Nú á tímum dreymir flesta um að skapa minningar, -og njóta

Tíminn mælir fjarlægð í rúmi, og er byggður á minni. Veruleikinn í draumi og veröldin í vöku eru upplifun innra og ytra sjálfs. Munurinn er tími. Draumar eru lausir úr viðjum tímans, á meðan minningar eru tímasett framhaldssaga. Án minnis er enginn tími. Án tíma er ekkert minni. Án drauma verður ekkert rými.

Þess vegna er heimurinn í draumi og vöku jafn sannur. Eini munurinn er að heimurinn í draumi á sér ekki tíma, lýkur því um leið og draumnum, -á meðan heimurinn í vöku á sér endurteknar minningar og framhaldsögu í tíma, sem maður á lítinn þátt í að skrifa.

Þetta er ágætt að hafa á bak við eyrað í síbylju heimsins. Af því draumurinn veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sína sérstöku reynslu í þessum heimi, burt sé frá framhaldssögu heimsins.

Jafnvel þó röddin, sem er til staðar í höfði barnsins, hvísli með tímanum "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur heimurinn ekki til með bjarga neinum frá eigin lífi.

Ef þú ert meðvitaður um visku barnsins getur þú skapað ómældar minningar við að ferðast fram og aftur um tímann, á því einu sem skrifað er í skýin, því allt býr í sama rými.

Það er heimur í viðjum minninga tímans sem gerir okkur tímabundin. Lífið er draumur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldarlega sagt.

Sigurður Kristján Hjaltested, 11.2.2023 kl. 17:49

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Eins og Jung sagði eitt sinn, "hún fór til tunglsins."

Guðjón E. Hreinberg, 11.2.2023 kl. 18:45

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég hef lesið kenningar um drauma, tilveruna og veruleikaskynjun okkar eftir bæði vísindamenn og heimspekinga sem ég tek mark á. Engu að síður eru svona ljóðrænar pælingar undirstaða efans, sem aftur er undirstaða framfaranna. Þessvegna mega vísindamenn ekki ríghalda sér í það sem þeir telja rétt, en verða að efast og reyna á þolmörk kenninganna unz aðrar taka við.

Í gær dreymdi mig um álíka viðburð og fjallað var um í Morgunblaðinu 2. febrúar síðastliðinn að ætti að verða á okkar landi. Leiðtogafundur Evrópuráðsins á að vera haldinn á Íslandi, og Selenskí er boðið. 

Mér fannst ég vera staddur í Laugardalshöllinni í draumnum, eða einhverri þannig byggingu, kannski herstöð. Íslenzkir stjórnmálamenn voru þarna og alþjóðlegir. Þegar Selenskí hélt ræðu hafði það dáleiðandi áhrif á mannfjöldann. Mér fannst eins og hann fyrirskipaði árás á Danmörk og allir hylltu hann um leið.

Draumgjafinn var að rökræða við fólk þarna og vildi frið, en það gekk ekki upp. 

Þessi Selenskí í draumnum var öðruvísi en sú hetja sem vestrænir fjölmiðlar reyna að mála mynd af. Þessi var stríðsherra sem vakti ógn.

 

Það eru svo margar áhugaverðar setningar í þessum áhugaverða pistli sem mig langar að leggja útaf, en nefni tvennt.

 

"Lífið er draumur", er síðasta setningin.

 

Það væri hægt að vísa í kenningar nútímavísindamanna um það að við lifum í heilmynd, hologram eins og nefnt er á ensku, og að öll okkar skynjun sé brenglun eða blekking sem æðri verur stjórna. Telja þeir að Matrix-kvikmyndirnar byggi á raunverulegum vísindum.

Grunnur þeirra vísinda held ég að byggist á rannsóknum á svartholum, að þeir telja að tveir veruleikar séu til samtímis, að bæði eyðist allt form og efni sem fari í svarthol og á sama tíma varðveitist það við sjónbaug svartholsins, og var það eitt af því síðasta sem Steven Hawkings uppgötvaði. Þættir í Rúv um Einstein og Hawkings fjölluðu um þetta í vetur.

 

"Þess vegna er heimurinn í draumi og vöku jafn sannur."

 

Þetta var ein af grunnniðurstöðum dr. Helga Pjeturss, sem hélt því fram að draumar væru veruleiki annarra, svonefndra draumgjafa, sem væru alltaf íbúar annarra hnatta, en við draumþegar.

 

En síðan eru þarna aðrar setningar sem ég er sammála og eru merkilegar. Eins og Guðjón og fleiri hafa fjallað um þá eru marxistar af Frankfurt skólanum að færa upplifun fólks í hólf, með því að kalla allt geðveiki eða röskun sem ekki er þeim þóknanlegt.

 

Raunverulegt frelsi er að afneita þeirri kúgun marxistanna, og síðan að fá efnislegt og veraldlegt frelsi.

Ég vil þakka sérstaklega fyrir þennan pistil Magnús. Hann gefur mér kjark að birta kannski drauma eða eitthvað sem meginstraumsmarxistarnir telja ekki nógu formfast og rökvíst, og fær þessvegna lítinn lestur.

Athugasemdir annarra eru hér áhugaverðar líka. En kenningar dr. Helga Pjeturss um drauma held ég að séu pottþéttar og eins traustar og áreiðanlegar og kenningar Einsteins og Freuds eða annarra, um þyngdaraflið eða eitthvað slíkt.

Þegar kenningar eins og hans útskýra veruleikann og gefa manni fleiri vísbendingar og skilningskorn, þá finnst mér þær ganga upp.

Ingólfur Sigurðsson, 11.2.2023 kl. 19:25

4 identicon

Þegar tíminn endar, hvað gerist Á EFTIR? Hugtakið Á EFTIR, á þá varla við, því það á við um tíma.

Þegar maður deyr losnar hann úr viðjum tímans. Hann verður ótímabundinn.

ÁÐUR EN tíminn hefst er varla hægt að segja heldur, því ÁÐUR á við um tíma.

Guð ER andi sem býr yfir óendanlegum krafti, sem hann getur breytt í efni eða öfugt.

Jörðin er sköpun Guðs, maðurinn er það líka, og einnig tíminn. Allt þetta líður samt undir lok. Hvers vegna allt þetta þá?

Guð er ekki háður neinu af þessu. Hann ER og hefur alltaf verið, án upphafs og án endis eilífur.

Hann vildi samt geta af sér börn, til að eiga samfélag við.

Tíminn á Jörðinni fyrir mennina virðist eins og próftími, til að komast að því hverjir vilji eiga samfélag við Hann í eilífðinni. Hverjir trúa á Hann.

Jesús: 5 Faðir, ger mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð sem ég hafði hjá þér áður en heimur var til. Jóh. 17.

1 Síðar mun ég úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, gamalmenni yðar mun dreyma drauma og ungmenni yðar munu fá vitranir. Jóel 3.

13 Ég horfði á í nætursýnum og sá þá einhvern koma á skýjum himins, áþekkan mannssyni. Hann kom til Hins aldna og var leiddur fyrir Hann.

14 Honum var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta Honum. Veldi Hans er eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi Hans verður enginn endir. Dan. 7.

18 Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. 19 Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda 20 og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Mt. 28.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 11.2.2023 kl. 19:43

5 identicon

"Time is just an illusion." Einstein

Ólafur Arason (IP-tala skráð) 11.2.2023 kl. 20:00

6 identicon

Maður segir alltaf það sem manni finnst:

Snilldarpistill, meistari Magnús.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.2.2023 kl. 20:11

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka góð orð í minn garð. Þið kunnið greinilega að ferðast um tímann og njóta draumsins.

Þessi pistill átti reyndar eð verða ljóð, en ég gafst upp á því að hnoða því saman svo skiljanlegt væri.

Þetta með drauminn, tímann, minningarnar og lífið kom til vegna draums sem mig dreymdi. 

En mér rann í brjóst fyrir hádegið í dag, hafði farið á fætur fyrir kl 6. Mig dreymdi að ég væri á Þórshöfn á Langanesi að hlaða íbúðarhús með ungum manni fyrir eldri mann sem búsettur var á Þórshöfn. Ég þekkti hvorugan manninn þó svo að ég hafi oft unnið við múrverk á Þórshöfn á árum áður.

Húsið var hlaðið úr vikurholsteinum, en ég hef hlaðið nokkur hús úr svoleiðis steini um ævina. Við ungi maðurinn fórum í hádegismat hjá húseigandanum og þar sagði ég honum að ég væri til í að koma og múrhúða húsið fyrir hann þegar þar að kæmi með unga manninum.

Þá vaknaði ég og herbergið var baðað í sól. Horfði út um hvítan svefnherbergisgluggann og vindurinn hvein úti á svölunum. Út um  gluggann sá ég bara upp í bláan himin með hvítum skýjahnoðrum auk þvottasnúranna hennar Matthildar minnar með tréþvottaklemmunum sem titruðu í vindinum á hvítum snúrunum.

Þá svifu af og til hrafnarnir fram hjá, en þeir hafa þann hátt á að svífa í uppstreyminu sunnan við Útgarðs blokkina, sem stendur á kletta hæð, í suðvestan áttinni og horfa niður á lóðina til að kanna hvað Matthildur hefur gefið fuglunum.

Ég segi nú ekki annað en svona eiga draumar að vera ef maður vill njóta.

Magnús Sigurðsson, 11.2.2023 kl. 21:29

8 identicon

Lífið er bara heilmikill draumur

ég var fullur í gær og vaknaði

við hliðið heima í morgunsárið

meðan mangófuglinn tók að syngja

svo angurvært að á mig sótti þorstinn

og svo vel gekk á kútinn minn stóra

að um það bil aem hann tæmdist

var komið nýtt kvöld

með fullu tungli

svo við sungum saman í tunglsljósinu

og stigum þar dansinn

skugginn minn og ég

þar til við hurfum inn í drauminn

og vöknuðum ekki fyrr en í morginsárið

við angurværan söng mangófuglsins.

(Nokkurn veginn eitt þýtt og stílfært ljóð úr tveimur ljóða hins taóíska snillings Li Po) 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.2.2023 kl. 22:35

9 identicon

Við höfum þá báðir, Magnús, starfað á Þórshöfn á Langanesi. Og báðir við að byggja hús, Þú unnið að byggingu húsa bæjarmanna, en ég við að byggja þar upp andlegt hús Guðs meðal bæjarmanna.

Ég leysti séra Marinó Kristinsson af þar 1978 vegna veikinda hans og aftur síðar, en ég var þá prestur á Raufarhöfn.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 11.2.2023 kl. 22:51

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir ljóðið Pétur Örn, gott ljóð fangar alltaf drauminn, þó mér tækist ekki að breyta draum í ljóð öðru vísi en tímabinda hann. Reyndar lenti ég í kútinn á yngri árum og draumurinn varð þá black out en ekki ljóð. Þannig stutt getur verið á milli feigs og ófeigs í fuglasöng við garðshliðið, -eða þannig. En ljóðið er tær snilld og það kannt þú manna best skil á.

Eins og Guðjón bendir á þá komst stúlkan hans Jung til tunglsins í draumi og sagði honum frá hversu raunverulegur draumurinn hefði verið og Jung spurði hana hvort hún vissi ekki hvers vegna svo væri, -en það vissi hún ekki. Þá sagði geðlæknirinn Carl Jung; það er vegna þess að þú fórst til tunglsins.

Einstein hafði þetta einfall eins og Ólafur bendir á, -tíminn er sjónhverfing, hann er reyndar meira en það því hann er ósýnilegur, það þarf drauma og minningar til að skynja tíma.

Ingólfur, þú varst fljótur að átta þig á að mig hafði dreymt þetta rugl, sem ég kæmi ekki frá mér í ljóði. Reyndar er gullkornið í þessu frá eðlisfræðingnum Nassim Haramein. En ég hef verið að brjóta heilann af og til um þessa jöfnu hans, allt frá því 4. janúar að hún birtist á facebook síðunni hans. 

"Since time is distance in space, time is memory in the structure of space. Without memory there is no time. Without time, there is no memory. It then follows that the energy we perceive as the material world must be information or energy in the structure of space." - Nassim Haramein

https://www.facebook.com/photo/?fbid=713745356771350&set=a.291883805624176

Guðmundur Örn, já við höfum  báðir verið á Þórshöfn við byggingar, en samt með 10 ára millibili. Ég koma þangað fyrst veturinn 1988, sem farand-múrari bjó þá á Djúpavogi, og múraði heilsugæslustöðina og í framhaldinu nokkrar íbúðir á árunum 1989 og 1990, steypti svo gangstéttir þar eins og engin væri morgunn dagurinn sumarið 1993, síðast kom ég til að vinna á Þórshöfn við að steypa gólf í nýja leikskólann, minnir að það hafi verið 2019. Eins man ég eftir séra Marinó hann fór frá Vallanesi í Sauðanes árið 1966 ef ég man rétt. Séra Marinó er sennilega fyrsti presturinn sem ég man eftir, því ekki man ég eftir séra Árelíusi sem skírði mig, á eftir séra Marinó kom séra Ágúst í Vallanes. Þakka þér fyrir að vitna til hinnar helgu bókar á svona fallegan hátt við þessa færslu.

Sigurður, -þakka þér fyrir sérdeilis góð orð í minn garð, þau eru vel þegin. 

Magnús Sigurðsson, 12.2.2023 kl. 09:09

11 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Langaði að bæta við athugasemd, en hún varð svo löng að ég breytti henni í færslu.

https://gudjonelias.blog.is/blog/logostal/entry/2287152/

Guðjón E. Hreinberg, 12.2.2023 kl. 13:59

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Guðjón, þetta bætir helling við þessa tíma pælingu.

Magnús Sigurðsson, 12.2.2023 kl. 14:21

13 identicon

Sæll Magnús,

Þessi skrif finnst mér minna mig á þá ágætis bók Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson..

Þröstur (IP-tala skráð) 13.2.2023 kl. 08:35

14 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Þröstur, það er þá ekki leiðu að líkast, það er góð bók.

Magnús Sigurðsson, 13.2.2023 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband