Hvað varð um íslensku Grænlendingana?

Það virðast vera mjög fátæklegar heimildir til varðandi það hvað gerðist síðustu búsetu ár norrænna manna á Grænlandi og ekkert sem getur skýrt skyndilegt hvarf fólksins. Fræðimenn hafa viljað meina að kólnandi loftslag, hungur og sjúkdómar hafi með það að gera hvað af fólkinu varð. En það breytir ekki því, að eins og í sumum óleystum morðgátum, þá vantar líkin.

Kenningar hafa verið uppi um að það sama hafi gerst og með Tyrkjaránunum á Íslandi, fólkinu hafi verið rænt og selt á þrælamarkað, eða farið til Azoreyja, Madeira, eða Grænhöfðaeyja, þegar Portúgalar námu þessar eyjar, jafnvel Kanaríeyja. Flest er þetta talið líklegra af fræðimönnum heldur en að fólkið hafi farið stystu leið til Ameríku, enda að halda slíku fram nánast samsæriskenning um opinberu útgáfu mankynssögunnar.

Til eru skráðar heimildir fyrir því að Hákon biskup í Noregi hafi sent Ívar Bárðarson prest til Grænlands árið 1341, en þá hafði ekkert frétts í meira en ár frá Grænlensku byggðunum. Frumheimildirnar eru glataðar en til eru dönsk afrit frá því um 1500 um það hvað blasti við séra Ívari Bárðarsyni og samferðamönnum þegar þeir koma til vesturbyggðar.

Þegar Ívar og fylgdarlið kom í byggðina finnur hann ekkert fólk aðeins búsmala í haga, nautgripi og sauðfé. Þeir slátruðu eins miklu af búsmalanum og skipin gátu borið,fluttu það svo með til austurbyggðar Grænlands en þar virtist allt með eðlilegum hætti. Hvað varð af fólkinu í vesturbyggð eru engar heimildir til um, en þess má geta að sjóleiðin milli austur og vesturbyggðar er um 375 mílur eða um ¾ leiðarinnar á milli Grænlands og Nýfundnalands.

Þegar séra Ívar Bárðarson var aftur kominn til Bergen árið 1344, úr Grænlandsleiðangri sínum, fer hann af einhverjum ástæðum fram á það við Clemens VI páfa, í gegnum biskupstofu í Bergen að biskupsembættið á Grænlandi verði flutt til Noregs en Grænland hafði eigin biskup til ársins 1349. Líklegt verður að teljast að í leiðinni hafi Ívar upplýst um stöðu mála á Grænlandi á æðstu stöðum.

Árið 1355 sendir Magnús IV (Smek) Svía konungur, en hann var jafnframt konungur yfir Noregi, Íslandi og Grænlandi um tíma, leiðangur til Grænlands til að kanna stöðu mála. Af þeim heimildum sem til eru um ástæður þessa leiðangurs má ráða að ógn hafi steðjað að kristna samfélaginu á Grænlandi. Þess er skemmst að geta að leiðangur Magnúsar IV Smek snéri ekki aftur og eru á huldu hvað um hann varð, þó eru til óstaðfestar sagnir um að 3 eða 4 menn hafi komið fram í Noregi árið 1364.

Frá þessum árum eru til heimildir af köldum árum þar sem ís fyllti hafnir á norðanverðu  Íslandi. Eins er til frásögn af því úr glataðri bók frá þessum tíma að einhvertíma á árunum fyrir 1350 hafi „...næstum 4000 manns haldið út á frosið haf og aldrei snúið aftur.“ Leiddar eru að því líkur að þetta frosna haf hafi verið vestan við Grænland og eru annálaskrif Íslenskra biskupa nefnd þeim til stuðnings, þar á meðal þeir annálar sem Gísli Oddson á að hafa haft aðgang að og lagt út frá árið 1638 þegar hann skrifar bókina „ Íslensk annálsbrot og undur Íslands“.

Hvort þetta kuldakast hafi verið skýringin á hvarfi Grænlendinga úr vesturbyggð, og ástæða leiðangurs Magnúsar IV Svíakonungs er ekki gott að segja, en einhverjar heimildir nefna þó að séra Ívar Bárðarson hafi komið við sögu í aðdraganda leiðangursins. Enda þarf það ekki að koma á óvart að forvitni hafi leikið á því á æðstu stöðum að vita hvað varða um allt samfélagið eins og það lagði sig í vesturbyggð Grænlands, sem hvarf án þess að svo mikið sem að nokkuð væri um það vitað í austurbyggð.

Við þennan leiðangur hafa síðan grúskarar og utangarðs fræðimenn jafnframt viljað tengja Kensington rúnasteininum sem fannst í Minnesota árið 1898. En á hann er ristar rúnir um ferðir 8 Gota (Svía) og 22 Norðmanna um Minnesota árið 1362. Þá hefur verið bent á að þessi leiðangur hafi verið talin það mikilvægur, að sá sem fyrir honum fór fékk að velja í hann einvala lið úr lífverði konungs, þá menn sem handgengnastir voru Magnúsi IV og höfðu svarið honum eið.

Það sama gerðist svo í austurbyggð 100-150 árum seinna, fólkið hvarf sporlaust. Síðustu skráðu heimildir úr austurbyggð eru frá árinu 1408 af brúðkaupi íslendinganna Sigríðar Björnsdóttur og Þorsteins Ólafssonar í Hvaleyjar kirkju. Eins mun einhverstaðar vera til lýsing Þorsteins á því þegar maður að nafni Kolgrímur var brenndur á báli fyrir galdur þann tíma sem þau dvelja á Grænlandi.

Íslensk annálaskrif frá síðustu árhundruðum búsetu norrænna manna á Grænlandi bera það með sér að ef fréttnæmt þótti að íslendingar heimsóttu þessa fyrrum landa sína í vestri, hafi það verið vegna hafvillu eða sjóhrakninga. Sumarið 1406 fer skip með íslendinga til Grænlands sem sagt er að hafi hrakist þangað á leiðinni milli Noregs og Íslands. Um borð er nokkur fjöldi fólks bæði konur og karlar. Þetta fólk dvaldi á Grænlandi í fimm ár og eru skráðar heimildir þessu viðvíkjandi þær síðustu um byggð norrænna manna á Grænlandi.

Sumt af þessu fólki kom ekki aftur til Íslands fyrr en árið 1413, því frá Grænlandi sigldi það ekki til Íslands heldur Noregs. Enda var strangt viðskiptabann í gildi, að tilskipan Noregskonungs á milli Íslands og Grænlands. Þar sem þetta fólk hafði verið svo lengi í burtu þá var það talið af á Íslandi og komu því upp ýmis mál þegar það birtist aftur s.s. varðandi hjúskaparstöðu ofl. sem greiða þurfti úr lagalega.

Það virðist vera að Grænlandsferðir Íslendinga hafi einungis ratað í heimildir þegar þær vörðuðu við lög. Þó er ferðasaga þeirra Björns Jórsalafara og Sólveigar konu hans undantekning. Hún var rituð löngu eftir Grænlandsferð þeirra og er glötuð. En engu að síður virðist vera til talsvert um það ferðalag, sem helgast m.a. af gríðarlegum hagnaði þeirra hjóna af "hrakningunum", sem einna helst á sér samsvörun í ferð annarra íslenskra hjóna vestur um haf rúmum 200 árum fyrr.

Grænlandsför þeirra Björn Einarssonar Jórsalafara og Sólveigar Þorsteinsdóttur er um margt sláandi lík Grænlandsför þeirra Þorfinns Karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur. Bæði þessi hjón hagnast gríðarlega á ferðinni, sá er þó munur á að Björn Jórsalafari og Sólveig er sögð hafa hrakist til Grænlands. En Grænlendingasaga segir af ásetningi Karlsefnis og Guðríðar að komast alla leið til Vínlands og af því hvað þau efnuðust á þeirri ferð.

Þess verður að geta að verslun við Grænlendinga var ólögleg án leyfis konungs á tímum Björns og Sólveigar. Árið 1385 sigldu þau frá Noregi samskipa fleirum en hröktust til Grænlands og voru teppt þar í tvö ár en komu þá til Íslands. Þau efnast gríðarlega í ferðinni því þegar heim kemur kaupir Björn Vatnsfjörð fyrir 150 kýrverð, sem var fimmfalt nafnverð.

Það sem undarlegra er að hann arfleiðir seljanda Vatnsfjarðar að jörðinni komi hann og Sólveig ekki heim úr Noregsferð og suðurgöngu til Rómar. Þau sigla síðan til Noregs 1388 til að standa fyrir máli sínu varðandi "ólöglegu Grænlandsdvölina" og höfðu meðferðis vitnisburði um tildrög þeirra hrakninga og viðskipti sín við heimamenn.

Björn var dæmdur sýkn saka í Björgvin 20. maí 1389. Síðan fór hann í suðurgöngu til Rómar rétt eins og Guðríður Þorbjarnardóttir rúmum 200 árum fyrr. Björn og Sólveig komu til Íslands aftur 1391 og eru á sinni tíð einhver valdamestu og víðförulustu hjón landsins. Jórsalanafnbótina fékk Björn síðar vegna heimsóknar sinnar til Jerúsalem.

Hvað varð af byggð norænna manna á Grænlandi er ekki vitað. Byggðin er talin hafa verið við gott gengi um 1410 samkvæmt rituðum heimildum um brúðkaup íslendinganna Sigríðar og Þorsteins, sem þar fór fram 1408. Vitað er að þau og samferðafólkið yfirgefa Grænland 1410, ekkert hefur spurst til fólksins á Grænlandi síðan.

Á huga.is var farið yfir hugsanleg „örlög norrænar byggðar á Grænlandi“ í samnefndri ritgerð. Þar eru helstu getgátum fræðimanna í gegnum tíðina um örlög Grænlendinga af norrænum uppruna gerð skil. Það sem merkilegast er við þær getgátur er að nánast engin þeirra gerir ráð fyrir að fólkið, sem þaðan hvarf sporlaust, hafi farið til Vínlands þrátt fyrir að landkostir fyrirheitna landsins hafi verið eitt helst umræðuefnið á Grænlandi samkvæmt Grænlendingasögu.

Vilhjálmur Stefánsson mannfræðingur og landkönnuður kemst næst því að geta sér þess til að fólkið hafi farið til Vínlands, en hans kenning er á þann veg að Grænlenska fólkið hafi blandast eskimóum í langt norður í Kanada. Þær kenningar eru nú taldar hafa verið afsannaðar með genarannsóknum nútímans. Lokaniðurstaða ritgerðar höfundarins á huga.is gerir ráð fyrir að norræna samfélagið á Grænlandi hafi flutts suður um höf jafnvel fyrst til eyjarinnar Madeira út af Portúgal en hafi að lokum dagað uppi á Kanaríeyjum.


Bloggfærslur 15. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband