Skerpla

IMG 4542

Skerpla er annar mánuður sumars, samkvæmt gamla tímatalinu, sem tekur við af Hörpu og hefst á laugardegi í 5. viku sumars á milli 19. og 25. maí. Nafnið er ekki mjög gamalt, kemur fyrst fram á 17. öld ,en í eldri rímtölum og Skáldskaparmálum Snorra-Eddu er mánuðurinn nefndur eggtíð og stekktíð. Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu þar sem greint er frá heitum stundanna og segir um skiptingu ársins.

„Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eykðarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuðr heitir inn næsti fyrir vetr, fyrstr í vetri heitir gormánuðr, þá er frermánuðr, þá er hrútmánuðr, þá er þorri, þá gói, þá einmánuðr, þá gaukmánuðr ok sáðtíð, þá eggtíð ok stekktíð, þá er sólmánuðr ok selmánuðr, þá eru heyannir, þá er kornskurðarmánuðr.“

„Gjarnan er vísað í þá séra Odd Oddsson á Reynivöllum og séra Þórð Sveinsson um að hafa nefnt annan mánuð í sumri Skerplu, en þeir voru báðir uppi á 17. öld. Í ritmálssafni Orðabókarinnar er heimild tekin upp úr riti Páls lögmanns Vídalín, Skýringar yfir fornyrði lögbókar. Þar nefnir hann einmitt séra Odd sem heimild. Í greininni Misseristalið og skipting þess eftir Þorkel Þorkelsson (Skírnir 1928:141) eru þessir prestar báðir nefndir sem heimildir um nafnið (dæmin eru tekin úr ritmálssafni Orðabókar Háskólans):

Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:841) telur að Skerpla sé vísast skylt lýsingarorðinu skarpur 'beittur, hvass, harður, skorpinn ...' og nafnorðinu skerpa sem skylt er nýnorska orðinu skjerpe „hrjóstur, jarðþurrkur“, færeyska orðinu skerpa „vindþurrkað kjöt“ og orðinu skärpa „þurrt, ófrjótt land“ í sænskum mállýskum. Skerpla vísar þá líklegast til lítils gróðurs að vori".

Skerpla er sáðtími þegar seint vorar um miðjan mánuð eru fardagar. Um það leyti má grafa villirætur til matar. Því síðar þegar gras fer að vaxa úr þeim eru þær lakari. Skerpla er tími til að byggja hús, vinna garða, hreinsa tún og engjar, hylja með mold flög og skriður eða færa þær burt, vinna í skógi, safna berki og litunargrösum. Þegar hnaus veltur nú á klaka er hann bestur í veggi því þá er jörðin enn laus og ófrjó. 

Manstu litlu lömbin út við stekkinn,

litla rjóðrið fagra upp við hól;

fuglinn litla er sætast söng á kvöldin,

silungshylinn fram við kvíaból.

                                          Jenni Jóns

Heimildir:

www.vísindavefurinn.is

www.nattura.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband