Færsluflokkur: Hús og híbýli
25.6.2018 | 20:40
Létt steypa
Að hafa marga fjöruna sopið er máltæki notað um þann sem hefur öðlast reynslu og þroska, oft vegna einhverra erfiðleika (eða kannski réttar sagt, mistaka). Það mætti betrumbæta þetta máltæki um höfund þessarar síðu á þann hátt, hann hefur marga steypuna þvælt. Eins og þeir sem litið hafa hér inn í gegnum tíðina hafa vafalaust tekið eftir.
Í lok síðustu viku voru fleiri en ein, og fleiri en tvær steypur þvældar á mínum vinnustað. Ein þeirra var samt þess eðlis að ég hafði með lagni reynt að koma mér undan henni. Nennti satt að segja ekki að taka þátt í tilraun við að betrun bæta hjólið einu sinni enn, en hvað steypu varðar þá hefur sú gjörningalist helgað mína ævi og ég taldi mig vera orðin of gamlan, slitin og sljóan til að verða að gagni.
Málið er að vinnuveitendur mínir hafa undanfarin ár staðið að nýsköpunarverkefni við léttsteyptar milliveggjaeiningar. Þessar milliveggjaeiningar er svo raðað upp á byggingastað og er hver eining 60 cm breið, 10 cm þykk og nær frá gólfi til lofts, þyngdin er ekki nema ca.65 kg einingin. Svona veggjum er snarað upp af tveimur mönnum á methraða og þegar þeir eru uppkomnir er einungis málningarvinna eftir. Veggirnir hafa hátt einangrunargildi, eldvörn og hljóðísog.
En það sem átti að gera í síðustu viku var að steypa gólf með léttsteypunni, við höfðum að vísu gert það áður. En þá með því að blanda litlar blöndur í tilraunaskini, en núna átti að gera þetta á stærri skala með steypubíl. Með svona gólfi er hægt að slá margar flugur í höggi, t.d. þegar kemur að gólfkulda og burðarþoli. Rúmmetrinn af svona léttsteypu er ekki nema ca. 350 kg á meðan venjuleg steinsteypa er ca 2.400 kg.
Erfiðleikarnir hafa samt falist í að þvæla steypuna saman í magni, því fylliefnið er miklu léttara en vatnið og sementið, öfugt við mölina í venjulegri steypu sem hjálpar til við að hræra stöffið. Þetta er því svipað og ætla að jafna sósu í matargerð með því að demba öllu hveitinu þurru í einu lagi út í pottinn, þá verður sósan varla annað en köggla grautur.
Í síðustu viku komst ég semsagt ekki hjá því að taka þátt í steypu mistökum, sennilega vegna langrar reynslu við að krafsa mig í gegnum þau, en er núorðið ekki fær um annað en veita smá sáluhjálp. En eins og í ævintýrinu fór allt vel að lokum og pólskir félagar mínir sáu um að smyrja léttsteypu glundrinu úr fisléttum einangrunarkúlunum á gólfið, ég horfði hrærður á og tók video af gjörningnum.
Hús og híbýli | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2017 | 22:25
Algjör steypa
"Það er merkilegt hvað þessi kalla andskoti getur flutt sömu gröfuskófluna fram til baka, hann er búin að vera að flytja hana frá því ég man eftir mér", sagði vinnufélagi minn einn góðviðris morguninn núna í vikunni. Sá með skófluna hafði heyrt og kom kjagandi til okkar og sagði; "það er alveg sama hvað maður á góða gröfu hún gerir ekkert nema hafa skóflu".
Það er orðið svolítið síðan ég hef sett steypu hérna inn á síðuna, en það er ekki vegna þess að það sé ekki verið steypa. Ég var farin að halda fyrir nokkrum árum að ungir menn á Íslandi ættu ekki eftir að steypa og sú virðulega athöfn færi algerlega í hendurnar á pólverjum og öðrum aðfluttum víkingum eftir að við gömlu steypukallarnir brennum út.
Gamli Breiðdælingurinn sem bjástraði við gröfuskófluna sagði eftir að hann hafði útskýrt þetta með gröfuna og skófluna -"Þurfið þið ekkert að vinna strákar mínir og ert þú ennþá að þvælast í kringum steypu, geturðu kannski eitthvað sagt þessum fuglum til?" -"Nei þeir gera þetta bara einhvernvegin, sama hvað ég segi", svaraði ég. -"Og verður þá engin óður lengur, eins og í almennilegri steypu? -"Nei það er orðin afturför í öllu".
Líkt og maðurinn með skófluna þá man ég ekki eftir öðru en steypa hafi verið mitt líf og yndi. Þó svo mikið hafi verið haft fyrir því að koma vitinu fyrir mig á unglingsárunum til að forða mér úr steypunni þá hefur hún verið mín kjölfesta í meira en fjörutíu ár. Mér var sagt að ég hefði ekki skrokk í erfisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ. Eftir að hafa látið tala mig inn á bóknámsbraut síðustu árgangana í gagnfræðaskóla varð það blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bóknáminu.
Núna öllum þessum árum og áföllum seinna varð mér á að hugsa hefði ég betur hlustað þarna um árið? Og svarið er; nei því ef ég þyrfti að snúa til baka þá myndi ég engu breyta heldur bara njóta hvers dags aðeins betur og æsa mig örlítið minna. Því eftir muna standa verkin sýnileg, þó svo vissulega hefði getað verið varið í að eiga snyrtilegt bókhald upp í hillu eða hafa framkvæmt faglegt eftirlit með öðrum, þá jafnast ekkert á við varanleg minnismerki.
Það er gott að eiga félaga sem leyfa manni að steypa af og til sér til samlætis, þeir þurfa allavega ekki í ræktina ungu mennirnir til að halda sér formi.
Hús og híbýli | Breytt 18.1.2018 kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2017 | 20:48
Íslenski torfbærinn - húsagerðarlist á heimsmælikvarða
Löngu áður en komst í tísku að tala um umhverfisvernd, byggðu Íslendingar umhverfisvæn hús án þess að vita af því. Á öldum áður, í nágrannalöndum, voru torfhús fyrir þá sem ekki höfðu efni á öðru en á Íslandi voru þau notuð í gegnum aldirnar af allra stétta fólki. Þó svo að það hafi orðið móðins í seinni tíð að tala niður torbæinn með máltækjum eins og "að skríða aftur í moldarkofana" þá er torbærinn vitnisburður um íslenska byggingarlist sem hefur vakið athygli og talin eiga erindi á heimsminjaskrá.
Hinn íslenski torfbær þróaðist út frá langhúsunum, norður-evrópskri byggingarhefð, sem fylgdi landnemunum er þeir námu hér land. Eins og nafnið gefur til kynna þá er torf meginefni bygginganna. Timbur var notað í grindina og klæðningu innanhúss en torf var notað til að mynda veggi og þak. Stundum voru steinar notaðir ásamt torfinu í veggi og steinskífur voru stundum nýttar undir þakið.
Ef það er hægt að eyrnamerkja byggingalist sérstöku landi eða þjóð öðrum fremur, þá er það þegar byggt er úr byggingarefninu sem er á staðnum og með hugviti íbúanna. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga orð alþýðumannsins Sveins Einarssonar torfbæjahleðslumeistara frá Hrjót; "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum".
Einnig er rétt í þessu sambandi að rifja upp orð heimsmannsins Halldórs Laxness, sem einn íslendinga hefur hlotið Nóbelsverðlaun; "Tilgerðarlaus einfaldleiki er mundángshófið í hverju listaverki, og að hvert minnsta deili þjóni sínum tilgáng með hæversku. Það er einkennilegt hvernig fólk í ljótustu borg heimsins leitast við að reisa hús sín svo rambyggilega, eins og þau ættu að standa um aldur og ævi. Meðan var til íslensk byggingarlist var aldrei siður að byggja hús til lengri tíma en einnar kynslóðar í senn, - en í þá daga voru til falleg hús á Íslandi."
Undanfarin fjögur ár hefur þessi rammíslenska byggingarhefð fangað huga minn á þann hátt að ég hef varla látið fara forgörðum tækifæri til að kynna sér gamla torfbæi þar sem ég hef verið á ferð. Mest sé ég þó eftir hvað ég lét framan af ævi "moldarkofa" máltækið villa mér sýn. Árið 2013 vann ég part úr sumri við að koma steinum í gamla veggi samísks moldarkofa í N.Noregi. Við þá vinnu kviknaði áhuginn á hinni íslensku arfleið. Undanfarin 4 ár hef ég heimsótt margan torbæinn og tóftarbrotið eins og hefur mátt greina hér á síðunni. Myndavélin hefur oft verið með í för og ætla ég nú að gera lítillega grein fyrir þessu áhugamáli.
Glaumbær - Skagafirði
Gamli bærinn í Glaumbæ var friðlýstur árið 1947. Sama ár flutti síðasta fjölskyldan úr bænum. Gamli bærinn tilheyrir húsasafni þjóðminjasafnsins en Byggðasafn Skagfirðinga hefur hann til afnota fyrir sýningar. Húsin hafa staðið á bæjarhlaðinu í meira en 1000 ár eða allt frá 11. öld en talið er að bærinn hafi áður staðið í túninu austan við bæjarhólinn. Glaumbær er með veglegri torfbæjum landsins og hefur frá aldaöðli talist til höfðingjasetra. Guðrún Þorbjarnardóttir og Þorfinnur Karlsefni eignuðust Glaumbæ eftir farsaæla Vínlandsferð. Þar bjó eftir þau Snorri sonur þeirra sem er fyrsta evrópska barnið sem sögur fara af að hafi fæðst á meginlandi Ameríku. Varðveisla Glaumbæjar er ekki síst Íslandsvininum Mark Watson að þakka, en hann hafði gefið 200 sterlingspund til varðveislu hans strax árið 1938.
Glaumbær er sennilega torfríkasti bær landsins, því varla er grjót að finna í Glaumbæjarlandi. Bærinn er því gott dæmi um hinar ýmsu aðferðir við að búa til byggingarefni úr torfi s.s. klömbruhnausa, sniddur og strengi sem bundu saman vegghleðslurnar.
Burstafell - Vopnafirði
Burstafell er einn af fegurstu torfbæjum á Íslandi. Sérstaða bæjarins felst að miklu leyti í því hversu glöggt hann miðlar breyttum búskapar- og lifnaðarháttum fólks allt frá því fyrir 1770 til þess er hætt var að búa í bænum árið 1966. Sama ættin hefur búið á Burstarfelli í tæplega 500 ár. Bærinn telst til betri bæja enda var setur sýslumanna að Burstafelli á öldum áður.
Burstafellsbærinn sýnir vel hvað strengur úr torfi í bland við grjót var algeng byggingaraðferð austanlands, en lítið um klömbruhnausa. Búið var í bænum fram á sjöunda áratug 20. aldar og tók hann breytingum samkvæmt tímanum t.d. er bárujárn undir torfþekjunni.
Galtarstaðir fram - Hróarstungu
Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld af svokallaðri Galtastaðagerð, sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja, heldur á rætur í fornri gerð og í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum, snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði. Bærinn er með svokallaðri fjósbaðstofu. Baðstofuloftið var þá yfir fjósinu og ylurinn af kúnum nýttist til húshitunar. Bærinn er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og velur þjóðminjasafnið að kalla byggingarstíl bæjarins "svokallaða Galtarstaðagerð" má ætla að þessi húsaskipan hafi verið algeng í bæjum alþýðufólks á Austurlandi, eða á svokölluðum kotbæjum. Byggingarstíllinn var t.d. mjög svipaður á Þuríðarstöðum í Eyvindarárdal.
Galtastaðir eru í Tungunni u.þ.b. 15 min. akstur frá Egilsstöðum. Bærinn er lokaður almenningi og því ekki hægt að komast inní hann. Það væri verðugt verkefni að gera Galtastaðabæinn sýningarhæfan sérstöðu hans vegna. Áfast gamla bænum er nýrra hús sem búið var í þar til búsetu á Galtastöðum lauk fyrir nokkrum árum. Nokkur stök útihús úr torfi eru í námunda við bæinn.
Laufás - Eyjafirði
Búsetu í Laufási má rekja allt aftur til heiðni en í elsta hluta gamla bæjarins sem nú stendur er talið að séu viðir allt frá 16. og 17. öld. Bærinn kemur við sögu skömmu eftir að Ísland byggðist og þar hefur staðið kirkja frá fyrstu kristni. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Síðasti presturinn sem bjó í gamla bænum, séra Þorvaður Þormar, flutti árið 1936 í nýtt prestssetur. Laufás hefur því talist til höfðingjasetra og algengt var að tuttugu til þrjátíu manns væru til heimilis í Laufási, því margt vinnufólk þurfti til að nytja þessa gróðursælu kostajörð.
Bæjarhúsin á Laufási eru byggð úr torfi og grjóti. Þar má sjá listilega fallegt handverk s.s. klömbruveggi samanbundna með streng. Matjurtagarði haganlega fyrirkomið inn á milli húsanna og hlaðið fyrir með grjóti.
Sænautasel var byggt á Jökuldalsheiði 1843. Búið var í bænum í heila öld. Flutt var úr bænum árið 1943. Árið 1992 lét Jökuldalshreppur endurbyggði bæjarhúsin. Þar er nú rekin ferðaþjónusta. Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu Sjálfstætt fólk. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratugi 20. aldar.
Bærinn í Sænautaseli er lifandi dæmi um þá útsjónasemi sem þurfti til að byggja hús fjarri mannabyggðum. Þar viðhafði Sveinn Einarsson frá Hrjót orðin "Það er bara ein sérstök aðferð sem hefur gilt hér eins og annarstaðar, það er að byggja úr efninu sem er á staðnum", þegar hann endurbyggði bæinn ásamt ungdómnum á Jökuldal.
Lindarbakki - Borgarfirði eystra
Lindarbakki er lítið torfhús, upphaflega byggður sem þurrabúð rétt fyrir aldarmótin 1900. Búið var í húsinu fram undir lok 20. aldar en nú er það sumarbústaður. Sennilega er þetta eitt mest ljósmyndaða hús á Borgarfirði.
Það má segja að húsið beri íslenskri húsagerðarlist vitni á fleiri en einn hátt. Auk þess að vera úr torfi eru stafnar þess bárujárnsklæddir.
Skógar - undir Eyjafjöllum
Gamli torbærinn að Skógum samanstendur af krossbyggðu fjósi frá um 1880, skemmu frá um 1830, baðstofu frá um 1850, stofu frá um 1896 og svefnherbergi frá 1838. Bærinn er hluti af byggðasafninu á Skógum. Gömlu húsin voru endurbyggð 1968 og hafa frá þeim tíma verið einn megin þáttur safnsins að Skóum. Byggðasafnið á Skógum er stórt og mikið safn. Þar er m.a. samgöngusafn þar sem má skoða gamla bíla.
Í bæjarhúsunum á Skógum sést vel hvað grjót spilar stórt hlutverk í sunnlenskum torfbæjum. Undir torfi í þökunum er steinhellum raða til að gera þau vatnsheld, sem var algengt sunnanlands á meðan hrís var oftar notað undir torf í þaki og þau þétt með kúamykju ef með þurfti þar sem veðrátta var þurrari.
Hof - Öræfum
Hofskirkja var reist 1884, síðasta torfkirkjan sem var byggð eftir hinu gamla formi. Hún er ein sex torfkirkna, sem enn standa og eru varðveittar sem menningaminjar. Hún er jafnframt sóknarkirkja Öræfinga. Þjóðminjasafnið lét endurbyggja kirkjuna árið 1954.
Kirkjugarðurinn, sem umlykur Hofskirkju er ekki síður athyglisverður, með öllum sínum upphleyptu leiðum þannig að garðurinn stendur mun hærra en umhverfið í kring. Engu er líkara en að þar hafi verið jarðsett í gegnum tíðina gröf ofan á gröf, þannig að kirkjan komi til með hverfa ofan í svörðinn.
Hrútshóll - undir Eyjafjöllum
Manngerðir hellar eru víða á Suðurlandi, vitað er um hátt á annað hundrað manngerða hella syðra á meðan aðeins er vitað um fjóra nyrðra. Hrútshellir einn af þeim merkari, framan við hann er hlaðið fjárhús úr torfi og grjóti. Inn af því eru tveir hellar höggnir í móbergið. Stór hellir sem notaður er sem hlaða og er um 20m langur. Annar lítill gengur þvert á þann stóra og er kallaður Stúkan. Dr. Walter Ghel rannsakaði Hrútshelli árið 1936 og komst að þeirri niðurstöðu að þar hefði verið heiðið hof. Ristir hafa verið krossar í hellin sem bæði geta vísað til heiðinna og kristinna tákna.
Færeyskt hús - Kunoy
Þetta hús gekk ég fram á í Kúney snemma í sumar. Færeyingar hafa notað grjót í veggi og torf á þök húsa í gegnum tíðin. Mikinn fjöldi þesskonar húsa má finna uma allar eyjarnar, jafnvel heilu þorpin. Í mörgum þeirra er enn búið en þetta hús er sennilega notað sem sumarhús. Færeyingar hafa lagt mun meiri rækt við að varðveita byggingarsögu sína en Íslendingar.
Vilgesvárre - Troms
Til gamans læt ég fylgja með litla kofann í Bláfjöllum N.Noregs sem varð til þess að áhuginn á torfbænum kviknaði. Þetta er Samaískur torfbær sem Samarnir kalla Gámma. Vilgesvárra var í ábúð sömu fjölskyldunnar í 90 ár samtímis heiðarbýlunum í Jökuldalsheiðinni. Búset hófst þar af sömu ástæðum og á heiðarbýlum Íslands þ.e.a.s. vegna skorts á landnæði. Vilgesvárre er nú Samískt safn.
Upp í Bláfjöllum, í Vilgesvárre upplifði ég þá reynslu að gistaí torfbæ víðsfjarri mannabyggðum. Án rafmagns, rennandi vatns og allra nútímaþæginda. Vatnsbólið var í túnfætinum neðan við bæinn, eldavélin var gömul viðareldavél og moldargólf í framhelmingnum en þiljuð vistarvera þar sem var sofið og eldað.
Það væri hægt að segja svo miklu meira um torfbæina, en suma þeirra hef ég aðeins átt kost á að skoða að utan. Þeir sem eru opnir almenningi eru yfirleitt söfn. Þeir eru oftar en ekki stút fullir af erlendum feðamönnum og þegar inn er komið er þar heil veröld annars tíma, en hér læt ég staðar numið.
Hús og híbýli | Breytt 26.11.2017 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2017 | 10:48
Breyttur lífstíll
Þeir Kjartan og Wallevik koma inn á það að ýmsar mismunandi ástæður geti verið fyrir myglu en hvers vegna hún varð af faraldri á Íslandi er þeim ráðgáta.
Vinnufélagi minn sem hefur unnið við húsbyggingar og viðhald ævina alla viðraði þá hugmynd, við litla hrifningu viðstaddra, að mygla hefði ekki verið vandamál í húsum fyrr en hætt var að reykja innandyra. Það skildi ekki vera að hann hefði eitthvað til síns máls, því meiri loftræsting fylgdi reykingunum.
Eins má nefna að nú á tímum fer flest fólk í sturtu einu sinni á dag og því fylgir mikill raki innandyra. En fyrir nokkrum áratugum var laugardagur hinn heilagi baðdagur.
Þó svo að böð hafi verið stunduð af flestum um langa hríð oftar en einu sinni í viku hefur ýmislegt breyst til dagsins í dag í því sambandi. T.d. eru flestir sturtubotnar sjálft gólfið, jafnvel á timburgólfum.
Áður var notast við vatnsþétt baðkör og sturtuklefa með botni, sem þóttu erfiðari í umgengni. Frágangur gólfniðurfalla er t.d. annar og lakari á Íslandi en í Noregi.
Einnig má nefna það að allur þvottur er nú orðið þurrkaður innandyra í stað þess að blakta úti á snúrum. Þó svo að þurrkarar eigi að vera það fullkomnir að þeir skili rakanum frá sér á réttan stað þá þekkja sjálfsagt flestir hvað þungt og rakt loftið getur verið í þvottaherberginu.
Hér er minnst á fleiri ástæður fyrir myglu sem sjaldan er talað um
Blómabeðið getur valdið myglu innandyra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hús og híbýli | Breytt 26.11.2017 kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2017 | 19:29
Undir grænni torfu týndist tíminn
Það er stundum sagt um tímaskin Færeyinga að þar sé ávalt nægur tími og ef þeir verði dagþrota þá komi bara meiri tími á morgun. Dagskrá landans er öllu strekktari þó svo að Bjartmar hafi fyrir skemmstu sungið um "flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið þar sem af týndum tíma er af nægu að taka" um leið og hann bauð landann "velkomin á bísan", þegar allt virtist stefna í að leita þyrfti í reynslubanka Bjarts í Sumarhúsum.
Eftirminnilegt er að Færeyingar hikuðu ekki við að lána Íslendingum stórfé á meðan hinar frændþjóðirnar veltu vöngum ásamt alþjóða gjaldeyrissjóðnum yfir því hvernig mætti koma böndum á fjármálaverkfræði sem kennd var við útrásarvíking. Úti í hinum stóra heimi þótti þetta náttúrulega ekki gáfulega farið með fé hjá frændum vorum í Færeyjum, en þeir sögðu þá bara að gáfur og gæska þyrftu ekki endilega að fara saman. Skilyrðislaust bæri að hjálpa sínum bróðir í neyð.
Í síðustu viku fórum við Matthildur mín loksins í langþráða Færeyjaferð og vorum yfir Hvítasunnuhelgina. Þetta var nokkurskonar systraferð þar sem við tengdasynir Sólhóls fengum að fljóta með sem bílstjórar á Norrænu frá Seyðisfirði til Þórshafnar. Þessi ferð hafði verið á dagskrá í mörg ár og má segja að við skipulag hennar hafi lífsspeki Færeyinga verið höfð að leiðarljósi, um að á morgun komi meiri tími.
Daginn fyrir brottför bað góður Borgfirðingur mig um að skila kveðju til allra sem ég hitti í Færeyjum, því þar byggi besta fólk í heimi, svo vel fann hann í hjarta sínu gæsku Færeyinga. Auðvitað reyndi ég að koma kveðju hans til skila þegar gafst til þess tími. Þessi Hvítasunnuhelgi er samt ekki sú fyrsta sem ég dvel í Færeyjum því fyrir 33 árum síðan átti ég því láni að fagna sem ungur maður að kynnst þessum frændfólki okkar, þá hafði ég ráðið mig í vinnu hjá dönskum múrarameistara í Þórshöfn og var þar fram eftir sumri.
Eftir Hvítasunnuhelgina í denn þurfti ég að tína saman tómu bjórflöskurnar úr herberginu og koma þeim í verð hjá kaupmanninum niður á horni. Því við félagarnir sem leigðum þá á farfuglaheimili Verkakvennafélags Þórshafnar höfðum týnt útborgununum okkar í miklum gleðskap undir grænu torfþaki farfuglaheimilisins og áttum ekki fyrir mat, en nóg af tómum bjórflöskum. Þegar ég hafði sett flöskurnar í svartan ruslapoka reyndust þær allt of þungar til að bera og stútarnir stungust út úr skósíðum pokanum, sem ég var að sligast undan. Því varð að ég hnupla hjólbörum rogast með flöskupokann upp í þær.
Þó ekki væri torfærunum fyrir að fara og leiðin greið niður á við í hverfisbúðina á horninu, þá var hjólið á börunum ryðgað fast. Því þurfti ótrúleg átök í að ýta þeim niður brekkuna og halda um leið jafnvægi með dýrmætan farminn. Ég veit ekki enn í dag rúmum 30 árum seinna hvort það var fyrir að hafa fjarlægt flöskurnar af gistiheimili Verkakvennafélagsins eða liðka hjólbörurnar fyrir þær,sem varð til þess að okkur var ekki vísað á dyr, en það hafði mér verið tilkynnt að stæði til í upphafi ferðar, en var aldrei minnst meira á eftir að hjólbörunum var skilað.
Kirkjubær; Múrinn til vinstri, Reykstofan fyrir miðju og kirkja Ólafs helga til hægri.
Þann stutta tíma, sem ég vann við múrverk í Færeyjum fékk ég að taka þátt í skemmtilegum verkefnum. Eitt af þeim var að gera við vegghleðslur kirkju Ólafs helga í Kirkjubæ og endurkalka hvíta veggi hennar. Þá vann ég með dönskum og færeyskum múrurum og hafði ekki grænan grun um hvað merkilegt verkefnið var, hvað þá þolinmæði fyrir svona fornminja gaufi. Enda leið ekki á lögnu þar til ég var settur í nýbyggingar verkefni þar sem ungur athafnamaður, Jakub A Dul, byggði sinn fyrsta Rúmfatalager, ef ég man rétt. Auk þessa vann ég við að banka steinhellur niður í stéttar og bílastæði tryggingafélags.
Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég uppgötvaði hversu sérstakt verkefnið var í Kirkjubæ. Þar eru tvær eldgamlar kirkjubyggingar, það er kirkja Ólafs helga sem er sögð byggð á 12. öld og dómkirkja Magnúsar sem er í daglegu tali kölluð Múrinn byggð um 1300, en sú bygging komst aldrei undir þak. Síðustu ár hefur verið unnið að viðgerðum á hleðslum í Múrsins. Einnig er Reykstofan í Kirkjubæ, sem er byggð í kringum 1100 og talin eitt elsta timburhús í heimi sem enn er í notkun.
Þegar steinar losna í hlöðnum veggjum Múrsins, Ólafskirkju og Reykstofunnar í Kirkjubæ, er gert við þá með því að raða flötum smásteinum á milli þeirra í kalk-múrblöndu til að festa þá á sínum stað. Þetta er mikið þolinmæðisverk og hefur viðgerð veggja Magnúsar kirkju tekið mörg ár.
Auðvitað voru gömlu staðirnir mínir skoðaðir í ferðinni. Kirkjurnar í Kirkjubæ voru á sínum stað, meir að segja voru hellurnar ennþá í stéttunum og bílastæðunum í Þórshöfn. En þegar komið var í gömlu götuna mína reiknaði ég með að hjólbörurnar væru undir skrifstofuglugga verkakvennafélagsins, en þar brá mér heldur betur í brún. Gamla notalega svarta timburhúsið með torfþakinu, þar sem hægt var að opna kvistgluggann út á græna grasþekjuna til að reykræsta herbergið, var horfið. Þess í stað var komið nýtísku íbúðarhús og engin merki sáust um hjólbörur, ekki einu sinni svört hjólförin í malbikinu, hvað þá glerbrot eða tægjur af svörtum ruslapoka. Og litla búðin niður á horni orðin að íbúð.
Annars er það heilt yfir svo í Færeyjum að engu líkara er, en að þegar jarðýtan var flutt til Íslands um árið, og hér notuð á árangursríkan hátt við að jafna byggingasöguna við jörðu, þá hafi hún algerlega farið fram hjá Færeyjum og á það helvíti er varla hægt að minnast ógrátandi. Þar má finna heilu þorpin ennþá úr torfi og grjóti, meir að segja er búið í mörgum þessara húsa.
Hvernig myndi t.d. Þórshöfn líta út ef hún hefði farið í gegnum sama Dubai drauminn og Reykjavík? Þá væru grænu torfþökin nú komin undir malbik og þar væru svartir turnar klæddir í gler og innfluttar flísar, sem teygðu sig upp í þokuna. Það væru dapurleg skipti miðað við líflegan gamla bæinn, sem geymir söguna til dagsins í dag. Við skulum því rétt vona að það sé ekki bara vegna þess að Færeyingar vita að á morgun komi meiri tími, sem þeir hafa ekki ennþá ræst jarðýtuna eins og tímatrekktir frændur þeirra á sögueyjunni.
Múrinn, eða dómkirkja Magnúsar í Kirkjubæ
Götumynd frá Þórshöfn
Götumynd frá Þórshöfn
Þinganes í Þórshöfn, stjórnarráð Færeyja
Þorp í Húsavík á Sandey
Færeyskt hús í Kúney
Saksun
Bær á Vogey
Stéttar í Þórshöfn
Höfundur á fornum slóðum
Hús og híbýli | Breytt 21.1.2018 kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2017 | 20:10
Byggingar í böndum bírókratísins
Það brást ekki að vorið kom með trukki á nýju tungli þann 24. síðasta mánaðar. Einhvern veginn er það alltaf þannig á vormorgnum þegar sól skín í heiði og fuglasöngur fyllir loftið þá kviknar framkvæmdaþráin, jafnvel hjá gömlum safnvíkingum. Hér á árum áður hefðu svona ljúfir vordagar ekki verið látnir fara forgörðum, steypihrærivélin hefði verið ræst og byrjað að byggja. Þó svo að ég vinni við sömu iðn og áður, þar sem pólskir vinnufélagar mínir sjá nú orðið um að gera það skemmtilega, þá er því ekki lengur svo fyrir að fara að framkvæmdaviljinn, steypuhrærivélin og vinnuaflið dugi til að byggja hús. Nú sem aldrei fyrr hefur allt verið niðurnjörvað með reglugerðarfargani.
Pólverjar hafa hirt flest skemmtilegustu störfin frá íslendungu án þess að landinn hafi heilaburði til að fatti það, innihúkandi rígnegldur fyrir framan tölvuskjáinn við að koma heim og saman á exele skjali hvernig skuli fara að því að gera hvað sem er arðvænlegt fyrir fjárfesta. Einagnveginn tekst samt að fá í útkomuna hvernig svoleiðis húsnæði hentar ungu fólki sem sárvantar hagkvæmt húsaskjól. Öllum þessum vandræðum samfara þarf langskólagenginn landinn að greiða af námslánunum og er því eina leiðin til að halda sjó að útbúa regluverkið það flókið að hæfi sérstaklega vel borgaðri menntun, alls óskildri þekkingu á húsbyggingum. þannnig regluverk ræður svo úrslitum um hvort hús verður byggt.
Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd og hafa vilja til að hrinda henni í framkvæmd þegar skal byggja hús. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistarar, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn. Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistarinn, öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið með gæðaeftirlit sem vottað er af skoðunarstöð og allur heili pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins.
Marteinn Mosdal - hvað?
Tryggvi Emilsson segir frá því þegar hann byggði fyrir rúmum 90 árum íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri. En hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.
Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.
Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.
Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)
Þó svo að við félagarnir á Djúpavogi höfum ekki þurft að hafa það frumkvæði til að bera að byggja steinsteypt hús eftir að hafa ekki þekkt annað en torfbæi þá var ennþá hægt að hrinda húsbyggingu í framkvæmt á hagkvæman hátt á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Að því leitinu var byggingaaðferðin áþekk torfbæ, að við notuðumst mikið við heimafengið í sinni tærust mynd, það er eigið hugmyndaflug, afl og mölina, sem lá því sem næst undir fótunum.
En þess ber að geta að á þeim tíma vorum við lokaðir inniá verndarsvæði eins og síðustu Móhíkanarnir, öfugt við það þar sem starfsleyfi steypustöðva í boði vinnu-, heilbrigðis og nefndu það eftirlits voru farin að gera afdalmennsku óhægt um vik.
Hús og híbýli | Breytt 26.11.2017 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2017 | 21:40
Sjö sinnum það sagt er mér
Þær fréttir sem ítrekað berast af húsnæðisvanda fólks eru þyngri en tárum taki. Meir að segja hefur þingkona nýlega lýst ráðaleysi við að komast undir eigið þak þrátt fyrir að hafa hátt í eina og hálfa milljón á mánuði.
Hvernig fólk fór að því áður fyrr við að koma þaki yfir höfuðið virðist ekki eiga við nú á dögum. Reglugerðafargan nútímans, með öllum sínum kostnaði og kröfum, virðist vera komið á það stig að ekki er neinum meðal Jóni mögulegt að byggja.
Leiði þeirra Möðrudalshjóna, Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen og Stefáns Jónsonar
Tilefni þessara vangaveltna eru að í sumar sem leið var sýning í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, um þúsundþjala smiðinn Jón Stefánsson í Möðrudal. Jón í Möðrudal var engin meðal Jón og vílaði fátt fyrir sér.
Ég hafði hugsað mér að gera þessari áhugaverðu sýningu skil hérna á síðunni, en finn ekkert af því efni sem ég var búin að viða að mér og hef þar að auki glatað flest öllum myndum frá sumrinu 2016 í tölvuóhappi.
Því verð ég að gera þessari merkilegu sýningu öðruvísi skil en ég hafði hugsað mér og er þá efst í huga kirkjan sem hann byggði í Möðrudal. Því það vafðist vel að merkja ekki fyrir Jóni að koma sér upp kirkju, frekar en þaki yfir höfuðið. Kirkjuna byggði hann með eigin höndum fyrir eigin reikning.
Ég rakst á skemmtilegt viðtal við Jón á youtube þar sem hann lýsir því fyrir Stefáni Jónssyni fréttamanni hvernig og hvers vegna hann byggði kirkjuna. Jón var einnig listamaður og málaði altaristöfluna sjálfur auk þess að smíða rammann utan um hana. Hann fékk svo biskupinn til að vígja kirkjuna.
Í þessu örstutta viðtali lýsir Jón þessu auk þess að syngja ljóð og lag um Hallgrím Pétursson. Seinni hluti viðtalsins er við annan höfðingja austanlands sem vandar ekki hagfræðingum kveðjurnar og gæti umræðuefnið eins haf verið í dag og fyrir tæpum 60 árum.
Ps. Þeir sem hafa áhuga á að heyra hvað listamenn dagsins í dag gera með söng Jóns í Möðrudal þá má smella á þetta remix hér.
Hús og híbýli | Breytt 19.3.2017 kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2017 | 18:53
Vandamálið er verkfræðin og veðráttan
Það er gott til þess að vita að verkfræðistofurnar eru farnar að gera sér mat úr myglu og vonandi á verkfræðin eftir að gangast þar við ábyrgð.
Það er margt til í máli Ríkharðs Kristjánssonar þó svo að full mikil einföldun sé að einskorða vandamálið við hinn "íslenska útvegg". Myglu má reyndar finna í flestum húsum enda væri rétt fyrir íbúana að forða sér út ef engin mygla lifði af í gerilsneyddu húsi, því þá væri eins víst að næst væri komið að þeim sjálfum.
En höfuð vandinn varðandi myglu er að ekki eru viðhafðar byggingaraðferðir sem hæfa íslenskri veðráttu, sem er eins og flestir þekkja umhleypingarsöm og vot. Því er rétt að hús hafi góða veðurkápu alveg eins og mannfólkið og það er rétt að betra er að einangra steinsteypta veggi að utan. Þetta hefur verið þekkt í áratugi þó svo hönnuðir og verkfræðingar hafi oft kosið að líta fram hjá þessum staðreyndum.
Síðan er rétt að geta þess að mygla hefur margfaldast sem vandamál eftir að farið var að nota pappaklætt gifs bæði við að klæða útveggi að innanverðu og í milliveggi. Þessir veggir eru oftar en ekki með tvöföldu gifsi og ef kemst raki í pappann á milli gifslaga þá verður þar mögnuð mygla sem er ósýnileg, en getur valdið fólki ama, jafnvel heilsutjóni án þess að orsökin verði sýnileg.
Rétt eins og með torfbæina, sem þjónuðu íslendingum í þúsund ár, þá leikur veðráttan og umgengni íbúanna aðalhlutverkið varðandi heilnæmi húsa. Torfbærinn gat enst vel í 50-100 ár inn til landsins norðan heiða á meðan vætan og umhleypingarnar við ströndina syðra gerðu það að verkum að endingin var styttri og myglan meiri.
Í nútímanum hefur verkfræðin síðan átt sinn þátt í myglu með svipuðum hætti og umhleypingasöm veðráttan, sem sjá má á sögu flatra þaka á Íslandi. Þau skjóta upp kollinum með vissu millibili, að því að virðist vegna þess eins að sigldum hönnuðum finnst fallegt eyðimörkinni, því ekki er góðri reynslu fyrir að fara af flötum þökum í íslenskri veðráttu.
Það má segja að Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrverandi menntamálaráðherra hafi hitt naglann á höfuðið varðandi íslenskar byggingaraðferðir þegar hann sagði; "þó svo Bakkabræður hafi stundað mögnuð heimskupör hefði þeim aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka".
Vandamálið er hinn íslenski útveggur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hús og híbýli | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2016 | 18:42
Hér er enginn guð
Í gegnum tíðina hafa fjöllin fangað hugann, augun og fjarlægðin gert þau blá. Eitt af þeim fjöllum sem þetta á við frá því að ég fór að muna eftir er Skagafellið sem klýfur Fagradal, þar sem þjóðvegurinn liggur frá Héraði til Reyðarfjarðar, frá því sem kallað var inn í Dölum af Eiðaþinghármönnum. En nefndist Eyvindardalur í fornsögum, og er kallaður Eyvindarárdalur í dag þó þar séu dalir inn af dal. Einu nafni hafa þessir dalir á stundum verið kallaðir Reyðarfjarðardalir þó svo þeir séu í efra en ekki í neðra.
Eins og einhverjir gætu hafa tekið eftir, þá hef ég undanfarið haft áhuga á torfbæjum. Einn sá bær sem ég hef verið að snudda í kringum tóftirnar af eru Þuríðarstaðir sem mun hafa verið efsti bær í svokölluðum Eyvindardal. Ég hef nokkrum sinnum gert mér ferð þarna upp eftir enda ekki nema nokkurra mínútna akstur frá Egilsstöðum. Gallinn er bara sá þó svo að tætturnar séu mjög skírar í túninu þá eru Þuríðarstaðir nú æfingarsvæði skotveiðimanna. Því hef ég oftar en ekki þurft frá að hverfa enda er skotlínan í áttina að tóftunum, eða réttara sagt í bakkann þar sem þær standa. Það fór samt svo að fyrir rest tókst mér að skoða þær nokkuð vel, bæði á staðnum og með því að fljúga yfir á Google earth.
Meiningin var að reyna að gera mynd af bænum eftir frásögn sem ég hafði lesið. Þegar ég fór að leita eftir lýsingum af torfbæjum frá sama tíma rakst ég á aðra frásögn í Múlaþingi sem einmitt segir frá byggð í Eyvindarárdal, og viti menn þar er tilgátumynd af bænum á Þuríðarstöðum teiknuð af Páli Sigfússyni. Er ástæða til að ætla að hann hafi teiknað myndina eftir frásögn því Sigfús faðir hans bjó á næsta bæ, Dalhúsum 1928-1931. Þannig að þarna var ég komin með í kollinn ljóslifandi mynd af bænum þar sem ekki hefur verið búið síðan 1905, - með því að skoða tóftirnar og tilgátumynd Páls, sem passar við húsaskipan tóftanna, og lesa lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar frá vinnumanns ári sínu á Þuríðarstöðum. Hafði ég allt þetta þó svo bærinn hafi horfið ofan í svörðinn löngu fyrir mína tíð.
Í Múlaþings greininni er þremur efstu bæjunum í Eyvinarárdal gerð skil og því sem má finna í heimildum um fólkið þar, sérstaklega Þuríðarstöðum. En þessir bæir voru Dalhús, Kálfhóll og Þuríðarstaðir. Bærinn Kálfhóll var aðeins til um skamman tíma, en hann var byggður 1850 og fór í eiði 1864. Kálfhóll var byggður af Magnúsi Jónsyni f. 1802 og var hann uppalinn á Strönd og Kollstaðagerði en þar hafði faðir hans búið. Magnús var tvíkvæntur og það var með seinni konunni, Þuríði Árnadóttir frá Sævarenda í Loðmundafirði sem hann bjó á Kálfhól. Þau bjuggu þar með fjögur börn, tvö úr fyrra hjónabandi Magnúsar og tvö eigin, auk þess átti Þuríður dóttir sem ólst upp hjá föður sínum Gísla Nikulássyni sem kemur við sögu á Þuríðarstöðum.
Eyvindarárdalur séður frá Egilsstaðahálsi, með Gagnheiði, Tungufelli, Skagafelli og Hnútu í baksýn. Bærinn Kálfhóll hefur staðið fyrir miðri mynd í skugganum af Gagnheiði
Vorið 1860 verður Magnús úti á Eskifjarðarheiði, pósturinn Níels Sigurðsson fann lík hans seinna um sumarið undir stórum steini með baggann á bakinu og skríðandi maðkinn út og inn um vitin. Þuríður býr á Kálfhól með börnum þeirra eftir það í eitt ár. Þegar að Rósa dóttir hennar og Gísla á Þuríðarstöðum er farin að búa á Nýabæ á Hólsfjöllum flytur hún til hennar og síðan með fjölskyldunni til Ameríku. Vorið 1861 flytja Bjarni Eyjólfsson og Eygerður Gísladóttir í Kálfhól og bjuggu þar til 1864 og lauk þar með 13-14 ára ábúð. Hvergi getur um í skráðum heimildum, og ekki í þjóðsögum, að búið hafi verið á Kálfhól í annan tíma, en húsin þar munu hafa verið notuð sem beitarhús frá Dalhúsum fram til 1945 þegar hætt var að búa á þeim bæ.
Talið er að búið hafi verið á Þuríðarstöðum af og til í gegnum aldirnar og er jafnframt talið að átt sé við Þuríðarstaði í Austfirðingasögum þó bærinn sé þar ekki nafngreindur. Þjóðsagan segir að fyrst til að búa á Þuríðarstöðum hafi verið Þuríður blákinn og hún hafi verið systir Gróu á Eyvindará. Ef þjóðsagan fer með rétt mál er allar líkur á að Þuríðarstaðir hafi þegar verið í ábúð fyrir árið 1000 og jafnvel frá landnámi. Skráðar heimildir s.s. annálar, kirkju- og dómabækur virðast þó ekki hafa að geyma jafn langa búsetusögu því fyrst er á bæinn minnst með nafni í Gíslamáldaga 1575, þá sem eyðijarðar. Í Múlaþingsgrein Sigurðar Kristinssonar "Heimbyggð í Heiðardal" er sagt að bærinn hafi verið upp byggður 1856.
"Sóknartal greinir fyrst frá býlinu í apríl 1857. Hefur því verið byggt þar upp sumarið 1856. Það gerði Gísli Nikulásson frá Dalhúsum f. um 1785 og kona hans Margrét Árnadóttir frá Gilsárteigi, 64 ára. Höfðu áður búið á Dalhúsum og Breiðavaði, áttu mörg börn þá uppkomin og flest gift. En hjá þeim var telpa á tólfta ári. Hét hún Rósa og var dóttir Gísla. Nærri sextugur tók hann fram hjá konu sinni með Þuríði Árnadóttur frá Sævarenda í Loðmundarfirði. Hún var þá vinnukona á Miðhúsum. Þessi Þuríður giftist svo Magnúsi Jónssyni og þau byggðu upp á Kálfshól 1850. En Gísli og Margrét sáu um uppeldi stúlkunnar, sem fluttist fullorðin til Ameríku."
Tilgátuteikning Páls Sigfússonar, samkvæmt lýsingu Hrólfs Kristbjörnssonar er baðstofan í húsinu fyrir miðri mynd sem snýr þvert á burstirnar. Baðstofu gluggarnir hafa verið með tveimur rúðum samkvæmt frásögninni í stað fjögurra
Gísli og Margrét búa aðeins eitt ár á Þuríðarstöðum. Við tekur búsetusaga fjölda fólks og eru að mér telst til nefnd til sögunar a.m.k. 14 hjón sem ábúendur næstu 47 árin auk tuga fólks sem hafði heimili á bænum, flestir stoppa stutt við. Búsetu saga þessa fólks er mikil sorgarsaga, samkvæmt heimildum deyja á Þuríðarstöðum þennan stutta tíma þrettán manns á besta aldri, þar af sjö börn. Það heyrir til undantekninga ef fólk er lengur en 1-3 ár á bænum. Sóknarmannatal vantar frá sumum árana, en nefna má að 4 júní 1865 dó Sigurbjörg Sigurðardóttir 28 ára gömul, Hálfdán maður hennar fer á brott strax eftir lát hennar. Þau höfðu flust í Þuríðarstaði um vorið.
Átakanlegastar eru búsetur tveggja hjóna. Stefáns Jónsonar frá Kirkjubóli í Norðfirði og Guðrúnar Einarsdóttir flytja í Þuríðarstaði árið 1861 með sex börn. Sama ár í júlímánuði deyr Guðrún og í ágúst eru fjögur af börnum þeirra dáin. Árið 1892 flytja í Þuríðarstaði Friðrik Halldórsson 25 ára og Gróa Jónsdóttir 28 ára ásamt syni sínum og móður Friðriks. Sama ár í júní deyr Gróa, viku síðar Jón Björn sonur þeirra, Friðrik verður úti á Eskifjarðarheiði veturinn eftir. Eftirtektar vert er að samkvæmt skjalfestum heimildum flyst fjöldinn allur af því, fólki sem hafði viðdvöl á Þuríðarstöðum þessi ár og komst þaðan lifandi, til Ameríku.
Um aldarmótin 1900 búa þau Halldór Marteinsson úr Helgustaðhreppi og Guðrún Jósefsdóttir úr Tungu á Þuríðarstöðum, en þau hjón bjuggu þar hvað lengst eða frá 1889-1903. Aðeins þau Jón Bjarnason úr Fellum og Vilborg Indriðadóttir frá Eyri í Fáskrúðsfirði höfðu búið þar lengur, eða 1870-1890. Það var 1899 sem Hrólfur Kristbjörnsson hafði ráðið sig sem ársmann á Þuríðarstöðum þá 13 ára gamall. Það var frásögn hans sem varð til þess að ég fór að snudda í kringum Þuríðarstaða þúfurnar.
"Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að lýsa, heldur húsakynnin.
Bærinn á Þuríðarstöðum stóð á brekkubrún dálítið hárri, og vatnið þurfti að sækja nokkuð langt út fyrir tún, í brunn sem stundum þornaði, og þurfti þá að sækja vatnið ofaní Eyvindará.
Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju."
Síðustu ábúendur voru þau Gunnar Sigfússon frá Gilsárteigshlálegu í Eiðaþinghá og Anna Jónsdóttir frá Fjarðarkoti í Mjóafirði bjuggu þau þar til 1905 og lauk þar með tæplega 50 ára skráðri búsetu á þessu afdalabýli. það er samt nokkuð víst að búseta nær mun lengra aftur en skráðar heimildir herma, það segir allavega þjóðsagan.
Í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir frá ferð Hallgríms í Sandfelli (sem svo var kallaður þó svo að hann hafi búið að Þorvaldstöðum þegar sagan gerist)og Ingibjargar ekkju á Þingmúla niður í Mjóafjörð til að falast eftir hvalreka hjá Hermanni höfðingja í Firði, en hann var uppi 1749-1837. Sagan gæti því verið 50-60 árum fyrir skráða búsetu. Þessi för varð ekki til fjár því þau frændsystkinin Hallgrímur og Ingibjörg hrökkluðust upp yfir Mjófjarðaheiði hvallaus eftir að Hermann hafði reynt heiftarlega við Ingibjörgu. Á Hermann að hafa samið vísu af þessu tilefni um kynni þeirra Ingibjargar, sem varð til ævilangra vinslita þegar hún fréttist upp í Hérað.
Í Mjóafjörðinn vasa vann
var sú bl,,, ,, neðan,
fjandans skíta frethettan
falaði hval á meðan.
Sagt var að Hallgrímur hefði verið skyldur sálmaskáldinu Péturssyni og bæri nafn hans, því eru vísur þessu tengdu mun fleiri í Þjóðsögum Sigfúsar. Gekk reyndar ævilangt á með sendingum á millum þeirra fyrrum vinanna eftir hvalreka ferðina.
Eyvindaráin fyrir neðan Þuríðarstaði í skammdegisskímunni um daginn
En þau Ingibjörg og Hallgrímur komu semsagt hrakin í snjófjúki af Mjóafjarðaheiði að Þuríðarstöðum um hánótt og ætluðu að biðjast þar gistingar. En það sem þau vissu ekki þá var að ábúendurnir voru nýlega fluttir í burtu. Þegar Hallgrímur bankaði á baðstofugluggann var honum svarað "hér er enginn guð". Fannst honum þetta skrítinn húmor. En fór inn í bæinn og fann þar ekki nokkurn mann, komst svo við illan leik út aftur og sagði för sína ekki góða þó svo að hann vildi gista í bænum. Ingibjörgu var orðið illt af hræðslu út á hlaði og tók ekki í mál að gista mann- og guðlausan bæinn. Hallgrímur fer niður að Eyvindará að sækja henni vatn að drekka og heyrir þar undarleg hljóð rétt hjá sér, en lét sér samt ekki bregða og segir "Skíttu á þig hver sem þú ert". Ætluðu sumir að Hermann hefði sent draug á eftir þeim, en fleiri álitu að það myndi hafa verið bæjarfylgjan á Þuríðarstöðum sem hefði þarna gert vart við sig, því hennar höfðu margir orðið varir.
Eftir að hafa paufast í skammdegisskímunni um rústirnar af Þuríðarstöðum, þar sem dynkirnir úr haglabyssum skotmannanna yfirgnæfðu niðinn í Eyvindaránni og hvæs haglanna þytinn í golunni þegar þau grófu sig í bakkann þar sem bærinn stóð. Jafnvel þó ég hafi lesið 50 ára hörmungarsögu íbúa kotbæjarins í þessum fallega heiðardal sem stóð undir hlíðum Gagnheiðarinnar sem gnæfir í yfir 1000 metra hæð með austfirska sjónvarpsmastrið ofaná, og með dumbbláar hlíðar Skagafellsins beint á móti. Þá varð auðvitað sú skammdegis mynd sem fæddist á striganum þessa dimmu daga eins og eftirprentun sem hékk í veglegum ramma berskuheimilisins og hafði yfirskriftina "Drottinn blessi heimilið". Gleðileg jól.
Heimildir;
Múlaþing 34-2007/ Heimbyggð í Heiðardal, Sigurður Kristinsson
Skriðdæla, Hrólfur Kristbjörnsson
Þjóðsögur, Sigfús Sigfússon
Hús og híbýli | Breytt 1.2.2020 kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)