Frá torfbæ til tölvualdar

IMG_5146

Elsta gerð íbúðarhúsa hér á landi eru svo kölluð langhús, sem höfðu einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið, þetta var húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til Íslands. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Gott dæmi um þennan stíl er þjóðveldisbærinn Stöng í Þjórsárdal. Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaðið. Þannig sköpuðu Íslendingar sér sína eigin húsagerð í gegnum aldirnar, torfbæinn, sem átti sér varla hliðstæðu annarsstaðar, en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld. Þá tók önnur íslensk gerð húsa við þar sem uppistaðan er áfram íslenskt jarðefni, það er steinsteypan.


IMG_5152Íslensk húsagerð hefur heillað mig svo lengi sem ég man enda hefur leikur og starf verið helgað húsum það sem af er æfi. Steinsteypa er það byggingarefni sem hefur hefur átt hug minn allan tímunum saman. Síðustu ár hef ég gert mér ferðir í sveitir til að skoða steinsteypt hús fyrri tíma þar sem regluverk hefur ekki verið að þvælast fyrir andaktinni og komist að því að margur steinsteypti sveitabærinn hefur tekið mið af torfbænum hvað húsaskipan varðar, s.s. með því að hafa innangengt í fjós úr íbúð. Þegar ég var í Noregi gat ég ekki látið hjá líða að leggja leið mína í langhús, en það var á víkingasafninu Borg á Lófóten í Hálogalandi. Íslenskir torfbæirnir eru ekki lengur á hverju strái en rústir þeirra má sjá víða sem grænar þústir í landslagi og er þá oft staldrað við. Eins höfum við Matthildur mín skoðað uppistandandi torfbæi saman en hún hefur látið sig dreyma um að búa í einum slíkum á meðan orð Magnúsar afa míns bergmála í mínum eyrum „minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn“.

IMG 2637

Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og gömlu torfbæjunum


Í sumar heimsóttum við Laufás í Eyjafirði sem er fornt heldrimannasetur, en úr bænum fluttu síðustu íbúarnir árið 1936. Fyrir nokkrum árum skoðuðum við Sænautasel sem er heiðarbýli og myndi flokkast sem kotbær miðað við Laufás. En sögur fara af því að hugmyndir af sögusviði Sjálfstæðs fólks hafi kvikknað hjá Laxness á Jökuldalsheiðinni og kom Halldór m.a. í heimsókn á Sænautasel þegar hann var að skrifa bókina. Það hefur verið mikill munur á koti og höfðingjabýli þó svo að hvoru tveggja hafi verið byggt úr torfi. Sú lýsing sem mér finnst passa hvað best við þær hugmyndir sem afi minn og nafni gaf mér um lífið í torfbæ má finna í bók Tryggva Emilssonar Fátækt fólk, en Tryggvi ólst upp í Eyjafirði og Öxnadal og hefur verið samtíðarmaður afa míns, eiga þeir það sameiginlegt að hafa alist upp í torfbæ í sitthvorum landshlutanum á fyrstu áratugum 20. aldarinnar.

Tek ég mér það bessaleyfi að láta lýsingu Tryggva á húsakosti í Öxnadalnum fara hér á eftir um leið og ég mæli með því að þeir sem ekki hafa þegar lesið Fátækt fólk verði sér út um bókina, sem er mögnuð lýsing á lífsbaráttu almúgafólks á Íslandi fyrir ekki svo ýkja löngu síðan.

"Flestir voru bæirnir hlaðnir úr torfi og grjóti og þökin tyrfð, framstafnar voru burstmyndaðir af standþiljum, og „hvít með stofuþil“. Þar sem best var að fólki búið voru baðstofur þiljaðar í hólf og gólf, á nokkrum bæjum voru þil bakatil við rúmin en annars staðar naktir torfveggir og súð, þar bjó fátækasta fólkið.

IMG_1830

 Sænautaselsbaðstofan ásamt áföstum útihúsum

 

Útihúsin voru öll hlaðin úr sama efni og bæirnir, það voru lágreist hús, fjósin heima við bæina en fjárhús og hesthús oftast í útjöðrum túna og voru fjárhúsin að jafnaði staðsett þar sem best lá við að hleypa fé í haga. Önnur bæjarhús en baðstofan voru óþiljuð víðast hvar, búr og eldhús, göng og skemmur, veggir voru víðast grjóthleðsla í einnar alinnar hæð og síðan klömbruhnausar með strengjum á milli og mold til uppfyllingar, víða voru þess hús manngeng út við veggi með nær alinnar rishæð. Stafnveggir voru hlaðnir í ristlögum og var höfð hella undir endum á mæniásnum en síðan reft af þeim ás og niður á vegglægjur. Vegglægjur og mænirás voru venjulega þverhandar þykkt tré ferköntuð, oft var ásinn sverari, jafnvel fimm sex tommur og úr rekaviði, eins var með rafta að í þá var keyptur rekaviður ef um hann var að gera, á sumum bæjum var hrístróð undir torfi á þökum.

IMG_5183

 Bæjargöngin í Laufási á björtum sumardegi

 

Erfitt var að halda þessum bæjum hreinum og tókst misjafnlega, krabbar og skúm sóttu í dimma afkima, moldarmmylgringur sáldraðist um búr og göng úr veggjum og þaki, sótfok var í eldhúsi en heyryk og veðraslæðingur barst inn um öll göng allt til baðstofu. Þar sem innangengt var í fjós áttu beljur leið um göng og bæjardyr ef engin var útihurðin á fjósinu, og svo háttaði á Gili en þar rak ég beljuna sem hraðast út úr bænum svo henni gæfist ekki tími til að leggja frá sér í göngin en ekki dugði það til í hvert sinn. Víða voru þökin lúalek og það svo að lækur rann fram göngin og því var oft tjörn í bæjardyrum sem lágu lægra en hlaðið, væri trassað að ausa vatninu út, fraus á pollinum og þá voru svellalög inn öll göng. Margir notuðu hlóðaösku til að þurrka upp lekavatnið og til marks um þrálátan leka í baðstofu er ein saga úr Geirhildargörðum, þá bjó ég á næsta bæ, Fagranesi, og bræddi kúamykju í lekastaði á þaki en það var algeng þrautarlending.

IMG_5169

 Þessi baðstofa er engin kotungs kytra, enda Laufás heldrimanna híbýli

 

Á Geirhildargörðum hefur sennilega verð léleg torfrista og leirkennd og kom það fram á þökum sem illa héldu vatni, baðstofan á þessum bæ var sílek og til þess að þurrka upp það vatn á gólfin settist var notuð hlóðaaska. Þegar Jón Sigurbjörnsson kom að Geirhildargörðum og settist þar að í baðstofu þótti honum furðu lágt undirloft og því tók hann sig til og stakk út úr baðstofunni. Gólfskánin sem gerð var að mestu leiti úr ösku, var samþjöppuð á milli rúma en lausari í sér undir rúmunum. Hæfilegt þótti Jóni að stinga út eina skóflustungu og það gerði hann og hafði það ráð þar sem skánin var hörð eins og grjóthella, að hann flagaði upp skánina. Þegar stungin var sem svaraði einni skóflustungu þótti Jóni bónda bregða undarlega við en þá kom hann niður á timburgólf fornt sem enginn vissi að vera ætti í þessari baðstofu. Gott þótti Jóni að fá pallinn en aldrei varð hann hvítskúraður í Jóns tíð og eins þó dreift væri á hann sandi í hvert sinn að þvegið var.

Dæmið frá Geirhildargörðum var ekki einsdæmi og til þess vissi ég að stungið var út úr baðstofum þykkt öskulag þó ekki kæmi pallur í ljós. Á Gili var stungið út úr baðstofunni annað sumarið sem ég átti þar heima en það verk var ekki á allra færi, ódaunninn var slíkur að flýja varð undir bert loft með stuttu millibili eins og opnast hefðu helheimar, eins og rotnandi lík í hverju öskulagi. Pabbi bar allt út úr baðstofunni og tók stafngluggann úr, síðan var sofið í heytótt í tvær nætur en á baðstofugólfið var borin ný taðaska.

IMG_5166

 Matthildur taldi sig ekki verða í vandræðum með að sjá um matseld í hlóðaeldhúsi

 

Bæirnir höfðu sterk áhrif á það fólk sem í þeim bjó og mótuðu svip þess, þeir réðu hvernig búshlutum var fyrir komið þar sem hver vistarvera var jafnframt geymsla og vinnustaður, í baðstofu og búri, hlóðaeldhúsi og skemmu og í bæjardyrum varð hver hlutur að vera á sínum stað, þar var engu um þokað og fólkið fylgdi þeim eftir, þeir voru heimilistækin. Allir höfðu þessir gömlu bæir líka húsaskipan en voru misstórir og fór það eftir stærð jarðarinnar og efnahag bóndans. Víða var þrifnaði ábótavant og sá það gestaugað glögga þó heimamenn fyndnu þar enga annmarka á. Þegar gengið var í bæinn lék straumur blandinnar lyktar manni um vit, mest bar á reykjarlyktinni þar sem voru hlóðaeldhús og gat orðið að fastelju ef eldur var illa falinn,í bland var þefur af rakri mold í lekabæjum, sótlykt úr eldhúsrjáfri og súr lykt úr búri, oft var innlokað loft í göngum, sérstaklega þeim sem voru samhlaðin og án rafta, það loft var mengað þef úr fjósi og af hundum sem bældu sig í göngum en hundar báru í sér stækan útiþef. Öllu þessu varð maður samdauna enda var ekkert að flýja, bærinn var heimilið, þar sem matast var og hvílst. Í sumum baðstofum var oft þungt loft þegar inn var komið þar sem forðast var að opna glugga vegna kulda en í þeirri vistarveru ægði öllu saman, matar og mannþef, þar voru þurrkuð plögg, jafnvel undir sér í rúmunum, þar var skæðaskinnið skorið á gólfi, gerðir nýir skór og stagað í garmana og saumaðar bætur, þar var unnið úr ullinni og tætt hrosshár, spunnið og fléttað og jafnvel þvegnir smærri þvottar, þar voru náttgögn undir rúmum sem menn tóku upp í rúmið til sín á nóttum þegar kastað var af sér vatni, kettir bældu sig ofaní brekánum og í sængum og þrifu sig þar, kannski nýkomnir neðan úr öskutroginu sem haft var í baðstofunni svo þeir gætu gert þar sín stykki á nóttum. Það var mikil vinna sem margar konur á sig lögðu að berjast gegn öllum þessum áleitna óþrifnaði og mjög víða sást furðumikill árangur þeirrar eljusemi.

IMG_5167

 Það er ekki í kot vísað í búrinu í Laufási

 

Í einum af næstu bæjum við Gil var fjósið til hliðar við baðstofuna og einfalt þil á milli gisið, þar naut fólkið þess að mikill ylur var í fjósi og því hlýrra í baðstofunni en ella. Væri autt rúm í baðstofu var algengt að hýsa þar lömb eða vanmetakindur og var þá gerð jata í öðrum enda rúmstæðisins, ylur var af þessum skepnum, fyrir kom að kálfar voru í auða rúminu um stundar sakir. Þegar Hannes stutti kom í baðstofuna í Húnavatnssýslu og sá folald í auða rúmstæðinu þá vildi hann ekki fallast á að um folald væri að ræða og sagði;

Þetta er ekki þriflegt grey,

Þetta er ljótur kálfur.

Enginn gefi honum hey,

hirði hann skrattinn sjálfur.

Sumum bæjum fylgdu draugar í einhverri mynd og átrúnaður og ekki þorði ég að gó augum að glugga á þessum bæjum, væri myrkur en gekk á snið við gluggana og barði þrjú högg á bæjarhurð, það var fullkristilegt, skrattinn var sagður berja tvö högg. Í lágum og þröngum torfbæjum hætti mönnum til að vera heimóttalegir, í lekalausum og velhýstum bæjum gengu menn uppréttari, þannig voru húsakynnin mótandi á manninn". (Fátækt fólk, Tryggvi Emilsson bls.234-237)

IMG_1943

Daniel Bruun ferðaðist ásamt fríðu föruneyti um Ísland á árunum 1890-1910 og safnaði ómetanlegum heimildum um húsakost og líf þjóðarinnar sem finna má í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Myndin er af hlóðaeldhúsi á höfðingjasetrinu Melstað í Miðfirði.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

 Takk fyrir frábæra grein.

Guðjón E. Hreinberg, 28.10.2015 kl. 03:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband