Færsluflokkur: Hús og híbýli
25.10.2015 | 15:38
Frá torfbæ til tölvualdar
Elsta gerð íbúðarhúsa hér á landi eru svo kölluð langhús, sem höfðu einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið, þetta var húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til Íslands. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Gott dæmi um þennan stíl er þjóðveldisbærinn Stöng í Þjórsárdal. Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaðið. Þannig sköpuðu Íslendingar sér sína eigin húsagerð í gegnum aldirnar, torfbæinn, sem átti sér varla hliðstæðu annarsstaðar, en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld. Þá tók önnur íslensk gerð húsa við þar sem uppistaðan er áfram íslenskt jarðefni, það er steinsteypan.
Íslensk húsagerð hefur heillað mig svo lengi sem ég man enda hefur leikur og starf verið helgað húsum það sem af er æfi. Steinsteypa er það byggingarefni sem hefur hefur átt hug minn allan tímunum saman. Síðustu ár hef ég gert mér ferðir í sveitir til að skoða steinsteypt hús fyrri tíma þar sem regluverk hefur ekki verið að þvælast fyrir andaktinni og komist að því að margur steinsteypti sveitabærinn hefur tekið mið af torfbænum hvað húsaskipan varðar, s.s. með því að hafa innangengt í fjós úr íbúð. Þegar ég var í Noregi gat ég ekki látið hjá líða að leggja leið mína í langhús, en það var á víkingasafninu Borg á Lófóten í Hálogalandi. Íslenskir torfbæirnir eru ekki lengur á hverju strái en rústir þeirra má sjá víða sem grænar þústir í landslagi og er þá oft staldrað við. Eins höfum við Matthildur mín skoðað uppistandandi torfbæi saman en hún hefur látið sig dreyma um að búa í einum slíkum á meðan orð Magnúsar afa míns bergmála í mínum eyrum minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn.
Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og gömlu torfbæjunum
Í sumar heimsóttum við Laufás í Eyjafirði sem er fornt heldrimannasetur, en úr bænum fluttu síðustu íbúarnir árið 1936. Fyrir nokkrum árum skoðuðum við Sænautasel sem er heiðarbýli og myndi flokkast sem kotbær miðað við Laufás. En sögur fara af því að hugmyndir af sögusviði Sjálfstæðs fólks hafi kvikknað hjá Laxness á Jökuldalsheiðinni og kom Halldór m.a. í heimsókn á Sænautasel þegar hann var að skrifa bókina. Það hefur verið mikill munur á koti og höfðingjabýli þó svo að hvoru tveggja hafi verið byggt úr torfi. Sú lýsing sem mér finnst passa hvað best við þær hugmyndir sem afi minn og nafni gaf mér um lífið í torfbæ má finna í bók Tryggva Emilssonar Fátækt fólk, en Tryggvi ólst upp í Eyjafirði og Öxnadal og hefur verið samtíðarmaður afa míns, eiga þeir það sameiginlegt að hafa alist upp í torfbæ í sitthvorum landshlutanum á fyrstu áratugum 20. aldarinnar.
Tek ég mér það bessaleyfi að láta lýsingu Tryggva á húsakosti í Öxnadalnum fara hér á eftir um leið og ég mæli með því að þeir sem ekki hafa þegar lesið Fátækt fólk verði sér út um bókina, sem er mögnuð lýsing á lífsbaráttu almúgafólks á Íslandi fyrir ekki svo ýkja löngu síðan.
"Flestir voru bæirnir hlaðnir úr torfi og grjóti og þökin tyrfð, framstafnar voru burstmyndaðir af standþiljum, og hvít með stofuþil. Þar sem best var að fólki búið voru baðstofur þiljaðar í hólf og gólf, á nokkrum bæjum voru þil bakatil við rúmin en annars staðar naktir torfveggir og súð, þar bjó fátækasta fólkið.
Sænautaselsbaðstofan ásamt áföstum útihúsum
Útihúsin voru öll hlaðin úr sama efni og bæirnir, það voru lágreist hús, fjósin heima við bæina en fjárhús og hesthús oftast í útjöðrum túna og voru fjárhúsin að jafnaði staðsett þar sem best lá við að hleypa fé í haga. Önnur bæjarhús en baðstofan voru óþiljuð víðast hvar, búr og eldhús, göng og skemmur, veggir voru víðast grjóthleðsla í einnar alinnar hæð og síðan klömbruhnausar með strengjum á milli og mold til uppfyllingar, víða voru þess hús manngeng út við veggi með nær alinnar rishæð. Stafnveggir voru hlaðnir í ristlögum og var höfð hella undir endum á mæniásnum en síðan reft af þeim ás og niður á vegglægjur. Vegglægjur og mænirás voru venjulega þverhandar þykkt tré ferköntuð, oft var ásinn sverari, jafnvel fimm sex tommur og úr rekaviði, eins var með rafta að í þá var keyptur rekaviður ef um hann var að gera, á sumum bæjum var hrístróð undir torfi á þökum.
Bæjargöngin í Laufási á björtum sumardegi
Erfitt var að halda þessum bæjum hreinum og tókst misjafnlega, krabbar og skúm sóttu í dimma afkima, moldarmmylgringur sáldraðist um búr og göng úr veggjum og þaki, sótfok var í eldhúsi en heyryk og veðraslæðingur barst inn um öll göng allt til baðstofu. Þar sem innangengt var í fjós áttu beljur leið um göng og bæjardyr ef engin var útihurðin á fjósinu, og svo háttaði á Gili en þar rak ég beljuna sem hraðast út úr bænum svo henni gæfist ekki tími til að leggja frá sér í göngin en ekki dugði það til í hvert sinn. Víða voru þökin lúalek og það svo að lækur rann fram göngin og því var oft tjörn í bæjardyrum sem lágu lægra en hlaðið, væri trassað að ausa vatninu út, fraus á pollinum og þá voru svellalög inn öll göng. Margir notuðu hlóðaösku til að þurrka upp lekavatnið og til marks um þrálátan leka í baðstofu er ein saga úr Geirhildargörðum, þá bjó ég á næsta bæ, Fagranesi, og bræddi kúamykju í lekastaði á þaki en það var algeng þrautarlending.
Þessi baðstofa er engin kotungs kytra, enda Laufás heldrimanna híbýli
Á Geirhildargörðum hefur sennilega verð léleg torfrista og leirkennd og kom það fram á þökum sem illa héldu vatni, baðstofan á þessum bæ var sílek og til þess að þurrka upp það vatn á gólfin settist var notuð hlóðaaska. Þegar Jón Sigurbjörnsson kom að Geirhildargörðum og settist þar að í baðstofu þótti honum furðu lágt undirloft og því tók hann sig til og stakk út úr baðstofunni. Gólfskánin sem gerð var að mestu leiti úr ösku, var samþjöppuð á milli rúma en lausari í sér undir rúmunum. Hæfilegt þótti Jóni að stinga út eina skóflustungu og það gerði hann og hafði það ráð þar sem skánin var hörð eins og grjóthella, að hann flagaði upp skánina. Þegar stungin var sem svaraði einni skóflustungu þótti Jóni bónda bregða undarlega við en þá kom hann niður á timburgólf fornt sem enginn vissi að vera ætti í þessari baðstofu. Gott þótti Jóni að fá pallinn en aldrei varð hann hvítskúraður í Jóns tíð og eins þó dreift væri á hann sandi í hvert sinn að þvegið var.
Dæmið frá Geirhildargörðum var ekki einsdæmi og til þess vissi ég að stungið var út úr baðstofum þykkt öskulag þó ekki kæmi pallur í ljós. Á Gili var stungið út úr baðstofunni annað sumarið sem ég átti þar heima en það verk var ekki á allra færi, ódaunninn var slíkur að flýja varð undir bert loft með stuttu millibili eins og opnast hefðu helheimar, eins og rotnandi lík í hverju öskulagi. Pabbi bar allt út úr baðstofunni og tók stafngluggann úr, síðan var sofið í heytótt í tvær nætur en á baðstofugólfið var borin ný taðaska.
Matthildur taldi sig ekki verða í vandræðum með að sjá um matseld í hlóðaeldhúsi
Bæirnir höfðu sterk áhrif á það fólk sem í þeim bjó og mótuðu svip þess, þeir réðu hvernig búshlutum var fyrir komið þar sem hver vistarvera var jafnframt geymsla og vinnustaður, í baðstofu og búri, hlóðaeldhúsi og skemmu og í bæjardyrum varð hver hlutur að vera á sínum stað, þar var engu um þokað og fólkið fylgdi þeim eftir, þeir voru heimilistækin. Allir höfðu þessir gömlu bæir líka húsaskipan en voru misstórir og fór það eftir stærð jarðarinnar og efnahag bóndans. Víða var þrifnaði ábótavant og sá það gestaugað glögga þó heimamenn fyndnu þar enga annmarka á. Þegar gengið var í bæinn lék straumur blandinnar lyktar manni um vit, mest bar á reykjarlyktinni þar sem voru hlóðaeldhús og gat orðið að fastelju ef eldur var illa falinn,í bland var þefur af rakri mold í lekabæjum, sótlykt úr eldhúsrjáfri og súr lykt úr búri, oft var innlokað loft í göngum, sérstaklega þeim sem voru samhlaðin og án rafta, það loft var mengað þef úr fjósi og af hundum sem bældu sig í göngum en hundar báru í sér stækan útiþef. Öllu þessu varð maður samdauna enda var ekkert að flýja, bærinn var heimilið, þar sem matast var og hvílst. Í sumum baðstofum var oft þungt loft þegar inn var komið þar sem forðast var að opna glugga vegna kulda en í þeirri vistarveru ægði öllu saman, matar og mannþef, þar voru þurrkuð plögg, jafnvel undir sér í rúmunum, þar var skæðaskinnið skorið á gólfi, gerðir nýir skór og stagað í garmana og saumaðar bætur, þar var unnið úr ullinni og tætt hrosshár, spunnið og fléttað og jafnvel þvegnir smærri þvottar, þar voru náttgögn undir rúmum sem menn tóku upp í rúmið til sín á nóttum þegar kastað var af sér vatni, kettir bældu sig ofaní brekánum og í sængum og þrifu sig þar, kannski nýkomnir neðan úr öskutroginu sem haft var í baðstofunni svo þeir gætu gert þar sín stykki á nóttum. Það var mikil vinna sem margar konur á sig lögðu að berjast gegn öllum þessum áleitna óþrifnaði og mjög víða sást furðumikill árangur þeirrar eljusemi.
Það er ekki í kot vísað í búrinu í Laufási
Í einum af næstu bæjum við Gil var fjósið til hliðar við baðstofuna og einfalt þil á milli gisið, þar naut fólkið þess að mikill ylur var í fjósi og því hlýrra í baðstofunni en ella. Væri autt rúm í baðstofu var algengt að hýsa þar lömb eða vanmetakindur og var þá gerð jata í öðrum enda rúmstæðisins, ylur var af þessum skepnum, fyrir kom að kálfar voru í auða rúminu um stundar sakir. Þegar Hannes stutti kom í baðstofuna í Húnavatnssýslu og sá folald í auða rúmstæðinu þá vildi hann ekki fallast á að um folald væri að ræða og sagði;
Þetta er ekki þriflegt grey,
Þetta er ljótur kálfur.
Enginn gefi honum hey,
hirði hann skrattinn sjálfur.
Sumum bæjum fylgdu draugar í einhverri mynd og átrúnaður og ekki þorði ég að gó augum að glugga á þessum bæjum, væri myrkur en gekk á snið við gluggana og barði þrjú högg á bæjarhurð, það var fullkristilegt, skrattinn var sagður berja tvö högg. Í lágum og þröngum torfbæjum hætti mönnum til að vera heimóttalegir, í lekalausum og velhýstum bæjum gengu menn uppréttari, þannig voru húsakynnin mótandi á manninn". (Fátækt fólk, Tryggvi Emilsson bls.234-237)
Daniel Bruun ferðaðist ásamt fríðu föruneyti um Ísland á árunum 1890-1910 og safnaði ómetanlegum heimildum um húsakost og líf þjóðarinnar sem finna má í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Myndin er af hlóðaeldhúsi á höfðingjasetrinu Melstað í Miðfirði.
Hús og híbýli | Breytt 3.4.2016 kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2015 | 15:38
Verðtryggingar glæpóið.
Hús og híbýli | Breytt 3.4.2016 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
25.11.2014 | 17:32
Afnemið verðtrygginguna.
Ef verðtryggingin er afnumin og lánastofnanir telja sig þurfa að hækka óverðtryggða vexti til að mæta því, þá blasir það við að þær þurfa jafngildi dráttarvaxta af öllum húsnæðislánum.
Það höfðu fáir ímyndunarafl til að sjá það fyrir að það þyrfti að borga fasteignalán 4 sinnum til baka hvað þá 9 sinnum. En eftir að reiknivélarna komu hafa almennir lántakar eitthvað annað að miða við en 0% og þá blasir glæpurinn við, en þetta vissu nátúrulega alltaf þeir sem settu upp svikamylluna.
![]() |
Fásinna að miða við annað en 0% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hús og híbýli | Breytt 3.4.2016 kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.7.2014 | 19:38
Kofar og kumbaldar.
Gereyðing gamalla húsa hefur lengi verið landlæg og er eftirtektarvert hvað Íslendingum er tamt að fyrirverða sig fyrir eigin byggingar, sérstaklega þær sem byggðar eru úr innlendu efni.
Á 20. öldinni voru jarðýtur látnar um að varðveita sögu torfbæjarins, svo rækilega að fáir hafa þannig bæ gist jafnvel ekki séð, sem þó var heimili flestra landsmanni í þúsund ár.
Þeir eru fáir sem vilja afturhvarf til liðins tíma, ef marka má íslenska orðræðu. Eitt af því sem notað er til að stytta leið í rökræðum er; "viljið þið kannski aftur í moldarkofana". Önnur stytting sem tengist húsum og er notuð þegar lýsa þarf óskapnaði er orðið steinkumbaldi".
Menntaskólinn Egilsstöðum
Núna í upphafi 21. Aldar virðist vera komið að því að steinkumbaldinn verði jarðýtunni að bráð víða í sveitum landsins. Allt sem minnir á hversdagslega notkun alþýðufólks á innlendu byggingarefni á síðustu öld er óðum að hverfa ofan í svörðinn.
Húsafriðun á Íslandi hefur í megin atriðum falist í að varðveita innflutt timburhús sem byggð voru á nýlendutímanum. Húsin hafa verið gerð glæsileg í sinni upprunalegu mynd og oft það fjarlægt í leiðinni sem notað var af íbúum til að lengja líftíma þeirra bygginga miðað við staðhætti, svo sem bárujárnið sem var nánast það eina sem landsmenn bættu við hönnun þessara húsa.
Sólhóll Djúpavogi
Það er ekki svo að moldarkofinn eða steinkumbaldinn séu endingarverri en innfluttu timbur húsin sem upphaflega urðu til fyrir erlendar aðstæður þar sem viður var til staðar. Einhvern veginn er það rótgróið í þjóðarsálina að líta fram hjá eigin byggingarefni þegar kemur að varðveislu húsa.
En rétt væri að hafa í huga orð hleðslumeistarans, Sveins Einarssonar heitins frá Hrjót, þegar kemur að byggingarsögulegum verðmætum. "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum".
Kannski á eftir að verða vitundarvakning með auknu vægi ferðaþjónustu, allavega má ætla að erlendum ferðamönnum þyki, auk náttúru Íslands, moldarkofar, steinkumbaldar og jafnvel bárujárnsklædd timburhús vera hluta af sjarma landsins.
Sænautasel var eitt haf kotbýlunum í Jökuldalsheiðinni, það þeirra sem var lengst í ábúð til ársins 1943. Íbúðarhús og gripahús voru sambyggð að hætti torfbæjarins. Húsin höfðu verið felld ofaní tóftina í stað þess að ryðja þeim um með jarðýtu. Því var tiltölulega auðvelt að endurbyggja bæinn árið 1993. Sænautasel er vinsæll áningastaður ferðamanna.
Lindarbakki á Borgarfirði-eystri var upphaflega byggður í formi þurrabúðar. Húsið er að þeirri stærð að það hefur varðveist inn í nútímann og er enn í dag notað sem íbúðarhús. Það má segi að húsið beri íslensk sérkenni á fleiri en einn veg, auk þess að vera úr torfi eru stafnarnir bárujárnsklæddir. Sennilega er þetta það mannvirki sem mest er ljósmyndað af ferðamönnum sem til Borgarfjarðar koma.
Steinsteyptar kirkjubyggingar má finna víða um land sem eru íslenskri byggingalist til mikils sóma. Það má sega að steinkumbaldinn ná listrænum hápunkti í kirkjunni. Eins og með öll listaverk sýnist sitt hverjum. Á myndinni er Egilsstaðakirkja en frá vissu sjónarhorni var haft á orði á byggingatíma hennar að hún minnti á sköllóttan Fljótsdæling.
Opinberar byggingar eru oft verðugir minnisvarðar steinsteypunnar. Ég er svo lánsamur að búa við svoleiðis listaverk. Menntaskólinn á Egilsstöðum umlykur íbúðablokkirnar í Útgarði sem sennilega myndu flokkast sem steinkumbaldar af Sovéskri fyrirmynd. En þessi húsaþyrping sýnir að steinkumbaldar geta farið vel í réttu samhengi.
Sólhóll á Stöðvarfirði hefur tvisvar á tæpum 90 árum gengið í endurnýjun lífdaga. Húsið var upphaflega byggt á Kömbum á Kambanesi, 1944 var það flutt á Stöðvarfjörð. Árið 2006 hafði ekki verið búið í húsinu í fjölda ára og það talið ónýtt. Þetta er annað bárujárnsklædda norska timburhúsið með nafninu Sólhóll sem ég hef komist kynni við, hinn Sólhóllinn er á Djúpavogi þar sem Matthildur mín er fædd og við bjuggum fyrstu 9 ár okkar búskapar. Bæði húsin eru staðarprýði og vinsælt myndefni ferðamanna.
Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og gömlu torfbæjunum.
Bærinn á Bóndastöðum er byggður í nokkrum áföngum, árið 1958 flyst búseta í Laufás sem er nýbýli úr Bóndastaðalandi.
Á Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá er líkast því að kastali hafi verið byggður úr steinsteypu. Íbúðarhús, útihús og hlaða byggð í hringlaga þyrpingu votheysturninn skarar upp úr einu horninu. Steinsteypt girðing umlykur trjá- og rabarbaragarð. Steinsteyptu húsin voru byggð í kringum eldra íbúðarhús sem byggt var 1882 úr rekavið.
Votheysturninn á Sandbrekku ber þannig merki að sennilegast hafi hann verið steyptur upp með skriðmótum, en þá voru steypumótin t.d. metri á hæð og færð upp jafnóðum og steypt hafði verið í og steypan sest. Dæmi eru um að heilu turnarnir hafi verið steyptir með þannig aðferð á einum degi.
Nýja íbúðarhúsið á Sandbrekku er byggt á árunum 1966-68. Teiknað af Teiknistofu landbúnaðarins og ber tíðarandanum þjóðleg merki.
Lítið fer fyrir stórum steinsteyptum beitarhúsum í landi Ásgrímstaða Hjaltastaðaþinghá, byggðum 1949. Húsin eru með hlöðu í miðju. Torf á timburþaki flest annað steinsteypt s.s. jötur.
Í steypumót hlöðu og votheysgryfju beitarhúsanna hefur sennilega verið notað nærtækt bárujárn.
Fjárhúsin með heyhlöðunni að bakatil, sem byggð var í flestum sveitum landsins um og eftir miðja síðustu öld eru nú óðum að verða tímanum að bráð. Víða hafa þau þó gengið í endurnýjun lífdaga sem ferðaþjónustu húsnæði. Við þessi hús stendur steypuhrærivélin enn í túnfætinum og melurinn með steypumölinni er á næsta leiti. Þessi hús eru í Hjaltastaðaþinghá.
Ps. Húsbyggingar úr mold og möl er barnaleikur ef reynslu þeirra sem kunna nýtur við, það var ekki fyrr en verkfræðin komst í spilið sem það varð flókið að koma upp þaki yfir höfuðið.
Hér má sjá tvö youtube myndbönd, annars vergar sjónvarpsþátt á RUV um það þegar Sænautasel var endurgert og hins vegar videoklippur um það hvernig steypa var hrærð á staðnum í hús á Djúpavogi.
![]() |
Horfin verðmæti hjartaskerandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hús og híbýli | Breytt 3.4.2016 kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2014 | 18:48
Heimsókn í heiðarbýli.
Það má kannski segja að síðuhöfundur hafai haft hús á heilanum um nokkurt skeið. Hápunktur þeirra hugleiðinga síðasta árið var án efa heimsókn í heiðarbýlið Sænautasel á Jökuldalsheiðinni sem getið var í "Sveppur og sjálfstætt fólk".
Síðasliðið haust, á meðan við mauluðum lummur og drukkum kaffi í boði Lilju í Merki undir þekjunni í Sænautaseli, kom það til tals hvað langan tíma og hvernig hefði verið staðið að endurbyggingu heiðarbýlisins.
Þeirri merkilegu sögu eru gerð skil í þessu myndbandi.
http://www.youtube.com/watch?v=4-FEFJQs_F4&feature=player_embedded
Hús og híbýli | Breytt 3.4.2016 kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2013 | 16:06
Draumar úr drullu.
Þegar litið er til þess hvað kostnaðurinn sem fylgir íbúðarhúsnæði er orðinn stjarnfræðilegur þá er ekki ólíklegt að skinsamlegast sé að grafa sér holu og bíða þar af sér svartanættið líkt og skógarbjörn sefur af sér skammdegið. Það versta við þá skinsamlegu ákvörðun er að það gæti þurft að sofa býsna lengi miðað við hvað verðtryggðar lántökurnar eru lífseigar. En aftur á móti gæti það komið til að reglugerðar farganið þvældist ekki fyrir byggingakostnaðinum ef hann er niður á við, þó er það aldrei að vita nema mætti koma við ákvæðum samræmdrar byggingareglugerðar efnahagssvæðisins og fasteignagjöldum yfir holu, allavega ekki útilokað að þar væri í það minnsta hægt að innheimta gistináttagjald.
Undanfarin blogg hefur mér verið húsakostur hugleikinn eftir að ég sá fréttir af því að vörugámar væru leigðir til búsetu í London og að þetta þætti álitlegur kostur fyrir ungt fólk á Íslandi því leigan væri ekki nema 60 þúsund krónur á mánuði. Þegar svo er komið að ódýrasta íbúðarhúsnæðið er 15 fermetra gámur frá Kína þá hlýtur eittvað að vera orðið bogið í veröldinni. Alla vega er reglugerðar farganið búið að svipta ungt fólk hugmyndafluginu til sjálfsbjargar Bjarts í Sumarhúsum. Þó ennþá megi finna í afkimum landsins fólk sem byggir hús án þess að spyrja Kóng né prest líkt og fréttir voru nýlega af frá Borgarfirði Eystra.
Máltækin segja "sjálfs er höndin hollust" og "hollur er heimafenginn baggi", en einhvern veginn hafa lög og reglugerðir þróast á þann hátt að flestu fólki er fyrirmunað að uppfylla þörf sína fyrir þak yfir höfuðið öðruvísi en að steypa sér í lífstíðar skuldir. Þetta hefur leitt til þess að alltaf verður það byggingarefni sem er hendinni næst torfengnara til notkunar því það þarf að uppfylla kröfur fjórfrelsisins innan lagarammans þannig að endingu er hægt að reikna tilbúnar gámaeiningar frá Kína sem ódýrasta kostinn.
Torfbærinn lætur ekki mikið yfir sér og þarf ekki að vera svo afleitur með nútímalegri hönnun og tækni.
Mágur minn spurði mig að því fyrir nokkrum árum þegar flutningar stóðu til hjá minni fjölskyldu úr höfuðborginni austur í fyrirheitna landið; "byggirðu svo ekki bara hús í snarheitum yfir ykkur fyrir austan?" Eftir að hafa jánkað því þá sagði hann; "þú verður ekki lengi að því, þú varst nú ekki nema 10 ár síðast er það?" Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki ennþá komið því í verk að byrja á húsinu þrátt fyrir að nær því 10 ár séu liðin frá því þetta samtal átti sér stað.
Á verganginum hérna í Noregi hef ég verið að vinna undanfarna daga í húsum sem flytja á í u.þ.b. 6 mánuðum eftir að framkvæmdir við þau hófust. Þessi hús kosta ekki nema um 115 milljónir einbýlishúsið og um 60 milljónir parhúsíbúðin að öllum kúnstarinnar reglum uppfylltum. Þó svo að byggingartíminn sé stuttur þá hef ég hug á að halda mig við gamla lagið og komast með einhverju móti austur á land þó svo að núna þurfi ég að fara í vestur til að byggja draumafbæ úr drullu utan við lög og rétt.
Draumahallir nútímans sem uppfylla vottaðar kröfur reglugerðasamfélagsins eru yfirleitt það dýr design monster að ungafólkið verður að gera sér að góðu harðlem útgáfuna.
Reglugerða farganið þegar þak yfir höfuðið er annars vergar er komið á það stig að vert er að hafa varnaðarorð Vilhjálms Hjálmarssonar aldna héraðshöfðingjans í Mjóafirði í huga, sem sennilega hefur aldrei sótt um leifi til annars en sjálfs sín þegar kemur að húsaskjóli. En hann sagði; "þó svo Bakkabræður hafi stundað mögnuð heimskupör hefði þeim aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka". Sennilega hefði þeim ekki heldur dottið í hug að taka verðtryggt lán til að uppfylla lög og reglur.
Hús og híbýli | Breytt 18.1.2018 kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2013 | 20:13
Draumahallir og mykjuhaugar.
Það þætti sjálfsagt óðs manns æði að halda því fram að hagvöxturinn sé að fara með allt til helvítis. En gæti verið að það megi framkalla hagvöxt með verðhækkunum? Allavega virðist eitt mesta hagvaxtarskeið þessarar aldar hafa átt sér stað með því að blása út fasteignabólu sem ekki reyndist innistæða fyrir án þess að lánastofnanir fjármögnuðu hana. Eftir að bólan sprakk hafa skuldsettir íbúðaeigendur haldið uppi hagvexti bankanna þar sem þeir eru tregir til að færa niður verðmæti lána og þar með að lækka fasteignaverð.
Eins hefur ekki farið framhjá þeim sem standa í húsbyggingum, að á síðustu árum hafa verið settar íþyngjandi reglur bundnar í byggingareglugerðum sem hækka hjúsnæðisverð stórlega. Það hefur í raun verið sett margþætt lög um það að skjól fjölskyldunnar skuli halda uppi hagvextinum. Samræmdum reglum frá ESB er útbýtt og skulu þjóðir ESS einnig fara eftir regluverkinu. Þetta regluverk sýnir færni sýna þegar kemur t.d. að orkusparandi aðgerðum s.s. einangrun húsa. Jafnvel þar sem varminn er ódýr sem á Íslandi eru settar reglur svo ekki tapist varmaorka, þeim skal framfylgja jafnvel þó heita vatnið velli upp úr jörðinni utan við húsvegginn sem veita má inn í húsið með slöngubút. Einangrun sem halda á hitanum inni skal vera allt að 25 cm þykk.
Svona reglur sem eru íþyngjandi fyrir almenning efla aftur á móti hagvöxt. Á Íslandi mun nýja byggingareglugerðin hreinlega stórhækka hitunarkostnað þetta kunna gömlu verkfræðingarnir betur að skýra, sjá hér. Ef einhver heldur að þetta sé eitthvað rugl þá er þessum reglum nú þegar framfylgt hér í Noregi sem á samt gnægð orkugjafa s.s. afgangs gas til að hita upp hús almennings því sem næst frítt. Nú er unnið að því að innleiða samræmdu ESB reglugerðina einnig á Íslandi.
Svona hefur hagvöxturinn verið trekktur áfram m.a. í gegnum byggingariðnað þannig að nú er svo komið að fólki endist ekki ævin til að greiða fyrir sómasamlegt þak yfir höfuðið og er þá ein lausnin að bjóða ungu fólki upp á Kínverska iðnaðargáma til búsetu fyrir 60 þús á mánuði. Það er af sem áður var að ungu fólki gagnist aðferðir Bjarts í Sumarhúsum, það að fara til óbyggða með skófluna að vopni og koma sér þar upp þaki án þess að uppfylla skyldur sínar við hagvöxtinn. Það má kannski segja að einhver millivegur megi vera á torfkofa og ströngustu reglugerðum, en það ætti aldrei að vera millivegur á því að þakið á að þjóna heimilinu en ekki regluverki hagvaxtarins.

Undanfarið ár hefur annað slagið komið til þess að við Afríku höfðinginn Juma höfum haft þann starfa að lagfæra gamla Samíska kofa, eins og mátt hefur lesa um á þessari síðu. Juma sagði mér frá húsi sem hann byggði sem barn í Sudan ásamt sínu fólki en þar var byrjað á að búa til múrsteina með því að hræra saman í vatni, kúamykju, sandi og mold sem sett var í nokkhverskonar kökuform sem svo þornaði í sólinni eins og drullukökur. Síðan var hlaðið hús úr skorpnum drullukökunum og veggir pússaðir. Þegar hann heimsótti heimahagana áratugum seinna þá svaf hann vært í þessu húsi sem hann sagði að hefði verið eins og nýtt.
Þarna var notuð sama aðferð í pússningu og steina, þ.e. er blanda af vatni, leir, sandi og kúaskít. Hann sagði að þeir sem hefðu peninga ættu það til að nota sement og sand í pússninguna. En skítur úr grasbítum hefur þann eiginleika að innihalda trefjar sem binda saman sandinn og leirinn. Eins sagði hann mér að ef svona hús væru hvítmáluð þá væri það gert með því að brenna vissa trjátegund og blanda öskunni sem er skjannahvít út í vatna og bera í þurra taðpússninguna.
Það er erfitt að sjá það fyrir sér að ungu fólki liðist að byggja þaki yfir höfuðið nú til dags með því að notast við skóflu, steina og torf án þess að eiga það á hættu að lenda á Hrauninu fyrir það að hundsa reglugerðir hagvaxtarins. Hvað þá ef því dytti í huga að notast við drullukökur úr mykju þá væri sennilega orðið stutt í hvítu sloppana. Eftir athuganir á netinu fann ég heimildamynd á youtube um það hvernig mykjuhaugur verður að draumahöll án þess að það kosti krónu. Ef einhver endist til að kynna sér myndina til enda þá má sjá að mykjuhaugur getur þar að auki orðið að samfélagslegu listaverki.
Hús og híbýli | Breytt 18.1.2018 kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2013 | 07:17
Skýjaborgir í skuldafjötrum.
Hús hafa leitað á hugann að undanförnu eins og sjá mátti á þessari síðu um svepp og sjálfstætt fólk. Kannski ekki alveg að ástæðulausu því auk þess að hver manneskja þurfi þak yfir höfuðið þá hefur síðuhöfundur haft atvinnu af áhugmálinu allt frá barnæsku þ.e.a.s. kofabyggginum. Það hafa orðið á undanförnum árum gríðarlegar afturfarir í húsbyggingum þó svo að þær séu skreyttar með orðunum þróun og framfarir.
Það er svo komið að sá sem ætlar að byggja sér þak yfir höfuðið fær nánast engu um það ráðið nema þá kannski hvar hann hengir upp fjölskyldumyndirnar. Flest annað hefur verið njörvað niður í reglugerðum réttarríkisins til að gæta öryggis þegnanna þannig að engin fari sér að voða né valdi öðrum tjóni. Þegar aðrir eru svo hugulsamir að skipuleggja svona nokkuð fyrir náungan þá kostar það náttúrulélega sitt þannig að skuldir hafa margfaldast á örstuttum tíma. Fólki er ætluð ævin til að greiða þakið yfir höfuðið.
Leiguverð hefur samfara þessu farið úr öllum böndum án þess að sá sem leigir sitt húsnæði komist nálægt því að hafa upp í lántökukostnaðinn sem húsnæðinu fylgir. Greint var frá því í íslenskum fjölmiðlum á dögunum að ungt fólk byggi alsælt í 20 feta gámum í London fyrir aðeins 60 þúsund á mánuði. Gámur sem er 20 fet er ca. 15 fermetrar og helsta ástæða þess að hægt var að bjóða upp á svona hagstæða leigu var að gámarnir voru fluttir frá Kína.


Hús og híbýli | Breytt 18.1.2018 kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2013 | 19:25
Frímúrarinn
Það hefur blundað í mér í áratugi að skrifa hugnæma ritsmíð um steypu. Fyrir margt löngu bar ég þessi hugðarefni undir góðan vin sem ráðlagði mér eindregið frá þesslags skrifum. Hann sagði að ef svo vildi til að einhver nennti að lesa þá steypu, myndi sá hinn sami sennilega komast að þeirri niðurstöðu að höfundurinn væri kolruglaður.
Það gerðist núna í sumar að á mínum vinnustað, þar sem sement er haft um hönd, að verkfræðingur kom hvað eftir annað til að spjalla. Mér datt fyrst í hug að hann væri að forðast inniveruna með því að gera sér erindi út í sólina til að ræða steypu. Svo kom að því einn daginn að hann kom himinlifandi og tilkynnti að hann væri kominn í sumarfrí sem hann ætlaði að nota við að gera upp gamalt hús sem hann hafði fest kaup á í nálægri sveit sér til frístundagamans. Mér datt í hug án þess að hafa orð á því, til að skemma ekki stemmingu augnabliksins, að þessi verkfræðingur hefði betur lært múrverk, þá væri hann alltaf uppnuminn í fríi.
Það finnst kannski ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá. Það virðist verða æ algengara að samfélagsgerðin slíti alfarið á milli staðar og stundar eða kannski réttara sagt frí- og vinnutíma. Þetta hefur orðið til þess að ný fíkn hefur fæðst sem má með réttu kalla fjarverufíkn.
Einn kollegi minn spurði mig einu sinni hvort ég vissi hvers vegna svona erfitt væri að hætta sem múrari. Hann hafði haft fyrir því að tæknimennta sig með ærnum tilkostnaði til að losna við steypuvinnu en allt kæmi fyrir ekki í múrverkið væri hann kominn aftur jafnharðan. "Já veistu ekki út af hverju það er" sagði ég og svaraði honum svo að bragði; " það er vegna þess að menn eins og við eru með steypu í hausnum".
Aftur hugsaði ég með steypunni nú í sumar þegar ég vann um tíma með norskum kolleiga sem hefur söðlað um og stundar nú verkfræðinám. Hann ljómaði dag hvern í sumarsólinni, starfsgleðin geislaði af honum við það að vera kominn aftur í gamla starfið í sumarfríinu sínu, límdur við stað og stund. Þegar það kom til tals hvers vegna hann legði það á sig að sitja í háskóla árum saman til að öðlast verkfræði gráðu þá tjáði hann mér með áhyggjuglampa í fjarrænum augunum að hann ætti sér draum. Þessi draumur snérist í grófum dráttum um að komast til Brasilíu og byggja sér sumarhús við hafið.
Til þess að gera sér léttara fyrri ætlaði hann að komast í vellaunaða verkfræðingsstöðu einhversstaðar í dreifðum byggðum N Noregs þar sem þar að auki væri skattfríðindi í boði fyrir það eitt að vilja búa þar kalda vetur í skammdegismyrkrinu. Safna þar góðum sjóði meðfram afborgunum af námslánunum og komast svo sem hálaunaður pensjónisti með sjóðinn alla leið til Brasilíu ásamt reglulegum eftirlaunagreiðslum og byggja svo þar drauma húsið.
Í fljótfærni varð mér á að spyrja, "þér hefur ekki dottið í hug að fara strax til Brasilíu". Kolleginn svarað fálega; "þú segir nokkuð". Þetta hefði ég betur látið ósagt, því þó svo ég hafi alltaf gengið með steypu í hausnum þá er ekki víst að aðrir geri það.
Fyrsta minningin voru múrsteinar foreldrana sem byrjuðu á því að byggja ca. 40 m2 hús sem kallað var Hábær, en varð síðan bílskúrinn við Bjarkarhlíð 5 á Egilsstöðum. Steyptu vikursteinarnir sem gægjast upp úr snjónum hafa orðið að ævintýri lífs míns, ekki einu sinni Zorro sverðið og hvelhettubyssan sem var fjögurra ára afmælisgjöf standa upp úr, enda urðu hvellhetturnar fljótlega búnar og sverðið brotið í pússningasandhaugnum undir snjóskaflinum.
Þrjú systkini fyrir framan Hábæ á steyptri gólfplötu, ásamt félaga af hæðinni f.v. Áskell, Magnús, félaginn Héðinn og Dagbjört, síðar bættist Björg við í skúrinn en Sindri ekki fyrr en húsið að Bjarkarhlíð 5 var komið í gagnið. Á þessari mynd má sjá að ég hef ég verið búin að taka upp þann sið sem hélst fram eftir aldri, þ.e.a. mæta til múrverks í spariskónum. Nú hafa reglugerðarpésarnir komið því þannig fyrir að öryggisskór, gul vesti og plasthjálmur kveða á um tilverurétt á byggingastað.
Stoltir hæðarstrákar við fyrsta og eina þriggja hæða húsið á Hæðinni, f.v. Siggi Halldórs sem sennilega hélt að hann væri ekki á myndinni, Magnús, Sissi Halldórs, Hjörtur Jóa og sennilega er Dóri Halldórs á hlaupum til að komast inn á myndina sem Jóhann Stefánsson tók.
Múrsteinarnir okkar Matthildar.
Mynstruð og lituð steinsteypa fór vel við múrsteinana okkar Matthildar.
Arin fyrir eldinn telst til múrverks, sem og mynstruð steypa í gólf.
Yfir 10 ára tímabil átti mynstruð steypa hug minn allan, þar má líkja eftir náttúrunnar steinum með litum og formum.
Á árunum 1993-1998 var þrisvar farið til landsins steypta USA til móts við 200 kolleiga á workshop. Þar voru sett upp svæði og menn sýndu listir sínar. Eitt skiptið duttu út fyrirfram ákveðnir sýnendur og íslensku víkingarnir voru óvænt manaðir til að hlaupa í skarðið. Þá kom sér vel að hafa rúnina Ægishjálm á heilanum til að móta og lita í steypuna. Því miður á ég ekki mynd af íslenska Ægishjálminum okkar í Ameríku, eða kannski sem betur fer þegar þetta tígulsteinaverk innfæddra er haft til hliðsjónar.
Það er líka hægt að lita sementsbundin flotefni sem notuð eru við afréttingu steyptra gólfa.
Það má hreinlega gagna af göflunum í að lita og reykspóla flotgólf, þetta tilraunagólf gerðum við Mallands félagarnir fyrir Pizza 67 á Egilsstöðum 1998.
Eins er hægt að lita múrblöndu á veggi, þá er það kallað "stucco" upp á Ítalskan máta. Þessa veggi gerði ég 2003 fyrir skemmtistað sem kallaðist Kapital og var í Hafnarstræti.
Grjót hefur verið fúgað frá fornu fari, þessir steinar voru fúgaðir fyrir Minjavernd þegar Geysishúsið á horni Aðalstrætis og Vesturgötu gekk í endurnýjun lífdaga 2003.
Epoxy er einskonar plastmúrverk sem mikið er notað í fiskverkun og annarri matvælavinnslu. Með rekstri fyrirtækisins Mallands flæktumst við félagarnir frá Djúpavogi um allt land með okkar epoxy og jafnvel víðar um veröldina.
Epoxy árin komust næst því að geta kallast þægileg innivinna sem var þó leiðinleg til lengdar, ekki síst vegna þess að þá komst maður næst því að neyðast til að vera í nýpússuðum spariskónum vegna svokallaðrar markaðsettningar. Sjávarútvegssýningar urðu alls þrjár sem staðnar voru í sparifötum.
Listamenn eiga það til að steypa. Þessar kúlur múruðum við félagarnir frá Egilsstöðum fyrir listakonuna Lilju Pálmadóttir sumarið 2002 í portinu á milli Gamlabíós og Hótels 101 við Ingólfsstræti. Ingibjörg systir hennar lét vinna þetta verk þegar Alþýðuhúsið við Hverfisgötu gekk í endurnýjun lífdaga, þar sem hún naut aðstoðar Hrólfs Gunnlaugssonar múrarameistara varðandi allt múrverk úti sem inni.
Þennan svan gekk ég fram á í Skuggahverfinu s.l. sumar, mundi eftir að hafa klesst honum á vegg fyrir 10 árum. Ekki man ég nafnið á listamanninum sem átti hugmyndina, en þetta var á meðan ég vann undir verndarvæng Hrólfs sem var nokkhverskonar spari múrari hjá latteliðinu í 101.
Þennan heiðursmann hjálpaði ég listakonunni Steinunni Þórarinsdóttir að jarðsetja á horni Vesturgötu og Aðalstrætis fyrir Menningarnótt 2003. Jón Ársæll maður Steinunnar birtist með kappann á vörubílspalli á föstudagsmorgni, brá kaðli um hálsinn á honum og hann var hífður á sinn stall. Þetta þóttu óvirðulegar trakteringar en ef ég man rétt þá heitir verkið "...að moldu skaltu aftur verða". Eins og sjá má er kappinn alveg að bugast. Snemma á mánudeginum eftir menningarnótt mátti sjá verkið fullkomnað. Gamall slitin Laisy Boy stóll hafði verið settur aftan við kappann, sem lýsti vel einskærri hugulsemi.
Kannski voru það steinarnir í orminum hans Hrings Jóhannessonar myndlistamanns á kaupfélagsveggnum á Egilsstöðum sem kveikti áhugann við að lita stein í steypu. En fyrir 40 árum síðan sátum við þrír pollarnir sunnan undir KHB bröggunum og hjuggum til steina með múrhömrum fyrir Hring í þessa miklu mynd .
Í "gróðærinu" 2006 og 2007 byggðum við kollegarnir á Egilsstöðum nokkur hreinræktuð múrhús og nutum til þeirra verka starfskrafta pólverja. Það má með sanni segja að eftir þá gullöld hafi margur íslendingurinn þurft að leggjast í víking og feta í fótspor pólskra kappa.
Það góða við múrverk er að steina má finna um víða veröld, þessa steina dunduðum við Afríkuhöfðinginn Juma okkur við að rífa niður og endurhlaða í samísku fjósi sem er staðsett í Evenesmarka ,N Noregi.
Sól, skúta og viti, Norsk sprunguviðgerð með flísum í hinu eilífa sumarfríi á Harstad Camping.
Hún snýst nú samt, Stokksnes 1989.
Við leifar musteris Salómons, sjálfan grátmúrinn, með Guðmundi Björnssyni múrarameistara. Árin 1997-1998 var tekið þátt í útrásarverkefni í Ísrael við að leggja epoxy gólf fyrir Gyðinga. Í landinu helga náði ég meir að segja að halda dagbók af og til, svo sérstök var veran þar. Í þau skipti sem ég hef reynt að koma þessum dagbókarbrotum í tölvutækt form hefur tölvan hrunið svo ég hef tekið því sem fyrirboða um að oft megi satt kyrrt liggja.
Mallands félagar, Gísli Sigurðarson, Magnús og Karl Elvarsson, á Indíánaslóðum í Arizona.
Þetta er nú að verða meiri steypan.
Hús og híbýli | Breytt 27.2.2019 kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.10.2013 | 19:58
Sveppur og sjálfstætt fólk.
Sænautasel á Jökuldalsheiði
Ljúfir liðu dagarnir á landinu bláa núna í september heimsókninni. Mikið var mig búið að hlakka til og ekki yrði veðrið látið spilla fyrir andaktinni þó svo að blési hressilega með kafaldsbil til fjalla í nokkra daga. Svo tilbreytingasnautt getur lognið í Norsku fjörðunum verið til lengdar að maður saknar norðan nepjunnar.
Það var strax í fokkernum á flugi austur sem fyrirheitið um frábæran tíma framundan leit morgunsins ljós. Þann bjarta laugardagsmorgunn, þegar skýhnoðrarnir að sunnan liðu hjá á flugi yfir Öskju, mátti sjá út Jökuldalsheiðina allt útundir bláma Vopnafjarðarins, Ánavatnið langt og mjótt tvískipt með veiðitanganum í miðju kóngablátt sem Sænautavatnið og nefndu það. Innan um steinana í öræfaauðninni voru rollur eins loðnir hnoðrar ásamt skjannahvítum álftunum, sem innan um stórgrýtið vörpuðu löngum svörtum skuggum á gular sandöldurnar litðar af morgunnsólinni. Akkúrat þarna á fluginu í fokkernum mundi ég eftir því hvað ég þyrfti að gera áður en vindar haustsins blésu rollurnar á kaf og ég fyki aftur yfir himin og haf.
Það gerðist nefnilega núna í sumar að við Súdanski höfðinginn Juma vorum sendir upp í Bláfjöll til að aðstoða gamlan Sama hann Karstein við að endurbyggja jarðhýsi sem hafði verið notað til að geima mat fyrr á tíð. Þetta var á stað sem heitir Vilgesvárre sem er úr alfaraleið, án rafmagns og allra nútíma þæginda. Eftir 4 km labb upp í Bláfjöll frá næsta vegslóða komum við í nokkhverskonar Múmíndal þar sem Samísk stórfjölskylda hafði búið í torfbæjum í 4 ættliði. Þetta voru forfeður Karsteins en nú hefur dalurinn verið gerður að Samísku safni.
Karstein hafði ekki tíma til að stoppa lengi, skildi okkur eftir og fór niður í byggð með hreindýrabóndanum Nils sem hafði flutt Karstein og búnaðinn á fjórhjóli. Hann þurfti að komast niður til að skrifa tímaskýrslu vegna vinnu frá sumrinu áður þar sem aðstoðarmaður hans frá því þá væri hreint að gera hann brjálaðan vegna þess að Samasafnið sem heldur utan um ríkisstyrkinn sem fjármagnar endurbygginguna vildi ekki greiða honum launin frá fyrra sumri nema gegn tímaskýrslu. Forstöðukonan sem hefði með þetta að gera væri fyrir munað að átta sig á því að hann væri ekki 18 ára lengur, heldur 63 ára, og því af sem áður var þegar hann gat leikandi verið á tveimur stöðum í einu. En nú þyrfti hann auk þessara tveggja að fara til jarðarfarar og læknis daginn eftir. Tímaskin Sama virðist því vera heldur fjölbreyttara en á Jökuldalnum í denn þar sem sagt var til lítils væri að gefa úr í fermingagjöf, betra væri að gefa dagatal.
Áður en Karstein fór til byggða kom það fram hjá hreindýrabóndanum Nils að það væri óvíst hvenær hann gæti skutlað honum aftur fótalausum upp í Bláfjöll, hann þyrfti nefnilega að fara í hreindýrasmölun á fjórhjólinu. Mér varð á að spyrja Nils hvað hann ætti mörg hreindýr en þá brosti hann bara og hvarflaði augunum á Karstein. Ég spurði hvort það væri eins með samíska hreindýrabændur og íslenska hrossabændur að þeir þættust aldrei vita hvað stofninn teldi. Karstein leit djúpt í augun á mér um leið og hann sagði alvarlega; að þetta hefði ekkert að gera með íslenska hesta. Maður spyr einfaldlega ekki Samískan hreindýrabónda svona spurningar frekar en ég spyrði þig að því hvað mikið þú eigir inn á bankabókinni þinni, sagði hann. Eftir þetta steinhélt ég kjafti, enda ekki yfir miklu að gorta. En í kveðjuskini benti Karstein okkur Juma á hlaupandi rollu í hlaðvarpanum sem ekki væri góður fyrirboði.
Mig var búið að hlakka mikið til þessa verkefnis ekki síst vegna þess að við áttum að gista í torfbæ á meðan á því stæði, sem var eitthvað sem gaman væri að upplifa. Þar að auki var ég talsvert spenntur að vita hvaða áhrif algert rafmagnsleysi hefði á sálina en það hafði ég heyrt að gæti verið þess virði að veita eftirtekt. Torfbærinn sem við gistum í var ekki stór kannski ca. 5.5 m X 3m sem skiptist í tvö rými annað þar sem komið var inn á moldargólf með steinhellum í gangveginum og svo inn af því stærra rými með timburgólfi sem hafði að geyma tvö rúmstæði sem stóðu meðfram vegg gafl í gafl, annað 1,70 m á lengd hitt 1,75, gamla viðareldavél, borð og tvo stóla, veggir og loft voru borðaklædd. Pottar og önnur eldhúsáhöld héngu upp um veggi, hvorki rennandi vatn né salernisaðstaða var í húsakinnunum. Okkur kom saman um að Juma fengi lengra rúmið því hann væri stærri þar sem hann slagar í 1,90 m.
Það er skemmst frá því að segja að rafmagnleysið hafði þau áhrif á sálina að það var eins og öll mörk á milli himins og jarðar hyrfu, svona eitthvað svipað og að vera undir stjörnubjörtum himni og ætla að telja stjörnurnar. Þar sem ég lá andvaka í rúminu hans Ola í Vilgesvarre, sem var húsbóndi einni öld fyrr í þessu húsi, liðu samtöl og myndir í gegnum hugann sem ég henti ekki nokkrar reiður á. Um miðnættið heyrði ég fótatak sem mér fannst nálgast millihurðina sem var fram í rýmið með moldargólfinu. Ekki opnaðist hurðin en fótartakið hélt áfram að heyrast og fyrir rest gat ég staðsett það í lausu lofti rétt fyrir ofan rúmgaflinn. Þá heyrðust skruðningar og hvít flyksa rann fram hjá glugganum í veggnum á móti en krafsaði sig svo upp í glugga tóftina aftur og ég horfðist í augun við rollu í gegnum stráin þar sem hún var á beit í gluggakistunni.
Torfbærinn og jarðgeimslan í Vilgésvarre með rabarbaragarðinn á milli
Það var loks af fjórum nóttum liðnum í torfbænum að reiða komst á andvöku óráð rafmagnsleysisins. Eftir að við Juma skildum við Karstein eftir árangurlausar tilraunir við að endurbyggja hálfhrunið jarðhýsið með bíltjakki, járnkalli og kúbeini, þar sem hvorki var viðkomið samískum galdri né Afríkönsku vúúddúi hvað þá hugmyndaflugi minnislauss múrarameistara, að menn urðu þó sammála að lokum um að Afríkanar og Samar hugsuðu í hringi þó svo að ekki yrði það til að endurgera 150 ára jarðhýsi. Rabarbaragraut höfðum við í matinn á hverjum degi, Juma brosti út undir eyru eftir að hafa smakkað það góðgæti í fyrsta sinn og sagði "jæja mister Magnús héðan förum við allavega ekki fyrr en rabarbaraakurinn er búinn".
Það gerðist reyndar fyrir tilviljun að við stoppuðum við lítið upplýsingaskilti til að hagræða hryggsekkjunum á heimleiðinni, að skyndilega fengu samtöl og myndir andvökunáttanna samhengi. Á þessu skilti stóð að John Johnsen og hans kona Kirsten Andersdatter hefðu tekið sig upp 1868 og flutt til fjalla í leit að jarðnæði. Þau, börn þeirra og barnabörn hefðu svo byggt sér torbæi í dalverpinu í Bláfjöllum sem þau nefndu Vilgesvarre. Þar hafði stórfjölskyldan búið allt til ársins 1958. Það var sem sagt akkúrat þarna sem Jökuldalsheiðin kom inn á radarinn.
Skömmu eftir að Fokkerinn var lentur á Egilsstöðum fór ég að taka eftir því að sveppur hafði tekið sér bólfestu í hugum fólks við að keyra upp hagvöxtinn, allavega meðal iðnaðarmann og ekki laust við að gamli fiðringurinn kæmi í fingurna þó svo að ekki sé enn farið að setja staðla um sveppafrítt múrverk. Votihvammur var með smiðum upp á þaklausum húsum að störfum við að fjarlæga óvættinn fyrir haustrigningarnar. Eins var búið rífa heilt hús við Laufásinn og byrjað á nýju 300 fermetra a la 2007. Þannig að húsin í gamla bænum líta út eins og gorkúlu þyrping við húsveggi sveppafríu hallarinnar. Eins mátti heyra í útvarpsauglýsingum að byggingavöruverslunum var einstaklega umhugað um heilsufar fólks og buðu upp á sveppapróf á tilboðsverði.
Mér varð hugsað til afa míns, nafna og vinar sem bjó síðasta æviskeiðið í þeim hluta bæjarins sem hefur hús sem nú þykja orðin óíbúðarhæf, algerlega grunlaus um það að hann byggi í eitursveppi. Þarna bjó hann sæll í sínu húsi og taldi sig hafa öðlast allsnægtir með skuldleysi við Guð, kaupfélagið og bankann leifandi sér þann luxus að kynda húsið yfir 20°C. Oft áttum við Magnús afi minn skemmtileg samtöl um fyrri tíð, þar á meðal húskost. Einu sinni spurði ég hann að því hvort það hefði ekki verið notalegt að búa í torfbæ. Ég held ég muni svarið orðrétt; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn". Hann sagði mér frá lekanum í haustrigningunum og myglunni sem fylgdi rakanum. Foreldrar hans börðust bæði við berkla með tilheyrandi fátækt en tókst samt að halda heimili sínu saman sem taldi fimm barna hóp. Afi vildi meina að húskinnin hefðu átt stærstan þátt í heilsubresti fyrri ára.
Vallaneshjálega ein af endurbyggðu baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar
Í 1. tlbl. 5.árg. Glettings 1995 gerði Guðrún Kristinsdóttir, hjá safnastofnun Austurlands, húsakosti á Héraði skil á fyrri hluta 20 aldar í greininni "Baðstofurnar hans Jóns Sigvaldasonar". Jón var faðir Magnúsar afa míns og hafði smíðar að ævistarfi. Í erindi Guðrúnar kemur fram að Jón hafi oft verið fengin til að færa gömlu torfbæina til nútímalegra horfs með sínu sérstaka lagi. En þetta gerði hann með því að byggja tvílyft timburhús inn í tóft eldri baðstofa með háan, járnklæddan timburvegg fram á hlaðið sem hafði útidyr og glugga, með járni á þaki sem tyrft var yfir, bakveggir og stafnar héldu sér úr torfi og grjóti. Það kemur fram í grein Guðrúnar að heimili Jóns, gamli torfbærinn í Tunghaga, hafi verið síðast baðstofan sem hann endurbyggði árið 1934. Sannast kannski þar hið fornkveðna að iðnaðarmaðurinn lætur endurbætur við eigið hús ævinlega sitja á hakanum, nema þá að lífsbaráttan hafi verið með þeim hætti hjá smiðum í þá daga að allt varð til að vinna við að afla heimilinu lífsviðurværis. En fram kemur í samantekt Guðrúnar ;"Jón vann fram á síðasta dag við fjósbyggingu á Höfða á Völlum, en veiktist af lungnabólgu er hann kom heim og dró hún hann til dauða 5. júlí 1936".
Skömmu eftir að Jón Sigvaldason endurbyggir baðstofuna í gamla torfbænum í Tunghaga flytur Magnús elsti sonur hans í Jaðars húsið í Vallanesi með rolluskjáturnar sínar til ungu ekkjunnar eftir sr Sigurð Þórðarson og æskuvinkonu sinnar, Bjargar ömmu. Jaðar var einn fyrsti herragarðurinn á Íslandi byggður af séra Magnúsi Blöndal sem var einn af umdeildari Vallanesprestum. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11. október 1970 bls. 32 má lesa grein um Jaðar þar sem vitnað er í skrif Þórhalls Bjarnasonar biskups yfir Íslandi eftir yfirreið hans um Austurland 1912; Þar er presturinn sr. Magnús Bl. Jónsson, búinn að byggja íbúðarhús, sem ólíklega á "nokkurn maka að hugvitsamlegu og meistaralegu fyrirkomulagi í smáu og stóru". - Segir biskup að sér hafi dottið í hug að hér væri í byggingu verulegur herragarður í líkingu við herragarða í þjóðmenningarlöndum "til gagns og sóma og fyrirmyndar lýð og landi".
Jaðar
Á Jaðri var hátt til lofts og vítt til veggja, húsið steinsteypt, svo kalt á vetrum að ekki voru tök á að kynda öll þau salarkynni í stofuhita. Sjálfur fékk ég að kynnast hrollköldum herragarðinum í Jaðri þegar ég var barn í sveitini hjá ömmu og afa. Eins man ég eftir að hafa komið í eina af baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar bjartan sumarmorgunn og fundist hún notaleg en það var í Vallaneshjálegu. Það er ekki að undra að afi hafi talið sig búa við lúxus eftir að þau amma fluttu á Selásinn á Egilsstöðum þar sem hæglega var hægt að halda 20°C stofu hita án þess að eiga á hættu að stofna til skulda. Líklegast gildir annað um sveppinn sem nú ríður verðtryggðum röftum, varla verður honum útrýmt án skuldsetningar út yfir gröf og dauða ólíkt því sem gerðist með gömlu torfbæina.
Annars er þessi hagvaxtar sveppur einkennilegur þegar hugsað er til þess að skuldir fóru ekki saman við sjálfstætt fólk á Íslandi í denn. En það má kannski segja að Nóbelsskáldið Laxness hafi komið okkur íslendingum í skilning um að okkur væri ekki ofgott það besta og að rakakær myglu sveppur í þakskegginu væru ekki eitt af því. En ég upplifði það andvökunæturnar í skuggsælum torbænum Vilgesvarre að rakinn er sínu hvimleiðari en rafmagnleysið og jafnvel fónandi fyrir skuldleysið.
Vegna þessara óráðs hugrenninga á slóðum Samana í sumar ákvað ég einn sólskinsmorguninn í septemberheimsókninni að halda á vit ævintýra, um leið og mér var litið inn Héraðið sem skartaði spegilsléttu Lagarfljóti allt innundir Snæfell. Kanna íslenskan torfbæ með því að fara á slóðir þess sjálfstæða fólks sem Halldór diktaði upp forðum. Leiðin skildi liggja í Sænautasel á Jökuldalsheiði, en landnámi þeirrar heiðar byggðar lýsir hennar helsti fræðimaður Halldór Stefánsson sem svo; "Byggð þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri."
Í tímaritinu Glettingi 11. árg. 1.tbl. segir Hallveig Guðjónsdóttir Dratthalastöðum á úthéraði frá kynnum af sínum nágrönnum í Sænautaseli en hún er fædd í Heiðarseli á Jökuldalsheiði.
Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var.
Það má kannski segja að Nóbelskáldið hafa kennt Íslendingum að steypa sér í skuldir og gera gis að sjálfstæðu fólki. Allavega notar nútíminn sjálfstæði Bjarts í Sumarhúsum oft til háðungar í umræðu manna á meðal.
Eldhúsið í Sænautaseli
Við Matthildur mín brunuðum semsagt inn á Jökuldalsheiði á sólskinsbjörtum septemberdegi alla leið í Sænautasel. Þegar þangað var komið stóð á upplýsingaskilti að síðasti opnunardagur hefði verið daginn áður. Alltaf erum við jafn fyrirhyggjusöm, sagði Matthildur, förum allra okkar ferða án þess að leita upplýsinga, með engin plön og ef við erum á ferðinni á ókunnum slóðum þá höfum við ekki einu sinni landakort. Þetta skiptir engu máli, sagði ég hughreystandi, við hringgöngum pleisið og fáum okkur svo kaffi þegar við komum heim. Þar að auki hefur aldrei verið til vandræða að rata með sól í heiði. Þegar við komum heim að gamla bænum smeygði sér óðamála köttur út um dyragættina með þessar líka ekki litlu móttökurnar og bauð okkur í bæinn, þannig að allavega færi ekki svo að við hefðum ekki komið inn í Íslenskt heiðarbýli. Þegar við komum út kom ókunnur maður heim að bæ og spurði hvort bærinn hefði staðið opinn, "kannski ekki beint en þessi höfðingi hér bauð okkur inn" svöruð við Matthildur einum róm og bentum á köttinn.
Þarna var kominn Dagur Jóhannesson frá Haga í Aðaldal, bróðir tveggja öðlinga sem ég kannaðist við, þeirra Völundar þúsundþjalasmiðs og Hrings heitins myndlistamanns. Dagur veitti okkur leiðsögn um bæinn því Sænautasel þekkir hann út og inn sagðist reyna að dvelja þar einhverja daga á hverju sumri. Hann sagðist hafa komið þarna við núna á sinni ferð vegna þess að hann hefði grun um að staðarhaldarinn Lilja í Merki ætti leið um, myndi þá hella upp á kaffi og steikja lummur. Eftir að hafa notið leiðsagnar Dags þar sem kötturinn fylgdi okkur við hvert fótmál fórum við að draga okkur til baka en þegar við vorum við gömlu fjárhúsin bættust tveir kettir við sem höfðu haldið sig í eldhúsinu þar. Þegar að við höfðum hvatt Dag fórum við yfir lækinn með kattastóðið í eftirdragi alveg að bílnum og greinilegt var að það ætlaði að komast með. Það var því ekki um annað að ræða en smala köttunum aftur heim í selið og troða þeim innum gluggann á lummueldhúsinu hennar Lilju og loka þá þar inni.
Þegar við vorum að fara í annað sinn renndu þær Lilja í Merki og Þóra Sólveig frá Borg farm í hlað, þannig að aftur var snúið í selið í kaffi og lummur og fjárhúsin skoðuð auk baðstofunnar í gamla bænum. Það var notalega værðarlegt að sitja með kaffibollan í gömlu torfhúsunum og hlusta á sunnanvindinn þjóta í grasinu á þakinu maulandi lummur. Stundum hefur belja verið höfð til sumardvalar í Sænautaseli og fyrir nokkrum árum var mjólkin úr henni notuð í lummurnar og út í kaffið. Þar til heilbrygðiseftirlit ríkisins komst að þeirri niðurstöðu að mjólkin úr kúnni samræmdist ekki reglugerðum ríkisins um gerilsneydda mjólk geymda við 4°C. Gaman hefði verið að fá útgáfu Nóbelsskáldsins á því sjálfstæða fólki heiðabýlisins sem hefði haldið gerilsneydda kú sem þar að auki fullnægði reglugerðum ríkisins. Kannski það hefði leigt skáldinu bollann og diskinn en gefið honum kaffið og lummurnar.
Þær voru notalegar stundirnar sem við Matthildur áttum með góðu fólki í Sænautaseli núna í september. Tilfinningin önnur en í andvökuóráð rakans í Vilgevárre tveimur mánuðum áður. Það sem er athyglivert við samanburð á Vilgésvárre og Sænautasel er m.a. það að bæði býlin eru byggð á svipuðum tíma. Sænautasel 1843 sem eitt af fyrstu heiðarbýlunum næst á eftir Háreksstöðum og var þar búið nær óslitið til 1943. Vilgésvarre er byggt 1868 og er búið þar til 1958, hátt í hundrað ár á báðum stöðum. Þannig virðist sama sjálfsbjargarviðleitni kvikna í hjörtum manna á svipuðum tíma og vera hrint í framkvæmd á tveimur ólíkum stöðum því fátt er líkt með Íslenskum öræfum og skógum Noregs. Saga heiðarbýlanna 16 á Jökuldalsheiði er stórmerkileg þessi byggð lagðist að mestu af í Öskjugosinu 1875 þegar fólkið þar flosnaði upp og margt af því fluttist til Ameríku.
Til að slá einhvern botn í þetta óráðshjal þá vil ég nefna það að það sótti ónota tilfinning að okkur Afríku höfðingjanum Juma í torfbænum í Vilgésvárre. Þessi tilfinning sem ásótti mig var svipuð tilfinningu fyrir 15 árum þegar við félagar í múrarastétt ferðuðumst um verndarsvæði Navaho indíána. Þannig var að að einn af okkur félögum vildi beygja af aðalveginum heim að skúraþyrpingu í eyðimörkinni þar sem fólk hafði búsetu en ég fékk á tilfinninguna að það væri betur látið ógert og lét félaga minn vita af því. Hann beygði samt og þegar við komum að fyrsta kofanum var enginn utandyra nema einn ca 5 ára gutti, skítugur, svarthærður og með snaran glampa í svörtum augunum. Hann hafði beðið okkar sallarólegur með hendur aftan við bak og steina í báðum sem hann lét dynja á gljáfægðum bílaleigubílnum þegar við renndum í hlað. Ég lét félaga minn vita með hasti að þarna ættum við ekki heima og allra síst í skemmtiferð við að skoða niðurlægt fólk. Það var 5 ára guttinn með grjótkastinu sem varð til að stökka okkur köppunum af víkingaættum á flótta í rykmekki á Pontiac Space Wagon. Hefðum kannski heldur látið tilfinninguna ráða sem ég fann um leið og beygjan var tekinn af aðalbrautinni.
Það má kannski segja að oft má satt kyrrt liggja og því hafi jarðýtan verið mest notaða verkfærið við að viðhalda minningu íslenska torfbæjarins við aðalbraut nútímans. Samt datt okkur Juma og Karstein í hug að nota járnkallinn við endurbyggja minninguna í Vilgesvárre, án nokkurs árangurs. Hvort sem jarðýta eða járnkall eru til þeirra verka nitsamlegust þá er eitt víst að í óráðinu í sumar endurómuðu orð afa míns sterkt í hugskoti mínu; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn".
Magnús Jónsson fyrir framan Selás 26
Í stórmerkilegri og nýútkominni Skriðdælu bls. 210 "Þuríðarstaðir í Dölum 1899; lýsir Hrólfur Kristbjörnsson (1884-1972) bóndi á Hallbjarnarstöðum í Skriðdal því þegar hann réð sig sem ársmann þá 13 ára gamall, að bænum Þuríðarstöðum sem stóð þar sem kallað er í Dölum upp með Eyvindaránni ofan við Egilsstaði, skömmu áður en komið er að Mjóafjarðarheiði. Þessi frásögn hafði áður birtst í Glettingi 8.árg. 1. tbl. 1998.
Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að lýsa, heldur húsakynnin.
Bærinn á Þuríðarstöðum stóð á brekkubrún dálítið hárri, og vatnið þurfti að sækja nokkuð langt út fyrir tún, í brunn sem stundum þornaði , og þurfti þá að sækja vatnið ofaní Eyvindará.
Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju.
Það er ekki að undra að mannlýsingar á því fólki sem lifði ævina við slíkar aðstæður til að halda sínu sjálfstæði skuldlausu við Guð og menn hafi verið skorinortar.
Í Lesbók Morgunblaðsins 1.árg 1927 má m.a. finna stutta mannlýsingu á Steindóri Hinrikssyni í Dalhúsum sem stóðu dálítið neðar við Eyvindaránna en Þuríðarstaðir, nær Egilsstöðum. Mannlýsingin er örstutt úr viðtali sem Guðmundur Friðjónsson skáld á Sandi tók í Reykjarvíkurferð Steindórs á gamals aldri.
Þessi maður er lágur í lofti og hvatlegur, orðskár og djarfur í framgöngu, veðurbarinn, kvistur kynlegur.
Og undir lok viðtals;
Nú fyrst lít ég á hendurnar, er hann réttir fram þá hægri til kveðju. Þær eru iðjumerktar og hafa á sér orrustueinkenni, sigg og þá snerpu, sem lífsbaráttan lætur eftir sig til minja. Skeggið er grófgert, og líkt því sem garnsel þeim, sem hefur legið uppi á ís og kafað karpaðan sjó. En augun í karlinum leiftra og úr þeim hrjóta gneistar íslenskrar hörku. Og allir limir þessa öldurmennis leika á als oddi fjörs og fimleika.
Og þó hefur hann engar æfingar stundað, aðrar en þær sem honum hafa í skaut fallið á útigangi þeim sem íslensk náttúra hefir haft á boðstólum.
Þeim sem hafa komist svona langt í að stauta sig í gegnum þetta óráðshjal, læt ég eftir að hugleiða hvernig sú mannlýsing verður orðuð um þá af okkar kynslóð sem barist hafa í skuldafjötrum við sveppinn á milli þess sem þeir brugðu sér í ræktina.
Ps. Hér má sjá myndir frá Sænautaseli og Vilgesvárre.
Hús og híbýli | Breytt 26.1.2017 kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)