Hundrað daga að heiman.

scan0002

 

Hvar er sá staður sem maður kallar heima?  Eru það æskustöðvarnar, hús fjölskyldunnar eða bara allir þeir staðir sem augnabliks stemming hefur haft áhrif á sálina? 

Mér varð hugsað til þessa þegar ég sá snilldar videoið hans Skúla Andréssonar "Heima er best-Haustið 2011".  Í myndinni hans Skúla er svifið á englavængum um einn fallegasta stað á Íslandi, stað sem hefur haft hvað mest áhrif á sálina mína.  Þarna má m.a. sjá húsið sem var mitt "heima" lengst af þeim húsum sem ég hef búið í síðan æskuheimilið var yfirgefið og flækingur lífsins tók við.  Húsið sem var fæðingastaðurinn hennar Matthildar minnar og heimili fyrstu 33 ár ævi hennar.  Húsið þar sem börnin okkar slitu fyrstu barnskónum. 

Einnig má sjá í myndinni  litla húsið sem mér er kærast af öllum þeim húsum sem ég hef tekið þátt í að byggja.  En það hús byggði ég fyrir tveimur áratugum síðan ásamt börnunum mínum og vinum þeirra þegar þau voru um þriggja ára aldurinn.  Kannski hefur Skúli verið einn af þátttakendunum í kofabyggingunni þó ég muni það ekki lengur, allavega hefur kofinn snert hjarta hans á þann hátt að hann er í þessu fallega videoi ungs og upprennandi listamanns í kvikmyndagerð.  Ég efast ekki um að myndin hans Skúla snertir  fleiri hjörtu en allra þeirra sem tengjast Djúpavogi, svo vel er hún úr garði gerð.

 

    scan0025

 

Það vill stundum fara svo að eftir að æskustöðvarnar eru kvaddar og ungviðið heldur út í hinn stóra heim að þráin eftir "heima er best" verður öllu yfirsterkari.  Jafnvel eru dæmi þess að þráin eftir æskustöðvunum endist langt fram eftir ævi og miðaldra fólk hafi ekki verið í rónni fyrr en það var búið prófa aftur að búa götunni heima og þá kannski á ská á móti æskuheimilinu án þess að finna nokkuð kunnuglegt þar lengur.  Það þarf því ekki að vera að staðurinn sem þig ól þekki þig nokkhvern tíma aftur eftir að þú hefur einu sinni yfirgefið hann á lífsins leit, þú gætir jafnvel lent í að þér finnist þú búa á ská á móti sjálfum þér það sem eftir lifir ævi.

Það kom fljótlega í ljós eftir að ég hleypti heimdraganum hvað þessi þrá eftir því að vera heima er sterk.  Þó svo að ekki væri farið yfir langan veg í fyrstu, aðeins nokkrar bæjarleiðir þar sem ég lauk iðnskóla og var svo á sjó um nokkurra mánaða skeið.  Eftir tæpa ársfjarveru var aftur snúið heim, en þá hafði faðir minn ásamt yngstu systkinum flutt þvert yfir landið og þegar ég kom í litlu kjallaraíbúðina sem ég hafði til umráða heima leið mér sjálfsagt enn undarlegar en miðaldra manni sem flytur á ská á móti æskuheimilinu enda ókunnugt fólk vafrandi um í húsinu heima sem gat allt eins verið draugagangur.

Í snatri ákvað ég að fara þvert yfir landið til að vera nálægur faðmi fjölskyldunnar.  En það var bara ekkert heima í mínum fæðingarbæ fyrir sunnan.   Þegar voraði fimm mánuðum seinna setti ég aleiguna í aftursætið á Maverick og hélt í austur.  Ég taldi mig fljótlega hafa farið aðeins of langt því ég endaði einhverahluta vegna í Færeyjum þar sem ég var við glaum, gleði, múrverk og húsbyggingar fram eftir sumri.  Það var í bakaleiðinni frá Færeyjum sem Djúpivogur kom inn á radarinn, þar ætlaði ég að stoppa til að komast á togara minnugur þess hvað togarasjómennskan gaf góðar tekjur þegar ég sleppti heimdraganum, tekjur sem jafnvel gætu dugað fyrir farmiða til Ástralíu þar sem æskuvinur minn og frændi hafði fundið sitt heima.

En í Berufirðinum kynntist ég góðu fólki sem var tilbúið til að leyfa mér að eiga þar heima og svo fljótlega henni Matthildi minni en hjá henni á ég ævinlega heima.  Þó svo að ég kæmist aldrei á sjóinn þá var þörf fyrir bæði áhugamenn um húsbyggingar og múrverk þegar ég kom á Djúpavog. Þau heilabrot sem urðu til þess að Djúpivogur var yfirgefin 17 árum seinna, var að ég vildi vera meira heima.  Það var nefnilega þannig að köllunin til að byggja húskofa og múra, þessi þráhyggja í eitt sandkorn til, eina flís í viðbót og einn stein enn, gat kostaði fjarvistir sem voru oft vika til tíu dagar í senn og sum árin voru dagarnir orðnir yfir 200 að heiman.

IMG 0165          IMG 0149          IMG_0167

Það var semsagt þegar tugir ævinnar voru orðnir fjórir sem ég var komin með þá bjargföstu vissu að það væri best að halda sig heima. Fyrir valinu varð fæðingarbærinn Reykjavík, þar væru húsbyggingar stundaðar út í hið óendanlega og þar hlyti ég þrátt fyrir fyrri reynslu að finna mig heima.  Þar hafði ég þó allavega varið fyrstu árum ævinnar og af minningum úr foreldrahúsum þá vissi ég að það hafði verið í Karfavogi, hef aldrei vitað númer hvað.  Eftir stutta yfirferð ákváðum við Matthildur að við skildum næst eiga heima í Grafarvogi.

En þó svo að ég vaknaði þar hvern dag í faðmi fjölskyldunnar var ég samt aldrei alveg heima.  Um leið og ég lokaði augunum á kvöldin var ég kominn austur á Djúpavog, Egilsstaði eða jafnvel Norðfjörð, í þá gömlu uppgangstíma þegar húsbyggingar voru daglegt brauð og ungir athafnamenn gátu dregið fisk úr sjó án þess að úr yrði sakamál.   Svo þegar ég opnaði augun aftur að morgni þá kom sólin ævinlega upp vitlausu megin við rúmið og því spurning hvort ég yrði ekki að flytja mig hinu megin við sólina.  Þó nóg væri að gera við húsbyggingar gat ég engan veginn fundið mig heima í Reykjavík, ekki einu sinni þó ég kíkti á Karfavoginn það kom bara ekki upp ein einasta kunnugleg minning.  

Eftir rúm þrjú ár í Reykjavík hélt ég að heiman og heim.  Eins og svo oft áðr hélt ég í áttina að sólarupprásinni.  Í Þetta sinn á æskustöðvarnar á Egilsstöðum, heimaslóðir föðurættarinnar.  Þar vaknaði ég hvern morgunn upp með fjölskyldunni og með sólina réttu megin við rúmið.  Húsbyggingar í algleymi og lífið lék við hvern sinn fingur svo mikið um að vera og gera að ég fann mig heima.  Svo gerðist það sem gerðist um allt Ísland, ekki eins og áður bara í litlum sjávarþorpum á við Djúpavog, það borgaði sig ekki lengur að byggja hús.  

Eftir að hafa vaknað upp með fjölskyldunni heima í tíu ár var komið að því að halda enn einu sinni að heiman og aftur var stefnan tekin austur í sólarupprásina, kannski væri heima bara enn lengra fyrir austan.  Núna er ég staddur í Harstad í N-Noregi, þó svo sólin sé steinhætt að koma upp þegar ég opna augun á morgnana, þá er hér margt kunnuglegt og jafnvel læðist að manni sá grunur að hér gæti verið gott að eiga heima.  Ekki er nóg með að hænur fái að skoppa heima við hús án þess að heilbrigðiseftirlitið sé að mæla lyktarmengun, heldur fá hanarnir a gala án þess að það sé ljósmengun frá blikkljósum lögreglubíla í skammdeginu.  Það læðist jafnvel að manni sá grunur að heimabakstur til fjáröflunar í góðgerðaskyni sé látin óáreittur. 

Hænur og heimabakstur er eitthvað sem lifir í æskuminningunum frá því heima á Egilsstöðum, þegar hanarnir göluðu frjálsir við Laufásinn, þá var billegt að vera til enda enginn banki í bænum en við annað hvert hús kofi fullur af hænum.  En núna eru fjarvistirnar að heiman ekki lengur vika til tíu dagar eins og á Djúpavog í denn. Nú eru dagarnir að heiman orðnir allt að hundrað í senn.  Allir hundrað eru þeir samt til þess að geta haldið áfram að eiga heima heima.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er falleg grein hjá þér Maggi minn og lýsir vel hversu góðann mann þú hefur að geyma. Haltu áfram að skrifa, þetta virðist vera þér auðvelt, kemur beint frá hjartanu. Gaman væri að fá oftar pistla frá þér. Gangi þér allt í haginn, kveðja að austan.

Ásdís Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2011 kl. 21:59

2 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Flott grein Maggi og ég er hjartanlega sammála Ásdísi með allt sem hún segir nema mín kveðja kemur að sunnan.


Á einhvern furðulegan hátt endurspeglar þessi fallega saga þín hvers vegna ég er að hamast í minni sjálfboðavinnu fyrir Hagsmunasamtök heimilanna, fyrir það að ég og aðrir íslendingar getum hugsað um að vera "heima" og þurfum ekki að flytja erlendis eða af heimili okkar nema við veljum það sjálf en ekki neydd eða tilneydd.

Bestu kveðjur og endilega vertu duglegri að senda okkur eitthvað hjartastyrkjandi hingað heim á klakann á meðan þú ert að heiman.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 3.11.2011 kl. 23:45

3 identicon

Við getum alltaf farið heim þegar við viljum.En bara í huganum.Það er hægt að HEIM-SÆKJA hvern stað og stund sem vi geymum með okkur. Og það gerði eg einmitt þegar að eg hafði lesið pistilinn þinn Magnús.

Þá settist eg niður og klæddi mig í stígvélin með bláu röndinni sem eg átti þegar eg var 10 ára og fékk lánaðan rússneska sjónaukann hans afa til að kíkja upp í fjall.

Eg fann ilminn af kaffinu sem amma var nýbúin að brenna og mala og hvergi var að finna annarsstaðar fyrr né síðar.

Og röndóttu tertuna hennar með tveimur sulturöndunum og rauðu kremröndinni í mipðjunni jólakökuna og kleinurnar.

Við getum alltaf farið heim þegar við viljum en aðeins í huganum eins og þú lýsir svo vel í þinni frásögn.

Allir hlutir eru í núinu.Og við erum alltaf heima :)

Myndir á borð við þær sem hér eru á síðunni eru fjárjóður sem sífellt vex að verðgildi og eru yndislegar

Sólrún (IP-tala skráð) 4.11.2011 kl. 14:25

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ásdís,  þakka þér fyrir hlý orð í minn garð.  Ég hef gaman að því að skrifa þegar ég fæ svona hrós, eins þegar önnur eins hugvekja og myndin hans Skúla Andrésar rekur á mínar fjörur.

Villi,  mikið þykir mér vænt um að þú finnur þig í sögunni, eins vil ég þakka þér fyrir þitt óeigingjarnt starf í þágu heimilanna, ekki veitir af mönnum eins og þér heima á landinu bláa.

Sólrún,  ævinlegar kemur þú með réttu dæmisöguna. Það er nefnilega stórhætta á því að ef við reynum að ferðast til baka heim öðruvísi en í huganum  að við sitjum uppi með það að búa á ská á móti sjálfum okkur.  Staðurinn sem var heima tekur nefnilega breytingum einnig við og við því mest heima hjá okkur sjálfum.  Þakka þér fyrir að benda á þetta.

Magnús Sigurðsson, 4.11.2011 kl. 15:19

5 identicon

Þakka þér Magnus fyrir að veita ljósi og ykl inn í hina myrku bloggheima Íslands með pistli þínum og myndum.

Hvað heitir höfðinglega húsið sem er á myndinni hér að ofan ?

Sólrún (IP-tala skráð) 4.11.2011 kl. 17:48

6 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Frábær pistill Magnús, vel skrifaður og skemmtilegur aflestrar.

S Kristján Ingimarsson, 4.11.2011 kl. 18:16

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Því er auðsvarað Sólrún, svona hús getur ekki heitið annað en Sólhóll.

Magnús Sigurðsson, 4.11.2011 kl. 18:16

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir það Kristján, andagiftin gaf líka tilefni til þess.

Magnús Sigurðsson, 4.11.2011 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband