Færsluflokkur: Hús og híbýli

Vandamálið er verkfræðin og veðráttan

Það er gott til þess að vita að verkfræðistofurnar eru farnar að gera sér mat úr myglu og vonandi á verkfræðin eftir að gangast þar við ábyrgð.

Það er margt til í máli Ríkharðs Kristjánssonar þó svo að full mikil einföldun sé að einskorða vandamálið við hinn "íslenska útvegg". Myglu má reyndar finna í flestum húsum enda væri rétt fyrir íbúana að forða sér út ef engin mygla lifði af í gerilsneyddu húsi, því þá væri eins víst að næst væri komið að þeim sjálfum. 

En höfuð vandinn varðandi myglu er að ekki eru viðhafðar byggingaraðferðir sem hæfa íslenskri veðráttu, sem er eins og flestir þekkja umhleypingarsöm og vot. Því er rétt að hús hafi góða veðurkápu alveg eins og mannfólkið og það er rétt að betra er að einangra steinsteypta veggi að utan. Þetta hefur verið þekkt í áratugi þó svo hönnuðir og verkfræðingar hafi oft kosið að líta fram hjá þessum staðreyndum.

Síðan er rétt að geta þess að mygla hefur margfaldast sem vandamál eftir að farið var að nota pappaklætt gifs bæði við að klæða útveggi að innanverðu og í milliveggi. Þessir veggir eru oftar en ekki með tvöföldu gifsi og ef kemst raki í pappann á milli gifslaga þá verður þar mögnuð mygla sem er ósýnileg, en getur valdið fólki ama, jafnvel heilsutjóni án þess að orsökin verði sýnileg.

Rétt eins og með torfbæina, sem þjónuðu íslendingum í þúsund ár, þá leikur veðráttan og umgengni íbúanna aðalhlutverkið varðandi heilnæmi húsa. Torfbærinn gat enst vel í 50-100 ár inn til landsins norðan heiða á meðan vætan og umhleypingarnar við ströndina syðra gerðu það að verkum að endingin var styttri og myglan meiri.

Í nútímanum hefur verkfræðin síðan átt sinn þátt í myglu með svipuðum hætti og umhleypingasöm veðráttan, sem sjá má á sögu  flatra þaka á Íslandi. Þau skjóta upp kollinum með vissu millibili, að því að virðist vegna þess eins að sigldum hönnuðum finnst fallegt eyðimörkinni, því ekki er góðri reynslu fyrir að fara af flötum þökum í íslenskri veðráttu.

Það má segja að Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrverandi menntamálaráðherra hafi hitt naglann á höfuðið varðandi íslenskar byggingaraðferðir þegar hann sagði; "þó svo Bakkabræður hafi stundað mögnuð heimskupör hefði þeim aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka".


mbl.is Vandamálið er hinn íslenski útveggur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér er enginn guð

IMG_3786 

Í gegnum tíðina hafa fjöllin fangað hugann, augun og fjarlægðin gert þau blá. Eitt af þeim fjöllum sem þetta á við frá því að ég fór að muna eftir er Skagafellið sem klýfur Fagradal, þar sem þjóðvegurinn liggur frá Héraði til Reyðarfjarðar, frá því sem kallað var inn í Dölum af Eiðaþinghármönnum. En nefndist Eyvindardalur í fornsögum, og er kallaður Eyvindarárdalur í dag þó þar séu dalir inn af dal. Einu nafni hafa þessir dalir á stundum verið kallaðir Reyðarfjarðardalir þó svo þeir séu í efra en ekki í neðra.

Eins og einhverjir gætu hafa tekið eftir, þá hef ég undanfarið haft áhuga á torfbæjum. Einn sá bær sem ég hef verið að snudda í kringum tóftirnar af eru Þuríðarstaðir sem mun hafa verið efsti bær í svokölluðum Eyvindardal. Ég hef nokkrum sinnum gert mér ferð þarna upp eftir enda ekki nema nokkurra mínútna akstur frá Egilsstöðum. Gallinn er bara sá þó svo að tætturnar séu mjög skírar í túninu þá eru Þuríðarstaðir nú æfingarsvæði skotveiðimanna. Því hef ég oftar en ekki þurft frá að hverfa enda er skotlínan í áttina að tóftunum, eða réttara sagt í bakkann þar sem þær standa. Það fór samt svo að fyrir rest tókst mér að skoða þær nokkuð vel, bæði á staðnum og með því að fljúga yfir á Google earth.

Þuríðarstaðir tættur

Meiningin var að reyna að gera mynd af bænum eftir frásögn sem ég hafði lesið. Þegar ég fór að leita eftir lýsingum af torfbæjum frá sama tíma rakst ég á aðra frásögn í Múlaþingi sem einmitt segir frá byggð í Eyvindarárdal, og viti menn þar er tilgátumynd af bænum á Þuríðarstöðum teiknuð af Páli Sigfússyni. Er ástæða til að ætla að hann hafi teiknað myndina eftir frásögn því Sigfús faðir hans bjó á næsta bæ, Dalhúsum 1928-1931. Þannig að þarna var ég komin með í kollinn ljóslifandi mynd af bænum þar sem ekki hefur verið búið síðan 1905, - með því að skoða tóftirnar og tilgátumynd Páls, sem passar við húsaskipan tóftanna, og lesa lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar frá vinnumanns ári sínu á Þuríðarstöðum. Hafði ég allt þetta þó svo bærinn hafi horfið ofan í svörðinn löngu fyrir mína tíð.

Í Múlaþings greininni er þremur efstu bæjunum í Eyvinarárdal gerð skil og því sem má finna í heimildum um fólkið þar, sérstaklega Þuríðarstöðum. En þessir bæir voru Dalhús, Kálfhóll og Þuríðarstaðir. Bærinn Kálfhóll var aðeins til um skamman tíma, en hann var byggður 1850 og fór í eiði 1864. Kálfhóll var byggður af Magnúsi Jónsyni f. 1802 og var hann uppalinn á Strönd og Kollstaðagerði en þar hafði faðir hans búið. Magnús var tvíkvæntur og það var með seinni konunni, Þuríði Árnadóttir frá Sævarenda í Loðmundafirði sem hann bjó á Kálfhól. Þau bjuggu þar með fjögur börn, tvö úr fyrra hjónabandi Magnúsar og tvö eigin, auk þess átti Þuríður dóttir sem ólst upp hjá föður sínum Gísla Nikulássyni sem kemur við sögu á Þuríðarstöðum.

IMG_4836

Eyvindarárdalur séður frá Egilsstaðahálsi, með Gagnheiði, Tungufelli, Skagafelli og Hnútu í baksýn. Bærinn Kálfhóll hefur staðið fyrir miðri mynd í skugganum af Gagnheiði 

Vorið 1860 verður Magnús úti á Eskifjarðarheiði, pósturinn Níels Sigurðsson fann lík hans seinna um sumarið undir stórum steini með baggann á bakinu og skríðandi maðkinn út og inn um vitin.  Þuríður býr á Kálfhól með börnum þeirra eftir það í eitt ár. Þegar að Rósa dóttir hennar og Gísla á Þuríðarstöðum er farin að búa á Nýabæ á Hólsfjöllum flytur hún til hennar og síðan með fjölskyldunni til Ameríku. Vorið 1861 flytja Bjarni Eyjólfsson og Eygerður Gísladóttir í Kálfhól og bjuggu þar til 1864 og lauk þar með 13-14 ára ábúð. Hvergi getur um í skráðum heimildum, og ekki í þjóðsögum, að búið hafi verið á Kálfhól í annan tíma, en húsin þar munu hafa verið notuð sem beitarhús frá Dalhúsum fram til 1945 þegar hætt var að búa á þeim bæ.

Talið er að búið hafi verið á Þuríðarstöðum af og til í gegnum aldirnar og er jafnframt talið að átt sé við Þuríðarstaði í Austfirðingasögum þó bærinn sé þar ekki nafngreindur. Þjóðsagan segir að fyrst til að búa á Þuríðarstöðum hafi verið Þuríður blákinn og hún hafi verið systir Gróu á Eyvindará. Ef þjóðsagan fer með rétt mál er allar líkur á að Þuríðarstaðir hafi þegar verið í ábúð fyrir árið 1000 og jafnvel frá landnámi. Skráðar heimildir s.s. annálar, kirkju- og dómabækur virðast þó ekki hafa að geyma jafn langa búsetusögu því fyrst er á bæinn minnst með nafni í Gíslamáldaga 1575, þá sem eyðijarðar. Í Múlaþingsgrein Sigurðar Kristinssonar "Heimbyggð í Heiðardal" er sagt að bærinn hafi verið upp byggður 1856. 

"Sóknartal greinir fyrst frá býlinu í apríl 1857. Hefur því verið byggt þar upp sumarið 1856. Það gerði Gísli Nikulásson frá Dalhúsum f. um 1785 og kona hans Margrét Árnadóttir frá Gilsárteigi, 64 ára. Höfðu áður búið á Dalhúsum og Breiðavaði, áttu mörg börn þá uppkomin og flest gift. En hjá þeim var telpa á tólfta ári. Hét hún Rósa og var dóttir Gísla. Nærri sextugur tók hann fram hjá konu sinni með Þuríði Árnadóttur frá Sævarenda í Loðmundarfirði. Hún var þá vinnukona á Miðhúsum. Þessi Þuríður giftist svo Magnúsi Jónssyni og þau byggðu upp á Kálfshól 1850. En Gísli og Margrét sáu um uppeldi stúlkunnar, sem fluttist fullorðin til Ameríku."

Þuríðarstaðir tilgátumynd

Tilgátuteikning Páls Sigfússonar, samkvæmt lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar er baðstofan í húsinu fyrir miðri mynd sem snýr þvert á burstirnar. Baðstofu gluggarnir hafa verið með tveimur rúðum samkvæmt frásögninni í stað fjögurra

Gísli og Margrét búa aðeins eitt ár á Þuríðarstöðum. Við tekur búsetusaga fjölda fólks og eru að mér telst til nefnd til sögunar a.m.k. 14 hjón sem ábúendur næstu 47 árin auk tuga fólks sem hafði heimili á bænum, flestir stoppa stutt við. Búsetu saga þessa fólks er mikil sorgarsaga, samkvæmt heimildum deyja á Þuríðarstöðum þennan stutta tíma þrettán manns á besta aldri, þar af sjö börn. Það heyrir til undantekninga ef fólk er lengur en 1-3 ár á bænum. Sóknarmannatal vantar frá sumum árana, en nefna má að 4 júní 1865 dó Sigurbjörg Sigurðardóttir 28 ára gömul, Hálfdán maður hennar fer á brott strax eftir lát hennar. Þau höfðu flust í Þuríðarstaði um vorið.

Átakanlegastar eru búsetur tveggja hjóna. Stefáns Jónsonar frá Kirkjubóli í Norðfirði og Guðrúnar Einarsdóttir flytja í Þuríðarstaði árið 1861 með sex börn. Sama ár í júlímánuði deyr Guðrún og í ágúst eru fjögur af börnum þeirra dáin. Árið 1892 flytja í Þuríðarstaði Friðrik Halldórsson 25 ára og Gróa Jónsdóttir 28 ára ásamt syni sínum og móður Friðriks. Sama ár í júní deyr Gróa, viku síðar Jón Björn sonur þeirra, Friðrik verður úti á Eskifjarðarheiði veturinn eftir. Eftirtektar vert er að samkvæmt skjalfestum heimildum flyst fjöldinn allur af því, fólki sem hafði viðdvöl á Þuríðarstöðum þessi ár og komst þaðan lifandi, til Ameríku.

Um aldarmótin 1900 búa þau Halldór Marteinsson úr Helgustaðhreppi og Guðrún Jósefsdóttir úr Tungu á Þuríðarstöðum, en þau hjón bjuggu þar hvað lengst eða frá 1889-1903. Aðeins þau Jón Bjarnason úr Fellum og Vilborg Indriðadóttir frá Eyri í Fáskrúðsfirði höfðu búið þar lengur, eða 1870-1890. Það var 1899 sem Hrólfur Kristbjörnsson hafði ráðið sig sem ársmann á Þuríðarstöðum þá 13 ára gamall. Það var frásögn hans sem varð til þess að ég fór að snudda í kringum Þuríðarstaða þúfurnar.

"Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að lýsa, heldur húsakynnin.

Bærinn á Þuríðarstöðum stóð á brekkubrún dálítið hárri, og vatnið þurfti að sækja nokkuð langt út fyrir tún, í brunn sem stundum þornaði, og þurfti þá að sækja vatnið ofaní Eyvindará.

Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju."

Síðustu ábúendur voru þau Gunnar Sigfússon frá Gilsárteigshlálegu í Eiðaþinghá og Anna Jónsdóttir frá Fjarðarkoti í Mjóafirði bjuggu þau þar til 1905 og lauk þar með tæplega 50 ára skráðri búsetu á þessu afdalabýli. það er samt nokkuð víst að búseta nær mun lengra aftur en skráðar heimildir herma, það segir allavega þjóðsagan.

Í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir frá ferð Hallgríms í Sandfelli (sem svo var kallaður þó svo að hann hafi búið að Þorvaldstöðum þegar sagan gerist)og Ingibjargar ekkju á Þingmúla niður í Mjóafjörð til að falast eftir hvalreka hjá Hermanni höfðingja í Firði, en hann var uppi 1749-1837. Sagan gæti því verið 50-60 árum fyrir skráða búsetu. Þessi för varð ekki til fjár því þau frændsystkinin Hallgrímur og Ingibjörg hrökkluðust upp yfir Mjófjarðaheiði hvallaus eftir að Hermann hafði reynt heiftarlega við Ingibjörgu. Á Hermann að hafa samið vísu af þessu tilefni um kynni þeirra Ingibjargar, sem varð til ævilangra vinslita þegar hún fréttist upp í Hérað.

Í Mjóafjörðinn vasa vann

var sú bl,,, ,, neðan,

fjandans skíta frethettan

falaði hval á meðan.

Sagt var að Hallgrímur hefði verið skyldur sálmaskáldinu Péturssyni og bæri nafn hans, því eru vísur þessu tengdu mun fleiri í Þjóðsögum Sigfúsar. Gekk reyndar ævilangt á með sendingum á millum þeirra fyrrum vinanna eftir hvalreka ferðina. 

IMG_0641

Eyvindaráin fyrir neðan Þuríðarstaði í skammdegisskímunni um daginn

En þau Ingibjörg og Hallgrímur komu semsagt hrakin í snjófjúki af Mjóafjarðaheiði að Þuríðarstöðum um hánótt og ætluðu að biðjast þar gistingar. En það sem þau vissu ekki þá var að ábúendurnir voru nýlega fluttir í burtu. Þegar Hallgrímur bankaði á baðstofugluggann var honum svarað "hér er enginn guð". Fannst honum þetta skrítinn húmor. En fór inn í bæinn og fann þar ekki nokkurn mann, komst svo við illan leik út aftur og sagði för sína ekki góða þó svo að hann vildi gista í bænum. Ingibjörgu var orðið illt af hræðslu út á hlaði og tók ekki í mál að gista mann- og guðlausan bæinn. Hallgrímur fer niður að Eyvindará að sækja henni vatn að drekka og heyrir þar undarleg hljóð rétt hjá sér, en lét sér samt ekki bregða og segir "Skíttu á þig hver sem þú ert". Ætluðu sumir að Hermann hefði sent draug á eftir þeim, en fleiri álitu að það myndi hafa verið bæjarfylgjan á Þuríðarstöðum sem hefði þarna gert vart við sig, því hennar höfðu margir orðið varir.

Eftir að hafa paufast í skammdegisskímunni um rústirnar af Þuríðarstöðum, þar sem dynkirnir úr haglabyssum skotmannanna yfirgnæfðu niðinn í Eyvindaránni og hvæs haglanna þytinn í golunni þegar þau grófu sig í bakkann þar sem bærinn stóð. Jafnvel þó ég hafi lesið 50 ára hörmungarsögu íbúa kotbæjarins í þessum fallega heiðardal sem stóð undir hlíðum Gagnheiðarinnar sem gnæfir í yfir 1000 metra hæð með austfirska sjónvarpsmastrið ofaná, og með dumbbláar hlíðar Skagafellsins beint á móti. Þá varð auðvitað sú skammdegis mynd sem fæddist á striganum þessa dimmu daga eins og eftirprentun sem hékk í veglegum ramma berskuheimilisins og hafði yfirskriftina "Drottinn blessi heimilið". Gleðileg jól.

 

Þuríðarstaðir málverk

 

Heimildir;

Múlaþing 34-2007/ Heimbyggð í Heiðardal, Sigurður Kristinsson

Skriðdæla, Hrólfur Kristbjörnsson

Þjóðsögur, Sigfús Sigfússon

 


Steypt list

IMG_8372

Ein af þeim byggingum sem setja svip á Egilsstaði er menntaskólinn. Þó svo að skólinn standi ekki hátt þar sem hann hvílir í hvarfi norðan undan Gálgaklettinum og kirkjunni þá ætti þessi bygging ekki að fara fram hjá neinum þeim sem til Egilsstaða koma, svo vel blasir hún við frá Egilsstaðanesinu þar sem hringvegurinn liggur og flugvöllurinn er staðsettur. Eftir því sem árin líða þá finnst mér meira til þessa mannvirkis koma. Mér finnst þetta mannvirki bera íslenskri byggingalist verðugt vitni.

IMG_3342

Það var árið 1965 sem sett voru lög er heimiluðu stofnun menntaskóla á Austurlandi. Árið 1971 ákvað Gylfi Þ Gíslason að menntaskólinn skyldi verða á Egilsstöðum, og 1972 tók til starfa undirbúningsnefnd sem í voru; Lúðvík Ingvarsson, Vilhjálmur Sigurbjörnsson og Sigurður Blöndal. Þann 13. október 1975 tók svo Vilhjálmur Hjálmarsson þáverandi menntmálaráðherra fyrstu skóflustungu að tilvonandi menntaskóla, þá höfðu setið í byggingarnefnd skólans frá 1973 þeir Þórður Benediktsson, Þorsteinn Sveinsson og Hjörleifur Guttormsson.

IMG_2254

Fjórum árum seinna, haustið 1979 tók skólinn til starfa í þeim áfanga sem Vilhjálmur tók skóflustunguna af 1975. Sá áfangi var um 760 m2 að grunnfleti en heildarflatarmálið um 1550 m2 og hýsti heimavist, eldhús og matsal en kennslustofur voru allstaðar sem þeim var við komið í sölum, á göngum og í skúmaskotum. Hótel Valaskjaálf var nýtt á vetrum í tengslum við skólann á meðan húsnæði skorti. Árið 1983 var tekin í notkun nýr áfangi við heimavist sem í var einnig íbúð. Það var ekki fyrr en 1989 sem fyrstu eiginlegu kennslustofur skólans, sem byggðar voru sem slíkar, voru teknar í notkun. Árið 2006 var svo byggt enn frekar við kennsluálmu skólans.

IMG_2262

Arkitektar voru þeir Ormar Þór og Örnólfur Hall. Hvað þeim gekk til með útliti bygginganna hef ég ekki heyrt um. En auðvelt var að geta sér þess til að þær ættu að falla vel að klettunum sem þær standa næst, enda voru húsin upphaflega ómáluð steypugrá, og þannig heyrði maður að þau ættu að verða til framtíðar. Um tíu árum eftir að fyrstu húsin risu voru þau máluð hvít. Hefur mér eftir það dottið í hug að þessi húsaþyrping eigi að líkjast jökullóni. Allavega er útlitið ramm íslenskt.

IMG_2068

Þó svo að ég hafi aldrei sest á skólabekki menntaskólans á Egilsstöðum né annarra menntaskóla þá hóf ég nám við það sem ég hef haft lífsviðurværi mitt af síðustu 40 árin eða svo í menntaskólanum. En þar fór ég á samning í múrverki 17 árar gamall og hef komið að múrverki á hverjum einasta byggingar áfanga menntaskólans frá byrjun. Síðustu árin hef ég haft byggingarnar fyrir augunum þegar ég vakna á morgnanna því þær eru fyrir utan stofugluggann, ásamt Gálgaklettinum, kirkjunni og Snæfellinu.

IMG_2059

Það er ekki hægt að segja annað en að hver einasta mínúta í tilveru menntaskólans á Egilsstöðum hafi verið nýtt til þess ýtrasta. Þegar ekki hefur verið um hefðbundna skólastarfsemi að ræða hafa byggingarnar verið nýttar til hótelreksturs, en um hann hefur Hótel Edda séð frá upphafi. Yfirleitt er það svo að í byrjun sumars tekur Hótel Edda við helgina eftir að skóla líkur og að hausti líður helgi frá því að Edda skilar og skóli tekur við.

IMG_9985

Umhverfi skólans hefur tekið miklum stakkafskiptum frá því að hann var byggður í túninu við Búbót, sem var samyrkjubú frumbyggja í Egilsstaðakauptúni. Að austan birgja himinháar aspir sýn þar sem skurðbakkinn var áður og inn á milli bygginganna eru skrúðgarðar. Því verður ekki á móti mælt að Menntaskólinn á Egilsstöðum er íslenskt listaverk. Þar sem steypumölin fenginn úr hinni fornu Jöklu, innveggir hlaðnir úr gjósku íslenskra eldfjalla og vinnuaflið til byggingarinnar fengið fyrir tíma erlendra starfsmannaleiga. Það eina sem skyggir á sögu skólans er að nú vill ekki nokkurt skólað ungmenni vinna með höndunum að því að skapa listaverk til gagns landi og þjóð.

IMG_2072


Völundarhús

Upp úr 1970 og árunum þar á eftir var komið fyrir fjölda húsa á öræfunum norðan Vatnajökuls. Þessi hús voru af sumum kölluð Völundarhús. Þetta hefur verið rifjað upp núna í sumar þegar ég fór í fyrsta skipti um þessi öræfi, en mörg þessara húsa og eftirmyndir þeirra standa enn út í auðninni ferðafólki til handa, nú sem fyrr til þess að þjóna kalli náttúrunnar.

IMG_9013

Völundarhús við Dreka, Snæfellið gnæfir yfir öræfunum hvítt í fjarska

Völundarhús, voru fyrstu húsin sem ég fékk greiðslu fyrir að taka þátt í að byggja. En allt frá bernskudögum hafði kofasmíði verið líf mitt og yndi. Því lá beinast við um 12 ára aldurinn að spyrjast fyrir um vinnu við húsbyggingar hjá Völundi Jóhannessyni, sem var yfirsmiður hjá Trésmiðju Kaupfélags Héraðsbúna. Við vorum nágrannar á Hæðinni undir Hömrunum á Egilsstöðum, þar sem Trésmiðja KHB var til húsa. Lóð sem lengi var óbyggð á móti íbúðarhúsi Völundar við Hjarðarhlíðina hafði verið helsti starfsvöllur okkar hæðarstráka við kofasmíði, svo hann þekkti til mín, auk þess eigum við saman ættir að rekja norður í Aðaldal hvort svo sem varð til þess að ég var strax ráðinn.

IMG_8952

Nýjasta gerð í Krepputungu, með nútíma þægindum

Fyrsta Völundarhúsið mun hafa verið byggt í kringum 1970 og er nú í Grágæsadal. Völundur sagði mér þegar ég heimsótti hann heim í dalinn í sumar, að yfirsmiður þess húss hafi verið Halldór heitinn Sigurðsson listasmiður og smíðakennari á Miðhúsum, aðstoðarsmiður var Eiríkur Þorbjarnarson húsasmiður á Egilsstöðum og Jónas heitinn Pétursson f.v. alþingismaður, síðar tilraunastjóri á Skriðuklaustri fékk að vera með vegna áhuga síns á framkvæmdinni; " svona sem sérlegur aðstoðarmaður, eða nokkurskonar handlangari. En þetta er náttúrulega bara kamar, sjáðu“. 

Það leynir sér samt ekki hvað Völundur er ánægður með "kamarinn", á því hvernig hann staðsetur hann í skrúðgarðinum sem hann hefur komið upp lengst inn á öræfum. Þegar Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson heimsóttu hann til að ná af honum tali í Ferðastiklum RUV kom vel fram hvernig hver og einn sem heimsækir garðinn verður að ganga hálfhring í kringum listaverk þeirra smiðanna og alþingismannsins, eins og má sjá hér í stiklunni Grasagarður í meira en 600 m hæð.

IMG_7779

Völundur við fyrsta húsið í garðinum í Grágæsadal 

Heimsóknin í sumar til Goðans í Grágæsadal bar upp á 19. júlí, en svo er Völundur stundum nefndur og jafnframt talinn vörslumaður hálendisins og var hann heiðraður á degi íslenskrar náttúru árið 2015. Þann 19. júlí er ævinlega flaggað í hálfa stöng í dalnum. Völundur sagði að svo væri vegna þess að þann dag árið 2002 hefðu stjórnvöld skrifað undir viljayfirlýsingu við Alcoa vegna byggingar álvers í Reyðarfirði og þá ljóst orðið að til yrði Hálslón þar sem hluta víðernanna norðan Vatnajökuls yrði sökkt. Einhverjir sveitastjórnarmenn á Austurlandi hvöttu til þess opinberlega, að austfirðingar flögguðu þennan dag til að fagna tímamótum í austfirskri atvinnuuppbyggingu.

Aftur á móti flögguðu unnendur víðernanna þann dag í hálfa stöng, við Skála ferðafélaganna og hvar sem því var við komið á hálendinu. Einn landvörður, sem flaggaði þá í hálfa stöng var kostaður af ríkinu, og varð hann snarlega atvinnulaus. Völundur fór árið eftir með flaggstöng og gaf nýjum landverði ríkisins hana, en sagði honum jafnframt að hann yrði bara að passa sig á því að taka frí í vinnunni rétt á meðan hann flaggaði. Síðan þá hefur verið flaggað í hálfa stöng þann 19. júlí ár hvert í Grágæsadal, þó svo að sá siður sé nú aflagður í öðrum fánastöngum hálendisins norðan Vatnajökuls.

IMG_7787

Í Grágæsadal leynir sér ekki hvaða húsgerð hefur átt hug og hjarta Völundar

Ég hef alla tíð búið að því að hafa fengið vinnu hjá Völundi 12 ára gamall og vinna undir hans stjórn hvert sumar til 17 ára aldurs eða þangað til að steypan heltók hugann. Vinnan já Völundi var reyndar mest við mun stærri byggingar en Völundarhúsin því á þessum árum voru sumar stærstu steinsteyptu byggingar KHB reistar af starfsmönnum Trésmiðju kaupfélagsins undir styrkri stjórn Völundar. Er mér það til efa að í annan tíma hafi eins stórt hlutfall ungra drengja fengið vinnu við eins mikil mannvirki, þá voru oft ekki margir fullorðnir í drengjahópnum, stundum Hermann Eiríksson smiður og Reynir Kjerúlf þeir einu sem komnir voru af táningsaldri. Þegar kom að viðhaldi mannvirkja KHB í seinni tíð s.s. sláturhúss, bakarís og mjólkurstöðvar leitaði Völundur til okkar Djúpavogs drengja með að klæða veggi og gólf með epoxy steypu.

En það er ekki aðallega vinnan sem ég hef búið að með kynnum mínum af Völundi, heldur virðingin sem hann sýnir náttúrunni og tilverurétti alls lífs á sínum forsemdum. Fræg varð gæsin í Hvannalindum sem Vegagerðin lét stjórna hvenær hálendisvegir norðan Vatnajökuls yrðu opnaðir að undirlægi Völundar. Og sem dæmi get ég nefnt að þegar nýja mjólkurstöðin á Egilsstöðum var í byggingu hafði máríerlan verið árrisulli en vinnumennirnir og komið sér upp hreiðri í uppslættinum, þá kom ekkert annað til greina en að láta þau steypumót bíða þar til hún hafði komið upp ungunum sínum, "enda nóg annað gera í stóru húsi drengir".

IMG_0147

Þetta kvenna og karla náðhús var lengi við Hafnarhólmann á Borgarfirði eystri, sennilega hafa Borgfirðingar sjálfir séð um smíðina en það leynir sér ekki hvert andagiftin við hönnunina hefur verið sótt 

 


Algjör steypa

Vikan hefur verið algjör steypa. Á sunnudaginn kveikti ég á sjónvarpinu í fyrsta skipti í 5 ár, ekki hefur ruglið í því minkað frá því síðast. Eftir að hafa farið því sem næst út um þúfur vegna Kastljóssins bárust fréttir af því um miðja vikuna að aflandsdrottningin hefði keypt sér flugferð til tunglsins, Eva Joly væri í áfalli og á meðan þvældist dularfull ríkisráðstaska um í eldhúsinu á Bessastöðum. Framhaldið þekkja flestir.

Sem betur fer fá samt sumir allt sem þeir þrá og þannig er það með mig. Vikan var yfirfljótandi í steypu þó svo steypustress geti einstöku sinnum farið fyrir hjartað, þá er steypa mitt líf og yndi. Þessar myndir eru teknar núna í vikunni á Egilsstöðum og Fáskrúðsfirði.

 


Vorblíða í frystigeymslunni

Undanfarna daga hefur verið vorblíða austanlands, sunnanáttir með sól og 10 stiga hita dag eftir dag. Eins og áður hefur verið greint frá hér á síðunni, er Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði að að byggja 2.400 fm frystigeymslu sem byrjað var á í nóvember.
 
Nú er húsið komið upp og verið er að steypa gólfið. Frystigeymslugólf er mikið mekkanó, fyrst er 25 cm þykk gólfplata sem hitalögn er fest ofan á sem svo er steypt 6 cm lag yfir, þá kemur rakasperra og 20 cm einangrun, loks 15 cm þykk steypt gólfplata. Núna eru steypudagar og hátíð hjá steypuköllunum.
 

Torf og steypa

Gilhagi

Allt fram á 20.öld var torbærinn helsti íverustaður íslensks almennings en segja má að eftir það hafi steinsteypan tekið við sem algengasta íslenska byggingarefnið í gerð húsa. Það sem þessar tvær húsgerð eiga sameiginlegt er nærtækur efniviður, nánast má moka honum upp af jörðinni. Því er það svolítið undarlegt að þessum tvö byggingarefni hafi ekki verið notuð meira hvert með öðru en raun ber vitni því útkoman hefði getað orðið alíslensk hús, einstök á sinn hátt líkt og torfbærinn var um aldir. Það hefur lengi verið draumur minn að byggja torfbæ úr steypu og sameina þannig nútíma gæði steinsteyptra húsa og hversu vel torfbærinn fellur að umhverfinu.

Fyrir allmörgum árum þegar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun voru að komast á dagskrá tók ég nokkra kúrsa í Listaskóla Reykjavíkur. Þar kom fyrir að umhverfisspjöll við Kárahnjúka væru til umræðu í kaffipásum. Sem Austfirðing rann mér blóðið til skyldunnar að verja þessa stærstu framkvæmd íslandssögunnar, sem átti mjög undir vök að verjast hjá öðrum nemendum. Í þeim rökræðum spurði ég hvort þau vissu hvenær mestu umhverfisspjöll íslandssögunar hefði orðið? Án þess að svara þá vildu samnemendur mínir fá mína útlistingu á því. Ég svaraði þeim á þann veg, að þau þyrftu ekki annað en að líta út um gluggann til að sjá það, mestu umhverfisáhrifin á ásýnd landsins hefðu orðið þegar íslendingar skriðu upp úr torfbænum og fóru að byggja hús á yfirborði jarðar. Það er skemmst frá því að segja að þessi speki steindrap umræðuna um Kárahnjúka í það skiptið, enda var hún komin heim í löngu hruninn torfkofann. 

Underground-Home-2

Einhvernvegin svona gæti draumahúsið úr torfi og steypu litið út

Þrátt fyrir áhugann á steinsteyptum torfbæ og það að ég telji mig ráða yfir þekkingu til að koma hugmyndinni í verk þá hefur ekkert orðið af framkvæmdum og er ég farinn að efast um að hafa ráð og rænu á því eftir þetta, jafnvel þó svo að ég hafi yfir brekkunni að ráða sem tilvalin væri fyrir bæjarstæði. Kannski er það vegna rótgróins óorðs sem torbærinn hefur fengið á sig eftir sína þjónustu í meira en 1000 ár að ekki hafa verið byggð svona hús. Því rétt eins og fólkinu í listaskólanum, langar engan til að fá þann stimpil á sig, að verða þess hvetjandi, að skriðið verði aftur í torfkofana.

Helstu upplýsingar um torfbæi fyrir tíma tölvualdar hafði ég frá honum afa mínum, sem hafði búið í slíkum húsakynnum fram á þriðja áratug 20. aldar. Hann upplýsti mig um að torbærinn væri ekki eftirsóknarverður húsakostur. Tryggvi Emilsson gerði torfbæjarlífinu greinargóð skil í bókum sínum, en hann var samtíðarmaður afa míns og átti það sammerkt með honum að hafa alið manninn í torfbæjum fram eftir 20. öldinni. Í bókinni "Fátækt fólk" eru greinagóðar lýsingar á því hvernig torfbæjar lífið var.

Einnig er í bók Tryggva "Baráttan um brauðið" lýsing á því þegar hann og faðir hans flytja úr Öxnadal í Skagafjörð, nánar tiltekið Árnes í Lýtingsstaðahreppi, eftir að hafa gefist upp á búskap á Gili í Öxnadal; - "Á þessum glaðlega vordegi var mér efst í huga sá torfbær sem klúkti þarna á sléttum velli sunnan undir lágum hól og skaut stöfnunum móti vestri. Enginn var gluggi sjáanlegur, aðeins torfveggir hlaðnir úr klömbruhnausum, þakið var grasi vaxið með eldhússtrompi og mjóu reykröri til að anda um. Mér sýndist bærinn líkastur gamalmenni á bak að sjá. Var þetta þá allt og sumt, vistarveran í fyrirheitna landinu þar sem ég átti fyrir mér að vera vinnumaður upp á þrjúhundruð krónur? Ég hafði gert mér í hugarlund að þarna væri reisulegur bær. Mér varð litið út yfir sveitina og sá að allstaðar voru torfbæir með eldhússtrompum upp úr grasi grónum þökum, og það í svona sveit, rétt eins og þetta væri í Öxnadalnum sem er svo þröngur að fjöllin eru rétt til hliðar. En máski var þetta best þegar á allt var litið, ég hefði kviðið enn meira fyrir því að ganga inn í háreist hús með stórum gluggum og fínum stofum. Og þar sem ég sat á þúfunni fann ég til smæðar minnar og sá að ég var horkranki í slitnum og bættum fötum sem voru ekki einu sinni hrein, það var betra að berja að dyrum á gömlum torfbæ þegar til kom." (Tryggvi Emilsson / Baráttan um brauðið bls.10)

Reykhólasveit

Þarna lýsir Tryggvi innanverðum Skagafirði árið 1920, það eru því ekki nema tæp hundrað ár síðan að heilu sveitirnar á Íslandi höfðu ekki annan húsakost en torfbæina. Hinn danski Daniel Bruun var brautryðjandi í rannsóknum menningarminja á Íslandi og fór ásamt leiðöngrum sínum um landið á árunum 1890-1910. Þessari rannsóknarvinnu má m.a. þakka að til eru bæði teikningar og ljósmyndir af íslenskri byggingarlist og menningu. Er þessu gerð góð skil í bókunum "Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár".

Gilhagi Sgagafirði

Leiðangursmenn Daniels Bruun í hlaðinu á Gilhaga í Skagafirði

 

Gilhagi teikning

 Útlitsteikning af húsaskipan í Gilhaga

 

Gilhagi grunnmynd

Grunnmynd af Gilhaga

 

Núna á 21. öldinni er ekki nokkur ástæða fyrir núlifandi íslendinga að fyrirveðra sig vegna gömlu torfbæanna, enda fáir á lífi sem í þeim hafa búið. Miklu frekar væri að hefja þá til vegs og líta með virðingu til þeirrar fortíðar sem gæti skapað einhverjar umhverfisvænstu byggingar sem á jörðinni finnast.

 

eart-house plan

Grunnmynd af litlum steinsteyptum einstaklings torfbæ

 

Earth_house_interior1

 Útsýnið eins og það gæti verið úr steyptum torfbæ 21. aldarinnar


Tíðarandinn er hótel

IMG_2446

Þessa dagana stendur yfir stækkun Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði. Verið er að auka herbergjafjöldann úr 26 í 47, sem verða í sjálfstæðri byggingu við hliðina á aðalbyggingunni. Aðalbyggingin er gamli Franski spítalinn, sem byggður var af samtökunum Société des hôpitaux français d'Islande árið 1903, fyrir franska sjómenn sem sóttu Íslandsmið. En þessi samtök létu einnig byggja spítala í Vestmannaeyjum og í Reykjavík. Árið 1939 var húsið flutt að Hafnarnesi sem stendur við sunnanverðan Fáskrúðsfjörð. Fyrir tæpum sjö árum var sögu Franka spítalans á Hafnarnesi gerð skil á þessar síðu, sem má sjá hér.

Franski spítalinn austur

Húsið hefur nú verið reist alls þrisvar sinnum við Fáskrúðsfjörð því það var flutt aftur austur fyrir fjörðinn og fékk hlutverk vorið 2014 sem hótel, veitingastaður og safn. Minjavernd hf tók ákvörðun um að standa að endurbyggingu Franska spítalans á Fáskrúðsfirði árið 2008. Haustið 2011 var hafist handa við að taka niður húsið þar sem það stóð úti á Hafnarnesi, mér er það sérstaklega minnisstætt vegna þess að ég sá hve mikill sjónarsviptir var af því þegar það bar ekki lengur við Skrúðinn. Á árunum 2012, 13 og 14 fór svo endurbyggingin á Fáskrúðsfirði fram ásamt tveim öðrum húsum hinu megin við götuna, því Fosshótel Austfirðir er ekki eitt hús heldur þyrping gamalla húsa.

Við múrarnir höfum verið mikið á Fáskrúðsfirði í vetur og þar á meðal í nýbyggingunni við Franska við að múrhúða veggi, flota gólf og flísaleggja. Nýbyggingin er steinsteypt með nútímalegum hætti en allt útlit og frágangur er í stíl við gamla Franska s.s. bárujárnsklæðning á útveggjum, gamlir gluggar og betrekkslögð herbergi með plankaparketti sem gólfefni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég vinn í félagi við þá í Minjavernd, því á árunum upp úr 2000 vann ég með þeim í gamla Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu sem varð 101 Hótel, gamla Geysishúsinu á horni Aðalstrætis og Vesturgötu, og Gimli í Lækjarbrekku.


Af sem áður var

Það er kannski ofrausn að nota Airbnb könnun til að hæla Íslendingum sérstaklega fyrir gestrisni, og gera það að fyrirsögn fréttar. Það er nefnilega þannig að þegar Airbnb íbúð er tekin á leigu þá hittir gesturinn sjaldnast gestgjafann, heldu fær hann aðeins talnaröð af boxi sem geymir lykilinn af hinu leigða, svo hann komist þar inn, eftir að hann hefur gengið frá greiðslu á netinu. Það væri frekar að hæla Airnb íbúðaeigendum fyrir að útbúa húsnæði sitt svo vel að það þóknaðist sem flestum erlendum gestum.

En hvað um það svona hefur þetta ekki alltaf verið varðandi gestrisni Íslendinga þegar kemur að húsnæði, þó svo ekki séu kannanir sem staðfesta það aftur í aldir. Í bók rithöfundarins Charles Edmond, sem hann skrifaði eftir að hann kom til Íslands ásamt franska prinsinum Jerome Napoleon árið 1856, má lesa eftirfarandi;

Frederick W.W. Howell

Húsakynni íslensku þjóðarinnar eru léleg. Bóndinn gerir bæ sinn úr hraungrjóti og rekavið. Þakið er úr torfi. Dyrnar eru svo lágar, að menn verða að beygja höfuð og bak, er inn er gengið, og er þá komið í dimman og þröngan gang. Hægra megin er svefnherbergi, sameiginlegt fyrir alla, karla, konur, húsbændur og þjónustufólk. Vinstra megin er búr, þar sem matarforði er geymdur, veiðafæri og vinnutæki. Eldhúsið er innst. Bygging þessi er einföld; fjórir steinar á gólfi og op á þakinu, þar sem reykurinn fer upp. Þetta er einasti staðurinn, þar sem eldur er gerður. Hið lélega brennsluefni, er landið leggur til, nægir tæplega til matargerðar. Á veturna hita menn sér með því að þrýsta sér hver upp að öðrum. Að undanteknum hinum ríku íbúum höfuðborgarinnar eða nokkrum verslunarstjórum þekkja íbúarnir ekki trégólf. Gólfflöturinn í kofunum er ber og óhreinn. Græn mygla þekur þá að innan.

Húsgögnin bera vitni um skort og vöntun efnis. Rúmið er samsett úr fjórum fjölum, illa telgdum saman, og þykk ábreiða yfir. Sætin eru kýrhausar, er skinn hefur verið tekið af, eða skammel, gerð úr hvalbeinum. Loftið sem menn anda að sér í þessum kofum, er skaðvænt. Hin beiska lykt af þurrkuðum fiski blandast saman við óþefinn af þráu lýsi og hinni vondu lykt af súrri mjólk. Húðirnar af nýslátruðu sauðfé, dýrablóðið, er menn láta storkna í skálum til þess að blanda því saman við fæðu, allt þetta hefur þau áhrif á útlendinginn, er hann hættir sér inn í landið, að hann vill heldur þola óblíðu loftslagsins en leita hælis í íslenskum sveitabæ.

Ennfremur er þetta haft á orði um Íslendinga;

Íslendingurinn er venjulega ljóshærður, sterkbyggður, en þunglamalegur. Augu hans eru athugul en framkoma kæruleysisleg og gangur hans slyttislegur. Hann er látlaus í athöfnum og orðum. Það er sjaldgæft, að viðkvæm tilfinning endurspeglist í andlitsdráttum hans. Örlög hans hvíla þungt á honum. Það er eins og hann bogni undan þessum þunga,,. Hann er örlagatrúarmaður. Hann ber þessa trú utan á sér, í andlitssvipnum.

Búningur Íslendingsins svipar til andlits hans. Hann ber ekki vitni um neina gleði eða ímyndunarafl. Þegar hann er í landi, er hann klæddur heimagerðum jakka, ofnum úr svartri ull, sem nefnist vaðmál. Á höfði ber hann barðastóran hatt. Skór hans eru gerðir úr mjúku skinni, og eru reimaðir. Þegar hann fer til sjós, fer hann í yfirhöfn úr svörtu skinni, sem þorskalýsi hefur gert regnhelt.

Íslensku konurnar, ljóshærðar og grannar, mundu vera fagrar, ef hið sama farg hvíldi ekki á þeim og karlmönnunum. Andlitssvipur þeirra andar blíðu og auðsveipni. Þær eru rólyndar, þöglar, iðnar við vinnu sína, feimnar og hlédrægar í háttum sínum. Búningur þeirra er peysa úr svörtu vaðmáli og pils úr sama efni, sem hnígur í stórum fellingum. Ungu stúlkurnar gera fléttur úr hári sínu í sveigum og festa upp í hnakkanum. Fyrir ofan ennið bera þær á höfði litla, svarta prjónahúfu, sem lagar sig eftir höfðinu, en langur silkiskúfur liggur niður með eyranu. Giftu konurnar vefja höfuð sín marglitum klút, sem nær upp fyrir hvítt léreft, svo að höfuðbúnaður þessi minnir á rómverskan hjálm. Á hátíðisdögum er efni þetta breytilegt að fínleika og litskrauti. En búning þennan skreyta lykkjur, hnappar, krókar og doppur og skartgripir úr gylltu silfri sem eru haglega gerðir í sjálfu landinu og mönnum þykir ánægja að vegna aldurs og einkennilegrar lögunar í gotneskum stíl eða byzantískum.

Haldi svo einhver að höfuðborgin hafi státað af hámenningu  fyrr á öldum þá má lesa þetta í lýsingum William Hooker á Reykvíkingum við komuna þangað, sem eru í bók sem út kom í London 1810 eða 1811 um ferðasöguna;

Reykjavík

Nokkrum klukkustundum eftir að við höfðum gefið ljósmerki, sáum við, að bátur með nokkrum hafsögumönnum nálgaðist okkur. Það gladdi okkur að sjá einhver ný andlit, þótt mennirnir væru óþrifalegir og óþefur af þeim. Þeir voru svo skrýtnir, að við hentum að því mikið gaman. Þeir voru flestir breiðleitir og ekki sérlega ljóslitaðir. Flestir voru þeir lágvaxnir, en einn eða tveir þeirra voru fremur háir, ég held varla undir 6 fetum. Sumir þeirra voru síðskeggjaðir, en aðrir ekki meira skeggjaðir en svo, að það gátu verið leifarnar eftir raksturinn með bitlausum hníf eða skærum. Hárið var alveg óhirt, enginn kambur hafði snert það, og féll niður á bak og herðar í flókum, og sást greinilega í því vargurinn og nitin, sem hefst sífellt við á þessum hluta líkamans þegar hreinlæti er vanrækt. Í viðræðum virtust þeir vera mjög örir og höfðu allmikinn handslátt og höfuðburð. En þegar eitthvað var sagt við þá eða þeim boðið eitthvað sem gladdi þá, létu þeir ánægju sína í ljós með því að klóra sér og strjúka sig ákaflega og með því aka sér. Þessir vesalingar gleyptu matvælin, sem við gáfum þeim, með mikilli græðgi. Þeir eru mjög vel tenntir og bruddu harðasta kex okkar, svo það var meltanlegt á svipstundu,,.

Reykjavík saltfiskverkun

Á ströndinni, þar sem við lentum, var hraungrýti, svart á lit og sumstaðar molað, svo það var fínt eins og sandur. Þarna var skotið fram í sjóinn dálítilli flotbryggju úr furuplönkum, til þess að við blotnuðum ekki. Kringum hundrað Íslendingar, aðallega konur, buðu okkur velkomna til eyjar sinnar og ráku upp óp, þegar við lentum. Við gláptum ekki síður á þetta góða fólk en það á okkur. Nú var fiskþurrkunartíminn, og fólkið önnum kafið við að breiða, þegar við komum. Sumir voru að snúa fiski, sem breiddur hafði verið til þerris á ströndina. Annar hópur var að bera fisk á handbörum frá þurrkstaðnum og hærra upp á ströndina, en þar voru aðrir að hlaða honum í stóra stakka og báru á staflann stóra steina til að fergja fiskinn og gera hann flatann. Konur unnu mesta að þessari vinnu. Sumar þeirra voru mjög stórar og þreklegar, en ákaflega óhreinar, og þegar við fórum fram hjá hópnum, lagði megnan þráaþef að vitum okkar,,. (Úr, Öldin sem leið 1801-1860)


mbl.is Íslendingar sjöttu bestu gestgjafarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarframkvæmd

Á Fáskrúðsfirði er verið að byggja 2.400 m2 frystigeymslu sem á að vera tilbúin til notkunar í byrjun mars, en framkvæmdin hófst í nóvember. Húsið er innflutt stálgrindarhús sem byrjað verður að reisa í næstu viku. Þó svo að húsið sé stálgrind fara hátt í 2000 m3 af steypu í sökkla og plötur.  

Fyrsta vika ársins 2016 fór að mestu í steypuvinnu, hjá okkur múrurunum. Tveir af fjórum steypudögum vikunnar höfðu verið ráðgerðir á milli hátíða, en þar sem hvert óveðrið rak annað austanlands þá dagana varð ekkert af þeim. 

Spáð hefur verið frosti svo langt sem spár ná, því var ekki um annað að ræða en að klára útisteypur. Til þess að það tækist þurfti fjöldi manns að leggja á sig langa daga við járnbendingu og annan undirbúning. Þessar myndir eru frá því á föstudag.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband