Vestfjarða-Grímur og Vatnajökull

Nú fer hamfarahlýnunin með himinskautum og trúboðar kolefniskirkjunnar skreyta  himinhvelfinguna þotuslóðum. Norðurslóðir eiga að vera til marks um hvað er í vændum, -hamfarabráðnun jökla mun drekkja mankyninu. Gott ef ekki verður fleygt dánarvottorði í Ok einn ganginn enn, um leið og liðið þýtur hjá, sem vit kann að hafa fyrir öðrum, með kolefnissporin á eftir sér og tvær litlar Síberíu lerki plöntur til framtíðar hamfaraóræktar og afláts eigin óskapnaðar.

Dálæti íslenskra fyrirmenna á því að vera málsmetandi í þessum söfnuði verður að teljast einkennilegt, ef litið er til þess að enn hefur hitastig landsins bláa ekki náð því sem það var um landnám. Hjákátlegra er að verða vitni að því að litla ísöld sé heiðruð með hinu rétta hitastigi, -þeirra sem eiga að vita að þá riðu yfir einhverjar mestu hörmungar Íslandssögunnar.

Síðuhafi setti hér á bloggið nokkur orð um Öræfi, Litlahérað og Klofajökul fyrir nokkrum  dögum. Þau voru að mestu fengin úr Íslenskir sögustaðir, reisu bók Kristian Kålund, og greinarskrifum Sr Sigurðar Gunnarssonar prófasts á Hallormastað í Norðanfara. Báðir þessir menn skráðu hjá sér gamlar sagnir og leituðu eftir heimildum þeim til staðfestu s.s. úr máldögum kirkna og jarðatölum.

Núna ætla ég að benda á þjóðsöguna um Vestfjarða- Grím, sögu sem vitað er að var til í munnmælum á 16. öld og ekki fyrr en á þeirri 19. sem hún var skráð. Þjóðsögur eru með því marki brenndar að auðveldlega má rengja þær vegna ævintýralegs söguþráðar, eru oft um álfa, drauga og forynjur. En að sama skapi fara þær oftast rétt með staðhætti og geyma miklar upplýsingar um fyrri tíma.

Sagan af Vestfjarða-Grím segir frá manni sem fæddist á Skriðu (Skriðuklaustri) í Fljótsdal. Hann var sonur Sigurðar og Helgu, sem létu hann frá sér til bróður Sigurðar sem bjó vestur á fjörðum, og þar ólst hann upp. Sigurður lenti í stælum við Indriða höfðingja á Eiðum út af belju með þeim afleiðingum að Indriði drap Sigurð.

Grímur fór austur á land, þá fullorðinn maður, til að hefna föður síns og drap Indriða á Eiðum. Hann varð eftirlýstur sakamaður og þurfti að leynast víða um Hérað, m.a. er Grímstorfan í Hafrafellinu í Fellum nefnd eftir þessum Grími. Eins er talið að hann hafi leynst um tíma í helli, sem var á bak við Fardagafoss í Fjarðarheiðinni ofan við Egilsstaði, en fyrir munnann á þeim helli hrundi fyrir nokkrum árum.

Grímur fór síðan, að ráði móður sinnar, til konu sem leyndi honum, sennilega í tjaldi fyrir ofan Krossavík í Vopnafirði, þó sagan geti ekki um hvar. Sú kona ráðlagði honum að fara suður á fjöll og leynast um veturinn á stað þar sem nóg væri af fiski í vötnum og búsældarlegt um að litast. Þegar voraði ráðlagði hún honum að taka sér far með skipi við Ingólfshöfða og fara úr landi, -eða eins og þjóðsagan orðar það:

Þess á milli sótti Helgi (bróðir Indriða) alstaðar eftir Grími og setti öll brögð til að ná honum, frétti og um síðir að hann mundi dyljast hjá fyrrnefndri konu. Kona þessi var berdreymin og forspá; sagði hún Grími eitthvert sinn að Helgi mundi þar innan skamms koma og vísaði honum að vötnum nokkrum í landsuður, hvar hann sig af veiðiskap nært gæti þar til skip einhver af hafi kæmi undir Ingólfshöfða; ráðlagði hún honum þar að leita utanferðar, en voga ekki til langdvala hér í landi.

Grímur fór alfarið að ráðum konunnar, en við vötnin bjó risi í helli ásamt dóttur sinni. Grímur drap risann og bjó með dótturina hjá sér um veturinn. Ferðir Gríms eru rökréttar, sé farið til vatnanna, sem hann bjó við, -en þau eru nú á kafi í snjó, og ef ekki væri fyrir þjóðsöguna hefði sennilega engin vitað af þessum vötnum í fleiri hundruð ár þar til nú á dögum nútíma vísindanna.

Þannig lýsir þjóðsagan þessum stað á dögum Vestfjarðar-Gríms: 

Grímur fór sem honum var ráðlagt til vatnanna og gjörði sér þar skála, laufskála úr skógi er þar var nógur, og tók að veiða í vötnum.

Þessi þjóðsaga er hárnákvæmt tímasett, þó svo að ekki sé hægt að rekja munnmæli aftar en til 16. aldar. Grímur eignaðist nefnilega velgerðar mann í Noregi sem var Haraldur konungur harðráði Sigurðsson (1015-1066) sá sem lét lífið í orrustunni við nafna sinn við Stamford Bridge á Englandi, og var afi Þóru Magnúsdóttir í Odda á Rangárvöllum. Faðir Þóru var Magnús berfættur, stundum kallaður síðasti víkingakonungurinn. Sennilega eiga flestir Íslendingar nú ætt að rekja til Þóru í Odda, þannig að Haraldur harðráði hefur óbeint átt stað í lífi fleiri hér á landi en Vestfjarða-Gríms.

Grímur fór utan sem til var ætlað og komu til Noregs; þá var konungur Haraldur Sigurðsson; með honum fékk Grímur sér vistar um veturinn. Að jólum hélt konungur veislu ríkmannlega; bjó Grímur sig þá því fyrrtéða belti. Strax kom á hann ógleði og þráði hann jafnan risans dóttur. Þetta fann konungur og spurði hann hverju gegndi, sagði hann þá konungi allt um sambúð þeirra risadóttur.

Að vori gaf konungur honum skip á hverju hann til Íslands fara kynni til að sækja unnustu sína. Grímur hélt á haf og kom við Ingólfshöfða, gekk á land og fór til Grímsvatna (svo hétu þau síðan Grímur hafði þar vistum verið). Þar við vötnin fann Grímur risans dóttur og hjá henni sveinbarn er hún alið hafði meðan Grímur var í burtu og kenndi honum það nú.

Það varð fagnaðarfundur og bað Grímur hana með sér að fara; tóku þau svo barnið með sér og fé það allt er úr hellinum hafði áður í skálann flutt verið og fóru á burt. Þessu næst héldu þau til skips, létu í haf og náðu Noregi; tók risans dóttir þar kristna trú og skírn með barni þeirra.

Nokkrum vetrum síðar fýstist Grímur að fara út til Íslands og staðnæmast þar. Bjóst hann því burt úr Noregi með konu sína, risans dóttur, og kom norðan að Íslandi að eyju einni; þar sté Grímur á land og bar af skipi; bjuggu þá í eyjunni risar einir eður bjargbúar; stökkti Grímur þeim á burt sumum, en drap suma og hreinsaði svo eyjuna; síðan setti hann þar byggð sína og juku þau risadóttir þar ætt þeirra.

Eyin liggur út frá Eyjafirði og heitir síðan Grímsey; bjuggu ættmenn Gríms þar eftir hann og lýkur svo þessari frásögn.


Bloggfærslur 13. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband