Færsluflokkur: Hús og híbýli

Indiana Jones

IMG_0949

Sum verkefni valda meiri heilabrotum en önnur og þurfa hvorki að vera stór né merkilegt til þess. Eitt af þeim fáu verkefnum sem ég gafst gjörsamlega upp fyrir var ekki stórt. Það veldur mér samt enn heilabrotum, tæpum níu árum seinna. Ég ætla nú að reyna að segja frá þessu ómerkilega verkefni í máli og myndum.

Sumarið 2013 vorum við vinnufélagarnir Juma, -súdanskur höfðingi flúinn stríðshrjáð Darfur, og ég flóttamaður -hins svokallaða íslenska hruns, -sendir upp í Bláfjöll á Skånland í Troms. Við áttum að aðstoða samann Karstein við að endurbyggja jarðhýsi.

Ég hafði farið með Karstein og tveimur samískum starfskonum samasetursins Vardobáiki upp í Bláfjöll á snjósleða um veturinn í skoðunarferð. En verkefnið kom til Murbygg í gegnum samasetrið eftir að við Juma höfðum endurhlaðið fjósmúrinn í Gallgiedde, sem ég sagði frá í pistli hér á blogginu í vetur.

IMG_3596

Þetta verkefni virtist hvorki vera umfangsmikið né merkilegt, u.þ.b. fjögra fermetra jarðhýsi sem hafði verið matavælageymsla þeirra sama sem bjuggu seinni hluta 19. aldar í litlum afskekktum dal upp í Bláfjöllum.

Það hafði að vísu sótt á mig smá óhugnaður þegar ég leit inn, eftir að við vorum búin að grafa okkur niður á jarðhýsið um veturinn, sem þá var á kafi í snjó og mér þótti undrum sæta að Karstein fyndi í snjóbreiðunni.

Hugmynd hafði kviknað á Várdobáiki um að auðveldara gæti verið að standa að endurbyggingu meðan enn væri frost í jörðu. En Karstein sló á þá hugmynd með sannfærandi rökum. Þetta væri jarðhýsi og það væri ekki í frosinni jörð, heldur frostfríum og sendnum jarðvegi, enda héti skógurinn í hlíðum Bláfjalla Sandmarka.

IMG_1110

Það virkar kannski hálf hjákátlega að fara inn í jarðhýsi með hjálma þegar aðrir eins hnullungar eru í þaksperrum og þarna er yfir höfði

Um mitt sumar sendi Mette í Murbygg okkur Juma óvænt upp í Bláfjöll til að aðstoða Karstein við að endurbyggja jarðhýsið. Staðurinn heitir Vilgesvarre og er úr alfaraleið, án rafmagns, símasambands og allra nútíma þæginda. Eftir nokkurra km labb upp í Bláfjöll frá næsta vegslóða komum við ofan í nokkurskonar Múmíndal þar sem samísk stórfjölskylda hafði búið í torfbæjum í 3 ættliði. Þau voru forforeldrar Karsteins, en dalurinn hefur verið gerður að samísku safni.

Karstein hafði verið að laga til hleðslurnar sumarið áður með því að ýta til steinum í veggjunum með bíltjakk og stöng sem hann spennti veggja á milli. Við það verk hafði fallið steinn inn úr vegg og húsið súnkaði saman án þess þó að hrynja. Veggir og þak var allt hlaðið úr grjóti þannig að Karstein mátti teljast heppnir að ekki fór ver. Hann sagaði svo niður  tré í birkiskóginum í kring og notaði þau við að stífa undir þakið og út í veggi til að tryggja að húsið hryndi ekki saman. Þannig að inn í húsinu var varla meira en 20-40 cm á milli trjábola.

IMG_0960

Trjábolir, sem héldu undir þakið til öryggis, stóðu það þétt, -þannig að þarna var hvorki hlaupið inn né út í skyndi, við þurftum að fækka trjábolunum talsvert í upphafi bara til að komast inn

Karstein hafði ekki tíma til að stoppa lengi þegar við komum upp í Vilgesvarre, skildi okkur Juma eftir og fór niður í byggð með hreindýrabóndanum Nils sem hafði flutt Karstein og búnað okkar upp í fjöllin á fjórhjóli. Hann sagðist þurfa að komast niður í byggð til að skrifa tímaskýrslu vegna vinnu frá sumrinu áður þar sem aðstoðarmaður hans frá því þá væri hreint að gera hann brjálaðan vegna þess að samasafnið sem hélt utan um ríkisstyrkinn, sem fjármagnaði endurbygginguna, vildi ekki greiða honum launin frá fyrra sumri nema gegn tímaskýrslu frá Karstein.

Hann sagði að forstöðukonunni, sem hefði með þetta að gera, væri fyrir munað að átta sig á því að hann væri ekki 18 ára lengur, heldur 63 ára, og því af sem áður var þegar hann gat leikandi verið á tveimur stöðum í einu. En nú þyrfti hann auk þessara tveggja að fara til læknis og jarðarfarar daginn eftir. Tímaskin sama virðist vera heldur fjölbreyttara en á Jökuldalnum í denn, þar sem sagt var að til lítils væri að gefa úr í fermingagjöf, betra væri að fá dagatal.

IMG_0913

Hreindýrabóndinn Nils að ganga fá búnaði á fjórhjólið áður en lagt var upp í Bláfjöll. Suðagærur eru eitt af því sem samar telja nauðsynlegan fjallabúnað

Áður en Karstein fór til byggða kom það fram hjá hreindýrabóndanum Nils að það væri óvíst hvenær hann gæti skutlað honum aftur fótalausum upp í Bláfjöll, hann þyrfti nefnilega fljótlega að fara í hreindýrasmölun á fjórhjólinu. Mér varð á að spyrja Nils hvað hann ætti mörg hreindýr en þá brosti hann bara og hvarflaði augunum á Karstein. Ég spurði þá hvort það væri eins með samíska hreindýrabændur og íslenska hrossabændur að þeir þættust aldrei vita hvað stofninn teldi.

Karstein leit djúpt í augun á mér um leið og hann sagði alvarlega; -að þetta hefði ekkert að gera með íslenska hesta. Maður spyr einfaldlega ekki samískan hreindýrabónda svona spurningar frekar en ég spyrði þig að því hvað mikið þú eigir inn á bankabókinni þinni; -sagði hann. Eftir þetta stein hélt ég kjafti, enda ekki yfir miklu að gorta. En í kveðjuskini benti Karstein okkur Juma á hlaupandi rollu í hlaðvarpanum, sem ekki væri góður fyrirboði. Nils skutlaði svo Karstein aftur upp í Bláfjöll kvöldið eftir.

IMG_0954

Trjástofnar héldu við hálfhrunin vegg, ýmislegt nærtækt var notað til að stýfa út í hleðsluna 

IMG_1083Ég hafði komið auga á kosti við þetta verkefni, þó ekki væri nem bara vegna þess eins að við áttum að gista í torfbæ á meðan á því stæði, sem var eitthvað sem gaman væri að upplifa. Þar að auki var ég talsvert spenntur að vita hvaða hughrif algert áhrifalleysi rafmagns hefði á sálina en það hafði ég heyrt að gæti verið þess virði að veita eftirtekt.

Torfhúsið sem við gistum í var ekki stórt kannski ca. 5.5 m X 3m sem skiptist í tvö rými annað þar sem komið var inn á moldargólf með steinhellum í gangveginum og svo innan við einfalt timburþil stærra rými með timburgólfi sem hafði að geyma tvö rúmstæði sem stóðu meðfram vegg, gafl í gafl, annað 1,70 m á lengd hitt 1,75, gamla viðareldavél, borð og tvo stóla. Veggir og loft í innra rýminu voru panelklædd en ytra rímið með bert torf og grjót í útveggjum. Pottar og önnur eldhúsáhöld héngu upp um veggi, hvorki rennandi vatn né salernisaðstaða var í húsakinnunum. Okkur kom saman um að Juma fengi lengra rúmið því hann væri stærri þar sem hann slagar í 1,90 m.

Það er helst frá því að segja að rafmagnleysið hafði þau áhrif á sálina að það var eins og öll mörk á milli himins og jarðar hyrfu, svona eitthvað svipað og að vera undir stjörnubjörtum himni og ætla að telja stjörnurnar. Þegar ég lá andvaka í rúminu hans Ola í Vilgesvarre, sem var húsbóndi einni öld fyrr í þessu húsi, liðu samtöl og myndir í gegnum hugann, sem ég henti ekki nokkrar reyður á, ekki bara fyrstu nóttina heldur allar.

IMG_1078

Gamma kalla samar sín torfhús, þetta var svefnstaður okkar Juma. Karstein var mikill fróðleiksbrunnur um hvernig gamma væru byggð, enda hafði hann endurbyggt nokkur og sagði að svona hús væru ekki byggð nema með gróandanum í fullri sátt við náttúruna. Vatn þurftum við að sækja í mýrar brunn skammt frá, ef við vildum betra vatn var þó nokkur spölur í næsta fjallalæk

Fyrstu nóttina heyrði ég fótatak sem mér fannst nálgast millihurðina sem var fram í rýmið með moldargólfinu. Ekki var hurðin opnuð, en fótartakið hélt áfram og nú inni, fyrir rest gat ég staðsett það í lausu lofti rétt fyrir ofan rúmgaflinn. Þá heyrðist hvæs og skruðningar og hvít flyksa rann fram hjá glugganum í veggnum á móti, en krafsaði sig svo upp í glugga tóftina, og ég horfðist í augu við rollu í gegnum stráin þar sem hún var á beit í gluggakistunni. Sennilega var þetta sama hlauparollan og Karstein hafði haft á orði að væri ekki góður fyrirboði sem nú hafði flogið ofan af þakinu.

Rabarbaragraut höfðum við í matinn á hverjum degi, Juma brosti út undir eyru eftir að hafa smakkað það góðgæti í fyrsta sinn og sagði "jæja mister Magnús héðan förum við allavega ekki fyrr en rabarbaraakurinn er búinn". Það var loks að fjórum dögum liðnum að reiða komst á andvöku óráð rafmagnsleysisins. Eftir að við Juma skildum við Karstein eftir árangurlausar tilraunir við að endurbyggja hálfhrunið jarðhýsið með undirsláttaruppistöðum, bíltjakki, járnkalli og kúbeini, þar sem hvorki var við komið samískum galdri né afríkönsku vúúddúi hvað þá hugmyndaflugi minnislauss múrarameistara.

IMG_0953

Þaksperrur voru úr löngu hnullungs grjóti, sem hvíldu ofan á veggjunum, ofan við þær glitti í flatt hellu grjót á milli þeirra. Grasi vaxin hóllin var svo efsti hluti þaksins. Þetta grjót var hvergi finnanlegt í nágreninu, en Karstein vissi um þessa bergtegund í fjalli í nokkurri fjarlægð og gat sér til að það hefði verið flutt á staðinn með sleðum að vetrarlagi

Endir uppbyggingarinnar varð sá að annar steinn gekk út úr veggnum á móti þegar við reyndum að þrykkja hrunda steininum frá sumrinu áður á inn sinn stað. Þannig var jarðhýsið nær því að hrynja saman en nokkru sinni. Við höfðum ekki verið sammála um þetta verklag, en á endanum framkvæmdum við Juma það sem Karstein fór fram á. Eftir þetta var um lítið annað að ræða en forða sér út úr jarðhýsinu sem byggt var efst inn í háan hól.

Það gekk sem sagt ekkert með endurhleðsluna, enda hefðum við þurft að lyfta vegg og þaki ásamt hólnum til að koma hnullungunum aftur fyrir á sinn stað í vegginn, -með samískum galdri. Þó svo að við værum vel að Guði gerðir, með blátt álfablóð í æðum, afríkanskan jötunmóð og samískan galdur blandaðan heilablóðfalli til halds og trausts, fór ekki betur en raun bar vitni.

IMG_1076

Við stilltum uppistöðu á milli veggja með blanka á bak við tjakk sem var á milli til að ýta á steininn. Tjakkurinn undir steininum er til að halda undir hann. Hina uppistöðuna höfðum við svo til að halda við stein við hliðina sem var á leiðinni út úr veggnum. En allt kom fyrir ekki, þegar við létum reyna á 20 tonna tjakkinn við hinn endan á uppistöðunni gaf veggurinn á móti sig, sá sem ekki sést á myndinni

Skömmu eftir að við Juma komum af fjöllum var aldrei þessu vant byrjaður að vinna hjá Murbygg ungur og öflugur Norðmaður, en þeir eru sjaldséðir hvítir hrafnar í múrverki þarna norðurfrá. Hann sótti í að vera í kringum okkur útlagana, en í því verkefni var afganski flóttamaðurinn Yasin kominn með í hópinn. Þegar ég spurði þann norska hverju sætti að svona væri komið fyrir honum, þá sagðist hann hafa glapist á að læra fornleifafræði og væri því atvinnulaus. Hann hefði í bernsku látið sig dreyma um að verða nýr Indiana Jones.

Ég sagði honum að nú blasti gæfan við honum, hann væri akkúrat komin á réttan stað í lífinu. Að fyrir lægi verkefni hjá Murbygg sem hefði ekkert meira með múrara að gera en fornleifafræðinga. Enda hafði Karstein sýnt mér annað jarðhýsi neðar í hólnum, sem þarfnaðist endurhleðslu, og sagði að þau væru fleiri. En hann ætlaði að bíða með að sýna samísku minjaverndinni þau, því að þetta væri langtíma verkefni. Því ekkert þarna norður frá væri betur styrkhæft og samískar fornminjar.

Karstein efaðist reyndar um að þessi jarðhýsi hefðu upphaflega haft með sama að gera, þau væru mörg hundruð eða þúsundum ára fyrir búsetu hans fólks í Bláfjöllum, jafnvel alveg frá dögum Múmínálfanna. Hans fólk hefði sennilega í upphafi sest þarna að, af því það vissi af jarðhýsunum og gat notast við þau á meðan verið var að koma sér fyrir í óbyggðum. Miðað við aðstæður gæti ég einmitt trúað að svo sé, enda eru gamma torfhús samana með svipuðu byggingarlagi og íslenski torbærinn, torf og grjót í veggjum, burðarvirki og þak úr tré, birkihrís lagður á þak og tyrft yfir.

Þess er skemmst að minnast að hinn norski Indiana Jones junior trúði ekki einu orði af því sem ég sagði honum og gerðist fljótlega eftir þetta lagermaður hjá vöruflutningafyrirtæki.

IMG_1082

Það er hvorki hátt til lofts né vítt til veggja í gamma. Mikill raki og mýflugur voru á þessum árstíma við mýrina sem torfhúsið stóð, þannig að við Juma rauðkynntum viðar eldavélina um há sumar til að losna við raka og mý

 

IMG_1019

Rúmið hans Ola í Vilgesvarre var ekki stórt, útdraganlegt svo hægt væri að breikka það og u.þ.b. 1,70 cm á lengd. Það varð minn svefnstaður

 

IMG_1109

Juma fylgist með Karstein við að snikka til trjábol, sem átti að verða nokkurskonar mæniás í jarðhýsið. Fyrir hafði verið grautfúinn rauðviðar bolur sem hafði ekkert með burðavirkið að gera. Karstein taldi að hann hefði verið notaður svo hægt hefði verið að hengja í hann ýmislegt. En ég giskaði á að hann hefði verið notaður til að koma björgunum í þakið á sínum tíma þó svo að það væri sjálfberandi eftir að þau voru komin á sinn stað 

 

IMG_1113

Karstein er algjör Völundur og var, að því ég frétti, feikna mikill verkmaður og víkingur til vinnu á meðan heilsan leifði, hafði byggt fjölda gamma víðsvegar í byggðum sama. Í seinni heimstyrjöldinni brenndi þýski herinn flestar byggðir sama á undanhaldi sínu undan Rússum í Finnmörku, því er gert talsvert af því að halda við minningunni um mannvirki sama. Þessi rauðviðar tegund sem var í lofti jarðhýsisins, vex ekki í N-Noregi, var því tilvera trjábolsins í þessu jarðhýsi ráðgáta. Rauðviðarbolinn, sem Karstein snikkar, hafði þurft að sækja langt suður í Noreg og flytja með erfiðismunum aftan í fjórhjólinu hans Nils upp í Bláfjöll svo allt væri samkvæmt ritúalinu

 

IMG_1014

Juma í matpásu við útiborð sem var upp á hólnum, sem jarðhýsið var í, nokkurn veginn yfir því miðju. Það var ekki nokkur leið að sjá að þarna var hús undir nema vegna þess að dyr voru á hólnum. Hitt jarðhýsið sem Karstein sýndi okkur var ósýnilegt utanfrá. Við Juma unnum oft saman árin sem ég var hjá Murbygg, vorum góðir félagar. Hann sagði mér frá því hvernig hús voru byggð í heimahögum hans í Afríku. Sú húsagerð er ekki framkvæmd nema í fullri sátt við náttúruna og væri efni í mun lengri pistil 

 

IMG_1120

Það gerðist svo fyrir tilviljun þegar við stoppuðum örþreyttir á heimleiðinni, eftir vonlaust verk, við lítið upplýsingaskilti til að hagræða hryggsekkjunum, að skyndilega fengu samtöl og myndir andvökunáttanna samhengi. Á skilti stóð að John Johnsen og hans kona Kirsten Andersdatter hefðu tekið sig upp 1868 og flutt til fjalla í leit að jarðnæði. Þau, börn þeirra og barnabörn, hefðu svo byggt sér torbæi í dalverpi í Bláfjöllum sem þau nefndu Vilgesvarre. Þar hafði stórfjölskyldan búið allt til ársins 1958

 

IMG_0956

Við Juma afrekuðum samt að lagfæra einn stein í hleðslu neðst í vegg með því að krafsa undan honum með kúbeini til að búa til pláss, og notuðum svo stífu og tjakk til að ýta hnullungnum inn undir vegginn um leið og við stýrðum honum með járnkalli. Karstein varð ekki hrifinn, -sagði að við hefðum svindlað

 

IMG_0962

Vilgesvarre

 

IMG_1017

 

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0-

 

Ps. Fyrir þá sem hafa náð að lesa þetta langt og langar til að fá einhvern botn í hvað það á að fyrirstilla að segja frá þvílíkri sneypuför, -þá hef ég komist að því að jarðhýsið í Bláfjöllum er ekkert einsdæmi.

Mér hefur oft dottið í hug að Vilgesvarre eigi sér hliðstæður mjög víða, t.d. á Orkneyjum á stað sem heitir Skara Brae. Þar sem talin eru vera mannvirki frá forsögulegum tíma, 4-5000 ára gömul.

scotland-orkney-skara-brae-071819-ch

Veturinn 1850 gerði mikinn storm á Orkneyjum. Það var ekkert sérstakt við storminn, annað en að þá var óvenjulega hásjávað svo að öldurótið svipti grasi af stórum hól. Þetta jarðrask opinberaði útlínur fjölda steinbygginga er undir voru, -sem eru jafnvel taldar eldri en Stonehenge og Píramídarnir í Gísa

Það er víðast hvar í heiminum líkur á að finna ævaforn mannvirki sem láta lítið fyrir sér fara í landslaginu. Ef einhver skyldi hafa áhuga á hversu algengt, þá er þetta video um leyndarmál steinanna.

 


Ég legg metnað minn í það að míga úti

Það fer ekki yfirleitt ekki mikið fyrir lýsingum af því hvernig salernisferðum var háttað fyrr á tíð og mætti jafnvel ætla að Iss, piss og pelamál púðursykur og króna. Þegar mér er mikið mál pissa ég bara í skóna, -hafi verið lenskan.

Samt má víða finna lýsingar á því hvar hlandforinni var fyrirkomið heima við bæ, og að koppar hafi verið undir rúmum gömlu baðstofunnar. Stærri stykki má ætla að hafi oftast verið gerð í fjósflórinn enda oft innangengt úr bæ í fjós, ef baðstofan var þá ekki yfir fjósinu sjálfu svo mætti notast við ylinn frá kúnum.

Karlmenn hafa líklega flestir lagt metnað sinn í að míga úti rétt eins og segir í Stuðmannaslagaranum, þó svo að kvenfólk hafi frekar kosið fjósið. Ólíku hefur verið saman að jafna við glæsileg salerni nútímans. Nokkrar lýsingar má þó finna á því í rituðu máli hvernig fólk sinnti kalli náttúrunnar fyrir daga nútíma salernis.

Húsaröðin austur að hlaðinu var þá þessi: Syðst austurhlið baðstofunnar, torfveggur og torfþekja, með fjórum gluggum niðri og fjórum uppi, þá bæjardyraþil með dyrahurð og litlum glugga yfir, og loks skemmuþil með tveimur gluggum niðri og einum uppi. Á bak við og vestan við þessi þrjú hús var svo búr, eldhús og fjós, og innangengt í öll frá vesturenda bæjardyra. Voru það hlunnindi fyrir mjaltakonur á vetrum að þurfa ekki út til mjalta, og fyrir alla yfirleitt að hafa innangengt á náðhúsið. En það var fjósflórinn. Þannig var þessu fyrir komið um allt Hérað, eða víðast. (Um húsaskipan í Þingmúla 1891 - Endurminningar sr Magnúsar Blöndal II bindi)

Þrír strompar voru á eldhúsinu, og safnaðist sjaldan mikill reykur í það, en sótleki var oft til óþæginda. Í gegnum norðurvegginn var trérenna. Í hana var helt skólpi úr bænum út í hlandforina, sem var norðan undir eldhúsveggnum. Þótt rennan væri lokuð með hlera, kom stundum óþægileg lykt um hana inn í eldhúsið og bæinn allan, einkum ef norðanátt var í aðsigi, var hún nokkurn veginn öruggur veðurviti. Í eldhúsinu stóð kerald eitt mikið og fornt, svo engin vissi aldur þess. Í það var safnað öllu þvagi, sem til féllst á nóttum til ullarþvottar á vorin. (Innanbæjarlýsing Norðlenskt sveitarheimili í upphafi 20. aldar - Steindór Steindórsson frá Hlöðum)

Lýsingin að norðan á við gamla hlóðaeldhúsið, sem þá orðið var aðallega notað til að baka brauð, sláturgerðar og stórþvotta. Nýrra eldhús var komið til sögunnar á þessum tíma til daglegra nota, sem var gengt gamla eldhúsinu og var með eldavél kynntri mó og taði.

Það er farið að glitta í nútímann fyrir um hundrað árum síðan á norðlenska sveitarheimilinu, þegar sagt er frá hvernig hlandforin var breidd á túnið: Sóðalegasta og á ýmsan hátt erfiðasta vorverkið var að koma forinni á túnið. Norðurundir bænum var allstór safnþró, steinsteypt. Lá renna í hana úr gamla eldhúsinu, og var hellt í hana allskonar skólpi. Salerni var einnig yfir þrónni, og í hana var fleygt ýmsu rusli sem rotnað gat. Var hún nær full á hverju vori. 

Ekki er lýsingin gleggri en svo að erfitt er áð átta sig á hvort um postulínssalerni hefur verið að ræða eða kamar, sem hefur verið gengið í utanhúss, eins og víða var orðin lenska í höfuðstaðnum.

Ég legg metnað minn í að míga úti sungu Stuðmenn. Einhver tíma heyrði ég af manni sem ég þekkti, sem hefði átt lengi erfitt með að míga inn í miðju húsi, þó svo að þar væri hefðbundið prívat postulínsklósett.

Nú á dögum hefur femínisminn komið metnaði kalmannsins í fjósið, ef svo má segja. Þeim verði hált á haldforinni, sem verði á að míga úti, jafnvel þó svo að það sé torgi í landnámi Ingólfs, kenndu við sjálfan fyrsta landnámsmanninn.

Iss, piss og pelamál púðursykur og króna komi sér því betur, ef karlmanni verður mikið mál. Svo mikil hefur framförin orðið á innan við öld.


Here we go again

Það hefur varla farið fram hjá neinum að fleira en þakið er við það að fjúka af kofanum. Húsnæðisverð í hæstu hæðum, verðbólgan sú mesta í 10 ár og allt útlit er fyrir að vextir verði snarhækkaðir hjá viðundrunum í Seðlabankanum, sem hafa staðið að gengislækkun krónunnar að undaförnu með inngripum af því taginu sem glæðir verðbólgu bálið. Já það styttist óðum í að púkar Sæmundar gæði sér á hverjum bita í helsjúku pestargreninu.

Þegar ég var á leið til vinnu í morgunnmyrkrinu undir lok síðustu viku brá mér í brún þegar ég tók fyrstu beygjuna til vinstri. Þar var bara svarta myrkur, logaði ekki svo mikið sem ein týra til hægri. Búið að rífa elliheimilið, litlar raðhúsaíbúðir sem höfðu aldrei staðið tómar í beygjunni á besta stað í bænum í meira en 50 ár. Ég var reyndar búin að heyra að lóðin væri svo svakalega verðmæt að til stæði að endurnýja húsin, en að það ætti að massa þau endanlega með stórvirkum vinnuvélum, brothömrum og trukkum hafði mér ekki hugkvæmst. En maður býr jú í heimabæ skurðgröfunnar.

Síðast þegar svona gjörningalist í verðmætaaukningu kom til framkvæmda í mínum smáheimabæ var árið 2008. Þá voru tæplega 20 ára gömul, -mörg þúsund fermetra gróðurhús Barra rifin og byggð önnur splunkuný í rokrassgati fyrir norðan Fljót. Raftækjaverslun með áföstu rafmagnsverkstæði sem hafði staðið í rúm 40 ár rifið. Lóðirnar voru víst svo svakalega verðmætar að þar átti hvorki meira né minna en byggja miðbæ, þó svo að hann yrði bæði fyrir utan bæinn og enginn þyrfti sérstaklega á honum að halda.

Núna öllum þessum árum seinna er gras á verðmætu miðbæjarlóðunum. Þær eru notaðar sem tjaldstæði fyrir ferðamenn. Ef ekki hefði orðið hið svokallaða hrun væri ekki svo mikið sem kamar á svæðinu, því hvorki gafst tími né lánsfé til að rífa gamla Tehúsið sem var byggt sem verbúð fyrir sláturhúsið löngu fyrir mína tíð. Það hefur ekki nokkrum heilvita manni dottið í hug síðan um árið að þessar miðbæjarlóðir séu það verðmætar að það borgi sig að draga upp úr þeim tjaldhælana.

Enda varð stærsta verktakafyrirtæki bæjarins, og rafmagnverkstæðið gjaldþrota í kjölfar verðmætaaukningarinnar. Kaupfélag Héraðsbúa fór sömu leið 2009 á 100 ára afmælinu. Hafði þó selt miðbæjarlandið og keypt kaupanda landsins árið eftir söluna, sem var verktakafyrirtækið, það hafði nefnilega ekki ráð á að borga kaupfélaginu. Sú viðskiptaflétta kom til eftir að í ljós kom að bókhaldslega reyndist hagstæðara fyrir kaupfélagið að kaupa kaupandann, en að afskrifa góðar sölutölur á lóðum úr bókhaldinu. Eftir stóð raðgjaldþrota samfélag og bæjarfélag í gjörgæslu.

Nú virðist allt þetta bix gleymt og grafið, komið yfir móðuna miklu ásamt Barra þrátt fyrir hetjulega baráttu Byggðastofnunnar. Bankarnir aftur orðnir stútfullir af peningum og fólkið brunar flest orðið til vinnu í rauðglóandi smeltiverkið á orkuskiptu bílunum niður í orkuskortinn í neðra. Það eina sem hefur verið byggt í miðbænum er Skattstofa ríkisins rétt norðan og neðan við þar sem rafmagnsbúðin stóð. Og var hart á því um tíma að skattstofan yrði ekki gjaldþrota líka, sælla minninga.

Þegar fólk fær þær frábæru hugmyndir að rífa hús í fullri notkun til verðmætasköpunar á lóðum, sér þær í hyllingum til að selja lífsreyndu eldra fólki hugmyndina af nákvæmlega eins þaki yfir höfuðið á meira en tvöfalt hærra verði, þá er sama hversu skaðmenntað það er, réttast væri að það rifjaði upp tvo plús tvo á fingrum sér. Er nema von að þegar ekkert ljós logar lengur í bestu beygjunni í bænum að upp komi í hugann gamli frasinn, -here we go again.


Næsti bær við Cocoa Puffs

Í denn var stundum sagt að þessi eða hinn hefði fengið prófgráðuna sína úr Cocoa Puffs pakka. Þetta var þá oft sagt með lítilsvirðingu. Sjálfum hefur mér alltaf fundist þeir gáfulegri sem hafa náð að plumma sig með þannig prófskýrteini upp á vasann. Þeir hafi allavega losnað við að láta yfirfylla harða diskinn í höfðinu með þarflausri þvælu, -plássið á þeim diski er jú takmarkað.

Þó svo að transhumanisminn eigi eftir að bjóða upp á aukna ígrædda gervigreind, þá er ekki nokkur von til annars en þar verði einni metnaðarfullu þarfleysunni bætt aftan við aðra ef diskurinn hefur ekki þegar verði fullstraujaður við harðsnúið latínunám. Latína og gervigreind kemur aldrei í staðin fyrir meðfætt innsæi á stað og stund, því þar er ástæðuna að finna til hvers er komið í þennan heim.

Fyrir mér varð barnaskólinn á sínum tíma latína, í besta falli limbó, en sem betur fer hafði hinu opinbera þá ekki komið til hugar að hefja þá iðju að hakka barnshugann fyrr en við sjö ára aldurinn og bjargaði það því sem bjargað varð. Móðir mín hafði kennt mér að lesa og skrifa nafnið mitt áður en til barnaskólagöngu kom. Eftir að henni lauk má segja að ég hafi ekki getað skrifað nafnið mitt skammlaust, en var samt orðinn nokkuð fær í að snúa út úr.

Blessuð hundaheppnin og brennivínið bjargaði mér svo alveg frá bókhaldinu. Ég komst nefnilega á samning við steypuna enda hefur steypa verið mitt líf og yndi frá því fyrst ég man. Í iðnskóla lærði ég ekkert í þeirri gjörningalist því hún byggist alfariða á reynslu og verklegri færni. Ég var samt útskrifaður bóklega fyrir slysni án tilskilinna áfanga. Það dugði mér samt til að taka sveinspróf. 

Það minnisverðasta úr iðnskóla var þegar Kiddi Jó skýrði fyrir okkur í ensku tíma tengingu orðsins Police við puplic service, -og að því skyldum við aldrei gleyma að á íslensku væri police, -lögregluþjónn. Það voru svo vinnufélagar mínir í steypunni sem tóku mig til sveinsprófs út á þessa latínu. Svona nokkurskonar manndómsvíxlu af gömlu gerðinni, en auðvitað þekktu þeir kauða og vissu upp á hár hvað hann kunni af því sem þurfti.

Sveinsprófið mitt reyndist því léttara en þegar greiðugur steypukall af Guðs náð reyndi í annað sinn að standast sitt sveinspróf. Mikið var þá að gera í steypu eins og alltaf hjá múrurum svo samið var um það að fá flíslögn á baðherbergi, sem átti eftir að flísaleggja, dæmt sveinsstykki.

Þegar kom að því að taka stykkið út, og prófnefndin var mætt í baðherbergið, kom í ljós að engin flísalögn hafði verið framkvæmd, flísarnar voru allar í pökkunum á gólfinu. Þá muldrar minn maður „hann hefur svikið mig“ en bauð svo prófnefndinni upp á koníak í sárabætur. Hann hafði af greiðasemi haft vinnuskipti við handlaginn smið sem nauðsynlega þurfti að múra, en lofaðist til að flísaleggja sveinstykkið í staðinn.

Meistarabréf fékk ég svo sent eftir símtal við sýslumann. Þannig var að í mínum smáheimabæ var engin múrarameistari til að ábyrgjast verk. Því var gripið til þess ráðs að sá sem múraði sæi um það og sótti ég um löggildingu til bygginganefndar míns smáheimabæjar með sýslumanninn í vasanum. Fljótlega fóru byggingaraðilar í nágrannabæjunum að fara fram á að ég ábyrgðist verk í þeirra bæjum.

Svo kom að því að ég var beðin sérstaklega um að mæta á helgarnámskeið í byggingastjórnun, aðallega til að fylla upp í tölu þátttakenda svo sérfræðingarnir að sunnan sæju sér fært að gera sér ferð út á land til að halda námskeið. Þetta var þegar byggingastjórinn var fundinn upp af latínuliðinu um síðustu aldarmót.

Einhvern veginn fór það svo að í kjölfarið fékk ég byggingastjóra réttindi og meistaralöggildingu á landsvísu frá ráðuneyti í Reykjavík og hef ég síðan óskrifandi maðurinn ekki fengið frið við að krota nafnið á meistaraábyrgðir.

Þetta var orðin meiri skriffinnska en víxlarnir fyrir kunningjana í þá gömlu og góðu, en er nú til allrar Guðs lukku orðnar rafrænar undirskriftir og gilda frama og aftur í tímann. Lengst hef ég komist meira en áratug aftur fyrir sjálfan mig og svo að sjálfsögðu út yfir gröf og dauða.

Ég hef alla tíð notið visku Kidda Jó frá á námsárum mínum í Neskaupstað og að það var sjálfur sýslumaðurinn sem gaf út meistarabréfið mitt í denn. Það er því mitt að sjá um puplic service þáttinn svo meðbræður mínir komist í gegnum regluverkið þegar byggja á þak yfir höfuðið. Auðvitað er þetta ekkert annað en næsti bær við Cocoa Puffs.


Vísdómur hrafnsins

Það kemur fyrir að ég glugga í bók daganna og lít á gömul skrif. Haustið 2012 vann ég hjá Murbygg í Harstad. Við höfðum verið að vinna allt sumrarið norður í nesi finnanna. Það virtist vera heldur dauft fram undan varðandi múrverk hjá Murbygg þannig að ég hafði orð á því við Mette framkvæmdastýru hvort ég ætti ekki að taka mér vetrarfrí. Hugsanlega gæti hún samt lánað mig til Mortens múrarameistara í Finnsnesi.

Þessar hugmyndir blés Mette samstundis út af borðinu og sagði að það væri verkefni framundan í Evensmarka þar sem ætti að endurhlaða samískt fjós. Hún hefði hugsað sér að ég yrði í þessu verki ásamt öðrum hvorum norðmannanna Rune eða Allan til að byrja með, en síðan Sudananum Juma. Því Rune og Allan hefðu hvorugur áhuga fyrir verkefninu.

Við Mette og Rune fórum til að kanna þetta verk í desember. Þetta var hátt uppi í skóginum, undir háu fjalli, staðurinn heitir Gállogieddi. Eigandi bæjarins bjó niður við þjóðveginn um sveitina og átti að vera okkur til halds og traust meðan á verkinu stæði, með snjómokstur upp hlíðina og þess háttar. Annars var Samasetrið Vardobáiki með umsjón og fjármögnun verksins, þetta voru sem sagt fornminjar.

Þeim félögum mínum, ásamt eigandanum, leyst þannig á, að þetta væri illvinnanlegt verk. Hvað þá að vetrarlagi. Fjósið var hlaðið úr grjóti undir heyhlöðu og stóð þannig í brekkunni að farið var inn í hlöðuna af jafnsléttu að ofan, en neðri hlið fjóssins var öll ofanjarðar og með gluggum. Það var veggurinn sem snéri upp í brekkuna sem var að hruni kominn og hafði verið stífaður með plönkum með minna en meters millibili þvert yfir fjósið í neðri langvegginn.

Þegar við losuðum stein úr veggnum þá hrundi úr bakkanum inn í fjósið og voru flestir á því að öll brekkan kæmi inn í fjósið þegar losað yrði um stífurnar. Ég fór út og gekk hringinn í kringum húsið og sá að klöpp stóð upp úr götunni rétt upp við hlöðu dyrnar. Sunnan við fjósið og hlöðuna var svo smá klappar horn upp úr veginum. Þá rann það upp fyrir mér hvernig þessum stóru steinum, sem voru í veggnum, hafði verið fyrir komið, en þeir stærstu voru um 300 kg.

Þegar ég kom inn aftur sagðist ég vera viss um að það væri ekki mikill jarðvegur sem myndi hrynja úr bakkanum inn í fjósið, því það stæði upp við klett og þegar steinunum var hlaðið í vegginn hafi þeir verið látnir síga fram af klettinum. Þetta fannst öllum furðuleg staðhæfing og þó svo að ég fengi þau út til að sjá klapparnibburnar þá áttu þau erfitt með að sjá þetta fyrir sér. Það væri ekkert sem benti til þess að þetta væru ekki bara steinar sem stæðu upp úr. Ég bauðst til að teikna þetta upp og þá sæist hvernig í þessu lægi og hvernig væri best að standa að þessu verki.

Um kvöldið dundaði ég mér við að teikna fjósið, hvernig það stóð upp við klettinn áður en jarðvegurinn hafði verið fylltur að hliðinni þar sem hlöðudyrnar voru. Morguninn eftir hafði ég teikninguna með mér í vinnuna. Mette sagði strax að nú væri þetta auðskilið og þessa teikningu ætlaði hún að leggja fyrir skrifstofu Samanna í Vrdobáiki svo þau gætu tekið ákvörðun um hvort þau tæku áhættuna af því að fara í verkið að vetrarlagi.

Þess er skemmst að geta að við Juma vörðum vetrinum fram í mars við múrinn í fjósinu á Gállogieddi. Allt reyndist eins og ég hafði teiknað. Það sem meira var að bakkinn fyrir ofan hús beinfraus í bleytutíð þegar komið var fram í janúar. Þannig að ekki hrundi korn inn í fjósið, sem gerði verkið mun auðveldara. Þann jarðveg sem við þurftum að losna við urðum við að meitla burt með rafmagnsbrothamri.

Juma gat því frætt mig á fjölmörgum sögum úr heimahögunum. Sagði mér m.a. frá því þegar hann var smali kindahjarðar föður síns, hvernig þeir ferðuðust með hjörðinni yfir gresjuna mánuðum saman og létu hana ráða hvar nótt nam undir kolsvörtum afrískum stjörnuhimni. Aldrei hræddust þeir ljónin, enda tóku þau aldrei kind, en hælbítandi hýenurnar voru varasamar.

Áætlað var að verkið tæki tvo mánuði og stóðst það upp á dag. Við lok verks barst Murbygg þakkar bréf frá skrifstofu Samasetursins Vardábaiki og í framhaldinu var óskað eftir að fyrirtækið tæki að sér annað minja verkefni upp í Bláfjöllum á Vilgesvarre í Sandmarka.

IMG_2921

Þetta hafði ég skráð í bók daganna að verki loknu: 

Hinn sterki Súdani, Juma frá Darfur, ásamt mér gamla safnvíkingnum erum búnir að koma björgunum fyrir í múrinn. Eftir að hafa rifið niður 120 ára fallandi fjósmúrinn á samíska safninu á Gallogiedde og staflað honum upp aftur, -erum við sammála um að tækninni í byggingalist fer aftur í hárnákvæmu samræmi við það hvað menntun múrara fleytir fram. Það má sjá best á því að með öllum tæknibúnaði og þekkingu dagsins í dag hafa múrarar aldrei verið eins langt frá því að geta reist mannvirki á við pýramídana. Þess vega erum við bara nokkuð ánægðir með að hafa getað farið aftur í tímann við að endurhlaða fjósmúr Samana og teljum okkur þannig hafa komist 120 árum nær því að geta reyst pýramída.

Annars vorum við báðir farnir að hafa orð á því í lokin að réttast væri að treina sér jobbið. Það væri lúxus að klappa steinunum upp í fjallshlíðum, sötra kaffi þess á milli og virða fyrir okkur sveitina niður í dalnum, meðan ernirnir hnituðu hringi í uppstreyminu fyrir ofan fjallsbrúnina. Elgirnir voru að vísu fyrir löngu búnir að naga það sem þeir náðu í úr trjánum í túnfætinum og farnir í aðra haga. En í þeirra stað mættu hrafnarnir til þinghalds, svo þá gafst mér færi á að láta ljós mitt skína varðandi visku hrafnsins. Jafnvel fara með vísuna um krumma sem krunkar úti og kallar á nafna sinn.

Ég gat frætt Afríkumanninn á hrikalegri greind hrafnsins. Hvernig hann hefði fundið Ameríku fyrir víkingana langt á undan Kolumbusi. Einn daginn að loknum fjósverkum stóð Juma fyrir framan fjósdyrnar tilbúinn til heimferðar og beið eftir að ég drattaðist upp túnið, en ég hafði farið í ljósmyndaleiðangur niður að girðingu. Þá renndi hrafn sér niður hlíðina, þegar hann var rétt fyrir ofan höfuðið á Juma snéri hann sér á bakið í fluginu og skellti í góm með bjölluhljóm. Svo þegar hann kom yfir mig nokkrum vængjatökum neðar gerði hann nákvæmlega það sama, nema þá snéri hann sér á hinni hliðinni. Ég þurfti ekki að sannfæra Súdanann frekar um það að hrafninn væri fjölkunnugur fugl.

IMG 3232


Herragarðurinn

1654927

Á miðju sumri 1912 kom biskupinn yfir íslandi, herra Þórhallur Bjarnason, úr yfirreið um Austurland. Segir hann frá því i blaði sínu, Nýju Kirkjublaði, 1. ágúst, að viða þar eystra, bæði á Héraði og í Fjörðum séu miklar framfarir. Eitt ber þó af að dómi biskups: Framkvæmdirnar í Vallanesi. Þar er presturinn, sr. Magnús Bl. Jónsson, búinn að byggja íbúðarhús, sem ólíklega á „nokkurn maka að hugvitsamlegu og meistaralegu fyrirkomulagi í smáu og stóru."

Í annan stað telur biskup peningshúsin engu snilldarminni byggingu, öll úr steinsteypu í einni hvirfingu, þar í 1800 hesta hlaða. Í þriðja lagi nefnir biskup ræktunina, 12 dagsláttur nýplægðar í örreytis móinn, bíðandi, ásamt meiru, sáningar á næsta vori. Segir biskup, að sér hafi dottið í hug að hér væri i byggingu verulegur herragarður i fullri líkingu við herragarða í þjóðmenningarlöndum, „til gagns og sóma og fyrirmyndar lýð og landi”.

Segja má sem svo að steinsteypa hafi tekið við af torfi sem byggingarefni húsa víðast hvar í sveitum landsins fyrir meira en öld síðan. Nú er svo komið að sú byggingarlist er að hverfa af yfirborði jarðar með álíka hraða og torfbæirnir á fyrri hluta 20. aldarinnar.

Eins og einhverjir hafa áttað sig á þá hefur höfundur þessara síðu einstakt dálæti á steypu. Mér hefur því verið hugleikið, nokkuð lengi, fyrsta steinsteypta húsið sem ég kynntist, enda kannski ekki undarlegt þar sem ég var viðloðandi það hús fyrstu 10 ár ævinnar. En þetta hús heitir Jaðar og er í Vallanesi á Héraði.

Hér á síðunni s.l. vor var ótæpilega vitnað í Endurminningar sr Magnúsar Blöndal Jónssonar, en það var einmitt hann sem byggði Jaðar í Vallanesi. Við lestur endurminninga sr Magnúsar hélt ég að mætti fá glögga lýsingu af þessi mikla byggingarafreki. Íbúðarhús og öll útihús eru steinsteypt á tímum sem þurfti að flytja sementspokana á hestum frá höfn við sjó yfir fjöll langt inn í land.

Að vísu stendur Jaðar skammt frá bökkum Lagarfljótsins svo vel má vera að eitthvað af byggingarefninu hafi verið flutt síðasta spölinn á bátum upp Fljótið. Ég var sem sagt með það í huga að fræðast um byggingarsöguna á Jaðri þegar ég las endurminningarnar og byrjaði á byrjuninni, því mér þótti rétt að kynnast manninum frá bernsku sem þetta afrek vann.

En viti menn! -eftir 700 síðna lestur var ekkert um uppbygginguna á Jaðri. Þetta er ekki vegna þess að sr Magnús hafi ekkert um hana skrifað, heldur vegna þess að þeir sem gáfu út endurminningarnar, árið 1980, ákváðu að stoppa við aldamótin 1900. Þó einungis 2/5 væru óútgefið, þá kemur fram í eftirmála, að þar hafi mest verið framkvæmdamál og minna áhugavert veraldarvafstur.

Einn frændi minn, sem heimsótti mig í sumar og ólst upp á Jaðri, sagði mér að vísu að í óútgefnu efni væri mun fleira en óáhugavert veraldarvafstur. Þar væri óþverrinn, auk uppbyggingarinnar á Jaðar. En útgefnar endurminningar sr Magnúsar sagði hann að væru einhverjar áhugaverðustu endurminningar sem hann hefði á ævinni lesið og það óútgefna væri örugglega ekki óáhugaverðara en það sem komst á prent.

Og get ég tekið undir það að endurminningarnar eru einstakar. Þær fara um mest allt land, frá Eyjafjöllum í Hrútafjörð, þaðan í Dali og norður í Ísafjarðardjúp, úr Djúpinu í Breiðafjörðinn þaðan til Reykjavíkur áður en þær enda snubbótt austur á Héraði. Einlægari og betur orðaðar frásagnir af lífi og störfum í íslenskum sveitum frá seinni hluta 19. aldar eru tæplega til á prenti.

Ég ætla samt að gera steypunni á Jaðri fátækleg skil hér á síðunni. Sumstaðar í endurminningunum komu fram örlitlar upplýsingar um uppbygginguna á Jaðri. Sr Magnús var með umdeildari mönnum á Héraði á sinni tíð og má kannski segja að svo hafi verið allt fram á daginn í dag. Allavega hefur nafni hans frekar verið haldið til hlés þegar framfaramála Héraðsins í upphafi 20. aldar er getið. Meira er um spaugilegar sögur honum tengdum.

Jaðar er nýbýli frá Vallanesi, formlega stofnað 1918, en farið að byggja upp á því íbúðarhús og útihús fyrr, eða á árunum 1909-1915. Stofnandi var sr Magnús Blöndal, og keypti hann landið, en seldi Kirkjujarðasjóði aftur við brottflutning árið 1925. Hann ræktaði mikið, byggði og bjó stórt. Býlinu fylgdi þriðjungur Vallaneslands og nær bæði austur í Grímsá og vestur í Lagarfljót.

Íbúðarhúsið er úr steinsteypu, stofuhæð á háum kjallara, portbyggt með 2 kvistum. Tveir steyptir veggir ganga þvert í gegnum húsið upp í hanabjálka sinn hvoru megin við kvistina. Stærð hússins er 13,70x9,60 m, vegghæð á kjallara 2,70 m, á stofuhæð 3 m og porthæð 1 m, en rishæð frá porti og upp í mæni 4,50 m. Á kjallara eru 14 gluggar úr járni, á stofuhæð 16 gluggar úr tré, á lofti 12 gluggar, og á hanabjálka 4 kringlóttir járngluggar og 6 þakgluggar. Útveggir í kjallara eru 14 tommur á þykkt, veggir ofan á kjallara 11 tommur og milli þverveggir 2,9 tommur.

Magnús Blöndal JónssonSéra Magnús Blöndal Jónsson kemur inn á það í endurminningum frá bernsku árum sínum hversu dýr séu skynug enda sat hann oft yfir kindum sem drengur. Þegar hann segir frá því hvers hann varð áskynja þar, tekur hann einnig sem dæmi hvernig talað var við dýr þegar byggingaframkvæmdir stóðu yfir á Jaðri

“Því læra börn málið að það er fyrir þeim haft, segir máltækið. Það þarf að tala við hundana og láta þá skilja hvað orðin tákna alveg eins og börnin. Og það er alveg ótrúlegt þeim, sem ekki hafa reynt, hve næmir þeir eru og fljótir að skilja. Áður var mér þetta alls ekki ljóst fremur en öðrum, þangað til ég þreifaði á af tilviljun, í Vallanesi, þá orðinn fjörutíu og sex ára gamall.

Þá var ég að byggja nýbýlið Jaðar. Aðal smiðurinn við bygginguna, sem var úr steinsteypu, var Guðmundur Þorbjarnarson múrarameistari. Lék hann sér að því, eftir mötun á máltíðum, að kenna dálitlum hvolpi nýsloppnum af spenanum ýmsar smá-hundakúnstir. Allt þetta gerði hann með því að tala við hvolpinn og lét hann jafnframt skilja hvað hann ætti að gera.

Þetta var þolinmæðisverk mikið fyrst í stað, meðan hvolpurinn var mjög lítill. En furðulegt var hve ört honum óx viska með aldri. Þegar Guðmundur var að finna að við hann, kallaði hann hvolpinn ávalt “Strák”, og það nafn festist við hann, enda hélt hann því meðan hann lifði. (Svo heldur Magnús áfram að segja frá málskilningi Stráks og hvernig hann fylgdi honum á ferðalögum) (I bindi bls 166)

Jafnvel nautheimsk nautin hlýða tali manna, ef þeim er kennt að skilja orðin. Þegar ég var að byggja upp hinar miklu steinbyggingar á nýbýlinu Jaðri í Vallanesi, var steypusandinum ekið neðan frá Lagarfljóti.

En leiðin var öll á fótinn og hallinn all-verulegur á kafla. Reyndist það ofraun dráttarhestunum mínum, vönum bæði vögnum og plógi, að draga kerruna þarna upp á móti nema með litlu sandhlassi, að hálfgerð verkleysa varð og allt of mannfrek. Hugkvæmdist mér þá það snjallræði að taka úr básnum þrévett naut, æfa það lítið eitt fyrir léttum drætti á nesinu utan við túnið, og setja það svo fyrir kerruna.

Var byrjað með léttingshlassi þó ekki minna en hestarnir höfðu dregið. Var svo smá þyngt á bola. Á þriðja degi ók hann fullri kerru sands. -En þá var hann jafnframt orðin fullæfður í því, að hlýða orðunum: “Fram – Bakk – Hægri – Vinstri.” Aldrei þurfti að blaka við bola með svipu eða keyri. Fleira var ekki reynt að kenna honum. Vinnan var einhæf. Þess þurfti ekki. (I bindi bls 170)

Það má segja að þessar fátæklegu upplýsingar um málskilning dýranna séu þær einu sem segja frá uppbyggingu mannvirkjanna á Jaðri. Ef ekki kæmu til nokkrar setningar þar sem séra Magnús fer yfir viðhorf mótstöðumanna til sín. En Magnús mátti búa við klofinn söfnuð alla sína presttíð í Vallanesi og var meir að segja fríkirkja reist á þeim árum að Ketilsstöðum gegnt Vallanesi.

Þegar sr Magnús gerir grein fyrir því viðhorfi, sem forkólfar fríkirkjusafnaðarins höfðu til hans, segir hann frá heimsókn sunnanmanna á Austurland, sem tóku land á Djúpavogi og fóru landveg á Seyðisfjörð í veg fyrir strandferðskipið, til að kynnast Héraðinu. Þeir stoppuðu á Ketilsstöðum og höfðu orð á stórhuga uppbyggingu prestsins í Vallanesinu á Jaðri og fannst mikið til koma, enda blasir Vallnesið við af hlaðinu á Ketilsstöðum.

Þar kom til tals að presturinn hlyti að vera mikill verkmaður því þeir hefðu heyrt að hann hefði vinnufólk, sem öðrum hefði líkað miður, en hefði jafnvel meira en full not fyrir við fleira en búreksturinn. Þá sagði Gunnar Pálsson stórbóndi á Ketilsstöðum; “Það er ekki svo mikið. Þetta er maður sem tekur allstaðar tvo peninga fyrir einn”. Ferðamennirnir spurðust einskis frekar um framkvæmdirnar á Jaðri. (II bindi bls 191).

Séra Magnús virðist sjaldan hafa notið sannmælis sem Guðs maður á Héraði ef marka má almannaróm. Þessi vísa um hann ber þess merki að hann hafi hins vegar þótt slunginn  viðskiptamaður.

Mikið er hvað margir lofa hann,

menn, sem varla hafa séð hann,

skrýddan kápu Krists að ofan,

klæddan skollabuxum neðan.

Heimilisfólk á Jaðri, Magnús og Guðríður efst

Heimilisfólk á Jaðri í tíð sr Magnúsar Blöndal Jónssonar. Hann og Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested, seinni eiginkona, fyrir miðjum dyrum í efstu röð 

Þó svo að upplýsingarnar séu svo að segja engar um það hvernig sr Magnús byggði mannvirkin á Jaðri í útgefnum endurminningum, sem hann lét eftir í handriti af sér gengnum, þá geta þær samt sem áður Guðmundar Þorbjarnarsona múrarameistara. Guðmundur var Akurnesingur tengdur sr Magnúsi fjölskylduböndum. Hann var í Vallanesi þar til sr Magnús fór þaðan.

Guðmundur Þorbjarnarson stóð fyrir mörgum stórbyggingum víðsvegar á Austurlandi, og gat sér hið besta orð fyrir, sá m.a. um múrverk Húsmæðraskólans á Hallormsstað sem byggður var árið 1929. Eins er Guðmundar minnst á Akranesi, þar var hann fengin til að standa fyrir byggingu steinsteyptrar stöplabryggju, sem var byggð í Steinvör árið 1907. Það þótti vanda verk á þeim tíma að steypa í sjó.

Útihúsin á Jaðri voru í tíð sr Magnúsar 26,46x13,86x5,4, að stærð, sumt á tveimur hæðum. Ris 3 m. Í öðrum enda fjárhús á gólfi fyrir 320 fjár; í hinum endanum haughús á gólfi með fjósi og hesthúsi yfir á steinsteyptu gólfi, sem hvíldi á járnbitum. Fjósið tók 14 nautgripi, en hesthúsið 15 hesta. Jötur og básar og skilrúm steypt úr vandaðri sementssteypu með vatnsleiðslu. Við enda þessa húss – við haughúsið – er steypt safnþró 12,6x2,1x3 m, sami veggur undir báðum húsum.

Sagt er að gestkomandi manni hafi eitt sinn verið sýnt fjósið og hann hafi haft á orði, að kýrnar væru smávaxnar. Séra Magnús sagði það sjónhverfingu, þær sýndust litlar, vegna þess að fjósið væri svo stórt. -þær sýndust þá víst ekki stórar undir berum himni; svaraði gesturinn. Til eru fleiri en ein útgáfa af því hverjum er eignað gesthlutverkið, enda hafa kannski fleiri en einn viljað eigna sér orðsnilldina.

Árið 1952 fauk fjósið og var ekki byggt upp aftur, heldur rifið, og á eftir varð hlaðið grasi gróið á steypunni norðan við íbúðarhúsið. Það sem áður var gólf fjóssins varð á eftir flatt torf þak yfir hesthúsi og geymslu þar sem áður var haughús. Ný fjós komu í þess stað. Þau hús voru byggð af tíðarandans toga, en árið 1939 hafði jörðinni og byggingum verið skipt í Jaðar I og II, nýju fjósin og hlöðurnar við þau voru voru að mestu bárujárnsbraggar.

IMG_0427

Íbúðarhúsið og útihúsin á Jaðri. Framan við útihúsin, á milli þeirra og íbúðarhússins, stóð fjósið sem fauk, með haughúsinu og safnþrónni undir, sem glittir í á myndinni

Eins og ég sagði hér að ofan þá var Jaðar eitt fyrsta húsið sem ég kynntist og þar gæti ég þess vegna hafa tekið fyrstu sporin. Björg Jónsdóttir amma mín var eiginkona sr Sigurðar Þórðarsonar, aðstoðarprests sr Magnúsar Blöndal Jónssonar, þess prests sem sameinaði söfnuðinn á Völlum eftir deilur og daga sr Magnúsar.

Björg amma varð ung ekkja á Jaðri, tveggja barna móðir, og réði þá til sín ráðsmann, Magnús Jónsson afa minn, þau gengu fljótlega í hjónaband. Amma og afi bjuggu á Jaðri til ársins 1970, amma þá búin að búa þar í 45 ár og afi í 35 ár. Þó svo að ég hafi oft komið í Jaðar í huganum síðan, þá hefur það aldrei verið nema í draumi sem ég hef gengið þar um gólf í rúma hálfa öld.

Eins og kom fram hér að ofan var Jaðri skipt í tvíbýli árið 1939. Íbúðarhúsið skiptist þannig á milli ábúenda þegar ég man; að amma og afi höfðu hálfan kjallarann og stofu hæðina. Rúna og Þórir höfðu vestari helminginn af kjallaranum og portbyggða efri hæðina ásamt hanabjálkanum.

Þetta þættu ábyggilega svolítið sérkennileg húsakynni að búa við í dag. Stofu hæðin samanstóð af risastóru eldhúsi, búri, salerni, einu löngu svefnherbergi og þremur stórum stofum auk kontórs með innmúruðum peningaskáp. Lofthæðin 3 metrar, semsagt hátt til lofts og vítt til veggja.

Efri hæðin var svo með svefnherbergum og vistarverum sem ætlaðar voru vinnufólki herragarðs með um 30 manna áhöfn. Aðal inngangurinn tilheyrði efri hæðinni og var þar nánast eina rýmið þar sem íbúðarhlutarnir sköruðust lítillega. En ef farið var fram á kontór þurfti að fara í gegnum forstofuna hjá Rúnu og Þóri. 

166217867_1405555819796047_1056103947019118680_n

Magnús Jónsson, afi minn, með Sigurð föður minn, sem fæddist á Jaðri eins og öll börn ömmu og afa. Feðgar (Áskell bróðir og Sigurður) við innganginn fyrir framan eldhúsglugga ömmu. Þó svo að aldrei hafi verið handriði á þessum útitröppum fara engar sögur af slysum þeim tengdum, -amma sá til þess. En öryggiskröfur við nýbyggingar í dag myndu krefjast þess að úrbætur yrðu gerðar hið snarasta

Inngangurinn hjá afa og ömmu var framan við eldhúsgluggann þar sem komið var upp tröppur og gengið inn í bíslag, en inngangurinn í kjallarann var undir dyrapallinum. Fyrst var komið inn í litla forstofu áður en komið var inn í stórt eldhús. Eldhúsið var fyrir miðju húsi við norður hlið. Innangengt var úr eldhúsinu inn á náðhús og niður í kjallara. Austan við eldhúsið var langt og mikið búr þar sem voru bæði skilvinda og strokkur auk annarra gamalla áhalda til matargerðar.

Inn úr eldhúsinu lá leiðin í borðstofu við miðja suðurhlið, sem hafði tvo glugga, borðstofan var notuð til að sofa og sem setustofa en á hátíðum sem borðstofa, nóg pláss var dags daglega við stórt eldhúsborð í eldhúsinu. Í suð-austur horni hússins var betri stofa með tveim gluggum til suðurs og einum í austur. Inn af henni, í norð-austur horn hússins, var svefnherbergi með norður- og austurglugga, sem lá samhliða eldhúsbúrinu, það var kallað langalína.

Úr borðstofunni í vestur voru stórar dyr yfir í stofu, sem var í suð-vestur horni hússins, jafnstór betri stofunni og með sömu gluggasetningu. Þessa stofu notuðu amma og afi sem svefnherbergi á sumrin. Þar höfðum við barnabörnin rúm inni hjá þeim, enda yfirleitt afkomendur í sumarsveit á Jaðri í minni bernsku. Úr þeirri stofu voru dyr í norður yfir í forstofuna fyrir efri hæðina hjá Rúnu og Þóri. Úr forstofunni voru svo dyr inn á kontórinn í norð-vestur horni hússins. Þar var bókasafnið, ásamt mörgum árgöngum af Vikunni í innmúruðum peningaskáp, sem hafði að geima ævintýri Skugga og Gissurar Gullrass. 

IMG_0410

Jaðar á fardögum vorið 1970. Myndin er fengin úr Morgunnblaðsgrein, sem upphafsorð pistilsins eru sótt til

Sr Magnús Blöndal var ekki alinn upp við glæsileg húsakynni, það kemur vel fram í endurminningum hans. Bernskuna hafði hann búið við kröpp kjör í torfbæjum víða um land.  Síðan fá ár í Reykjavík eftir að hann varð fullorðinn, áður en hann fluttist austur á Hérað. Hann kom sem prestur í Þingmúla í Skriðdal, en segir í endurminningunum að Vallanes hafi orðið örlögagavaldurinn í hans lífi. Hann lýsir húskynnunum á Þingmúla og telur þau þá hafa verið dæmigerðan húsakost á Héraði.

Húsaröðin austur að hlaðinu var þá þessi: Syðst austurhlið baðstofunnar, torfveggur og torfþekja, með fjórum gluggum niðri og fjórum uppi, þá bæjardyraþil með dyrahurð og litlum glugga yfir, og loks skemmuþil með tveimur gluggum niðri og einum uppi. Á bak við og vestan við þessi þrjú hús var svo búr, eldhús og fjós, og innangengt í öll frá vesturenda bæjardyra. Voru það hlunnindi fyrir mjaltakonur á vetrum að þurfa ekki út til mjalta, og fyrir alla yfirleitt að hafa innangengt á náðhúsið. En það var fjósflórinn. Þannig var þessu fyrir komið um allt Hérað, eða víðast. (Um húsaskipan í Þingmúla 1891 II bindi bls 141)

Náðhúsið á Jaðri er mér minnistætt, það var rúmgott með handlaug og postulínsklósetti á gólfi. Bali var notaður til baða og við krakkarnir sett upp á stórt koffort til þerris eftir bað. Tíminn var notaður í skeinispappír enda færður í reikningi í kaupfélaginu hvort sem hann var lesin eða ekki. Hátt fyrir ofan klósettið, ca 3m upp undir lofti, var vatnskassi úr postulíni og rör úr honum niður í glósettskálina. Niður úr vatnskassanum hékk keðja með hnúð á endanum, sem tekið var í til að sturta niður.

Úr klósettinu lágu svo rör niður í kjallara og út á hlaðið neðanjarðar, niður í þró innan við haughúsið, sem hafði verið undir fjósinu sem fauk, þangað flaug Tíminn með öllu saman þegar togað var í keðjuna og sturtað niður. þar fyrir framan var grasið grænast og okkur krökkunum strax innprentað að láta þau strá í friði. Þetta fyrirkomulag hefur vafalaust verið eitt það nýstárlegasti á Héraði á sínum tíma og hefði verið gaman að vita hvað gestinum, sem sá litlu beljurnar í fjósinu, hafi þótt um tæknina.

Útihús Jaðar

Útihúsin; safnþró og haughús næst þar sem fjósið sem fauk var ofan á. Fjárhús þar fyrir utan. Fjærst t.v. á mynd sést í fjósið hans afa, steinsteypt með torfþaki og glittir í bragga þar fyrir aftan en í honum var heyhlaða. Fjósið hans Þóris á Jaðri II sést ekki á myndinni það var í bragga utan við fjárhúsin. Hlaða og votheysgryfjur sjást ekki heldur, þær eru aftan við fjárhúsin

Að geta sér þess til hvers vegna sr Magnús Blöndal Jónsson byggði þennan herragarð í búsældarlegu Vallanesinu væri efni í mun lengri pistil, en sennilega má allt um það finna í óútgefnum endurminningum. Jaðar, sem tvíbýli, var engin kostajörð sem slík. Hús stórt og óhentugt til íbúðar, ásamt því að útihús voru í belg og biðu. 

Geta má sér til, þegar  hugmyndin kviknaði að herragarðinum, að þá hafi verið tímar mikilla þjóðfélagsbreytinga á Íslandi, þegar sveitir landsins breyttust úr torfi í steypu. Þá hafi sr Magnús séð fyrir sér stórbúskaparhætti herragarða að erlendri fyrirmynd þar sem margt fólk hefði lífsviðurværi og endastöð, enda voru hvorki atvinnuhorfur né almannatryggingar annarstaðar að hafa en í sveitinni.

Samhliða lestri Endurminninga sr Magnúsar Blöndal Jónssonar togaði Jaðar mig til sín, og gekk ég í sumar frá Vallanesi niður að Jaðri. Þar standa enn uppi flestar þær byggingar sem sr Magnús byggði auk þeirra sem bættust við þegar fjósið fauk, flestar þær sem uppistandandi voru árið 1970.

Það væri mikið verk og kostnaðarsamt að endurreisa steinsteypt útihús herragarðsins á Jaðri, en vel þess virði sögunnar vegna. Glæsilegt er íbúðarhúsið og sómir sér vel. Enn þann dag í dag, ber það vitni um stórhug, -sem á sínum tíma átti sér ólíklega „nokkurn maka að hugvitsamlegu og meistaralegu fyrirkomulagi í smáu og stóru" -allt úr steypu.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

IMG_1280

Íbúðarhúsið á Jaðri sómir sér vel rúmlega aldar gamalt. Húsið samsvarar sér einstaklega vel þrátt fyrir stærð. Heildar gólfflötur hússins, -að með töldum hanabjálka, er um 400 m2. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt, sá sem teiknaði m.a. Húsavíkurkirkju, á að hafa heimsótt Vallanes um það leiti sem hugmyndir að Jaðri voru í býgerð, en sr Magnús mun hafa ráðið um útlit og skipulag húsa

IMG_1287 (2)


100 ára steypa

IMG_4039

Nú fer hver steypan af annarri að komast á þjóðminja stigið. Nýlega var minnst 100 ára afmælis rafstöðvarinnar í Elliðaárdal. Þau eru nú orðin um allt land steinsteyptu húsin sem sjálfkrafa lúta vernd húsfriðunarnefndar við 100 ára aldurinn. En ekki er langt síðan að þar var einungis um innflutt 19. aldar timburhús að ræða sem síðar höfðu verið klædd með bárujárni samkvæmt hugviti landans.

Það má segja sem svo að steinsteypa hafi verið byggingarefni íslendinga á 20. öld, tók við af torfi og grjóti, eftir að það hafði verið byggingarefni þjóðarinnar í meira en þúsund ár. Til eru þeir sem fjargviðrast út í verndun húsa og finnst sjálfsagt að þau víki skilyrðislaust úr vegi fyrir krosslímdum nútímanum sem er að taka við af myglugifsinu. Steinsteypan fái sama sess og torfbærinn í byggingarsögu landsins, sem jarðýtan sá um að varðveita.

Þó ættu allir að hafa í huga að verðmæti gamalla steyptra bygginga er mun meira en bara minjagildið. Í reglugerðafargani nútímans kostar t.d. mikla fjármuni að hanna hús og koma í gegnum byggingaleifaferlið á meðan að endurbætur húsa lúta ekki sömu lögmálum, -enn sem komið er, -þó svo að vissulega láti fræðingar innflutningsiðnaðarins sig dreyma um slíkt.

Á undanförnum árum hefur Jóni og Gunnu verið gert ókleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið með eigin höndum. Sú þróun hefur tekið ótrúlega stuttan tíma og hefur haldist fullkomlega í hendur við fræðinga framleiðslu latínusamfélagsins og vexti víxlaranna. Það sem verra er að húsnæði verður sífellt lélegra og er jafnvel innflutt myglan nú mun svæsnari en sú heimafengna var þegar þjóðin skreið út úr hálfhrundum moldarkofunum í upphafi 20. aldarinnar.

Það var í lok nýliðinnar aldar sem andskotinn hitti ömmu sína og tók fram fyrir hendurnar á Jóni og Gunnu. Nú hefur einnig verið slegið á putta byggingameistaranna þannig að þeirra aðkoma að húsbyggingum er einungis að ábyrgjast kolefnisjafnaða krosslímið formsins vegna, sem flutt er inn CE vottað frá kolakynntri austur Evrópu eða jafnvel stálið, stolið og stælt alla leið úr reykspúandi þrælakistum kommúnistanna í Kína.

Sjálfur hefur síðuhöfundur staðið í steypunni frá því að hann fyrst man, en fyrstu minningarnar eru frá því að foreldrarnir komu sér þaki yfir höfuðið upp úr 1960. Skemmtileg verkefni í steypu ævinnar tengjast mörg hver 20. aldar húsum, verkefni sem lengi vel þótti sjálfsagt að kalla viðhald, sem er nú orðið að skammaryrði í einnota viðhaldsfríum hagvextinum. 

IMG_8299

Algengt er í gömlum steinsteyptum húsum að veggirnir séu ver farnir eftir því sem neðar dregur, en útbyggð þakskyggni hlífir veggjum mikið við veðrun

Eitt slíkt minjaviðhalds verkefni bankaði upp á fyrir nokkru þegar eigendur Vélaverkstæðis Eskifjarðar höfðu samband við MVA, fyrirtækið sem ég starfa hjá, og leituðu eftir aðstoð við að gera við steypta útveggi verkstæðisins og múrhúð. Ég var sendur á staðinn til að skoða verkið og þá rifjuðust upp minningar um mörg skemmtileg viðhaldsverkefni. Þegar steypukallar nutu enn kunnáttu sinnar án afskipta og milligöngu fræðingastóðsins.

Það voru þeir Björgvin Jóhannsson vélvirki, einn af eigendum vélaverkstæðisins ásamt nafna hans og afkomanda, sem ég átti samskipti við. Björgvin hafði auðskiljanlega áhyggjur af kostnaði enda viðgerðin fjármögnuð án opinberra styrkja, eigendur höfðu lagt til hliðar til varðveislu hússins. Ég stakk upp á að við negldum kostnaðinn ekki niður, heldur skildi ég gefa honum tölu í eina hlið hússins, sem ég gæti ábyrgst að ekki yrði farið yfir og svo sæjum við til með framhaldið.

Þegar ég gaf Björgvin upp töluna varð hann að mér fannst undrandi og bætti strax annarri húshlið við verkefni sumarsins svo við gætum tekið frá tíma í tíma. Ég hafði átt hús sjálfur með sambærilegum skemmdum í steypu og voru á Vélaverkstæði Eskifjarðar, en þær voru aðallega til komnar vegna þess að ekki var farið almennt að nota loftblendi í steypu fyrr en á seinnihluta 20. aldarinnar.

IMG_8303

Pólskir vinnufélagar mínir sáu um að framkvæma sérviskuna

Því vissi ég nákvæmlega hvers eðlis skemmdirnar voru og vissi upp á hár hvernig viðgeð yrði framkvæmd með minnstum kostnaði. Aðferðin fólst fyrst og fremst í því að notast við veggina eins og þeir komu fyrir og gera við þá með steypu eins og í upphafi að viðbættu loftblendi. Þá steypu kaupir maður hvorki í pokum né eftir stöðluðum uppskriftum, heldur er um nokkurskonar gjörning að ræða, sem spilast af fingrum fram á staðnum.

Þær viðgerðir sem framkvæmdar voru á Vélaverkstæði Eskifjarðar fóru fram vorið 2018 og var lokið þá, þrátt fyrir upphaflega rýmri tímaáætlun. Húsið átti að skarta sínu fegursta 2021 á 100 ára afmælinu. Kostnaður var vel innan upphaflegrar áætlunar þannig að sumarið 2019 fengu þeir Björgvinir okkur aftur og þá til að lagfæringa í kringum glugga á yngri byggingu verkstæðisins, sem fólst í að breyta gluggum þess til samræmis við eldri hluta. Þeir nafnarnir smíðuðu nýja járnglugga en gluggar gamla hlutans eru úr steyptu pottjárni.

IMG_4092

Járn gluggi á nýlegri hluta verkstæðisins

Vélaverkstæði Eskifjarðar er enn eins og það var í árdaga, innandyra eru reimdrifnir rennibekkir og tæki sem voru þau fullkomnustu þegar húsið var byggt. Við Björgvin áttum margt áhugavert samtalið um starfsemina, sem fram fór í húsinu. Ég ætla nú að segja frá þremur húsum sem ég hef átt því láni að fagna að fá að taka þátt í að varðveita.

 

Vélaverkstæði Eskifjarðar er nú 100 ára þ.e.a.s. húsið, en það var Friðbjörn Hólm sem lét byggja húsið árið 1921. Það var annað fullkomnasta verkstæði sinnar tegundar á Austurlandi á sínum tíma, einungis Vélsmiðja Jóhanns Hanssonar á Seyðisfirði var talin betur búin, en í því húsnæði var Tækniminjasafn Austurlands, sem varð aurskriðu á Seyðisfirði að bráð í desember s.l.

Friðbjörn Hólm var aðfluttur á Eskifirði kom frá Seyðisfirði og hafði starfað hjá Jóhanni Hanssyni. Rekstur vélsmiðjunnar gekk brösuglega fyrstu árin og leisti Landsbankinn húsnæðið til sín ítrekað. Borgfirðingurinn Sigurður Jónsson, hinn kunni brúarsmiður frá Seljamýri í Loðmundarfirði, segir þetta um veru sína hjá Friðbirni Hólm á Eskifirði.

100 ára

“Á Eskifirði var ég í rúm þrjú ár og lærði geysilega mikið. Hins vegar var ég ekki í formlegu iðnnámi þarna því Friðbjörn Hólm hafði ekki réttindi í vélsmíðum þrátt fyrir mikla reynslu í faginu og þrátt fyrir að hann væri frábær iðnaðarmaður. Þegar ég kom til Eskifjarðar var verkstæðið í skúrbyggingu en verkstæðishúsið var í byggingu og tekið í notkun með fullkomnustu vélum 1921. Helstu verkefni verkstæðisins á Eskifirði voru viðgerðir á vélum stærri mótorbátanna. Eigendur minni báta voru margir sjálfbjarga að miklu leyti hvað áhrærði daglegt viðhald. Ég bjó í kvistherbergi verkstæðishússins á Eskifirði og var yfirleitt í fæði hjá Friðbirni. Hann var afbragðs húsbóndi og það fór vel á með okkur. Hann sýndi mér líka mikið traust því ég varð fljótlega staðgengill hans á verkstæðinu. Annars gekk rekstur verkstæðisins erfiðlega frá upphafi og efnahagur fyrirtækisins stóð ekki í neinum blóma.”

Þó svo að ýmsir eigendur væru að Vélaverkstæði Eskifjarðar í gegnum tíðina voru seinni tíma eigendur og starfsmenn oft tengdir upprunalega verkstæðinu og upphaflegu eigendum s.s. Friðbirni Hólm og Símoni Jónsyni kaupmanni sem átti það um tíma. Árið 1934 lét Símon setja upp dráttarbraut við vélsmiðjuna sem var sú best búna á Austurlandi á þeim tíma. Var hún í notkun til ársins 1960.

IMG_4098

 Enn má sjá leifar dráttarbrautarinnar

Árið 1980 eignuðust þeir Björgólfur Kristinsson vélvirki, Björgvin Jóhannsson vélvirki, Sveinn Friðriksson vélvirki og Skúli Sigurðsson plötu og ketilsmiður verkstæðið og ráku það í hlutafélagi undir nafninu Vélaverkstæði Eskifjarðar þar til rekstri þess var hætt.

IMG_4095

Gamall gluggi úr járnsteypu í upphaflega verkstæðishúsinu

 

Hvammur Höfn Hornafirði var byggður 1926 af þeim mágunum Sigurði Ólafsyni frá Bæ í Lóni og Jóni Jónsyni Brunnan frá Brunnum í Suðursveit. Húsið nefndu þeir Skálholt en manna á meðal var það alltaf kallað Hvammur. Framan við húsið var í upphafi bátabryggja og vestur af henni myndarlegt sjóhús. Hvammurinn var m.a. gistihús og fyrsta flugafgreiðslan á Höfn. Eftir að Hótel Höfn tók til starfa árið 1967 var húsið notað sem verbúð fyrir farandverkafólk þá oft kallað Skakkinn en eftir það stóð húsið autt árum saman.

Hvammur Höfn

Hvammur í baksýn, á tímum Sigurðar Ólafssonar og Jóns Brunnan, á þeim tíma þegar Hornafjarðarfljót rann um höfnina á Höfn, áður en eiðið var gert út í Ósland

Einar Bragi Sigurðsson segir m.a. svo frá nokkrum dögum sem hann dvaldi í Hvamminum 11 ára gamall árið 1932. "Á þessum tíma kynntist ég heimilinu í Hvamminum. Heimilunum væri þó réttara að segja, því þetta var allt í senn einkaheimili, barnaheimili, sjómannaheimili, elliheimili, dagheimili þorpsbúa sem komu til að sýna sig og sjá aðra og gistiheimili hálfrar sýlunnar auk langferðagesta innlendra sem erlendra”.

Hvammur I

 Hvammurinn vorið 1989, húsið var nánast rústir þegar Sveinn Sighvatsson hóf endurbætur

Árið 1989 var Hvammur tekin til endurnýjunar lífdaga eftir að hafa verið í niðurníðslu árum saman. Sveinn heitin Sighvatsson hússmíðameistari á Höfn hafði þá eignast húsið og bað mig um að koma á Höfn og hitta sig, því hann hugðist láta húsið halda útliti sínu sem steinhús og klæða það að utan með múrkerfi. Stuttu seinna seldi hann húsið Tryggva Árnasyni sem rak Hafnarbúðina og Jöklaferðir.

Það varð úr að sumarið 1989 unnum við starfsmenn Mallands á Djúpavogi við að klæða Hvamminn að utan með þýsku STO múrkerfi fyrir Tryggva auk þess að sjá um steypuvinnu á Stokksnesi fyrir Svein Sighvatsson þar sem hann byggði ratsjárstöð fyrir NATO. Eftir að Hvammur var tekin í endurnýjun lífdaga hefur verið rekið þar Gistihús og hef ég gist margar nætur í þessu merkilega húsi.

Hvammur III

 Það efast engin um það í dag að Hvammurinn átti skilið að ganga í endurnýjun lífdaga, bæði vegna notagildis síns í nútímanum og sögu fortíðarinnar. Í höfninni skammt fyrir utan húsið má oft sjá Sigurður Ólafsson SF 44 liggja við landfestar

 

Ásbyrgi, fyrsta húsið sem ég eignaðist, keypti ég árið 1986. Það er á Djúpavogi, byggt 1947 af Birni Gústafssyni og Rakel Jónsdóttir, sem þá voru um tvítugt. Þegar þau fluttu úr húsinu til Akraness árið 1963 höfðu þau eignast 6 börn. Margir höfðu búið í húsinu eftir Birni og Rakel, lengst af Kristján og Antonía ættforeldrar margra Djúpavogsbúa, sem kennd voru við Garða. Þegar ég eignaðist húsið var það farið að líta verulega upp á landið en samt í notkun sem verbúð fyrir farandverkafólk.

Ásbyrgi I

Ásbyrgi vorið 1989

Margir vildu meina að húsið væri ónýtt þegar ég keypti það og best færi á að brjóta það niður og nota lóðina annað. Steyptir veggir voru illa farnir, gluggar ónýtir og múrhúð víðast hrunin. Þegar ég leitaði fjármögnunar í Landsbankanum á Djúpavogi var húsið ekki talið lánshæft. Það kom ekki til þessa að fjármagna þyrfti endurbætur í gegnum banka. Fljótlega eftir að þær hófust árið 1989 kom fram áhugi á að kaupa húsið uppgert. Rifið var innan úr húsinu, fyllt í kjallara þar sem hafði verið olíukynding.

Við endurgerð innanhúss var fyrra skipulag látið halda sér að mestu en þó var einu litlu herbergi bætt við stofu, forstofa breikkuð og höfð opin inn í húsið til að auka birtu og rími. Eins var baðherbergi stækkað um 20-30 cm á báðar hliðar á kostnað eldhúss og hjónaherbergis. Útveggir eingraðir og múrhúðaðir á hefðbundinn hátt. Milliveggir hlaðnir úr vikri og múrhúðaðir. Allt rafmagn - og vatnslagnir endurnýjaðar. Út úr þessu fékkst lítið fjögra herbergja einbýlishús.

Fyrri part sumars 1989 var húsið gert upp að utan, múrhúðað og skipt um járn á þaki. Steypan í útveggjum hafði valdið mér heilabrotum, og þá hvort betra væri að klæða húsið og einangra að utan. Niðurstaðan varð sú að gera við steypu og múrhúða húsið með hrauni, sem sagt hefðbundið verklag á steinsteyptum útveggjum fyrri hluta 20. aldar. Sökklar og fyrrum kjallaraveggir voru einangraðir og klæddir að utan með STO múrkerfi til að fá einangrun fyrir gólfplötu. Allt steypuefni var fengið úr næstu fjöru eins og venjan var þegar húsið var byggt.

Ásbyrgi II

Ásbyrgi Sumarið 1989

Sumarið 1989 komu þau hjónin Björn og Rakel á Djúpavog og bönkuðu upp á hjá mér að kvöldlagi og báðu mig um að sýna þeim húsið, sem var þá komið á loka stig endurbótanna. Ég sýndi þeim það náttúrulega með glöðu geði, en óttaðist satt að segja svolítið að ég hefði breytt húsinu þannig að þeim myndi ekki líka.

Oftar en einu sinni sagði Rakel; „Bjössi af hverju höfðum við þetta ekki svona“, þar var um að ræða baðherbergið sem var stærra og því pláss fyrir þvottavél, en þvottahúsið hafði verið niður í kjallara sem var utangengur . Annað atrið var staðsetningin á eldhúsvaskinum sem var kominn við glugga þannig að Búlandstindurinn blasti við þegar vaskað var upp.

Þegar Rakel var sest út í bíl spjölluðum við Björn í smá stund og hann sagði mér hversu erfitt hefði verið með aðföng og efni þegar húsið var byggt, allt í höftum og skömmtunum skömmu eftir stríð. Þetta vissi ég vel því Siggi í Dagsbrún, sem er rétt hjá, hafði sagt mér að þeir hefðu byggt húsin á sama tíma og upphaflega hefðu þau verið eins. En Siggi sagðist hafa verið betur settur en Bjössi að því leiti að hann hefði haft sambönd austur á Norðfjörð og getað fengið þar eitt og annað tilfallandi í Dagsbrún.

Þó svo að Ásbyrgi hafi ekki verið ætlað langt líf af mörgum þegar ég keypti það þá hefur það þjónað núverandi eigenda í rúm 30 ár og er vel viðhaldið, í alla staði Djúpavogi til prýði og eigenda sínum til mikils sóma.

210619891_10223403725593504_2667753374387361045_n

Ásbyrgi í dag, myndinni hnuplað af facebook síðu Fíu Aradóttur sem hefur verið eigandi hússins frá því árið 1989

Það sem er ánægjulegast við viðgerð gamalla húsa er að kynnast sögu þeirra og allar sögurnar sem maður fær að heyra meðan á viðgerð stendur. Bæði er að eigendur fræða mann um notkun húsanna í gegnum tíðina og oft kemur fólk af götunni til að segja sögur sem tengjast húsinu. Allar þær sögur yrði allt of langt mál að setja í stutt blogg um steypu.

 Stokksnes steypa

Annars var Stokksnes stærsta steypan sumarið 1989

 

Heimildir: Frá eldsmíði til eleksírs - Smári Geirsson / Af mönnum ertu kominn - Einar Bragi.


Útmannasveit

IMG_0661

Hvernig gat þetta gerst á minni vakt, mannsins sem ungur í árdaga spilaði á bassatrommuna í skólalúðrasveitt Árna Ísleifs, á sumardaginn fyrsta; “Blessuð sértu, sveitin mín, sumar, vetur, ár og daga”, dagskipunin var að við elliheimilið yrði bragurinn básúnaður. Að vísu reyndi Árni að kenna mér á gítar, og var ég fengin til að berja trommuna vegna manneklu.

Þennan fyrsta sumar dag 1977 var norðaustan krapa slydda og þegar kom að elliheimilinu hafði fryst. Þannig að ekki varð við það ráðið að blása í lúðra því varir frusu við hljóðfærin. Bassatromman var þá ein eftir til að spila á skaðlaust. En svo þröngt var á heyvagninum, sem notaður var til að flytja sveitina, að ekki náðist sveifla á kjuðann svo í trommunni heyrðist og ég þar að auki orðinn krókloppinn.

Núna eftir að það fór að hlýna í öðrum mánuði sumars -skerplu- sé miðað við gamla tímatalið, hef ég farið sem oftar um Útmannasveit. En það heiti var haft yfir út-Hérað, aðallega Hjaltastaðaþinghá, einnig Hróarstungu og jafnvel Jökulsárhlíð. Um þessar sveitir bruna nú á seinna hundraðinu tímatrektir túristar á leið sinn á Borgarfjörð eystri, gjörsamlega grunlausir um það af hverju þeir eru að missa.

IMG_0620

Útmannasveit á verulega í vök að verjast, eins og svo margar sveitir landsins, og virðist þar haldast í hendur, að eftir því sem tískuorðið sjálfbærni hefur sótt á þá hefur matvæla sjálfbærni farið hrakandi. Er þannig komið að sveitir á Íslandi eiga sér víða varla viðreisnar von. Þær “heilla mig og heim til sín huga minn úr fjarlægð draga” ekki svo að ég sé að leita að jarðnæði nú á gamals aldri.

Heldur eru það torf og steypa sem hugann draga. Í sveitinni náði íslensk byggingarlist að blómstra. Mold og grjót úr næstu mýri og urð í þúsund ár, -ásamt reka af ströndinni. Steypumölin úr næsta mel eða fjöru, alla síðustu öld, ásamt sementi og innfluttu bárujárni, að ógleymdri hugmyndaauðgi fólksins, -sem óðum hverfur nú allt í svörðinn.

Það má því ekki seinna vera að berja þá tíma augum þegar fólk fékk að byggja af hjartans list án strangra reglugerða, ég set hérna inn nokkrar myndir sem sýnishorn.

 

IMG_0628

Snilldarlega hönnuð steinsteypt beitarhús frá Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðarþinghá, þar sem blandað hefur verið saman helstu byggingarefnum íslenskrar hefðar

 

 IMG_0637

Bárujárnið hefur verið notað til uppsláttar steypumóta eins og mótatimbrið áður en þða var notað í þakið

 

IMG_0649

Torfið hefur verið lagt á bárujárnið til einangrunar

 

 IMG_0665

Dæmi um nýtni 20 aldar bóndans, brynningastampur í fjárhúsum gerður úr 200 líta olíutunnu sem skorin hefur verið í tvennt

 

IMG_0495

Fjárhús á Galtastöðum fram, gott dæmi um alda gamla byggingahefð

 

 IMG_0486

Útihús á Galtastöðum fram, hlaða og fjárhús, sem voru í notkun fram á þessa öld

 

IMG_0482

Galtarstaðir fram í Hróarstungu dæmigerður 19.aldar alþýðu-torfbær á Héraði með fjósbaðstofu, búið var í bænum til 1960, er nú í eigu Þjóðminjasafns Íslands

 

IMG_0692

Hóll í Hjaltastaðarþinghá

 

IMG_0693

Steinsteypt 20. aldar fjárhús á Hól, steypumölin var fengin svo til á staðnum

 

IMG_0673

Bændur víluðu ekki fyrir sér að múra smáskreytingar í kringum glugga

 

IMG_0688

Rekaviðar þaksperra á Hól, sennilega af Héraðsandi, sem eru rétt utan við bæinn

 

IMG_0519

Geirsstaðakirkja við Litla-Bakka í Hróarstungu, sem talin er hafa verað svona um kristnitöku, tilgátuhús gert samkvæmt ævafornri byggingahefð landnámsmanna. Í túninu eru taldar leynast  fornminjar, skálabyggingar og fleiri mannvirkja frá landnámstíð


Bakkabræður komnir með rörahlið á Þjóðminjasafnið

IMG_3644

Það verður ekki betur séð en Bakkabræður ráði orðið lögum og lofum á Þjóðminjasafninu og séu farnir að safna rörahliðum og girðingastaurum. Síðuhöfundur hefur nú um tveggja ára skeið gert grein fyrir vorheimsókn að einu fjósbaðstofu landsins í eigu þjóðminjasafnsins hér á blogginu. Eftir vorheimsóknina 2019 var lögð fram spurningin; eru Bakkabræður komnir á Þjóðminjasafnið? Eftir vorheimsóknina þessa árs var velt vöngum yfir arfleið Bakkabræðra.

Bæði árin kom rörahlið við sögu. En þannig er að á Galtastöðum fram er gamall torfbær að hruni kominn þó svo að hver innviðauppbyggingafjárveitingin af annarri fari til viðhalds á bænum ár eftir ár stendur þar varla orðið steinn yfir steini. En aftur á móti hefur forláta rörahlið verið flutt út í mýri hátt í kílómeter frá bænum og vegurinn orðinn því sem næst tvíbreiður að rörahliðinu. Þeir sem til þekkja vita að Galtastaðir er eini bærinn við þennan vegafleggjar og að þar býr ekki nokkur hræða.

Um helgina fékk ég hugboð um að fara út í Galtastaði og kanna hvort og hvernig framkvæmdum sumarsins miðaði því mér til ánægju tók ég eftir því í vor að sinan hafði verið reitt af bæjarstöfnunum og átti því allt eins von á að til stæði að koma steinum sem oltið hafa úr veggjum aftur á sinn stað. Þegar ég beygði inn á afleggjarann heim að bænum jókst ánægjulegur spenningurinn því að mikil umferð vinnuvéla hafði greinilega farið um veginn og ég sá á færi hylla í skurðgröfu ofan við bæ og að heimatúnið hafði verið slegið í sumar.

Til að gera langa sögu stutta þá er nákvæmlega ekkert búið að gera í gamla bænum frá því sinan var reitt af bæjarstafninum, en það er búið að tengja rörahliðið við girðingu sem liggur út og suður mýrarnar, langt inn fyrir bæ, þar vinkilbeygir hún í vestur klesst upp í hæðstu klettabrúnir, þaðan norður og niður að norðurenda rörahliðsins. Nú er gamla girðingin, sem girt var fyrir örfáum árum síðan, í kringum bæinn og heimatúnið, með fínum hengilás á hliðinu, orðin eins og krækiber í helvíti inni í nýju girðingunni.

Fjósveggurinn norðan undir baðstofunni er að hruni kominn sem fyrr og flaksandi bárujárnsplötur brosa upp í norðanáttina þar sem torfið hefur sópast af þakinu. Það er ekki ólíklegt að Þjóðminjasafnið þurfi ekki að hafa frekari áhyggjur af fjósbaðstofunni sinni eftir veturinn ef fer sem horfir. Kæmi ekki á óvart að safnið myndi eftirláta Skórækt ríkisins girðinguna og rörahliðið svo að fela megi öll verksummerki í órækt Síberíulerkis og Alaskaaspar.

Einhvertíma var metnaður fyrir þessari fjósbaðstofu á Galtastöðum, ef eitthvað er að marka þjóðminjavörð. Í Morgunnblaðsgrein sumarið 2010 fer hún yfir byggingasögulegar perlur og forgangsröðun þeirra. Þar segir að á Galtastöðum fram í Hróarstungu sé varðveitt einstakt alþýðubýli af Galtastaðagerð og unnið sé að viðgerð torfhúsanna. Nú eru liðin rúm tíu ár og ennþá er unnið að því að hægt sé að vinna að viðgerð, sennilega meiningin að girða rollurnar það rækilega frá bænum að þær éti ekki viðgerðirnar áður en næst að reita af þeim sinuna.

En af hverju er torfhús með fjósbaðstofu svona merkilegt? Þjóðminjasafnið segir sjálft á heimasíðu sinni: Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld af svokallaðri Galtastaðagerð, sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja, heldur á rætur í fornugerð og í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum, snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði. Í bænum er fjósbaðstofa, reist 1882 af Jóni Magnússyni snikkara, þar sem niðri er fjós en baðstofa er uppi yfir og nýttist ylurinn frá kúnum til húshitunar. Bærinn er lokaður fyrir almenning.

Það má ætla að þjóðminjasafnið hafi tekið við bænum 1976 vegna varðveilugildis hans, og til að sýna almenningi, sem var samviskusamlega gert fram á þessa öld á meðan ábúendur voru á Galtastöðum. Árið 1978 var bærinn lagfærður og endurhlaðin þar sem þess þurfti af hleðslu meistaranum Sveini Einarssyni frá Hrjót. Síðan hafa veggir og innviðið bæjarins fengið sáralítið viðhald. Til þess að fólk geti gert sér grein fyrir hvernig var að búa við fjósbaðstofu er gott að bærinn væri áfram til sýnis, því hann er einstakur á Íslandi.

 Fjósbaðstofa Skaftafellssýslu

Þegar Daniel Bruun ferðaðist um Suðausturland upp úr aldamótunum 1900 vakti Austur-Skaftafellssýsla sérstaka athygli hans vegna húsakosts íbúanna og þá sér í lagi fjósbaðstofurnar, sem eru nú flestar endanlega horfnar:

„Þegar farið er um Skaftafellssýslur, einkum þó Austursýsluna, tökum vér brátt eftir að byggingarlagið er með miklu fornlegri svip en annars staðar á landinu. –Fyrrum bjó fólk á vetrum á fjósloftinu, og sums staðar er það svo enn. Fjósloftið var baðstofan og rúmin í röðum meðfram veggjum. Sums staðar var rúmaröðin aðeins ein og þá á miðju gólfi. Svo lágt var undir loft hjá kúnum, og er kannski enn, að þær ráku hausana oftsinnis upp í baðstofugólfið.

Stundum var þilgólfið aðeins í miðri baðstofunni þar sem rúmin stóðu, en opið meðfram veggjum. Þar leitaði hlýja loftið óhindrað upp frá fjósinu, og kýrnar gátu reist höfuðin dálítið. –Hlýtt var í baðstofunni á vetrum af kúnum í fjósinu, en á sumrum voru kýrnar úti. Dæmi voru til þess að bændur, sem reist höfðu nýja baðstofu í sérstöku húsi, fluttu aftur inn í fjósbaðstofuna. –Það var títt í Skaftafellssýslum að búa í öðru húsi á sumrum en vetrum (sumarhús og veturhús). Slíkur siður þekktist raunar víðar.“ (Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár)

Helst er nú að finna frásagnir um daglegt líf í fjósbaðstofum frá gamalli tíð í þjóðsögunum. Hér eru brot frásagna af draugnum Eyjasels-Móra frá Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð ca 1805: „Það var einn dag, að Þóra Hálfdanardóttir var niðri í fjósi að lesa í lærdómskverinu, því að hún átti að fermast á vori komanda. Sá var þá siður víðast, að börn lærðu kverið í fjósi sökum þess, að þar nutu þau bæði næðis og hlýju. Er Þóra hafði verið þar um stund, heyrði fólkið uppi í baðstofunni angistaróp, og er að var komið, var Þóra örend. Ekki virtist nokkur vafi á því, að barnið hafði verið kyrkt til bana.“

Önnur frásögn frá Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðaþinghá ca 1830: „Ásmundur hét maður ,Ísleifsson. Hann bjó á Ásgrímsstöðum, en á móti honum á hálflendunni bjó Sigurður, sonur Jóns í Eyjaseli. Katrín hét kona Ámundar, greind kona og skörungur mikill. Eins og margar konur og ekki síst á þeim tímum bar hún mikla umhyggju fyrir kúnum. Eitt kvöld er hún að hlusta eftir, hvort hún heyri nokkurn óróa í fjósinu, en kýr voru þar um slóðir tíðast undir palli. Undrast hún, að ekkert heyrist, að þær jórtri, sem þeirra var vani. Snarast hún þá niður og svipast um í fjósinu. Saknar hún vina í stað, því kýrnar eru horfnar. Vekur hún nú Ásmund, og þau fara að svipast um í bænum eftir beljunum. Innangengt var úr eldhúsi í töðu heyið. Fara þau þangað, og stóð þá eldri kýrin við stálið og kvígan við hjágjöfina.“ (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)

Til eru lýsingar frá seinni tíma á því hvernig fjósbaðstofa var innréttuð. Lýsing Hrólfs Kristbjörnssonar er í bókinni Skriðdælu, á bænum að Þuríðarstöðum þegar hann var þar sem ársmaður 1899 þá 13 ára gamall:

„Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju.“

Árbók Þingeyinga 2012 hefur að geima einstaklega ítarlega og hlýja frásögn eftir Kristínu Helgadóttur af gamla torfbænum að Gvendarstöðum í Kinn. Kristín ólst upp í gamla bænum og gengur umhverfis hann og í gegnum með lesendum, þegar hún lýsir bæði húsaskipan og lífinu innandyra. Á Gvendarstöðum var fjósbaðstofa fram undir 1948 og leifi ég mér að grípa hér og þar niður í frásögnina þar sem Kristín minnist á fjósið og baðstofuna:

„Í fjósi voru fjórir básar og ævinlega einn eða tveir kálfar á tröðinni. Pínulítil gluggabora var til hliðar við innsta básinn og snéri í austur. Básarnir voru með hellum aftast og flórinn var hellulagður. Þennan flór þurfti að moka daglega, þá var mokað upp í fjósbörurnar sem voru kassi með kjálkum á báðum endum. Bræður mínir báru þær á milli sín, út úr fjósi og gegnum gamla eldhús, fram öll göng og bæjardyr, út og niður fyrir varpann. Þar var fjóshaugurinn og ekki aldeilis sama hvernig hann var borinn upp. Þetta var löng leið og erfitt. Þessa sömu leið fóru kýrnar kvölds og morgna þegar farið var að láta þær út þar til þær fóru í sumarfjósið sem var lítið fjárhús úti á túni ofan við götuna.

Næst held ég að við komum inn í baðstofu. Baðstofuinngangurinn var þykktin á veggnum, síðan komu sex tröppur, tvær þær neðstu voru steintröppur, síðan fjórar trétröppur. Baðstofu hurðin var miðja vegu, þrjár tröppur ofan við og þrjár neðan við hurð. Skarsúð var í baðstofu og tveir bitar þvert yfir en vel manngengt undir þá. Þrír fjögurra rúðu gluggar sneru austur og tveir í vestur. Þegar upp var komið var rúm hægra megin við uppgönguna, það sneri öðrum gafli í uppgöngu en hinn nam við þilið. Síðan komu þrjú rúm enda við enda undir austurhliðinni. Bil var á milli þessara þriggja rúma og þess sem var við stafninn.

Á veturna var vatn handa kúnum borið í gegnum eldhúsið og gamla eldhúsið inn í fjósið sem var undir baðstofunni. Það voru fjórar kýr í fjósi og þeim þurfti að brynna kvölds og morgna og nýborinni kú oftar. -, , , , maður kveið fyrir haustrigningunum. Svo var gott þegar snjórinn kom og setti vel að húsunum, þá hlýnaði líka inni, samt man ég ekki eftir að væri mjög kalt í baðstofu, kýrnar hafa bjargað því , , ,“

Hvernig varðveisla einu fjósbaðstofu þjóðminjasafnsins varð að rörahliði og tvöfaldri girðingu utan um hálfhruninn torfbæ er verðugt rannsóknar efni. Ef skyggnst er um á gúggul má finna ýmislegt um verkefnið. Í stjórnartíðindum 2018 eru 8.250.000 eyrnamerktar til varðveislu bæjarins, árið sem rörahliðið birtist. Og stóð síðan í tvö sumur eitt og yfirgefið ásamt tvíbreiðum malarvegi úti í mýri. Árið 2019 má sjá að 9.250.000 eru eyrnamerktar Galtastöðum en ekki lengur vegna viðhalds bæjarins heldur deiliskipulags bílastæða, göngustíga og girðinga. Það er helst að manni detti í hug að Bakkabræður séu komnir í nútímann og loksins búnir að læra hvernig á að fylla út umsóknir um fjárframlög með exel.

IMG_6685


Saga úr steypunni

Steypuvinna

Mér varð það á að firrtast við vinnufélaga mína í byrjun júní yfir því að þeir skyldu rífa ofan af máríerlunni. Það þyrfti alveg einstaka fákunnáttu til að geta ekki séð smáfugl í friði. Telja sig þurfa að hefja byggingarframkvæmd á fleiri hundruð fermetra viðbyggingu, akkúrat á þeim fáu fersentímetrum sem hreiður máríerlunnar stæði.

Það var bara glott við tönn og spurt; heldurðu að hún liggi þá ekki á fúleggjum núna? -því þessi litli fugl kom til baka um leið djöfulganginum linnti í lok dags og lá á hreiðrinu í þokusúld og kulda á berangri.

Þessi spurning var ekki til að bæta skapið og ég sagði að þeir skyldu gá að því, vesalingarnir, að þeir kæmust ekki einu sinni út fyrir landsteinana í kóvítinu á meðan þessi litli fugl hefði komið alla leið frá Afríku. Þeir rötuðu hvorki lönd né strönd án allra heimsins hjálpartækja, aumingjarnir.

Ég hafði tekið eftir því þegar við steypukallarnir steyptum gólfplötuna í vor að máríerlan var að kanna aðstæður í þakskegginu. Þess vegna haft á orði við uppsláttargengið þegar það mætti á svæðið hvar hreiðrið væri og að þeir skyldu sína máríerlunni nærgætni þangað til hún kæmi ungunum úr hreiðrinu.

Því fauk í mig þegar ég kom á þennan byggingastað nokkru seinna og sá máríerluna berskjaldaða fyrir veðri og vindum í sundurtættum þakkantinum. Svo var það um miðjan júní sem einn vinnufélagi kom til mín og sagði; Maggi ég er búinn að byggja yfir hreiðrið svo það rigni ekki ofan á ungana. Þá fór að lyftast á mér brúnin og ég hugsaði með mér að þetta væru kannski ekki eintómir fábjánar.

Í vikunni sem leið steyptum við svo efri plötuna og þá komust ungarnir varla fyrir í hreiðrinu lengur, þannig að það var sett upp öryggishandrið fyrir framan það svo þeir stykkju ekki út í steypuna, rétt á meðan hún væri að harðna í sumarsólinni.

Við það tækifæri sagði ég við vinnufélagana að réttast væri að þeir yrðu sæmdir fálkaorðunni ef ungarnir lifðu. Daginn eftir voru þeir allir flognir úr hreiðrinu.

Máríerluhreiður

Þeir voru pattaralegir ungarnir fimm rétt áður en þeir flugu úr hreiðrinu

 

Plötusteypa

Steypt í kringum máríerluna, hreiðrið er fyrir miðri mynd neðan við rauðu píluna

 

 Máríerlan

Foreldrarnir voru orðnir slæptir á því að bera flugur í hreiðrið, enda ekkert smá mál að koma upp fimm ungum við aðstæður sem ríkja á byggingastað

 

IMG_2662

Virðingaleysi fyrir fuglum himinsins hefur færst í vöxt á undaförnum áratugum, og í byggingariðnaði eru leiðbeiningar sem þessar ekki óalgengt kynningarefni. Ég bý þó svo vel að hafa kynnst öðrum hugsunarhætti frá því að ég byrjaði í byggingavinnu hjá Völundi Jóhannessyni frænda mínum fyrir meira en 40 árum síðan. 

 En það er ekki aðallega vinnan sem ég hef búið að með kynnum mínum af Völundi, heldur virðingin sem hann sýnir náttúrunni og tilverurétti alls lífs á sínum forsemdum. Fræg varð gæsin í Hvannalindum sem Vegagerðin lét stjórna hvenær hálendisvegir norðan Vatnajökuls yrðu opnaðir að undirlægi Völundar.

Og sem dæmi get ég nefnt að þegar mjólkurstöðin á Egilsstöðum var í byggingu hafði máríerlan verið árrisulli en ungu vinnumennirnir og komið sér upp hreiðri í uppslættinum, þá kom ekkert annað til greina en að láta þau steypumót bíða þar til hún hafði komið upp ungunum sínum, "enda nóg annað gera í stóru húsi drengir".

Man ég ekki betur en máríerlan hafi mætt aftur vorið eftir og verpt á nákvæmlega sama stað þó svo að hún þyrfti að fara inn í byggingu á lokastigi til þess, en þá var bara passað upp á að hafa gluggann galopin þangað til ungarnir flugu úr hreiðrinu út í sumarið og sólskinið


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband