Þær eru farnar að halla í beygjum

Það er ekki tekið út með sældinni að vera karlamaður þessa dagana. Hvað þá miðaldra karlpungur í tilvistarkreppu með tilheyrandi ranghugmyndir af feðraveldinu uppfullu af allskyns hrútaskýringum. Vinur minn og vinnufélagi komst heldur betur háskalega að orði í vikunni sem leið, í símtali við annan iðnaðarmann og ég varð áheyrandi af símtalinu. Já ég veit það þetta er alltaf sama helvítis vesenið, en stelpu rassgatið kann bara ekki að umgangast þetta og tekur ekki nokkurri tilsögn.

Ég benti félaga mínum á að svona mætti hann alls ekki tala, hann vissi aldrei hvenær tal hans yrði tekið upp og flutt í fjölmiðlum og þá væri stutt í metoo mylluna. Hann sagði að þessi kvenmaður myndi lítið lagast þó svo að sagðar væru fréttir af henni í fjölmiðlum, hún væri bara ekki betur búin á milli eyrnanna en raun bæri vitni. Ég lagði árar í bát, í þetta sinn, enda ekki í fyrsta skipti sem ég reyni að koma vitinu fyrir vin minn.

Atburðir þessa árs hafa oft á tíðum valdið okkur vinnufélögunum angist og örvinglan, þó svo við séum þrátt fyrir allt íslenskir kallamenn. Fyrir nokkrum vikum síðan hafði ég eytt drjúgum hluta kaffitímans í það að gera vinnufélögunum grein fyrir því hvað mikið mæddi á nútímakonunni. Hún þyrfti að sinna framabrautinni bæði með vinnu og háskólanámi, oft hvorutveggja samtímis, auk þess sem tilvera barnanna hvíldi á hennar herðum. Þetta væri svona þrátt fyrir allt það fæðingaorlof sem eyrnamerkt væri körlum, konan fengi kallið ef eitthvað bjátaði á hjá börnunum í leik eða skóla. Þetta sæist best á aksturslagi í umferðinni þar sem konur væru orðnar mun strekktari ökumenn enn karlar.

Vinur minn brunaði í þeim töluðu orðum inn í kaffistofuna, og um leið og hann fór framhjá okkur félögunum til að komast í kaffikönnuna gall í honum; þær eru meir að segja farnar að halla í beygjum. Hvað ertu að meina maður spurði ég; Þú hlýtur að vita það sjálfur, eða manstu ekki þegar við vorum að steypa í sumar og sama manneskjan keyrði þrisvar framhjá eins og druslan dró og við urðum að forða okkur, ferðin var svo mikil á henni að hún þurfti að halla sér til að hendast ekki út í rúðu í beygjunni.

Ég mundi eftir því að við höfðum verið að steypa gangstétt í rólegri íbúðagötu og talið að það væri öruggara að halda okkur ekki á götunni á meðan ung kona ætti leið hjá. Jú það var það sem félagi minn var að meina, hann bætti svo í; Þær eru al varasamastar þessar vinstri grænu því þær myndu strauja mann niður bara ef þær teldu sig vera í rétti, jafnvel þó svo maður væri í gulu vesti með vegagerðarkalla á aðvörunarskiltum í bak og fyrir.

Jú, ég varð líka að gefast upp þarna í kaffitímanum, og viðurkenna það að almennt hafi dregið úr því að fólk hefði nægjanlega aðgát í nærveru sálar þegar það þeytist fram og til baka um blindgötuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband