Færsluflokkur: Hús og híbýli

Arfleið Bakkabræðra

IMG_6660

Það getur verið freistandi að ætla að eitthvað af því sem maður segir hafi áhrif. Fyrir rúmu ári síðan birtist hér á síðunni spurningin um það hvort Bakkabræður væru komnir á Þjóðminjasafnið. Ekki að ég búist beinlínis við því að starfsmenn þjóðminjasafnsins liggi lesandi á blogginu, þá virtist þessi bloggpistill minn um árlega vorferð út í byggingalist náttútunnar hafa haft áhrif.

Stuttu eftir að ég fór vorferðina í fyrra að Galtarstöðum-fram í Hróarstungu þá kom vinur minn og frændi sem býr í Ástralíu óvænt í heimsókn. Hann hafði lesið Bakkabræðra pistilinn og við erum vanir að skoða það sem íslenskast er þegar hann kemur til fósturjarðarinnar, þannig að við fórum að Galtarstöðum-fram, en þann torfbæ hafði hann ekki séð.

Það sem mér þótti merkilegt við ferð okkar frændanna var að þær breytingar höfðu orðið á, að aflóga gluggar úr húsinu með flata þakinu, -og ég hafði látið fara í taugarnar á mér í mörg ár þar sem þeir stóðu við dyrastafn torfbæjarins-, voru horfnir. Ég hafði nefnilega aldrei náð mynd af bænaum án þessara glugga ræfla, en hafði samt bjargað því með því að fá Matthildi mína til að standa fyrir framan þá þannig að hún skyggði á gluggana.

Núna um helgina fórum við Matthildur svo í þessa árlegu vorheimsókn að Galtarstöðum-fram og viti menn að nú hafði sú breyting orðið á að búið var að skera til torfið á stöfnum bæjarins þannig að hann var ekki umvafinn í sinu, en rimlahliðið sem mér varð starsýnt á í fyrra stóð eitt og yfirgefið út í mýri.

Það má kannski virða Þjóðminjasafninu það til vorkunnar hvað erfitt hefur verið að fá mannskap til að hugsa eins sómasamlega um gamla byggingararfleið þjóðarinnar eins og það hefði viljað, bæði hvað verkþekkingu varðar og vegna þess hvað viðhald torfbæja er mannaflsfrekt.

En nú ætla ég að leifa mér að vona að að einhver aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar þar sem "allir vinna" í öllu atvinnuleysinu verði færður Þjóðminjasafninu að gjöf til að varðveita íslensk menningarverðmæti.

IMG_6639

Bæjardyrnar sinu- og gluggaræflalausar

 

IMG_6675

Víða þarf að dytta að, hér eru steinar farnir að velta úr vegg

 

IMG_6676

Hér gapir inn undir fjósþakið á norðurhlið, þó svo að steinar hafi verið settir sem farg þarf ekki mikið veður til að þakið fjúki og opnist inn í bæinn

 

IMG_6711

Ferðin var einnig notuð til að kíkja á Borgarfjörð eystra, þar er Lindarbakki, og fyrir u.þ.b. ári síðan hitti ég þar kolleiga úr húsbyggingageiranum sem var að setja torfþak á húsið, en það hafði fokið af í rosa um veturinn. Þetta hús er í einkaeigna og þar af leiðandi mikið afrek að hafa viðhaldið því í gegnum árin. Lindarbakki á Borgarfirði-eystri var upphaflega byggður í formi þurrabúðar. Húsið er að þeirri stærð að það hefur varðveist inn í nútímann og er enn í dag notað sem íbúðarhús. Það má segi að húsið beri íslensk sérkenni á fleiri en einn veg, auk þess að vera úr torfi eru stafnarnir bárujárnsklæddir. Sennilega er þetta það mannvirki sem mest er ljósmyndað af ferðamönnum sem til Borgarfjarðar koma


Allir vinna – steypa, gúmmístígvél og hjólbörur

Eitt sinn á Stefán Jónson rithöfundur, framsóknar-alþýðubandalagsmaður og Kára pabbi, ásamt mörgu fleiru, að hafi haldið því fram að sveitungar hans hafi kennt ónefndum nágrönnum að ganga uppréttir. Þetta á að hafa gerst með því einu að kenna þeim á hjólbörur. Nú er langt um liðið og heyra hjólbörur og asnakerrur sögunni til þegar til framfara horfir.

Á fyrri hluta 20. aldarinnar fór skófatnaður úr gúmmíi að breiðast út um landið, sumir 20. aldar menn hafa lýst gúmmískóm sem stærstu framförunum á tilveru sinni við að valhoppa á milli þúfna í drulludíum landsins. Vaðstígvél úr gúmmí þóttu hér á landi lengi vel stöðutákn hins framfarasinnaða heimsmanns. Þetta má sjá á gömlum myndum á Þjóðminjasafninu.

Nú eru aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar fyrirferðamiklir í umræðunni og átakið allir vinna hefur verið endurvakið frá því í bankaóhappinu um árið. Pakkinn allir vinna hefur ekki farið fram hjá okkur gömlu mönnunum í mínu fyrirtæki sem varla höfum haft stundlegan frið síðan kófvítis pestin fór á stjá. Síðan þá hefur landinn setið þúsundum saman heima og fengið frábærar hugmyndir og eru margar þeirra þannig að til að hrinda þeim í framkvæmd þarf steypukall í gúmmístígvélum.

Hjólbörur

Verkamenn snemma á 20. öldinni við gerð varnargarða á bökkum Markarfljóts með hjólbörurnar einar að vopni, skammt ofan við þar sem nú svamla sanddæluskip um Landeyjahöfn 

Það má segja að fyrsta Íslandsmetið í langstökki inn í nútímann hafi verið setta af verkamönnum í gúmmístígvélum með hjólbörur sér til stuðnings. Eftir að þessum tækni undrum var endanlega blandað saman komst þjóðin svo loksins af mýrkenndu moldarkofagólfinu. Þessar framfarir urðu á 20. Öldinni og gerðu lítið annað en að þróast frekar er á öldina leið.

Það eru samt engin áform uppi um að bæta íslandsmet á þessari öld með öllum þessum aðgerðapökkum, ekki einu sinni matvælasjálfbærni í viðsjálu. Sýklafjölónæm framleiðslan flýtur að ströndum landsins sem aldrei fyrr í boði stjórnvalda. Er vandséð að 21. öldin eigi nokkur met eftir að bæta sem til framfara horfa öðru en smitrakningar-appinu.

Steypan var sennilegast sú tækniframför sem hefur gagnast Íslendingum hvað best frá því á síðustu öld og má segja að hún kom í rökréttu framhaldi af gúmmístígvélum og hjólbörum. Því segja má að steypan hafi hreinlega komið Íslendingum af mýrlendum moldargólfunum. Steypa er því alltaf tilvalin þar sem „allir vinna“.

Fyrir nokkrum árum var ég sendur á byggingastað til að steypa fyrir þá í stóru greiðslustöðvununum sem ekki hafa efni á uppsagnarfrestinum. Þar var allt gæðavottað í bak og fyrir, umhverfismetið þrátt fyrir vistvænt gjaldþrot,- vatnið mælt, vestin gul og öryggisgirðingin allt um kring.

Þarna voru haldnir vikulegir fundir og farið yfir öryggismál og það sem aflaga hafði farið bundið inn í gormamöppur með súluritum, texta og ljósmyndum öllum til viðvörunar í kaffitímum. Sérfræðingar að sunnan komu með morgunnfluginu til að fylgja öryggismálunum eftir og verkfræðingar blautir á bak við eyrun létu ljós sitt skína með hvítan hjálm úti undir berum himni á sólskinsdögum, sannkallaður „allir vinna“ byggingastaður.

Einn fundinn vorum við pólsku vinnufélagar mínir helsta myndefni gormabókanna. Það hafði komið öryggissérfræðingur að sunnan og smellt af okkur myndum illa tilhöfðum, ógreiddum og þar að auki hjálmlausum innanhúss. Þarna voru við sakaðir um að brjóta alla öryggisstaðla. Að loknum fundi bað ég pólsku félaga mína að tína saman gormabækurnar af borðum kaffistofunnar og færa mér, sem þeir gerðu. Þegar ég hafði fengið þær á borðið fyrir framan mig reif ég úr þeim myndirnar af okkur í strimla ofaní rusladallinn og sagði svona gerðu menn ekki.

Í næstu steyptu neyddist ég þar að auki til að lýsa því yfir að þetta yrði sennilega í síðasta sinn sem ég steypti fyrir fábjána. Umboðsmaður byggingastjóra sagði að ég áhveddi hvorki steypu uppskriftir né verkferla á þessum byggingastað, það gerðu menn með til þess bæra menntun. Ég sagði honum að þeir skildu þá halda sýningu um horfna atvinnuhætti í anda Ábæjarsafnsins því þessi steypa væri torf fyrirskrifuð af fábjánum sem sætu aftast á merinni þegar til nútíma tækni væri litið og væru ekki einu sinn í gúmmístígvélum.

Hann veifaði þá framan í mig snjallsíma og spurði hvort ég vildi að hann spilaði þetta fyrir "fábjánana", því hann hefði tekið upp orðaleppana. Ég bað hann endilega um að gera það því það bæði sparaði mér sporin og geðillskuna. Ég væri nefnilega fyrir löngu orðin hundleiður á því að verða brjálaður í steypu vegna fábjána sem ekkert kynnu. Hann tillit sér þá á tá og benti á hliðið á girðingunni sem umlukti byggingasvæðið og þrumaði „ég vísa þér út af svæðinu“, og það stígvélalaus í miðri steypu.

Ég bað hann um að ræða þetta við vinnuveitanda minn því það hefði verið hann sem sendi mig og félaga mína innan um fábjána, en ég yrði því fegnastur af öllum að fá lausnina, og hélt svo áfram að steypa. Stuttu seinna hringdi vinnuveitandi minn og spurði hvernig ég hefði það. Ég spurði hann til hvers hann hefði hringt. Hann sagðist ekki vita það almennilega, en hann hefði fengið skrýtið símtal sem hefði hafist á afsökunarbeiðni.

Ég sagðist ekki sjá hvernig ég ætti að ráða fram úr þessu dularfulla símtali. Jú hann sagði að ég hefði verið nefndur og talað hefði verið um að farið hefði verið yfir strikið, af því striki stafaði afsökunarbeiðnin. Þegar hann hefði svo spurt hvort það væri þá ekki réttara að tala um þetta við Magnús þá hefði komið smá þögn í símann, og síðan ákveðið nei. Eftirmálin urðu svo ekki önnur en að eftirleiðis var komið vel fram við vinnufélaga mína, meir að segja skjallaðir með „hér eru allir í gulum vestum nema Magnús hann er eins og vanalega í gömlu gráu lopapeysunni sinni“.

Það var því meir en lítið undarlegt að ég skildi taka undir grobbsögur með gömlum félögum í vetur þegar því var treglega við komið að steypa samkvæmt nýjustu tækni. En félagar mínir fóru þá að dásama hjólbörur í stað steypudælu og sögðu að þetta hefði ekki verið neitt mál í gamla daga. Segja má að fyrir okkur hafi farið líkt og þeim halta sem leiddi blindan, eða eins og gamall 20.aldar maður sagði mér þegar hann tók félaga sinn með í sund.

Þannig var að þriðji félaginn hafði orðið fyrir því óhappi að gleyma því að fara í sundskýluna áður en hann skellti sér í laugina. Þetta óhapp olli því að flestir sundlaugargestir steinhættu að láta sjá sig, allavega betri helmingurinn. Gripið var til þess ráðs að hafa frítt í sund en allt kom fyrir ekki, þá var einnig farið að bjóða upp á kaffi og með því.

Gamli 20.aldarmaðurinn ákvað að fá aldinn félaga með í sund til að njóta veitinga og rifja upp gamla takta enda var sá vatnshani mikill á yngri árum. Hann sagði að þó svo innganga þeirra í afgreiðsluna hafi ekki verið beint kappaleg, þar sem hann var rangskreiður og nýstiginn upp úr heilablóðfalli og félaginn gamall og haltur, þá hafi þeim verið tekið opnum örmum af sundlaugarvörðunum boðið upp á kaffi og lánaðar sundskýlur.

Sá gamli sagði starfsfólkinu sögur af ótrúlegum sundafrekum sínum fyrr á tíð, bæði köfun og dýfingum. Þegar þeir svo skakklöppuðust á skýlunum út á sundlaugarbakkann vissi hann ekki fyrri til en sá gamli stökk út í djúpaendann og snérist umsvifalaust á haus og spilaði löppunum upp í loft og gat enga björg sér veitt. Hann sá strax að ísaldarleirinn hafði runnið til á milli eyrnanna á honum þannig að ballestin var kominn efst í hausinn.

Nú voru góð ráð dýr því ekkert gekk að tala við sundlaugarverðina sem dáðust að og héldu að sá gamli væri að leika kúnstir, hann varð því að svamla áfram eins og særður sjófugl sífellt út á hlið til að komast til félaga síns og snúa honum við í lauginni og draga hann hálf rænulausan að bakkanum. Það varð ekki meira um sundferðir hjá þeim félögum í bráð.

Það munaði minnstu að eins færi fyrir okkur gömlu steypuköllunum í vetur, sem erum bak-, hjart- og nýrnabilaðir, ungu mennirnir voru fljótir að sjá að steypu hjólbörurnar gerðu meira en að kenna þeim að ganga uppréttum þær voru tilvalið krossfitt tæki.

Gjörið svo vel, hjólbörusteypa þar sem allir vinna.

Ps. þetta myndband tók einn ungi maðurinn upp á snjallsímann sinn. Þegar hann hafði uppgötvað að um horfna atvinnu hætti væri að ræða. Sá kann nú aldeilis á tæknina til að gera langa steypusögu stutta.


Þjóðkirkja í þúsund ár

 IMG_5392 

Sumarið 1901 fór Daniel Bruun um Austurland, stundaði fornleifarannsóknir og ferðaðist um öræfin norðan Vatnajökuls. Um ferð sína skrifaði hann ferðasögu "Ved Vatnajökuls Nordland", þar segir m.a. þetta; „Stutt var það tímabil, sem Íslendingar voru grafnir að heiðnum sið, aðeins 125 ár, því eftir kristnitöku á alþingi árið 1000, var enginn lagður skartklæddur í haug með dýrgripum sínum, skrauti, vopnum, hestum og hundum.

Eftir það var aðeins blótað á laun á stöku stað og Þór og Freyr lítt færðar fórnir. Kirkjurnar komu í stað hofanna og klukkur hringdu til tíða, þar sem fjöll höfðu fyrr bergmálað baulan og gnegg blótpeningsins. En jafnvel þótt ásatrúin gamla hefði þannig – af stjórnmálalegum skynsemisástæðum – opinberlega vikið fyrir hinum nýja milda sið, ríkti engu að síður andi víkingatímans meðal þess óstýriláta, stríðaglaða fólks, með blóðhefndina í öndvegi, en lög sæmdarinnar lituðust hugsunarhætti víkinganna.

Þá voru hér hetjur er dáðu göfugan dauðdaga með sverð í hendi og við hlið þeirra og þeim jafnfætis í þjóðfélaginu stóðu frjálsbornar konur. Við þekkjum þetta samfélag nær eingöngu af sögunum, því fáar fornaldarminjar hafa fundist, er varpa ljósi yfir þessa tíð.“ (Múlaþing 7. Bindi bls 173 / Daniel Bruun – Við norðurbrún Vatnajökuls)

Það má álykta sem svo að ekki hafi strax orðið miklar breytingar á Íslandi við það eitt að taka upp hinn "nýja milda sið", eins og Daniel Bruun kallar kristnitökuna. Á eftir fór Sturlungaöld með blóðhefndum fornaldar og að henni lokinni fóru biskupar landsins með völdin svo til óskoruð. Síðustu tveir Hóla biskupar í kaþólskum sið voru þeir Gottskálk Nikulásson og Jón Arason. Gottskálk fékk viðurnefnið "grimmi", af honum fór sú þjóðsaga að hann hafi tekið upp svartan galdur ættaðan aftan úr heiðni til að afla kirkjunni eigna. Um Jón biskup Arason og syni hans var sagt hið forn kveðna; - "öxin og jörðin geyma þá best".

IMG_2816

Mósaík mynd af Jóni biskup Arasyni í Hólakirkju. Jón er stundum talinn síðasti íslenski höfðinginn af gömlum sið

Á eftir siðaskiptin seinni um 1550 má segja sem svo að göfugur dauðdagi hafi endanlega aflagst á Íslandi, en þá tók ríkisvaldið við af kirkjunni að framfylgja siðferðilegri lagatúlkun, og gerði það með sínum Stóradómi og Drekkingahyl. Þá var tekið upp á að drekkja konum sem eignuðust börn utan hjónabands og karlmen hálshöggnir, auk þess sem teknar voru upp galdrabrennur 100 árum eftir að þær fóru hamförum í Evrópu. Danska ríkisvaldinu þótti flest til þess vinnandi að siða landsmenn, og gekk mun lengra en hinn "nýji mildi siður" frá því árið 1000. Nú áttu Íslendingar ekki lengur til neinna innlendra höfðingja með máls sín að leita.

Í skrifum Brunn um Ísland má bæði sjá hvað honum þótti vænt um land og þjóð, auk ómetanlegs fróðleiks sem hann safnaði vítt og breitt um land. Þegar hann ferðaðist um landið í rannsókanaferðum sínum skrifaði hann einnig punkta um það sem honum þótti sérstakt, sem hann birti síðar í blaðagreinum og bókum. Í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, sem bókaútgáfa Arnar og Örlygs gaf út árið 1987 um Íslandsferðir Bruun, er lýsing hans á sunnudegi í Skagfirskri sveit árið 1898.

„Á sunnudögum liggur öll vinna niðri nema bjarga þurfi heyjum. Orf og hrífur eru lögð upp á húsþökin. Fólkið fer í betri fötin, hestar eru sóttir í haga og söðlaðir og síðan er riðið í þeysireið til kirkjunnar. Konurnar reiða minnstu börnin í keltu sinni, þau, sem eru ögn stálpaðri, eru bundin í söðul, en stærri krakkarnir ríða einir, strákarnir stinga tánum í ístaðaólarnar, þegar þeir ná ekki ístöðunum. Hundarnir elta.

Hópar koma ríðandi frá hverjum bæ og farið er yfir stokka og steina, ár og læki, en allir stefna til kirkjunnar. Hestunum er stungið inn í hestarétt, sem er á flestum kirkjustöðum, og þar bíða þeir yfir messutímann. Fólkið kemur yfirleitt snemma til kirkjunnar, því margt þarf að gera áður en guðþjónustan hefst. Um margt er skrafað og skeggrætt, eldra fólkið spyr frétta og ræðir heyskaparhorfurnar, en unga fólkið leitar hvort annað uppi, og eru þar gefin heit, sem binda alla ævi meðan reikað er á milli grasi gróinna leiða og hrörnandi krossa í kirkjugarðinum. Áður en konurnar ganga í kirkju fara þær inn í bæ til að klæða sig úr reiðfötunum og skipta á reiðhattinum og litlu skotthúfunni, sem fest er í hárið, og jafnvel, ef eitthvað mikið er um að vera, að klæðast hátíðarbúningi. - Aðkomumenn eru spurðir spjörunum úr, hvaðan þeir komi, og hvað þeir séu að gera, hvert þeir ætli, hvar þeir hafi fengið hesta o.s.frv. og auðvitað verður að gefa greið svör við öllum spurningunum.

En nú gengur presturinn fram og heilsar kirkjugestunum áður en hann fer og klæðir sig í hempuna, og svo er klukkunum hringt, - Presturinn gengur í kirkju í fylgd meðhjálparans. Karlar sitja hægra megin í kirkjunni en konur til vinstri. Jafnskjótt og konurnar setjast lúta þær höfði og halda hvítum klút fyrir andlitinu og gera bæn sína. Víða er lítið orgel, sem einhver úr söfnuðinum leikur á, en þótt ekkert sé hljóðfærið hljómar söngurinn vel. Oft syngja ungar stúlkur í kór og leiða sönginn, allar eru þær smekklega klæddar í fallegum búningum. Daginn áður hefur maður ef til vill mætt þeim í vinnufötum við rakstur í túninu með flaksandi hár, eða lítinn klút bundinn um það í hnakkanum, í stuttum pilsum og mórauðum, grófgerðum sokkum, sem bundnir eru fyrir neðan hné með ólum. Þær ganga öruggar og djarfar til vinnunnar og hoppa lipurt og létt yfir polla og skurði á skinnskóm sínum.

Stundum er kirkjugestum veitt kaffi, og þá oft drukkið í baðstofunni.

En þegar öllu þessu er lokið, stíga kirkjugestir aftur á hestbak og ríða á brott í smá hópum. Piltarnir láta spretta rösklega úr spori, en ungu stúlkurnar hoppa fimlega í söðulinn og fylgja þeim hiklaust eftir.

Sunnudagskyrrðin hvílir yfir sveitinni. Ekkert brýnsluhljóð heyrist, engar heybandslestir á ferðinni, og engir lestarmenn á leið úr kaupstað, einungis glaðir hópar fólks á heimleið frá kirkju sinni. Varla er hægt að sjá að grasið á þaki gömlu kirkjunnar bærist í golunni og enn síður á leiðunum í kirkjugarðinum, eða á bæjarþakinu, þar sem hundurinn liggur eins og hann sé á verði. Þokuhnoðrar hylja fjallstindana, en sólin ljómar yfir engjunum og ánni, sem bugðast eftir dalnum, og hún skín á bæina, en bláir reykir stíga upp frá þeim, og úti við sjóndeildarhringinn er hafið blátt og vítt.“. (Ísl. Þjóðlíf I bindi bls 36-37)

IMG_2732 

Prédikunarstóll Víðimýrarkirkju og "hið virðulega kirkju inni". Í byrjun 18.aldar bannaði Jón biskup Vídalín prestum að tala blaðalaust úr ræðustól og þess vegna á að vera gluggi á þekjunni ofan við prédikunarstólinn í öllum torfkirkjum svo presturinn geti lesið stólræðuna. Sagt var að einn prestur hafi skrifað biskupi og spurt hann hvað ætti að gera ef hundur kæmi upp á kirkjuþakið, sem ekki var óalgengt á meðan á messu stóð, og settist þar á gluggann. Biskup svararði "sigaðu, blessaður sigaðu, og seppi mun fara"

Til að gefa örlitla innsýn í tíðaranda þess tíma sem Bruun var á ferð er hér gripið niður í bækurnar Íslenskt Þjóðlíf. Í Hruna spurði Bruun séra Steindór Briem um siðferðisástandið og hvort það væri ekki á lágu stigi, þar sem konur og karlar svæfu í sömu baðstofu og afklæddust hvert í annars augsýn, en presturinn sagði að vaninn gerði það að slíkt hvorki vekti hneykslan né æsti kynhvötina. „Í prestakallinu fæðast 12-14 börn árlega, en ekki nema eitt óskilgetið annað hvert ár eða svo“.

Sýnilegt er að Bruun þykir mikið til presthjónanna og heimilisfólks í Hruna koma,,, „Briemsættin er mikils metin og áhrifamikil á Íslandi. En dálítið kemur það einkennilega fyrir sjónir, hvernig fjölskyldan umgengst heimilisfólkið daglega, t.d. sefur dóttirin í baðstofunni, og það þó svo fjölskyldan sé meðal fremstu ætta landsins“. 

Þær athafnir sem fóru fram í kirkjunum voru auk guðþjónusta, - brúðkaup, jarðarfarir og ferming, sem má segi að í þá daga hafi verið nokkurskonar grunnskóla próf ungdómsins sem lauk með að gengið var til spurninga. Sjaldgæft var að ungabörn væru skírð í kirkju því að til þess þurfti að reiða þau á hestbaki langar leiðir, þannig að skírnin fór fram heima í baðstofunni og því voru skírnarfontar óalgengir í torfkirkjunum.

Brúðhjón héldu saman heim í bæinn úr kirkjunni til brúðkaupsveislu í baðstofuna, hið stóra sameiginlega herbergi íslensku bæjanna, þar sem unnið var, sofið og dvalist. Þar var brúðarsængin, jafnvel í sömu röð og önnur rúm baðstofunnar, og í henni fæddust hjónunum börnin. Þar voru hinir látnu sveipaðir laki og sálmabókin lögð yfir brjóstið, fyrir kom að líkið lægi þannig í rúmi sínu yfir nótt í baðstofunni ásamt heimilisfólki, áður en það var flutt í skemmu þar sem það stóð uppi til jarðarfarardags.

Hinsta förin hófst heima við bæ á kviktrjám á milli tveggja hesta þar sem líkkistan var reidd til kirkju í fylgd heimilismann og þeirra sveitunga sem til líkfylgdar mættu þegar hún fór fram hjá. Eftir líkræðu prestsins var kistan borin út og látin síga ofan í gröfina í kirkjugarðinum við kirkjuvegginn. Stundum kraup allt fólkið á kné á meðan mokað var ofan í gröfina. Hver og einn signdi yfir hana áður en gengið var á brott. 

IMG_4713

 Kirkjugarðurinn, sem umlykur Hofskirkju í Öræfum, með öllum sínum upphleyptu leiðum, þannig að garðurinn stendur mun hærra en umhverfið í kring. Engu er líkara en að þar hafi verið jarðsett í gegnum tíðina gröf ofan á gröf, þannig að kirkjan komi til með hverfa á endanum ofan í svörðinn

Daniel Bruun var samála Nóbelskáldinu um það að húsagerðalist torfkirknanna, sem rekja mátti allt aftur á söguöld,  hefði verið mun fegurri og hátíðlegri en kirknanna sem á eftir komu, sem Bruun taldi skorta allan svip byggingarlistar ef miðað var við torfkirkjurnar, jafnvel þó svo að ekki hefði verið hægt að þekkja þær frá öðrum gripahúsum þegar komið var í fyrstu á bæjarhlaðið. En þannig komst Nóbelskáldið að hnitmiðuðu orði, eins og honum einum var lagið, um byggingasögulegt gildi gömlu þjóðkirkjunnar úr torfi; 

„Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús. , , - og þótt vígindin í klömbruhnausunum séu reglulegri í sumum heyhlöðum í Skagafirði, og fjárhúsum, þá hef ég enga kirkjuveggi séð fegurri á Norðurlöndum.“

Enn má finna á Íslandi nokkrar torfkirkjur. Þær sömu og Daniel Bruun rannsakaði þegar hann var í ferðum um Ísland, sem átti hug hans allan um áratuga skeið. Þessar kirkjur hafa verið varðveittar í sinni upprunalegu mynd og eru ómetanleg þjóðargersemi þó svo að stærð þeirra sé ekki mikil, og efniviðurinn langt frá því að slaga í það sem þarf í meðal hesthús, þá er enn þann dag í dag vandfundnir fegurri kirkjuveggur.

 IMG_2728

Víðimýrarkirkja, sú sem Halldór Kiljan Laxness vildi meina að væri eitt merkilegasta hús á Íslandi. Eins má segja að einn frægasti sálmur sem ortur hefur verið á íslenska tungu hafi þar orðið til, en hann er  "Heyr himna smiður" eftir Kolbein Tumason á Víðimýri, héraðshöfðingja Skagfirðinga á Sturlungaöld, sálmurinn er jafnframt talinn elsti varðveitti sálmur Norðurlanda

  

IMG_2833

Saurbæjarkirkja í Eyjafirði er gott dæmi um hvernig kirkjuklukkum var fyrir komið á stafnþili. Eins voru kirkjuklukkur stundum hafðar innandyra, eða í sáluhliðinu og einnig var á einstöku stað sérstakt klukknaport í nágrenni kirkjunnar, einfaldleikinn réði

 

 IMG_4705

Hofskirkja var reist 1884, síðasta torfkirkjan sem var byggð eftir hinu gamla formi, um aldamótin 1900 hafði bygging torfkirkna verið bönnuð á Íslandi. Hún er ein sex torfkirkna, sem enn standa og eru varðveittar sem menningaminjar. Hún er jafnframt sóknarkirkja Öræfinga. Þjóðminjasafnið lét endurbyggja kirkjuna árið 1954

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju

 

Bænahúsið á Núpsstað 1899

Bænhúsið á Núpsstað árið 1899, teikning Daniel Bruun 


Bærinn og baðstofan

Stöng

Danskur læknir, Edvard Ehelers, kom til Íslands 1894 til að kanna útbreiðslu holdsveiki. Niðurstöður ferðar sinnar fékk hann birtar í dönsku heilbrigðistímariti. Það sem Ehlers hafði að segja um þrifnað á íslenskum heimilum tóku landsmenn illa upp og sökuðu hann um að vanþakka gestrisni íslenskrar alþýðu. En hann lýsti svo húsakosti hennar, og dæmigerðri baðstofu;

"Hinir litlu þröngu bæir eru að hálfu leyti neðanjarðar og nálega að öllu leyti byggðir úr torfi. Gluggar eru aðeins á öðrum gafli og allir negldir aftur af ótta við vetrarkuldann, því að Íslendingar bera eigi meira skyn á heilbrigðisfræði en svo, að þeir skoða kalda loftið hættulegri óvin en spillt loft. Í baðstofunni eru 6–8 rúm eða stórir trékassar, og sofa tveir eða þrír í hverjum kassa. Fólkið borðar í baðstofunni, oftast á rúmunum.

Þegar komið er inn í baðstofuna, þar sem fólkið er inni, gýs á móti manni óþefur svo mikill, að hann ætlar að kæfa mann. Þennan óþef leggur af mygluðu heyi í dýnum, af sauðskinnsábreiðum og skítugum rúmfötum, sem aldrei eru viðruð, og af óhreinindum þeim sem berast inn í bæinn af hinum óhafandi íslensku skinnskóm. Í óhreinindunum á gólfinu veltast börn, hundar og kettir, veita hvert öðru blíðuatlot og – sulli.

Þennan óþef leggur einnig af votum sokkum og ullarskyrtum, sem hanga til þerris hjá rikklingsstrenglum og kippum af hörðum þorskhausum. Sé vel leitað í baðstofukrókunum munu menn finna ílát, sem þvagi alls fólksins er safnað í. Það er talið gott til ullarþvottar."

Og hafi lýsing Danska læknisins þótt móðgandi á híbýlum alþýðunnar þá gaf lýsing Kaliforníubúans -  J. Ross Brown, 30 árum fyrr - á prestsbústaðnum á Þingvöllum, lýsingu þess Danska lítið eftir;

"Presturinn á Þingvöllum og kona hans búa í moldarkofum rétt hjá kirkjunni. Þessi litlu ömurlegu hreysi eru í sannleika furðuleg. Þau eru fimmtán fet á hæð og er hrúgað saman án nokkurs tillits til breiddar og lengdar og minna helst á fjárhóp í hríðarveðri. Sum þeirra hafa glugga á þakinu, og önnur reykháfa. Þau eru öll vaxin grasi og illgresi, og göng og rangalar liggi í gegnum þau og milli þeirra. Neðst eru kofarnir hlaðnir úr grjóti, og tveir kofar hafa bæjarburst úr svartmáluðum borðum, en hinu er öllu saman tildrað upp úr torfi og allra handar rusli og minnir einna helst á storkshreiður.

Þegar inn kemur í þessi undarlegu híbýli, er umhverfið jafnvel enn þá furðulegra en úti fyrir. Þegar maður er kominn inn fyrir dyrnar á einu hreysinu, sem eru svo lágar og hrörlegar, að vart er hægt að hugsa sér, að þær séu aðalinngangur, er fyrir langur dimmur, gangur með steinveggjum og moldarþaki. Hliðarnar eru skreyttar snögum, sem eru reknir inn á milli steinanna, og á þessum snögum hanga hnakkar, beisli, skeifur, fjallagrasakippur, harðfiskur, auk ýmis konar fatnaðar og gæruskinna. Gangurinn er í laginu eins og hann hafi verið byggður ofan á slóð blindrar kyrkislöngu.

Úr ganginum, sem er ýmist breiður eða þröngur, beinn eða boginn, liggja svo dyr inn í hin ýmsu herbergi. Besta herbergið, eða húsið, því hvert herbergi er einskonar hús, er ætlað gestum. Í öðru húsi býr fjölskylda prestsins í einni kös eins og kanínur. Eldhúsið er einnig notað sem hundaherbergi og stundum sem fjárhús. Í einu horninu eru nokkrir steinar, og á þá er lagt sprek og suðatað, og er þarna maturinn eldaður. Bitarnir í loftinu eru skreyttir pottum og kötlum, harðfiski, nokkrum nærpilsum og leifum af stígvélum, sem presturinn hefur líklega átt í æsku.

Á snögum torfveggjanna hanga olíudunkar, kjötstykki, gamlar flöskur og krukkur og ýmis riðguð verkfæri, sem notuð eru til að rýja kindur. Gólfið er ekki annað en sjálfur hraunflöturinn, en ofan á hann hefur myndast hart lag úr skólpi og allra handa úrgangi. Reykur fyllir loftið, sem þegar er spillt af óþef, og allt innan húss, bitar, stoðir og tíningur af húsgögnum, er gagnþrungið af þykku fúlu loftinu. Ég get ekki hugsað mér aumlegri bústaði mannlegum verum en íslensku torfbæina."

 GlaumbærII

Glaumbær í Skagafirði, íslenskur torfbær. Friðlýstur árið 1947, sem var ekki síst Íslandsvininum Mark Watson að þakka en hann hafði gefið 200 sterlingspund til varðveislu bæarins strax árið 1938.

Það hafa sjálfsagt fleiri en ég velt fyrir sér hvernig íslensk híbýli voru í gegnum aldirnar og hvers vegna aðal íverustaður þjóðarinnar, sem var bæði mat-, svefn- og vinnustaður fólks, var kölluð; -  baðstofa. Torfbærinn hafði veitt þjóðinni húsaskjól í meira en þúsund ár þegar síðustu manneskjurnar skriðu út úr þeim hálfhrundum á 20. öldinni. Það hafa  varðveist margar lýsingar útlendinga á þessum híbýlum, en landanum sjálfum þótti réttast að láta þjóðsöguna, jarðýtuna og ekki síst þögnina að mestu um varðveisluna.  

Eitt það fyrsta sem kom upp í hugann var, hvernig gat staðið á því að hin glæstu húskynni sem um getur á þjóðveldistímanum gátu orðið að þeim heilsuspillandi hreysum sem blöstu við erlendum ferðalöngum á seinni hluta 19.aldar? - sé eitthvað að marka frásagnir þeirra í rituðum ferðasögum.

Undanfarið hef ég verið að viða að mér efni varðandi húsagerð og sögu torfbæjarins. Eru þar á meðal bækur með rannsóknum Daniels Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund  ár,- meistararitgerð Arnheiðar Sigurðardóttur, Híbýlahættir á miðöldum sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins gaf út árið 1996, -ásamt bók Hjörleifs Stefánssonar arkitekts, Af jörðu - Íslensk torfhús, - auk lýsinga á torfbæjum, svipuðum og hér að ofan, í bókum Jóns Helagasonar, Öldin, ofl, ofl.

Lofotr_vikingmuseum_lofotencom_11

Borg á Lófóten þar sem íslenski landnámsmaðurinn Ólafur tvennumbrúni á að hafa búið. Húsið skiptist í skála og það sem mætti kalla stofu að víkinga sið. Í skálanum sem er til hægri handar þegar komið er inn var voru skemmtanir, matast, drukkið og sofið og kynntur langeldur í gólfi. Í (vinnu)stofunni t.v.við inngang á langhlið, sem er minni, var dvalar og vinnuaðstaða auk eldstæðis. Fræðimaðurinn Valtýr Guðmundsson vildi meina að á landnámsöld hefði stofan verið það sem kallað er skáli og öfugt

Segja má að þessi áhugi fyrir íslenskri byggingahefð hafi komið til þau ár sem ég var í Noregi. Þar vann ég m.a. við grjóthleðslur sem tilheyrðu safni Sama, en Samar kalla sín torfhús "gamma". Skammt frá Harstad, bænum sem ég bjó í, var Víkingasafnið á Borg suður við Leknes á Lofoten. Þar var þeim húsakosti gerð skil sem tíðkaðist við landnám Íslands og kom mér á óvart hversu mikill munur var á þeim stórhýsum úr torfi sem "landnámskálinn" var og þeim "moldarkofum" sem þjóðin skreið út úr þúsund árum seinna.

Í Borg var sýnd stílfærð heimildarmynd um fyrrum íbúa höfðingjasetursins, sem áttu sammerkt fleirum að hafa lent upp á kannt við Harald Hárfagra og neyðst til að yfirgefa Hálogaland. Þar er sagður hafa verið húsbóndi Ólafur tvennumbrúni. Heimildamyndin sem sýnd er við innganginn gerir því skil þegar Ólafur flutti með sitt fólk til Íslands.

Myndinni lýkur svo á þeim hjartnæmu nótum að dóttir Ólafs, sem með honum fór, snýr ein frá Íslandi aftur til Lófóten og giftist syni þess manns sem Haraldur Hárfagri eftirlét Borg, þannig hélst Borg í ættinni ef svo má segja. þetta er nú kannski ekki akkúrat það sem stendur í Landnámu og þó; "Óláfur tvennumbrúni hét maður; hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár (og Hvítár og) til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög. Óláfur bjó á Óláfsvöllum; hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli".

Stöng Þjórsárdal

Þjóðveldis bærinn Stöng í Þjórsárdal, skömmu ofan við landnám Ólafs tvennumbrúna frá Borg á Lófót. Skáli og stofa eru í löngu byggingunni. Landnámsbærinn þróaðist með tímanum í fleiri en eitt hús. Í útbyggingum voru matarbúr og stundum smiðja, baðstofa eða gripahús. En alla þjóðveldisöldina hélst sú húsaskipan að aðal byggingarnar voru byggða hver fram af annarri og sneru göflum saman

Hinn Danski Daniel Bruun ferðaðist um landið sitthvoru megin við aldamótin 1900 til að stunda fornleifa rannsóknir á norrænum híbýlum "víkingaskálanum" sem viðgengust um landnám á Íslandi. Hann varð fljótlega svo hugfangin af landi og þjóð að hann skrifaði niður ómetanlegar þjóðlífslýsingar og rannsakaði bygginga sögu íslenska torfbæjarins frá upphafi til enda. Fornleifa rannsóknir hans víða um land gefa skýrt til kynna að húsakostur á Íslandi var síður en svo umfangsminni en víkinga annarsstaðar á Norðurlöndum. Íslenski "skálinn og stofan" voru oft 30-40 m langar byggingar og gat þess vegna verið um 2-300 m2 húsnæði að ræða, kynnt var með eldum í gólfi og við innganga. Það var ekki fyrr en eftir að þjóðveldið féll að húsakosti tók að hraka í landinu. Þeirri sögu lýsir Bruun svo í stuttu máli;

"Sá byggingarstíll, sem þróast hafði á Íslandi frá á miðöldum, hélst í megindráttum óbreyttur til vorra daga. Eldsneytisskorturinn, sem smám saman varða sárari og sárari, sakir þess að rekavið þraut og einkum við að skógarnir eyddust, varð ekki til þess að nýtísku hitunartæki væru tekin í bæina eins og gerðist annars staðar á Norðurlöndum. Hins vegar var gripið til þess ráðs að fækka þeim húsum, sem eldar voru kynntir í, og víðast var hvergi tekinn upp eldur nema í eldhúsinu. Í öðrum bæjarhúsum létu menn sér nægja að verjast kuldanum með hinum þykku torfveggjum og loka gluggum og vindaugum í vetrarkuldum. Af því leiddi aftur að löngum var dunillt loft í hinum lokuðu híbýlum.

Hvorki eldstór, ofnar, bíleggjarar né skorsteinar voru á íslenskum sveitarbæjum, fyrr en nú á allra síðustu árum, um leið og ný húsagerð kom til sögunnar, sem algeng er í öðrum löndum, þ.e. timburhús eða hús úr steinsteypu. Glergluggar sem nú eru algengir, jafnvel í hinum gömlu bæjarhúsum, komu mjög seint til Íslands, en þeir komu ekki í sveitabæi á Norðurlöndum fyrr en á 16. öld, þeir hafa því varla haft nokkra þýðingu á Íslandi fyrr en á 18. eða 19. öld. Fyrir þann tíma voru skjágluggarnir, þ.e. líknarbelgur þaninn á trégrind, sem fest var á gat í þekjunni og hleypti nokkurri birtu í gegn, einir um að veita birtu inn í húsin.

Hnignun alls þjóðarhags, sem hélt áfram öldum saman, orkaði auðvitað einnig á húsagerðina. Eftir því sem tímar liðu fram, létu menn sér duga það sem einfaldast var og auvirðilegast. Aðeins á biskupsstólunum, Hólum og Skálholti, og einstaka höfðingjabólum voru húsakynni, sem minntu á höfðingjasetur fornaldar, en allur almenningur þrengdi að húsakosti sínum. Fjósin minnkuðu m.a. því kúnum fækkaði, jafnframt því sem sauðfé fjölgaði. Þó eldhúsið væri eina bæjarhúsið, sem eldur brann í, gat það enn um skeið gerst að fólkið fengi sér bað að gömlum hætti í baðstofu, og hún þá hituð af því tilefni, en ekki vitum vér, hversu lengi sá siður hefur haldist.

Eins og þegar er getið, var baðstofan stundum skilin frá bæjarhúsunum, en venjan var að hún væri eitt af öftustu húsunum í bænum. Var það meðal annars til þess að önnur hús gætu notið hitans frá henni. Vafalaust hefur hún örðum stundum verið notuð til ýmissa annarra hluta. Þannig hefur mátt nota hana til dvalar og vinnustofu, þegar fólk var ekki í baði, en einkum þó eftir að hætt var að kynda elda í stofu og skála. Það kemur í ljós að á 18. öld var tekið að nota baðstofuna á þennan hátt, en upprunaleg notkun hennar var þá úr sögunni, þar sem baðvenjur voru niður lagðar.

En svo fór að menn höfðu ekki einu sinni eldsneyti til að hita baðstofuna. Nafnið eitt hélst á húsi því, sem oftast var fyrir endanum á bæjargöngunum. Það hafði áður verið notað til að baða sig í, en þegar sífellt þurfti að draga saman seglin með húsakostinn, varð það svefnherbergi. Skálinn var yfirgefinn, og rúmin flutt í baðstofuna. Í fyrstu munu það aðeins hafa verið húsbændur og fjölskylda þeirra, sem bjuggu um sig í öðrum enda baðstofunnar, bæði til að njóta hlýunnar og draga sig frá fólkinu. En síðan tók allt heimilisfólkið að sofa og dvelja í baðstofunni.

Lega baðstofunnar innst í húsaþyrpingunni hafði í för með sér að hún varð tiltölulega hlý, en nægði þó varla ætíð. Þá var gripið til þess ráðs í mörgum byggðarlögum að hýsa kýrnar þannig að fólkið í baðstofunni nyti ylsins af þeim. Ekki er kunnugt, hvenær sá siður var upp tekinn að hafa fjósið undir baðstofunni, ef til vill er hann gamall. –Byggingarlagið var þá með þeim hætti að fjósið var ögn niðurgrafið, en baðstofugólfið, sem um leið var nokkuð hærra en gólfflötur annarra bæjarhúsa.

Afstaða bæjarhúsanna innbyrðis hélst óbreytt í höfuðdráttum. Algengast var að þau stæðu til beggja hliða við göngin og fyrir enda þeirra, en tala þeirra gat verið breytileg, en jafnframt mátti bæta fleiri húsum í þyrpinguna, og höfðu þau þá sér inngang. Í tilteknum héruðum var húsunum skipað í eina röð, þannig að skipan þeirra nálgaðist fornaldarbæina, en þó með þeim mun að í fornbæjunum stóðu húsin hvert í framhaldi af stafni annars, en nú stóðu þau hlið við hlið og snéru stöfnum fram á hlaðið. Ef til vill hefur notkun glerglugganna átt þátt í þessu, en leitast var við að hafa þá á timburstöfnum.

Þegar gluggarnir voru í framhlið bæjarins gat fólkið, sem inni var, séð innan úr húsunum, hvað gerðist á hlaðinu. Auk þessa voru þakgluggar á baðstofunni. Þegar fólk var flutt inn í baðstofuna og einnig fyrir nóttina, var skálinn ekki lengur svefnstaður og hvarf brátt úr sögunni, eða merking orðsins breyttist, ef svo má segja, í miklu lítilsverðara hús en áður, en hélt þó sömu stöðu í bæjarþyrpingunni og gamli skálinn. Ennþá er oftsinnis að hús frammi í bænum er kallað „skáli“, þótt það sé notað sem skemma eða á einhvern annan hátt.

Allt frá þeim tíma, sem baðstofan varð sameiginlegur dvalar- og svefnstaður og böð voru úr sögunni, voru öll herbergi, sem notuð voru á sama hátt og hún, kölluð „baðstofur“, án tillits til legu þeirra í bænum. Og um leið höfðu menn horfið til hins forna siðar, að sofa í sama húsi og þeir unnu í og dvöldust á daginn."

Glaumbær

 Glaumbær í Skagafirði, dæmigerður "ganga - bursta bær" sem var loka kaflinn í þróun torfbæjarins. þar er baðstofan aftast í húsaþyrpingunni en fram á hlaðið eru þiljaðar burstir með gluggum og dyrum (sem ekki sjást á þessari mynd sem tekin er baka til) 

Daniel Bruun fór yfirleitt fegurri orðum orðum um íslensku torfbæina en flestir útlendingar, enda hefur hann sjálfsagt gist á betri bæjum í ferðum sínum. Það skildi þó ætla að prestsetrið á Þingvöllum hafi ekki beinlínis verið kotbær þegar Burton hinn Kalaforníski kom þar við. En þetta hefur Bruun m.a. punktað hjá sér eftir veru sína á íslensku prestsetri;

„Á Stóra-Núpi tók síra Valdemar Briem vinur Ólsens á móti okkur. –Kvöldið leið á mjög ánægjulegan hátt við fjörugar samræður í skrifstofu prestsins með mörgum fullum bókaskápum. Og að þeim loknum hvíldum við félagarnir í rúmum okkar og ræddum um, hversu notalegt það gæti verið að dveljast í íslensku torfbæjunum.“ 

Samt átti Bruun það líka til að bölsótast út í baðstofu íslenska bæjarins. "Hann skrifaði syni sínum sumarið 1907 þegar hann dvaldi í tjaldi á Gásum; -ég vil miklu heldur njóta hreina loftsins í tjaldinu en búa við hið andstyggilega, innilokaða loft í bæjunum, þar sem gluggar eru nær aldrei opnaðir. Þeir eru ekki á hjörum og oftast negldir aftur. Ég minnist þess einu sinni á ferðalagi að ég bað bóndann að opna glugga á herbergi, sem ég svaf í. Hann braut rúðuna einfaldlega af einskærri góðvild". 

Nóbelskáldið fór engu rósamáli um íslenska torbæjarmenningu í bókum sínum, en hann minntist torfbæjanna þó þannig, - þegar hann talaði um listfengi þeirra og viðhaldsþörf, því torfbæina þurfti að endurbyggja á 25-50 ára fresti og var þá ekki allur bærinn undir heldur einstök hús hans; - "Tilgerðarlaus einfaldleiki er mundángshófið í hverju listaverki, og að hvert minnsta deili þjóni sínum tilgáng með hæversku. Það er einkennilegt hvernig fólk í ljótustu borg heimsins leitast við að reisa hús sín svo rambyggilega, eins og þau ættu að standa um aldur og ævi. Meðan var til íslensk byggingarlist var aldrei siður að byggja hús til lengri tíma en einnar kynslóðar í senn, - en í þá daga voru til falleg hús á Íslandi."

Þegar ég spurði afa minn, sem fæddur var í upphafi 20. aldarinnar og ólst upp í torfbæ, hvort ekki hefði verið notalegt að alast upp í þannig húsi, þá hristi hann höfuðið og sagði; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn", og sagði mér svo frá sagganum og heilsuleysi foreldra sinna sem hann taldi að húsakynnin hefðu ekki bætt. Hann talaði um leka bæi og fyrirkvíðanlegar haustrigningar.

Þverá Laxárdal

Þverá Laxárdal S-Þing. þessi bær er dæmigerður Norðlenskur torfbær um aldamótin 1900. Hann hafði þó þá sérstöðu að bæjarlækurinn rennur inn í hann, þannig að ekki þurfti að fara út til að sækja vatn. Það sama átti við burstabæinn á Gvendarstöðum í Köldukinn og þar var auk þess fjósbaðstofa

Í Árbók Þingeyinga er nákvæm og skemmtileg lýsing Kristínar Helgadóttir á Gvendarstöðum í Köldukinn um það hvernig var að alast upp í torfbæ með fjósbaðstofu á 4. og 5. áratug 20. aldarinnar, þegar útséð var að nýr húsakostur tæki við af gamla torfbænum og honum yrði ekki lengur við haldið. Í niðurlagi segir Kristín m.a. þetta;  Blessaður gamli burstabærinn, hann bauð upp á margt skemmtilegt bæði úti og inni, einfalda saklausa barnaleiki. Svo urðum við bæði eldri, ég og burstabærinn. Ég hætti að dansa ballett á hlaðinu og horfa á mig í stofuglugganum hvað mér tækist nú vel, þó gúmmískórnir væru nú ekki bestu ballettskórnir.

Gamli bærinn var þreyttur, þökin fóru að leka meira og meira, stundum lak alls staðar og farið var af stað með alla dalla til að setja undir leka. Stór pollur var fremst í göngunum, það var lögð brú yfir hann. Loksins þegar stytti upp var farið að ausa pollinn. Þetta var á haustin, maður kveið fyrir haustrigningunum. Svo var gott þegar snjórinn kom og setti vel að húsunum, þá hlýnaði líka inni, samt man ég ekki eftir að væri mjög kalt í baðstofu, kýrnar hafa bjargað því og ofninn sem áður er getið, 14 lína lampinn hitað líka og svo var margt fólk sem gaf frá sér hita.

Ég hugsa um mömmu mína og hennar líf í þessum bæ. Í þessum bæ ól hún sín átta börn, annaðist þau og sá þau vaxa, hún þerraði tárin og tók þátt í gleðinni. Hún hlúði að gamla fólkinu sem sumt var rúmliggjandi lengi. Ég sem yngsta barn man ekki eftir þessu fólki, afa og ömmu, Jórunnu ömmusystir og Önnu Kristjánsdóttir sem lengi var vinnukona hjá foreldrum mínum og var heilsulaus síðustu árin.

Allt þetta fólk dó á Gvendarstöðum í skjóli foreldra minna og mamma annaðist þau. Hún hugsaði vel um bæinn sinn og hélt honum hreinum, moldargólfin voru sópuð með vendi, hurðir, stoðir og gólf, allt var hvítþvegið og öll þessi tréílát sem voru í notkun. Svo þurfti að hugsa um fatnað og allt þetta fólk. 

Árin liðu, bærinn hrörnaði og ég stækkaði, kannski var manni farið að finnast margt erfitt og þröngt og öðruvísi en ætti að vera. Sambúðin við þennan gamla bæ, sem búin var að vera mitt fyrsta skjól og leikvöllur bernsku minnar, var senn á enda og árið 1948 var hann rifinn og nýtt hús byggt á sama stað, stórt og gott hús sem mér hefur með árunum lærst að þykja vænt um eins og gamla bernskubæinn minn. (Árbók Þingeyinga 2012 – Ég og burstabærinn / Kristín Helgadóttir Gvendarstöðum Köldukinn)

 

 Keldur

Keldur á Rangárvöllum sem segja má að sé blanda af burstabæ og fornri húsagerð þar sem skálinn lá samsíða hlaði

 

IMG_1525

Langeldur í gólfi skálans í Borg á Lofoten. Upphækkaður pallur var oft með báðum hliðum skálabæjanna og fyrir stafni. Öðru megin var æðri pallur þar sem húsbóndinn sat um miðju langhliðar í öndvegi milli súlna sinna. Heimilisfólk og gestir mötuðust á pöllunum, héldu sínar kvöldvökur og sváfu svo á fleti eða í lokrekkjum við útveggi. Innst í skála fyrir stafni var pallur þar sem konur höfðu aðstöðu sína

 

Borg á Lofoten

"Stofan" í Borg á Lofóten, sem var vinnuaðstaða og íverustaður bæjarins, og á íslandi var hún talin vera þar sem sá handiðnaður fór fram sem þurfti að sitja við og standa. Þar voru klæði ofin, áhöld smíðuð, reiðtygi smíðuð og geymd, matast og síðar sofið. Síðar urðu smiðja, búr og skemma að útbyggingum líkt og sjá má á myndinni af þjóðveldisbænum að Stöng hér að ofan

 

IMG_3256

Baðstofan í Glaumbæ, Skagafirði. Dæmigerð íslensk baðstofa á betri bæ á 18. og 19. öld. Askar með matarskammti við hvert rúm, en í hverju rúmi gátu sofið fleiri en einn og var það m.a. gert svo fólk ætti auðveldara með að halda á sér hita 

 

IMG_2675

Baðstofan á Grenjaðarstað í Aðaldal. Rokkar, ullarkambar, prjónar og önnur vefnaðaráhöld voru til taks við svo að segja hvert rúm, því í baðstofunni var fatnaður heimilisfólks framleiddur

 

IMG_3644

Galtastaðir fram í Hróarstungu á Héraði. Þar er baðstofan samhliða hlaði líkt og skáli fornbæjanna. Auk þess er fjósbaðstofa á Galtarstöðum, - það er að segja kýr sem hitagjafi undir baðstofugólfi. Þetta virðist ekki hafa verið óalgeng húsaskipan á kotbæjum Austanlands. Í bænum á Galtarstöðum var búið til ársins 1960


Steypuhrærivélin

Stokksnes radsjárstöð

Það eru ekki allir þeirrar gæfu aðnjótandi að finnast þeir vera fæddir í fríi. Svo virðist vera að samfélagsgerðin geri ráð fyrir að slitið sé á milli frí- og vinnutíma. Þannig að hjartans þrá tilheyrir hvorki stað né stund og til verður fjarverufíkn án núvitundar. Samt eru til dæmi þess að fólk hafi hitt á fjölina sína og geri ekki mikinn greinarmun á vinnu- og frítíma þegar ánægjan er annars vegar. Í sem stystu máli má segja sem svo að lífsgæði síðuhöfundar hafi velst um í steypuhrærivél.

Alveg frá því fyrst ég man hef ég þvælst um byggingastaði og steypt hvern minnisvarðan um annan þveran. Þar hefur oft átt við dæmisagan um verkamanninn, sem var á þá leið að maður kom á byggingarstað á björtum góðviðrisdegi. Fyrst kom hann að smið sem var að höggva til planka, og spurði hvað hann væri að gera. Smiðurinn svaraði önugur; "Þú hlýtur að sjá það sjálfur maður ég er að höggva til spýtu". Þá kom maðurinn að múrara, sem var að hlaða vegg, og spurði hvað hann væri að gera. Hann svaraði jafn önugur og smiðurinn; "Eins og þú sérð er ég að hlaða vegg". Næst kom maðurinn að verkamanni, sem hamaðist kófsveittur við að moka sandi og maðurinn spurði hvað hann væri að gera. Verkamaðurinn ljómaði allur í ákafa sínum og sagði; "Við erum að byggja dómkirkju".

Núna í sumar var ég á ferð í brotinni byggð og var minntur á eina dómkirkjuna sem ég hrærði steypuna í, en þessi minning kom upp á stað þar sem skáldið orti forðum farðu í rassgat Raufarhöfn. Þegar ég gekk um hafnarsvæðið sá ég bíl sem var merktur fyrirtæki sem átti hug minn allan í hátt á annan áratug. Fyrirtæki sem ég hafði stofnað ásamt vinnufélögum mínu upp úr þeim rekstri sem ég hafði staðið fyrir í eigin nafni frá því 23 ára gamall. Þetta fyrirtæki er enn í rekstri með tvær starfstöðvar á Íslandi og rekið á meira en 30 ára gamalli kennitölu.

Siglufjörður 1988Það var á Djúpavogi fyrir öllum þessum árum sem við vinnufélagarnir  sameinuðumst um fyrirtækið Malland. Markmiðið var að búa okkur til lífsviðurværi sem myndi gagnast okkur til búsetu á Djúpavogi, þó svo að verkefnin þyrfti að sækja um langan veg. Hugmyndin gekk út á, auk steypunnar, að þjónusta matvælaiðnað. Við markaðssettum okkur sem sérfræðinga í epoxy iðnaðargólfum og héldum áfram því skemmtilega á sumrin, að byggja og lagfæra hús, auk þess að steypa mynstraðar stéttar. Verkefnin voru víða um land auk þess sem við fórum um tíma í útrás. Nokkru sinnum fórum við til Ameríku á steypu workshop, svona í nokkurskonar saumaklúbb ásamt 200 steypuköllum víða að úr heiminum.

Ég var stundum spurður útí það hvernig nafnið Malland kom til og varð þá svarafátt. Sumir giskuðu á að það væri dregið af möl samanber steypumöl  aðrir ályktuðu sem svo að nafnið hefði með málningu að gera sem ég var umboðsmaður fyrir um tíma, og væri því Málland. Eins var ég oft spurður að því á Norðurlandi hvort ég tengdist eitthvað bænum Malland á Skaga. Sannleikurinn á bak við nafnið er sá að ég vafði mér sígarettur úr tóbaki sem hét Midland og fannst nafnið líta vel út en gat þó ekki sætt mig  við Miðland né ensku útgáfuna. Leturgerðin í nafninu er meir að segja fengin hjá Midland tobacco.

Það var auðskildara hversvegna húsið sem við Matthildur mín byggðum  hét Tuborg, en sú  nafngift var ekki frá mínu líferni komin, heldur var það þannig að þegar ég þurfti að skrá húsið opinberlega þá voru ekki komin götunöfn á Djúpavogi, heldur hétu húsin hvert sínu nafni. En þar sem ekki hafði gefist tími til að koma sér niður á nafn þegar skráningin fór fram þá stakk Ólöf heitin Óskarsdóttir á hreppskrifstofunni upp á að það héti bara Tuborg því í nágreninu væri Borg. 

Það má segja að Malland hafi verið orðið að epoxy ævintýri sem ég lét félögum mínum eftir upp úr aldamótum, enda þeir meira með hugann við annað en steypu. Ég hélt minn veg og þeir sinn með Malland um tíma, en nú er svo komið að engin af Djúpavogsdrengjum er þar um borð.

 

St. Louis 1998

Mallandsfélagar að sýrulita steypu í Amerískum "saumaklúbb". Á árunum 1993-1998 var þrisvar farið til landsins steypta USA til móts við 200 kolleiga á workshop. Þar voru sett upp svæði og menn sýndu listir sínar. Eitt skiptið duttu út fyrirfram ákveðnir sýnendur og íslensku víkingarnir voru óvænt manaðir til að hlaupa í skarðið. Þá kom sér vel að hafa rúnina Ægishjálm á heilanum til að móta og lita í steypuna

 

Miðvangur

Færanleg Amerísk snigilsteypuhrærivél, sem var sú eina á landinu. Hún hrærði 10 m3 á klukkutíma en var ekki góðkennd af opinbera regluverkinu. En það skipti engu máli við höfðu ævinlega meira að gera en komist var yfir 

 

STO

Múrverk var okkar fag og þess vegna fengumst við mikið við að flikka upp á steinsteypt hús. Að ofan er fyrsta húsið sem ég eignaðist á ævinni, Ásbyrgi Djúpavogi. Margir vildu meina að það væri jarðýtu matur, en í Ásbyrgi er búið enn þann dag í dag og lítur það betur út en það leit eftir endurbæturnar. Hitt húsið er Hvammurinn á Höfn þar sem rekið hefur verið sem gistihús frá því að það var gert upp fyrir meira en 30 árum 

 

Tuborg

Tuborg, húsið sem við Matthildur byggðum okkur á Djúpavogi. Þar voru öll Mallands trixin notuð, múrsteinar, mynstruð steypa og epoxy

 

IMG_3001

Þegar við Matthildur mín dveljum í heimsóknum á Djúpavogi á ég það til að laumast út og dást að gömlu steypuhrærivélinni þar sem hún má muna fífil sinn feguri úti í móum 

 

IMG_3521

Rakst á þennan við fiskverkunarhús á Raufarhöfn í sumar, með áletruninni "í gólfum erum við bestir" 

 

Svona var frystihúsi umbreitt yfir jól og svo var haldið í það næsta um áramót. Þetta var áður en það þurfti að rýna í reglugerðina og fara í grenndarkynningu þó svo að veggur væri færður til innanhúss. Já kannski vorum við í gólfum bestir.

 


Í þögn stendur verksmiðjan ein

IMG_4328

Það er fátt sem á eins vel við "þetta reddast" hugarfar þjóðarsálarinnar og verksmiðjurekstur. En dramatíkin hefur þó verið mest í kringum síldarbræðslur. Til eru dæmi þess að sjálfstæð hagkerfi með eigin gjaldmiðli hafi orðið til kjölfar bræðslu, s,s, Djúpavogspeningarnir sem notaðir voru á áhrifasvæði Kaupfélags Berufjarðar eftir að síldin hvarf árið 1968 og nýbyggð bræðsla stóð verkefnalaus í skuld. Bræðslan á Djúpavogi var síðan orðin úrelt þegar næsta uppsjávarævintýri gekk í garð með tilheyrandi bræðslubyggingum á 10 áratug síðustu aldar. En gamla bræðslan hafði dugað ágætlega sem gúanó fabrikka við að losa frystihúsið við fiskiúrgang í beinamjöl.

Aftur var hafist handa á Djúpavogi við að endur -bæta og byggja-  bræðsluna seint á 10. áratugnum sem endaði svo með enn meiri ósköpum en einungis þeim að taka upp sjálfstæðan gjaldmiðil. Upp úr því ævintýri tapaðist stærsti hluti aflaheimilda á staðnum, fiskiskipin hurfu á braut og mest allt forræði heimafyrir yfir sjávarútvegi fór forgörðum. Lokakaflinn í sorgarsögu bræðslunnar á Djúpavogi var svo þegar Guðrún Gísladóttir KE, þá eitt glæsilegasta skip íslenska flotans, sökk við Lofoten í Noregi.

Síðan hafa eggin hans Sigurðar listamanns í Himnaríki skreytt löndunarkæjan í Innri Gleðivík og Rúllandi snjóboltar verið helsti árlegi viðburðurinn í bræðslunni og hægt hefur verið að komast inn í einn hráefnistankinn til að öskra, auk þess sem húsakynnin hafa verið notuð til að flokka sorp. Það sorglega er að þessi örlög mátti sjá fyrir, því það að byggja upp bræðslu að áliðnu ævintýri hefur oftast endað með ósköpum. Í tilfelli Djúpavogs endaði kvótinn fyrir slikk hjá Vísi í Grindavík, eða eins einn kunningi minn orðaði það, þeir fengu 4 milljarða kvóta fyrir 1 milljarð og seldu um leið bræðsluna fyrir 1 milljarð og borguðu þar af leiðandi aldrei neitt. 

IMG_4333 

Það var ekki meiningin að nota þennan pistil í að básúna um bræðsluna á Djúpavogi og það hvernig mikilmennskubrjálæði og hjaðningavíg heimamanna ollu Djúpavogi stórtjóni undir aldamótin. Enda sú sorgarsaga of stór fyrir mitt hjarta og þennan pistil. Heldur ætlaði ég að segja frá afreki í Djúpuvík, sem mig hefur alltaf heillað sem steypukall, en ég gerði mér erindi til að skoða núna í sumar. Bræðslubyggingar byggingameistarans í Djúpuvík urðu reyndar þrjár risa bræðslur sem standa enn í Djúpuvík, á Hjalteyri og í Ingólfsfirði.

Það sem undraði mig mest þegar ég heyrði fyrst sagt frá byggingu þeirra var hvað byggingameistarinn var ungur að árum og hvernig hann fór að því að steypa upp þvílík mannvirki um há vetur. Því allir sem eitthvað hafa fengist við steypu vita hvað erfitt er að steypa í frosti. En kannski var einmitt ungur aldur byggingameistarans ástæðan fyrir því hversu vel tókst til að steypa í frosti, frjór ofurhugur hins unga manns með ögn af fífldirfsku.

Byggingameistarinn hét Helgi Eyjólfsson og var fæddur á Grímslæk í Ölfusi 1906. Helgi lærði húsasmíði og fékk meistararéttindi sem húsasmiður árið 1928. Næstu 20 árin stundaði hann sjálfstæðan rekstur og byggði mörg falleg hús í Reykjavík og víðar. Þar að auki byggði hann síldarverksmiðju Alliance í Djúpuvík í Reykjafirði á Ströndum árið 1935, verksmiðju Kveldúlfs á Hjalteyri 1937 og síldarverksmiðju í Ingólfsfirði 1942. Helgi hefur því verið innan við þrítugt þegar hann byggir verksmiðjuna í Djúpuvík.

Alliance reisti á sínum tíma fullkomnustu síldarbræðslu í Evrópu í Djúpuvík. Hlutafélagið Djúpavík hf var til þess stofnað 22. september 1934. Framkvæmdir stóðu yfir árin 1934­-35. Guðmundur Guðjónsson arkitekt teiknaði verksmiðjuna og sá um byggingu hennar með Helga. Fyrsta sumarið, sem verksmiðjan var tilbúin til að taka við síld til vinnslu, 1935 brást síldin algerlega. Næsta ár var svo mjög gott, en síðan gekk á ýmsu, þar til síldin hvarf alveg af Húnaflóa og var starfsemi hætt 1952.

IMG_4343

Það er fjallað um þessar bræðslubyggingar í bók Birgis Sigurðssonar rithöfundar "Svartur sjór af síld". Með ólíkindum er hvernig Helga tókst að reisa stærstu byggingar, sem reistar höfðu verið úr steinsteypu hér á landi við þær aðstæður sem ríktu á miðjum fjórða áratugnum og það í Djúpuvík. Í bók Birgis segir Helgi frá því þegar hann tók að sér að byggja bræðslu  á Hjalteyri við Eyjafjörð fyrir Kveldúlf hf eftir að afrek hans í Djúpuvík höfðu spurst.

-Að hausti til tveim árum eftir að ég byggði á Djúpuvík, komu Kveldúlfsmenn til mín, Richard Thors og bræður hans. - Viltu byggja fyrir okkur síldarstöð á Hjalteyri? Spurðu þeir. - Ég veit ekki, sagði ég. - Geturðu lokið henni á tveim árum? - Látið mig sjá plönin og teikningarnar, sagði ég - sannleikurinn er sá, segja þeir, að það veltur á að Kveldúlfur verður gerður upp. Bankinn féllst á að bíða ef við gætum komið stöðinni upp á tveim árum - Látið mig sjá plönin og teikningarnar svo skal ég svara ykkur - Ef þetta gengur ekki erum við búnir að vera segir Richard - Ég skal líta á þetta og segja ykkur hvort það er hægt, sagði ég. Svo skoðaði ég áætlanir þeirra og hugmyndir vandlega. Þetta átti að vera stór síldarbræðsla, minnst fyrir fjóra togara. Það gerði mér auðveldara fyrir að ég var búinn að byggja á Djúpuvík. Síðan boðaði ég þá á minn fund strax þarna um haustið og sagði við þá: - Hafiði ekki áhuga á að geta byrjað að bræða strax næsta sumar á venjulegum tíma? Þeir þögðu bara og störðu á mig og ég fann að þeir álitu sig vera að tala við snarbrjálaðan mann.- 

- Þú steypir nú ekki í frosti! - Það er mitt vandamál, en ekki ykkar, svaraði ég. Síðan fór hver til síns heima. Í mars byrjaði ég að steypa og notaði aðferð gegn frostunum sem aldrei hafði verið notuð í heiminum að vitað var. Ég fékk mér ketil og bjó til kerfi. Dældi svo sjó eftir kerfinu inn á ketilinn og hitaði hann upp í suðumark. Þaðan rann hann svo ó stóran tank og í steypuvélina. Svo steypti ég. Kallarnir í nágrenninu komu til að sjá vitlausa manninn sem steypti í frosti. En steypan varð glerhörð á þrem dögum. Svo kom Richard og sagði - Ja, hvur andskotinn! 

 IMG_4353

Bygging bræðslunnar á Hjalteyri var ævintýr, kraftaverk hraða og vinnuafkasta. Byrjað er að grafa fyrir verksmiðjunni í febrúar, reisa húsið í mars, farið að koma fyrir vélum í því í apríl og maí, og 20. júní er byrjað að bræða þar síld. Í íslenskri byggingarsögu er þetta óviðjafnanlegur byggingarhraði. Síldarverksmiðjan var samt ekki fullreist þegar hún tók til starfa, heldur höfðu þá verið reistir þeir hlutir hennar sem nauðsynlegastir voru svo hún gæti unnið verðmæti og starfað á meðan verið var að reisa aðra hluti hennar eftir því sem þeirra var þörf.

Bræðslubyggingar Helga Eyjólfssonar eru því afrek, þær voru byggðar á mettíma, við erfiðar aðstæður og  um miðjan vetur. Helgi notaði sína aðferð við að steypa í frosti, þó að flestir væru vantrúaðir á þá aðferð og eru jafnvel enn í dag. Allt gekk þó upp og Hjalteyrarverksmiðjan varð mikil lyftistöng fyrir þá Kveldúlfsmenn. Þessar stóru síldarverksmiðjur eru merkilegur kafli í atvinnusögu Íslendinga, þegar síldin kom við sögu og lýsa vel hvernig "þetta reddast" hugarfar landans á það til að hitta beint í mark. 

IMG_4360

 


Út um þúfur

IMG_3988

Ennþá er búið í torfbæjum á Íslandi, það kom heldur neyðarlega í ljós í síðustu viku. En eins og þeir vita, sem hér líta inn, þá hef ég blæti fyrir því að ljósmynda torfbæi, og hef verið að reyna að venja frúna af því að liggja á gluggum rétt á meðan, svona myndana vegna. Um daginn keyrðum við að torfbæ sem ekki átti að vera til samkvæmt mínu registri. Við renndum í hlað og ég sagði strax og stoppað var; ekki liggja á gluggum eins og hver annar túristi, það er dónaskapur að liggja á gæjum hjá fólki. það hnussaði í; hva,,, heldurðu virkilega að það búi einhverjir ennþá í torfbæ.

Það leið ekki á löngu að út um bæjardyrnar á miðburstinni birtist sköruleg kona, sem bauð góða kvöldið á ensku og spurði hvort hún gæti eitthvað fyrir okkur gert. Ég áttaði mig fljótlega á að þetta var ekki álfkona. Við reyndum að bjarga okkur út úr aðstæðunum með því að þykjast ekkert skilja og töluðum bara íslensku, en það dugði skammt. Sú sem var greinilega ekki álfkona upplýsti okkur um það að hún og hennar fjölskylda væru Íslendingar sem byggju í þessum torfbæ og hefði það verið gert um aldir þó svo að stutt væri síðan að þau hefðu gert bæinn upp. Fljótlega fóru umræður út um þúfur eins og íslendinga er siður og hefðu leikandi getað endað í ættfræði eða jafnvel dagþroti ef ekki hefðu birst erlendir túristar til að bjarga málum.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem við Matthildur mín komum okkur í vandræði með forvitni. Fyrir nokkrum árum urðu við að gjöra svo vel að sitja í skammarkróknum því sem næst heila messu, ef svo má segja, en þá vorum við á ferð í Loðmundarfirði. Það á nefnilega það sama við um kirkjur og torfbæi að ég umkringi pleisið með myndavélina að vopni á meðan hún hefur áhuga á því sem fyrir innan er, og enn kemur fyrir að kirkjur eru ólæstar. Þegar við ætluðum að kíkja inn fyrir kirkjudyrnar á Klyppstað þá stóð þar yfir árleg messa í þessum eyðifirði sem telur enga safnaðarmeðlimi.

Þar var fyrrum lærimeistari minn hringjari og ekki var við annað komandi en okkur yrði troðið inn í yfirfulla kirkjuna. Það fór svo að við Matthildur sátum á milli prestanna upp við altarið og snérum að kirkjugestum. Prestarnir voru tveir sem messuðu, þær sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir. Sr. Davíð Þór Jónsson radíusbróðir, sem var þarna sem kirkjugestur, var einnig komið fyrir með okkur Matthildi við altarið og átti hann skilið að sitja í skammarkróknum enda hafði hann komið sér þangað af sjálfsdáðum.

Séra Sigríður Rún talaði úr stólnum og lagði út frá fjallræðunni, um það hvernig varast skyldi farísea og fræðimenn sem væru oftar en ekki sauðir í úlfsgærum. En sleppti því sem betur fer alveg að leggja út frá gluggagæjum. Hún kom síðan inn á að ekki væri samt sjálfgefið með að menn slyppu alfarið við heimsendinn þó svo að vísindamenn væru komnir á slóð óendanleikans.

Okkar tími kynnu þess vegna að líða undir lok á hraða ljóssins. Vísindamenn hefðu komist á slóðina þegar þeir áttuðu sig á að ljósið færi hraðar en hljóðið með því einu að hlusta eftir þrumunni, sem heyrist á eftir að eldingin birtist. Með þessa vitneskju að leiðarljósi hygðust þeir bjarga heiminum og komast aftur fyrir upphafið á hljóðinu og síðan á hraða ljóssins fram fyrir óendanleikann. Spurningin væri samt alltaf sú hvort tíminn hægði þá ekki það mikið á sér að hann stæði að lokum í stað svo allt yrði dimmt og hljótt, og tíminn jafnvel búinn, sem væri þá kannski bara heimsendir.

Litli drengurinn hennar sr. Sigríðar, sem var farið að leiðast langdregin prédikunin, þar sem hann sat með pabba sínum og eldri bróðir á fremsta bekk, hékk orðið á haus á milli fóta föður síns. Á hvolfi horfði hann upp í prédikunarstólinn á móður sína og rétt náði að segja; en mammaaa! áður en pabbi hans dreif sig með hann út úr kirkjunni svo ekki yrði frekari truflun á heimsenda hugleiðingunni.

Þeir voru fleiri feðurnir sem þurftu að fara út með óþreyjufull börn úr árlegri messu á Klyppstað þetta sumarið. Um miðja prédikun var ég farin að ókyrrast og hugleiða hvað það væri gott að hafa börn í sinni umsjá við að kíkja á glugga, en tók svo eldsnöggt þá ákvörðun að fara út með barnið í sjálfum mér þó svo að ég þyrfti að þramma kirkjuna endilanga, fram hjá prédikunarstólnum, á móti söfnuðinum með marrandi gólffjalir undir fótum. Mér er ekki örgrannt um að orð eins þjóðskáldsins gætu átt við þessa brottför barnanna úr Klyppstaðarkirkju "Á flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið af týndum tíma er af nægu að taka".

Hann var miklu skeleggari og skorinorðari kínverski túristinn sem Matthildur hitti í árlegri sumar heimsókn á heiðina um helgina. Þegar hún ætlaða að fara inn torfbæinn og kíkja á kettlinga sem það eru vanir að vera sumarlangt. Þá stóð skyndilega bálsteyttur Kínverji blásvartur í framan úti í bæjardyrunum, rétt eins og úrillur álfur út úr hól, og skrækti prívat, prívat.

 

Ps. Set hér fyrir neðan nokkrar myndir af þjóðlegum þúfnagangi í síðustu viku.

IMG_4002

Á Reykjum Reykjaströnd við Skagafjörð hafa torfhúsatóftir verið endurhlaðnar og eru notaðar sem þjónustuhús við tjaldstæði. Það er allt til alls í þessum húsum og er þetta með skemmtilegri tjaldstæðum sem við höfum gist. Rétt utan við tjaldstæðið er Grettislaug og Grettiscafé. Það var yfir á Reykjaströnd sem Grettir sterki sótti eldinn þegar hann þreytti Drangeyjarsundið um árið og yljaði sér í lauginni á eftir. Engir Íslendingar gistu tjaldstæðið þegar við vorum þar en margt var um erlenda ferðamenn sem vildu ekki fyrir nokkra muni missa af því að upplifa sólarupprás við Drangey.

 

IMG_4482

 Á Keldum Rangárvöllum er torfbær af fornri gerð og er hann jafnframt eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Keldur er einstök heild bæjar- og útihúsa frá fyrri tíð. Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu formgerð torfhúsa, þar sem framhúsin snúa langhlið að hlaði. Sandfok hefur eytt mjög landi kringum Keldur og hafa bændur þar lengi barist harðri baráttu til að bjarga landinu frá því að verða örfoka. Keldur draga nafn sitt af uppsprettum sem koma víða fram á bænum og hefur bærinn og ábúendur hans komið við sögu í mörgum fornum bókmenntum, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu. Gamli bærinn á Keldum er í umsjón Þjóðminjasafnsins og hægt er að skoða hann daglega á sumrin.

 

IMG_4755

Pilthús goðans í Grágæsadal var áður kallað Safnaðarheimilið, en innan við húsið er önnur burst sem í er bænhús. Þó goðinn sé ekki viðlátinn í Grágæsadal er bænhúsið ávalt opið en þar er ætlast til að beðið sé fyrir landinu. Við hjónin höfum tvisvar komið í Grágæsadal til að heimsækja Völund frænda minn, og höfðum með í för jarðverksverktaka ásamt fleira fólki um síðustu helgi komið til að biðja fyrir landinu okkar. Í Grágæsadal er landsins hæsti skrúðgarður í yfir 600 m hæð í þetta sinn var stórfjölskylda úr Reykjavík við garðyrkjustörf, þannig að goðinn gaf sér góðan tíma til að spjalla.

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er torfhús, talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju. Þjóðminjasafnið hefur sett tugi milljóna króna í viðhald og merkingar við gamla bænhúsið, en getur ekki hleypt ferðamönnum að bænhúsinu því jörðin og byggingarnar þar eru í einkaeigu.

 

IMG_4512

Neðan við Núpstað niður við þjóðveg er hengilás og keðja í heimkeyrslunni, í keðjunni hangir skilti með áletrun um einkaeign. Því er ekki hægt að komast til bæna í þjóðminjunum nema fara í gegnum hlaðið á Núpstað. Bærinn á Núpstað er samkvæmt mínu registri síðast torfærinn af Skaffellskri gerð sem uppi er standandi og væri verðugt verkefni að koma honum til vegs og virðingar þó svo að það væri ekki nema fyrir þær sakir einar, jafnvel þó hann yrði áfram prívat.


Túristatrekkjari úr torfi og steypu

Vök

Það hefur farið mikið fyrir fréttum af nýjum hótelherbergum á landinu bláa undanfarið og hafa þær hlutfallslega haldist í hendur við fréttir af fækkandi ferðamönnum. Það veitir því varla af að bjóða upp á eitthvað sem trekkir túristann svona allavega á meðan fjármála hrun, eldgos og önnur óáran trilla þá ekki til landsins.

Ég sagði frá því hérna í bloggi fyrir nokkru að mér hafði verið komið fyrir í rofabarði, og það um hásumar við skrapa niður grjótharða steypu því einhverjum stjörnuleikmönnum  landsliðsins í kúlu hefðu dottið í huga að fjármagna gamla og blauta drauma sveitavargsins á Héraði um ylströnd við Urriðavatn í svokölluðum Þvottavökum. Svo vildi til núna um helgina að Vök-Baths varða endanlega að veruleika.

Þessi framkvæmd er búin að ganga fram af flestum heimafengnum iðnaðarmönnum. Enda eru íslenskir iðnaðarmenn að mestu lúin lýður nátttrölla kominn á grafarbakkann, sem verður  brátt hvíldinni feginn. En ekki þótti annað við hæfi en opna herlegheitin í sumar, annað er víst svo slæmt „PR dæmi“ úr því að útsendarar kúluspilaranna voru búnir að þenja út bringuna og slá sér á bjóst. Auk þessi er talið afleitt að „opna inn í veturinn“ í þessum PR heimi landsliðsins, en flinkastir eru þeir á dagatal.

IMG_0984

Þessi hvínandi steypu skröpun í rofabarðinu hefur orðið til þess að ég tek mér langt sumarfrí það lengsta á ævinni, svo snakkillur varð ég þegar það var búið að hafa af mér að steypa ferska steypu úti í guðs grænni náttúrunni eins og vanalega. Að vinna fyrir aura landsliðsins í kúlu hefur af minni hálfu því sem næst kostað uppgjör við bæði guð og menn. Allavega eru pólsku vinnufélagarnir fyrir löngu búnir að tilkynna mér vinslit þó svo að þeim hafi ekki þótt taka því hingað til að skilja íslensku.

Núna við opnunina um helgina hitti ég svo verkfræðinginn við drulluskurðinn ofan við hús og hafði vit á að óska honum til hamingju með daginn. Ég sagði honum að þetta kæmi mér allt saman verulega að óvart, ég hefði ekki haft nokkra trú á öðru en að þeir hefðu allt niður um sig „inn í veturinn“ nema þá í besta falli sem PR dæmi með tölvugerðum myndum á facebook. En Vök-Baths hefur verið opið alla daga vikunnar á heimasíðunni 11 am - 11 pm frá því 1. maí, bara uppbókuð þar til nú um helgina vegna einkasamkvæmis iðnaðarmanna.

IMG_0979

Verkfræðingurinn tók brosandi hringinn í spaðann á mér þó svo að orðalepparnir mínir um vitsmuni verkfræðinga hafa dunið á honum í gegnum tíðina. Þrátt fyrir það hefur hann ekki ennþá tilkynnt vinslit líkt og Pólverjarnir sem ekkert skilja. En hann er nú reyndar óvenjulegur að því leiti að hann byrjaði sinn starfsferil sem handlangari í múrverki og hef ég aldrei skilið hvernig honum tókst að fara í hundana.

Það verður samt að viðurkennast að vel hefur tekist til með Vök-Baths og ætti þessi framkvæmd að vera síðuhafa til yndisauka, sem hefur hér margoft dásamað innlend byggingarefni á við torf, grjót og steypu. Það má kannski að sumu leiti segja að draumur hafi ræsts um að fá að taka þátt í byggingu mannvirkis úr svo heimafengnu efni, steypumöl úr hinni fornu horfnu Jöklu, torfi úr Tungunni og lerki úr Hallormstaðarskógi, í byggingu aðstöðuhúss við volgar vakir Urriðavatns. Eins verður trauðla hjá því komist að lofsama hönnuði fyrir efnistök og útlit.

IMG_0990

Þetta verkefni mitt í rofabarðinu miðaði að því að ná fram einhverskonar steypulúkki á gólf úr grjótharðri steypu. Eftir að hafa slípað, pússað og bónað um tveggja mánaða skeið varð árangurinn eins og gamall slitinn fjósflór. Stærstu kostirnir við verkið voru að sumt af grófustu fíneseringunum þurfti að vinna á nóttunni og sú vinna hitti á bjartasta tíma ársins. Björt sumarnóttin er eitthvað sem engin ætti að sofa af sér.

Þrátt fyrir þessa jákvæðu punkta þá ætla ég að þrjóskast eitthvað lengur í sumarfríi þó svo Austfjarðaþokan nái niður fyrir eyrnasnepla og þeim fari óðum fækkandi steypudögunum. Enda fer kannski að verða nóg komið af þessari steypu.

Vök steypa 


Öldin er önnur en þokan sú sama

Það verður seint sagt um suma staði að þeir megi muni sinn fífil fegurri. Þeir eru einfaldlega eins og fíflarnir sem þrífast betur eftir því sem harðar er að þeim sótt. Einn af þessum stöðum er Djúpivogur sem er á Búlandsnesinu á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Það er ekki nóg með að staðnum hafi fleytt fram, heldur hefur Búlandsnesið stækkað svo um munar. Þar hafa hafstraumar sópað upp sandi og búið til nýjar landfyllingar á milli eyja sem áður voru úti fyrir landi.

IMG_2945

Búlandsnesið, þar sem Djúpivogur sker sig inn í landið, hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi en hvorki ríki né kirkju. Í bók sinni Að Breyta fjalli fer Stefán Jónsson fréttamaður yfir þau vandkvæði sem felast í því þegar kristfjárjarðir eru annarsvegar og engir pappírar finnast um gjörninginn. Hann segir m.a.; „hitt er ljóst að einhver eigandi jarðarinnar til forna gaf hana fátækum í Geithellnahreppi fyrir sálu sinni“ og rekur síðan vandræði sveitarstjórnarmanna í hinum forna Geithellnahreppi.

Það er ekki víða á Íslandi sem fólk býr bókstaflega í landi Jesú Krists; við ævintýr, sem innihalda leyndardómsfullt landslag, heimsins hæsta píramída og sannar sjóræningja sögur. Og það sem dularfyllst er af öllu, hina óendanlegu Austfjarðaþoku. Nikólína Weywadt, sem fyrst tók veðurathuganir fyrir Veðurstofuna við Berufjörð og fyrsti ljósmyndari á Austurlandi, taldi á þriðja hundrað þoku daga um margra ára skeið í veðurathugum sínum á síðustu ártugum 19. aldar. Þeir sem vilja gera lítið úr Austfjarðaþokunni hafa haldið því fram að ekki hafi þokubólstur mátt bera í Búlandstindinn svo Nikólína hafi ekki talið þokudag.

Eftir að hafa búið á Djúpavogi hátt á annan áratug, í lok síðustu aldar, dettur mér ekki í hug að rengja veðurathuganir Nikólínu Weywadt, og er ég ekki frá því að hafa upplifað á þriðjahundrað daga á ári umlukinn þoku. Eins bera fjölmargar ljósmyndir Nikólínu frá Djúpavogi þess merki að þokan hafi verið venju fremur ágeng á hennar tíð. Þokan á sér mun fleiri hliðar en dulúðina, að úr henni ýrist úði og í henni geti leynst álfabyggðir og falleg fjöll. Stefá Jónsson fréttamaður sagði um hana m.a.í bók sinni Gaddaskata að þokan gæti orðið svo þykk í Djúpavogsblánum að lítið hefði þýtt að leita þar að belju fyrr en andardráttur hennar hefði fundist við eyrað.

IMG_2921

Síðustu helgi var varið á Djúpavogi og naut ég þess að upplifði sólskinsbjarta Jónsmessunótta í eitt skiptið enn. Byrjaði á að fara upp á Bóndavörðu þar sem útsýnið yfir bæinn er best. Þokan kom yfir Búlandsnesið og byrgði fljótlega sýn. Drunur sem ég gat mér til að væru frá skipsvélum heyrðust út úr þokunni í gegnum næturkyrrðina, skreytta fuglasöng. Ég hugsaði með mér hvað ef Hundtyrkinn væri nú aftur á ferð um þennan bjarta tíma. Það var fyrir hátt í 400 árum sem þokan bjargaði þeim fáu sem þá urðu eftir við þennan fjörð.

Um þá nótt var sumarblíða á Djúpavogi, bjart en þoka í miðjum hlíðum. Sjóræningjaskipin sigldu inn Berufjörð að Djúpavogi og vörpuðu akkerum á móts við Berunes. Um morguninn og næstu tvo daga á eftir fóru sjóræningjarnir með ránum og manndrápum um verslunarstaðin við Djúpavog, Hálsþinghá, en svo nefndist íbúabyggðin þá, Berufjarðarströnd og Breiðdal. Hundtyrkinn drap fjölda fólks og tóku á annað hundrað manns til fanga er þeir seldu í Barbaríinu í Alsír.

Þeir fáu íbúar sem sluppu undan Tyrkjunum, sem voru ekki Tyrkir, komust inn í þokuna til að leynast þangað til sjóræningjaskipin léttu akkerum og hægt var að snúa heim á ný. Jón Helgason segir í bók sinni um Tyrkjaránið; „Ömurlegastir voru þó í umkomuleysi sínu þeir bæir, er enginn vitjaði, þótt skipin væru horfin á braut og þeir voru margir um Berufjarðarströnd og Hálsþinghá: Allt fólkið hertekið. Börnin sem þar höfði signt sig á bæjarhlaðinu hvern morgun, tóku ekki gleði sína á ný við leik á hóli eða fjörusandi, þau grétu í dimmum og fúlum lestum víkingaskipanna.“

IMG_2993

Svalbarðstanginn sem aðskilur Gleðivíkurnar, farþegaskip stefnir inn á þá innri þar sem höfnin er með heimsfrægu eggjunum hans Sigurðar í "Himnaríki". Út á firði liggur annað farþegaskip við akkeri og ber í þokuna, sem ferjaði farþegana í land með skipsbátunum.

Þegar ég rýndi út í þokuna, þaðan sem drunurnar heyrðust, sá ég grilla í stórt skip koma út úr þokunni. Fljótlega koma annað og stemmdu þau inn Berufjörðinn. Það fyrra kastaði akkerum út af Djúpavogi á móts við Berunes rétt eins og sjóræningja skipin forðum. Seinna skipið sigldi fullri ferð fram hjá því fyrra inn á höfnina í Innri-Gleðivík. En í þetta sinn voru það skemmtiferðaskip og við Matthildur mín stödd á Djúpavogi sem barnapíur dótturdóttir okkar, sólargeislans Ævi, en foreldrar hennar þjónustuðu ferðamenn þessa Jónsmessuhelgi.

Undanfarin ár hefur á Djúpavogi verið gert gríðarlegt áttak í ferðaþjónustu og varðveislu gamalla húsa, bærinn bókstaflega blómstrar hjá öllu því unga fólki sem þar lætur drauma sína rætast. Ég notaði nóttina til að rölta um og skoða fyrrum heimabæ okkar Matthildar og minntist góðra daga okkar bestu ára. Þá voru farin að sjást merki þess í hvað stefndi. Þá gengu húsin Geysir og Langabúð í endurnýjun lífdaga eftir erfið ár. Þá voru þau hús sem mín kynslóð byggði ný og glæsileg en mörg gömlu húsin í lakar ástandi. Nú má segja að öldin sé önnur. Þegar ég skoðaði húsin sá ég að rétt var að nota þokuna til að fara með veggjum, eða réttara sagt klettum. Því það sama á við um mig og verkin mín, að eldast illa.

Við Matthildur yfirgáfum Djúpavog um aldamótin. Það voru erfiðir tímar. Hún sjómannsdóttirin fædd og uppalin í einu af fallegu húsum bæjarins. Stuttu áður höfðu fjögur stór fiskiskip verið seld frá staðnum á nokkrum mánuðum. Íbúum fækkaði, nemendum í skólanum fækkaði um helming á örfáum árum. Aflaheimildir og fiskvinnsla var vistuð hjá Vísi í Grindavík sem hélt uppi skertri vinnslu á Djúpavogi, þar til fyrir skemmstu að þeir léttu akkerum hurfu á braut.

IMG_3022

 Gamli góði Djúpivogur, verslunarhöfn í 430 ár og fiskihöfn frá ómunatíð.

Þó svo að áfallið hafi verið stórt þegar fleiri þúsund tonna kvóti fór frá staðnum á svo til einni nóttu þá hefur unga fólkið á Djúpavogi aldrei misst móðinn, það þrífst líkt og fíflarnir sem vonlaust er að slá, því þeir spretta bara enn fleiri blómstrandi upp aftur morgunnin eftir. Staðurinn sem stendur í kristfjárjörðinni hefur sennilega alla tíð átt því láni að fagna að þar fær unga fólkið tækifæri til að láta drauma sína rætast, rétt eins og sá maður sem stal sjálfum sér forðum -Hans Jónatan; fyrsti blökkumaðurinn er sögur fara af á Íslandi.

Á mínum manndómsárum á Djúpavogi varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera í hreppsnefnd í því sem næst tvö kjörtímabil, það fyrra var styttra vegna sameiningar sveitarfélaganna, Búlands-, Berunes- og Geithellna-hreppa. Oft var tekist á um málefni dagsins á minni tíð en aldrei um varðveislu þess gamla. Það er helst að ég minnist þess að við höfum jagast um staðsetningu Geysis. Ég vildi ekki færa Geysi um sentímetra, en við húsið var í þá daga eitt helsta blindhorn bæjarins. Þar varð ég undir í argvítugum minnihluta eins og vanalega.

Ég sá það, þegar þokunni létti svo undursamlega á þessu Jónsmessunætur rölti, að auðvitað hef ég hagað mér eins og hálfviti mest alla tíð, en læt mig samt dreyma um að þokan hafi byrgt mér sín og öldin verið önnur.

Ps. set hér inn nokkrar myndir af misjafnlega gömlum húsum í bænum.

IMG_2959

Geysir var byggður sem hótel rétt fyrir aldamótin 1900 og þjónaði sem slíkur fyrstu árin. Húsið var lengist af notað sem íbúðarhús, og fyrir verslunina Djúpið þegar ég kom á Djúpavog. Hýsir nú skrifstofur Djúpavogshrepps. Húsið gekk í endurnýjun lífdaga um aldamótin 2000. 

 

IMG_0657

Nýja Lögberg, fjölbýlishús með fjórum íbúðum, byggt einhvertíma í kringum 1940.

 

IMG_0659

Gamla Lögberg sagt byggt 1914. Mig minnir að bakhliðar þess hafi verið torfveggir áður en það fékk yfirhalningu, sem gæti bent til þess að það hafi verið byggt í eldri tóft.

 

IMG_0680

Björk, var áður með "kastala brjóstvörn" og torfþaki. Sennilega byggt fleirum en einum áfanga eftir brjóstvitinu. Nýtur sín vel nú sem fyrr, þó svo "brjótsvörn kastalans" sjáist ekki lengur, orðið að húsi funky stíl.

 

IMG_0718

Ásbyrgi byggt 1947 gekk í endurnýjun lífdaga 1989.

 

IMG_0710

Langabúð t.v. er í reynd röð gamalla sambyggðra húsa frá árunum 1758-1850, endurgerð 1989-1997 - Faktorshús t.h. byggt 1848. Bæði húsin tilheyrðu versluninni á Djúpavogi um aldir og fór verslun Kaupfélags Berufjarðar þar fram til ársins 1985.

 

IMG_0741

Bæjarstæðið á Djúpavogi séð frá Bóndavörðu. Hann er óvíða fegurri sjóndeildarhringurinn en á þessum góða útsýnisstað, heyrst hefur fagnaðar kliður frá ferðamönnum sem koma í þoku og sjá henni létta. Hálsþinghá og Hamarsfjörður fjærst t.h., Berufjörður t.v.,,,,jú ég sé að það leynir sér ekki að Geysir hefði átt að fá að standa áfram á sínum stað á bláhorninu í Hótelhæðinni.


Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

Það kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee frá því á síðustu öld. Þá hlustum við á þjóðskáldið syngja um það þegar það hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann. Sjaldnast verða úr þessum Cherokee setum undur og stórmerki í fjaðrasófum grænum, en kemur þó fyrir.

Um síðustu helgi skein t.d. skyndilega við sólu Skagafjörður, eða kannski réttara sagt sólin og Skagafjörðurinn skinust á. Reyndar hafði blundað í mér pílagrímsför í Skagafjörðinn, þó þar megi finna margar helstu perlur íslenskrar byggingalistar er þar ein slík sem hefur glitrað lengur og skærar en allar þær háu svörtu turnlöguðu með skúrþökunum, og jafnvel skærar en sjálft Sólfarið við Sæbraut. 

Það var semsagt síðastliðinn föstudag sem tekin var skyndiákvörðun um að bruna í Skagafjörðinn með gömlu fermingar svefnpokana og láta endanlega verða af því að skoða Víðimýrarkirkju. Í leiðinni var litið á fleiri perlur íslenskrar byggingalistar, m.a. Grenjaðarstað í Aðaldal, Glaumbæ í Skagafirði, Hólakirkju í Hjaltadal, Grafarkirkju við Hofsós og Saurbæjarkirkju inn í Eyjafirði.

IMG_2728

Já skrítið, aðallega torf, sprek og grjót og það hjá steypu kalli. Það má segja sem svo að ég hafi verið orðin hundleiður á að horfa út undan rofabarðinu á kólgugrátt Urriðavatnið og skrapa steypugólfið í niðurgröfnum moldarhaug sem mér var komið fyrir í vor, svo að ég gat ekki lengur á mér setið. Enda minnir mig Nóbelskáldið hafi einhversstaðar komist svo að orði að sementið væri byggingarefni djöfulsins og getur það svo sem verið rétt ef það nær til að harðan sem ómótaður óskapnaður.

En um Víðimýrarkirkju hafði Nóbelskáldið þetta að segja; „Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús.“

Þegar við hjónin komum að Víðimýrarkirkju í glampandi sól og sumarhita þá var hún læst. Við vorum varla farin að hugleiða það að naga þröskuldinn þegar staðarhaldarinn Einar Örn kom askvaðandi yfir túnið á ensku. Við heilsuðum á íslensku og tókum tvisvar fram að hún væri okkar móðurmál. Hann bað afsökunar á margítrekuðu athugunarleysinu en sagðist hafa það sér til málsbóta að sjaldséðir væru hvítir hrafnar. Þetta var reyndar ekki eini staðurinn í þessari ferð sem þetta kom upp, þetta var viðkvæðið á öllum þeim stöðum sem höfðu að geyma þjóðlega menningu og byggingalist sem við skoðuðum í þessari ferð.

Einar Örn bætti heldur betur fyrir óþrifalega enskuslettuna með því að segja skemmtilegar  sögur úr kirkjunni. Það á t.d. að hafa tekið 6 tíma að ferma Stefán G Stefánsson Klettafjallaskáld samkvæmt því sem skáldið sagði sjálft eftir að hann var fluttur til Ameríku. Presturinn sofnaði þrisvar og þurfti jafn oft út þegar hann vaknaði til að fá sér ferskt loft og hressingu en hafði alltaf gleymt hvar í athöfninni hann var staddur þegar hann kom inn aftur og byrjaði því upp á nýtt. Þessi langdregna fermingarmessa fór illa í suma Skagfirska bændur því það var brakandi heyskaparþurrkur.

IMG_2736

Altaristafla Víðimýrarkirkju er frá kaþólskum sið því ekki þótti taka því að skipta henni út við siðaskiptin. Eins fengum við að heyra að kirkjan væri vinsæl til hjónavígslna, og þá oft um erlend pör að ræða, ekki væri óalgengt að þau bókuðu með margra mánaða, jafnvel ára fyrirvara. Fyrir nokkru hafði samt verið gefið saman í skyndingu par, þar sem hann var gyðingur en hún kaþólikki. Þau hefðu verið spurð hvernig þau ætluðu að skýra út fyrir sínum nánustu valið á guðshúsinu. Gyðingurinn svaraði fyrir þau bæði og sagði að það væri seinna tíma vandámál sem biði þar til heim væri komið.

Þó svo litla listaverkið sem kostað var minna til en meðal hesthúss, að mati Nóbelskáldsins, hafi ekki staðið í Víðimýri nema frá 1864 þá eru margir munir hennar mun eldri, líkt og altaristaflan. Í Víðimýri hefur verið bændakirkja frá fornu fari, eða allt frá kristnitöku á Íslandi. Hún var samt ekki talin til sóknarkirkna fyrr en árið 1096. Það er ekki vitað hver lét reisa upphaflegu kirkjuna. En sú hefur verið rúm miðað við núverandi kirkju, því að í henni voru sögð vera 4 altari, eitt háaltari og þrjú utar í kirkjunni. Víðimýrarkirkja var helguð Maríu mey og Pétri postula.

Það hafa margir merkir prestar þjónað staðnum, þ.á.m. Guðmundur góði Arason, sem varð síðar biskup á Hólum 1203-1237. Kolbeinn Tumason var þá héraðshöfðingi í Skagafirði og kom Guðmundi góða á biskupsstól og hugsaði sér með því gott til glóðarinnar. En öðruvísi fór með sjóferð þá því Guðmundur lét ekki að stjórn og endaði Kolbeinn líf sitt í Víðinesbardaga við Hóla þegar einn af mönnum Guðmundar góða kastaði grjóti í hausinn á honum. 

IMG_2732

Þá var öldin kennd við Sturlunga og menn ortu sálma á milli manndrápa. Kolbeinn Tumason var af ætt Ásbirninga og hafði lagt margt á sig til að halda höfðingja tign m.a. við Lönguhlíðarbrennu, þar sem Guðmundur dýri Þorvaldsson og Kolbeinn fóru að Lönguhlíð í Hörgárdal og brenndu inni Önund Þorkelsson ásamt Þorfinni syni hans og fjóra aðra en mörgum öðrum heimamönnum voru gefin grið. Þeir Önundur og Guðmundur höfðu átt í deilum og brennan var talin níðingsverk.

Sálmurinn Heyr himna smiður er eftir Kolbein Tumason í Víðimýri, hvort hann hefur fengið hugmyndina af honum kirkjunni eftir Lönguhlíðarbrennu skal ósagt látið, en talið er að hann hafi samið hann rétt fyrir andlát sitt þegar hann fór fylktu liði í Hóla til að tukta Guðmund góða biskup Arason, er svo slysalega vildi til að einn af liðsmönnum biskups kastaði steini í höfuðið á Kolbeini. Eins og Sturlunga fer greinilega með heimildir og nafngreinir þá sem að manndrápum koma þá upplýsir hún ekki hver var grjótkastarinn.

Kolbeinn kvað; „Heyr, himna smiður, hvers skáldið biður, komi mjúk til mín miskunnin þín. Því heit eg á þig, þú hefur skaptan mig, ég er þrællinn þinn, þú ert Drottinn minn.“ Þessi sálmur er ein af gersemum íslenskrar tungu sem fer stórum á youtube með yfir 7 milljón áhorf. Eftir pílagrímsferð í Mekka íslenskrar byggingalistar er þá nema von að sonur þjóðar, sem  þarf að kynna sín helstu menningarverðmæti á ensku á eigin heimavelli til þess að hafa áheyrendur, spyrji líkt og Bubbi; Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband