18.2.2019 | 15:27
Apaplánetan
Á mínum bernskuárum voru til héraðshöfðingjar, þeir voru stórhuga og oft bændur af gamla skólanum sem máttu muna tímana tvenna og aurana fáa. Einn þessara höfðingja bjó í götunni heima eftir að ævistarvinu lauk. Tók í nefið, fór yfir dægurmálin og mynntist gamallar tíðar.
Einu sinni heyrði ég sögu af honum frá yngri árum þegar hann hefði verið staddur á pólitískum fundi og vitað var að hann myndi verja sína menn af einurð þegar hann tæki til máls. Á fundinum var sveitungi hans sem var yfirleitt sammála nágranna sínum í öllu sem til framfara horfði, en ekki þegar kom að pólitík. Þegar héraðshöfðinginn fékk orðið hóf hann mál sitt með þessum orðum; "Frá mínum bæjardyrum séð,,,", en þar greip sveitungi hans strax fram í fyrir honum og botnaði mál hans "og þaðan sést ekkert nema fjóshaugurinn".
Þessi saga kom upp í hugann í síðustu viku þegar fyrrum forstjóri N1 furðar sig á því í fjölmiðli að það sé álitið mikill glæpur að greiða bankastjórum há laun og vísaði þar sérstaklega til launa tiltekins bankastjóra Landsbankans. Þar greip forstjórinn til líkingamáls og sagði að svona umræða hefði aldrei komið upp varðandi aflaskipstjóra. En skautaði alveg fram hjá því að bankinn er nýlega gjaldþrota "sjoppa" sem var endurreist á kostnað almennings.
Svo að gripið sé til líkingamáls svipuðu forstjórans þá er núverandi " skipstjóri" ein af þeim sem staðin voru að því að fikta við "negluna" þegar dallurinn sökk.
Á athugasemdakerfi fjölmiðilsins, sem viðtalið tók við forstjórann, fór síðan fram kappsfull umræða um hvorir, bankastjórar eða skipstjórar eða jafnvel læknar, ættu að hafa hærri laun, og hélt þar hver með sínu liði líkt og hverju öðrum fótboltaklúbb. Barðist forstjóra bullan þar fyrir sína menn enda sjálfsagt einn af þeim sem finnst sín sexföldu lágmarkslaun verulega hógværi miðað við fimmtánföld lágmarkslaun bankastjóra, sem hvorki eru glæpsamleg né of há að hans mati.
Hvað svo bankastjórinn, forstjórinn og aðrir gera við sín laun sem teljast mikið meiri en hver manneskja hefur þörf á, sé litið til lágmarkslauna, er svo kapítuli út af fyrir sig. Sagt er að sá sem kaupi það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig, og sjaldan eiga þau sannindi betur við en nú á tímum þegar flestir eiga í haugum of mikið af því sem þeir hafa ekki not fyrir.
Er þá fátt annað eftir en að safna þessu útborgaða talnaverki inn á bókhaldsreikninga og þá helst með góðri ávöxtun, eða nota það við að hræra í jackpottum spilavítanna til að teljast maður með mönnum, eða kannski koma afrakstrinum aflands til að komast í kynni við eina prósentið, sem virðist svo mikið áhugaverðara viðkynningar heldur en fólkið í götunni heima.
Þau gömlu sannindi að margur verði af aurum api virðast hreinlega ekki eiga hljómgrunn nú á tímum.
Nema þá að ráðamenn hafi uppi þær hugmyndir að stækka fjóshauginn það mikið að launahækkanir á við þeirra eigin velli niður brekkurnar og geri allt að einum fjóshaug burt séð frá því hvað verður um mjólkurkúna, og jörðina síðan að heilli apaplánetu.
Athugasemdir
Aflakóngssamlíkingin er vissulega heldur óheppileg.
Hæst launaði bankastjórinn virðist hafa tapað mestu (Arionbanki) og síðan kom frétt um að vaxtamunur íslensku bankanna er talsvert meiri en í nágrannalöndum, semsagt verri rekstur (þrátt fyrir allar skuldaafskriftirnar og eignirnar sem bankarnir komust yfir fyrir lítið). Ekki bætir svo úr að innlán ku vera hér lægri en stýrivextir en hvergi annarsstaðar í nálægum löndum.
Nei aflakóngar eru þetta svo sannarlega ekki.
En fjóshaugurinn er miklu betri, hann geymir efni sem fóstrar líf.
Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 18.2.2019 kl. 22:20
Fljótfærni, "innlánsvextir ku vera hér lægri...." átti þetta að vera.
Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 18.2.2019 kl. 22:21
Það er því miður fátt sem stenst samanburð í bankarekstri eða opinberri stjórnsýslu miðað við önnur lönd, og allra síst launin. Og ef einhverjir eiga heiðurinn af því að endurreisa fjárhag Íslands þá eru það einna helst ferðamaðurinn og það fólk sem þjónustar hann. Því þar er mjólkurkúna að finna og lægst launaða fólkið.
Það er reyndar engin samkeppni utanlands frá eftir íslenskum stjórnmála- eða embættismönnum hvað þá bankastjórum og hefur aldrei verið,svo varla þurfa launin að toppa nágrannalöndin þess vegna. Svo verður hver og einn að horfa í eigin barm með hvað hann vill hafa stóran "fjóshaug".
Magnús Sigurðsson, 19.2.2019 kl. 06:26
Annars er sennilega allt líkingamál heldur óheppilegt í þessu sambandi. Ég man ekki betur en skipstjórinn hafi verið á tvöföldu hásetahlut þegar ég var til sjós og þótti það bara nokkuð rausnarlegt.
Magnús Sigurðsson, 19.2.2019 kl. 06:58
Apaplánetan segir þú. Hefði ekki verið bertra að nota frekar Skrípill / Skríplar og þá Skrípla-skerið ?
Kristinn J (IP-tala skráð) 19.2.2019 kl. 07:42
Sæll Kristinn, líkingamál orkar alltaf tvímælis þó svo að það eigi að stytta mönnum leið umræðunni, og sennilega er ekkert alltof greinilegt að nefna skipstjóra og fjóshaug í sömu samlíkingunni.
Skríplarnir á skerinu er náttúrulega ágætis samlíking.
Ég sé að "skríplarnir" sem réðu "skipstjórann" eru búnir að gefa út yfirlýsingu þess efnis að þeir telji fimmtánföld lágmarkslaun hófleg.
Það er svo spurning hvað "útgerðin" gerir þegar þeir sem réðu "skipstjórann" á þessi laun rífa bara kjaft.
Kannski reka þeir bæði "útgerðarstjórann" og "skipstjórann" freka en að lát "útgerðina" verða fallitt aftur.
Annars verða "útgerðir" sárasjaldan gjaldþota eftir að kvóta og kjararáðs kerfi komust á, enda benda "skríplarnir" kokhraustir á það og kalla það eigendastefnu.
Lægstu launin dragast svo bara því meira aftúr úr eftir því sem gjaldþrotin verða fleiri.
Magnús Sigurðsson, 19.2.2019 kl. 13:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.