í miðju. Torf á timburþaki flest annað steinsteypt s.s. jötur. 

IMG 2867 

Í steypumót hlöðu og votheysgryfju beitarhúsanna hefur sennilega verið notað nærtækt bárujárn.

 

IMG 2509

Fjárhúsin með heyhlöðunni að bakatil, sem byggð var í flestum sveitum landsins um og eftir miðja síðustu öld eru nú óðum að verða tímanum að bráð. Víða hafa þau þó gengið í endurnýjun lífdaga sem ferðaþjónustu húsnæði. Við þessi hús stendur steypuhrærivélin enn í túnfætinum og melurinn með steypumölinni er á næsta leiti. Þessi hús eru í Hjaltastaðaþinghá. 

 

Ps. Húsbyggingar úr mold og möl er barnaleikur ef reynslu þeirra sem kunna nýtur við, það var ekki fyrr en verkfræðin komst í spilið sem það varð flókið að koma upp þaki yfir höfuðið.

Hér má sjá tvö youtube myndbönd, annars vergar sjónvarpsþátt á RUV um það þegar Sænautasel var endurgert og hins vegar videoklippur um það hvernig steypa var hrærð á staðnum í hús á Djúpavogi.  


mbl.is Horfin verðmæti hjartaskerandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsókn í heiðarbýli.

 

IMG 1811

Það má kannski segja að síðuhöfundur hafai haft hús á heilanum um nokkurt skeið. Hápunktur þeirra hugleiðinga síðasta árið var án efa heimsókn í heiðarbýlið Sænautasel á Jökuldalsheiðinni sem getið var í "Sveppur og sjálfstætt fólk".

Síðasliðið haust, á meðan við mauluðum lummur og drukkum kaffi í boði Lilju í Merki undir þekjunni í Sænautaseli, kom það til tals hvað langan tíma og hvernig hefði verið staðið að endurbyggingu heiðarbýlisins.

Þeirri merkilegu sögu eru gerð skil í þessu myndbandi.

http://www.youtube.com/watch?v=4-FEFJQs_F4&feature=player_embedded

 


Draumar úr drullu.

The Hole House by ncjsmith

Þegar litið er til þess hvað kostnaðurinn sem fylgir íbúðarhúsnæði er orðinn stjarnfræðilegur þá er ekki ólíklegt að skinsamlegast sé að grafa sér holu og  bíða þar af sér svartanættið líkt og skógarbjörn sefur af sér skammdegið. Það versta við þá skinsamlegu ákvörðun er að það gæti þurft að sofa býsna lengi miðað við hvað verðtryggðar lántökurnar eru lífseigar. En aftur á móti gæti það komið til að reglugerðar farganið þvældist ekki fyrir byggingakostnaðinum ef hann er niður á við, þó er það aldrei að vita nema mætti koma við ákvæðum samræmdrar byggingareglugerðar efnahagssvæðisins og fasteignagjöldum yfir holu, allavega ekki útilokað að þar væri í það minnsta hægt að innheimta gistináttagjald.

Undanfarin blogg hefur mér verið húsakostur hugleikinn eftir að ég sá fréttir af því að vörugámar væru leigðir til búsetu í London og að þetta þætti álitlegur kostur fyrir ungt fólk á Íslandi því leigan væri ekki nema 60 þúsund krónur á mánuði. Þegar svo er komið að ódýrasta íbúðarhúsnæðið er 15 fermetra gámur frá Kína þá hlýtur eittvað að vera orðið bogið í veröldinni. Alla vega er reglugerðar farganið búið að svipta ungt fólk hugmyndafluginu til sjálfsbjargar Bjarts í Sumarhúsum. Þó ennþá megi finna í afkimum landsins fólk sem byggir hús án þess að spyrja Kóng né prest líkt og fréttir voru nýlega af frá Borgarfirði Eystra. 

Heybaggahús

Máltækin segja "sjálfs er höndin hollust" og "hollur er heimafenginn baggi", en einhvern veginn hafa lög og reglugerðir þróast á þann hátt að flestu fólki er fyrirmunað að uppfylla þörf sína fyrir þak yfir höfuðið öðruvísi en að steypa sér í lífstíðar skuldir.  Þetta hefur leitt til þess að alltaf verður það byggingarefni sem er hendinni næst torfengnara til notkunar því það þarf að uppfylla kröfur fjórfrelsisins innan lagarammans þannig að endingu er hægt að reikna tilbúnar gámaeiningar frá Kína sem ódýrasta kostinn.

torfhús

Torfbærinn lætur ekki mikið yfir sér og þarf ekki að vera svo afleitur með nútímalegri hönnun og tækni. 

Mágur minn spurði mig að því fyrir nokkrum árum þegar flutningar stóðu til hjá minni fjölskyldu úr höfuðborginni austur í fyrirheitna landið; "byggirðu svo ekki bara hús í snarheitum yfir ykkur fyrir austan?" Eftir að hafa jánkað því þá sagði hann; "þú verður ekki lengi að því, þú varst nú ekki nema 10 ár síðast er það?" Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki ennþá komið því í verk að byrja á húsinu þrátt fyrir að nær því 10 ár séu liðin frá því þetta samtal átti sér stað.

Á verganginum hérna í Noregi hef ég verið að vinna undanfarna daga í húsum sem flytja á í u.þ.b. 6 mánuðum eftir að framkvæmdir við þau hófust. Þessi hús kosta ekki nema um 115 milljónir einbýlishúsið og um 60 milljónir parhúsíbúðin að öllum kúnstarinnar reglum uppfylltum. Þó svo að byggingartíminn sé stuttur þá hef ég hug á að halda mig við gamla lagið og komast með einhverju móti austur á land þó svo að núna þurfi ég að fara í vestur til að byggja draumafbæ úr drullu utan við lög og rétt.

             funky house  

Draumahallir nútímans sem uppfylla vottaðar kröfur reglugerðasamfélagsins eru yfirleitt það dýr design monster að ungafólkið verður að gera sér að góðu harðlem útgáfuna. 

Reglugerða farganið þegar þak yfir höfuðið er annars vergar er komið á það stig að vert er að hafa varnaðarorð Vilhjálms Hjálmarssonar aldna héraðshöfðingjans í Mjóafirði í huga, sem sennilega hefur aldrei sótt um leifi til annars en sjálfs sín þegar kemur að húsaskjóli. En hann sagði; "þó svo Bakkabræður hafi stundað mögnuð heimskupör hefði þeim aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka". Sennilega hefði þeim ekki heldur dottið í hug að taka verðtryggt lán til að uppfylla lög og reglur.


Draumahallir og mykjuhaugar.

Lehmhaus 1 

Það þætti sjálfsagt óðs manns æði að halda því fram að hagvöxturinn sé að fara með allt til helvítis. En gæti verið að það megi framkalla hagvöxt með verðhækkunum? Allavega virðist eitt mesta hagvaxtarskeið þessarar aldar hafa átt sér stað með því að blása út fasteignabólu sem ekki reyndist innistæða fyrir án þess að lánastofnanir fjármögnuðu hana. Eftir að bólan sprakk hafa skuldsettir íbúðaeigendur haldið uppi hagvexti bankanna þar sem þeir eru tregir til að færa niður verðmæti lána og þar með að lækka fasteignaverð.

Eins hefur ekki farið framhjá þeim sem standa í húsbyggingum, að á síðustu árum hafa verið settar íþyngjandi reglur bundnar í byggingareglugerðum sem hækka hjúsnæðisverð stórlega. Það hefur í raun verið sett margþætt lög um það að skjól fjölskyldunnar skuli halda uppi hagvextinum. Samræmdum reglum frá ESB er útbýtt og skulu þjóðir ESS einnig fara eftir regluverkinu. Þetta regluverk sýnir færni sýna þegar kemur t.d. að orkusparandi aðgerðum s.s. einangrun húsa. Jafnvel þar sem varminn er ódýr sem á Íslandi eru settar reglur svo ekki tapist varmaorka, þeim skal framfylgja jafnvel þó heita vatnið velli upp úr jörðinni utan við húsvegginn sem veita má inn í húsið með slöngubút. Einangrun sem halda á hitanum inni skal vera allt að 25 cm þykk. 

Beautiful and Green Icelandic Turf Houses3 

Svona reglur sem eru íþyngjandi fyrir almenning efla aftur á móti hagvöxt. Á Íslandi mun nýja byggingareglugerðin hreinlega stórhækka hitunarkostnað þetta kunna gömlu verkfræðingarnir betur að skýra, sjá hér. Ef einhver heldur að þetta sé eitthvað rugl þá er þessum reglum nú þegar framfylgt hér í Noregi sem á samt gnægð orkugjafa s.s. afgangs gas til að hita upp hús almennings því sem næst frítt. Nú er unnið að því að innleiða samræmdu ESB reglugerðina einnig á Íslandi.

Svona hefur hagvöxturinn verið trekktur áfram m.a. í gegnum byggingariðnað þannig að nú er svo komið að fólki endist ekki ævin til að greiða fyrir sómasamlegt þak yfir höfuðið og er þá ein lausnin að bjóða ungu fólki upp á Kínverska iðnaðargáma til búsetu fyrir 60 þús á mánuði.  Það er af sem áður var að ungu fólki gagnist aðferðir Bjarts í Sumarhúsum, það að fara til óbyggða með skófluna að vopni og koma sér þar upp þaki án þess að uppfylla skyldur sínar við hagvöxtinn. Það má kannski segja að einhver millivegur megi vera á torfkofa og ströngustu reglugerðum, en það ætti aldrei að vera millivegur á því að þakið á að þjóna heimilinu en ekki regluverki hagvaxtarins.

 

burkino faso earth house

 

Undanfarið ár hefur annað slagið komið til þess að við Afríku höfðinginn Juma höfum haft þann starfa að lagfæra gamla Samíska kofa, eins og mátt hefur lesa um á þessari síðu.  Juma sagði mér frá húsi sem hann byggði sem barn í Sudan ásamt sínu fólki en þar var byrjað á að búa til múrsteina með því að hræra saman í vatni, kúamykju, sandi og mold sem sett var í nokkhverskonar kökuform sem svo þornaði í sólinni eins og drullukökur. Síðan var hlaðið hús úr skorpnum drullukökunum og veggir pússaðir. Þegar hann heimsótti heimahagana áratugum seinna þá svaf hann vært í þessu húsi sem hann sagði að hefði verið eins og nýtt.

Þarna var notuð sama aðferð í pússningu og steina, þ.e. er blanda af vatni, leir, sandi og kúaskít. Hann sagði að þeir sem hefðu peninga ættu það til að nota sement og sand í pússninguna. En skítur úr grasbítum hefur þann eiginleika að innihalda trefjar sem binda saman sandinn og leirinn. Eins sagði hann mér að ef svona hús væru hvítmáluð þá væri það gert með því að brenna vissa trjátegund og blanda öskunni sem er skjannahvít út í vatna og bera í þurra taðpússninguna.

Það er erfitt að sjá það fyrir sér að ungu fólki liðist að byggja þaki yfir höfuðið nú til dags með því að notast við skóflu, steina og torf án þess að eiga það á hættu að lenda á Hrauninu fyrir það að hundsa reglugerðir hagvaxtarins. Hvað þá ef því dytti í huga að notast við drullukökur úr mykju þá væri sennilega orðið stutt í hvítu sloppana. Eftir athuganir á netinu fann ég heimildamynd á youtube um það hvernig mykjuhaugur verður að draumahöll án þess að það kosti krónu. Ef einhver endist til að kynna sér myndina til enda þá má sjá að mykjuhaugur getur þar að auki orðið að samfélagslegu listaverki.  

 


Skýjaborgir í skuldafjötrum.

Dome home 

Hús hafa leitað á hugann að undanförnu eins og sjá mátti á þessari síðu um svepp og sjálfstætt fólk. Kannski ekki alveg að ástæðulausu því auk þess að hver manneskja þurfi þak yfir höfuðið þá hefur síðuhöfundur haft atvinnu af áhugmálinu allt frá barnæsku þ.e.a.s. kofabyggginum. Það hafa orðið á undanförnum árum gríðarlegar afturfarir í húsbyggingum þó svo að þær séu skreyttar með orðunum þróun og framfarir. 

Það er svo komið að sá sem ætlar að byggja sér þak yfir höfuðið fær nánast engu um það ráðið nema þá kannski hvar hann hengir upp fjölskyldumyndirnar.  Flest annað hefur verið njörvað niður í reglugerðum réttarríkisins til að gæta öryggis þegnanna þannig að engin fari sér að voða né valdi öðrum tjóni. Þegar aðrir eru svo hugulsamir að skipuleggja svona nokkuð fyrir náungan þá kostar það náttúrulélega sitt þannig að skuldir hafa margfaldast á örstuttum tíma. Fólki er ætluð ævin til að greiða þakið yfir höfuðið.

Leiguverð hefur samfara þessu farið úr öllum böndum án þess að sá sem leigir sitt húsnæði komist nálægt því að hafa upp í lántökukostnaðinn sem húsnæðinu fylgir. Greint var frá því í íslenskum fjölmiðlum á dögunum að ungt fólk byggi alsælt í 20 feta gámum í London fyrir aðeins 60 þúsund á mánuði. Gámur sem er 20 fet er ca. 15 fermetrar og helsta ástæða þess að hægt var að bjóða upp á svona hagstæða leigu var að gámarnir voru fluttir frá Kína.

Tuborg
Tuborg okkar Matthildar á Djúpavogi byggð úr vikursteini frá Mývatni 1985-1987. 
 
Það er af sem áður var þegar það þurfti malarhaug og sement til að byggja hús. Að vísu var farin dýrari leiðina þegar við hjónin byggðum íbúðarhús fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan, kostað var til að nota aðflutta vikursteina. Húsið var teiknað með aðstoð kennara míns úr iðnskóla. Þetta var hægt á þeim tíma m.a. vegna þess að þá máttu byggingameistarar í undatekningatilfellum teikna sín hús sjálfir.
 
Flatasel
 
Við Flatarsel á Egilsstöðum byggðum við kollegarnir í múrarastétt þrjú tæplega 200 fermetra hús á árunum 2006-2007. 
 
Tuttugu árum seinna var sami vikursteina leikurinn endurtekinn en þá var kostnaðurinn orðinn talsvert meiri en á Djúpavogi í denn. Auk hærri hönnunarkostnaðar hafði bæst við allskyns kostnaður m.a. hvernig hita í gólfum skildi vera háttað. En þar vilja verkfræðingar meina að hitinn leiti niður þvert á náttúrulögmálið. Sem dæmi þá þurfti á milli hæða í sömu íbúð að koma fyrir magnaðri einangrun í gólfplötu með tilheyrandi aukamagni á steypu, járnbendingu og ómældri vinnu. Þetta er samt ekkert miðað við það sem er uppi í dag samkvæmt samræmdi reglugerð ESB sem ætlar að það þurfi 25 cm einangrun í gólfplötur þar sem 5 cm þóttu nánast bruðl áður fyrr, allt til að koma í veg fyrir að það hitni í neðra.
 
Hús að svipaðri stærðargráðu og við félagarnir byggðum úr íslensku hráefni á Egilsstöðum fyrir nokkrum árum og kostuðu um 27 milljónir fullbúin samsvarar svona ca. 40 ára leigu í 20 feta gám frá Kína.  Hér í Noregi kostar reyndar svipað hús nú yfir 100 milljónir en þá er líka búið að einangra hálfa lóðina svo ekki frjósi undir ruslatunnunni. 
 
Hérna á síðunni hef ég hugsað mér að birta á næstunni nokkur blogg tengd skýjaborgum og draumahöllum. Fara þar ekki út í nýjustu "framfarir" heldur lengra aftur í tímann og minnast þess hvernig þau hús sem eru heimafengin hafa verið gerð ólögleg á altari hagvaxtarins.
 
Þó svo að við félagarnir á Djúpavogi höfum ekki beinlínis verið að byggja torbæi á síðustu áratugum 20. aldarinnar þá var það að því leitinu áþekkt að við notuðumst mikið við heimafengið hráefni í sinni tærust mynd. En við vorum orðnir lokaðir inniá verndarsvæði eins og síðustu Móhíkanarnir, öfugt við það þar sem starfsleyfi steypustöðva í boði vinnu-, heilbrigðis og nefndu það eftirlits gerðu afdalmennsku óhætt um vik.
 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband