Fullvalda 20. aldar maðurinn

Ætlarðu ekki að skrifa minningargrein um hann afa þinn, spurði hún Matthildur mín mig fyrir 19 árum síðan. Nei ég get það ekki, var svarið. Þetta þótti minni konu aumt svar. En málið var að ég gat engan veginn skrifað minningargrein um hann afa, sem var bæði minn besti vinur og nafni. Þau skrif hefðu varla orðið um annað en hve missir minn var mikill og þar af leiðandi ekki verið um hann afa minn.

Þegar föðurafi minn hélt á vit forfeðranna, tæplega 91. árs, þá var í þessum heimi til engra forfeðra lengur að leita og var ég þó ekki fertugur. Fram að því var afi minn sá sem alltaf hafði verið til staðar, sá sem hafði grátið með okkur systkinunum og föður við eldhúsborðið morguninn eftir að móðir okkar dó. Afi var sá sem sagði 10 árum seinna, þegar ég fann að ýmsu eftir líkræðu prestsins við útför föður míns; blessaður vertu ekki að svekkja þig á þessu nafni minn ég hef lent í miklu verri jarðarförum hjá honum en þessari.

Níu árum eftir að afi minn dó sagði hún Matthildur mín, ætlaðu ekki að skrifa minningu um hann afa þinn í tilefni 100 ára árstíðar hans, það er oft gert, og það þekktu hann fáir betur en þú. Nei, ég gat það ekki, vegna þess að ég þekkti hann afa minn ekki nógu vel. Það voru nefnilega setningar sem hann sagði á níræðis afmælisdeginum sínum sem fékk mig til að efast um hvort ég þekkti hann afa minn, besta vin og nafna, nógu vel til að geta skrifað svoleiðis æviágrip.

Og hvernig átti ég að vera fær um að skrifa minningu um mann sem lifað hafði meira en tímana tvenna, eða líkt og Tryggvi Emilsson lýsir í bók sinni Fátækt fólk þegar hann minnist ársins 1918 í hálfhruninni torfbaðstofunni á kotbýlinu Gili í Öxnadal. Þá bar enn til stórtíðinda og langsóttra sem gerjuðust svo í hugum manna að margir þeir, sem aldrei sáust brosa út úr skegginu eða virtust kippa sér upp við nokkurn skapaðan hlut, urðu drýldnir á svip og ábúðarmiklir rétt eins og þeir væru allt í einu orðnir að sjálfseignarbændum, en nú var Ísland fullvalda ríki. Ég heyrði föður minn tala um þann ægistóra atburð eins og hann hefði sjálfur átt þátt í úrslitunum. Þessi tíðindi bárust fyrir jól og var þeim fagnað alls staðar þar sem hátíð var haldin. Menn höfðu fylgst með sambandsmálinu framar öllum örðum málum á undanförnum árum og heyrði ég Guðnýju segja að þessi sigur væri fyrirboði annarra og meiri. Sjálfur var ég í uppnámi vegna fregnarinnar, sá landið í nýju og skæru ljósi og taldi víst að nú mundi hækka hagur íslenskra öreiga. Þannig vógu ein stórtíðindi góð á móti þrem stórtíðindum vondum, frostunum miklu, spænsku veikinni og Kötlugosi. (Fátækt fólk bls.279)

Hann afi minn hafði aldrei barmað sér í mín eyru fyrr en á 90 ára afmælisdaginn sinn. Þá var það tvennt sem hann angraði. Annað var hve margar rjúpur hann hefði drepið um ævina. Ég sagði að hann þyrfti nú varla að hafa samviskubit út af þeim, þar sem lífsbarátta fólks á hans yngri árum hlyti oft að hafa verið hörð og hann hefði alltaf borið þá virðingu fyrir bráð sinni að hún hefði verið étin upp til agna. Nei það voru ekki þær rjúpur, heldur rjúpurnar sem hann hafði selt þegar hægt var að selja til Danmerkur; það hefði engu breytt þó ég hefði verið án þeirra peninga, sagði hann. Hitt var atvik frá bernsku sem setti fyrir mér ævi afa míns í allt annað samhengi en ég hafði ímyndað mér fram að því.

Það er ekki fyrr en nú á 110 ára ártíð afa míns að ég ætla að reyna að minnast hans, og nú óumbeðinn. Reyndar var það bók Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, sem varð til þess að ég sá lífshlaup afa frá sjónarhóli sem ég hafði ekki komist á meðan hans naut við, en við lestur bókarinnar komst ég á skjá sem gaf aðra sýn. Hann og Tryggvi voru samtímamenn sem lifðu 20. öldina og því hægt að kalla 20. aldar menn. Það er varla til fólk sem hefur lifað stærri breytingar á umhverfi sínu og háttum en íslenskur almúgi sem lifði alla 20. öldina.

Á bókarkápu og í formála endurútgáfu Fátæks fólks árið 2010 segir; bókin vakti mikla athygli og umtal þegar hún kom út árið 1976 – fyrir fádæma orðsnilld, persónusköpun og stíl, en þó fyrst og fremst fyrir þá sögu sem þar var sögð. Söguna af fátæku fólki fyrir tíma almannatrygginga; þegar hægt var að taka björgina frá barnmörgu heimili vegna þess að kaupmaðurinn þurfti að fá sitt; þegar litlum börnum var þrælað út í vist hjá vandalausum; þegar sjálfsagt þótti að senda hungrað barn gangandi tvær dagleiðir í vondu veðri til að reyna að fá úttekt í verslun. - Bókin Fátækt fólk var tilnefnd til Bókmenntaverðalauna Norðurlandaráðs árið 1977, og er haft fyrir satt að munað hafi svo fáum atkvæðum, sem talin voru á færri fingrum en finnast á annarri hendi, að verðlaunin féllu Fátæku fólki.

Bækur Tryggva, Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan, ætti hver og einn að lesa sem hefur minnsta áhuga á að kynna sér úr hvað jarðvegi íslenskt þjóðfélag er sprottið. Þó svo að bækur Tryggva Emilssonar hafi verið umdeildar á sínum tíma og hann hafi þótt fara hörðum orðum um menn og málefni, þá var varla hægt að gera það á annan hátt, nema fara í kringum sannleikann eins og köttur í kringum heitan graut. Auk þess segja bækurnar frá tæringunni (berklunum) og því hvernig íslensk alþýða komst út úr hálfhrundum torfbæjunum, sem höfðu verið hennar skjól í þúsund ár, inn í nútímann á aðeins örfáum áratugum.

Ég hafði spurt afa, í einhverri af okkar mörgu samverustundum, hvort það hefði ekki verið notalegt að búa í torfbæ. Hans svar var stutt og skorinort; minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn. Þegar ég gekk eftir hvers vegna, þá talaði hann í örstuttu máli um slaga, haustrigningar og vetrarkulda. Eins kom að lokum upp úr kafinu í þeim samræðum að foreldrar hans hefðu barist við berkla, sem hann taldi húsakostinn ekki hafa bætt. Faðir hans hafði tvisvar verið "hogginn" eins og kallað var, en það er þegar rifbein eru fjarlægð.

Jón Sigvaldason, faðir Magnúsar afa míns var smiður sem átti við berkla að stríða stóran hluta sinnar ævi, hann hefur því átt erfitt með að framfleyta fjölskyldunni. Hann þurfti oftar en einu sinni að leita sér lækninga við tæringunni, en það að vera höggvinn þýddi nánast örkuml og var lokaúrræðið í baráttunni við berkla fyrir tíma sýklalyfjanna. Foreldrar afa þau Jón Sigvaldason og Jónbjörg Jónsdóttir hafa því ekki átt sjö dagana sæla við að koma sínum barnahóp á legg. Það var einmitt á 90 ára afmælisdaginn sem ég heyrði afa í fyrsta og eina skiptið gefa örlitla innsýn í þá hörku sem var í samfélagi þessa tíma. Núna ætla ég að reyna að gera örstutta grein fyrir ævi afa.

Magnús Jónsson IIMagnús Jónsson var fæddur á Fljótsdalshéraði 27. nóvember 1908 á Skeggastöðum í Fellum. Hvers vegna hann er fæddur á Skeggjastöðum í Fellum veit ég ekki nákvæmlega. Foreldrar hans ólu mestan sinn aldur austan við Lagarfljót á Völlum, í Skriðdal og áttu auk þess sín fjölskyldutengsl í Hjaltastaðaþinghá, en Fell eru vestan við Fljót. Mig minnir þó afi hafi sagst halda að Skeggjastaðir hafi verið hans fæðingastaður vegna þess að þar hafi þau hjónin verið stödd vegna vinnu smiðsins.

Jónbjörg og Jón eignuðust 5 börn sem komust á legg auk þess að missa tvö á unga aldri. Afi var elstur þeirra systkina sem upp komust og aldrei heyrði ég hann tala um þau systkin sem foreldrar hans misstu. En í kirkjubókum og minningargrein um systur hans kemur fram að þau hafa heitið Sigrún, sem fædd var á Ketilsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 10. júní 1901. Látin á Hreimsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 1. júní 1902. Í minningargreinni kemur fram nafnið Björgvin, en ekkert fann ég um fæðingarstað né aldur.

Næst á eftir honum kom Guðrún Katrín fædd 21.11.1911 á Víðilæk, Skriðdal. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 07.01.1956. Svo kom Þuríður fædd 11.11.1913 í Sauðhaga á Völlum. Húsfreyja í Tunghaga dáin 17.05.2006. Þar á eftir kom Benedikt Sigurjón fæddur 14.04.1921 í Hvammi á Völlum. Var búsettur í Reykjavík dáinn 19.11.2005. Síðust kom Sigríður Herborg fædd 17.02.1925 í Tunghaga. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 26.09.1989.

Það var þegar ég rakst á sóknarmanntöl sem höfðu ratað á netið að ég gerði mér fyrst örlitla grein fyrir hverskonar aðstæður þessi systkinahópur hafði alist upp við og er þar sjálfsagt ekki ólíku saman að jafna við marga fjölskylduna sem ekki hafði jarðnæði á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Afi minn er flest árin skráður til heimilis á sama stað og foreldrar hans en önnur ekki, það er þó sammerkt með þeim árum að hann er ævinlega skráður til heimilis á sama stað og Sigurður Björnsson frá Vaði í Skriðdal og Magnea Herborg Jónsdóttir kona Sigurðar, en þau hjón voru kennd við Sauðhaga.

Það má sjá á fæðingarstöðum barna þeirra Jóns og Jónbjargar, eins í sóknarmanntölum að lengi höfðu þau ekki fastan samastað. Það er ekki fyrr en í Tunghaga 1922 að þau teljast ábúendur með jarðnæði. Dóttirin Katrín er fljótlega skráð í sóknarmanntölum á tveimur stöðum, þar sem Jónbjörg móður hennar var og hjá fósturforeldrum á Seyðisfirði. Þuríður er alltaf skráð á sömu stöðum og móðir hennar. Sigurjón fæðist í Hvammi og Herborg í Tunghaga og eru ávalt skráð til sama heimilis og foreldrar.

Svo virðist vera að Sigurður hafi hætt ábúð í Sauðhaga árið 1918 og flust ásamt Magneu Herborgu konu sinni i Vað í Skriðdal, þar sem Ingibjörg móðir hans bjó ásamt seinni manni sínum og systkinum Sigurðar. Ingibjörg Bjarnadóttir á Vaði varð ekkja 39 ára gömul, er ávalt talin kvenskörungur af Viðfjarðarætt, varð 17 barna móðir og stór ættmóðir á Héraði. Hún keypti jörðina Vað árið 1907 sem var Skriðuklausturs eign, en þar hafði hún búið ásamt fyrri manni sínum Birni Ívarssyni sem dó 1900 frá 12 börnum. Hún giftist Jóni Björgvin Jónssyni ráðsmanni sínum 1901 og áttu þau 5 börn saman.

Þegar Sigurður bregður búi í Sauðhaga og fer í Vað 1918, hverfur Jón Sigvaldason úr sóknarmanntölum sennilega vegna sjúkrahúslegu, en Jónbjörg er skráð vinnukona á Mýrum í Skriðdal ásamt Þuríði dóttir sinni. Árið 1923 eru Sigurður og Magnea Herborg aftur komin í Sauðhaga eftir að hafa verið skráð bæði á Vaði og í Tunghaga í millitíðinni. Þennan tíma er Magnús afi ýmist skráður sem tökubarn eða léttadrengur hjá Sigurði og Magneu Herborgu þ.e. 10-14 ára gamall. Þetta fólk hafði áður haldið saman um nokkurt skeiði og verið skráð til heimilis í Sauðhaga og þá Sigurður sem bóndi en foreldrar afa sem vinnufólk.

Í minni bernsku heyrði ég oft að Björg amma og Magnús afi væru bæði ná skyld fólkinu í Sauðhaga, enda var ég part úr tveimur sumrum í sveit hjá nafna mínum og frænda Magnúsi Sigurðssyni á Úlfsstöðum, en hann var frá Sauðhaga. Ég vissi fljótlega að Sigurður og Björg amma voru systkin, en fékk aldrei nákvæma skýringu á skyldleika afa við fólkið í Sauðhaga. Þegar ég spurði afa út í þetta þá sagði hann; nú skaltu spyrja einhvern annan en mig nafni minn, enda var ættfræði ekki hans helsta áhugamál. Í sóknarmanntölum sést að Magnea Herborg í Sauðhaga var uppeldissystir Jónbjargar móður afa. Þær voru systradætur, Jónbjörg er sögð tökubarn, fósturdóttir Pálínu Jónsdóttir móður Magneu Herborgar en móðir Jónbjargar hét Guðlaug Þorbjörg.

Pálína þessi var í sóknarmanntölum skráð sem vinnukona hjá Magnúsi Guðmundssyni og Herborgu Jónsdóttur búandi á Ormstöðum, sem voru í Hallormsstaðaskógi, og síðar Víðilæk í Skriðdal. Þegar ég spurði afa hvers vegna hann hefði verið skírður Magnús, og hvaðan Magnúsar nafnið okkar væri upprunnið, minnir mig að hann hafi sagt að það væri eftir einhverjum Magnúsi á Hallbjarnastöðum, en Víðilækur er út úr Hallbjarnarstöðum og þær systur Pálína, Herborg og Guðlaug voru frá Hallbjarnarstöðum. Magnús og Herborg áttu eina dóttir, Björgu sem dó að fyrsta barni og barnið líka. Nöfn þessa fólks lifa enn innan fjölskyldnanna sem eiga ættir að rekja til þeirra uppeldisystra Jónbjargar og Magneu Herborgar.

Því er þessi málalenging úr sóknarmanatölum þulin, að megi fá smá innsýn í hverskonar almannatryggingar var um að ræða í upphafi 20. aldarinnar. Almanntryggingin fólst í nánasta fjölskylduneti, eða þá á þann hátt sem ég fann í viðtalsþætti Hallfreðs Eiríkssonar þjóðháttafræðings á ismús, við Sigurbjörn Snjólfsson í Gilsárteigi. En Sigurbjörn var ungur maður að stíga sín fyrstu búskaparár á Völlunum þegar þeir voru æskustöðvar afa míns. Sigurbjörn segir frá því hvernig fátækt barnafólk var litið hornauga af sveitarstjórn og segir þar frá örlögum barna Péturs, sem Sigurbirni sjálfum hafði staðið til boða að taka við af, fullfrískum manninum. En honum hafi boðist annað og flutt með konu og börn í aðra sveit.

"Á Völlunum bjuggu bæði fátæklingar sem og efnaðir menn. Efnuðu mennirnir bjuggu á bestu jörðunum. Fátæklingarnir bjuggu á kotum sem varla var hægt að búa á. Upphaflega lentu Pétur og kona hans sem vinnuhjú hjá séra Magnúsi (Blöndal í Vallanesi) og þau máttu hafa tvö börn með sér. Þau eignuðust fleiri börn og urðu þau þá að finna þeim samastað. Eitt sinn var haldinn sveitarstjórnarfundur og var þar aðalfundarefnið að ráðstafa þurfalingum. Þessir fundir voru kallaðir vandræðafundir. Þessir fundir voru haldnir um sumarmál. Oft var niðursetningum komið fyrir hjá fátæku fólki því að það átti að vera hagur þeirra því að með niðursetningunum fékkst greitt frá sveitarfélaginu."

Það má svo rétt ímynda sér hvernig vandræðafundur Vallahrepps hefði tekið á málum ef fyrirvinna barnafjölskyldu var fársjúkur berklasjúklingur, nánast orðin örkumla, eftir því hvernig var tekið á málefnum þeirra barna Péturs og Sigurbjörns Snjólfssonar fullfrískra ungra manna. En Sigurbjörn telur að svo stutt hafi verið liðið frá afnámi vistarbandsins á Íslandi að sveitastjórnarmönnum á Völlum hafi verið vorkunn með úrlausnirnar. Sjálfur sagðist Sigurbjörn eiga efni sem hann hefði skráð hjá sér vegna þessara framfærslu mála sem hann hefði lagt svo fyrir um að ekki mætti birta fyrr en löngu eftir hans daga og þeirra er hlut áttu að málum, í virðingarskini við samferðamenn sína.

Í 1. tlbl. 5.árg. Glettings 1995 gerði Guðrún Kristinsdóttir, hjá safnastofnun Austurlands, húsakosti á Héraði skil á fyrri hluta 20. aldar í greininni "Baðstofurnar hans Jóns Sigvaldasonar". En eins og komið hefur fram hafði Jón faðir Magnúsar afa míns smíðar að ævistarfi. Í grein Guðrúnar kemur fram að Jón hafi oft verið fengin til að færa gömlu torfbæina til nútímalegra horfs með sínu sérstaka lagi. En þetta gerði hann með því að byggja tvílyft timburhús inn í tóft eldri baðstofa með háan, járnklæddan timburvegg fram á hlaðið sem hafði útidyr og glugga, með járni á þaki sem tyrft var yfir, bakveggir og stafnar héldu sér úr torfi og grjóti.

Það kemur fram í grein Guðrúnar að heimili Jóns, gamli torfbærinn í Tunghaga, hafi verið síðasta baðstofan sem hann endurbyggði árið 1934. Sannast kannski þar hið sígilda að iðnaðarmaðurinn lætur endurbætur við eigið hús ævinlega sitja á hakanum. Líklegra er þó að lífsbaráttan hafi verið með þeim hætti hjá örkumla smið í þá daga að allt varð til að vinna við að afla heimilinu lífsviðurværis. En fram kemur í samantekt Guðrúnar ;"Jón vann fram á síðasta dag við fjósbyggingu á Höfða á Völlum, en veiktist af lungnabólgu er hann kom heim og dró hún hann til dauða 5. júlí 1936".

Tveimur árum eftir að Jón Sigvaldason endurbyggir baðstofuna í gamla torfbænum í Tunghaga flytur Magnús elsti sonur hans sig á Jaðar í Vallanesinu til að gerast vinnumaður ungu ekkjunnar eftir sr Sigurð Þórðarson sem dó úr berklum. Til æskuvinkonu sinnar Bjargar ömmu, sem var sjö árum eldri en hann, systur Sigurðar fóstra hans í Sauðhaga. Húsið á Jaðri var stundum talin fyrsti herragarðurinn á Íslandi byggður af séra Magnúsi Blöndal sem var einn af umdeildari Vallanesprestum, og stóð m.a. að vandræðafundunum sem Sigurbjörn Snjólfsson greinir frá.

Nú skal farið hratt yfir sögu enda kom hver dagur 20. aldarinnar eftir þetta með betri tíð, eða eins og segir í dægurlagatextanum; birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr hver dagur sem ég lifði í návist þinn. Afa og ömmu búnaðist vel í Vallanesinu, fyrir átti amma tvær dætur þær Bjarghildi Ingibjörgu og Oddrúnu Valborgu Sigurðardætur. Þau eignuðust svo saman synina Sigurð Þórðarson og Ármann Örn auk þeirra ólust upp hjá þeim Gerður, Sigurður og Emil af eldri börnum þeirra systranna, svo vorum við nokkrir peyjar sem fengum að dvelja þar í sveit á sumrin sem nokkurskonar flórgoðar. Það ruglaði mig oft svolítið í rýminu þegar ég var barn að þau Gerður og Siggi skyldu alltaf kalla þau afa og ömmu, pabba og mömmu, en svo miklu ástfóstri tóku þau við þau gömlu.

Afi var bóndi öll sín bestu ár, hann var eldhugi, hamhleypa til verka og það stóðst fátt fyrir honum. Hann kunni að hnýta saman þvílíku úrvali blótsyrða þegar hann stóð frami fyrir erfiðleikum að meir að segja ég gat ekki annað en lært að nýta mér þær þulur. Ef sérlega illa stóð á var formálin eitthvað á þessa leið; fari það svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti. Þar með voru hamskiptin komin á og ráðist með áhlaupi til verka þannig að ekkert stóðst í veginum. Ég verð var við það enn þann dag í dag þegar erfiðlega gengur í steypuvinnunni að vinnufélagar mínir eiga til að glotta yfir því orðavali sem ég viðhef í gegnum steypuhauginn.

Amma var fyrrverandi prestfrú í Vallanesi, ekkja sr Sigurðar Þórðarsonar frá Skeiði í Arnarfirði, þess sem hóf prestskap sinn sem aðstoðarprestur hjá sr Magnúsi Blöndal og sameinaði söfnuðinn eftir deilur og daga sr Magnúsar í Vallanesi. Í minni bernsku var Björg amma kirkjuorganisti í Vallneskirkju og afi meðhjálpari. Amma var oft kölluð frú Björg af samsveitungum og vottaði ekki háði í þeirri nafnbót. Enda amma af almúgafólki komin sem ekki hafði verið mulið undir, frúar nafnbótin var tilkomin af verðskuldaðri virðingu fyrir almúgakonunni.

Á Jaðri var tvíbýli og gott á milli granna. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja, húsið steinsteypt, svo kalt á vetrum að ekki voru tök á að kynda öll þau salarkynni í stofuhita. Sjálfur fékk ég að kynnast hrollköldum herragarðinum í Jaðri þegar ég var barn í sveitinni hjá ömmu og afa. Eins man ég eftir að hafa komið í eina af baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar, bjartan sumarmorgunn og fundist hún notaleg, en það var í Vallaneshjáleigu. Amma og afi bjuggu í Jaðri í Vallanesinu til 1970, amma þá búin að vera þar í 45 ár og afi í 34, þá fluttu þau í Selás 26 á Egilsstöðum.

Á Selásnum setti afi upp steinplötu við útidyrnar, sem í var grafið Björg Magnús, ég hafði orð á því við hann að það vantað og á milli nafnanna; við amma þín erum fyrir löngu orðin eitt, nafni minn, svaraði hann. Þarna áttu allir afkomendur afa og ömmu öruggt skjól líkt og í Vallanesi. Afi notaði árin á Egilsstöðum til að fínstilla logann innra með eldhuganum.

Amma sagði mér frá fyrstu kynnum sínum af þessum funa bráða dreng á æskuheimilinu Vaði, og augun hennar ljómuðu við frásögnina. Þá undraði mig ekkert hvernig þau hefðu þekkst frá því þau voru börn á sama heimili, spáði aldrei í það, enda trúir barnsálin því að amma og afi hafi alltaf verið saman. En eftir að ég rakst á sóknarmanntölin á netinu þykist ég vita að litli drengurinn hafi komið í Vað á æskuheimili ömmu með Sigurði eldri bróður hennar sem tökubarn þegar fyrra ábúð hans lauk í Sauðhaga.

Amma og afi bjuggu í 13 ár saman á Selásnum, en þá fór amma á sjúkrahúsið á Egilsstöðum. Þar lá hún á milli tveggja heima í 5 ár, uns hún kvaddi þennan 20. október 1988. Ég átti oft skjól hjá afa árin sem amma var á sjúkrahúsinu, stundum svo mánuðum skipti. Afi fór á hverjum degi niður á sjúkrahús til að eiga stund með ömmu, ég fór einu sinni, fannst amma ekki vera þar og treysti mér ekki oftar. Stundum sagði afi þegar hann kom heim að lokinni heimsókn á sjúkrahúsið; ég er ekki frá því nafni minn að hún amma þín hafi vitað af mér hjá sér í dag, en aldrei fann hann að fælni minni við sjúkrahúsið.

Þegar systkini afa komu í heimsókn sást langt aftur í gamlan tíma, móttökur og kveðjur þeirra heimsókna voru innilega fallegar. Þegar Tunghagahjónin, Sigþór og Þura systir afa, komu í heimsókn skynjaði maður hvað elsti bróðirinn hafði verið mikils metin þegar foreldrarnir fengu ábúðina í Tunghaga, hrjáð af berklum og komin með 4 barna hóp. Þá hafði næstelsta systirin Katrín verið hjá fósturforeldrum, sem voru skyldfólk á Seyðisfirði, í nokkur ár. Sigþór og Þura giftu sig 1936 árið sem Jón Sigvaldason dó og keyptu síðar Tunghaga. Margir heimsóttu afa reglulega á Selásinn, gamli héraðslæknirinn, presturinn, verkamaðurinn, alþingismaðurinn ofl, ofl, og varð ég oft vitni af áhugaverðum samræðum. Afkomendurnir komu auðvitað oft í heimsókn og upp á milli þeirra gerði afi aldrei.

Það var ekki oft í seinni tíð sem afi var á faraldsfæti en hann kom samt nokkru sinnum í dagsferð á Djúpavog til að heimsækja nafna sinn og einu sinni stoppaði hann í nokkra daga. Skömmu eftir að þau amma og afi hættu að búa í Vallanesinu var farin fjölskylduferð norður í land til að heimsækja afkomendur og vini í Skagafirði. Við bræðurnir vorum í 1946 willysnum með afa, en amma var í bíl með foreldrum okkar og systrum. Það var allt svo stórkostlegt sem fyrir augu bar að við bræður máttum hafa okkur alla við að minna afa á hvar á veginum willysinn var, og miklar voru áhyggjur okkar bræðra þegar var farið um Ólafsfjarðarmúlann því willysinn átti það til að hrökkva úr gír og ekki var nú útsýnið amalegt í Múlanum þegar halla fór til Ólafsfjarðar. Einu sinni fór afi út fyrir landsteinana og urðu Færeyjar fyrir valinu.

Á Egilsstöðum vann afi fram yfir sjötugt, hann vann nokkur ár í skóverksmiðjunni Agila, síðan sem sendibílstjóri og lagermaður hjá Verslunarvélagi Austurlands, við byggingavinnu og að lokum hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Eftir að hann hætti í fastri vinnu tók hann að sér ýmis verkefni s.s. að sjá um sumarstarfsvöll fyrir unga Egilsstaðabúa þar sem byggð voru fallegustu hús bæjarins, slá og hirða lóðir fyrir stofnanir og hjálpa skólabörnum yfir götu á varasömustu gatnamótum bæjarins. Í dag má sjá lögreglubíl við þessi gatnamót á annatíma þegar vænta má flestra barna, ökumönnum til áminningar. Hann sagði mér eitt sinn að ef hann hefði haft val á sínum yngri árum hefði hann sennilegast ekki orðið bóndi, menntavegurinn hefði orðið fyrir valinu.

Í áranna rás hafði ég ekki áttað mig á hversu stórt hlutverk afi minn hafði í mínu lífi. Á árunum 1997 og 1998 var ég um tíma við störf í Ísrael við að leggja iðnaðargólfefni á verksmiðjur gyðinga í Galíleu. Við höfðum nokkrir íslendingar tekist á hendur að fara í nokkurskonar útrásarvíking í samstarfi við ísraelskan umboðsmann. Þessi ár vann ég í nokkurra vikna úthöldum ásamt gólflagnamönnum sem ég vann ekki með á Íslandi. Við gistum á samyrkjubúum en borðuðum í grennd við vinnustað og var það frekar fábreitt sjoppu fæði, Mc Donalds eða shawarma hjá götusala, svona eitthvað svipað og pilsa með öllu heima á Íslandi.

Á leið í næturstað að loknum vinnudegi var svo reynt að hafa upp á einhverju kræsilegra að éta. Eitt skiptið höfðum við óvænt lent inn á veitingastað hjá aröbum og borðuðum þar góðan mat, -að mér fannst. Ég stakk oft eftir það upp á því við félaga mína að fara aftur á araba staðinn. Það var að endingu látið eftir mér, þegar við sátum að snæðingi þá sagði annar félaginn; hva, þú færð þér svo bara það sama og síðast. Ég jánkaði því og sagði; lambakjötið hérna er næstum jafn gott og það íslenska og næstum eins og afi hafi steikt það. Vinnufélagar litu kímnir á hvern annan og annar þeirra sagði; það hlaut að vera að þessi staður hefði eitthvað að gera með hann afa þinn.

Síðsumars 1999 brugðum við Matthildur mín okkur upp í Hérað ásamt börnunum okkar tveim. Ferðin var farin til að sigla á Lagarfljótinu, en þá hafði ferjan Lagarfljótsormurinn nýlega hafið siglingar frá Egilsstöðum inn í Hallormsstað. Eins og vanalega komum við á Selásinn til afa og hafði ég gengið með þær grillur að afi myndi hafa gaman að því að koma með í siglinguna. Hann var þá, auk aldursins, orðinn helsjúkur. En á björtum sumardegi þá man maður afa sinn alltaf sem hetju bernskuáranna. Þrátt fyrir hve af honum var dregið gat ég ekki stillt mig um að biðja hann um að koma með í siglinguna. Hann brosti og svaraði; já ég held ég geri það bara nafni minn.

Ormurinn sigldi inn Fljótið í sólskini og 20 stiga hita á meðan Héraðið skartaði sínu fegursta til beggja handa. Við nafnarnir sátum saman í skuti meðan siglt var með vesturbakka Fljótsins, Fellamegin, og fylgdumst með því sem fyrir augu bar. Á móts við Skeggjastaði beygði Lagafljótsormurinn þvert yfir Fljótið og tók landi við Atlavík í Hallormstaðaskógi. Þegar áningunni þar var lokið var siglt út Fljótið að austanverði fram hjá Vallanesinu með sínum líparítgulu fljótsmalarfjörum þar sem afi hafði lifið sín manndómsár, siglingin endaði svo við sporð Lagarfljótsbrúarinnar á Egilsstaðanesinu. Þetta var síðasta ferðin okkar afa, við höfðum farið með bökkum Fljótsins þar sem hann fæddist og ól sinn aldur. Hann hélt svo til æðri heima á vit fólksins síns 13. nóvember 1999. En ég sigldi inn í 21. öldina þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast fullvalda 20. aldar manninum, sem aldrei fór fram á önnur laun í lok dags en að fólkinu hans liði vel.

Hann afi minn var af kynslóð fólks sem lifað hafði frá torfbæ til tölvualdar, fólks sem þakkaði sér hvorki uppbyggingu né framfarir 20. aldarinnar, heldur sagði að svona hefði þetta nú bara æxlast og það hefði tekið þátt í því. Hann var afkomandi kotfólksins, sem tók öllum höfðingjum fram. Hann tilheyrði ungu fólki sem  fékk fullveldið í fermingargjöf og mundi tímana tvenna.

Tryggvi Emilsson lýsir hörðum kjörum kotfólksins svo í upphafi 20. aldar. Á vorin ætlaði aldrei að hlána þessar fáu rollur gengu magrar undan hörðum vetrum og snjóþungum. En þegar loksins náði til jarðar og grösin komu græn undan snjónum voru stráin svo kjarngóð að ærnar, sem voru stundum komnar með horlopa, hjörnuðu fljótt við. Lömbin komust á spena og mjólkin varð feitari með hverjum degi, og svo var fært frá. Þyngsta þrautin var að standast afleiðingar vetrarhörkunnar þegar seint voraði. Börnin voru mögur og lasburða en reyndu þó að skríða á eftir henni móður sinni þegar hún var að hreinsa túnið, með bláar hendur eftir frostbólguna um veturinn, faðirinn fór sér hægt, þrótturinn var ekki á marga fiska. (Fátækt fólk bls.299)

Afkomendur kotfólksins skildu þannig við 20. öldina að Rúnar heitin Júlíusson gat sungið seint á áttuna áratugnum þannig um lífskilyrði kynslóðarinnar okkar sem sigldum um miðjum aldur inn í þá 21., við texta Þorsteins Eggertssonar; betri bíla, yngri konur, eldra viskí, meiri pening, en það verður allt önnur saga. Hvað þá hvort kynslóðinni, sem vanist hefur snappi takist að tengja sig við fullveldið með appi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér Magnús fyrir fallega og raunsanna frásögn. Minnir mig á Kristínu ömmu frá Grund í Ólafsvík. Ung missti hún manninn frá 7 börnum. Kristín á Grund gafst aldrei upp og kom þeim öllum til manns. Hún "snappaði" aldrei.

Með kveðju.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 1.12.2018 kl. 07:54

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.12.2018 kl. 10:00

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitið félagar, og hafa komist til enda í minningunni. Þessi langloka er ekkert smá "snapp" enda spannar hún hátt í 100 ár og til að komast svo langt er ekki til neitt "app".

En það sem ég vildi sagt hafa með þessu langa bloggi er (auk þess að minnast afa míns) að það er ekki síst almúgafólk sem hefur borið fullveldið á herðum sér eins glæsilega og raun ber vitni, jafnvel þó svo frammámenn séu þeir sem kjósi að baða sig í sviðsljósi þess á hátíðisdögum.

Magnús Sigurðsson, 1.12.2018 kl. 15:03

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú sagðir svo margt Magnús, að baki býr mikil vinna, sem er gefandi þeim sem gefur sér tíma til að lesa. 

Þessi frásögn snerti mig mjög, sjálfur er ég kominn af fólki sem ekki var mulið undir í æsku.  Og að hluta til naut fátækrahjálpar niðursetningsins. 

Móðuramma mín þurfti meir að segja að vinna í þó nokkurn tíma eftir 18 ára aldurinn (2-3 ár að mig minnir), til að borga fyrir ómagaframfærsluna, þó vann hún og vann sín unglingsár, og fékk aldrei neinn afslátt af þeirri vinnuhörku.

Föðuramma mín sagði mömmu að hún hefði þótt hyskinn í æsku, þá barn vinnufólks þar sem aldrei átti verk að falla úr hendi.  En það var hennar leið að mótmæla þrældómnum og kúguninni, þar sem það var unnið og unnið, en kaupgjaldið var aðeins örfáar krónur, með sparsemi og nurli, þá dugði það fyrir sparifötum, ekki á ári, kannski 10 árum.  Það er til mynd af langafa mínum, reffilegum mönnum í jakkafötum, með stífuðum kraga, kannski sirka 55-60 ára gamall.  En þessi föt voru næstum því aleiga hans. 

Ég hefði kannski ekki lesið þennan pistil þinn til skilnings fyrir svona 20 árum síðan, hafði þá samt lesið mikið um líf og kjör aldamótakynslóðarinnar, og Heimsljós er besta bók sem ég hef lesið um ævina.  Svo varð ég ekki bara eldri, ég fékk líka innsýn í kjör áa minna með því að hlusta á foreldra mína, og frændfólk mitt af sömu kynslóð.  Maður fékk það loksins til að tala.  Segja frá, ekki sínum minningarbrotum, heldur minningarbrotum foreldra þeirra.

Ég skal játa Magnús að ég les hratt yfir ættartölur, hef alltaf gert, en ég hjó eftir að þú minntist á frænku mína Ingibjörgu frá Vaði, þá merkiskonu.  Ég er sko Viðfirðingur og hef heyrt sögur af þeim kvenskörungi. 

En athyglin fór aldrei í hraðgír þegar ég las minningarmynd þína af afa þínum, eða tilvísanir þínar í samtímann sem hann ólst upp við.

Og af mörgu góðu, var þetta fallegast; "En ég sigldi inn í 21. öldina þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast fullvalda 20. aldar manninum, sem aldrei fór fram á önnur laun í lok dags en að fólkinu hans liði vel.".

Enn og aftur; Takk fyrir mig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.12.2018 kl. 16:43

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa frásögn Ómar. Það er vert að halda á lofti minningunni um fólkið sem fékk fullveldið.

Svona til að setja þig inn í ættfræðina þá erum við fjórmenningar.

"Ingibjörg á Vaði var mikillar gerðar eins og mörg þeirra Bjarnabarna Sveinssonar og Guðrúnar Jónsdóttur í Viðfirði", eins og sr Ágúst Sigurðsson orðar það. Hún var 17 barna móðir, og er langamma mín, móðir föðurömmu minnar. Guðlaug systir hennar er þá væntanlega langamma þín.

Sameiginleg formóðir okkar var Guðrún Jónsdóttir í Viðfirði, síðast á Skorrastað. Hún átt 16 börn. Ég hef heyrt sagt að hún hafi verið forkur til vinnu og stundað sjóróðra. Bjarni Sveinsson maður hennar hafi verið grúskari mikill, sem hafi skrifað margar bækur sem þó komust ekki á prent.

Í minnagrein um Guðrúnu formóður okkar segir m.a. þetta; "Gáfnafar hennar var fjölþætt og gætti þess best á efri árum hennar í ættfræði, sagnafjölda og listfengi í því að segja frá sögum og viðburðum fyrri tíma með orðgnótt, fjöri og kyngikrafti bestu þjóðsagna. Minni og andlegu fjöri hjelt hún fram að siðustu dögum. Með henni hygg jeg að i gröfina hafi farið ýmiskonar þjóðlegur fróðleikur, sem skilið átti að geymast."

Nú má kannski ætla sem svo að kvenfólkið í Viðfjarðarætt hafi skyggt á okkur karlmennina í gegnum tíðina. En þá er því til að dreifa að á morgunn mun einn úr ættlegg Guðrúnar í Viðfirði verða í sviðsljósinu á Anefield. Hann heitir Gylfi Þór Sigurðsson.

Magnús Sigurðsson, 1.12.2018 kl. 19:36

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, Guðlaug er langamma mín, föðuramma móður minnar, Sigríði Sveinu Guðjónsdóttur.  Og það tók mig smá tíma að skilja að arfleið mín úr Viðfirði var skilningur á því að margt er skrýtið í kýrhausnum, og enn fleira sem er ekki skýrt.

Svo má líka bæta við að Jón Dagur Þorsteinsson er líka af Viðfjarðarættinni.

Kveðja að neðan.

Ómar Geirsson, 1.12.2018 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband