Sjónvarpslaus fáráðlingur

Nú er svo komið fyrir mér hérna í Noregi að einna helst má líka því við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríin sínu en var ekki kominn lengra en í næsta fylki þegar sumarfríið varð búið.  Þetta sagði hann hafa gerst vegna þess að það var svo margt áhugavert að skoða.  Hann sagði að þeir sem kynnu að lesa færu margs á mis vegna þess að þeir létu leiðbeiningar sem þeir læsu segja sér hvað væri áhugavert. 

Þegar ég kom hingað hafði ég uppi góð áform, líkt og prófessorinn, um að nota frítíma til að ferðast um nágrennið og skoða Nord Norge en get varla sagt 11 vikum seinna að ég hafi komist út fyrir bæjarmörkin hérna í Harstad, hvað þá yfir í næsta fylki.  Ég get hvorki kennt bullinu sem ég á það til að lesa né annríki um að svo er komið.  Það er einna helst að ég geti kennt sjónvarpinu um þetta, sem ég hef ekki séð allan þennan tíma og veit þar af leiðandi ekki hvað er merkilegt. 

Því hafa kvöldin og frítíminn farið í að lalla niður í næstu fjöru og fylgjast með fuglunum.  Þar hef ég séð æðarkolluna ala upp ungana sína, kríurnar baða sig, hnísur kinka kolli til mín í flæðarmálinu, marglittur svífa um eins og engla innan um krossfiska og ígulker, stöku sinnum hefur mús stytt sér leið úr fjörunni í holuna sína yfir tærnar á mér.  Mínir helstu félagar hafa verið kettir sem setið hafa með mér og fylgst með af andakt hvað hefur fyrir augu hefur borðið. 

Svona er nú  ástandið þegar sumri er tekið að halla og það þrátt fyrir að ég hafi aðgang að þremur bílum til ferðalaga, hef hreinlega ekki komist hænu fet.  Þess í stað hefur það verið að renna upp fyrir mér hvað fékk David Attenborouh til að gera alla þessar náttúrulífs myndir sem sýndar eru í sjónvarpi og verð að segja það sem mig hefur alltaf grunað að þættirnir hans Attenboruoh eru mislukkaðir miðað við original útgáfuna.

Þegar ég var nýkominn hingað voru allir boðir og búnir til að útvega mér sjónavarp, það væri svo gott að hafa það til að læra norsku og komast inn í norskt mannlíf.  Vinnufélagarnir spurðu með mikilli umhyggju hvort ég hefði ekki sjónvarp og voru strax boðnir og búnir til að útvega mér svoleiðis grip.  Vinnuveitandinn vildi kaupa sjónvarp handa mér en ég kom mér undan því með því að gefa í skyn að ég hefði ekki efni á að kveikja á því, en útvarp skyldi ég fá mér til að læra norskuna hratt og örugglega. 

Eftir að þeir hættu að spila Sweet home Alabama og allar setningar í útvarpinu mínu byrjuðu á Breivik, hugvekjan hans Stoltenberg svo spiluð næst á eftir "víst einn maður gat alið svo mikið hatur með sér ímyndið ykkur þá bara hvað við öll getum sýnt mikinn kærleika" og þar á eftir fóru svo fréttir af því hvernig lögreglan leitaði hús úr húsi að fleiri hatursfullum hryðjuverkamönnum hefur verið slökkt á útvarpinu mínu.  Þetta var bara farið að minna mig of mikið á skjaldborgarhugvekjurnar hennar Jóhönnu um árið og fleiri skringilegar útfærslur á kærleikanum.  Það getur vel verið að ég prufi að kveikja á útvarpinu aftur í september.

 

 

Það er kannski komin tími á að ég geri aðeins grein fyrir vinnufélögunum, enda kom ég hingað vegna vinnu og það eru þeir sem ég hef mest samskipti við, því ekki hef ég séð Íslending síðan í maí frekar en sjónvarp og sakna íslendingana meira.  Múrarahópurinn samanstendur af allra þjóða gersemum, þrír er norskir, tveir eru frá Afganistan og einn frá Súdan og svo náttúrulega þessi þrjóski Íslendingur.  Ég verð að segja það alveg eins og er að mér líkar betur að heyra Afganana kyrja slagara frá heimahögunum heldur en Breivik þvælan í útvarpinu, jafnvel þó Norsararnir tuði "for helvide er det arbisk musik". 

Hjá þverhausum mér þá hefur sagan um apana fimm oftar en einu sinni komið upp í hugann þegar mér hefur fundist vinnufélagarnir vera að gera hlutina fyrir aftan rassgatið á sér.  Því hef ég reynt eins og mér er unnt að hafa orð Bóa félaga míns að leiðarljósi þó misjafnlega hafi gengið.  En hann gaf mér það heilræði áður en ég fór;  "vertu svo ekkert að kenna þeim þó þeir geri allt með handabökunum, þeir hafa einhvern vegin slampast í gegnum þetta fram að þessu".  En mikið rosalega eru þessir apakettir búnir að missa af mörgum bönunum en skýringuna á því er best að sjá á videoinu hérna fyrir neðan.

Stundum hef ég átt það til að vorkenna mér yfir því að hafa verið þessar 11 vikur að heiman frá fjölskyldu og vinum.  En þegar ég heyri vinnufélagana tala um sína fjarveru frá heimahögunum get ég bara ekki vorkennt mér lengur.  Afganarnir eru flóttamenn og nýkomnir með Norskt vegabréf þannig að þeir fóru báðir til að hitta fjölskyldu sína núna í sumarfríinu sínu, en það hafði ekki gerst í mörg ár.  Ekki fóru þeir til Afganistan því þangað geta þeir ekki komið, heldur Pakistan, þar hittu þeir ættingja sína.

Juma sá sem er frá Súdan er nýlega komin með norskt vegabréf og fer í október að í fyrst skipti heim til að hitta foreldra sína og systkin sem hann hefur ekki séð í 11 ár en að heiman fór hann um tvítugt, þá í til að sækja vinnu í Líbýu og nú þarf hann vegabréfsáritun til að fá að fara í heimsókn heim.  Svona getur heimurin verið undarlegur. 

Matthildur mín kemur á föstudaginn og ætlar að skoða sig um, kannski gengur mér betur að kanna umhverfið með henni heldur en lesblinda prófessornum, þó er ekki ólíklegt að ég sýni henni fuglana í fjörunni.  Í lok ágúst tek ég svo frí og við förum heim til Íslands, þá verður þeim þriggja mánaða starfssamningi sem ég gerði lokið og staðan tekin upp á nýtt.  Mikið er mig farið að hlakka til að koma heim til Ísland og taka upp kartöflurnar mínar og kíkja á trénaða njóla, því þó undarlegt sé þá átti ég þar gott líf í yfir 50ár.

Að lokum vil ég beina því til þeirra sem hafa nennt að lesa svona langt að forðast sjónvarpið og fjölmiðlana sem heitan eldinn.  Því þá er nú eiturlyfja- og íþróttabölið hreinn barnaleikur við að eiga hjá þeim ósköpum sem t.d. sjónvarpið er, enda hefur það eyðilagt líf fjölda fólks án þess að það viti af því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

senilega kveikir tu aldrei aftur a sjonvarpi og tad er nu bara gott mal

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 11.8.2011 kl. 09:37

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Helgi það gæti farið svo, það er svo merkilegt með sjónvarp að það er ekkert í því sem skiptir mann máli.  En sjónvarp og útvarp halda fólki uppteknu við verra en "useless information", það ærir til tjóns.  Fyrir þetta hefur fólki verið talin trú um að það eigi að borga fyrir en einhvern veginn hefur maður haft það á tilfinningunni að það ætti að vera á hinn veginn.  Ég er ekki einu inni viss um að ég kveiki á sjónvarpi aftur þó ég fengi borgað fyrir það.

Magnús Sigurðsson, 11.8.2011 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband