Færsluflokkur: Hús og híbýli

Í þögn stendur verksmiðjan ein

IMG_4328

Það er fátt sem á eins vel við "þetta reddast" hugarfar þjóðarsálarinnar og verksmiðjurekstur. En dramatíkin hefur þó verið mest í kringum síldarbræðslur. Til eru dæmi þess að sjálfstæð hagkerfi með eigin gjaldmiðli hafi orðið til kjölfar bræðslu, s,s, Djúpavogspeningarnir sem notaðir voru á áhrifasvæði Kaupfélags Berufjarðar eftir að síldin hvarf árið 1968 og nýbyggð bræðsla stóð verkefnalaus í skuld. Bræðslan á Djúpavogi var síðan orðin úrelt þegar næsta uppsjávarævintýri gekk í garð með tilheyrandi bræðslubyggingum á 10 áratug síðustu aldar. En gamla bræðslan hafði dugað ágætlega sem gúanó fabrikka við að losa frystihúsið við fiskiúrgang í beinamjöl.

Aftur var hafist handa á Djúpavogi við að endur -bæta og byggja-  bræðsluna seint á 10. áratugnum sem endaði svo með enn meiri ósköpum en einungis þeim að taka upp sjálfstæðan gjaldmiðil. Upp úr því ævintýri tapaðist stærsti hluti aflaheimilda á staðnum, fiskiskipin hurfu á braut og mest allt forræði heimafyrir yfir sjávarútvegi fór forgörðum. Lokakaflinn í sorgarsögu bræðslunnar á Djúpavogi var svo þegar Guðrún Gísladóttir KE, þá eitt glæsilegasta skip íslenska flotans, sökk við Lofoten í Noregi.

Síðan hafa eggin hans Sigurðar listamanns í Himnaríki skreytt löndunarkæjan í Innri Gleðivík og Rúllandi snjóboltar verið helsti árlegi viðburðurinn í bræðslunni og hægt hefur verið að komast inn í einn hráefnistankinn til að öskra, auk þess sem húsakynnin hafa verið notuð til að flokka sorp. Það sorglega er að þessi örlög mátti sjá fyrir, því það að byggja upp bræðslu að áliðnu ævintýri hefur oftast endað með ósköpum. Í tilfelli Djúpavogs endaði kvótinn fyrir slikk hjá Vísi í Grindavík, eða eins einn kunningi minn orðaði það, þeir fengu 4 milljarða kvóta fyrir 1 milljarð og seldu um leið bræðsluna fyrir 1 milljarð og borguðu þar af leiðandi aldrei neitt. 

IMG_4333 

Það var ekki meiningin að nota þennan pistil í að básúna um bræðsluna á Djúpavogi og það hvernig mikilmennskubrjálæði og hjaðningavíg heimamanna ollu Djúpavogi stórtjóni undir aldamótin. Enda sú sorgarsaga of stór fyrir mitt hjarta og þennan pistil. Heldur ætlaði ég að segja frá afreki í Djúpuvík, sem mig hefur alltaf heillað sem steypukall, en ég gerði mér erindi til að skoða núna í sumar. Bræðslubyggingar byggingameistarans í Djúpuvík urðu reyndar þrjár risa bræðslur sem standa enn í Djúpuvík, á Hjalteyri og í Ingólfsfirði.

Það sem undraði mig mest þegar ég heyrði fyrst sagt frá byggingu þeirra var hvað byggingameistarinn var ungur að árum og hvernig hann fór að því að steypa upp þvílík mannvirki um há vetur. Því allir sem eitthvað hafa fengist við steypu vita hvað erfitt er að steypa í frosti. En kannski var einmitt ungur aldur byggingameistarans ástæðan fyrir því hversu vel tókst til að steypa í frosti, frjór ofurhugur hins unga manns með ögn af fífldirfsku.

Byggingameistarinn hét Helgi Eyjólfsson og var fæddur á Grímslæk í Ölfusi 1906. Helgi lærði húsasmíði og fékk meistararéttindi sem húsasmiður árið 1928. Næstu 20 árin stundaði hann sjálfstæðan rekstur og byggði mörg falleg hús í Reykjavík og víðar. Þar að auki byggði hann síldarverksmiðju Alliance í Djúpuvík í Reykjafirði á Ströndum árið 1935, verksmiðju Kveldúlfs á Hjalteyri 1937 og síldarverksmiðju í Ingólfsfirði 1942. Helgi hefur því verið innan við þrítugt þegar hann byggir verksmiðjuna í Djúpuvík.

Alliance reisti á sínum tíma fullkomnustu síldarbræðslu í Evrópu í Djúpuvík. Hlutafélagið Djúpavík hf var til þess stofnað 22. september 1934. Framkvæmdir stóðu yfir árin 1934­-35. Guðmundur Guðjónsson arkitekt teiknaði verksmiðjuna og sá um byggingu hennar með Helga. Fyrsta sumarið, sem verksmiðjan var tilbúin til að taka við síld til vinnslu, 1935 brást síldin algerlega. Næsta ár var svo mjög gott, en síðan gekk á ýmsu, þar til síldin hvarf alveg af Húnaflóa og var starfsemi hætt 1952.

IMG_4343

Það er fjallað um þessar bræðslubyggingar í bók Birgis Sigurðssonar rithöfundar "Svartur sjór af síld". Með ólíkindum er hvernig Helga tókst að reisa stærstu byggingar, sem reistar höfðu verið úr steinsteypu hér á landi við þær aðstæður sem ríktu á miðjum fjórða áratugnum og það í Djúpuvík. Í bók Birgis segir Helgi frá því þegar hann tók að sér að byggja bræðslu  á Hjalteyri við Eyjafjörð fyrir Kveldúlf hf eftir að afrek hans í Djúpuvík höfðu spurst.

-Að hausti til tveim árum eftir að ég byggði á Djúpuvík, komu Kveldúlfsmenn til mín, Richard Thors og bræður hans. - Viltu byggja fyrir okkur síldarstöð á Hjalteyri? Spurðu þeir. - Ég veit ekki, sagði ég. - Geturðu lokið henni á tveim árum? - Látið mig sjá plönin og teikningarnar, sagði ég - sannleikurinn er sá, segja þeir, að það veltur á að Kveldúlfur verður gerður upp. Bankinn féllst á að bíða ef við gætum komið stöðinni upp á tveim árum - Látið mig sjá plönin og teikningarnar svo skal ég svara ykkur - Ef þetta gengur ekki erum við búnir að vera segir Richard - Ég skal líta á þetta og segja ykkur hvort það er hægt, sagði ég. Svo skoðaði ég áætlanir þeirra og hugmyndir vandlega. Þetta átti að vera stór síldarbræðsla, minnst fyrir fjóra togara. Það gerði mér auðveldara fyrir að ég var búinn að byggja á Djúpuvík. Síðan boðaði ég þá á minn fund strax þarna um haustið og sagði við þá: - Hafiði ekki áhuga á að geta byrjað að bræða strax næsta sumar á venjulegum tíma? Þeir þögðu bara og störðu á mig og ég fann að þeir álitu sig vera að tala við snarbrjálaðan mann.- 

- Þú steypir nú ekki í frosti! - Það er mitt vandamál, en ekki ykkar, svaraði ég. Síðan fór hver til síns heima. Í mars byrjaði ég að steypa og notaði aðferð gegn frostunum sem aldrei hafði verið notuð í heiminum að vitað var. Ég fékk mér ketil og bjó til kerfi. Dældi svo sjó eftir kerfinu inn á ketilinn og hitaði hann upp í suðumark. Þaðan rann hann svo ó stóran tank og í steypuvélina. Svo steypti ég. Kallarnir í nágrenninu komu til að sjá vitlausa manninn sem steypti í frosti. En steypan varð glerhörð á þrem dögum. Svo kom Richard og sagði - Ja, hvur andskotinn! 

 IMG_4353

Bygging bræðslunnar á Hjalteyri var ævintýr, kraftaverk hraða og vinnuafkasta. Byrjað er að grafa fyrir verksmiðjunni í febrúar, reisa húsið í mars, farið að koma fyrir vélum í því í apríl og maí, og 20. júní er byrjað að bræða þar síld. Í íslenskri byggingarsögu er þetta óviðjafnanlegur byggingarhraði. Síldarverksmiðjan var samt ekki fullreist þegar hún tók til starfa, heldur höfðu þá verið reistir þeir hlutir hennar sem nauðsynlegastir voru svo hún gæti unnið verðmæti og starfað á meðan verið var að reisa aðra hluti hennar eftir því sem þeirra var þörf.

Bræðslubyggingar Helga Eyjólfssonar eru því afrek, þær voru byggðar á mettíma, við erfiðar aðstæður og  um miðjan vetur. Helgi notaði sína aðferð við að steypa í frosti, þó að flestir væru vantrúaðir á þá aðferð og eru jafnvel enn í dag. Allt gekk þó upp og Hjalteyrarverksmiðjan varð mikil lyftistöng fyrir þá Kveldúlfsmenn. Þessar stóru síldarverksmiðjur eru merkilegur kafli í atvinnusögu Íslendinga, þegar síldin kom við sögu og lýsa vel hvernig "þetta reddast" hugarfar landans á það til að hitta beint í mark. 

IMG_4360

 


Út um þúfur

IMG_3988

Ennþá er búið í torfbæjum á Íslandi, það kom heldur neyðarlega í ljós í síðustu viku. En eins og þeir vita, sem hér líta inn, þá hef ég blæti fyrir því að ljósmynda torfbæi, og hef verið að reyna að venja frúna af því að liggja á gluggum rétt á meðan, svona myndana vegna. Um daginn keyrðum við að torfbæ sem ekki átti að vera til samkvæmt mínu registri. Við renndum í hlað og ég sagði strax og stoppað var; ekki liggja á gluggum eins og hver annar túristi, það er dónaskapur að liggja á gæjum hjá fólki. það hnussaði í; hva,,, heldurðu virkilega að það búi einhverjir ennþá í torfbæ.

Það leið ekki á löngu að út um bæjardyrnar á miðburstinni birtist sköruleg kona, sem bauð góða kvöldið á ensku og spurði hvort hún gæti eitthvað fyrir okkur gert. Ég áttaði mig fljótlega á að þetta var ekki álfkona. Við reyndum að bjarga okkur út úr aðstæðunum með því að þykjast ekkert skilja og töluðum bara íslensku, en það dugði skammt. Sú sem var greinilega ekki álfkona upplýsti okkur um það að hún og hennar fjölskylda væru Íslendingar sem byggju í þessum torfbæ og hefði það verið gert um aldir þó svo að stutt væri síðan að þau hefðu gert bæinn upp. Fljótlega fóru umræður út um þúfur eins og íslendinga er siður og hefðu leikandi getað endað í ættfræði eða jafnvel dagþroti ef ekki hefðu birst erlendir túristar til að bjarga málum.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem við Matthildur mín komum okkur í vandræði með forvitni. Fyrir nokkrum árum urðu við að gjöra svo vel að sitja í skammarkróknum því sem næst heila messu, ef svo má segja, en þá vorum við á ferð í Loðmundarfirði. Það á nefnilega það sama við um kirkjur og torfbæi að ég umkringi pleisið með myndavélina að vopni á meðan hún hefur áhuga á því sem fyrir innan er, og enn kemur fyrir að kirkjur eru ólæstar. Þegar við ætluðum að kíkja inn fyrir kirkjudyrnar á Klyppstað þá stóð þar yfir árleg messa í þessum eyðifirði sem telur enga safnaðarmeðlimi.

Þar var fyrrum lærimeistari minn hringjari og ekki var við annað komandi en okkur yrði troðið inn í yfirfulla kirkjuna. Það fór svo að við Matthildur sátum á milli prestanna upp við altarið og snérum að kirkjugestum. Prestarnir voru tveir sem messuðu, þær sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir. Sr. Davíð Þór Jónsson radíusbróðir, sem var þarna sem kirkjugestur, var einnig komið fyrir með okkur Matthildi við altarið og átti hann skilið að sitja í skammarkróknum enda hafði hann komið sér þangað af sjálfsdáðum.

Séra Sigríður Rún talaði úr stólnum og lagði út frá fjallræðunni, um það hvernig varast skyldi farísea og fræðimenn sem væru oftar en ekki sauðir í úlfsgærum. En sleppti því sem betur fer alveg að leggja út frá gluggagæjum. Hún kom síðan inn á að ekki væri samt sjálfgefið með að menn slyppu alfarið við heimsendinn þó svo að vísindamenn væru komnir á slóð óendanleikans.

Okkar tími kynnu þess vegna að líða undir lok á hraða ljóssins. Vísindamenn hefðu komist á slóðina þegar þeir áttuðu sig á að ljósið færi hraðar en hljóðið með því einu að hlusta eftir þrumunni, sem heyrist á eftir að eldingin birtist. Með þessa vitneskju að leiðarljósi hygðust þeir bjarga heiminum og komast aftur fyrir upphafið á hljóðinu og síðan á hraða ljóssins fram fyrir óendanleikann. Spurningin væri samt alltaf sú hvort tíminn hægði þá ekki það mikið á sér að hann stæði að lokum í stað svo allt yrði dimmt og hljótt, og tíminn jafnvel búinn, sem væri þá kannski bara heimsendir.

Litli drengurinn hennar sr. Sigríðar, sem var farið að leiðast langdregin prédikunin, þar sem hann sat með pabba sínum og eldri bróðir á fremsta bekk, hékk orðið á haus á milli fóta föður síns. Á hvolfi horfði hann upp í prédikunarstólinn á móður sína og rétt náði að segja; en mammaaa! áður en pabbi hans dreif sig með hann út úr kirkjunni svo ekki yrði frekari truflun á heimsenda hugleiðingunni.

Þeir voru fleiri feðurnir sem þurftu að fara út með óþreyjufull börn úr árlegri messu á Klyppstað þetta sumarið. Um miðja prédikun var ég farin að ókyrrast og hugleiða hvað það væri gott að hafa börn í sinni umsjá við að kíkja á glugga, en tók svo eldsnöggt þá ákvörðun að fara út með barnið í sjálfum mér þó svo að ég þyrfti að þramma kirkjuna endilanga, fram hjá prédikunarstólnum, á móti söfnuðinum með marrandi gólffjalir undir fótum. Mér er ekki örgrannt um að orð eins þjóðskáldsins gætu átt við þessa brottför barnanna úr Klyppstaðarkirkju "Á flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið af týndum tíma er af nægu að taka".

Hann var miklu skeleggari og skorinorðari kínverski túristinn sem Matthildur hitti í árlegri sumar heimsókn á heiðina um helgina. Þegar hún ætlaða að fara inn torfbæinn og kíkja á kettlinga sem það eru vanir að vera sumarlangt. Þá stóð skyndilega bálsteyttur Kínverji blásvartur í framan úti í bæjardyrunum, rétt eins og úrillur álfur út úr hól, og skrækti prívat, prívat.

 

Ps. Set hér fyrir neðan nokkrar myndir af þjóðlegum þúfnagangi í síðustu viku.

IMG_4002

Á Reykjum Reykjaströnd við Skagafjörð hafa torfhúsatóftir verið endurhlaðnar og eru notaðar sem þjónustuhús við tjaldstæði. Það er allt til alls í þessum húsum og er þetta með skemmtilegri tjaldstæðum sem við höfum gist. Rétt utan við tjaldstæðið er Grettislaug og Grettiscafé. Það var yfir á Reykjaströnd sem Grettir sterki sótti eldinn þegar hann þreytti Drangeyjarsundið um árið og yljaði sér í lauginni á eftir. Engir Íslendingar gistu tjaldstæðið þegar við vorum þar en margt var um erlenda ferðamenn sem vildu ekki fyrir nokkra muni missa af því að upplifa sólarupprás við Drangey.

 

IMG_4482

 Á Keldum Rangárvöllum er torfbær af fornri gerð og er hann jafnframt eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Keldur er einstök heild bæjar- og útihúsa frá fyrri tíð. Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu formgerð torfhúsa, þar sem framhúsin snúa langhlið að hlaði. Sandfok hefur eytt mjög landi kringum Keldur og hafa bændur þar lengi barist harðri baráttu til að bjarga landinu frá því að verða örfoka. Keldur draga nafn sitt af uppsprettum sem koma víða fram á bænum og hefur bærinn og ábúendur hans komið við sögu í mörgum fornum bókmenntum, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu. Gamli bærinn á Keldum er í umsjón Þjóðminjasafnsins og hægt er að skoða hann daglega á sumrin.

 

IMG_4755

Pilthús goðans í Grágæsadal var áður kallað Safnaðarheimilið, en innan við húsið er önnur burst sem í er bænhús. Þó goðinn sé ekki viðlátinn í Grágæsadal er bænhúsið ávalt opið en þar er ætlast til að beðið sé fyrir landinu. Við hjónin höfum tvisvar komið í Grágæsadal til að heimsækja Völund frænda minn, og höfðum með í för jarðverksverktaka ásamt fleira fólki um síðustu helgi komið til að biðja fyrir landinu okkar. Í Grágæsadal er landsins hæsti skrúðgarður í yfir 600 m hæð í þetta sinn var stórfjölskylda úr Reykjavík við garðyrkjustörf, þannig að goðinn gaf sér góðan tíma til að spjalla.

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er torfhús, talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju. Þjóðminjasafnið hefur sett tugi milljóna króna í viðhald og merkingar við gamla bænhúsið, en getur ekki hleypt ferðamönnum að bænhúsinu því jörðin og byggingarnar þar eru í einkaeigu.

 

IMG_4512

Neðan við Núpstað niður við þjóðveg er hengilás og keðja í heimkeyrslunni, í keðjunni hangir skilti með áletrun um einkaeign. Því er ekki hægt að komast til bæna í þjóðminjunum nema fara í gegnum hlaðið á Núpstað. Bærinn á Núpstað er samkvæmt mínu registri síðast torfærinn af Skaffellskri gerð sem uppi er standandi og væri verðugt verkefni að koma honum til vegs og virðingar þó svo að það væri ekki nema fyrir þær sakir einar, jafnvel þó hann yrði áfram prívat.


Túristatrekkjari úr torfi og steypu

Vök

Það hefur farið mikið fyrir fréttum af nýjum hótelherbergum á landinu bláa undanfarið og hafa þær hlutfallslega haldist í hendur við fréttir af fækkandi ferðamönnum. Það veitir því varla af að bjóða upp á eitthvað sem trekkir túristann svona allavega á meðan fjármála hrun, eldgos og önnur óáran trilla þá ekki til landsins.

Ég sagði frá því hérna í bloggi fyrir nokkru að mér hafði verið komið fyrir í rofabarði, og það um hásumar við skrapa niður grjótharða steypu því einhverjum stjörnuleikmönnum  landsliðsins í kúlu hefðu dottið í huga að fjármagna gamla og blauta drauma sveitavargsins á Héraði um ylströnd við Urriðavatn í svokölluðum Þvottavökum. Svo vildi til núna um helgina að Vök-Baths varða endanlega að veruleika.

Þessi framkvæmd er búin að ganga fram af flestum heimafengnum iðnaðarmönnum. Enda eru íslenskir iðnaðarmenn að mestu lúin lýður nátttrölla kominn á grafarbakkann, sem verður  brátt hvíldinni feginn. En ekki þótti annað við hæfi en opna herlegheitin í sumar, annað er víst svo slæmt „PR dæmi“ úr því að útsendarar kúluspilaranna voru búnir að þenja út bringuna og slá sér á bjóst. Auk þessi er talið afleitt að „opna inn í veturinn“ í þessum PR heimi landsliðsins, en flinkastir eru þeir á dagatal.

IMG_0984

Þessi hvínandi steypu skröpun í rofabarðinu hefur orðið til þess að ég tek mér langt sumarfrí það lengsta á ævinni, svo snakkillur varð ég þegar það var búið að hafa af mér að steypa ferska steypu úti í guðs grænni náttúrunni eins og vanalega. Að vinna fyrir aura landsliðsins í kúlu hefur af minni hálfu því sem næst kostað uppgjör við bæði guð og menn. Allavega eru pólsku vinnufélagarnir fyrir löngu búnir að tilkynna mér vinslit þó svo að þeim hafi ekki þótt taka því hingað til að skilja íslensku.

Núna við opnunina um helgina hitti ég svo verkfræðinginn við drulluskurðinn ofan við hús og hafði vit á að óska honum til hamingju með daginn. Ég sagði honum að þetta kæmi mér allt saman verulega að óvart, ég hefði ekki haft nokkra trú á öðru en að þeir hefðu allt niður um sig „inn í veturinn“ nema þá í besta falli sem PR dæmi með tölvugerðum myndum á facebook. En Vök-Baths hefur verið opið alla daga vikunnar á heimasíðunni 11 am - 11 pm frá því 1. maí, bara uppbókuð þar til nú um helgina vegna einkasamkvæmis iðnaðarmanna.

IMG_0979

Verkfræðingurinn tók brosandi hringinn í spaðann á mér þó svo að orðalepparnir mínir um vitsmuni verkfræðinga hafa dunið á honum í gegnum tíðina. Þrátt fyrir það hefur hann ekki ennþá tilkynnt vinslit líkt og Pólverjarnir sem ekkert skilja. En hann er nú reyndar óvenjulegur að því leiti að hann byrjaði sinn starfsferil sem handlangari í múrverki og hef ég aldrei skilið hvernig honum tókst að fara í hundana.

Það verður samt að viðurkennast að vel hefur tekist til með Vök-Baths og ætti þessi framkvæmd að vera síðuhafa til yndisauka, sem hefur hér margoft dásamað innlend byggingarefni á við torf, grjót og steypu. Það má kannski að sumu leiti segja að draumur hafi ræsts um að fá að taka þátt í byggingu mannvirkis úr svo heimafengnu efni, steypumöl úr hinni fornu horfnu Jöklu, torfi úr Tungunni og lerki úr Hallormstaðarskógi, í byggingu aðstöðuhúss við volgar vakir Urriðavatns. Eins verður trauðla hjá því komist að lofsama hönnuði fyrir efnistök og útlit.

IMG_0990

Þetta verkefni mitt í rofabarðinu miðaði að því að ná fram einhverskonar steypulúkki á gólf úr grjótharðri steypu. Eftir að hafa slípað, pússað og bónað um tveggja mánaða skeið varð árangurinn eins og gamall slitinn fjósflór. Stærstu kostirnir við verkið voru að sumt af grófustu fíneseringunum þurfti að vinna á nóttunni og sú vinna hitti á bjartasta tíma ársins. Björt sumarnóttin er eitthvað sem engin ætti að sofa af sér.

Þrátt fyrir þessa jákvæðu punkta þá ætla ég að þrjóskast eitthvað lengur í sumarfríi þó svo Austfjarðaþokan nái niður fyrir eyrnasnepla og þeim fari óðum fækkandi steypudögunum. Enda fer kannski að verða nóg komið af þessari steypu.

Vök steypa 


Öldin er önnur en þokan sú sama

Það verður seint sagt um suma staði að þeir megi muni sinn fífil fegurri. Þeir eru einfaldlega eins og fíflarnir sem þrífast betur eftir því sem harðar er að þeim sótt. Einn af þessum stöðum er Djúpivogur sem er á Búlandsnesinu á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Það er ekki nóg með að staðnum hafi fleytt fram, heldur hefur Búlandsnesið stækkað svo um munar. Þar hafa hafstraumar sópað upp sandi og búið til nýjar landfyllingar á milli eyja sem áður voru úti fyrir landi.

IMG_2945

Búlandsnesið, þar sem Djúpivogur sker sig inn í landið, hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi en hvorki ríki né kirkju. Í bók sinni Að Breyta fjalli fer Stefán Jónsson fréttamaður yfir þau vandkvæði sem felast í því þegar kristfjárjarðir eru annarsvegar og engir pappírar finnast um gjörninginn. Hann segir m.a.; „hitt er ljóst að einhver eigandi jarðarinnar til forna gaf hana fátækum í Geithellnahreppi fyrir sálu sinni“ og rekur síðan vandræði sveitarstjórnarmanna í hinum forna Geithellnahreppi.

Það er ekki víða á Íslandi sem fólk býr bókstaflega í landi Jesú Krists; við ævintýr, sem innihalda leyndardómsfullt landslag, heimsins hæsta píramída og sannar sjóræningja sögur. Og það sem dularfyllst er af öllu, hina óendanlegu Austfjarðaþoku. Nikólína Weywadt, sem fyrst tók veðurathuganir fyrir Veðurstofuna við Berufjörð og fyrsti ljósmyndari á Austurlandi, taldi á þriðja hundrað þoku daga um margra ára skeið í veðurathugum sínum á síðustu ártugum 19. aldar. Þeir sem vilja gera lítið úr Austfjarðaþokunni hafa haldið því fram að ekki hafi þokubólstur mátt bera í Búlandstindinn svo Nikólína hafi ekki talið þokudag.

Eftir að hafa búið á Djúpavogi hátt á annan áratug, í lok síðustu aldar, dettur mér ekki í hug að rengja veðurathuganir Nikólínu Weywadt, og er ég ekki frá því að hafa upplifað á þriðjahundrað daga á ári umlukinn þoku. Eins bera fjölmargar ljósmyndir Nikólínu frá Djúpavogi þess merki að þokan hafi verið venju fremur ágeng á hennar tíð. Þokan á sér mun fleiri hliðar en dulúðina, að úr henni ýrist úði og í henni geti leynst álfabyggðir og falleg fjöll. Stefá Jónsson fréttamaður sagði um hana m.a.í bók sinni Gaddaskata að þokan gæti orðið svo þykk í Djúpavogsblánum að lítið hefði þýtt að leita þar að belju fyrr en andardráttur hennar hefði fundist við eyrað.

IMG_2921

Síðustu helgi var varið á Djúpavogi og naut ég þess að upplifði sólskinsbjarta Jónsmessunótta í eitt skiptið enn. Byrjaði á að fara upp á Bóndavörðu þar sem útsýnið yfir bæinn er best. Þokan kom yfir Búlandsnesið og byrgði fljótlega sýn. Drunur sem ég gat mér til að væru frá skipsvélum heyrðust út úr þokunni í gegnum næturkyrrðina, skreytta fuglasöng. Ég hugsaði með mér hvað ef Hundtyrkinn væri nú aftur á ferð um þennan bjarta tíma. Það var fyrir hátt í 400 árum sem þokan bjargaði þeim fáu sem þá urðu eftir við þennan fjörð.

Um þá nótt var sumarblíða á Djúpavogi, bjart en þoka í miðjum hlíðum. Sjóræningjaskipin sigldu inn Berufjörð að Djúpavogi og vörpuðu akkerum á móts við Berunes. Um morguninn og næstu tvo daga á eftir fóru sjóræningjarnir með ránum og manndrápum um verslunarstaðin við Djúpavog, Hálsþinghá, en svo nefndist íbúabyggðin þá, Berufjarðarströnd og Breiðdal. Hundtyrkinn drap fjölda fólks og tóku á annað hundrað manns til fanga er þeir seldu í Barbaríinu í Alsír.

Þeir fáu íbúar sem sluppu undan Tyrkjunum, sem voru ekki Tyrkir, komust inn í þokuna til að leynast þangað til sjóræningjaskipin léttu akkerum og hægt var að snúa heim á ný. Jón Helgason segir í bók sinni um Tyrkjaránið; „Ömurlegastir voru þó í umkomuleysi sínu þeir bæir, er enginn vitjaði, þótt skipin væru horfin á braut og þeir voru margir um Berufjarðarströnd og Hálsþinghá: Allt fólkið hertekið. Börnin sem þar höfði signt sig á bæjarhlaðinu hvern morgun, tóku ekki gleði sína á ný við leik á hóli eða fjörusandi, þau grétu í dimmum og fúlum lestum víkingaskipanna.“

IMG_2993

Svalbarðstanginn sem aðskilur Gleðivíkurnar, farþegaskip stefnir inn á þá innri þar sem höfnin er með heimsfrægu eggjunum hans Sigurðar í "Himnaríki". Út á firði liggur annað farþegaskip við akkeri og ber í þokuna, sem ferjaði farþegana í land með skipsbátunum.

Þegar ég rýndi út í þokuna, þaðan sem drunurnar heyrðust, sá ég grilla í stórt skip koma út úr þokunni. Fljótlega koma annað og stemmdu þau inn Berufjörðinn. Það fyrra kastaði akkerum út af Djúpavogi á móts við Berunes rétt eins og sjóræningja skipin forðum. Seinna skipið sigldi fullri ferð fram hjá því fyrra inn á höfnina í Innri-Gleðivík. En í þetta sinn voru það skemmtiferðaskip og við Matthildur mín stödd á Djúpavogi sem barnapíur dótturdóttir okkar, sólargeislans Ævi, en foreldrar hennar þjónustuðu ferðamenn þessa Jónsmessuhelgi.

Undanfarin ár hefur á Djúpavogi verið gert gríðarlegt áttak í ferðaþjónustu og varðveislu gamalla húsa, bærinn bókstaflega blómstrar hjá öllu því unga fólki sem þar lætur drauma sína rætast. Ég notaði nóttina til að rölta um og skoða fyrrum heimabæ okkar Matthildar og minntist góðra daga okkar bestu ára. Þá voru farin að sjást merki þess í hvað stefndi. Þá gengu húsin Geysir og Langabúð í endurnýjun lífdaga eftir erfið ár. Þá voru þau hús sem mín kynslóð byggði ný og glæsileg en mörg gömlu húsin í lakar ástandi. Nú má segja að öldin sé önnur. Þegar ég skoðaði húsin sá ég að rétt var að nota þokuna til að fara með veggjum, eða réttara sagt klettum. Því það sama á við um mig og verkin mín, að eldast illa.

Við Matthildur yfirgáfum Djúpavog um aldamótin. Það voru erfiðir tímar. Hún sjómannsdóttirin fædd og uppalin í einu af fallegu húsum bæjarins. Stuttu áður höfðu fjögur stór fiskiskip verið seld frá staðnum á nokkrum mánuðum. Íbúum fækkaði, nemendum í skólanum fækkaði um helming á örfáum árum. Aflaheimildir og fiskvinnsla var vistuð hjá Vísi í Grindavík sem hélt uppi skertri vinnslu á Djúpavogi, þar til fyrir skemmstu að þeir léttu akkerum hurfu á braut.

IMG_3022

 Gamli góði Djúpivogur, verslunarhöfn í 430 ár og fiskihöfn frá ómunatíð.

Þó svo að áfallið hafi verið stórt þegar fleiri þúsund tonna kvóti fór frá staðnum á svo til einni nóttu þá hefur unga fólkið á Djúpavogi aldrei misst móðinn, það þrífst líkt og fíflarnir sem vonlaust er að slá, því þeir spretta bara enn fleiri blómstrandi upp aftur morgunnin eftir. Staðurinn sem stendur í kristfjárjörðinni hefur sennilega alla tíð átt því láni að fagna að þar fær unga fólkið tækifæri til að láta drauma sína rætast, rétt eins og sá maður sem stal sjálfum sér forðum -Hans Jónatan; fyrsti blökkumaðurinn er sögur fara af á Íslandi.

Á mínum manndómsárum á Djúpavogi varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera í hreppsnefnd í því sem næst tvö kjörtímabil, það fyrra var styttra vegna sameiningar sveitarfélaganna, Búlands-, Berunes- og Geithellna-hreppa. Oft var tekist á um málefni dagsins á minni tíð en aldrei um varðveislu þess gamla. Það er helst að ég minnist þess að við höfum jagast um staðsetningu Geysis. Ég vildi ekki færa Geysi um sentímetra, en við húsið var í þá daga eitt helsta blindhorn bæjarins. Þar varð ég undir í argvítugum minnihluta eins og vanalega.

Ég sá það, þegar þokunni létti svo undursamlega á þessu Jónsmessunætur rölti, að auðvitað hef ég hagað mér eins og hálfviti mest alla tíð, en læt mig samt dreyma um að þokan hafi byrgt mér sín og öldin verið önnur.

Ps. set hér inn nokkrar myndir af misjafnlega gömlum húsum í bænum.

IMG_2959

Geysir var byggður sem hótel rétt fyrir aldamótin 1900 og þjónaði sem slíkur fyrstu árin. Húsið var lengist af notað sem íbúðarhús, og fyrir verslunina Djúpið þegar ég kom á Djúpavog. Hýsir nú skrifstofur Djúpavogshrepps. Húsið gekk í endurnýjun lífdaga um aldamótin 2000. 

 

IMG_0657

Nýja Lögberg, fjölbýlishús með fjórum íbúðum, byggt einhvertíma í kringum 1940.

 

IMG_0659

Gamla Lögberg sagt byggt 1914. Mig minnir að bakhliðar þess hafi verið torfveggir áður en það fékk yfirhalningu, sem gæti bent til þess að það hafi verið byggt í eldri tóft.

 

IMG_0680

Björk, var áður með "kastala brjóstvörn" og torfþaki. Sennilega byggt fleirum en einum áfanga eftir brjóstvitinu. Nýtur sín vel nú sem fyrr, þó svo "brjótsvörn kastalans" sjáist ekki lengur, orðið að húsi funky stíl.

 

IMG_0718

Ásbyrgi byggt 1947 gekk í endurnýjun lífdaga 1989.

 

IMG_0710

Langabúð t.v. er í reynd röð gamalla sambyggðra húsa frá árunum 1758-1850, endurgerð 1989-1997 - Faktorshús t.h. byggt 1848. Bæði húsin tilheyrðu versluninni á Djúpavogi um aldir og fór verslun Kaupfélags Berufjarðar þar fram til ársins 1985.

 

IMG_0741

Bæjarstæðið á Djúpavogi séð frá Bóndavörðu. Hann er óvíða fegurri sjóndeildarhringurinn en á þessum góða útsýnisstað, heyrst hefur fagnaðar kliður frá ferðamönnum sem koma í þoku og sjá henni létta. Hálsþinghá og Hamarsfjörður fjærst t.h., Berufjörður t.v.,,,,jú ég sé að það leynir sér ekki að Geysir hefði átt að fá að standa áfram á sínum stað á bláhorninu í Hótelhæðinni.


Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

Það kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee frá því á síðustu öld. Þá hlustum við á þjóðskáldið syngja um það þegar það hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann. Sjaldnast verða úr þessum Cherokee setum undur og stórmerki í fjaðrasófum grænum, en kemur þó fyrir.

Um síðustu helgi skein t.d. skyndilega við sólu Skagafjörður, eða kannski réttara sagt sólin og Skagafjörðurinn skinust á. Reyndar hafði blundað í mér pílagrímsför í Skagafjörðinn, þó þar megi finna margar helstu perlur íslenskrar byggingalistar er þar ein slík sem hefur glitrað lengur og skærar en allar þær háu svörtu turnlöguðu með skúrþökunum, og jafnvel skærar en sjálft Sólfarið við Sæbraut. 

Það var semsagt síðastliðinn föstudag sem tekin var skyndiákvörðun um að bruna í Skagafjörðinn með gömlu fermingar svefnpokana og láta endanlega verða af því að skoða Víðimýrarkirkju. Í leiðinni var litið á fleiri perlur íslenskrar byggingalistar, m.a. Grenjaðarstað í Aðaldal, Glaumbæ í Skagafirði, Hólakirkju í Hjaltadal, Grafarkirkju við Hofsós og Saurbæjarkirkju inn í Eyjafirði.

IMG_2728

Já skrítið, aðallega torf, sprek og grjót og það hjá steypu kalli. Það má segja sem svo að ég hafi verið orðin hundleiður á að horfa út undan rofabarðinu á kólgugrátt Urriðavatnið og skrapa steypugólfið í niðurgröfnum moldarhaug sem mér var komið fyrir í vor, svo að ég gat ekki lengur á mér setið. Enda minnir mig Nóbelskáldið hafi einhversstaðar komist svo að orði að sementið væri byggingarefni djöfulsins og getur það svo sem verið rétt ef það nær til að harðan sem ómótaður óskapnaður.

En um Víðimýrarkirkju hafði Nóbelskáldið þetta að segja; „Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús.“

Þegar við hjónin komum að Víðimýrarkirkju í glampandi sól og sumarhita þá var hún læst. Við vorum varla farin að hugleiða það að naga þröskuldinn þegar staðarhaldarinn Einar Örn kom askvaðandi yfir túnið á ensku. Við heilsuðum á íslensku og tókum tvisvar fram að hún væri okkar móðurmál. Hann bað afsökunar á margítrekuðu athugunarleysinu en sagðist hafa það sér til málsbóta að sjaldséðir væru hvítir hrafnar. Þetta var reyndar ekki eini staðurinn í þessari ferð sem þetta kom upp, þetta var viðkvæðið á öllum þeim stöðum sem höfðu að geyma þjóðlega menningu og byggingalist sem við skoðuðum í þessari ferð.

Einar Örn bætti heldur betur fyrir óþrifalega enskuslettuna með því að segja skemmtilegar  sögur úr kirkjunni. Það á t.d. að hafa tekið 6 tíma að ferma Stefán G Stefánsson Klettafjallaskáld samkvæmt því sem skáldið sagði sjálft eftir að hann var fluttur til Ameríku. Presturinn sofnaði þrisvar og þurfti jafn oft út þegar hann vaknaði til að fá sér ferskt loft og hressingu en hafði alltaf gleymt hvar í athöfninni hann var staddur þegar hann kom inn aftur og byrjaði því upp á nýtt. Þessi langdregna fermingarmessa fór illa í suma Skagfirska bændur því það var brakandi heyskaparþurrkur.

IMG_2736

Altaristafla Víðimýrarkirkju er frá kaþólskum sið því ekki þótti taka því að skipta henni út við siðaskiptin. Eins fengum við að heyra að kirkjan væri vinsæl til hjónavígslna, og þá oft um erlend pör að ræða, ekki væri óalgengt að þau bókuðu með margra mánaða, jafnvel ára fyrirvara. Fyrir nokkru hafði samt verið gefið saman í skyndingu par, þar sem hann var gyðingur en hún kaþólikki. Þau hefðu verið spurð hvernig þau ætluðu að skýra út fyrir sínum nánustu valið á guðshúsinu. Gyðingurinn svaraði fyrir þau bæði og sagði að það væri seinna tíma vandámál sem biði þar til heim væri komið.

Þó svo litla listaverkið sem kostað var minna til en meðal hesthúss, að mati Nóbelskáldsins, hafi ekki staðið í Víðimýri nema frá 1864 þá eru margir munir hennar mun eldri, líkt og altaristaflan. Í Víðimýri hefur verið bændakirkja frá fornu fari, eða allt frá kristnitöku á Íslandi. Hún var samt ekki talin til sóknarkirkna fyrr en árið 1096. Það er ekki vitað hver lét reisa upphaflegu kirkjuna. En sú hefur verið rúm miðað við núverandi kirkju, því að í henni voru sögð vera 4 altari, eitt háaltari og þrjú utar í kirkjunni. Víðimýrarkirkja var helguð Maríu mey og Pétri postula.

Það hafa margir merkir prestar þjónað staðnum, þ.á.m. Guðmundur góði Arason, sem varð síðar biskup á Hólum 1203-1237. Kolbeinn Tumason var þá héraðshöfðingi í Skagafirði og kom Guðmundi góða á biskupsstól og hugsaði sér með því gott til glóðarinnar. En öðruvísi fór með sjóferð þá því Guðmundur lét ekki að stjórn og endaði Kolbeinn líf sitt í Víðinesbardaga við Hóla þegar einn af mönnum Guðmundar góða kastaði grjóti í hausinn á honum. 

IMG_2732

Þá var öldin kennd við Sturlunga og menn ortu sálma á milli manndrápa. Kolbeinn Tumason var af ætt Ásbirninga og hafði lagt margt á sig til að halda höfðingja tign m.a. við Lönguhlíðarbrennu, þar sem Guðmundur dýri Þorvaldsson og Kolbeinn fóru að Lönguhlíð í Hörgárdal og brenndu inni Önund Þorkelsson ásamt Þorfinni syni hans og fjóra aðra en mörgum öðrum heimamönnum voru gefin grið. Þeir Önundur og Guðmundur höfðu átt í deilum og brennan var talin níðingsverk.

Sálmurinn Heyr himna smiður er eftir Kolbein Tumason í Víðimýri, hvort hann hefur fengið hugmyndina af honum kirkjunni eftir Lönguhlíðarbrennu skal ósagt látið, en talið er að hann hafi samið hann rétt fyrir andlát sitt þegar hann fór fylktu liði í Hóla til að tukta Guðmund góða biskup Arason, er svo slysalega vildi til að einn af liðsmönnum biskups kastaði steini í höfuðið á Kolbeini. Eins og Sturlunga fer greinilega með heimildir og nafngreinir þá sem að manndrápum koma þá upplýsir hún ekki hver var grjótkastarinn.

Kolbeinn kvað; „Heyr, himna smiður, hvers skáldið biður, komi mjúk til mín miskunnin þín. Því heit eg á þig, þú hefur skaptan mig, ég er þrællinn þinn, þú ert Drottinn minn.“ Þessi sálmur er ein af gersemum íslenskrar tungu sem fer stórum á youtube með yfir 7 milljón áhorf. Eftir pílagrímsferð í Mekka íslenskrar byggingalistar er þá nema von að sonur þjóðar, sem  þarf að kynna sín helstu menningarverðmæti á ensku á eigin heimavelli til þess að hafa áheyrendur, spyrji líkt og Bubbi; Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

 


Vök á vatni

IMG_0379

Núna í vikunni spurði ég verkfræðinginn þegar við stóðum yfir drulluskurðinum; "mikið ert þú hugsandi vinur, ertu nú að hugsa um mold?". Hann svaraði játandi, og bætti við að bragði "og væntanlega ert þú að hugsa um steypu". Ég jánkaði því enda hefur ekki annað komist að í höfðinu á mér frá því fyrst ég man.

Á þessum árstíma hefur steypuhrærivélina venjulega verið komin í gang og ævintýrum sumarsins verið blandað út í hræruna. En nú bregður svo við að yfir mig hefur verið mokað, eða í sannleika sagt mér komið fyrir í rofabarði. Ég hef því hugsað til þess hvernig aldur færist yfir og þrek fer þverrandi.

Eitt af því sem steypan hefur gefið í gegnum tíðina er útivera, og að sumarlagi oft undir sólbjörtum himni. Næstu vikurnar má ég gera mér það að góðu horfa út undan rofabarðinu á merlandi vatnsflötin þar sem nú heitir Vök í Urriðavatni, eða eins og ber að segja samkvæmt tíðarandans toga - Vök-Baths.

Þarna er mér ætlað að rölta á eftir gólfslípivél sem skrapar niður grjót harða steypu frá í vetur, og á að ná fram einhverskonar lúkki sem engin veit hvernig á að vera. Hávaðinn er ærandi og ég langt í frá að vera vinsælasti maðurinn í holunni. Rafvirkinn kemur annað slagið og lítur leiftrandi augnaráði niður á gólfið og öskrar svo upp í fésið á mér "já ég sé að þú ert á góðri leið með að finna gullið".

Vök-Baths er ætlað að trekkja til sín túrista, þessi miljarða framkvæmd mun víst skila múltí miljörðum þegar fram líða stundir. Ég ræddi það við píparann núna í fyrradag að mig rámaði í að þetta væri gamall draumur frá því fyrir 1970. Áður en sólstrandarferðir urðu inn hjá landanum. Þá dreymdi fólk á Héraði um að við Urriðavatn mætti koma upp ylströnd þar sem vakir væru í ísnum og heitt vatn undir.

Hvort túristarnir ala með sér sama draum og gamlir Héraðsbúar, og eigi eftir að kaupa sér bað í Vök til viðbótar við Jarðböðin, Leirböðin, Saltböðin og Bláa Lónið, og guð má vita hvað á eftir að koma í ljós. En í fyrsta skipti er mig farið að dreyma um að komast í sumarfrí, út í íslenska sumarið. Ég satt að segja man ekki til að það hafi gerst áður þegar steypa er annars vegar.

Set hér inn myndband af gamalli steypu, þegar sumarið var tíminn og hjörtun ung.


Hið dularfulla guðshús goðans

IMG_2350

Það þarf ekki að fara um langan veg til að ferðast langa leið. Í vikunni var skotist hálftíma út fyrir bæinn, að ég hélt til að skoða moldarkofa. Eftir þennan skottúr flugu upp gömul heilabrot sem ekki náðist að raðað saman á sínum tíma. Ástæða þessarar skreppu túrs var upphaflega að skoða nýlega byggða torfkirkju en ekki endilega eitthvað sem næði út yfir rúm og tíma.

Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Sumarið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur. Sú rannsókn leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústirnar voru af lítilli torfkirkju, langhúsi og tveimur minni byggingum. Túngarður úr torfi umlukti byggingarnar.

Kirkjan á Geirsstöðum hefur verið af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni á Íslandi. Líklega hefur kirkjan einungis verið ætluð heimilisfólki á bænum. Tilgáta er um að Geirastaðir gætu hafa verið bær Hróars Tungugoða, sonar Una Danska, landnámsmanns. Hróar var var sagður hafa búið að Hofi, sem var sagt vestan Lagarfljóts, austan Jökulsár og norðan Rangár, sem sagt þar sem heitir Hróarstunga.

Geirsstaðakirkja var endurbyggð 1999 – 2001, undir leiðsögn Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara, Guðjóns Kristinssonar torfhleðslumanns og Minjasafns Austurlands. Það var gert með fjármagni sem kom úr sjóðum Evrópusambandsins, Vísindasjóði rannsóknaráðs Íslands, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Norður-Héraði. Kirkjan er í umsjón fólksins á Litla-Bakka og sér það um varðveislu hennar og viðhald. Kirkjan er opin almenningi gegn vægu gjaldi og framlögum í söfnunarbauk, en Þjóðminjasafn Íslands hefur ekki með þessar sögulegu minjar að gera.

Hróar Tungugoði er með dularfyllri goðum Íslands því hann virðist hafa verið uppi á tveim stöðum í einu, austur á Fljótsdalshéraði og suður við Kirkjubæjarklaustur. Hann er sagður sonur Una danska Garðarssonar og Þórunnar Leiðólfsdóttir. Til er tvær Hróarstungur sem við hann eru kenndar, önnur er austur á Fljótsdalshéraði á milli Lagarfljóts og Jöklu þar sem kirkjan á Geirsstöðum stendur. Hin Hróarstungan er á milli Hörgslands og Foss á Síðu, austur af Kirkjubæjarklaustri, á milli tveggja smálækja. Þar á Hróar Tungugoði að hafa verið drepinn, á slóðum þar sem gæsaskyttur fundu víkingasverð fyrir nokkrum árum. Hróars er m.a. getið í Njálu og Austfirðingasögum, á hann samkvæmt Njálu að hafa verið mágur Gunnars á Hlíðarenda.

Landnáma segir af Una danska sonar Garðars Svavarssonar, þess er fyrstur fann Ísland. Sagt er að Uni hafi farið til Íslands að ráði Haralds konungs hárfagra. "Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós og húsaði þar. Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar. En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast. Uni fór suður í Álftafjörð enn syðra, en náði þar eigi að staðfestast. Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi og tók hann við þeim." Talið er samkvæmt örnefnum að Skógahverfi hafi verið í Vestur-Skaftafellssýslu í grennd við Kirkjubæjarklaustur.

Saga Una danska er því ekki síður dularfull en saga Hróars sonar hans. Uni á að hafa numið land á Fljótsdalshéraði, eða allt frá Unaósi við Héraðsflóa til Unalækjar, sem er á Völlum skammt fyrir innan Egilsstaði. Reyndar er til annar Unalækur sem er mun nær Unaósi og vilja sumir meina að misskilnings gæti um landnám Una og því eigi að miða við þann læk en ekki þann sem er innan við Egilsstaði. Þá væri landnám Una nokkurn veginn þar sem kallað er Hjaltastaðaþinghá og skaraði ekki langt inn í landnám Brynjólfs gamla.

Eins og fram kemur í Landnámu þá virðist landnám Una hafa verið numið áður en hann kom; "er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast". Enda hefur Hjaltastaðaþingháin alltaf verið dularfull með sína Beinageit, Kóreksstaði og Jórvík. Sumir hafa fært fyrir því rök að hún hafi verið Keltneskari en flest landnám norrænna manna á Íslandi. Uni hraktist því suður á land, nánar tiltekið í Skógarhverfi sem talið er hafa verið á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu.

Þar komst Uni í kynni við Þórunni dóttur Leiðólfs og varð hún ólétt. Uni vildi ekkert með Þórunni hafa og forðaði sér, en Leiðólfur elti hann uppi og dró hann ásamt mönnum hans heim til Þórunnar. Uni lét sér ekki segjast og flúði aftur þá fór Leiðólfur aftur á eftir honum og köppum hans og slátraði þeim öllum þar sem heita Kálfagrafir. Þannig endaði landnámsmaðurinn Uni danski ferð sína til Íslands sem sögð var hafa verið farin að undirlagi Haraldar konungs hárfagra svo hann kæmist yfir Ísland.

Hvort Hróar sonur Una hefur átt eitthvað tilkall til landnáms föður síns austur á Héraði er ekki gott að finna út úr eftir allar þessar aldir, en samkvæmt sögum og örnefnum þá virðist hann hafa sest að í Hróarstungu á bæ sem hét Hof, en ekki er vitað hvar það Hof var og er nú giskað á að Geirsstaðakirkja sé Hof. Hróarstunga er að vísu fyrir norðan Lagarfljót en landnám Una danska fyrir sunnan, en vel má vera að Lagarfljót hafi á Landnámsöld ekki átt sinn farveg þar sem hann er í dag. Allavega var það landsvæðið sem tekur bæði yfir Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghá, sem var í landnámi Una, áður kallað ein Útmannasveit.

Ég set hér inn myndir frá guðshúsi goðans.

IMG_2341

 

IMG_2349

 

IMG_2361

 

IMG_0345

 

IMG_2369

Víkingaskip sem hinn skoski steinhleðslumaður Donald Gunn gerði við fyrir framan hringlaga túngarðinn í kringum Geirsstaðakirkju


Eru Bakkabræður komnir á Þjóðminjasafnið?

Galtarstaðir-fram

Það eru til margar sögur af Bakkabræðrum, en sennilega er sú lífseigasta um sólskinið.  Halldór Laxness taldi að birtuskilyrðin í húsum þeirra hefðu lítið lagast þó svo það opinbera hefði sett reglugerð um glugga á þeirra tíð. Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra sagði að þó svo Bakkabræður hefðu stundað mögnuð heimskupör hefði þeim samt aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka. Nóbelskáldið og menntamálráðherrann voru nokkuð samstíga með það að sálin væri heillavænlegri en reglugerðin þegar kæmi að húsum.

"Það er þessi fegurð sálarinnar sem á Íslandi hefur átt heima í torfbyggingarlistinni fornu, einhverri sérstæðustu og merkilegustu náttúrubyggingarlist heimsins." sagði skáldið árið 1939 í ritinu Húsakostur og híbýlaprýði. Síðan þegar torfbærinn leið undir lok eftir 1000 ára þjónustu við þjóðina taldi skáldið að Íslendingar hefðu ekki fundið sálina í neinni stílmenningu þegar byggingalist væri annarsvegar, heldur hafi hún einkennst af handahófskenndum eftiröpunum, flumbrulegum stælingum og skynlausum afbökunum.

Þessar áratuga gömlu hugrenningar þeirra 20. aldar mannanna má sjálfsagt allar til sannsvegar færa. Einnig er hægt að færa rök fyrir því að við nálgumst nú óðfluga ókosti torfbæanna á ný, rakan og mygluna, við byggingu sálarlausra eftirapana byggðum í flumbrugangi með afbökuðum stæl. Þar sem myglan er borin inn samkvæmt ströngustu reglugerðum ásamt innfluttum byggingarefnum. Hvernig sem á því stendur þá virðast handabökin mislagðari eftir því sem reglurnar verða strangari og langt aðkominn efniviðurinn CE vottaðri.

Undanfarin ár hefur verið árviss skoðunarferð að vori út í byggingalist náttúrunnar. En þá hef ég farið að Galtastöðum-fram í Hróarstungu. Aksturinn þangað tekur mig ekki nema um 20 mínútur og er alltaf þess virði. Fyrst þegar ég fór í Galtarstaði fyrir nokkrum árum þá tók ég eftir því að það virtust standa yfir endurbætur á bænum og fór ég því þangað fljótlega aftur til að vita hvernig þeim miðaði. Nú hafa þessar skoðunarferðir staðið á fjórða ár og allt er við það sama, nema tímans tönn.

Galtastaða bærinn er sagður í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1976 og hafi þá þótt merkilegur m.a. vegna þess að þar er fjósbaðstofa. Aðeins ein önnur var til á öllu landinu, og áhugavert væri fyrir nútíma fólk að geta skoðað þannig mannabústað. Hinn merki hleðslumeistari Sveinn Einarsson (1909-1994) frá Hrjót endurbyggði suma torfveggina að Galtarstöðum skömmu eftir að bærinn komst í vörslu Þjóðminjasafnsins en síðan eru liðin mörg ár,,, - áratugir.

Þess vegna var svo ánægjulegt að sjá það fyrir nokkrum árum að framkvæmdir voru við Galtarstaði, kannski kæmi að því aftur að hægt væri að fá að skoða bæinn að utan og innan. Reyndar ber bærinn byggingasögu landsins vitni á margan hátt því við hann var byggt íbúðarhús úr asbesti árið 1960, með tíðarandans flata skúrþaki. Fyrir fjórum árum frétti ég að framkvæmdirnar hefðu verið á vegum Þjóðminjasafnsins og staðið þá í sambandi við asbest húsið með flata þakinu, sem stæði til að gera upp og koma upp í leiðinni loftræstikerfi fyrir gamla bæinn. 

Nú í vetur frétti ég það á förnum vegi að talsverðir fjármunir hefðu komið í Galtastaðabæinn á síðasta ári. Hefðu féð verið notaðir í vegagerð og það að koma fyrir pípuhliði. Hvernig mönnum hefur dottið í hug pípuhlið er ekki gott að átta sig á en sennilegra er að einhver hafi drepið niður fæti í rolluskít, frekar en að eitthvað hafi farið úrskeiðis á milli eyrnanna.

Pípuhliðið stendur eitt og sér langt úti í mýri og því spurning hvað miklar fjárveitingar þarf í girðingar áður en hægt verður að fara í að sinna merkilegustu náttúrubyggingalist heimsins.

 

Hin árlega vorferð í Galtarstaði var farin í gær og eru myndir úr henni hér fyrir neðan.

 

IMG_2276

Upp við þilið á bæjardyrunum hafa staðið aflóga gluggar úr asbestviðbyggingunni s.l. fjögur ár

 

IMG_2271

Fjósbaðstofan: beljurnar voru hafðar niðri og fólkið var upp í ylnum frá beljunum

 

IMG_2280

Að baka til má sjá að einn bær er heil þyrping af húsum, sem líta út eins og grænir hólar að sumarlagi, þarna er m.a. hlóðaeldhús í einum hól, búr í öðrum, heylaða, skemma osfv., alls 7 hús


Hús úr torfi

IMG_1636

Ein af gersemum íslenskra húsa er er torbærinn að Þverá í Laxárdal, Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er sérstakur fyrir það að lækur rennur í gegnum bæinn, þurfti fólkið því  ekki að fara úr húsi til að sækja sér vatn í bæjarlækinn. Einhver þekktasta veiðiá landsins, Laxá í Aðaldal, fellur úr Mývatni um dalinn og til sjávar í Skjálfanda. Dalurinn er fagur og frjósamur. Þar er mikið fuglalíf og fjölskrúðug flóra. Einnig má sjá þar mikið af fjárgirðingum úr grjóti, virðast þær standast tímans tönn einstaklega vel í Laxárdal.

Ég var svo heppinn að eiga erindi í Laxárdal í upphafi viku, vegna þess að fyrirtækið sem ég vinn hjá er að byggja nýja gistiálmu við veiðihúsið Rauðhóla. Þverá er rétt innan við Rauðhóla og langaði mig til að sjá bæinn að vetrarlagi en þangað hafði ég komið í lok sumars fyrir tveimur árum. Það var snjóþungt og kalt í morgunnsárið Laxárdalnum og lét ég því mér nægja að sjá heima að bænum, en set hér með myndir frá fyrri heimsókn.

IMG_1632

Þverárbærinn var byggður á seinni hluta nítjándu aldar af Jóni Jóakimssyni snikkara og bónda á Þverá, sem var rómaður fyrir vandvirkni við smíðar og búskap. Þverá mun vera í einkaeign og Áskell bóndi Jónasson sér um bæinn. Þjóðminjasafn Íslands hefur haft tilsjón með húsunum. Þarna voru útihús af fornri gerð varðveitt auk bæjarhúsanna. Þjóðminjasafnið hefur látið endurbyggja þrjú útihús; fjárhús, hlöðu og hesthús.

Þverárbærinn er kannski þekktastur fyrir að vera vagga Samvinnuhreyfingarinnar sálugu,en fyrsta kaupfélag landsins, Kaupfélag Þingeyinga var stofnað að þar árið 1882. Þeir sem eiga leið um Þingeyjarsýslur heimsækja margir torfbæinn að Grenjaðarstað, en þar er rekið byggðasafn. Þaðan eru aðeins þrettán kílómetrar að bænum Þverá í Laxárdal, sem færri vita af, en þar varðveitir Þjóðminjasafnið þetta sögufræga djásn.

IMG_5354

IMG_5373

IMG_5390

IMG_5378

IMG_5372

IMG_5375

 


Hús úr hassi

DtkMeVnWkAIQrXF

Þó undarlega kunni að virðast þá er farið að byggja hús úr hassi, eða kannski réttara sagt hampi, sem er jurt af þeirri ætt er gefur af sér kannabis. Hollenska fyrirtækið Dun Agro hefur um nokkurt skeið framleitt vörur úr hampi og hefur nú hafið framleiðslu húsa úr þessari jurt. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í að steypa húseiningar úr hampi og telja sig geta afhent 500 hús á ári. Heimasíðuna má skoða hér.

Dun Agro er ekki fyrsta fyrirtækið sem hefur reynt að byggja hamphús. Hins vegar segjast þeir vera fyrstir til að takast það með einhverjum árangri. Þeir vilja meina að eitt af því jákvæðasta við þessi hús sé kolefnisporið. Hampurinn í hús taki til sín ca 13.500 kg af CO2 við það eitt að vaxa, hann er síðan uppskorinn og bundinn í steypu hússins ásamt kolefninu. Það þarf mikil vísindi til að umreikna rúmál ósýnilegrar loftegundar í sýnilegan massa með jákvæðu kolefnisspori í húsi úr hassi, gott ef ekki hugvísindi.

hennepverwerkingsbedrijf-dun-agro-hemp-concrete-con158-6

Hér sést í endan á steyptri hampveggs einingu frá Dun Agro 

En hversu raunhæft er notagildi hamps burtséð frá kolefnissporinu? Ef eitthvað er að marka Vísindavef Háskólans nær saga hampræktunar árþúsundir aftur í tímann. Samkvæmt kínverskri goðsögn færðu guðirnir mannkyninu eina plöntu að gjöf sem átti að uppfylla alla þarfir þess og var plantan sú formóðir allra kannabis- og hampplantna í heiminum.  Mikilvægi hamps og notagildi hans hefur ekki síst legið í því hversu trefjaríkir stofnar plöntunnar eru. Trefjarnar mátti nota í klæði, segl, reipi, pappír og margt fleira. Sem dæmi var hampur notaður bæði í segl og kaðla á tímum landafundanna miklu. Greinina um hamp á vísindavefnum má nálgast hér.

Hamp er hægt að rækta hér á landi, og þá á annan hátt en við raflýsingu til ólöglegra nota. Fyrstu skráðu heimildir um ræktun á hampi á Íslandi er að finna í bréfi sem Vísi Gísli sendi syni sínum árið 1670 þar sem hann segir frá tilraunum sínum með að rækta innfluttar plöntur. Fyrir rúmum áratug var gerð tilraun með ræktun á iðnaðarhampi úti í guðs grænni náttúrunni norður í Eyjafirði og gekk ræktunin vel. Um notkunar möguleika hampsins má einnig fræðast í BB hér.

Það hefur verið talið, þar til fyrir skemmstu, að sá sé í besta falli "steiktur hasshaus", sem hefði látið sér detta í hug að byggja hús úr hassi. En eftir að tilvist heimsins byggist orðið að mestu á hinu ímyndaða kolefnisspori og reiknikúnstum sem má líkja við gullgerðalist, þarf sá ekki að vera neitt "steiktur" sem lætur sér til hugar koma að byggja og selja hús úr hassi þó ekki væri nema kolefnissporsins vegna. Þó svo sporinn hræði þá virðist hampur veraverulega misskilin jurt.

hampur_litil_221015

Waking Times


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband