8.9.2018 | 13:04
Mannanafnanefnd - nöfn og örnefni
Það hefur sitt sýnst hverjum um tilverurétt mannanafnanefndar. Undir lok síðasta árs fékk yngsti fjölskyldumeðlimurinn nafn sem þurfti að bera undir nefndina. Nafnið gat samt ekki verið íslenskara, enda var það samþykkt. Ævi, dóttur dóttir mín var skírð með þessu fallega nafni, stuttu í stöfum en meiru í merkingu. Sumum brá þegar nafnið varð uppvíst, einhverjir héldu jafnvel að það væri skrifað Ivy og borðið fram æví, samkvæmt engilsaxneskum tíðarandans toga.
Dóttir mín heitir Snjófríður Kristín, eftir ömmum sínum, og hefur notast við Snjófríðar nafnið. Eftir því sem ég best veit, er hún ein um að bera nafnið og hefur svo verið frá því hún var skírð. Það mætti kannski ætla að hún hafi ekki verið ánægð með nafnið sitt úr því að hún gefur dóttur sinni nafn sem ekki er sótt til formæðranna. En því er til að svara að það var ekki hún sem fékk hugmyndina af þessu nýja nafni. Það var faðirinn og eiginmaður, en hann kemur frá rómönsku Ameríku og hafði ekki annað í huga en íslensku merkinguna ævi, en á hans spænska móðurmáli merkir orðið "vida" það sama.
Sjálfur er ég það þjóðsögulega sinnaður að finnast það beggja blands að leggja mannanafnanefnd niður, þó svo að stundum þikji smámunasemin mikil. En annað slagið vill svo einkennilega til að það þarf nýja nálgun til að upplýsa það sem liggur í augum uppi en virðist samt sem áður framandi. Fyrir nokkrum árum síðan samþykkti nefndin nafnið Kórekur, sem er ólíkt nöfnum á borð við Snjófríður og Ævi, að því leiti að merking og uppruni liggur alls ekki í augum uppi.
Kórekur hefur samt verið til á íslenskri tungu frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar, þrátt fyrir að þurfa samþykki mannanafnanefndar. Til er t.d. bæjarnafnið Kóreksstaðir í Hjaltastaðaþinghá. Þó þetta bæjarnafn hafi vakið furðu mína strax á unga aldri þegar ég heyrði tvo bekkjarbræður mína í barnaskóla hafa það á orði, þar sem öðrum þótti réttara að bera það fram með skrollandi gormælsku, þá var það ekki fyrr en það kom fyrir mannanafnanefnd að ég fór að grennslast fyrir um hvaðan nafnið gæti verið komið. Við þessa eftirgrennslan mína hef ég lesið sveitarlýsingu, þjóðsögur, austfirðingasögur auk þess að senda Vísindavef Háskóla Íslands árangurslausa fyrirspurn. Eins hefur gúggúl verið þráspurður út og suður.
Í þjóðsögu Jóns Árnasonar er greint svo frá: "Kórekur bjó á Kórekstöðum í Útmannasveit. Eftir fundinn í Njarðvík, þar sem þeir Ketill þrymur og Þiðrandi féllu, sótti Kórekur karl syni sína óvíga í Njarðvík Fyrir utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, það er kallað Kóreksstaðavígi. Kletturinn er hár og sagt er að ekki hafi orðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í þessu vígi er sagt að Kórekur hafi varizt óvinum sínum, en fallið þar að lokum og þar sé hann heygður. Merki sjást til þess enn að einhver hefur verið heygður uppi á klettinum, og hefur verið girt um hauginn. Í minni sögumannsins hefur verið grafið í hauginn og ekkert fundizt nema ryðfrakki af vopni, en svo var það ryðgað að ekki sást hvernig það hafði verið lagað." Frekar snubbót en gefur þó vísbendingu.
Þá var að leita á náðir austfirðingasagna, en í þeim er greint frá Njarðvíkingum og atburðum tengdum Ásbirni vegghamri, miklum garðahleðslumanni sunnan úr Flóa. Reyndar teygja atburðir þessir sig þvert yfir landið inn í allt aðra sögu því þeirra er að nokkru getið í Laxdælasögu, þegar Dalamenn taka á móti Gunnari Þiðrandabana. En í austfirðingasögum má þetta m.a.finna um Kóreks nafnið í atburðarásinni um bana Þiðranda: "Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög."
Þórhallur Vilmundarson prófessor í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til ársins 1988, telur að Kóreks nafnið megi rekja til stuðlabergsbása í klettunum við Kóreksstaði sem hafa vissa líkingu við kóra í kirkjum, og telur Þórhallur að nafn bæjarins sé af þeim dregið, þetta má finna í Grímni 1983. Það verður að teljast ósennilegt að Kóreksstaða nafnið sé dregið af klettum sem hafa líkindi við kóra í kirkjum ef nafnið var þegar orðið til í heiðnum sið á landnámsöld, nema að kirkjunnar menn hafi þá þegar verið búsettir í Útmannasveit. Því bendir tilgáta prófessorsins í fljótu bragði til þess að hann hafi ekki talið Austfirðingasögur áreiðanlegar heimildir. Í þeim er Kórekur sagt auknefni Þorbjörns bónda sem bjó á Kóreksstöðum, hvort bærinn hefur tekið nafn eftir auknefninu eða Þorbjörn auknefni eftir bænum er ekki gott í að ráða, en lítið fer fyrir sögnum af kirkjukórum þessa tíma.
Hvorki virðist vera að finna tangur né tetur af Kóreks nafninu hér á landi fyrir utan það sem tengist þessum sögualdarbæ í Útmannasveit. Kóreksstaðir gæti því allt eins verið örnefni af erlendum uppruna, en samt náskylt kirkjukórakenningu prófessors Þórhalls Vilmundarsonar. Það má jafnvel hugsa sér að nafnið sé ættað frá stað sem á víkingaöld gekk undir nafninu Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi" og ekki skemmir það tilgátuna að staðurinn er í mýrlendi rétt eins og bláin við Kóreksstaði. Þetta er staður þar sem klaustur heiags Finnbarr átti sitt blómaskeið og er nú þekktur sem borgin Cork á Írlandi.
Á sínum tíma var pistillinn um Kórek ítarlegri, einnig um bláklæddu konuna, Beinageitina ofl. Þann pistil má sjá hér.
Athugasemdir
Hárekur, Hrærekur og Kórekur voru mannanöfn.
Korek er víða til sem ættarnafn, til dæmis í Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum.
Kó-rekur. Í ensku er forskeytið co- dregið af orðinu cum í latínu og merkir "með", til dæmis í orðinu "co-worker".
England var hluti Rómarveldis og margir landnámsmenn hér á Íslandi voru kristnir.
Þorsteinn Briem, 9.9.2018 kl. 00:05
"Hrærekur er íslenskt karlmannsnafn.
Forliðurinn er upphaflega Hróð- en ð hefur fallið brott og auk þess hefur orðið i-hljóðvarp.
Nafnið barst frá Svíþjóð eða Þýskalandi til Rússlands og kom þaðan aftur sem Rúrik.
Þótt nafnið sé á mannanafnaskrá virðist enginn Íslendingur hafa borið það.
Einn Hrærekur bar þó beinin hérlendis, Hrærekur konungur í Kálfsskinni."
Þorsteinn Briem, 9.9.2018 kl. 00:50
Sæll Steini, takk fyrir þennan skemmtilega fróðleik. Það er alltaf gaman að velta fyrir sér nöfnum og örnefnum. Ég tók eftir því þegar ég velti fyrir mér Kóreks nafninu að það var til sem ættarnafn einmitt í þeim löndum sem þú tilgreinir.
Hvort Kóreks nafnið í Hjaltastaðaþinghá er að sama toga veit ég ekki, en ég var m.a. undir áhrifum "bláklæddu konunnar" sem þjóðminjasafnið sýndi um sumarið 2015 þegar ég velti vöngum yfir Koóeki. Sú kona var sögð hafa komið frá vestanverðum Bretlandseyjum á unga aldri og hafa búið á Íslandi um landnám, einnig töldu formælendur sýningarinnar að vefnaður úr íslenskri ull hafi verið í landinu eftir því sem klæðnaður konunnar gæfi til kynna.
Ég var semsagt mjög svo undir áhrifum "papa" og leitaði uppruna Kóreks nafnsins í gelísku og þar kom upp það sem í dag er kallað Cork. Mér hefur þótt Hjaltastaðaþingháin dularfull þegar kemur að nafngiftum og því litla sem Landnáma um hana segir.
Magnús Sigurðsson, 9.9.2018 kl. 07:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.