Færsluflokkur: Hús og híbýli

Öldin er önnur en þokan sú sama

Það verður seint sagt um suma staði að þeir megi muni sinn fífil fegurri. Þeir eru einfaldlega eins og fíflarnir sem þrífast betur eftir því sem harðar er að þeim sótt. Einn af þessum stöðum er Djúpivogur sem er á Búlandsnesinu á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Það er ekki nóg með að staðnum hafi fleytt fram, heldur hefur Búlandsnesið stækkað svo um munar. Þar hafa hafstraumar sópað upp sandi og búið til nýjar landfyllingar á milli eyja sem áður voru úti fyrir landi.

IMG_2945

Búlandsnesið, þar sem Djúpivogur sker sig inn í landið, hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi en hvorki ríki né kirkju. Í bók sinni Að Breyta fjalli fer Stefán Jónsson fréttamaður yfir þau vandkvæði sem felast í því þegar kristfjárjarðir eru annarsvegar og engir pappírar finnast um gjörninginn. Hann segir m.a.; „hitt er ljóst að einhver eigandi jarðarinnar til forna gaf hana fátækum í Geithellnahreppi fyrir sálu sinni“ og rekur síðan vandræði sveitarstjórnarmanna í hinum forna Geithellnahreppi.

Það er ekki víða á Íslandi sem fólk býr bókstaflega í landi Jesú Krists; við ævintýr, sem innihalda leyndardómsfullt landslag, heimsins hæsta píramída og sannar sjóræningja sögur. Og það sem dularfyllst er af öllu, hina óendanlegu Austfjarðaþoku. Nikólína Weywadt, sem fyrst tók veðurathuganir fyrir Veðurstofuna við Berufjörð og fyrsti ljósmyndari á Austurlandi, taldi á þriðja hundrað þoku daga um margra ára skeið í veðurathugum sínum á síðustu ártugum 19. aldar. Þeir sem vilja gera lítið úr Austfjarðaþokunni hafa haldið því fram að ekki hafi þokubólstur mátt bera í Búlandstindinn svo Nikólína hafi ekki talið þokudag.

Eftir að hafa búið á Djúpavogi hátt á annan áratug, í lok síðustu aldar, dettur mér ekki í hug að rengja veðurathuganir Nikólínu Weywadt, og er ég ekki frá því að hafa upplifað á þriðjahundrað daga á ári umlukinn þoku. Eins bera fjölmargar ljósmyndir Nikólínu frá Djúpavogi þess merki að þokan hafi verið venju fremur ágeng á hennar tíð. Þokan á sér mun fleiri hliðar en dulúðina, að úr henni ýrist úði og í henni geti leynst álfabyggðir og falleg fjöll. Stefá Jónsson fréttamaður sagði um hana m.a.í bók sinni Gaddaskata að þokan gæti orðið svo þykk í Djúpavogsblánum að lítið hefði þýtt að leita þar að belju fyrr en andardráttur hennar hefði fundist við eyrað.

IMG_2921

Síðustu helgi var varið á Djúpavogi og naut ég þess að upplifði sólskinsbjarta Jónsmessunótta í eitt skiptið enn. Byrjaði á að fara upp á Bóndavörðu þar sem útsýnið yfir bæinn er best. Þokan kom yfir Búlandsnesið og byrgði fljótlega sýn. Drunur sem ég gat mér til að væru frá skipsvélum heyrðust út úr þokunni í gegnum næturkyrrðina, skreytta fuglasöng. Ég hugsaði með mér hvað ef Hundtyrkinn væri nú aftur á ferð um þennan bjarta tíma. Það var fyrir hátt í 400 árum sem þokan bjargaði þeim fáu sem þá urðu eftir við þennan fjörð.

Um þá nótt var sumarblíða á Djúpavogi, bjart en þoka í miðjum hlíðum. Sjóræningjaskipin sigldu inn Berufjörð að Djúpavogi og vörpuðu akkerum á móts við Berunes. Um morguninn og næstu tvo daga á eftir fóru sjóræningjarnir með ránum og manndrápum um verslunarstaðin við Djúpavog, Hálsþinghá, en svo nefndist íbúabyggðin þá, Berufjarðarströnd og Breiðdal. Hundtyrkinn drap fjölda fólks og tóku á annað hundrað manns til fanga er þeir seldu í Barbaríinu í Alsír.

Þeir fáu íbúar sem sluppu undan Tyrkjunum, sem voru ekki Tyrkir, komust inn í þokuna til að leynast þangað til sjóræningjaskipin léttu akkerum og hægt var að snúa heim á ný. Jón Helgason segir í bók sinni um Tyrkjaránið; „Ömurlegastir voru þó í umkomuleysi sínu þeir bæir, er enginn vitjaði, þótt skipin væru horfin á braut og þeir voru margir um Berufjarðarströnd og Hálsþinghá: Allt fólkið hertekið. Börnin sem þar höfði signt sig á bæjarhlaðinu hvern morgun, tóku ekki gleði sína á ný við leik á hóli eða fjörusandi, þau grétu í dimmum og fúlum lestum víkingaskipanna.“

IMG_2993

Svalbarðstanginn sem aðskilur Gleðivíkurnar, farþegaskip stefnir inn á þá innri þar sem höfnin er með heimsfrægu eggjunum hans Sigurðar í "Himnaríki". Út á firði liggur annað farþegaskip við akkeri og ber í þokuna, sem ferjaði farþegana í land með skipsbátunum.

Þegar ég rýndi út í þokuna, þaðan sem drunurnar heyrðust, sá ég grilla í stórt skip koma út úr þokunni. Fljótlega koma annað og stemmdu þau inn Berufjörðinn. Það fyrra kastaði akkerum út af Djúpavogi á móts við Berunes rétt eins og sjóræningja skipin forðum. Seinna skipið sigldi fullri ferð fram hjá því fyrra inn á höfnina í Innri-Gleðivík. En í þetta sinn voru það skemmtiferðaskip og við Matthildur mín stödd á Djúpavogi sem barnapíur dótturdóttir okkar, sólargeislans Ævi, en foreldrar hennar þjónustuðu ferðamenn þessa Jónsmessuhelgi.

Undanfarin ár hefur á Djúpavogi verið gert gríðarlegt áttak í ferðaþjónustu og varðveislu gamalla húsa, bærinn bókstaflega blómstrar hjá öllu því unga fólki sem þar lætur drauma sína rætast. Ég notaði nóttina til að rölta um og skoða fyrrum heimabæ okkar Matthildar og minntist góðra daga okkar bestu ára. Þá voru farin að sjást merki þess í hvað stefndi. Þá gengu húsin Geysir og Langabúð í endurnýjun lífdaga eftir erfið ár. Þá voru þau hús sem mín kynslóð byggði ný og glæsileg en mörg gömlu húsin í lakar ástandi. Nú má segja að öldin sé önnur. Þegar ég skoðaði húsin sá ég að rétt var að nota þokuna til að fara með veggjum, eða réttara sagt klettum. Því það sama á við um mig og verkin mín, að eldast illa.

Við Matthildur yfirgáfum Djúpavog um aldamótin. Það voru erfiðir tímar. Hún sjómannsdóttirin fædd og uppalin í einu af fallegu húsum bæjarins. Stuttu áður höfðu fjögur stór fiskiskip verið seld frá staðnum á nokkrum mánuðum. Íbúum fækkaði, nemendum í skólanum fækkaði um helming á örfáum árum. Aflaheimildir og fiskvinnsla var vistuð hjá Vísi í Grindavík sem hélt uppi skertri vinnslu á Djúpavogi, þar til fyrir skemmstu að þeir léttu akkerum hurfu á braut.

IMG_3022

 Gamli góði Djúpivogur, verslunarhöfn í 430 ár og fiskihöfn frá ómunatíð.

Þó svo að áfallið hafi verið stórt þegar fleiri þúsund tonna kvóti fór frá staðnum á svo til einni nóttu þá hefur unga fólkið á Djúpavogi aldrei misst móðinn, það þrífst líkt og fíflarnir sem vonlaust er að slá, því þeir spretta bara enn fleiri blómstrandi upp aftur morgunnin eftir. Staðurinn sem stendur í kristfjárjörðinni hefur sennilega alla tíð átt því láni að fagna að þar fær unga fólkið tækifæri til að láta drauma sína rætast, rétt eins og sá maður sem stal sjálfum sér forðum -Hans Jónatan; fyrsti blökkumaðurinn er sögur fara af á Íslandi.

Á mínum manndómsárum á Djúpavogi varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera í hreppsnefnd í því sem næst tvö kjörtímabil, það fyrra var styttra vegna sameiningar sveitarfélaganna, Búlands-, Berunes- og Geithellna-hreppa. Oft var tekist á um málefni dagsins á minni tíð en aldrei um varðveislu þess gamla. Það er helst að ég minnist þess að við höfum jagast um staðsetningu Geysis. Ég vildi ekki færa Geysi um sentímetra, en við húsið var í þá daga eitt helsta blindhorn bæjarins. Þar varð ég undir í argvítugum minnihluta eins og vanalega.

Ég sá það, þegar þokunni létti svo undursamlega á þessu Jónsmessunætur rölti, að auðvitað hef ég hagað mér eins og hálfviti mest alla tíð, en læt mig samt dreyma um að þokan hafi byrgt mér sín og öldin verið önnur.

Ps. set hér inn nokkrar myndir af misjafnlega gömlum húsum í bænum.

IMG_2959

Geysir var byggður sem hótel rétt fyrir aldamótin 1900 og þjónaði sem slíkur fyrstu árin. Húsið var lengist af notað sem íbúðarhús, og fyrir verslunina Djúpið þegar ég kom á Djúpavog. Hýsir nú skrifstofur Djúpavogshrepps. Húsið gekk í endurnýjun lífdaga um aldamótin 2000. 

 

IMG_0657

Nýja Lögberg, fjölbýlishús með fjórum íbúðum, byggt einhvertíma í kringum 1940.

 

IMG_0659

Gamla Lögberg sagt byggt 1914. Mig minnir að bakhliðar þess hafi verið torfveggir áður en það fékk yfirhalningu, sem gæti bent til þess að það hafi verið byggt í eldri tóft.

 

IMG_0680

Björk, var áður með "kastala brjóstvörn" og torfþaki. Sennilega byggt fleirum en einum áfanga eftir brjóstvitinu. Nýtur sín vel nú sem fyrr, þó svo "brjótsvörn kastalans" sjáist ekki lengur, orðið að húsi funky stíl.

 

IMG_0718

Ásbyrgi byggt 1947 gekk í endurnýjun lífdaga 1989.

 

IMG_0710

Langabúð t.v. er í reynd röð gamalla sambyggðra húsa frá árunum 1758-1850, endurgerð 1989-1997 - Faktorshús t.h. byggt 1848. Bæði húsin tilheyrðu versluninni á Djúpavogi um aldir og fór verslun Kaupfélags Berufjarðar þar fram til ársins 1985.

 

IMG_0741

Bæjarstæðið á Djúpavogi séð frá Bóndavörðu. Hann er óvíða fegurri sjóndeildarhringurinn en á þessum góða útsýnisstað, heyrst hefur fagnaðar kliður frá ferðamönnum sem koma í þoku og sjá henni létta. Hálsþinghá og Hamarsfjörður fjærst t.h., Berufjörður t.v.,,,,jú ég sé að það leynir sér ekki að Geysir hefði átt að fá að standa áfram á sínum stað á bláhorninu í Hótelhæðinni.


Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

Það kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee frá því á síðustu öld. Þá hlustum við á þjóðskáldið syngja um það þegar það hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann. Sjaldnast verða úr þessum Cherokee setum undur og stórmerki í fjaðrasófum grænum, en kemur þó fyrir.

Um síðustu helgi skein t.d. skyndilega við sólu Skagafjörður, eða kannski réttara sagt sólin og Skagafjörðurinn skinust á. Reyndar hafði blundað í mér pílagrímsför í Skagafjörðinn, þó þar megi finna margar helstu perlur íslenskrar byggingalistar er þar ein slík sem hefur glitrað lengur og skærar en allar þær háu svörtu turnlöguðu með skúrþökunum, og jafnvel skærar en sjálft Sólfarið við Sæbraut. 

Það var semsagt síðastliðinn föstudag sem tekin var skyndiákvörðun um að bruna í Skagafjörðinn með gömlu fermingar svefnpokana og láta endanlega verða af því að skoða Víðimýrarkirkju. Í leiðinni var litið á fleiri perlur íslenskrar byggingalistar, m.a. Grenjaðarstað í Aðaldal, Glaumbæ í Skagafirði, Hólakirkju í Hjaltadal, Grafarkirkju við Hofsós og Saurbæjarkirkju inn í Eyjafirði.

IMG_2728

Já skrítið, aðallega torf, sprek og grjót og það hjá steypu kalli. Það má segja sem svo að ég hafi verið orðin hundleiður á að horfa út undan rofabarðinu á kólgugrátt Urriðavatnið og skrapa steypugólfið í niðurgröfnum moldarhaug sem mér var komið fyrir í vor, svo að ég gat ekki lengur á mér setið. Enda minnir mig Nóbelskáldið hafi einhversstaðar komist svo að orði að sementið væri byggingarefni djöfulsins og getur það svo sem verið rétt ef það nær til að harðan sem ómótaður óskapnaður.

En um Víðimýrarkirkju hafði Nóbelskáldið þetta að segja; „Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús.“

Þegar við hjónin komum að Víðimýrarkirkju í glampandi sól og sumarhita þá var hún læst. Við vorum varla farin að hugleiða það að naga þröskuldinn þegar staðarhaldarinn Einar Örn kom askvaðandi yfir túnið á ensku. Við heilsuðum á íslensku og tókum tvisvar fram að hún væri okkar móðurmál. Hann bað afsökunar á margítrekuðu athugunarleysinu en sagðist hafa það sér til málsbóta að sjaldséðir væru hvítir hrafnar. Þetta var reyndar ekki eini staðurinn í þessari ferð sem þetta kom upp, þetta var viðkvæðið á öllum þeim stöðum sem höfðu að geyma þjóðlega menningu og byggingalist sem við skoðuðum í þessari ferð.

Einar Örn bætti heldur betur fyrir óþrifalega enskuslettuna með því að segja skemmtilegar  sögur úr kirkjunni. Það á t.d. að hafa tekið 6 tíma að ferma Stefán G Stefánsson Klettafjallaskáld samkvæmt því sem skáldið sagði sjálft eftir að hann var fluttur til Ameríku. Presturinn sofnaði þrisvar og þurfti jafn oft út þegar hann vaknaði til að fá sér ferskt loft og hressingu en hafði alltaf gleymt hvar í athöfninni hann var staddur þegar hann kom inn aftur og byrjaði því upp á nýtt. Þessi langdregna fermingarmessa fór illa í suma Skagfirska bændur því það var brakandi heyskaparþurrkur.

IMG_2736

Altaristafla Víðimýrarkirkju er frá kaþólskum sið því ekki þótti taka því að skipta henni út við siðaskiptin. Eins fengum við að heyra að kirkjan væri vinsæl til hjónavígslna, og þá oft um erlend pör að ræða, ekki væri óalgengt að þau bókuðu með margra mánaða, jafnvel ára fyrirvara. Fyrir nokkru hafði samt verið gefið saman í skyndingu par, þar sem hann var gyðingur en hún kaþólikki. Þau hefðu verið spurð hvernig þau ætluðu að skýra út fyrir sínum nánustu valið á guðshúsinu. Gyðingurinn svaraði fyrir þau bæði og sagði að það væri seinna tíma vandámál sem biði þar til heim væri komið.

Þó svo litla listaverkið sem kostað var minna til en meðal hesthúss, að mati Nóbelskáldsins, hafi ekki staðið í Víðimýri nema frá 1864 þá eru margir munir hennar mun eldri, líkt og altaristaflan. Í Víðimýri hefur verið bændakirkja frá fornu fari, eða allt frá kristnitöku á Íslandi. Hún var samt ekki talin til sóknarkirkna fyrr en árið 1096. Það er ekki vitað hver lét reisa upphaflegu kirkjuna. En sú hefur verið rúm miðað við núverandi kirkju, því að í henni voru sögð vera 4 altari, eitt háaltari og þrjú utar í kirkjunni. Víðimýrarkirkja var helguð Maríu mey og Pétri postula.

Það hafa margir merkir prestar þjónað staðnum, þ.á.m. Guðmundur góði Arason, sem varð síðar biskup á Hólum 1203-1237. Kolbeinn Tumason var þá héraðshöfðingi í Skagafirði og kom Guðmundi góða á biskupsstól og hugsaði sér með því gott til glóðarinnar. En öðruvísi fór með sjóferð þá því Guðmundur lét ekki að stjórn og endaði Kolbeinn líf sitt í Víðinesbardaga við Hóla þegar einn af mönnum Guðmundar góða kastaði grjóti í hausinn á honum. 

IMG_2732

Þá var öldin kennd við Sturlunga og menn ortu sálma á milli manndrápa. Kolbeinn Tumason var af ætt Ásbirninga og hafði lagt margt á sig til að halda höfðingja tign m.a. við Lönguhlíðarbrennu, þar sem Guðmundur dýri Þorvaldsson og Kolbeinn fóru að Lönguhlíð í Hörgárdal og brenndu inni Önund Þorkelsson ásamt Þorfinni syni hans og fjóra aðra en mörgum öðrum heimamönnum voru gefin grið. Þeir Önundur og Guðmundur höfðu átt í deilum og brennan var talin níðingsverk.

Sálmurinn Heyr himna smiður er eftir Kolbein Tumason í Víðimýri, hvort hann hefur fengið hugmyndina af honum kirkjunni eftir Lönguhlíðarbrennu skal ósagt látið, en talið er að hann hafi samið hann rétt fyrir andlát sitt þegar hann fór fylktu liði í Hóla til að tukta Guðmund góða biskup Arason, er svo slysalega vildi til að einn af liðsmönnum biskups kastaði steini í höfuðið á Kolbeini. Eins og Sturlunga fer greinilega með heimildir og nafngreinir þá sem að manndrápum koma þá upplýsir hún ekki hver var grjótkastarinn.

Kolbeinn kvað; „Heyr, himna smiður, hvers skáldið biður, komi mjúk til mín miskunnin þín. Því heit eg á þig, þú hefur skaptan mig, ég er þrællinn þinn, þú ert Drottinn minn.“ Þessi sálmur er ein af gersemum íslenskrar tungu sem fer stórum á youtube með yfir 7 milljón áhorf. Eftir pílagrímsferð í Mekka íslenskrar byggingalistar er þá nema von að sonur þjóðar, sem  þarf að kynna sín helstu menningarverðmæti á ensku á eigin heimavelli til þess að hafa áheyrendur, spyrji líkt og Bubbi; Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

 


Vök á vatni

IMG_0379

Núna í vikunni spurði ég verkfræðinginn þegar við stóðum yfir drulluskurðinum; "mikið ert þú hugsandi vinur, ertu nú að hugsa um mold?". Hann svaraði játandi, og bætti við að bragði "og væntanlega ert þú að hugsa um steypu". Ég jánkaði því enda hefur ekki annað komist að í höfðinu á mér frá því fyrst ég man.

Á þessum árstíma hefur steypuhrærivélina venjulega verið komin í gang og ævintýrum sumarsins verið blandað út í hræruna. En nú bregður svo við að yfir mig hefur verið mokað, eða í sannleika sagt mér komið fyrir í rofabarði. Ég hef því hugsað til þess hvernig aldur færist yfir og þrek fer þverrandi.

Eitt af því sem steypan hefur gefið í gegnum tíðina er útivera, og að sumarlagi oft undir sólbjörtum himni. Næstu vikurnar má ég gera mér það að góðu horfa út undan rofabarðinu á merlandi vatnsflötin þar sem nú heitir Vök í Urriðavatni, eða eins og ber að segja samkvæmt tíðarandans toga - Vök-Baths.

Þarna er mér ætlað að rölta á eftir gólfslípivél sem skrapar niður grjót harða steypu frá í vetur, og á að ná fram einhverskonar lúkki sem engin veit hvernig á að vera. Hávaðinn er ærandi og ég langt í frá að vera vinsælasti maðurinn í holunni. Rafvirkinn kemur annað slagið og lítur leiftrandi augnaráði niður á gólfið og öskrar svo upp í fésið á mér "já ég sé að þú ert á góðri leið með að finna gullið".

Vök-Baths er ætlað að trekkja til sín túrista, þessi miljarða framkvæmd mun víst skila múltí miljörðum þegar fram líða stundir. Ég ræddi það við píparann núna í fyrradag að mig rámaði í að þetta væri gamall draumur frá því fyrir 1970. Áður en sólstrandarferðir urðu inn hjá landanum. Þá dreymdi fólk á Héraði um að við Urriðavatn mætti koma upp ylströnd þar sem vakir væru í ísnum og heitt vatn undir.

Hvort túristarnir ala með sér sama draum og gamlir Héraðsbúar, og eigi eftir að kaupa sér bað í Vök til viðbótar við Jarðböðin, Leirböðin, Saltböðin og Bláa Lónið, og guð má vita hvað á eftir að koma í ljós. En í fyrsta skipti er mig farið að dreyma um að komast í sumarfrí, út í íslenska sumarið. Ég satt að segja man ekki til að það hafi gerst áður þegar steypa er annars vegar.

Set hér inn myndband af gamalli steypu, þegar sumarið var tíminn og hjörtun ung.


Hið dularfulla guðshús goðans

IMG_2350

Það þarf ekki að fara um langan veg til að ferðast langa leið. Í vikunni var skotist hálftíma út fyrir bæinn, að ég hélt til að skoða moldarkofa. Eftir þennan skottúr flugu upp gömul heilabrot sem ekki náðist að raðað saman á sínum tíma. Ástæða þessarar skreppu túrs var upphaflega að skoða nýlega byggða torfkirkju en ekki endilega eitthvað sem næði út yfir rúm og tíma.

Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Sumarið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur. Sú rannsókn leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústirnar voru af lítilli torfkirkju, langhúsi og tveimur minni byggingum. Túngarður úr torfi umlukti byggingarnar.

Kirkjan á Geirsstöðum hefur verið af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni á Íslandi. Líklega hefur kirkjan einungis verið ætluð heimilisfólki á bænum. Tilgáta er um að Geirastaðir gætu hafa verið bær Hróars Tungugoða, sonar Una Danska, landnámsmanns. Hróar var var sagður hafa búið að Hofi, sem var sagt vestan Lagarfljóts, austan Jökulsár og norðan Rangár, sem sagt þar sem heitir Hróarstunga.

Geirsstaðakirkja var endurbyggð 1999 – 2001, undir leiðsögn Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara, Guðjóns Kristinssonar torfhleðslumanns og Minjasafns Austurlands. Það var gert með fjármagni sem kom úr sjóðum Evrópusambandsins, Vísindasjóði rannsóknaráðs Íslands, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Norður-Héraði. Kirkjan er í umsjón fólksins á Litla-Bakka og sér það um varðveislu hennar og viðhald. Kirkjan er opin almenningi gegn vægu gjaldi og framlögum í söfnunarbauk, en Þjóðminjasafn Íslands hefur ekki með þessar sögulegu minjar að gera.

Hróar Tungugoði er með dularfyllri goðum Íslands því hann virðist hafa verið uppi á tveim stöðum í einu, austur á Fljótsdalshéraði og suður við Kirkjubæjarklaustur. Hann er sagður sonur Una danska Garðarssonar og Þórunnar Leiðólfsdóttir. Til er tvær Hróarstungur sem við hann eru kenndar, önnur er austur á Fljótsdalshéraði á milli Lagarfljóts og Jöklu þar sem kirkjan á Geirsstöðum stendur. Hin Hróarstungan er á milli Hörgslands og Foss á Síðu, austur af Kirkjubæjarklaustri, á milli tveggja smálækja. Þar á Hróar Tungugoði að hafa verið drepinn, á slóðum þar sem gæsaskyttur fundu víkingasverð fyrir nokkrum árum. Hróars er m.a. getið í Njálu og Austfirðingasögum, á hann samkvæmt Njálu að hafa verið mágur Gunnars á Hlíðarenda.

Landnáma segir af Una danska sonar Garðars Svavarssonar, þess er fyrstur fann Ísland. Sagt er að Uni hafi farið til Íslands að ráði Haralds konungs hárfagra. "Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós og húsaði þar. Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar. En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast. Uni fór suður í Álftafjörð enn syðra, en náði þar eigi að staðfestast. Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi og tók hann við þeim." Talið er samkvæmt örnefnum að Skógahverfi hafi verið í Vestur-Skaftafellssýslu í grennd við Kirkjubæjarklaustur.

Saga Una danska er því ekki síður dularfull en saga Hróars sonar hans. Uni á að hafa numið land á Fljótsdalshéraði, eða allt frá Unaósi við Héraðsflóa til Unalækjar, sem er á Völlum skammt fyrir innan Egilsstaði. Reyndar er til annar Unalækur sem er mun nær Unaósi og vilja sumir meina að misskilnings gæti um landnám Una og því eigi að miða við þann læk en ekki þann sem er innan við Egilsstaði. Þá væri landnám Una nokkurn veginn þar sem kallað er Hjaltastaðaþinghá og skaraði ekki langt inn í landnám Brynjólfs gamla.

Eins og fram kemur í Landnámu þá virðist landnám Una hafa verið numið áður en hann kom; "er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast". Enda hefur Hjaltastaðaþingháin alltaf verið dularfull með sína Beinageit, Kóreksstaði og Jórvík. Sumir hafa fært fyrir því rök að hún hafi verið Keltneskari en flest landnám norrænna manna á Íslandi. Uni hraktist því suður á land, nánar tiltekið í Skógarhverfi sem talið er hafa verið á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu.

Þar komst Uni í kynni við Þórunni dóttur Leiðólfs og varð hún ólétt. Uni vildi ekkert með Þórunni hafa og forðaði sér, en Leiðólfur elti hann uppi og dró hann ásamt mönnum hans heim til Þórunnar. Uni lét sér ekki segjast og flúði aftur þá fór Leiðólfur aftur á eftir honum og köppum hans og slátraði þeim öllum þar sem heita Kálfagrafir. Þannig endaði landnámsmaðurinn Uni danski ferð sína til Íslands sem sögð var hafa verið farin að undirlagi Haraldar konungs hárfagra svo hann kæmist yfir Ísland.

Hvort Hróar sonur Una hefur átt eitthvað tilkall til landnáms föður síns austur á Héraði er ekki gott að finna út úr eftir allar þessar aldir, en samkvæmt sögum og örnefnum þá virðist hann hafa sest að í Hróarstungu á bæ sem hét Hof, en ekki er vitað hvar það Hof var og er nú giskað á að Geirsstaðakirkja sé Hof. Hróarstunga er að vísu fyrir norðan Lagarfljót en landnám Una danska fyrir sunnan, en vel má vera að Lagarfljót hafi á Landnámsöld ekki átt sinn farveg þar sem hann er í dag. Allavega var það landsvæðið sem tekur bæði yfir Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghá, sem var í landnámi Una, áður kallað ein Útmannasveit.

Ég set hér inn myndir frá guðshúsi goðans.

IMG_2341

 

IMG_2349

 

IMG_2361

 

IMG_0345

 

IMG_2369

Víkingaskip sem hinn skoski steinhleðslumaður Donald Gunn gerði við fyrir framan hringlaga túngarðinn í kringum Geirsstaðakirkju


Eru Bakkabræður komnir á Þjóðminjasafnið?

Galtarstaðir-fram

Það eru til margar sögur af Bakkabræðrum, en sennilega er sú lífseigasta um sólskinið.  Halldór Laxness taldi að birtuskilyrðin í húsum þeirra hefðu lítið lagast þó svo það opinbera hefði sett reglugerð um glugga á þeirra tíð. Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra sagði að þó svo Bakkabræður hefðu stundað mögnuð heimskupör hefði þeim samt aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka. Nóbelskáldið og menntamálráðherrann voru nokkuð samstíga með það að sálin væri heillavænlegri en reglugerðin þegar kæmi að húsum.

"Það er þessi fegurð sálarinnar sem á Íslandi hefur átt heima í torfbyggingarlistinni fornu, einhverri sérstæðustu og merkilegustu náttúrubyggingarlist heimsins." sagði skáldið árið 1939 í ritinu Húsakostur og híbýlaprýði. Síðan þegar torfbærinn leið undir lok eftir 1000 ára þjónustu við þjóðina taldi skáldið að Íslendingar hefðu ekki fundið sálina í neinni stílmenningu þegar byggingalist væri annarsvegar, heldur hafi hún einkennst af handahófskenndum eftiröpunum, flumbrulegum stælingum og skynlausum afbökunum.

Þessar áratuga gömlu hugrenningar þeirra 20. aldar mannanna má sjálfsagt allar til sannsvegar færa. Einnig er hægt að færa rök fyrir því að við nálgumst nú óðfluga ókosti torfbæanna á ný, rakan og mygluna, við byggingu sálarlausra eftirapana byggðum í flumbrugangi með afbökuðum stæl. Þar sem myglan er borin inn samkvæmt ströngustu reglugerðum ásamt innfluttum byggingarefnum. Hvernig sem á því stendur þá virðast handabökin mislagðari eftir því sem reglurnar verða strangari og langt aðkominn efniviðurinn CE vottaðri.

Undanfarin ár hefur verið árviss skoðunarferð að vori út í byggingalist náttúrunnar. En þá hef ég farið að Galtastöðum-fram í Hróarstungu. Aksturinn þangað tekur mig ekki nema um 20 mínútur og er alltaf þess virði. Fyrst þegar ég fór í Galtarstaði fyrir nokkrum árum þá tók ég eftir því að það virtust standa yfir endurbætur á bænum og fór ég því þangað fljótlega aftur til að vita hvernig þeim miðaði. Nú hafa þessar skoðunarferðir staðið á fjórða ár og allt er við það sama, nema tímans tönn.

Galtastaða bærinn er sagður í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1976 og hafi þá þótt merkilegur m.a. vegna þess að þar er fjósbaðstofa. Aðeins ein önnur var til á öllu landinu, og áhugavert væri fyrir nútíma fólk að geta skoðað þannig mannabústað. Hinn merki hleðslumeistari Sveinn Einarsson (1909-1994) frá Hrjót endurbyggði suma torfveggina að Galtarstöðum skömmu eftir að bærinn komst í vörslu Þjóðminjasafnsins en síðan eru liðin mörg ár,,, - áratugir.

Þess vegna var svo ánægjulegt að sjá það fyrir nokkrum árum að framkvæmdir voru við Galtarstaði, kannski kæmi að því aftur að hægt væri að fá að skoða bæinn að utan og innan. Reyndar ber bærinn byggingasögu landsins vitni á margan hátt því við hann var byggt íbúðarhús úr asbesti árið 1960, með tíðarandans flata skúrþaki. Fyrir fjórum árum frétti ég að framkvæmdirnar hefðu verið á vegum Þjóðminjasafnsins og staðið þá í sambandi við asbest húsið með flata þakinu, sem stæði til að gera upp og koma upp í leiðinni loftræstikerfi fyrir gamla bæinn. 

Nú í vetur frétti ég það á förnum vegi að talsverðir fjármunir hefðu komið í Galtastaðabæinn á síðasta ári. Hefðu féð verið notaðir í vegagerð og það að koma fyrir pípuhliði. Hvernig mönnum hefur dottið í hug pípuhlið er ekki gott að átta sig á en sennilegra er að einhver hafi drepið niður fæti í rolluskít, frekar en að eitthvað hafi farið úrskeiðis á milli eyrnanna.

Pípuhliðið stendur eitt og sér langt úti í mýri og því spurning hvað miklar fjárveitingar þarf í girðingar áður en hægt verður að fara í að sinna merkilegustu náttúrubyggingalist heimsins.

 

Hin árlega vorferð í Galtarstaði var farin í gær og eru myndir úr henni hér fyrir neðan.

 

IMG_2276

Upp við þilið á bæjardyrunum hafa staðið aflóga gluggar úr asbestviðbyggingunni s.l. fjögur ár

 

IMG_2271

Fjósbaðstofan: beljurnar voru hafðar niðri og fólkið var upp í ylnum frá beljunum

 

IMG_2280

Að baka til má sjá að einn bær er heil þyrping af húsum, sem líta út eins og grænir hólar að sumarlagi, þarna er m.a. hlóðaeldhús í einum hól, búr í öðrum, heylaða, skemma osfv., alls 7 hús


Hús úr torfi

IMG_1636

Ein af gersemum íslenskra húsa er er torbærinn að Þverá í Laxárdal, Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er sérstakur fyrir það að lækur rennur í gegnum bæinn, þurfti fólkið því  ekki að fara úr húsi til að sækja sér vatn í bæjarlækinn. Einhver þekktasta veiðiá landsins, Laxá í Aðaldal, fellur úr Mývatni um dalinn og til sjávar í Skjálfanda. Dalurinn er fagur og frjósamur. Þar er mikið fuglalíf og fjölskrúðug flóra. Einnig má sjá þar mikið af fjárgirðingum úr grjóti, virðast þær standast tímans tönn einstaklega vel í Laxárdal.

Ég var svo heppinn að eiga erindi í Laxárdal í upphafi viku, vegna þess að fyrirtækið sem ég vinn hjá er að byggja nýja gistiálmu við veiðihúsið Rauðhóla. Þverá er rétt innan við Rauðhóla og langaði mig til að sjá bæinn að vetrarlagi en þangað hafði ég komið í lok sumars fyrir tveimur árum. Það var snjóþungt og kalt í morgunnsárið Laxárdalnum og lét ég því mér nægja að sjá heima að bænum, en set hér með myndir frá fyrri heimsókn.

IMG_1632

Þverárbærinn var byggður á seinni hluta nítjándu aldar af Jóni Jóakimssyni snikkara og bónda á Þverá, sem var rómaður fyrir vandvirkni við smíðar og búskap. Þverá mun vera í einkaeign og Áskell bóndi Jónasson sér um bæinn. Þjóðminjasafn Íslands hefur haft tilsjón með húsunum. Þarna voru útihús af fornri gerð varðveitt auk bæjarhúsanna. Þjóðminjasafnið hefur látið endurbyggja þrjú útihús; fjárhús, hlöðu og hesthús.

Þverárbærinn er kannski þekktastur fyrir að vera vagga Samvinnuhreyfingarinnar sálugu,en fyrsta kaupfélag landsins, Kaupfélag Þingeyinga var stofnað að þar árið 1882. Þeir sem eiga leið um Þingeyjarsýslur heimsækja margir torfbæinn að Grenjaðarstað, en þar er rekið byggðasafn. Þaðan eru aðeins þrettán kílómetrar að bænum Þverá í Laxárdal, sem færri vita af, en þar varðveitir Þjóðminjasafnið þetta sögufræga djásn.

IMG_5354

IMG_5373

IMG_5390

IMG_5378

IMG_5372

IMG_5375

 


Hús úr hassi

DtkMeVnWkAIQrXF

Þó undarlega kunni að virðast þá er farið að byggja hús úr hassi, eða kannski réttara sagt hampi, sem er jurt af þeirri ætt er gefur af sér kannabis. Hollenska fyrirtækið Dun Agro hefur um nokkurt skeið framleitt vörur úr hampi og hefur nú hafið framleiðslu húsa úr þessari jurt. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í að steypa húseiningar úr hampi og telja sig geta afhent 500 hús á ári. Heimasíðuna má skoða hér.

Dun Agro er ekki fyrsta fyrirtækið sem hefur reynt að byggja hamphús. Hins vegar segjast þeir vera fyrstir til að takast það með einhverjum árangri. Þeir vilja meina að eitt af því jákvæðasta við þessi hús sé kolefnisporið. Hampurinn í hús taki til sín ca 13.500 kg af CO2 við það eitt að vaxa, hann er síðan uppskorinn og bundinn í steypu hússins ásamt kolefninu. Það þarf mikil vísindi til að umreikna rúmál ósýnilegrar loftegundar í sýnilegan massa með jákvæðu kolefnisspori í húsi úr hassi, gott ef ekki hugvísindi.

hennepverwerkingsbedrijf-dun-agro-hemp-concrete-con158-6

Hér sést í endan á steyptri hampveggs einingu frá Dun Agro 

En hversu raunhæft er notagildi hamps burtséð frá kolefnissporinu? Ef eitthvað er að marka Vísindavef Háskólans nær saga hampræktunar árþúsundir aftur í tímann. Samkvæmt kínverskri goðsögn færðu guðirnir mannkyninu eina plöntu að gjöf sem átti að uppfylla alla þarfir þess og var plantan sú formóðir allra kannabis- og hampplantna í heiminum.  Mikilvægi hamps og notagildi hans hefur ekki síst legið í því hversu trefjaríkir stofnar plöntunnar eru. Trefjarnar mátti nota í klæði, segl, reipi, pappír og margt fleira. Sem dæmi var hampur notaður bæði í segl og kaðla á tímum landafundanna miklu. Greinina um hamp á vísindavefnum má nálgast hér.

Hamp er hægt að rækta hér á landi, og þá á annan hátt en við raflýsingu til ólöglegra nota. Fyrstu skráðu heimildir um ræktun á hampi á Íslandi er að finna í bréfi sem Vísi Gísli sendi syni sínum árið 1670 þar sem hann segir frá tilraunum sínum með að rækta innfluttar plöntur. Fyrir rúmum áratug var gerð tilraun með ræktun á iðnaðarhampi úti í guðs grænni náttúrunni norður í Eyjafirði og gekk ræktunin vel. Um notkunar möguleika hampsins má einnig fræðast í BB hér.

Það hefur verið talið, þar til fyrir skemmstu, að sá sé í besta falli "steiktur hasshaus", sem hefði látið sér detta í hug að byggja hús úr hassi. En eftir að tilvist heimsins byggist orðið að mestu á hinu ímyndaða kolefnisspori og reiknikúnstum sem má líkja við gullgerðalist, þarf sá ekki að vera neitt "steiktur" sem lætur sér til hugar koma að byggja og selja hús úr hassi þó ekki væri nema kolefnissporsins vegna. Þó svo sporinn hræði þá virðist hampur veraverulega misskilin jurt.

hampur_litil_221015

Waking Times


Hús úr bárujárni

Flókagata

Bárujárnshús við Bergþórugötuna - söng Egill Ólafsson um árið við lag Gunnars Þórðarsonar og texta Davíðs Oddssonar. Textinn framkallar hugljúfa mynd af gömlum tímum og hlýlegum húsum í 101. Það er leitun að byggingarefni sem hefur verið eins einkennandi fyrir Ísland bárujárnið. Það hefur sennilega náð fullkomnun hagvæmninnar í bragganum, enda er bárujárnið víðast hvar í heiminum notað til að koma upp ódýru húsaskjóli í snatri og er því einkennandi fyrir fátækrahverfi. Hvernig íslendingar gerðu bárujárnið að litríku listaverki í húsagerð vekur athygli flestra sem heimsækja landið. En eins og með svo margt sem einkennir byggingasögu þjóðarinnar þá er engu líkara en við skömmumst okkar fyrir sérstöðuna, líkt og var með torfbæina á sínum tíma, sem jarðýtan var látin varðveita, en þykja í dag athyglisverður vitnisburður um sér íslenska byggingarlist sem talin er eiga erindi á heimsminjaskrá.

Bárujárnshúsin tína tölunni eitt af öðru og ekki síst í Mekka þeirrar byggingalistar, Reykjavík. Þar hafa menn horft hærra og eru litlu litríku húsin látin víkja fyrir dökkum Dubai draumnum. Gamla skuggahverfið er því sem næst horfið og þess í stað komnir svartir turnar sem stara tómeygir út á hafið, apandi hver upp eftir öðrum. Munurinn á Dubai norðursins og þeirra dúbæja sem eru sunnar á hnettinum er þó sá að götur Skuggahverfisins eru álíka lífvana og tómlegt augnaráð turnanna sem stara út á sundin blá. Við íslendingar ættum að taka frændur okkar í Færeyjum oftar til fyrirmyndar þegar kemur að varðveislu gamalla húsa. Frændum okkar hefur ekki enn komið til hugar að rústa miðbæ Þórshafnar til að hægt væri að spegla sig í sviplausum háhýsum sem hvort eð er má sjá allstaðar í heiminum. Kannski stafar það af því að þeir fengu sjónvarpið seinna en við og sáu sennilega aldrei Dallas.

Reykjavik-7

Það er ekki lengur hægt að segja að bárujárnhúsin í Reykjavik "bíða þess að lifna eitt og eitt af gleði og trú, bjartsýni æsku og von" eins og sagði í Reykjavíkurtjarnar ljóðinu hans Davíðs. Síðustu trakteringar sem þesslegs hús fengu mátti sjá þegar völlurinn var ruddur fyrir nýtt Hafnartorg, þar mátti sjá bárujárnshjallana mulda niður með stórvirkum vinnuvélum, svo mætti breyta ásjónu hafnarsvæðisins með einu reglu striki í hvert annað Kalverstaat með sínum H&M höndlurum og coffee shops. Já, Guð hjálpi bæjarins bestu, því nú mylja vinnuvélarnar sig til suðurs komnar á Landsímareitinn í hinn gamla Víkurkirkjugarð og nálgast Tjarnargötuna óðfluga. Allt í boði sálarlauss auðs og spilltra valda.

Annars var það ekki meining mín að láta þennan pistil fara í fjas um ásjónu höfuðstaðarins, heldur fjalla um sögu bárujárns til húsagerðar. Húsafriðun á Íslandi hefur hvort eð er í megin atriðum falist í að varðveita innflutt timburhús sem byggð voru á nýlendutímanum. Þau hús hafa verið gerð glæsileg í sinni upprunalegu mynd og er þá oft fjarlægt í leiðinni það sem íslendingar lögðu til húsanna í gegnum tíðina svo mætti lengja líftíma þeirra, líkt og bárujárnið. Það má samt segja að landsmenn hafi gert bárujárnsklædd hús að einstakri  byggingalist á heimsmælikvarða upp á landinu bláa.

Bárujárn og strá

Það var ekki fyrr en um 1880 sem fóru að berast byggingarefni til landsins, önnur en timbur og tjara, sem hafði verið notað fram til þess ásamt torfi og grjóti. Á meðal nýju efnanna var bárujárnið sem kom frá Englandi í tengslum við svokallaða sauðasölu sem hófst þangað um svipað leiti. Bárujárnið gerði það að verkum að íslenskir smiðir gátu byggt hátískutimburhús og klætt bárujárni sem verndaði þau gegn íslenskri veðráttu. Bárujárn hefur þrátt fyrir allt óvíða notið meiri virðingar í húsagerðarlist en á Íslandi. Þó er sagt að töluvert sé um slíkar klæðningar húsa á Falklandseyjum, þar sem veðurfar er svipað og hér, í Færeyjum og Afríku. Annars hefur bárujárnið aðallega einkennt braggabyggingar á stríðstímum og fátækrahverfi heimsins.

Sjálfur hef ég kynnst þrem bárujárnshúsum náið um ævina. Fyrst var það Sigfúsarhús í Neskaupstað sem gekk undir nafninu "Skakkinn" og var heimavist Iðnskóla Austurlands, síðar Framhaldsskólans í Neskaupstað. Sigfúsarhús var byggt 1895 sem íbúðarhús Sigfúsar Sveinssonar kaupmanns og var þegar ég síðast vissi samkomuhús eldri borgara í Neskaupsstað. Þegar ég var þar má segja að "Skakka" nafnbótin hafi verið af tíðarandans toga, því timburhús klædd bárujárni voru síðasta sort á iðnnámsárum mínum, jafnan kölluð bárujárnshjallar. En ekki man ég eftir öðru en að mér hafi liðið vel í skjóli "Skakkans" þá mánuði sem ég dvaldi þar á árunum 1978 og 1980.

IMG_3879

Sigfús kaupmaður í Neskaupstað var einnig með umsvif á Djúpavogi á sínum mektarárum. Sunnan við voginn voru lengi lágreistar byggingar sem kallaðir voru Sigfúsarskúrar, þar sem útgerð hans hafði haft aðstöðu á Djúpavogi. Þar hafði einnig staðið stórt hús framan við skúrana sem kallað hafði verið Sigfúsarhús en þegar Sigfús hætti útgerð frá Djúpavogi tók hann niður húsið og flutti. Fyrir framan húsið og skúrana skaraði svo Sigfúsarbryggja út í voginn. Þegar ég flutti á Djúpavog árið 1984 stóðu skúrarnir enn á grjóthleðslunum. Þeir voru rifnir og brenndir árið 1988 ásamt öðru sjóhúsi og bryggjum sem stóðu sunnan við voginn. Varð af því mikill sjónarsviptir.

Sumarið 1988 vann ég við byggingu raddsjárstöðvarinnar á Gunnólfsvíkurfjalli og kom þá inn á skrifstofu fjármálastjóra verkefnisins, en þar var upp á vegg mynd af Djúpavoginum, spurði ég hann út í tilvist myndarinnar. Hann sagðist hafa verið á ferð á Djúpavogi og hafa þá tekið þessa mynd, og látið stækka, því þarna við voginn væri einstök söguleg heimild, gömlu timburbryggjurnar og sjóhúsin sunnan við voginn, en nýlegt frystihúsið og togarinn við stálþil norðan hans, smábátar vögguðu svo blítt við ból á voginum miðjum. Næst þegar ég kom heim í helgarfrí á Djúpavog voru allar menjar um útgerð sunnan við voginn horfnar ekki einu sinni reykurinn af þeim eftir. Það átti nefnilega að halda upp á 400 ára afmæli Djúpavogs sem verslunarstaðar ári seinna.

scan0008

Á Djúpavogi bjuggum við Matthildur mín 10 fyrstu búskaparár okkar í Sólhól, gömlu bárujárnshúsi. Matthildur fæddist í húsinu og átti þar heima í 33 ár. Foreldrar hennar ásamt systkinum fluttust í húsið árið 1961. Húsið var byggt 1930 og var þá annað hús rifið sem einnig hét Sólhóll byggður um 1880, viðir og bárujárn notað í nýja húsið. Gamli Sólhóll var fallegt hús, af mynd að dæma, byggður af Lúðvík Jónsyni snikkara á Djúpavogi sem byggði flest stóru húsin sem þar enn standa frá því seint á 19. öldinni. Húsið byggði hann fyrir Ivarsen kaupmann en svo fór að Lúðvík og Ivarsen höfðu makaskipti á húsum og höfðu afkomendur  Lúðvíks bæði búið í gamla og nýja Sólhól til 1960. 

IMG_5571

Það voru þeir Ólafur yfirsmiður Eiríksson frá Hvalnesi og Guðlaugur listasmiður Stefánsson frá Hamri sem höfðu veg og vanda að smíði Sólhóls. Húsið er eitt af þeim sem fanga augað samstundis, sannkölluð listasmíði með bárujárni og því vinsælt myndefni erlendra ferðamanna á Djúpavogi. Árið 2000 seldu Matthildur og systkini Sólhól að Jóni föður þeirra gengnum en hann bjó í húsinu til dauðadags 1. nóvember 1998. Nýir eigendur eru þau Þór Vigfússon myndlistamaður og Steinunn Björg Sveinsdóttir myndlistakennari. Þau hafa sýnt húsinu einstaka ræktarsemi og tekið það til gagngerrar endurnýjunar. Í bók sinni Fólkið í Plássinu gerir Már Karlsson sögu beggja Sólhólanna á Djúpavogi vegleg skil.

Sólhóll 

Það má kannski orða það sem svo að ekki hafi Matthildur mín getað veri lengi Sólhólslaus. Árið 2006 keyptum við Sólhól á Stöðvarfirði ásamt vinafólkinu Einþóri og Ólínu. Um þann aðdraganda mætti skrifa heila bók, en tilvonandi húsfreyjur höfðu báðar átt bárujárns Sólhól sem æskuheimili, önnur í Neskaupstað og hin á Djúpavogi. Stöðfirðingar vildu meina að fátt gæti komið bárujárnshjallinum til bjargar, eins og komið var þegar við keyptum, og til tals hefði komið að ryðja honum fyrir bakkann. Það má segja að þessi Sólhóll sé það hús sem hefur átt huga minn allan frá fyrstu kynnum. Í hönd fóru tvö ár sem við félagarnir nýttum hverja frístund í endurbætur á húsinu. Má þar segja að orð meistarans hafi fullkomnast, hverja þá bæn sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim.

Húsið er sagt byggt 1944 og reiknuðum við með að efniviður þess væri varla annað en kassafjalir eins og svo margra húsa sem byggð eru á stríðsárunum. Við höfðum keypt húsið án þess að skoða það, það kom skemmtilega á óvart að í því voru kjörviðir. Enda komumst við fljótlega að því í samtölum við heimamenn að húsið hafði upphaflega ekki verið byggt í þorpinu á Stöðvarfirði, heldur á Kambanesi handan fjarðar og hét þar Kambar en ekki Sólhóll. Hvaða ár húsið var byggt upphaflega hef ég ekki ennþá fengið fullkomlega staðfest, en heyrt ártalið 1928.

IMG_3460

Sólhóll á Stöðvarfirði hefur rétt eins og nafni hans á Djúpavogi vakið ómælda athygli ferðamanna. Matthildur viðrar stundum handvekið sitt á góðum dögum og ég Bob Marley fánann minn,,,, já, og það hefur bankað upp á fólk frá Jamaica

Þegar húsið á Kömbum var flutt af Kambanesinu norður yfir fjörðinn fylgdu íbúarnir með, þeir eru Stöðfirðingum enn í fersku minni og hafa sumir þeirra fullyrt að þau passi fyrir okkur húsið þó svo að þau séu löngu flutt til annarra heima. Það var Kristín Jónsdóttir úr Hornafirði, Jóhannes Sigurðsson úr Eyjafirði sem höfðu látið byggja húsið á Kömbum á sínum búskaparárum þar, 1900-1944. Jóhannes lést árið 1941, eftir það flutti Kristín fljótlega ásamt Sigfúsi Jónssyni fóstursyni sínum og Guðmundínu Einarsdóttir yfir fjörðinn, með allt sitt hafurtask nema neðri hæð hússins en hún stendur enn steinsteypt á Kambanesi. Nafnið Kambar var skilið eftir á nesinu og húsið endurskírt Sólhóll. Kristín lést 1948, Stöðfirðingar minnast þeirra Ínu og Fúsa með hlýju enn þann dag í dag þó svo að þau hafi horfið á braut árið 1978.

Það ár keyptu Guðbjartur Þórarinsson og Petra Landmark húsið, en þau komu frá Heyklifi sem er á Kambanesinu, höfðu verið þar vitaverðir í 10 ár. Guðbjartur byggði bílskúr við húsið, þar sem hann geymdi Trabantinn sinn og enn eru sagðar sögur af því hvað þurfti að keyra með mikilli varúð framhjá bílskúrnum í Sólhól því það var aldrei að vita hvenær Trabantinn spýttist afturábak úr á götu. Sólhóll var svo eigu fjölskyldu Guðbjartar og Petru þangað til árið 2006.

Árið 2016 urðum svo við Matthildur eigendur af því félagi sem við áttum til helminga með Einþór og Ólínu, en þau fluttu til Noregs 2009 og hafa ílengst þar. Mér múraranum hefði ekki komið það til hugar á yngri árum að gamall bárujárnshjallur ætti eftir að verða mér svona kær, en með árum og hrukkum hef ég gert mér betur grein fyrir hvað bárujárnið er mikil gersemi.

Sólhóll Stöðvarfirði 022

Við Sólhóll urðum mestu mátar við fyrstu kynni

 

IMG_0031

Freedom fáni Bob Marleys fer vel við Sólhól og svo náttúrulega sá íslenski sem fær að blakta á hátíðisdögum

 

Fjarðarbraut 66

Hann var orðin gagnslaus og smáður, gisinn og snjáður

 

IMG_9549

Hefur gengið í endurnýjun lífdaga þrisvar á 90 árum og litið sólarupprásina oftar en elstu menn muna

 

IMG_1653

Atlantshafið er í garðinum við Sólhól og handan fjarðar úti við ysta haf er Kambanesið þaðan sem Sólhóll var fluttur yfir fjörðinn í bát árið 1944

 


Hús byggð úr eldfjallaösku

Byggingarefni

Að leita ekki langt yfir skammt, hollur er heimafenginn baggi og vera sjálfum sér nógur, eru forn máltæki. Með alþjóðahyggjunni þykir svona forneskja í besta falli að vera heimóttaleg fáviska ef ekki hrein heimska. Svo langt hefur alþjóðavæðingin náð með sýnar aðfluttu lausnir að það er orðið of flókið, og mörgu fólki um megn að koma þaki yfir höfuðið, þó svo að það standi í byggingarefninu. Efni sem um tíma var flutt úr landi til húsbygginga í öðrum löndum. Nú á tímum byggja ótrúlega margir alþjóðahyggnir bisnissmenn afkomu sína á því að leitað sé langt yfir skammt, þó svo að þeir hafi ekki snefil af því að byggja hús, þá eru þeir séðir. En ekki hefði dugað það eitt að kallast séður til að koma í veg fyrir að fólk kæmi sér upp þaki yfir höfuðið án aðstoðar séníanna, ef ekki kæmi til regluverkið.

Við vinnufélagarnir ræddum húsnæðisvanda ungs fólks á kaffistofunni núna í vikunni enda fór mikið fyrir þeim vanda á Húsnæðisþingi íbúðalánasjóðs í byrjun viku. Eins varð myglan til umræðu sem er flutt, keypt og borinn inn í nýbyggingarnar með ærnu tilkostnaði að forskrift verkfræðinnar og undir ströngu regluverki þess opinbera. Af hverju geta menn ekki gert þetta eins og áður, spurði ég; hlaðið og múrhúðað veggi, þá var ekki mygla vandamálið. Nei þetta er ekki hægt lengur sagði einn félaginn. Láttu þér ekki detta svona vitleysa í hug, sagði annar. Hvers vegna ætti þetta ekki að vera hægt, sagði ég sármóðgaður múrarinn. Þá svaraði sá sem allt veit manna best; skilurðu það ekki maður það eru allir komnir í háskóla og fæst engin til að vinna svona vinnu lengur.

Það var þannig í gegnum tíðina, áður en menn urðu séðir, hámenntaðir og reglusamir, að fólk reisti sín hús úr því byggingarefni sem var nærtækast. Á Íslandi voru hús byggð úr torfi og grjóti í þúsund ár. Timbur var vandfengið byggingarefni í skóglausu landi og því einungis notað þar sem þurfti í burðarvirki húsa. Er leið á aldirnar fluttu erlendir kaupahéðnar inn tilsniðin timburhús, oft frá Noregi. Þegar sementið kom til sögunnar var farið að steypa hús og var til nóg af innlendu byggingarefni í steypuna, þannig að almúgamaðurinn kom sér upp húsi með eigin höndum án þess að notast við torf. Nú á 21. öldinni er svo komið að stærsti kostnaðurinn við húsbyggingu er óhóflegt regluverk, auk lóðar, teikninga, og allslags byggingagjalda, þessir þættir koma í veg fyrir að fólk geti byggt yfir sig sjálft. 

cement-solid-block-250x250Eitt byggingarefni var mikið notað við húsagerð þar til fyrir nokkrum áratugum síðan að það hvarf því sem næst af sjónarsviðinu og í staðin komu annaðhvort eftirlíkingar, en þó að mestu mygluvaldurinn mikli, innflutt pappa gibbs. Þar sem áður var múrhúð á einangrunarplasti og steyptir steinar úr eldfjallavikri og sementi,aðallega notaðir í milliveggi. Lítið var um að þessir steinar væru notaðir við að byggja heilu húsin, útveggirnir voru oftast úr steinsteypu. Vikursteinar voru ekki vel séðir í út- og burðarveggi, þóttu ekki öruggir með tilliti til jarðskjálfta. En eru meira notaðir erlendis þar sem hefð er fyrir því að hlaða hús.Útveggjasteinninn kallaðist holsteinn og var 40X20X20 sm á Íslandi. Í Noregi eru útveggjasteinarnir stærri, 50X250X20 cm er algengt. 

Þó svo þessi byggingarmáti hafi aldrei náð verulegri útbreiðslu á Íslandi vegna hættu á jarðhræringum þá vill svo einkennilega til að hlutfallslega hefur mest hefur verið hlaðið af svona húsum í Mývatnssveit, einu af meiri jarðskjálfta svæðum landsins, og það án vandkvæða. Fyrsta húsið sem ég man eftir mér í var úr vikursteini frá Mývatni. Foreldrar mínir hlóðu það hús á Egilsstöðum árið 1963. Reyndar aðeins um 40 m2 og varð það síðar að bílskúr við mun stærra steinsteypt hús. Þannig byrjuðu þau á að snara upp ódýru þaki yfir höfuðið á fjölskyldunni. 

Thuborg hleðsla

Sjálfur varð ég svo frá mér numinn af byggingaraðferð foreldra minna að hún er það fyrsta sem ég man, enda ekki nema þriggja ára þegar þau hlóðu skúrinn. Árið eftir var hann múrhúðaður að utan og gekk ég þá á eftir múraranum fram í myrkur til að nema kúnstina. Það þarf því ekki að koma á óvart að þegar ég ungur maðurinn byggði okkur Matthildi hús á Djúpavogi, rúmum 20 árum seinna, að það væri úr Mývatnsvikri. Ekki hef ég tölu á því, frekar en steinunum í húsið, hvað oft ég var spurður; "og hvað ætlarðu svo að gera þegar kemur jarðskjálfti?"

Flatarsel

Sami Mývatnssteina leikurinn var svo endurtekin á Egilsstöðum 20 árum eftir ævintýrið á Djúpavogi,  þegar við vinnufélagarnir byggðum þrjú tveggja hæða Mývatnssteinahús. Þessi aðferð var fljótleg, þannig að húsin ruku upp stein fyrir stein, en vakti þegar þá var komið aðallega athygli fyrir að koma aftan úr grárri forneskju, og svo auðvitað gamalla húsbyggenda sem komu til að rifja upp sín bestu ár.

IMG_1303

Í Noregi var íslenski vikurinn lengi í hávegum hafður sem byggingarefni og höfðu þar verið starfræktar heilu verksmiðjurnar sem steyptu steina úr eldfjallavikri. Á árunum eftir hrun varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að komast í að hlaða fleiri hundruð fermetra af vikurveggjum og pússa ásamt fjölþjóðlegum flokk múrara sem áttu það allir sameiginlegt að vera aðfluttir flóttamenn, rétt eins og eldfjallavikurinn sem þá var orðin alþjóðlega stöðluð eftirlíking í Noregi. Það má kannski segja sem svo að þar hafi alþjóðavæðingin náð tæknilegri fullkomnun.

IMG_0149

Enn má sjá byggingar við Vogsfjörðin í Troms sem tilheyrðu steinasteypu til húsbygginga úr íslenskum eldfjallavikri fyrir N-Noreg. Engir steinar eru steyptir lengur í N-Noregi heldur er þar nú einungis birgðageymsla fyrir Leca steina sem koma sunnar úr Evrópu, verksmiðjan var keypt upp til þess eins að leggja hana niður. Leca er alþjóðlegt skrásett vörumerki sem býr til vikur úr leir með því að hita hann upp í 1.200 C°. Það má því seigja að markaðurinn hafi kæft íslensku eldfjöllin með því að skrásetja vörumerki og búa til staðla sem má stilla regluverkið eftir, það hefði verið erfiðara að staðla eldfjöllin og fá þau skráð sem vörumerki.

Tuborg í byggingu

Tuborg Djúpavogi byggt úr Mývatns vikursteini. Það þarf ekki mikið til að byrja á því að hlaða hús eftir að sökkull og gólfplata hafa verið steypt. Nokkrar spýtur til að setja upp eftir hallamáli á húshornin og strengja spotta á milli til að hlaða eftir í beinni línu, steina, sand, sement, vatn og litla steypuhrærivél. Glugga er hægt að steypa í jafnóðum eða setja í eftirá.

 

Tuborg I

Tuborg Djúpavogi 150 m2, útveggi svona húss tekur um vikutíma að hlaða fyrir tvær manneskjur. Viku tekur að múrhúða veggi að utan, mest vinna er í gluggum og þaki. Múrhúðin á þessu húsi er með hraunáferð. Mölin í hraunið var fengin úr næstu fjöru.

 

Flatarsel í byggingu

 Flatasel Egilsstöðum, byggt úr Mývatns vikursteini. Það tekur meiri tíma pr.m2 að hlaða tveggja hæða hús, en á einni hæð. Þar kemur hæðin til, sem útheimtir vinnupalla og aukið burðavirki. Í hverri hæð eru 12 raðir steina og er raunhæft að tveir menn hlaði 4 raðir á dag. Gólfplata á milli hæða var steypt og þak með kraftsperrum.

 

Flatarsel 4

Flatasel Egilsstöðum 190 m2, einangrað og múrhúðað að utan með ljósri kvarssteiningu. Einangrunin er úr plasti og límd með múrblöndu á veggi, 3-4 daga verk fyrir 2 múrara. Utanhússmúrverk og steiningin tekur u.þ.b. 2 vikur fyrir 4 múrara.

 

IMG_2738

Í N-Noregi kom fyrir að við hlóðum hús í janúarmánuði. Þá var notað heitt vatn og frostlögur í múrblönduna sem notuð var til að líma saman steinaraðirnar.

IMG_6736

Hábær 40 m2, fyrsta hús foreldra minna er enn á sínum stað sem bílskúrin að Bjarkarhlíð 5 á Egilsstöðum. Núna 55 árum eftir að húsið var byggt er múrhúðunin með sýnilegum múrskemmdum.

 

IMG_0070

 

Básar

Að endingu má segja frá því að ég kom út í Grímsey í sumar og gisti þar á Gistiheimilinu Básum, ágætu tveggja hæða húsi. Við samferðafólkið tókum eftir því að hátt var til lofts og vítt til veggja á neðri hæðinni, en þó svo að jafn vítt væri til veggja á þeirri efri þá var frekar lágt til lofts. Múrviðgerðir og málningarvinna stóðu yfir utanhúss og komu þær til tals við eigandann. Þá kom í ljós að afi hans hafði hlaðið þetta stóra hús úr Mývatnssteini árið 1960, flutt nákvæmlega þá steina sem til þurfti úr landi.

Húsbyggingin var það skemmtileg, og afinn það mikill ákafamaður að hann hlóð einni röð of mikið í neðri hæðina. Í stað þess að tefja verkið með því að brjóta ofauknu röðina niður eftir að hún uppgötvaðist, þá steypti hann gólfplötuna fyrir aðra hæðina og hélt áfram að hlaða úr þeim steinum sem eftir voru og lét það duga. Þar var komin skýringin á mismuninum á lofthæðinni milli hæða.

Ef einhver hefur í hyggju að hlaða sér upp húsi er rétt að hafa það í huga að stoppa á réttri röð þó svo að ákafinn sé mikill. Það er víst enn verið að grínast með húsbyggingagleði gamla mannsins út í Grímsey. Auk þess gæti verið að regluverkið sé orðið örlítið smámunasamara í dag þegar kemur að úttekt þess opinbera. Í Grímsey skipti þetta engu máli enda hefur húsið á Básum þjónað eigendum sínum hátt í 60 ár.

 


Hús úr holu

Underground-Home-2

Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd og hafa vilja til að hrinda henni í framkvæmd þegar skal byggja hús. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistarar, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn.

Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistarinn, öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið með gæðaeftirlit sem er eftirlitskylt af skoðunarstöð og allur heili pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins. Þar að auki verður sá sem framkvæmir að fá öll herlegheitin samþykkt í sveitarfélaginu þar sem húsið skal standa. 

Marteinn Mosdal - hvað?

Tryggvi Emilsson segir frá því, í bók sinni Baráttan um brauðið, þegar hann byggði fyrir rúmum 90 árum íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi á Akureyri. En hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Earth_house_interior1

Útsýnið eins og það gæti verið úr steyptum torfbæ 21. aldarinnar

Nú á tímum stendur ungu fólki ekki til boða aðferð Tryggva ef það vill koma sér upp húsi, til þess hefur verið séð með reglum á reglur ofan svo aurarnir rati í rétta vasa.

Það er því spurning hvort reglugerðirnar nái yfir holur á við þær sem gömlu torfbæirnir voru. Þannig hús hafði Tryggvi fyrst hugsað sér að komast í við Glerána í denn, en hætti við þegar hann sá að hann gæti byggt sitt hús eins og honum þóknaðist. það má segja að steypa og hola geti sameinað helstu eiginleika sem hús þarf að hafa. Þetta megi jafnvel gera fyrir lítið fé, á meðan reglugerðin geri lítið fyrir hús en kosti mikið fé.

eart-house plan

 Grunnmynd af lítilli steinsteyptri einstaklings torfholu

Videoið hér fyrir neðan er um mann sem lét verða af því að koma sér upp holu. Það ætti að vera lítið mál ef land er til staðar og verður ekki séð að reglugerðir og annað opinbert utanumhald þurfi að koma til svo lengi sem holan er ekki fjármögnuð með lánsfé né tengd opinberri stjórnsýslu. Þetta ætti hver sem er að geta gert í garðinum hjá sér. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband