Ævintýri gamla ljóskastarans.

 

Stundum koma upp þau augnablik að allt stendur ljóslifandi fyrir hugskotsjónum og ævintýri lífsins verða hið sjálfsagða.  Hingað til Norður Noregs kom ég fyrir þremur mánuðum síðan þjakaður af krepputali fjölmiðlanna, hálfsárs atvinnuleysi og stefnuvottum á útidyrasnerlinum.  Landið mitt yfirgaf ég í maíhretinu mikla sem gerði norðurlandið hvítt og suðurlandið svart með aðstoð gjósandi Vatnajökuls.  Síðan þá hefur allt verið sem nýtt en þó eins og óljós minning um það sem átti eitt sinn að verða.

Hérna hef ég unnið það sem á Íslandi teldist þægilegur vinnudagur fyrir fín laun.  Frítímann hef ég svo notað til að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða auk þess að blogga og standa í skemmtilegum skoðanaskiptum.  Í þessum bloggsamskiptum hafa oft komið púsl sem mig hefur vantað í myndina af lífsgátunni miklu, gátu um hinn eilífa gróanda þar sem allt er sem blómstur að vori.

Fyrir stuttu sendi Sólrún bloggvinkona mín púsl í lífsgátuna sem athugasemd með link á youtube sem snérist um margföldunarháhrif náttúrunnar sem Fibonacci hafði komið í formúlu talna.  Undur lífsins ganga upp samkvæmt Fibonacci, 1+1=2 / 1+2=3 / 2+3=5 / 3+5=8 / 5+8=13, aftari samlagningar talan er lögð saman við síðustu útkomu út í hið óendanlega með stighækkandi margfeldisáhrifum. 

Þarna er ekki um neitt 2+2=4 streð að ræða sem hefur verið niður njörvað sem rétt útkoma.  Það vill því miður gleymast að við erum skóluð í að koma okkur saman um að tveir plús tveir séu fjórir, þó svo að sú útkoma eigi ekkert skylt við gróanda lífsins.  Þessu hafði Fibonacci kallinn komist að fyrir margt löngu.  Enda finnst 2+2=4 hvorki í náttúrunni hvað þá í gróanda lífsins.  Sú útkoma lýsir í raun andláti eða má í besta falli líkja við fangelsi hugans og þá flatneskju jarðar sem fólki var ætlað að trúa á fyrri öldum eða hljóta verra af s.s. gapastokkar og galdrabrennur.   Nútíminn ætlar okkur að trúa á það að tveir plús tveir séu fjórir sem hinn óhagganlegi sannleikur, annars eigum við það á hættu að verða stefnuvottum gjaldþrotabeiðnanna tekjulind.

 

 

En hvað um það hérna í Norge hafa semsagt veður skipast í lofti.  Í stað kreppustagls, skattahækkana og niðurskurðar til að mæta kröfunni um að 2+2 sé 4, er gróandi lífsins aftur orðinn sýnilegur.  Um síðustu helgi upplifðum við Matthildur mín, sem er þessa dagana stödd hérna há mér í Nord Norge, gróanda lífsins.  Við fórum á í boði Mette vinnuveitenda míns í þriggja sólahringa ævintýraferð á skútunni hennar Libra og bjuggm þar ásamt Sverre sambýlismanni hennar.

"Hugsaðu þér Maggi" sagði Matthildur einn morguninn "við búum í skútu hjá fólki sem við vissum ekki að væri til fyrir nokkrum vikum síðan og erum stödd á hátíð gamla ljóskastarans.  Hvernig getur svona ævintýri gerst".

 

 

Hátíð gamla ljóskastarans (Lyskastertreff) er samkoma ca. 50 skemmtilegra karla sem saman koma eina helgi seint í ágúst ár hvert til að kveikja á gömlum ljóskastara sem þjóðverjar notuðu til að lýsa upp óvinavélar á næturhimninum.  "Gáðu að því að þessi ljóskastari var smíðaður 1929 og er ekkert digital dæmi", sagði Sverre við mig til að undirstrika mikilvægi samkomunnar, "það er ekki sjálfgefið að það kveikni á honum".  Auk þess að brasa í tvo daga við að koma ljósi á kastarann með hjálp 3. tonna ljósvélar sem dreginn er á staðinn, aka þessir karlar sem flestir eru fyrrverandi hermenn um á gömlum herbílum.  Einn eftirmiðdagur fer í safarí ferð upp á útsýnisfjall fyrir ofan aflagða herstöð við Lödingen.  Við Matthildur upplifðum óbyggðaferð með körlunum auk þess að njóta uppljómaðs Norður Norska næturhiminsins í geislum ljóskastarans.

Það var svo daginn eftir þegar við röltum frá skútunni Libra að bækistöð ljóskastarans sem var við hinn endann á kæjanum ásamt vitanum í bæ lóðsanna Lödingen, sem púslin röðuðust saman.  Þetta var sunnudaginn 21. ágúst sem tilnefndur hafði verið sem dagur þjóðarsorgar í Noregi vegna voðaverkanna í Osló og Úteyju.  Um hádegisbilið hafði fólk frá Lödingen safnast saman við það sem virtist vera útimessa við enda kæjans skammt frá þar sem gamli ljóskastarinn stóð í miðjum búðum karlanna.  Við Matthildur ákváðum að ganga upp að vitanaum við innsiglinguna og líta eftir berjum í lyngi vaxinni brekkunni.

Brekkurnar voru svartar af berjum Matthildur tíndi kíló á stuttri stund í hálsklútinn.  Ég lét fara vel um mig á steini og fylgdist með letilífi máfanna í fjörunni við Vestfjorden sem vísar í suðvestur áttina heim.  Það var þá sem mér varð hugsað til Jóhönnu með helferðargrímuna og sundurlyndisfjandans hann Steingrím og hversu niðurnjörvuð þau eru í vitfirringunni 2+2=4, svo sturluð að það þykir sjálfsagt að ræna heimili fólks til þess að þeir sem fastir eru í dæminu fái fyrir náð og miskunn að skulda 110% í því sem að var eitt sinn þeirra, áður en bankar og stjórnmálamenn ákváðu að 2+2=4 skyldi vera 110% verðtryggð skuld.  Sé einhvertíma ástæða til að setja vitfirringu í mankynsöguna verður það þegar helferðarhyskisins verður minnst.

Það var upp úr þessum þungu þönkum sem ég hrökk upp við sálmasöng og tók eftir því að búið var að skíra barn í nágrenni við ljóskastarann á degi þjóðarsorgar í Noregi.  Ég stóð upp af steininum hristi af mér slenið og tíndi upp í mig krækiber og bláber sem fullgildan hádegisverð á örskotsstundu og afsannaði þar með eftirlætis kenningu hagfræðinganna að eingin sé málsverðurinn án endurgjalds.  Það er á svona augnablikum sem hugurinn uppljómast um það sem barnssálin alltaf vissi að 2+2 þurfa ekki að vera fjórir frekar en manni sýnist.

Video frá Lyskastertreff gert af Mette.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algerlega  SNILLD ÞIÐ LÍFSKÚNSTNERAR..M&M :)

Þið eruð fólk til fyrirnyndar og eftirbreytni sannarlega ..

Sólrún (IP-tala skráð) 25.8.2011 kl. 22:55

2 identicon

Skemmtileg lesning. Þið eruð á leið inn í mikið ævintýri.

Sigurjón Friðriksson (IP-tala skráð) 26.8.2011 kl. 00:19

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sólrún og Sigurjón, takk fyrir upplífgandi athugasemdir ;)

Magnús Sigurðsson, 26.8.2011 kl. 04:48

4 Smámynd: Benedikt V. Warén

Þetta er tær snilld.  Hefur þú eitthvað handa mér að gera.  Þystir í ævintýri. Dauðöfunda þig.  Kveðja frá snjóléttu Austurlandi.

Benedikt V. Warén, 26.8.2011 kl. 08:39

5 identicon

mjog skemmtileg lesning , tesu aevintiri getur tu sjalfsagt takkad helferdarhyskinu

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 26.8.2011 kl. 22:50

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Pelli; það er spurning hvort þú gætir ekki fengið að bjástra við gamla ljóskastarann, mér skilst að það sé bara einn maður sem veit orðið hvernig á að kveikja á honum. 

Helgi; ég hafði reyndar ekki hugsað út í það, en þegar þú segir það þá sannar það enn frekar að 2+2 eru ekki fjórir frekar en manni sýnist.

Magnús Sigurðsson, 27.8.2011 kl. 06:21

7 Smámynd: Magnús Ágústsson

Frábær lesning Nafni takk fyrir

Magnús Ágústsson, 31.8.2011 kl. 15:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband