Færsluflokkur: Hús og híbýli

Torf og steypa

Gilhagi

Allt fram á 20.öld var torbærinn helsti íverustaður íslensks almennings en segja má að eftir það hafi steinsteypan tekið við sem algengasta íslenska byggingarefnið í gerð húsa. Það sem þessar tvær húsgerð eiga sameiginlegt er nærtækur efniviður, nánast má moka honum upp af jörðinni. Því er það svolítið undarlegt að þessum tvö byggingarefni hafi ekki verið notuð meira hvert með öðru en raun ber vitni því útkoman hefði getað orðið alíslensk hús, einstök á sinn hátt líkt og torfbærinn var um aldir. Það hefur lengi verið draumur minn að byggja torfbæ úr steypu og sameina þannig nútíma gæði steinsteyptra húsa og hversu vel torfbærinn fellur að umhverfinu.

Fyrir allmörgum árum þegar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun voru að komast á dagskrá tók ég nokkra kúrsa í Listaskóla Reykjavíkur. Þar kom fyrir að umhverfisspjöll við Kárahnjúka væru til umræðu í kaffipásum. Sem Austfirðing rann mér blóðið til skyldunnar að verja þessa stærstu framkvæmd íslandssögunnar, sem átti mjög undir vök að verjast hjá öðrum nemendum. Í þeim rökræðum spurði ég hvort þau vissu hvenær mestu umhverfisspjöll íslandssögunar hefði orðið? Án þess að svara þá vildu samnemendur mínir fá mína útlistingu á því. Ég svaraði þeim á þann veg, að þau þyrftu ekki annað en að líta út um gluggann til að sjá það, mestu umhverfisáhrifin á ásýnd landsins hefðu orðið þegar íslendingar skriðu upp úr torfbænum og fóru að byggja hús á yfirborði jarðar. Það er skemmst frá því að segja að þessi speki steindrap umræðuna um Kárahnjúka í það skiptið, enda var hún komin heim í löngu hruninn torfkofann. 

Underground-Home-2

Einhvernvegin svona gæti draumahúsið úr torfi og steypu litið út

Þrátt fyrir áhugann á steinsteyptum torfbæ og það að ég telji mig ráða yfir þekkingu til að koma hugmyndinni í verk þá hefur ekkert orðið af framkvæmdum og er ég farinn að efast um að hafa ráð og rænu á því eftir þetta, jafnvel þó svo að ég hafi yfir brekkunni að ráða sem tilvalin væri fyrir bæjarstæði. Kannski er það vegna rótgróins óorðs sem torbærinn hefur fengið á sig eftir sína þjónustu í meira en 1000 ár að ekki hafa verið byggð svona hús. Því rétt eins og fólkinu í listaskólanum, langar engan til að fá þann stimpil á sig, að verða þess hvetjandi, að skriðið verði aftur í torfkofana.

Helstu upplýsingar um torfbæi fyrir tíma tölvualdar hafði ég frá honum afa mínum, sem hafði búið í slíkum húsakynnum fram á þriðja áratug 20. aldar. Hann upplýsti mig um að torbærinn væri ekki eftirsóknarverður húsakostur. Tryggvi Emilsson gerði torfbæjarlífinu greinargóð skil í bókum sínum, en hann var samtíðarmaður afa míns og átti það sammerkt með honum að hafa alið manninn í torfbæjum fram eftir 20. öldinni. Í bókinni "Fátækt fólk" eru greinagóðar lýsingar á því hvernig torfbæjar lífið var.

Einnig er í bók Tryggva "Baráttan um brauðið" lýsing á því þegar hann og faðir hans flytja úr Öxnadal í Skagafjörð, nánar tiltekið Árnes í Lýtingsstaðahreppi, eftir að hafa gefist upp á búskap á Gili í Öxnadal; - "Á þessum glaðlega vordegi var mér efst í huga sá torfbær sem klúkti þarna á sléttum velli sunnan undir lágum hól og skaut stöfnunum móti vestri. Enginn var gluggi sjáanlegur, aðeins torfveggir hlaðnir úr klömbruhnausum, þakið var grasi vaxið með eldhússtrompi og mjóu reykröri til að anda um. Mér sýndist bærinn líkastur gamalmenni á bak að sjá. Var þetta þá allt og sumt, vistarveran í fyrirheitna landinu þar sem ég átti fyrir mér að vera vinnumaður upp á þrjúhundruð krónur? Ég hafði gert mér í hugarlund að þarna væri reisulegur bær. Mér varð litið út yfir sveitina og sá að allstaðar voru torfbæir með eldhússtrompum upp úr grasi grónum þökum, og það í svona sveit, rétt eins og þetta væri í Öxnadalnum sem er svo þröngur að fjöllin eru rétt til hliðar. En máski var þetta best þegar á allt var litið, ég hefði kviðið enn meira fyrir því að ganga inn í háreist hús með stórum gluggum og fínum stofum. Og þar sem ég sat á þúfunni fann ég til smæðar minnar og sá að ég var horkranki í slitnum og bættum fötum sem voru ekki einu sinni hrein, það var betra að berja að dyrum á gömlum torfbæ þegar til kom." (Tryggvi Emilsson / Baráttan um brauðið bls.10)

Reykhólasveit

Þarna lýsir Tryggvi innanverðum Skagafirði árið 1920, það eru því ekki nema tæp hundrað ár síðan að heilu sveitirnar á Íslandi höfðu ekki annan húsakost en torfbæina. Hinn danski Daniel Bruun var brautryðjandi í rannsóknum menningarminja á Íslandi og fór ásamt leiðöngrum sínum um landið á árunum 1890-1910. Þessari rannsóknarvinnu má m.a. þakka að til eru bæði teikningar og ljósmyndir af íslenskri byggingarlist og menningu. Er þessu gerð góð skil í bókunum "Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár".

Gilhagi Sgagafirði

Leiðangursmenn Daniels Bruun í hlaðinu á Gilhaga í Skagafirði

 

Gilhagi teikning

 Útlitsteikning af húsaskipan í Gilhaga

 

Gilhagi grunnmynd

Grunnmynd af Gilhaga

 

Núna á 21. öldinni er ekki nokkur ástæða fyrir núlifandi íslendinga að fyrirveðra sig vegna gömlu torfbæanna, enda fáir á lífi sem í þeim hafa búið. Miklu frekar væri að hefja þá til vegs og líta með virðingu til þeirrar fortíðar sem gæti skapað einhverjar umhverfisvænstu byggingar sem á jörðinni finnast.

 

eart-house plan

Grunnmynd af litlum steinsteyptum einstaklings torfbæ

 

Earth_house_interior1

 Útsýnið eins og það gæti verið úr steyptum torfbæ 21. aldarinnar


Tíðarandinn er hótel

IMG_2446

Þessa dagana stendur yfir stækkun Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði. Verið er að auka herbergjafjöldann úr 26 í 47, sem verða í sjálfstæðri byggingu við hliðina á aðalbyggingunni. Aðalbyggingin er gamli Franski spítalinn, sem byggður var af samtökunum Société des hôpitaux français d'Islande árið 1903, fyrir franska sjómenn sem sóttu Íslandsmið. En þessi samtök létu einnig byggja spítala í Vestmannaeyjum og í Reykjavík. Árið 1939 var húsið flutt að Hafnarnesi sem stendur við sunnanverðan Fáskrúðsfjörð. Fyrir tæpum sjö árum var sögu Franka spítalans á Hafnarnesi gerð skil á þessar síðu, sem má sjá hér.

Franski spítalinn austur

Húsið hefur nú verið reist alls þrisvar sinnum við Fáskrúðsfjörð því það var flutt aftur austur fyrir fjörðinn og fékk hlutverk vorið 2014 sem hótel, veitingastaður og safn. Minjavernd hf tók ákvörðun um að standa að endurbyggingu Franska spítalans á Fáskrúðsfirði árið 2008. Haustið 2011 var hafist handa við að taka niður húsið þar sem það stóð úti á Hafnarnesi, mér er það sérstaklega minnisstætt vegna þess að ég sá hve mikill sjónarsviptir var af því þegar það bar ekki lengur við Skrúðinn. Á árunum 2012, 13 og 14 fór svo endurbyggingin á Fáskrúðsfirði fram ásamt tveim öðrum húsum hinu megin við götuna, því Fosshótel Austfirðir er ekki eitt hús heldur þyrping gamalla húsa.

Við múrarnir höfum verið mikið á Fáskrúðsfirði í vetur og þar á meðal í nýbyggingunni við Franska við að múrhúða veggi, flota gólf og flísaleggja. Nýbyggingin er steinsteypt með nútímalegum hætti en allt útlit og frágangur er í stíl við gamla Franska s.s. bárujárnsklæðning á útveggjum, gamlir gluggar og betrekkslögð herbergi með plankaparketti sem gólfefni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég vinn í félagi við þá í Minjavernd, því á árunum upp úr 2000 vann ég með þeim í gamla Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu sem varð 101 Hótel, gamla Geysishúsinu á horni Aðalstrætis og Vesturgötu, og Gimli í Lækjarbrekku.


Af sem áður var

Það er kannski ofrausn að nota Airbnb könnun til að hæla Íslendingum sérstaklega fyrir gestrisni, og gera það að fyrirsögn fréttar. Það er nefnilega þannig að þegar Airbnb íbúð er tekin á leigu þá hittir gesturinn sjaldnast gestgjafann, heldu fær hann aðeins talnaröð af boxi sem geymir lykilinn af hinu leigða, svo hann komist þar inn, eftir að hann hefur gengið frá greiðslu á netinu. Það væri frekar að hæla Airnb íbúðaeigendum fyrir að útbúa húsnæði sitt svo vel að það þóknaðist sem flestum erlendum gestum.

En hvað um það svona hefur þetta ekki alltaf verið varðandi gestrisni Íslendinga þegar kemur að húsnæði, þó svo ekki séu kannanir sem staðfesta það aftur í aldir. Í bók rithöfundarins Charles Edmond, sem hann skrifaði eftir að hann kom til Íslands ásamt franska prinsinum Jerome Napoleon árið 1856, má lesa eftirfarandi;

Frederick W.W. Howell

Húsakynni íslensku þjóðarinnar eru léleg. Bóndinn gerir bæ sinn úr hraungrjóti og rekavið. Þakið er úr torfi. Dyrnar eru svo lágar, að menn verða að beygja höfuð og bak, er inn er gengið, og er þá komið í dimman og þröngan gang. Hægra megin er svefnherbergi, sameiginlegt fyrir alla, karla, konur, húsbændur og þjónustufólk. Vinstra megin er búr, þar sem matarforði er geymdur, veiðafæri og vinnutæki. Eldhúsið er innst. Bygging þessi er einföld; fjórir steinar á gólfi og op á þakinu, þar sem reykurinn fer upp. Þetta er einasti staðurinn, þar sem eldur er gerður. Hið lélega brennsluefni, er landið leggur til, nægir tæplega til matargerðar. Á veturna hita menn sér með því að þrýsta sér hver upp að öðrum. Að undanteknum hinum ríku íbúum höfuðborgarinnar eða nokkrum verslunarstjórum þekkja íbúarnir ekki trégólf. Gólfflöturinn í kofunum er ber og óhreinn. Græn mygla þekur þá að innan.

Húsgögnin bera vitni um skort og vöntun efnis. Rúmið er samsett úr fjórum fjölum, illa telgdum saman, og þykk ábreiða yfir. Sætin eru kýrhausar, er skinn hefur verið tekið af, eða skammel, gerð úr hvalbeinum. Loftið sem menn anda að sér í þessum kofum, er skaðvænt. Hin beiska lykt af þurrkuðum fiski blandast saman við óþefinn af þráu lýsi og hinni vondu lykt af súrri mjólk. Húðirnar af nýslátruðu sauðfé, dýrablóðið, er menn láta storkna í skálum til þess að blanda því saman við fæðu, allt þetta hefur þau áhrif á útlendinginn, er hann hættir sér inn í landið, að hann vill heldur þola óblíðu loftslagsins en leita hælis í íslenskum sveitabæ.

Ennfremur er þetta haft á orði um Íslendinga;

Íslendingurinn er venjulega ljóshærður, sterkbyggður, en þunglamalegur. Augu hans eru athugul en framkoma kæruleysisleg og gangur hans slyttislegur. Hann er látlaus í athöfnum og orðum. Það er sjaldgæft, að viðkvæm tilfinning endurspeglist í andlitsdráttum hans. Örlög hans hvíla þungt á honum. Það er eins og hann bogni undan þessum þunga,,. Hann er örlagatrúarmaður. Hann ber þessa trú utan á sér, í andlitssvipnum.

Búningur Íslendingsins svipar til andlits hans. Hann ber ekki vitni um neina gleði eða ímyndunarafl. Þegar hann er í landi, er hann klæddur heimagerðum jakka, ofnum úr svartri ull, sem nefnist vaðmál. Á höfði ber hann barðastóran hatt. Skór hans eru gerðir úr mjúku skinni, og eru reimaðir. Þegar hann fer til sjós, fer hann í yfirhöfn úr svörtu skinni, sem þorskalýsi hefur gert regnhelt.

Íslensku konurnar, ljóshærðar og grannar, mundu vera fagrar, ef hið sama farg hvíldi ekki á þeim og karlmönnunum. Andlitssvipur þeirra andar blíðu og auðsveipni. Þær eru rólyndar, þöglar, iðnar við vinnu sína, feimnar og hlédrægar í háttum sínum. Búningur þeirra er peysa úr svörtu vaðmáli og pils úr sama efni, sem hnígur í stórum fellingum. Ungu stúlkurnar gera fléttur úr hári sínu í sveigum og festa upp í hnakkanum. Fyrir ofan ennið bera þær á höfði litla, svarta prjónahúfu, sem lagar sig eftir höfðinu, en langur silkiskúfur liggur niður með eyranu. Giftu konurnar vefja höfuð sín marglitum klút, sem nær upp fyrir hvítt léreft, svo að höfuðbúnaður þessi minnir á rómverskan hjálm. Á hátíðisdögum er efni þetta breytilegt að fínleika og litskrauti. En búning þennan skreyta lykkjur, hnappar, krókar og doppur og skartgripir úr gylltu silfri sem eru haglega gerðir í sjálfu landinu og mönnum þykir ánægja að vegna aldurs og einkennilegrar lögunar í gotneskum stíl eða byzantískum.

Haldi svo einhver að höfuðborgin hafi státað af hámenningu  fyrr á öldum þá má lesa þetta í lýsingum William Hooker á Reykvíkingum við komuna þangað, sem eru í bók sem út kom í London 1810 eða 1811 um ferðasöguna;

Reykjavík

Nokkrum klukkustundum eftir að við höfðum gefið ljósmerki, sáum við, að bátur með nokkrum hafsögumönnum nálgaðist okkur. Það gladdi okkur að sjá einhver ný andlit, þótt mennirnir væru óþrifalegir og óþefur af þeim. Þeir voru svo skrýtnir, að við hentum að því mikið gaman. Þeir voru flestir breiðleitir og ekki sérlega ljóslitaðir. Flestir voru þeir lágvaxnir, en einn eða tveir þeirra voru fremur háir, ég held varla undir 6 fetum. Sumir þeirra voru síðskeggjaðir, en aðrir ekki meira skeggjaðir en svo, að það gátu verið leifarnar eftir raksturinn með bitlausum hníf eða skærum. Hárið var alveg óhirt, enginn kambur hafði snert það, og féll niður á bak og herðar í flókum, og sást greinilega í því vargurinn og nitin, sem hefst sífellt við á þessum hluta líkamans þegar hreinlæti er vanrækt. Í viðræðum virtust þeir vera mjög örir og höfðu allmikinn handslátt og höfuðburð. En þegar eitthvað var sagt við þá eða þeim boðið eitthvað sem gladdi þá, létu þeir ánægju sína í ljós með því að klóra sér og strjúka sig ákaflega og með því aka sér. Þessir vesalingar gleyptu matvælin, sem við gáfum þeim, með mikilli græðgi. Þeir eru mjög vel tenntir og bruddu harðasta kex okkar, svo það var meltanlegt á svipstundu,,.

Reykjavík saltfiskverkun

Á ströndinni, þar sem við lentum, var hraungrýti, svart á lit og sumstaðar molað, svo það var fínt eins og sandur. Þarna var skotið fram í sjóinn dálítilli flotbryggju úr furuplönkum, til þess að við blotnuðum ekki. Kringum hundrað Íslendingar, aðallega konur, buðu okkur velkomna til eyjar sinnar og ráku upp óp, þegar við lentum. Við gláptum ekki síður á þetta góða fólk en það á okkur. Nú var fiskþurrkunartíminn, og fólkið önnum kafið við að breiða, þegar við komum. Sumir voru að snúa fiski, sem breiddur hafði verið til þerris á ströndina. Annar hópur var að bera fisk á handbörum frá þurrkstaðnum og hærra upp á ströndina, en þar voru aðrir að hlaða honum í stóra stakka og báru á staflann stóra steina til að fergja fiskinn og gera hann flatann. Konur unnu mesta að þessari vinnu. Sumar þeirra voru mjög stórar og þreklegar, en ákaflega óhreinar, og þegar við fórum fram hjá hópnum, lagði megnan þráaþef að vitum okkar,,. (Úr, Öldin sem leið 1801-1860)


mbl.is Íslendingar sjöttu bestu gestgjafarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarframkvæmd

Á Fáskrúðsfirði er verið að byggja 2.400 m2 frystigeymslu sem á að vera tilbúin til notkunar í byrjun mars, en framkvæmdin hófst í nóvember. Húsið er innflutt stálgrindarhús sem byrjað verður að reisa í næstu viku. Þó svo að húsið sé stálgrind fara hátt í 2000 m3 af steypu í sökkla og plötur.  

Fyrsta vika ársins 2016 fór að mestu í steypuvinnu, hjá okkur múrurunum. Tveir af fjórum steypudögum vikunnar höfðu verið ráðgerðir á milli hátíða, en þar sem hvert óveðrið rak annað austanlands þá dagana varð ekkert af þeim. 

Spáð hefur verið frosti svo langt sem spár ná, því var ekki um annað að ræða en að klára útisteypur. Til þess að það tækist þurfti fjöldi manns að leggja á sig langa daga við járnbendingu og annan undirbúning. Þessar myndir eru frá því á föstudag.

 


Hús fortíðarinnar kostuðu ekki krónu

Sem betur fer koma stöðugt fram hugmyndir um ódýrara húsaskjól. Oftast koma þeir með athyglisverðustu hugmyndirnar sem tilheyra ekki byggingabransanum. Svo virðist vera í því tilfelli, þar sem helstir virðast vera tilnefndir athafnamaður í plastbátaframleiðslu og viðskiptalærður ölgerðarforstjóri sem vakti athygli á sér fyrir skemmstu með því að benda Færeyingum á að ekki mættu þeir nota nafnið Gull lengur yfir Færeyjabjórinn sinn sem þeir seldu á Íslandi, vegna reglna um skrásett vörumerki, þó svo að Færeyjabjórinn hefði mun lengur gengið undir nafninu Gull á Íslandi en gullið frá Ölgerðinni.

Ástæðan fyrir því að hús kosta ekki lengur krónu eins og var með torfbæina í denn er óhóflegt reglugerðarfargan. Þetta getur hver sem er sannreynt með því að fara út í móa og gera tilraun til að byggja sér þak yfir höfuðið. Þó svo að hann steypti það upp úr viðurkenndri steinsteypu í staðlaðri vörugámastærð er líklegast að það yrði brotið niður af yfirvöldum áður en hann lyki verkinu. Meiri líkur eru á að sá sem reyndi að sniðganga byggingareglugerðirnar kæmist upp með að búa í vörugámi sem plantað væri niður úti í móum, jafnvel í nokkur ár. En yrði samt að gera sér að góðu bréfaskriftir frá yfirvöld þar sem farið væri fram á að umræddur gámur yrði fjarlægður og stöðugjalds krafist þangað til.

Sennilega er afturhvarf til fyrri tíma í við húsbyggingar hagstæðast fyrir allan almenning hvað kostnað varðar því allar líkur eru á því að fólki yrði ekki skotaskuld úr því að byggja sér hús fyrir ekki svo mikið sem krónu. Ef fólk efast eitthvað um að svo megi vera þá ættu það að kynna sér videoið hér að neðan þar sem aðeins þurfti að greiða þorpshöfðingjanum tvær hænur fyrir byggingaleyfið. Allavega mætti segja að á Íslandi sætu allir við sama borð, hvað kostnað við reglugerðafarganið varðar, ef þeim yrði ekki gert að greiða ráðherra húsnæðismála nema tvær hænur fyrir byggingaleyfið en hefðu síðan frjálsar hendur að öðru leiti og hugmyndafluginu væri um leið leift að njóta sín.

 


mbl.is Hús framtíðarinnar úr plasti?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gámavæðing íbúðamarkaðarins

Það verður að teljast undarlegt þegar forstjóri mannvirkjastofnunnar ríkisins talar hvað eftir annað eindregið fyrir innfluttu íbúðarhúsnæði. Fyrir rúmu einu og hálfu ári talaða að hann fyrir því að ungu fólki yrði útvegað leiguhúsnæði í vörugámum innréttuðum í Kína. Nú akíterar hann fyrir innflutnings fyrirtækið IKEA um ágæti innfluttra gáma úr timbri sem stafla mætti saman copy-paste eins og hann orðar það. Athyglisvert er að ráðherra gefur svo IKEA fundinum vægi með nærveru sinni. 

Það ætti öllum hugsandi fólki að vera það orðið ljóst að markaðsöflin hafa tröllriðið byggingageiranum og íbúðarhúsnæði fyrir lifandi löngu orðið allt of dýrt Íslandi. Ef ráðherra og forstjóra Mannvirkjastofnunnar ríkisins er ekki nú þegar ljóst hvers vegna ættu þau að kynna sér málið á heimavelli því þar er um að kenna fjármagnkostnaði, reglugerðafargani og græðgi sem þrífst í skjóli ríkisins.

Það er löngu orðið ljóst að húsnæði úr íslenskum hráefnum byggt af íslendingum fyrir íslenskar aðstæður er ódýrara og endingarbetra. Aðeins með því að pakka reglugerðarfarganinu ofaní skúffu verður húsnæði úr innfluttum byggingarefnum álíka dýrt og úr innlendum.

Dæmi undanfarinna ára sína að þegar hús eru flutt inn í heilulagi er eins og ekki þurfi að fara eftir byggingareglugerð á sama hátt og þegar er um hefðbundnar húsbyggingar sé að ræða. Þetta hefur síðan oft á tíðum leitt til stórtjóns fyrir íbúðaeigendur. Eins og dæmin sann þar sem heilu hverfin af innfluttum einingahúsum hafa verið talin óíbúðarhæf vegna raka.


mbl.is Ódýr timburhús alvöru kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá torfbæ til tölvualdar

IMG_5146

Elsta gerð íbúðarhúsa hér á landi eru svo kölluð langhús, sem höfðu einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið, þetta var húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til Íslands. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Gott dæmi um þennan stíl er þjóðveldisbærinn Stöng í Þjórsárdal. Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaðið. Þannig sköpuðu Íslendingar sér sína eigin húsagerð í gegnum aldirnar, torfbæinn, sem átti sér varla hliðstæðu annarsstaðar, en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld. Þá tók önnur íslensk gerð húsa við þar sem uppistaðan er áfram íslenskt jarðefni, það er steinsteypan.


IMG_5152Íslensk húsagerð hefur heillað mig svo lengi sem ég man enda hefur leikur og starf verið helgað húsum það sem af er æfi. Steinsteypa er það byggingarefni sem hefur hefur átt hug minn allan tímunum saman. Síðustu ár hef ég gert mér ferðir í sveitir til að skoða steinsteypt hús fyrri tíma þar sem regluverk hefur ekki verið að þvælast fyrir andaktinni og komist að því að margur steinsteypti sveitabærinn hefur tekið mið af torfbænum hvað húsaskipan varðar, s.s. með því að hafa innangengt í fjós úr íbúð. Þegar ég var í Noregi gat ég ekki látið hjá líða að leggja leið mína í langhús, en það var á víkingasafninu Borg á Lófóten í Hálogalandi. Íslenskir torfbæirnir eru ekki lengur á hverju strái en rústir þeirra má sjá víða sem grænar þústir í landslagi og er þá oft staldrað við. Eins höfum við Matthildur mín skoðað uppistandandi torfbæi saman en hún hefur látið sig dreyma um að búa í einum slíkum á meðan orð Magnúsar afa míns bergmála í mínum eyrum „minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn“.

IMG 2637

Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og gömlu torfbæjunum


Í sumar heimsóttum við Laufás í Eyjafirði sem er fornt heldrimannasetur, en úr bænum fluttu síðustu íbúarnir árið 1936. Fyrir nokkrum árum skoðuðum við Sænautasel sem er heiðarbýli og myndi flokkast sem kotbær miðað við Laufás. En sögur fara af því að hugmyndir af sögusviði Sjálfstæðs fólks hafi kvikknað hjá Laxness á Jökuldalsheiðinni og kom Halldór m.a. í heimsókn á Sænautasel þegar hann var að skrifa bókina. Það hefur verið mikill munur á koti og höfðingjabýli þó svo að hvoru tveggja hafi verið byggt úr torfi. Sú lýsing sem mér finnst passa hvað best við þær hugmyndir sem afi minn og nafni gaf mér um lífið í torfbæ má finna í bók Tryggva Emilssonar Fátækt fólk, en Tryggvi ólst upp í Eyjafirði og Öxnadal og hefur verið samtíðarmaður afa míns, eiga þeir það sameiginlegt að hafa alist upp í torfbæ í sitthvorum landshlutanum á fyrstu áratugum 20. aldarinnar.

Tek ég mér það bessaleyfi að láta lýsingu Tryggva á húsakosti í Öxnadalnum fara hér á eftir um leið og ég mæli með því að þeir sem ekki hafa þegar lesið Fátækt fólk verði sér út um bókina, sem er mögnuð lýsing á lífsbaráttu almúgafólks á Íslandi fyrir ekki svo ýkja löngu síðan.

"Flestir voru bæirnir hlaðnir úr torfi og grjóti og þökin tyrfð, framstafnar voru burstmyndaðir af standþiljum, og „hvít með stofuþil“. Þar sem best var að fólki búið voru baðstofur þiljaðar í hólf og gólf, á nokkrum bæjum voru þil bakatil við rúmin en annars staðar naktir torfveggir og súð, þar bjó fátækasta fólkið.

IMG_1830

 Sænautaselsbaðstofan ásamt áföstum útihúsum

 

Útihúsin voru öll hlaðin úr sama efni og bæirnir, það voru lágreist hús, fjósin heima við bæina en fjárhús og hesthús oftast í útjöðrum túna og voru fjárhúsin að jafnaði staðsett þar sem best lá við að hleypa fé í haga. Önnur bæjarhús en baðstofan voru óþiljuð víðast hvar, búr og eldhús, göng og skemmur, veggir voru víðast grjóthleðsla í einnar alinnar hæð og síðan klömbruhnausar með strengjum á milli og mold til uppfyllingar, víða voru þess hús manngeng út við veggi með nær alinnar rishæð. Stafnveggir voru hlaðnir í ristlögum og var höfð hella undir endum á mæniásnum en síðan reft af þeim ás og niður á vegglægjur. Vegglægjur og mænirás voru venjulega þverhandar þykkt tré ferköntuð, oft var ásinn sverari, jafnvel fimm sex tommur og úr rekaviði, eins var með rafta að í þá var keyptur rekaviður ef um hann var að gera, á sumum bæjum var hrístróð undir torfi á þökum.

IMG_5183

 Bæjargöngin í Laufási á björtum sumardegi

 

Erfitt var að halda þessum bæjum hreinum og tókst misjafnlega, krabbar og skúm sóttu í dimma afkima, moldarmmylgringur sáldraðist um búr og göng úr veggjum og þaki, sótfok var í eldhúsi en heyryk og veðraslæðingur barst inn um öll göng allt til baðstofu. Þar sem innangengt var í fjós áttu beljur leið um göng og bæjardyr ef engin var útihurðin á fjósinu, og svo háttaði á Gili en þar rak ég beljuna sem hraðast út úr bænum svo henni gæfist ekki tími til að leggja frá sér í göngin en ekki dugði það til í hvert sinn. Víða voru þökin lúalek og það svo að lækur rann fram göngin og því var oft tjörn í bæjardyrum sem lágu lægra en hlaðið, væri trassað að ausa vatninu út, fraus á pollinum og þá voru svellalög inn öll göng. Margir notuðu hlóðaösku til að þurrka upp lekavatnið og til marks um þrálátan leka í baðstofu er ein saga úr Geirhildargörðum, þá bjó ég á næsta bæ, Fagranesi, og bræddi kúamykju í lekastaði á þaki en það var algeng þrautarlending.

IMG_5169

 Þessi baðstofa er engin kotungs kytra, enda Laufás heldrimanna híbýli

 

Á Geirhildargörðum hefur sennilega verð léleg torfrista og leirkennd og kom það fram á þökum sem illa héldu vatni, baðstofan á þessum bæ var sílek og til þess að þurrka upp það vatn á gólfin settist var notuð hlóðaaska. Þegar Jón Sigurbjörnsson kom að Geirhildargörðum og settist þar að í baðstofu þótti honum furðu lágt undirloft og því tók hann sig til og stakk út úr baðstofunni. Gólfskánin sem gerð var að mestu leiti úr ösku, var samþjöppuð á milli rúma en lausari í sér undir rúmunum. Hæfilegt þótti Jóni að stinga út eina skóflustungu og það gerði hann og hafði það ráð þar sem skánin var hörð eins og grjóthella, að hann flagaði upp skánina. Þegar stungin var sem svaraði einni skóflustungu þótti Jóni bónda bregða undarlega við en þá kom hann niður á timburgólf fornt sem enginn vissi að vera ætti í þessari baðstofu. Gott þótti Jóni að fá pallinn en aldrei varð hann hvítskúraður í Jóns tíð og eins þó dreift væri á hann sandi í hvert sinn að þvegið var.

Dæmið frá Geirhildargörðum var ekki einsdæmi og til þess vissi ég að stungið var út úr baðstofum þykkt öskulag þó ekki kæmi pallur í ljós. Á Gili var stungið út úr baðstofunni annað sumarið sem ég átti þar heima en það verk var ekki á allra færi, ódaunninn var slíkur að flýja varð undir bert loft með stuttu millibili eins og opnast hefðu helheimar, eins og rotnandi lík í hverju öskulagi. Pabbi bar allt út úr baðstofunni og tók stafngluggann úr, síðan var sofið í heytótt í tvær nætur en á baðstofugólfið var borin ný taðaska.

IMG_5166

 Matthildur taldi sig ekki verða í vandræðum með að sjá um matseld í hlóðaeldhúsi

 

Bæirnir höfðu sterk áhrif á það fólk sem í þeim bjó og mótuðu svip þess, þeir réðu hvernig búshlutum var fyrir komið þar sem hver vistarvera var jafnframt geymsla og vinnustaður, í baðstofu og búri, hlóðaeldhúsi og skemmu og í bæjardyrum varð hver hlutur að vera á sínum stað, þar var engu um þokað og fólkið fylgdi þeim eftir, þeir voru heimilistækin. Allir höfðu þessir gömlu bæir líka húsaskipan en voru misstórir og fór það eftir stærð jarðarinnar og efnahag bóndans. Víða var þrifnaði ábótavant og sá það gestaugað glögga þó heimamenn fyndnu þar enga annmarka á. Þegar gengið var í bæinn lék straumur blandinnar lyktar manni um vit, mest bar á reykjarlyktinni þar sem voru hlóðaeldhús og gat orðið að fastelju ef eldur var illa falinn,í bland var þefur af rakri mold í lekabæjum, sótlykt úr eldhúsrjáfri og súr lykt úr búri, oft var innlokað loft í göngum, sérstaklega þeim sem voru samhlaðin og án rafta, það loft var mengað þef úr fjósi og af hundum sem bældu sig í göngum en hundar báru í sér stækan útiþef. Öllu þessu varð maður samdauna enda var ekkert að flýja, bærinn var heimilið, þar sem matast var og hvílst. Í sumum baðstofum var oft þungt loft þegar inn var komið þar sem forðast var að opna glugga vegna kulda en í þeirri vistarveru ægði öllu saman, matar og mannþef, þar voru þurrkuð plögg, jafnvel undir sér í rúmunum, þar var skæðaskinnið skorið á gólfi, gerðir nýir skór og stagað í garmana og saumaðar bætur, þar var unnið úr ullinni og tætt hrosshár, spunnið og fléttað og jafnvel þvegnir smærri þvottar, þar voru náttgögn undir rúmum sem menn tóku upp í rúmið til sín á nóttum þegar kastað var af sér vatni, kettir bældu sig ofaní brekánum og í sængum og þrifu sig þar, kannski nýkomnir neðan úr öskutroginu sem haft var í baðstofunni svo þeir gætu gert þar sín stykki á nóttum. Það var mikil vinna sem margar konur á sig lögðu að berjast gegn öllum þessum áleitna óþrifnaði og mjög víða sást furðumikill árangur þeirrar eljusemi.

IMG_5167

 Það er ekki í kot vísað í búrinu í Laufási

 

Í einum af næstu bæjum við Gil var fjósið til hliðar við baðstofuna og einfalt þil á milli gisið, þar naut fólkið þess að mikill ylur var í fjósi og því hlýrra í baðstofunni en ella. Væri autt rúm í baðstofu var algengt að hýsa þar lömb eða vanmetakindur og var þá gerð jata í öðrum enda rúmstæðisins, ylur var af þessum skepnum, fyrir kom að kálfar voru í auða rúminu um stundar sakir. Þegar Hannes stutti kom í baðstofuna í Húnavatnssýslu og sá folald í auða rúmstæðinu þá vildi hann ekki fallast á að um folald væri að ræða og sagði;

Þetta er ekki þriflegt grey,

Þetta er ljótur kálfur.

Enginn gefi honum hey,

hirði hann skrattinn sjálfur.

Sumum bæjum fylgdu draugar í einhverri mynd og átrúnaður og ekki þorði ég að gó augum að glugga á þessum bæjum, væri myrkur en gekk á snið við gluggana og barði þrjú högg á bæjarhurð, það var fullkristilegt, skrattinn var sagður berja tvö högg. Í lágum og þröngum torfbæjum hætti mönnum til að vera heimóttalegir, í lekalausum og velhýstum bæjum gengu menn uppréttari, þannig voru húsakynnin mótandi á manninn". (Fátækt fólk, Tryggvi Emilsson bls.234-237)

IMG_1943

Daniel Bruun ferðaðist ásamt fríðu föruneyti um Ísland á árunum 1890-1910 og safnaði ómetanlegum heimildum um húsakost og líf þjóðarinnar sem finna má í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Myndin er af hlóðaeldhúsi á höfðingjasetrinu Melstað í Miðfirði.

 

 


Verðtryggingar glæpóið.


mbl.is „Íbúðin var keypt á heila milljón“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnemið verðtrygginguna.

Ef verðtryggingin er afnumin og lánastofnanir telja sig þurfa að hækka óverðtryggða vexti til að mæta því, þá blasir það við að þær þurfa jafngildi dráttarvaxta af öllum húsnæðislánum.

Það höfðu fáir ímyndunarafl til að sjá það fyrir að það þyrfti að borga fasteignalán 4 sinnum til baka hvað þá 9 sinnum. En eftir að reiknivélarna komu hafa almennir lántakar eitthvað annað að miða við en 0% og þá blasir glæpurinn við, en þetta vissu nátúrulega alltaf þeir sem settu upp svikamylluna. 


mbl.is Fásinna að miða við annað en 0%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kofar og kumbaldar.

IMG 1824 

Gereyðing gamalla húsa hefur lengi verið landlæg og er eftirtektarvert hvað Íslendingum er tamt að fyrirverða sig fyrir eigin byggingar, sérstaklega þær sem byggðar eru úr innlendu efni.

Á 20. öldinni voru jarðýtur látnar um að varðveita sögu torfbæjarins, svo rækilega að fáir hafa þannig bæ gist jafnvel ekki séð, sem þó var heimili flestra landsmanni í þúsund ár.

Þeir eru fáir sem vilja afturhvarf til liðins tíma, ef marka má íslenska orðræðu. Eitt af því sem notað er til að stytta leið í rökræðum er; "viljið þið kannski aftur í moldarkofana". Önnur stytting sem tengist húsum og er notuð þegar lýsa þarf óskapnaði er orðið „steinkumbaldi".

 IMG 2068

Menntaskólinn Egilsstöðum 

Núna í upphafi 21. Aldar virðist vera komið að því að steinkumbaldinn verði jarðýtunni að bráð víða í sveitum landsins. Allt sem minnir á hversdagslega notkun alþýðufólks á innlendu byggingarefni á síðustu öld er óðum að hverfa ofan í svörðinn.

Húsafriðun á Íslandi hefur í megin atriðum falist í að varðveita innflutt timburhús sem byggð voru á nýlendutímanum. Húsin hafa verið gerð glæsileg í sinni upprunalegu mynd og oft það fjarlægt í leiðinni sem notað var af íbúum til að lengja líftíma þeirra bygginga miðað við staðhætti, svo sem bárujárnið sem var nánast það eina sem landsmenn bættu við hönnun þessara húsa.

scan0008 

Sólhóll Djúpavogi 

Það er ekki svo að moldarkofinn eða steinkumbaldinn séu endingarverri en innfluttu timbur húsin sem upphaflega urðu til fyrir erlendar aðstæður þar sem viður var til staðar. Einhvern veginn er það rótgróið í þjóðarsálina að líta fram hjá eigin byggingarefni þegar kemur að varðveislu húsa.

En rétt væri að hafa í huga orð hleðslumeistarans, Sveins Einarssonar heitins frá Hrjót, þegar kemur að byggingarsögulegum verðmætum. "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum".

Kannski á eftir að verða vitundarvakning með auknu vægi ferðaþjónustu, allavega má ætla að erlendum ferðamönnum þyki, auk náttúru Íslands, moldarkofar, steinkumbaldar og jafnvel bárujárnsklædd timburhús vera hluta af sjarma landsins.

 

IMG 1830 

Sænautasel var eitt haf kotbýlunum í Jökuldalsheiðinni, það þeirra sem var lengst í ábúð til ársins 1943. Íbúðarhús og gripahús voru sambyggð að hætti torfbæjarins. Húsin höfðu verið felld ofaní tóftina í stað þess að ryðja þeim um með jarðýtu. Því var tiltölulega auðvelt að endurbyggja bæinn árið 1993. Sænautasel er vinsæll áningastaður ferðamanna. 

 

 Beautiful and Green Icelandic Turf Houses3

Lindarbakki á Borgarfirði-eystri var upphaflega byggður í formi þurrabúðar. Húsið er að þeirri stærð að það hefur varðveist inn í nútímann og er enn í dag notað sem íbúðarhús. Það má segi að húsið beri íslensk sérkenni á fleiri en einn veg, auk þess að vera úr torfi eru stafnarnir bárujárnsklæddir. Sennilega er þetta það mannvirki sem mest er ljósmyndað af ferðamönnum sem til Borgarfjarðar koma.

 

IMG 1966 

Steinsteyptar kirkjubyggingar má finna víða um land sem eru íslenskri byggingalist til mikils sóma. Það má sega að steinkumbaldinn ná listrænum hápunkti í kirkjunni. Eins og með öll listaverk sýnist sitt hverjum. Á myndinni er Egilsstaðakirkja en frá vissu sjónarhorni var haft á orði á byggingatíma hennar að hún minnti á sköllóttan Fljótsdæling.

 

IMG 2262 

Opinberar byggingar eru oft verðugir minnisvarðar steinsteypunnar. Ég er svo lánsamur að búa við svoleiðis listaverk. Menntaskólinn á Egilsstöðum umlykur íbúðablokkirnar í Útgarði sem sennilega myndu flokkast sem steinkumbaldar af Sovéskri fyrirmynd. En þessi húsaþyrping sýnir að steinkumbaldar geta farið vel í réttu samhengi.

 

 IMG 1762

Sólhóll á Stöðvarfirði hefur tvisvar á tæpum 90  árum gengið í endurnýjun lífdaga. Húsið var upphaflega byggt á Kömbum á Kambanesi, 1944 var það flutt á Stöðvarfjörð. Árið 2006 hafði ekki verið búið í húsinu í fjölda ára og það talið ónýtt. Þetta er annað bárujárnsklædda norska timburhúsið með nafninu Sólhóll sem ég hef komist kynni við, hinn Sólhóllinn er á Djúpavogi þar sem Matthildur mín er fædd og við bjuggum fyrstu 9 ár okkar búskapar. Bæði húsin eru staðarprýði og vinsælt myndefni ferðamanna.

 

 IMG 2637

Bóndastaðir í Hjaltastaðaþinghá er athygliveður bær sem var byggður var 1916-1947. Húsin eru steinsteypt, íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús svipað og  gömlu torfbæjunum. 

IMG 2626 

Bærinn á Bóndastöðum er byggður í nokkrum áföngum, árið 1958 flyst búseta í Laufás sem er nýbýli úr Bóndastaðalandi. 

 

IMG 2496 

Á Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá er líkast því að kastali hafi verið byggður úr steinsteypu. Íbúðarhús, útihús og hlaða byggð í hringlaga þyrpingu votheysturninn skarar upp úr einu horninu. Steinsteypt girðing umlykur trjá- og rabarbaragarð. Steinsteyptu húsin voru byggð í kringum eldra íbúðarhús sem byggt var 1882 úr rekavið.

IMG 2484 

Votheysturninn á Sandbrekku ber þannig merki að sennilegast hafi hann verið steyptur upp með skriðmótum, en þá voru steypumótin t.d. metri á hæð og færð upp jafnóðum og steypt hafði verið í og steypan sest. Dæmi eru um að heilu turnarnir hafi verið steyptir með þannig aðferð á einum degi.

IMG 2493

Nýja íbúðarhúsið á Sandbrekku er byggt á árunum 1966-68. Teiknað af Teiknistofu landbúnaðarins og ber tíðarandanum þjóðleg merki.

 

IMG 2930 

Lítið fer fyrir stórum steinsteyptum beitarhúsum í landi Ásgrímstaða Hjaltastaðaþinghá, byggðum 1949. Húsin eru með hlöðu í miðju. Torf á timburþaki flest annað steinsteypt s.s. jötur. 

IMG 2867 

Í steypumót hlöðu og votheysgryfju beitarhúsanna hefur sennilega verið notað nærtækt bárujárn.

 

IMG 2509

Fjárhúsin með heyhlöðunni að bakatil, sem byggð var í flestum sveitum landsins um og eftir miðja síðustu öld eru nú óðum að verða tímanum að bráð. Víða hafa þau þó gengið í endurnýjun lífdaga sem ferðaþjónustu húsnæði. Við þessi hús stendur steypuhrærivélin enn í túnfætinum og melurinn með steypumölinni er á næsta leiti. Þessi hús eru í Hjaltastaðaþinghá. 

 

Ps. Húsbyggingar úr mold og möl er barnaleikur ef reynslu þeirra sem kunna nýtur við, það var ekki fyrr en verkfræðin komst í spilið sem það varð flókið að koma upp þaki yfir höfuðið.

Hér má sjá tvö youtube myndbönd, annars vergar sjónvarpsþátt á RUV um það þegar Sænautasel var endurgert og hins vegar videoklippur um það hvernig steypa var hrærð á staðnum í hús á Djúpavogi.  


mbl.is Horfin verðmæti hjartaskerandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband