Kórekur og bláklædda konan

kvennskart L

Árið 1938 fannst merkur fornleifafundur við vegagerðar framkvæmd, þar sem þá var kallað að Litlu-Ketilstaðastöðum í Hjaltastaðaþingá, þar sem nú er Hlégarður. Um var að ræða líkamsleifar konu, tvær koparnælur, litla skrautnælu, auk klæðisbúta ásamt fleiru. Þessar minjar hafði mýrin varðveitt í meira en þúsund ár. Þáverandi Þjóðminjavörður gekk frá líkamsleifum konunnar í formalíni, sem ekki hefur verið sjálfgefin fyrirhyggja á þeim tíma. Mýrin hafði varðveitt líkamsleifarnar á þann hátt að mjúkvefir konunnar varðveittust þar til formalínið tók við varðveislu þeirra, það má því líkja þessari konu við nokkhverskonar múmíu. Sérstakt er að til séu líkamsleifar sem varðveittar hafa verið í formalíni á Þjóðminjasafni Íslands og hafi nú með nýjustu tækni veitt einstæða innsýn í líf konu sem bjó á Íslandi við landnám.

Bláklædda konanÞað sem komið hefur í ljós með nútíma rannsóknum er að konan hefur látist um árið 900. Eins er rannsóknin talin leiða í ljós að hún sé fædd á vestanverðum Bretlandseyjum og hafi flust til Íslands 5-11 ára gömul, en dáið í kringum tvítugt. Klæðnaður og skart konunnar gefur það til kynna að um efnameiri manneskju hafi verið að ræða. Eins þykir bútur úr bláu ullarsjali gefa ótvírætt til kinna að ullin hafi komið af íslensku sauðfé, því má leiða að því líkur að litun og vefnaður ullar hafi þegar verið orðin til í landinu á bernskuárum landnámsins.

Sýning um bláklæddu konuna úr Ketilstaðamýrinni stendur nú yfir á Þjóðminjasafni Íslands.

Því hefur þráfaldlega verið haldið fram í skúmaskotum að ekki sé allt sem sýnist varðandi upphaf landnáms Íslands og leiddar hafa verið að því margvíslegar líkur að meiri fjöldi fólks hafi búið í landinu en sagan vill greina frá, fyrir eiginlegt landnám. Niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á Ketilstaðakonunni slá lítið á þær getgátur þó svo að þær sanni ekkert þar að lútandi heldur. Í mýrunum í Hjaltastaðaþinghánni er vafalaust margt fleira forvitnilegt að finna og sennilegast ekki öll kurl þaðan komin til grafar.

IMG_5311

Helstu einkenni Hjaltastaðaþinghár eru Dyrfjöll og stuðlabergsásar, sem víða standa upp úr mýrunum sem Selfljótið hlykkjast í gegnum

Margir hafa orðið til þess að benda á að sumar nafngiftir í þessari sveit séu sérkennilegar, t.d. heitir mýri í Hjaltastaðaþinghá blá og er þannig háttað víða á Austurlandi. Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur sýndi fram á í ársritinu Múlaþingi árið 2010 að minnsta kosti tvö örnefni í Hjaltastaðaþinghá væru af gelískum uppruna þ.e.a.s. frá heimahögum ungu konunnar sem heygð var í Ketilstaðamýrinni. Þar er annarsvegar um helsta einkenni sveitarinnar að ræða, Dyrfjöllin, og hinsvegar um fornar rústir Arnarbælis í landi Klúku, andspænis Jórvík sem stendur sunnan við Selfljótið.

Syðri hluti Dyrfjalla heitir Beinageit eða Beinageitarfjall. Freysteinn telur víst, og rökstyður það rækilega, að upphaflega hafi öll Dyrfjöllin heitið Bheinn-na-geit, sem útleggst á fornri gelísku, dyrnar við fjallið. Arnarbæli vill Freysteinn meina að hafi upphaflega heitið Ard-na-bhaile á forn-gelísku, sem útleggst sem Búðarhöfði sé því snarað yfir á Íslensku. Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki frá örófi alda í Útmannasveit að á þessum stað hafi verið forn verslunarhöfn þó svo að nú sé ekki skipgengt lengur að Arnarbæli. Frumrannsókn fornleifa í Arnarbæli var gerð árið 2010 og leiddi hún í ljós að rústirnar þar eru umfangsmiklar.

Eitt nafn í Hjaltastaðaþinghá hefur valdið mér heilabrotum öðrum fremur, en það er nafnið Kóreksstaðir sem eru rétt fyrir innan Jórvík. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þetta Kóreks-nafn annarsstaðar. Þó þetta bæjarnafn hafi vakið furðu mína strax á unga aldri þegar ég heyrði tvo bekkjarbræður mína í barnaskóla hafa það á orði, þar sem öðrum þótti réttara að bera það fram með skrollandi gormælsku, þá var það ekki fyrr en nýverið að ég fór að grennslast fyrir um hvaðan nafnið gæti verið komið. Við þessa eftirgrennslan mína hef ég lesið sveitarlýsingu, þjóðsögur, austfirðingasögur auk þess að senda Vísindavef Háskóla Íslands árangurslausa fyrirspurn, enn sem komið er. Eins hefur gúggúl verið þráspurður út og suður.

IMG 5625

Kóreksstaðavígi

Í þjóðsögu Jóns Árnasonar er greint svo frá: "Kórekur bjó á Kórekstöðum í Útmannasveit. Eftir fundinn í Njarðvík, þar sem þeir Ketill þrymur og Þiðrandi féllu, sótti Kórekur karl syni sína óvíga í Njarðvík Fyrir utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, það er kallað Kóreksstaðavígi. Kletturinn er hár og sagt er að ekki hafi orðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í þessu vígi er sagt að Kórekur hafi varizt óvinum sínum, en fallið þar að lokum og þar sé hann heygður. Merki sjást til þess enn að einhver hefur verið heygður uppi á klettinum, og hefur verið girt um hauginn. Í minni sögumannsins hefur verið grafið í hauginn og ekkert fundizt nema ryðfrakki af vopni, en svo var það ryðgað að ekki sást hvernig það hafði verið lagað." Frekar snubbót en gefur þó vísbendingu.

Þá var að leita á náðir austfirðingasagna, en í þeim er greint frá Njarðvíkingum og atburðum tengdum Ásbirni vegghamri miklum garðahleðslumanni sunnan úr Flóa. Reyndar tegja atburðir þessir sig þvert yfir landið inn í allt aðra sögu því þeirra er að nokkru getið í Laxdælasögu, þegar Dalamenn taka á móti Gunnari Þiðrandabana. En í austfirðingasögum má þetta m.a.finna um Kóreks nafnið í atburðarásinni um bana Þiðranda: "Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög."

 IMG_5280

Selfljót, mýrar og stuðlabergsásar í Jórvíkur og Kóreksstaðalandi, Kóreksstaðavígi er fyrir miðri mynd

Þórhallur Vilmundarson prófessor í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til ársins 1988, telur að Kóreks nafnið megi rekja til stuðlabergsbása í klettunum við Kóreksstaði sem hafa vissa líkingu við kóra í kirkjum, og telur Þórhallur að nafn bæjarins sé af þeim dregið, þetta má finna í Grímni 1983. Það verður að teljast ósennilegt að Kóreksstaða nafnið sé dregið af klettum sem hafa líkindi við kóra í kirkjum ef nafnið var þegar orðið til í heiðnum sið á landnámsöld, nema að kirkjunnar menn hafi þá þegar verið búsettir í Útmannasveit. Því bendir tilgáta prófessorsins í fljótu bragði til þess að hann hafi ekki talið Austfirðingasögur áreiðanlegar heimildir. Í þeim er Kórekur sagt auknefni Þorbjörns bónda sem bjó á Kóreksstöðum, hvort bærinn hefur tekið nafn eftir auknefninu eða Þorbjörn auknefni eftir bænum er ekki gott í að ráða, en lítið fer fyrir sögnum af kirkjukórum þessa tíma.

IMG_5611

Blá í Hjaltastaðaþinghá

Hvorki virðist vera að finna tangur né tetur af Kóreks nafninu hér á landi fyrir utan það sem tengist þessum sögualdarbæ Útmannasveit. Kóreksstaðir gæti því allt eins verið enn eitt örnefnið af gelískum uppruna, og þá farið að nálgast kirkjukórakenningu prófessors Þórhalls Vilmundarsonar. Það má jafnvel hugsa sér að nafnið sé ættað frá stað sem á víkingaöld gekk undir nafninu Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi" og ekki skemmir það tilgátuna að staðurinn er mýrlendi rétt eins og bláin við Kóreksstaði. Þetta er staður þar sem klaustur heiags Finnbarr átti sitt blómaskeið og er nú þekktur sem borgin Cork á Írlandi.

En að fullyrða það blákalt að með nýjustu tækni á gúggul sé hægt að bendla bláklæddu konuna í Ketilstaðamýrinni við afa Þorbjörns kóreks bónda á Kóreksstöðum sem líklega hafi átt rætur að rekja til Finnbars í Corcach Mór na Mumhan, er blátt áfram full langt gengið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband