Nú á tímum dreymir flesta um að skapa minningar, -og njóta

Tíminn mælir fjarlægð í rúmi, og er byggður á minni. Veruleikinn í draumi og veröldin í vöku eru upplifun innra og ytra sjálfs. Munurinn er tími. Draumar eru lausir úr viðjum tímans, á meðan minningar eru tímasett framhaldssaga. Án minnis er enginn tími. Án tíma er ekkert minni. Án drauma verður ekkert rými.

Þess vegna er heimurinn í draumi og vöku jafn sannur. Eini munurinn er að heimurinn í draumi á sér ekki tíma, lýkur því um leið og draumnum, -á meðan heimurinn í vöku á sér endurteknar minningar og framhaldsögu í tíma, sem maður á lítinn þátt í að skrifa.

Þetta er ágætt að hafa á bak við eyrað í síbylju heimsins. Af því draumurinn veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sína sérstöku reynslu í þessum heimi, burt sé frá framhaldssögu heimsins.

Jafnvel þó röddin, sem er til staðar í höfði barnsins, hvísli með tímanum "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur heimurinn ekki til með bjarga neinum frá eigin lífi.

Ef þú ert meðvitaður um visku barnsins getur þú skapað ómældar minningar við að ferðast fram og aftur um tímann, á því einu sem skrifað er í skýin, því allt býr í sama rými.

Það er heimur í viðjum minninga tímans sem gerir okkur tímabundin. Lífið er draumur.


Bloggfærslur 11. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband