Hús úr torfi

IMG_1636

Ein af gersemum íslenskra húsa er er torbærinn að Þverá í Laxárdal, Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er sérstakur fyrir það að lækur rennur í gegnum bæinn, þurfti fólkið því  ekki að fara úr húsi til að sækja sér vatn í bæjarlækinn. Einhver þekktasta veiðiá landsins, Laxá í Aðaldal, fellur úr Mývatni um dalinn og til sjávar í Skjálfanda. Dalurinn er fagur og frjósamur. Þar er mikið fuglalíf og fjölskrúðug flóra. Einnig má sjá þar mikið af fjárgirðingum úr grjóti, virðast þær standast tímans tönn einstaklega vel í Laxárdal.

Ég var svo heppinn að eiga erindi í Laxárdal í upphafi viku, vegna þess að fyrirtækið sem ég vinn hjá er að byggja nýja gistiálmu við veiðihúsið Rauðhóla. Þverá er rétt innan við Rauðhóla og langaði mig til að sjá bæinn að vetrarlagi en þangað hafði ég komið í lok sumars fyrir tveimur árum. Það var snjóþungt og kalt í morgunnsárið Laxárdalnum og lét ég því mér nægja að sjá heima að bænum, en set hér með myndir frá fyrri heimsókn.

IMG_1632

Þverárbærinn var byggður á seinni hluta nítjándu aldar af Jóni Jóakimssyni snikkara og bónda á Þverá, sem var rómaður fyrir vandvirkni við smíðar og búskap. Þverá mun vera í einkaeign og Áskell bóndi Jónasson sér um bæinn. Þjóðminjasafn Íslands hefur haft tilsjón með húsunum. Þarna voru útihús af fornri gerð varðveitt auk bæjarhúsanna. Þjóðminjasafnið hefur látið endurbyggja þrjú útihús; fjárhús, hlöðu og hesthús.

Þverárbærinn er kannski þekktastur fyrir að vera vagga Samvinnuhreyfingarinnar sálugu,en fyrsta kaupfélag landsins, Kaupfélag Þingeyinga var stofnað að þar árið 1882. Þeir sem eiga leið um Þingeyjarsýslur heimsækja margir torfbæinn að Grenjaðarstað, en þar er rekið byggðasafn. Þaðan eru aðeins þrettán kílómetrar að bænum Þverá í Laxárdal, sem færri vita af, en þar varðveitir Þjóðminjasafnið þetta sögufræga djásn.

IMG_5354

IMG_5373

IMG_5390

IMG_5378

IMG_5372

IMG_5375

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Ætli þessi gömlu torfbæir hafi verið rakir og heilsuspillandi?

Eða skárri en fyrstu illa einangruðu stein og tréhúsin?

Þegar maður röltir um torfbæina á Skógum þá finnur maður saggalyktina en þar er að vísu ekki búið. 

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 7.2.2019 kl. 10:33

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Bjarni, ég gæti trúað að þeir hafi verið misjafnir hvað raka og heilnæmi varðar. Sjálfur hef ég gist samískan torfbæ nokkrar nætur í N-Noregi. Þar fann maður vel fyrir rakanum. Þetta var á hlýjum júlídögum, samt eftir rigningardaga það hefur ábyggilega haft sitt að segja.

Eins hef ég komið í íslenska torfbæi sem hafa verið lausir við raka þó svo að ég hafi ekki gist í þeim. Reyndar eru flestir torfbæir sem nú eru til sýnis komnir með loftræstingu. Afi minn sem ólst upp í torfbæ sagði þá vera hörmuleg húsakynni, orðaði það þannig "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn".

En ég gæti trúað að torfbæjunum hafi verið illa haldið við eftir að kom fram á 20. öldina þar sem flestir voru búnir að afskrifa þá sem framtíðar húsakost og þeir hafi því ekki fengið það viðhald sem þeir þurftu.

Tryggvi Emilsson lýsir bæjunum í Öxnadal svo í byrjun 20. aldarinnar í bókinni Fátækt fólk:

Flestir voru bæirnir hlaðnir úr torfi og grjóti og þökin tyrfð, framstafnar voru burstmyndaðir af standþiljum, og „hvít með stofuþil“. Þar sem best var að fólki búið voru baðstofur þiljaðar í hólf og gólf, á nokkrum bæjum voru þil bakatil við rúmin en annars staðar naktir torfveggir og súð, þar bjó fátækasta fólkið.

Útihúsin voru öll hlaðin úr sama efni og bæirnir, það voru lágreist hús, fjósin heima við bæina en fjárhús og hesthús oftast í útjöðrum túna og voru fjárhúsin að jafnaði staðsett þar sem best lá við að hleypa fé í haga.

Önnur bæjarhús en baðstofan voru óþiljuð víðast hvar, búr og eldhús, göng og skemmur, veggir voru víðast grjóthleðsla í einnar alinnar hæð og síðan klömbruhnausar með strengjum á milli og mold til uppfyllingar, víða voru þess hús manngeng út við veggi með nær alinnar rishæð. Stafnveggir voru hlaðnir í ristlögum og var höfð hella undir endum á mæniásnum en síðan reft af þeim ás og niður á vegglægjur.

Vegglægjur og mænirás voru venjulega þverhandar þykkt tré ferköntuð, oft var ásinn sverari, jafnvel fimm sex tommur og úr rekaviði, eins var með rafta að í þá var keyptur rekaviður ef um hann var að gera, á sumum bæjum var hrístróð undir torfi á þökum. 

Erfitt var að halda þessum bæjum hreinum og tókst misjafnlega, krabbar og skúm sóttu í dimma afkima, moldarmmylgringur sáldraðist um búr og göng úr veggjum og þaki, sótfok var í eldhúsi en heyryk og veðraslæðingur barst inn um öll göng allt til baðstofu. Þar sem innangengt var í fjós áttu beljur leið um göng og bæjardyr ef engin var útihurðin á fjósinu, og svo háttaði á Gili en þar rak ég beljuna sem hraðast út úr bænum svo henni gæfist ekki tími til að leggja frá sér í göngin en ekki dugði það til í hvert sinn.

Víða voru þökin lúalek og það svo að lækur rann fram göngin og því var oft tjörn í bæjardyrum sem lágu lægra en hlaðið, væri trassað að ausa vatninu út, fraus á pollinum og þá voru svellalög inn öll göng. Margir notuðu hlóðaösku til að þurrka upp lekavatnið og til marks um þrálátan leka í baðstofu er ein saga úr Geirhildargörðum, þá bjó ég á næsta bæ, Fagranesi, og bræddi kúamykju í lekastaði á þaki en það var algeng þrautarlending.

Magnús Sigurðsson, 7.2.2019 kl. 13:31

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Skemmtileg og fróðleg lesning.

Ég var um sumartíma í torfbæ sem var á Syðri Löngumýri í Blöndudal. Það voru löng göng og annarsvegar vinstra megin baðstofna upp tvö þrep en niður tvö hægramegin inn í hlóðaeldhús. Þaklúga og moldar gólf í eldhúsinu. Ég man ekki eftir borðstofu en var 8 ára svo það hljóta að hafa verið askar. Já man að skeiðarnar voru skrítnar og líklega verið spónar. Baðstofa var líklega tvö rúm á lengd svo pláss fyrir 3 rúm en ég svaf með bóndasyninum reyndar frændi minn Það voru herbergi í báðum endum Þau voru kölluð annað.Kammelsi? Hljómar ekki rétt. Það er gaman að rifja þetta upp en þetta var árið sem þeir voru að byggja Blöndubrúnna. 1950?

Valdimar Samúelsson, 7.2.2019 kl. 15:31

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gaman að fá svona athugasemdir Valdimar,frá þeim sem þekkja tímana tvenna.

Magnús Sigurðsson, 7.2.2019 kl. 18:32

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka Magnús. Ég segi að þetta er gulls ígildi að hafa veið svona heppin bæði á Syðri Löngumýri svo inn í Dalbotni í Miðfirði V Hún þar sem allt var slegið með orfi tún og engjar engar vélar bara gott og duglegt fólk svo til að kóróna allt þá var ég á Stóru Giljá þar sem ég kynntist smíðum og selveiði útgerð. Þetta var unaðslegur tími.Ég fékk fornöldina beint í æð. Nöfnin, Orrustueyri, stóreyri ofl. allt bardagastaður og fólkið vissi söguna mann af manni. :-) 

Valdimar Samúelsson, 7.2.2019 kl. 19:18

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ég er úr Reykjavík en pabbi úr Húnavatnssýslu, mamma var ´Reykvíkingur en pabbi hennar og mamma voru úr Mýrdal og Örævum. Ég var fyrst í sveit hjá Pálma frænda á Hvammstanga og kom oft í allstóran torfbæ, tvær hæðir að hluta og innangengt í fjós,  þar bjó Árni frændi með Boggu konusinni og Ragnari syni sínum sem mér fannst ævinlega gaman að koma til.  Hann átti ýmislegt sem Reykjavíkurstrákur átti ekki svo sem forláta boga sem Guðmundur afi hans hafði smíðað honum, en Guðmundur þessi var altalaður listasmiður og smíðaði meðal annars rokka fyrir fólk. 

Síðar var ég í sveit hjá Guðlaugi bónda að Ártúni við Blikadalsá á Kjalarnesi.  Þar var lítill torfbær og trúlega margt líkt með honum og öðrum kotbæjum um aldir á Íslandi. Þar var ekkert rafmagn og ekkert frárennsli nema frá fjósinu og rennandi vatn ekkert nema í bæjarlæknum, Blikadalsá en þangað sótti ég um sumarið vatn til heimilisbrúks og var við það verk notaður tré klafi á til að halda fötunum frá fótunnum þegar gengið var heim að bæ með þær.  

Þarna þetta sumar hjá Guðlaugi bónda var vissuleg margt að snúast, en þar hefur mér aldrei liðið betur um mína ævi.  Ég átti hníf í leður slíðri við belti sem mamma gaf þér pening fyrir þegar ég var að fara í sveitina , enda mikill smiður með eldhús hnífunum hennar mömmu.

En ég tíndi hnífnum mínum og þá lét Guðlaugur bóndi mig hafa annan hníf.  Þeim hníf tíndi ég líka og þá lét Guðlaugur bóndi mig haf enn annan hníf og þegar ég tindi honum þá lét Guðlaugur bóndi mig hafa minn hníf, Guðlaugur bóndi vissi um allt á sínum bæ en ef vantaði hjá Guðlaugi þá snuðraði Kátur það uppi.   

Hrólfur Þ Hraundal, 8.2.2019 kl. 17:57

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Hrólfur og þakka þér fyrir þessa skemmtilegu frásögn.

Mér finnst að þeir sem upplifað hafa þessi gömlu hús með eigin reynslu ættu að koma henni á blað til varðveislu.

Það er nefnilega merkilega stutt síðan að þessi húskynni voru við lýði á Íslandi.

Magnús Sigurðsson, 8.2.2019 kl. 21:02

8 identicon

Sæll Magnús.

Jón Jóakimsson mun hafa verið langalangafi minn. Benedikt frá Auðnum langafi minn og svo framvegis. Það þynnist blóðið með hverri kynslóð. Sjálfur á ég landspildu í sveit og gamalt þinghús frá 1927. Einhverra hluta vegna vöknuðu smíðagenin hjá mér og ég hef reist þar nokkra kofa í torfbæjarstíl þótt ég kunni ekkert til verka. Engu saman að jafna við Þverárbæinn en alla vega sótt í sama formið. Það er margt heillandi við þessa gömlu bæi. Smíðaefni af skornum skammti og þá var að bjargast við það sem tiltækt var. Grjót og torf. 

Með kveðju.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 12.2.2019 kl. 18:00

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Sigurður, gaman af þessu innslagi. Það hefur verið nokkurskonar áhugamál hjá mér að skoða hús sem reist eru reyst úr nærtæku byggingarefni og þá verða íslensku torbæirnir áhugaverðir. Ég á eftir að fá að skoða Þverárbæinn að innan,en vonandi kemur að því, en mér finnst hann með fallegri torfbæjum í útliti.

Ég sá Morgunblaðsgrein um byggingarævintýri þín í Maríugerði og hefði gaman að því að kíkja á ef leið mín liggur um Köldukinn og þú verður við. Byggingarlagið eftir því sem mér sýndist á myndum með greininni, minnir mig svolítið á "safnaðarheimili" goðans í Grágæsadal.

Magnús Sigurðsson, 12.2.2019 kl. 20:59

10 identicon

Vertu velkominn.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 13.2.2019 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband