Glitský

Útsynningurinn hefur verið þrálátur síðustu vikuna með tilheyrandi ófærð í lofti, oft er hann samt fallegur. Suðvestan hraglandi er samt hjá flestum óvelkominn á þorra með sínum storméljum, spilliblotum og svellum, -þar að auki rignir ekki eins þétt niður öllum velkomnu flóttamönnum á klakann, og landinn kemst ekki viðstöðulaust í loftið til að telja tærnar á Tene.

Þorrinn byrjaði með nýju tungli og má því allt eins vænta umhleypinga út tunglið, -samkvæmt gömlum fræðunum, -eða allt til góu tungls. Reyndar virðist vísindaleg veðurfræðin í síauknum mæli vera farin að færa sér í nyt visku karlsins í tunglinu í langtíma spálíkönum sínum, nema þegar til hamfara hlýnunar horfir.

Sjálfur spái ég mest í skýin og hef jafnvel fengið skýjafar með hröfnunum héðan úr loftkastalanum mínum við þannig spádóma. Ég bý við skýjaborg og get ferðast um á heilu skýjaflotunum með því einu að líta út um stofugluggann, og það án alls loftslagskvíða svo lengi sem ég hef vit á að líta á hitamælinn heima hjá mér en ekki Langtíburtukistan.

Alla vikuna var skýjarekið magnað áhorf fyrir einlægan skýjaglóp. Þó svo dögum saman kæmust engar á loft carbfixaðar flugvélarnar með kolefnisstrókandi túristavaðalinn, þá svifu hrafnarnir um að venju í suðvestan þræsingnum og þegar himininn dró gluggatjöld sín frá, allt frá vestri til austurs, blöstu við himnesk undur og stórmerki.

 

IMG_5752

Á sama augnabliki og himininn

 

IMG_5762

gluggatjöldum sínum svipti í sundur,

 

IMG_5748 

ákvað sólin að draga saman sinn sjóð.

 

Skýjafar

Líkt og gullið draumfagurt undur,

 

IMG_5767 

lýsti síðasti geisli hennar upp marglit ský,

 

IMG_5765

-og í glugganum á rökkvaðan karlskrjóð.


Bloggfærslur 29. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband