Heyannir

IMG_5263

Heyannir er tíundi mánuður ársins og fjórði sumarmánuður samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Heyannir hefjast alltaf á sunnudegi eftir aukanætur á miðju sumri, eða á tímabilinu 23. til 30. júlí. Heitið heyannir vísar til mikils annatíma í sveitum. Mánuðurinn sjálfur, eða nokkur hluti hans, mun einnig hafa borið nafnið miðsumar samkvæmt gömlum heimildum.

Hver mánuður taldi 30 daga í gamla tímatalinu því gengu þeir ekki upp í sólárið. Síðasti mánuður, Sólmánuður, hófst 22. júní, Heyannir hefðu samkvæmt því átt að hefjast 22. Júlí en sá mánuður hefst hinsvegar í dag 26. júlí. Þessi mismunur á milli sólarársins og daga mánaðanna var jafnaður um miðsumar og kallaður sumarauki eða sumarnætur, sem gátu verið mismargir sólarhringir eftir árum.

Svo lýsir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal mánuðinum í riti sínu, Atli frá árinu 1780: Nafn þessa mánaðar sýnir hvað þá skal iðja. Því nú er komið að því ábatasamasta verki hér á landi, sem er að afla heys, og meta það flestir menn öðrum framar. Sláttur byrjar venjulega að miðju sumri. Vökva menn plöntur einu sinni í viku, með sjóvatni en öðru vatni annars, ef miklir þurkar ganga. Nú má safna Burkna, hann er góður að geyma í honum vel þurrum egg, rætur og epli, sem ei mega út springa, hann ver og mokku og fúa. Líka hafa menn brúkað ösku í hans stað. Kornsúru og kúmeni má nú safna. Mitt í þessum mánuði er sölvatekjutími.

Oft finnst oss vort land eins og helgrinda hjarn,

en hart er það aðeins sem móðir við barn.

Það agar oss strangt með sín ísköldu él,

en á samt til blíðu, það meinar allt vel.

 

Því svartar sem skyggir vor skammdegis neyð,

þess skærara brosir vor júnísól heið.

Nú skín hún á frónið vort fátækt og kalt,

og fegurðar gullblæjum sveipar hún allt.

 

Sjá ljómann um strandir, þar leikur hún sér

í ljósinu suðandi bjargfugla her,

og æðarfugls móðurkvak ómar í ró

við eyjarnar grænar á lognstafa sjó.

 

Nú veit ég, að engum finnst ævi sín löng.

því allt fagnar hásumarbirtu með söng

frá hafströnd að óbyggðar hrjóstugri slóð

þar heiðlóan kveður sín einbúa ljóð.

                              Steingrímur Thorsteinsson

Heimildir: 

https://is.wikipedia.org

http://vefir.nams.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband