Færsluflokkur: Hús og híbýli

Fjárborgir

Fjárborg

Það er oft svo að í landslaginu meðfram veginum leynast mannvirki sem eftirtektin missir af, og þó svo tekið sé eftir þeim þá veit maður ekki hverrar gerðar þau eru og telur þetta stundum í fljótu bragði vera náttúrusmíð eða jafnvel eitthvað dularfyllra.

Þannig var því eitt sinn háttað þegar ég var á ferð skammt austan við Lönd við Stöðvarfjörð; óveðursnótt í myrkri, regni og roki. Skyndilega keyrði ég inn í heim annars tíma, á milli hlaðinna grjótgarða og torfveggja. Þó ég hafi farið þarna um oft síðan, þá tókst mér ekki að staðsetja hvar þessi mannvirki hefðu verið fyrr en nýlega.

Það gerðist þegar ég frétti hvar Bæjarstaðir hefðu verið. En fram að því hafði skýringin á þessari sýn minni, óveðursnóttina fyrir meira en 30 árum síðan, verið fyrir mér nánast yfirnáttúruleg. En þetta helgaðist af því að vegagerð stóð yfir, þegar ég var þarna á ferð og hafði vegstæði þjóðvegarins verið fært þannig að það liggur í genum hlaðið á Bæjarstöðum sem löngu voru komnir eyði. Næst þegar ég fór þessa leið var búið að jafna við jörðu þeim ummerkjunum um Bæjarstaði, sem voru enn við vegkantana á meðan vegagerðin stóð yfir.

IMG_2393

Því er ekki þannig farið með fjárborgina að Ósi í Breiðdal, en hún stendur í vegkantinum á þjóðvegi eitt og er greinileg sem hringur í landslaginu. Samt var það ekki fyrr en nýlega sem ég sá hana, þó svo að ég hafi keyrt fram hjá henni fleiri hundruð sinnum. Það var frásögn í bók sem fékk mig til að finna það út hvar fjárborgin er og þegar ég fann hana undraðist ég sjónleysi mitt fram að þeirri stundu. 

Í bókinni um Knútsbyl sem geisaði 7.janúar 1886, og Halldór Pálsson skráði frásagnir af, er örstutt lýsing höfð eftir Sigurði Jónssyni um það hvernig fjárborgin á Ósi í Breiðdal var notuð. "Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt."

IMG_0435

Önnur fjárborg sem er mikið mannvirki er á Skógum í Mjóafirði og þar háttar þannig til að beygja hefur verið gerð á þjóðveginn þannig að keyra þarf því sem næst hálfhring í kringum hana. Það er því erfitt að láta þær manngerðu grjóthleðslur fara fram hjá athyglinni. Fjárborgin í Mjóafirði er á Þjóðminjaskrá, eftir að hafa verið friðuð í tíð Kristjáns Eldjárns. 

Fjárborgir eru víða á Íslandi þó eru þær helst sagðar á Suður- og Austurlandi. Á vefnum ferlir.is hefur fjárborgum í grennd við höfuðborgarsvæðið verið gerð góð skil, eins er grein Birnu Lárusdóttir í Árbók fornleifafélagsins 2010, heill hafsjór af fróðleik um þessar steinahrúgur.

Árið 1778 kom út á Íslandi rit, eftir Magnús Ketilson, um fjárborgir og gagnsemi þeirra. Þessu riti var dreift um landið bændum til halds og trausts við gerð slíkra mannvirkja, en þau taldi Magnús að kæmu að góðu gagni. Hann sagði vera mun á fjárborg og fjárbyrgi, samkvæmt skilgreiningu Magnúsar gæti mörg borgin flokkast sem byrgi. Sama hvort var þá voru báðar byggingarnar notaðar til að veita sauðkindinni skjól. Talið var að á Austurlandi einu væru til eiginlegar fjárborgir samkvæmt skilgreiningu Magnúsar, og þar hélt hann að þekkingar mætti afla um byggingu þeirra.

Fjárborg á að hafa verið hringlaga grjóthleðsla, samkvæmt riti Magnúsar, sem mjókkaði þegar ofar dró og myndaði þak í toppinn, þesslags bygging var því nokkurskonar fjárhús. Fjárbyrgi var aftur á móti hlaðinn hringur úr grjóti og torfi sem hafði lóðréttan mannhæðar háan vegg úr grjóti að innanverðu, en var tyrfður að utan með aflíðandi halla og með lágri lóðréttri torf hleðslu ofan á veggnum, þetta lag gerði það að verkum að þegar skóf snjó þá lyftist skafrenningurinn yfir byrgið og féð fennti ekki, auk þess að hafa fullkomið skjól. Bæði byrgin og borgirnar höfðu hurð sem var staðsett þar sem minnst var áveðurs. 

Þegar Daniel Bruun ferðaðist um landið á árunum 1890-1910 við að skoða og skrásetja íslenskt þjóðlíf og mannvirki, þá tók hann eftir þessum hringlaga borgum. Hann tók fjárborgir á Reykjanesskaga til sérstakrar athugunnar, sem voru bæði hlaðnar opnar, eða saman í toppinn. Bruun taldi að rætur þessa byggingarlags mætti rekja til Hjaltlandseyja eða Írlands.

IMG_2122

Sumarið 2017 var ég á ferð í Færeyjum, nánar tiltekið á Sandey. Í bæ á þeirri eyju, sem heitir Húsavík rak ég strax augun í grjóthrúgöld sem mér þótti líklegt að væru fjárborgir. Þegar ég fór að þessum hrúgum kom í ljós að svo var og það sem meira er að þarna eru þær í fullri notkun, það jarmaði innan úr einni borginni. Í Húsavík er mikið af fornum steinbyggingum og hef ég einhversstaðar séð að sú húsagerð eigi að sanna keltnesk áhrif í Færeyjum fyrir tíma víkinga.

Hvað telst til fjárborga er oftast skilgreint sem svo að um sé að ræða lokað mannvirki, jafnvel með þaki, sem sé einungis byggt úr grjóti, ekkert timbur né annað notað í burðarvirki eða þak, nema þá torf. Orðabók Máls og menningar hefur þessa skýringu á orðinu fjárborg; grjótbyrgi fyrir fé út á víðavangi, veggirnir látnir dragast saman að ofan, eða reft yfir, með engri jötu. Sumir hafa viljað meina að margar hringlaga borgir, sem teljast til fjárborga, hafi upphaflega ekki verið byggðar sem slíkar, heldur dómhringir, virki eða nokkurskonar helgistaðir, jafnvel komnir úr keltneskum sið. Síðar hafi það komið til að þessi mannvirki voru notuð sem skjól fyrir sauðfé.

IMG_0836

Á bænum Bragðavöllum í Hamarsfirði eru miklar og listilega vel gerðar grjóthleðslur í túninu. Ef ekki væri eins stutt síðan og raun ber vitni að þær voru hlaðnar, þá myndu þessar hleðslur vekja spurningar sem erfitt væri að svara, væru sennilega dularfull ráðgáta. En haustið 1906 komu skriður í miklum rigningum úr giljum ofan við túnið og runnu ótrúlega langar leiðir á því sem næst jafnsléttu.

Þegar Bragðavalla menn hreinsuðu aurinn og grjótið úr túninu, hlóðu tveir daufdumbir bræður grjótinu upp í tvöfaldan vegg, til að setja aurinn og smærri steina á milli, svo skriðan tæki sem minnst pláss í túninu. Þessi hleðsla er mikið augnayndi og ef menn vissu ekki tilurð þessa mannvirkis er næsta víst að það þætti dularfyllra en svo að þar hefði tilgangurinn einungis verið að hreinsa grjótið úr túninu.

IMG_2481

Það er fátt sem minnir lengur á Bæjarstaði, þar sem þjóðvegur eitt liggur nú um hlaðið, annað en tóftarbrot á stangli, og svo grjótgarðurinn ofan við tún

 

IMG_4160

Fjárborgin að Skógum í Mjóafirði er farin að láta á sjá, þrátt fyrir að vera á þjóðminjaskrá. Í sumar frétti ég að fengist hefði fjárveiting til lagfæringa

 

IMG_2038

 Fjárborgaþyrping á Sandey í Færeyjum, þar er þeim haldið við enda ennþá í fullri notkun

 

IMG_2060

 Færeysk fjárborg í Húsavík

 

 IMG_0838

Meira ern 100 árum seinna ber steinhleðslan í túninu á Bragðavöllum daufdumbum bræðrum veglegt vitni, sem listilega vel gerður minnisvarði um aurskriðu


Bóndastaðir komnir undir græna torfu

Sandfell í Öræfum

Skáldsagan Öræfi, eftir Ófeig Sigurðsson, hefur að geima grátbroslega frásögn af því þegar bændur í Öræfasveit létu jarðýtu jafna bæinn að Sandfelli við jörðu. En það á að hafa gerst árið 1974, í vikunni áður en hringvegurinn var opnaður. Það þótti ekki boðlegt að láta forseta lýðveldisins sjá heim að Sandfelli þar sem moldarkofar fyrri alda stóðu enn uppi. En forsetin var að koma í sveitina til að klippa á borða á brúnni yfir Skeiðará í tilefni hinna miklu tímamóta í samgöngumálum þjóðarinnar og þá ekki síst Öræfinga. Það grátbroslega var að forseti lýðveldisins var í þá daga Kristján Eldjárn, fyrr um þjóðminjavörður. Ef frásögn bókarinnar er sannleikanum samkvæm þá var síður en svo um einstakan atburð að ræða, jarðýtan var látin varðveita torbæina um land allt samhliða vegagerð.

Það var löngu áður en komst í tísku að tala um umhverfisvernd, sem Íslendingar byggðu umhverfisvæn hús án þess svo mikið sem vita af því. Á öldum áður, í nágrannalöndum, voru torfhús fyrir þá sem ekki höfðu efni á öðru. En á Íslandi voru þau notuð í gegnum aldirnar af allra stétta fólki. Þó svo að það hafi orðið móðins í seinni tíð að tala niður torbæinn með máltækjum á við "að skríða aftur í moldarkofana" þá er torbærinn vitnisburður um íslenska byggingarlist sem hefur vakið verðskuldaða athygli og er talin eiga erindi á heimsminjaskrá. Sumir myndu sjálfsagt álykta sem svo að viðlíka tæki og jarðýta myndi ekki vera notuð nú til dags þegar þesslegar menningarminjar eru annars vegar. En er það svo?

IMG_1830

Sænautasel, heiðarbýli á Jökuldalsheiði, svo kallaður kotbær. Útihús s.s. fjós, hlaða og hesthús er sambyggt íbúðahúsi. Í þessum torfbæ vilja margir meina að Halldór Laxnes hafi fullkomnað hugmynd sína af sögunni Sjálfstætt fólk. Bærinn er vinsæll áningastaður þeirra sem vilja kinna sér sögusvið Bjarts í Sumarhúsum

Einhvern veginn er það rótgróið í þjóðarsálina að líta fram hjá eigin byggingarhefð þegar kemur að varðveislu húsa. Íslendingum er tamt að fyrirverða sig fyrir eigin byggingar, sérstaklega þær sem byggðar eru úr innlendu hráefni. Þeir eru t.d. fáir sem upphefja liðin tíma í húsagerð, ef marka má íslenska orðræðu. Eitt af því sem notað hefur verið til að stytta leið í rökræðum er; "viljið þið kannski aftur í moldarkofana". Önnur stytting sem tengist húsum og er notuð þegar lýsa þarf óskapnaði er orðið „steinkumbaldi". Nú, þegar líður á 21. öldina, virðist vera komið að því að steinkumbaldinn, sem tók við af torfbænum, verði jarðýtunni að bráð víða í sveitum landsins, líkt og torfbærinn á þeirri 20..

Margt sem minnir á hversdagslega notkun alþýðufólks á innlendu byggingarefni á síðustu öld er óðum að hverfa ofan í svörðinn. Í vikunni frétti ég af því að Bóndastaðir hefðu verið jafnaðir við jörðu. Þessi bær var í Hjaltastaðaþinghá, eins og svo margt sem mér þykir  merkilegt. Það hefur vakið sérstaka athygli mína, sem steypukalls, hversu blátt áfram steinkumbaldinn kom til í Hjaltastaðaþinghánni í framhaldi af moldarkofanum. Á Bóndastöðum mátti sjá hvernig ný húsagerð tók við af torbænum, en hafði samt sem áður svipaða húsaskipan og hann, þ.e. íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús eins og í gömlu torfbæjunum. Bóndastaðir var því athygliveður steinsteyptur bær sem byggður var á árunum 1916-1947.

IMG_2635

Bóndastaðir áttu það sammerkt með Sænautaseli, að innangengt var í útihús s.s. fjós og hlöðu, sem voru sambyggð íbúðarhúsinu.

Það sem helst þótti að steinsteyptu húsunum, sem tók við af torfbæjunum í sveitum landsins, var hversu köld þau voru, og hversu mikið viðhald þurfti. En eitt af því sem þessi hús áttu sammerkt var að þau voru að mestu byggð úr því byggingarefni sem til var á staðnum. Torfið og grjótið var fengið úr túnjaðrinum í torfbæinn, og steypumölin úr næsta mel í steinhúsið. Vitanlega var þetta byggingarefni misjafnt að gæðum eftir því hvar var, en hafði þann kost að flutningskostnaður var hverfandi og auðveldlega mátti nálgast ódýrt efni til viðhalds.

IMG_2633

Þó svo að torfbæir og steinhús til sveita hafi ekki verið byggð sem minnisvarðar þá væri allt í lagi að varðveita eitthvað af þeirri byggingahefð eftir að húsin hafa lokið hlutverki sínu. Oftar en ekki fékk hugmyndaauðgi þeirra sem byggðu og notuðust við byggingarnar að ráða. Það má segja að margar þeirra úrlausna sem notast var við hafi tekið skólaðri verkfræði fram

Það má leiða að því líkum að ef íslendingum hefði lánast að sameina stærstu kosti torfsins og steypunnar hefðu fengist einhver umhverfisvænstu og endingarbestu hús sem völ er á, hlý og ódýr í rekstri hvað viðhald varðar auk þess sem þau hefðu verið laus við slaga og myglu. Þannig húsagerðalist er nú kominn í tísku víða um heim og  eru kölluð earthhouse. það þarf því ekki lengur að finna upp hjólið í því sambandi, einungis að koma steinkumbaldanum undir græna torfu í næsta moldarbarði eða melshorni.

IMG_2621

Bóndastaðabláin verður seint söm án bæjarins

 

IMG 2930

Lítið fer fyrir stórum steinsteyptum beitarhúsum í landi Ásgrímstaða Hjaltastaðaþinghá, byggðum 1949. Húsin eru með heyhlöðum fyrir enda og í miðju. Torf á bárujárnsklæddu timburþaki flest annað steinsteypt s.s. jötur. Þessi hús eiga ekkert annað eftir en verða jarðýtunni að bráð

 

IMG 2867

Nýtnin hefur verið höfð í hávegum við hlöðubyggingu beitarhúsanna, áður en bárujárnið fór á þakið hefur það verið nýtt í steypumótin

 

IMG 2509

 Fjárhúsin með heyhlöðunni að baki, sem byggð voru í flestum sveitum landsins um og eftir miðja síðustu öld eru nú óðum að verða tímanum að bráð. Víða hafa þau þó gengið í endurnýjun lífdaga sem ferðaþjónustu húsnæði. Við þessi hús í Hjaltastaðaþinghánni stendur steypuhrærivélin enn í túnfætinum og melurinn með steypumölinni er á næsta leiti. Húsin eru hátt í 60 ára gömul og á veggi þeirra hefur aldrei farið málningarstroka né önnur veðurvörn


Létt steypa

Að hafa marga fjöruna sopið er máltæki notað um þann sem hefur öðlast reynslu og þroska, oft vegna einhverra erfiðleika (eða kannski réttar sagt, mistaka). Það mætti betrumbæta þetta máltæki um höfund þessarar síðu á þann hátt, hann hefur marga steypuna þvælt. Eins og þeir sem litið hafa hér inn í gegnum tíðina hafa vafalaust tekið eftir.

Í lok síðustu viku voru fleiri en ein, og fleiri en tvær steypur þvældar á mínum vinnustað. Ein þeirra var samt þess eðlis að ég hafði með lagni reynt að koma mér undan henni. Nennti satt að segja ekki að taka þátt í tilraun við að betrun bæta hjólið einu sinni enn, en hvað steypu varðar þá hefur sú gjörningalist helgað mína ævi og ég taldi mig vera orðin of gamlan, slitin og sljóan til að verða að gagni.

Málið er að vinnuveitendur mínir hafa undanfarin ár staðið að nýsköpunarverkefni við léttsteyptar milliveggjaeiningar. Þessar milliveggjaeiningar er svo raðað upp á byggingastað og er hver eining 60 cm breið, 10 cm þykk og nær frá gólfi til lofts, þyngdin er ekki nema ca.65 kg einingin. Svona veggjum er snarað upp af tveimur mönnum á methraða og þegar þeir eru uppkomnir er einungis málningarvinna eftir. Veggirnir hafa hátt einangrunargildi, eldvörn og hljóðísog.

En það sem átti að gera í síðustu viku var að steypa gólf með léttsteypunni, við höfðum að vísu gert það áður. En þá með því að blanda litlar blöndur í tilraunaskini, en núna átti að gera þetta á stærri skala með steypubíl. Með svona gólfi er hægt að slá margar flugur í höggi, t.d. þegar kemur að gólfkulda og burðarþoli. Rúmmetrinn af svona léttsteypu er ekki nema ca. 350 kg á meðan venjuleg steinsteypa er ca 2.400 kg.

Erfiðleikarnir hafa samt falist í að þvæla steypuna saman í magni, því fylliefnið er miklu léttara en vatnið og sementið, öfugt við mölina í venjulegri steypu sem hjálpar til við að hræra stöffið. Þetta er því svipað og ætla að jafna sósu í matargerð með því að demba öllu hveitinu þurru í einu lagi út í pottinn, þá verður sósan varla annað en köggla grautur.

Í síðustu viku komst ég semsagt ekki hjá því að taka þátt í steypu mistökum, sennilega vegna langrar reynslu við að krafsa mig í gegnum þau, en er núorðið ekki fær um annað en veita smá sáluhjálp. En eins og í ævintýrinu fór allt vel að lokum og pólskir félagar mínir sáu um að smyrja léttsteypu glundrinu úr fisléttum einangrunarkúlunum á gólfið, ég horfði hrærður á og tók video af gjörningnum.

 


Torfbærinn


Algjör steypa

IMG_5841

"Það er merkilegt hvað þessi kalla andskoti getur flutt sömu gröfuskófluna fram til baka, hann er búin að vera að flytja hana frá því ég man eftir mér", sagði vinnufélagi minn einn góðviðris morguninn núna í vikunni. Sá með skófluna hafði heyrt og kom kjagandi til okkar og sagði; "það er alveg sama hvað maður á góða gröfu hún gerir ekkert nema hafa skóflu".

Það er orðið svolítið síðan ég hef sett steypu hérna inn á síðuna, en það er ekki vegna þess að það sé ekki verið steypa. Ég var farin að halda fyrir nokkrum árum að ungir menn á Íslandi ættu ekki eftir að steypa og sú virðulega athöfn færi algerlega í hendurnar á pólverjum og öðrum aðfluttum víkingum eftir að við gömlu steypukallarnir brennum út.

Gamli Breiðdælingurinn sem bjástraði við gröfuskófluna sagði eftir að hann hafði útskýrt þetta með gröfuna og skófluna -"Þurfið þið ekkert að vinna strákar mínir og ert þú ennþá að þvælast í kringum steypu, geturðu kannski eitthvað sagt þessum fuglum til?" -"Nei þeir gera þetta bara einhvernvegin, sama hvað ég segi", svaraði ég. -"Og verður þá engin óður lengur, eins og í almennilegri steypu? -"Nei það er orðin afturför í öllu".

Líkt og maðurinn með skófluna þá man ég ekki eftir öðru en steypa hafi verið mitt líf og yndi. Þó svo mikið hafi verið haft fyrir því að koma vitinu fyrir mig á unglingsárunum til að forða mér úr steypunni þá hefur hún verið mín kjölfesta í meira en fjörutíu ár. Mér var sagt að ég hefði ekki skrokk í erfisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ. Eftir að hafa látið tala mig inn á bóknámsbraut síðustu árgangana í gagnfræðaskóla varð það blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bóknáminu.

Núna öllum þessum árum og áföllum seinna varð mér á að hugsa hefði ég betur hlustað þarna um árið? Og svarið er; nei því ef ég þyrfti að snúa til baka þá myndi ég engu breyta heldur bara njóta hvers dags aðeins betur og æsa mig örlítið minna. Því eftir muna standa verkin sýnileg, þó svo vissulega hefði getað verið varið í að eiga snyrtilegt bókhald upp í hillu eða hafa framkvæmt faglegt eftirlit með öðrum, þá jafnast ekkert á við varanleg minnismerki.

Það er gott að eiga félaga sem leyfa manni að steypa af og til sér til samlætis, þeir þurfa allavega ekki í ræktina ungu mennirnir til að halda sér formi.

 

 


Íslenski torfbærinn - húsagerðarlist á heimsmælikvarða

Löngu áður en komst í tísku að tala um umhverfisvernd, byggðu Íslendingar umhverfisvæn hús án þess að vita af því. Á öldum áður, í nágrannalöndum, voru torfhús fyrir þá sem ekki höfðu efni á öðru en á Íslandi voru þau notuð í gegnum aldirnar af allra stétta fólki. Þó svo að það hafi orðið móðins í seinni tíð að tala niður torbæinn með máltækjum eins og "að skríða aftur í moldarkofana" þá er torbærinn vitnisburður um íslenska byggingarlist sem hefur vakið athygli og talin eiga erindi á heimsminjaskrá.

Hinn íslenski torfbær þróaðist út frá langhúsunum, norður-evrópskri byggingarhefð, sem fylgdi landnemunum er þeir námu hér land. Eins og nafnið gefur til kynna þá er torf meginefni bygginganna. Timbur var notað í grindina og klæðningu innanhúss en torf var notað til að mynda veggi og þak. Stundum voru steinar notaðir ásamt torfinu í veggi og steinskífur voru stundum nýttar undir þakið.

Ef það er hægt að eyrnamerkja byggingalist sérstöku landi eða þjóð öðrum fremur, þá er það þegar byggt er úr byggingarefninu sem er á staðnum og með hugviti íbúanna. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga orð alþýðumannsins Sveins Einarssonar torfbæjahleðslumeistara frá Hrjót; "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum".

Einnig er rétt í þessu sambandi að rifja upp orð heimsmannsins Halldórs Laxness, sem einn íslendinga hefur hlotið Nóbelsverðlaun; "Tilgerðarlaus einfaldleiki er mundángshófið í hverju listaverki, og að hvert minnsta deili þjóni sínum tilgáng með hæversku. Það er einkennilegt hvernig fólk í ljótustu borg heimsins leitast við að reisa hús sín svo rambyggilega, eins og þau ættu að standa um aldur og ævi. Meðan var til íslensk byggingarlist var aldrei siður að byggja hús til lengri tíma en einnar kynslóðar í senn, - en í þá daga voru til falleg hús á Íslandi."

Undanfarin fjögur ár hefur þessi rammíslenska byggingarhefð fangað huga minn á þann hátt að ég hef varla látið fara forgörðum tækifæri til að kynna sér gamla torfbæi þar sem ég hef verið á ferð. Mest sé ég þó eftir hvað ég lét framan af ævi "moldarkofa" máltækið villa mér sýn. Árið 2013 vann ég part úr sumri við að koma steinum í gamla veggi samísks moldarkofa í N.Noregi. Við þá vinnu kviknaði áhuginn á hinni íslensku arfleið. Undanfarin 4 ár hef ég heimsótt margan torbæinn og tóftarbrotið eins og hefur mátt greina hér á síðunni. Myndavélin hefur oft verið með í för og ætla ég nú að gera lítillega grein fyrir þessu áhugamáli.

 

Glaumbær - Skagafirði

IMG 3265

Gamli bærinn í Glaumbæ var friðlýstur árið 1947. Sama ár flutti síðasta fjölskyldan úr bænum. Gamli bærinn tilheyrir húsasafni þjóðminjasafnsins en Byggðasafn Skagfirðinga hefur hann til afnota fyrir sýningar. Húsin hafa staðið á bæjarhlaðinu í meira en 1000 ár eða allt frá 11. öld en talið er að bærinn hafi áður staðið í túninu austan við bæjarhólinn. Glaumbær er með veglegri torfbæjum landsins og hefur frá aldaöðli talist til höfðingjasetra. Guðrún Þorbjarnardóttir og Þorfinnur Karlsefni eignuðust Glaumbæ eftir farsaæla Vínlandsferð. Þar bjó eftir þau Snorri sonur þeirra sem er fyrsta evrópska barnið sem sögur fara af að hafi fæðst á meginlandi Ameríku. Varðveisla Glaumbæjar er ekki síst Íslandsvininum Mark Watson að þakka, en hann hafði gefið 200 sterlingspund til varðveislu hans strax árið 1938. 

IMG_3271

Glaumbær er sennilega torfríkasti bær landsins, því varla er grjót að finna í Glaumbæjarlandi. Bærinn er því gott dæmi um hinar ýmsu aðferðir við að búa til byggingarefni úr torfi s.s. klömbruhnausa, sniddur og strengi sem bundu saman vegghleðslurnar.

 

Burstafell - Vopnafirði

IMG_3720

Burstafell er einn af fegurstu torfbæjum á Íslandi. Sérstaða bæjarins felst að miklu leyti í því hversu glöggt hann miðlar breyttum búskapar- og lifnaðarháttum fólks allt frá því fyrir 1770 til þess er hætt var að búa í bænum árið 1966. Sama ættin hefur búið á Burstarfelli í tæplega 500 ár. Bærinn telst til betri bæja enda var setur sýslumanna að Burstafelli á öldum áður.

IMG_3708

Burstafellsbærinn sýnir vel hvað strengur úr torfi í bland við grjót var algeng byggingaraðferð austanlands, en lítið um klömbruhnausa. Búið var í bænum fram á sjöunda áratug 20. aldar og tók hann breytingum samkvæmt tímanum t.d. er bárujárn undir torfþekjunni.

 

Galtarstaðir fram - Hróarstungu

IMG_3623

Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld af svokallaðri Galtastaðagerð, sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja, heldur á rætur í fornri gerð og í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum, snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði. Bærinn er með svokallaðri fjósbaðstofu. Baðstofuloftið var þá yfir fjósinu og ylurinn af kúnum nýttist til húshitunar. Bærinn er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og velur þjóðminjasafnið að kalla byggingarstíl bæjarins "svokallaða Galtarstaðagerð" má ætla að þessi húsaskipan hafi verið algeng í bæjum alþýðufólks á Austurlandi, eða á svokölluðum kotbæjum. Byggingarstíllinn var t.d. mjög svipaður á Þuríðarstöðum í Eyvindarárdal. 

IMG_3618

Galtastaðir eru í Tungunni u.þ.b. 15 min. akstur frá Egilsstöðum. Bærinn er lokaður almenningi og því ekki hægt að komast inní hann. Það væri verðugt verkefni að gera Galtastaðabæinn sýningarhæfan sérstöðu hans vegna. Áfast gamla bænum er nýrra hús sem búið var í þar til búsetu á Galtastöðum lauk fyrir nokkrum árum. Nokkur stök útihús úr torfi eru í námunda við bæinn.

 

Laufás - Eyjafirði

IMG_5146

Búsetu í Laufási má rekja allt aftur til heiðni en í elsta hluta gamla bæjarins sem nú stendur er talið að séu viðir allt frá 16. og 17. öld. Bærinn kemur við sögu skömmu eftir að Ísland byggðist og þar hefur staðið kirkja frá fyrstu kristni. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Síðasti presturinn sem bjó í gamla bænum, séra Þorvaður Þormar, flutti árið 1936 í nýtt prestssetur. Laufás hefur því talist til höfðingjasetra og algengt var að tuttugu til þrjátíu manns væru til heimilis í Laufási, því margt vinnufólk þurfti til að nytja þessa gróðursælu kostajörð. 

IMG_5153

Bæjarhúsin á Laufási eru byggð úr torfi og grjóti. Þar má sjá listilega fallegt handverk s.s. klömbruveggi samanbundna með streng. Matjurtagarði haganlega fyrirkomið inn á milli húsanna og hlaðið fyrir með grjóti.

 

Sænautasel - JökuldalsheiðiIMG_1830

Sænautasel var byggt á Jökuldalsheiði 1843. Búið var í bænum í heila öld. Flutt var úr bænum árið 1943. Árið 1992 lét Jökuldalshreppur endurbyggði bæjarhúsin. Þar er nú rekin ferðaþjónusta. Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu „Sjálfstætt fólk”. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratugi 20. aldar. 

IMG_3884

Bærinn í Sænautaseli er lifandi dæmi um þá útsjónasemi sem þurfti til að byggja hús fjarri mannabyggðum. Þar viðhafði Sveinn Einarsson frá Hrjót orðin "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum", þegar hann endurbyggði bæinn ásamt ungdómnum á Jökuldal.

 

Lindarbakki - Borgarfirði eystra

IMG_3723

Lindarbakki er lítið torfhús, upphaflega byggður sem þurrabúð rétt fyrir aldarmótin 1900. Búið var í húsinu fram undir lok 20. aldar en nú er það sumarbústaður. Sennilega er þetta eitt mest ljósmyndaða hús á Borgarfirði.

IMG_3733

Það má segja að húsið beri íslenskri húsagerðarlist vitni á fleiri en einn hátt. Auk þess að vera úr torfi eru stafnar þess bárujárnsklæddir.

 

Skógar - undir Eyjafjöllum

IMG_4478

 

Gamli torbærinn að Skógum samanstendur af krossbyggðu fjósi frá um 1880, skemmu frá um 1830, baðstofu frá um 1850, stofu frá um 1896 og svefnherbergi frá 1838. Bærinn er hluti af byggðasafninu á Skógum. Gömlu húsin voru endurbyggð 1968 og hafa frá þeim tíma verið einn megin þáttur safnsins að Skóum. Byggðasafnið á Skógum er stórt og mikið safn. Þar er m.a. samgöngusafn þar sem má skoða gamla bíla. 

IMG_4489

Í bæjarhúsunum á Skógum sést vel hvað grjót spilar stórt hlutverk í sunnlenskum torfbæjum. Undir torfi í þökunum er steinhellum raða til að gera þau vatnsheld, sem var algengt sunnanlands á meðan hrís var oftar notað undir torf í þaki og þau þétt með kúamykju ef með þurfti þar sem veðrátta var þurrari. 

  

Hof - Öræfum

IMG_4723

Hofskirkja var reist 1884, síðasta torfkirkjan sem var byggð eftir hinu gamla formi. Hún er ein sex torfkirkna, sem enn standa og eru varðveittar sem menningaminjar. Hún er jafnframt sóknarkirkja Öræfinga. Þjóðminjasafnið lét endurbyggja kirkjuna árið 1954.

IMG_4713

Kirkjugarðurinn, sem umlykur Hofskirkju er ekki síður athyglisverður, með öllum sínum upphleyptu leiðum þannig að garðurinn stendur mun hærra en umhverfið í kring. Engu er líkara en að þar hafi verið jarðsett í gegnum tíðina gröf ofan á gröf, þannig að kirkjan komi til með hverfa ofan í svörðinn.

 

Hrútshóll - undir Eyjafjöllum

IMG_4450

Manngerðir hellar eru víða á Suðurlandi, vitað er um hátt á annað hundrað manngerða hella syðra á meðan aðeins er vitað um fjóra nyrðra. Hrútshellir einn af þeim merkari, framan við hann er hlaðið fjárhús úr torfi og grjóti. Inn af því eru tveir hellar höggnir í móbergið. Stór hellir sem notaður er sem hlaða og er um 20m langur. Annar lítill gengur þvert á þann stóra og er kallaður Stúkan. Dr. Walter Ghel rannsakaði Hrútshelli árið 1936 og komst að þeirri niðurstöðu að þar hefði verið heiðið hof. Ristir hafa verið krossar í hellin sem bæði geta vísað til heiðinna og kristinna tákna.

 

Færeyskt hús - Kunoy

IMG 1835

Þetta hús gekk ég fram á í Kúney snemma í sumar. Færeyingar hafa notað grjót í veggi og torf á þök húsa í gegnum tíðin. Mikinn fjöldi þesskonar húsa má finna uma allar eyjarnar, jafnvel heilu þorpin. Í mörgum þeirra er enn búið en þetta hús er sennilega notað sem sumarhús. Færeyingar hafa lagt mun meiri rækt við að varðveita byggingarsögu sína en Íslendingar.

 

Vilgesvárre - Troms

IMG_1087

Til gamans læt ég fylgja með litla kofann í Bláfjöllum N.Noregs sem varð til þess að áhuginn á torfbænum kviknaði. Þetta er Samaískur torfbær sem Samarnir kalla Gámma. Vilgesvárra var í ábúð sömu fjölskyldunnar í 90 ár samtímis heiðarbýlunum í Jökuldalsheiðinni. Búset hófst þar af sömu ástæðum og á heiðarbýlum Íslands þ.e.a.s. vegna skorts á landnæði. Vilgesvárre er nú Samískt safn.

IMG_1082

Upp í Bláfjöllum, í Vilgesvárre upplifði ég þá reynslu að gistaí torfbæ víðsfjarri mannabyggðum. Án rafmagns, rennandi vatns og allra nútímaþæginda. Vatnsbólið var í túnfætinum neðan við bæinn, eldavélin var gömul viðareldavél og moldargólf í framhelmingnum en þiljuð vistarvera þar sem var sofið og eldað.  

Það væri hægt að segja svo miklu meira um torfbæina, en suma þeirra hef ég aðeins átt kost á að skoða að utan. Þeir sem eru opnir almenningi eru yfirleitt söfn. Þeir eru oftar en ekki stút fullir af erlendum feðamönnum og þegar inn er komið er þar heil veröld annars tíma, en hér læt ég staðar numið.


Breyttur lífstíll

Þeir Kjartan og Wallevik koma inn á það að ýmsar mismunandi ástæður geti verið fyrir myglu en hvers vegna hún varð af faraldri á Íslandi er þeim ráðgáta. 

Vinnufélagi minn sem hefur unnið við húsbyggingar og viðhald ævina alla viðraði þá hugmynd, við litla hrifningu viðstaddra, að mygla hefði ekki verið vandamál í húsum fyrr en hætt var að reykja innandyra. Það skildi ekki vera að hann hefði eitthvað til síns máls, því meiri loftræsting fylgdi reykingunum.

Eins má nefna að nú á tímum fer flest fólk í sturtu einu sinni á dag og því fylgir mikill raki innandyra. En fyrir nokkrum áratugum var laugardagur hinn heilagi baðdagur.

Þó svo að böð hafi verið stunduð af flestum um langa hríð oftar en einu sinni í viku hefur ýmislegt breyst til dagsins í dag í því sambandi. T.d. eru flestir sturtubotnar sjálft gólfið, jafnvel á timburgólfum.

Áður var notast við vatnsþétt baðkör og sturtuklefa með botni, sem þóttu erfiðari í umgengni. Frágangur gólfniðurfalla er t.d. annar og lakari á Íslandi en í Noregi.

Einnig má nefna það að allur þvottur er nú orðið þurrkaður innandyra í stað þess að blakta úti á snúrum. Þó svo að þurrkarar eigi að vera það fullkomnir að þeir skili rakanum frá sér á réttan stað þá þekkja sjálfsagt flestir hvað þungt og rakt loftið getur verið í þvottaherberginu.

Hér er minnst á fleiri ástæður fyrir myglu sem sjaldan er talað um


mbl.is Blómabeðið getur valdið myglu innandyra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undir grænni torfu týndist tíminn

IMG 1455

Það er stundum sagt um tímaskin Færeyinga að þar sé ávalt nægur tími og ef þeir verði dagþrota þá komi bara meiri tími á morgun. Dagskrá landans er öllu strekktari þó svo að Bjartmar hafi fyrir skemmstu sungið um "flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið þar sem af týndum tíma er af nægu að taka" um leið og hann bauð landann "velkomin á bísan", þegar allt virtist stefna í að leita þyrfti í reynslubanka Bjarts í Sumarhúsum.

Eftirminnilegt er að Færeyingar hikuðu ekki við að lána Íslendingum stórfé á meðan hinar frændþjóðirnar veltu vöngum ásamt alþjóða gjaldeyrissjóðnum yfir því hvernig mætti koma böndum á fjármálaverkfræði sem kennd var við útrásarvíking. Úti í hinum stóra heimi þótti þetta náttúrulega ekki gáfulega farið með fé hjá frændum vorum í Færeyjum, en þeir sögðu þá bara að gáfur og gæska þyrftu ekki endilega að fara saman. Skilyrðislaust bæri að hjálpa sínum bróðir í neyð.

Í síðustu viku fórum við Matthildur mín loksins í langþráða Færeyjaferð og vorum yfir Hvítasunnuhelgina. Þetta var nokkurskonar systraferð þar sem við tengdasynir Sólhóls fengum að fljóta með sem bílstjórar á Norrænu frá Seyðisfirði til Þórshafnar. Þessi ferð hafði verið á dagskrá í mörg ár og má segja að við skipulag hennar hafi lífsspeki Færeyinga verið höfð að leiðarljósi, um að á morgun komi meiri tími.

Daginn fyrir brottför bað góður Borgfirðingur mig um að skila kveðju til allra sem ég hitti í Færeyjum, því þar byggi besta fólk í heimi, svo vel fann hann í hjarta sínu gæsku Færeyinga. Auðvitað reyndi ég að koma kveðju hans til skila þegar gafst til þess tími. Þessi Hvítasunnuhelgi er samt ekki sú fyrsta sem ég dvel í Færeyjum því fyrir 33 árum síðan átti ég því láni að fagna sem ungur maður að kynnst þessum frændfólki okkar, þá hafði ég ráðið mig í vinnu hjá dönskum múrarameistara í Þórshöfn og var þar fram eftir sumri.

Eftir Hvítasunnuhelgina í denn þurfti ég að tína saman tómu bjórflöskurnar úr herberginu og koma þeim í verð hjá kaupmanninum niður á horni. Því við félagarnir sem leigðum þá á farfuglaheimili Verkakvennafélags Þórshafnar höfðum týnt útborgununum okkar í miklum gleðskap undir grænu torfþaki farfuglaheimilisins og áttum ekki fyrir mat, en nóg af tómum bjórflöskum. Þegar ég hafði sett flöskurnar í svartan ruslapoka reyndust þær allt of þungar til að bera og stútarnir stungust út úr skósíðum pokanum, sem ég var að sligast undan. Því varð að ég hnupla hjólbörum rogast með flöskupokann upp í þær.

Þó ekki væri torfærunum fyrir að fara og leiðin greið niður á við í hverfisbúðina á horninu, þá var hjólið á börunum ryðgað fast. Því þurfti ótrúleg átök í að ýta þeim niður brekkuna og halda um leið jafnvægi með dýrmætan farminn. Ég veit ekki enn í dag rúmum 30 árum seinna hvort það var fyrir að hafa fjarlægt flöskurnar af gistiheimili Verkakvennafélagsins eða liðka hjólbörurnar fyrir þær,sem varð til þess að okkur var ekki vísað á dyr, en það hafði mér verið tilkynnt að stæði til í upphafi ferðar, en var aldrei minnst meira á eftir að hjólbörunum var skilað.

IMG_1928

Kirkjubær; Múrinn til vinstri, Reykstofan fyrir miðju og kirkja Ólafs helga til hægri.

Þann stutta tíma, sem ég vann við múrverk í Færeyjum fékk ég að taka þátt í skemmtilegum verkefnum. Eitt af þeim var að gera við vegghleðslur kirkju Ólafs helga í Kirkjubæ og endurkalka hvíta veggi hennar. Þá vann ég með dönskum og færeyskum múrurum og hafði ekki grænan grun um hvað merkilegt verkefnið var, hvað þá þolinmæði fyrir svona fornminja gaufi. Enda leið ekki á lögnu þar til ég var settur í nýbyggingar verkefni þar sem ungur athafnamaður, Jakub A Dul, byggði sinn fyrsta Rúmfatalager, ef ég man rétt. Auk þessa vann ég við að banka steinhellur niður í stéttar og bílastæði tryggingafélags.

Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég uppgötvaði hversu sérstakt verkefnið var í Kirkjubæ. Þar eru tvær eldgamlar kirkjubyggingar, það er kirkja Ólafs helga sem er sögð byggð á 12. öld og dómkirkja Magnúsar sem er í daglegu tali kölluð Múrinn byggð um 1300, en sú bygging komst aldrei undir þak. Síðustu ár hefur verið unnið að viðgerðum á hleðslum í Múrsins. Einnig er Reykstofan í Kirkjubæ, sem er byggð í kringum 1100 og talin eitt elsta timburhús í heimi sem enn er í notkun.

IMG_1915

Þegar steinar losna í hlöðnum veggjum Múrsins, Ólafskirkju og Reykstofunnar í Kirkjubæ, er gert við þá með því að raða flötum smásteinum á milli þeirra í kalk-múrblöndu til að festa þá á sínum stað. Þetta er mikið þolinmæðisverk og hefur viðgerð veggja Magnúsar kirkju tekið mörg ár.

Auðvitað voru gömlu staðirnir mínir skoðaðir í ferðinni. Kirkjurnar í Kirkjubæ voru á sínum stað, meir að segja voru hellurnar ennþá í stéttunum og bílastæðunum í Þórshöfn. En þegar komið var í gömlu götuna mína reiknaði ég með að hjólbörurnar væru undir skrifstofuglugga verkakvennafélagsins, en þar brá mér heldur betur í brún. Gamla notalega svarta timburhúsið með torfþakinu, þar sem hægt var að opna kvistgluggann út á græna grasþekjuna til að reykræsta herbergið, var horfið. Þess í stað var komið nýtísku íbúðarhús og engin merki sáust um hjólbörur, ekki einu sinni svört hjólförin í malbikinu, hvað þá glerbrot eða tægjur af svörtum ruslapoka. Og litla búðin niður á horni orðin að íbúð.

Annars er það heilt yfir svo í Færeyjum að engu líkara er, en að þegar jarðýtan var flutt til Íslands um árið, og hér notuð á árangursríkan hátt við að jafna byggingasöguna við jörðu, þá hafi hún algerlega farið fram hjá Færeyjum og á það helvíti er varla hægt að minnast ógrátandi. Þar má finna heilu þorpin ennþá úr torfi og grjóti, meir að segja er búið í mörgum þessara húsa.

Hvernig myndi t.d. Þórshöfn líta út ef hún hefði farið í gegnum sama Dubai drauminn og Reykjavík? Þá væru grænu torfþökin nú komin undir malbik og þar væru svartir turnar klæddir í gler og innfluttar flísar, sem teygðu sig upp í þokuna. Það væru dapurleg skipti miðað við líflegan gamla bæinn, sem geymir söguna til dagsins í dag. Við skulum því rétt vona að það sé ekki bara vegna þess að Færeyingar vita að á morgun komi meiri tími, sem þeir hafa ekki ennþá ræst jarðýtuna eins og tímatrekktir frændur þeirra á sögueyjunni.

 

IMG_1922

Múrinn, eða dómkirkja Magnúsar í Kirkjubæ

 

IMG 1893

Götumynd frá Þórshöfn

 

IMG_1884

Götumynd frá Þórshöfn

 

IMG_1861

Þinganes í Þórshöfn, stjórnarráð Færeyja

 

IMG_1968

Þorp í Húsavík á Sandey

 

IMG 1835

Færeyskt hús í Kúney

 

IMG_1634

Saksun

 

IMG_1590

Bær á Vogey

 

IMG_1737

Stéttar í Þórshöfn

 

IMG_1908

Höfundur á fornum slóðum 


Byggingar í böndum bírókratísins

Það brást ekki að vorið kom með trukki á nýju tungli þann 24. síðasta mánaðar. Einhvern veginn er það alltaf þannig á vormorgnum þegar sól skín í heiði og fuglasöngur fyllir loftið þá kviknar framkvæmdaþráin, jafnvel hjá gömlum safnvíkingum. Hér á árum áður hefðu svona ljúfir vordagar ekki verið látnir fara forgörðum, steypihrærivélin hefði verið ræst og byrjað að byggja. Þó svo að ég vinni við sömu iðn og áður, þar sem pólskir vinnufélagar mínir sjá nú orðið um að gera það skemmtilega, þá er því ekki lengur svo fyrir að fara að framkvæmdaviljinn, steypuhrærivélin og vinnuaflið dugi til að byggja hús. Nú sem aldrei fyrr hefur allt verið niðurnjörvað með reglugerðarfargani.

Pólverjar hafa hirt flest skemmtilegustu störfin frá íslendungu án þess að landinn hafi heilaburði til að fatti það, innihúkandi rígnegldur fyrir framan tölvuskjáinn við að koma heim og saman á exele skjali hvernig skuli fara að því að gera hvað sem er arðvænlegt fyrir fjárfesta. Einagnveginn tekst samt að fá í útkomuna hvernig svoleiðis húsnæði hentar ungu fólki sem sárvantar hagkvæmt húsaskjól. Öllum þessum vandræðum samfara þarf langskólagenginn landinn að greiða af námslánunum og er því eina leiðin til að halda sjó að útbúa regluverkið það flókið að hæfi sérstaklega vel borgaðri menntun, alls óskildri þekkingu á húsbyggingum. þannnig regluverk ræður svo úrslitum um hvort hús verður byggt.

Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd og hafa vilja til að hrinda henni í framkvæmd þegar skal byggja hús. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistarar, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn. Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistarinn, öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið með gæðaeftirlit sem vottað er af skoðunarstöð og allur heili pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins.

Marteinn Mosdal - hvað?

Tryggvi Emilsson segir frá því þegar hann byggði fyrir rúmum 90 árum íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri. En hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Þó svo að við félagarnir á Djúpavogi höfum ekki þurft að hafa það frumkvæði til að bera að byggja steinsteypt hús eftir að hafa ekki þekkt annað en torfbæi þá var ennþá hægt að hrinda húsbyggingu í framkvæmt á hagkvæman hátt á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Að því leitinu var byggingaaðferðin áþekk torfbæ, að við notuðumst mikið við heimafengið í sinni tærust mynd, það er eigið hugmyndaflug, afl og mölina, sem lá því sem næst undir fótunum.

En þess ber að geta að á þeim tíma vorum við lokaðir inniá verndarsvæði eins og síðustu Móhíkanarnir, öfugt við það þar sem starfsleyfi steypustöðva í boði vinnu-, heilbrigðis og nefndu það eftirlits voru farin að gera afdalmennsku óhægt um vik.


Sjö sinnum það sagt er mér

IMG_0184

Þær fréttir sem ítrekað berast af húsnæðisvanda fólks eru þyngri en tárum taki. Meir að segja hefur þingkona nýlega lýst ráðaleysi við að komast undir eigið þak þrátt fyrir að hafa hátt í eina og hálfa milljón á mánuði.

Hvernig fólk fór að því áður fyrr við að koma þaki yfir höfuðið virðist ekki eiga við nú á dögum. Reglugerðafargan nútímans, með öllum sínum kostnaði og kröfum, virðist vera komið á það stig að ekki er neinum meðal Jóni mögulegt að byggja.

IMG_0192

Leiði þeirra Möðrudalshjóna, Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen og Stefáns Jónsonar

Tilefni þessara vangaveltna eru að í sumar sem leið var sýning í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, um þúsundþjala smiðinn Jón Stefánsson í Möðrudal. Jón í Möðrudal var engin meðal Jón og vílaði fátt fyrir sér.

Ég hafði hugsað mér að gera þessari áhugaverðu sýningu skil hérna á síðunni, en finn ekkert af því efni sem ég var búin að viða að mér og hef þar að auki glatað flest öllum myndum frá sumrinu 2016 í tölvuóhappi.

Því verð ég að gera þessari merkilegu sýningu öðruvísi skil en ég hafði hugsað mér og er þá efst í huga kirkjan sem hann byggði í Möðrudal. Því það vafðist vel að merkja ekki fyrir Jóni að koma sér upp kirkju, frekar en þaki yfir höfuðið. Kirkjuna byggði hann með eigin höndum fyrir eigin reikning.

IMG_0186

Ég rakst á skemmtilegt viðtal við Jón á youtube þar sem hann lýsir því fyrir Stefáni Jónssyni fréttamanni hvernig og hvers vegna hann byggði kirkjuna. Jón var einnig listamaður og málaði altaristöfluna sjálfur auk þess að smíða rammann utan um hana. Hann fékk svo biskupinn til að vígja kirkjuna.

Í þessu örstutta viðtali lýsir Jón þessu auk þess að syngja ljóð og lag um Hallgrím Pétursson. Seinni hluti viðtalsins er við annan höfðingja austanlands sem vandar ekki hagfræðingum kveðjurnar og gæti umræðuefnið eins haf verið í dag og fyrir tæpum 60 árum.

 

Ps. Þeir sem hafa áhuga á að heyra hvað listamenn dagsins í dag gera með söng Jóns í Möðrudal þá má smella á þetta remix hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband