22.3.2019 | 20:32
Þeir litu blóðs í pollinn
Um Hvítasunnuleitið árið 1784 var ógeðfellt morð framið í grennd við syðsta bæ í Breiðdalshreppi, Streiti á Berufjarðarströnd, eftir að þrír ungir menn lögðust út og hugðust lifa í félagi sem útilegumenn, inn í atburðarásina blandaðist síðar fjórði austfirski unglingurinn. Örlögin höguðu því þannig að allir þessir ungu menn tíndu lífinu í framhaldi þessa Hvítasunnumorðs. Síðasta opinbera aftakan á Austurlandi var lokakaflinn í þeirri atburðarás, þegar einn þessara ungu manna var aflífaður á hroðalegan hátt á Eskifirði rúmum tveimur árum seinna. Sagan hefur ekki farið fögrum orðum um ævi og örlög þessara drengja, en spyrja má hverjir voru valkostirnir.
Árferðið 1784 var eitt það versta sem á Íslandi hefur dunið, móðuharðindin voru þá í öllu sínu veldi. Í annálum má lesa hrikalegar lýsingar á lífskjörum fólksins í landinu. En árið 1783 hófust eldsumbrot á Síðumannaafrétti í Lakagígum sem sagan kallar Móðuharðindin. Öskufall og brennisteinsgufa lagðist yfir landið þannig að gróður visnaði um mitt sumar, hraunflóð vall fram milli Síðu og Skaftártungu með þeim afleiðingu að tugir bæja eyddust og flókið úr flestum sveitum V-Skaftafellssýslu átti þann einn kost að flýja átthaga sína, ekki bætti úr skák að veturinn á undan hafði verið óvenju harður og hafís legið fyrir norðan land. Um haustið 1783 var ástandið þannig í flestum landshlutum að fénaður kom magur af fjalli ef ekki horaður og víða var búpeningur sjúkur af gaddi og beinabrigslum. Í grennd við gosstöðvarnar var margt búpenings þegar fallinn.
Eftir heylausan harðinda vetur 1783-84 með frosti og eiturgufum, svo hörðum að aðeins þrjár kýr voru taldar hafa lifað veturinn af á Melarakkasléttu, reikaði bjargarlaust fólk og skepnur uppflosnað um allar sveitir, máttvana af hor og hungri. Innyflin í skepnunum ýmist þrútnuðu eða visnuðu, bein urði meyr, rif brotnuðu undan þunga skepnunnar þegar hún lagðist út af, fótleggir klofnuðu og beinhnútar gengu út úr skinninu. Mannfólkið var svipað leikið um vorkomuna 1784, þar sem mikill fjöldi fólks þjáðist skyrbjúg og sinakreppu, brisi í beinum og liðamótum. Hár rotnaði af ungum sem öldnum, gómar og tannhold bólgnaði auk blóðkreppusóttar og annarra kauna. Fjöldi fólks lét lífið á víðavangi við flækingi á milli sveita og bæja. Þetta sumar gengu menn víða um land fram á lík á förnum vegi, oft það mörg að ekki reyndist unnt sökum magnleysis að greftra þau öðruvísi en í fjöldagröfum, enda víða frost í jörðu langt fram eftir sumri.
Ofan á þessar hörmungar bætast svo ægilegir jarðskjálftar á Suðurlandi, 14. og 16. ágúst sumarið 1784, þegar fjöllin hristu af sér jarðveginn svo gróðurtorfurnar lágu í dyngjum og hrönnum við rætur þeirra. Í Rangárvalla- og Árnessýslum einum, er talið að um 100 bóndabæir og 1900 byggingar hafi hrunið til grunna með tilheyrandi skjólleysi fyrir fólk og fénað, jók þetta enn á vesöld og vergang fólksins í landinu. Þrátt fyrir vilja danskra yfirvalda til að aðstoða Íslendinga í þessum hörmungum, sem m.a. má sjá á því að kannað var hvort hægt væri að flytja hundruð landsmanna af verst leiknu svæðunum til Danmerkur, þá skorti menn og hesta burði til að ferðast í kaupstað svo nálgast mætti aðstoð. Þó greina annálar frá því að embættismenn í höfuðstaðnum hafi talið ástandið hvað skást á Austurlandi og þar mætti hugsanlega enn finna nothæfa hross til flutninga á nauðþurftum.
Djúpivogur
Þann 10. júní 1784 var Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga staddur á Djúpavogi, en hann var búsettur á Eskifirði. Þar sem hann var í kaupmannshúsinu hjá Grönvolt ritaði hann bréf til dönsku stjórnarinnar sem átti að fara með verslunarskipinu sem lá við ból úti á voginum, ferðbúið til Kaupmannhafnar. Gripið er hér niður í bréf sýslumanns; , .. tel ég það mína embættisskyldu að skýra hinu háa stjórnarráði stuttlega frá óheyrilegu eymdarástandi þessarar sýslu, sem orsakast ekki aðeins af feiknarlegum harðindum tveggja undangenginna ára, heldur hefur dæmalaus ofsi síðastliðins vetrar þreifanlega á því hert; því eftir að napur kuldi ásamt viðvarandi öskufalli og móðu af völdum eldgosa höfðu kippt vexti úr gróðri, þá þegar örmagnað búpeninginn sem fitna átti á sumarbeitinni, skall hér á strax um Mikjálsmessu (þ.e. 29. sept) svo harður vetur, að hann gerist sjaldan bitrari í marsmánuði. Hlóð þegar miklum snjó í fjöll og dali, svo að fé fennti víða á svipstundu.
Menn urðu að hætta heyskap í miðjum klíðum. Heyið lá undir snjó og spilltist. Lestir á leið að höndlunarstöðum komust ekki leiðar sinnar, en urðu að láta þar nótt sem nam. Þeir sem voru á heiðum uppi misstu ekki aðeins hesta sína úr hungri, heldur skammkól þá sjálfa í frostinu. Veðurfar þetta hélst fram í miðjan nóvember, er heldur brá til hins betra. Með nýári hófst miskunnarlaus vetrarharka með langvinnum stormum og fannfergi og svo óstjórnlegu frosti, að um 20. febrúar hafði alla firði lagt innan úr botni til ystu nesja, en slíks minnast menn ekki næstliðið 38 ár. Hér við bætist hafísinn, sem hinn 7. mars þakti svo langt sem augað eygði af hæstu fjallstindum, og hélst þessi ótíð fram á ofanverðan apríl, að heldur hlýnaði í lofti, þó ekki nóg til þess að fjarðarísinn þiðnaði eða hafísinn hyrfi frá landi fyrr en í maímánaðarlok.
Sauðfé og hross, sem hjarað höfðu af harðærin tvö næst á undan og fram á þennan ódæma harða vetur féll nú víðast hvar í sýslunni... Búendur á hinu kunna Fljótsdalshéraði, sem áður voru fjáðir og gátu sent 5-8 eða 10 hesta lestir í kaupstað, verða nú að fara fótgangandi um fjöll og heiðar og bera á sjálfum sér eina skeppu korns í hverri ferð... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti, flakk og þjófnaður ágerist svo, að ég hef síðan manntalsþing hófst haft auk annarra, sem refsað hefur verið, tvo sakamenn í haldi, sem dæma verður til Brimarhólmsþrælkunar, af því hesta er hvergi að fá til að flytja þá í fangahús landsins...
Landsbóndinn hefur misst búfjáreign sína, og missir hrossanna gerir honum með öllu ókleift að stunda atvinnu sína eða afla sér brauðs, þótt í boði væri. Sjóarbóndinn svonefndi, sem um mörg undanfarin ár hefur eins og hinn að mestu lifað af landsins gæðum, er engu betur settur...; verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema Yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara Yðar þrautpíndu fátæku undirsáta á eftirfarandi hátt.
1. Að kaupmenn konungsverslunarinnar hér í sýslu fengju með fyrsta skipi skýlaus fyrirmæli um að lána öllum bændum sýslunnar undantekningalaust nauðsynjavörur, þó í hlutfalli við þarfir og fjölda heimilisfólks.
2. Að Yður náðarsamlegast þóknaðist að gefa fátæklingunum í hreppunum, þeim sem annars féllu, tiltekinn skammt matvæla, þar sem lán sýnist ekki mundu verða til annars en sökkva þeim í skuldir, sem aldrei yrði hægt að borga
3. Eða, að Yður allramildilegast þóknaðist að flytja héðan það fólk, sem komið er á vergang og vinnufært teldist, annað hvort til Danmerkur eða annarra staða hérlendis, þar sem betur kynni að horfa, til að létta þá byrði sem það er á örsnauðum fjölskyldum, sem þreyja á býlum sínum, og bjarga þannig dýrmætu lífi margrar óhamingjusamrar manneskju, er ella hlyti að hníga í valinn ríkinu til tjóns...
Það er í þessu árferði, á uppstigningardag, sem þrír ungu menn hittast á Hvalnesi við sunnan verðan Stöðvarfjörð og eru sagðir hafa gert með sér félag um að leggjast út. Sá elsti þeirra hét Eiríkur Þorláksson fæddur á Þorgrímsstöðum í Breiðdal árið 1763 og vistaður hjá séra Gísla Sigurðssyni á Eydölum. Umsögn séra Gísla um Eirík var á þann veg; að hann væri latur, áhugalaus um kristin fræði, hneigður til stráksskapar, þjófnaðar og brotthlaups úr vistum. Eiríkur hafði, þegar hér kemur sögu, hrökklast úr vist við norðanverðan Reyðarfjörð á útmánuðum. Hann hafði verið hjá Marteini Jónssyni útvegsbónda í Litlu-Breiðuvík í Helgustaðahreppi, sem var sagður valinkunnur maður, og sjósóknari í betra lagi, ekki er ólíklegt að Eiríkur hafi róið með Marteini og hafi því hrakist til neyddur úr góðri vist.
Sá yngsti þeirra þriggja var Gunnsteinn Árnason, fæddur 1766, frá Geldingi (sem heitir Hlíðarendi eftir 1897) í Breiðdal. Hann hafði dvalist með foreldrum sínum framan af æfi en þau annaðhvort flosnað upp eða fyrirvinnan látist, var honum fyrirkomið sem niðursetningi á Þverhamri í Breiðdal um 12 ára aldurinn. En síðast settur niður á Einarstöðum við norðanverðan Stöðvarfjörð (þar sem þorpið á Stöðvarfirði stendur nú) og hafði þaðan hrakist í apríl byrjun. Eftir það hafði hann dregið fram lífið á flakki á milli bæja allt frá Breiðdal í Fáskrúðsfjörð. Umsögn séra Gísla á Eydölum um Gunnstein er á þann veg að hann teljist læs en latur og kærulaus um kristin fræði.
Þriðji ungi maðurinn sem kom þennan uppstigningadag í Hvalnes var Jón Sveinsson frá Snæhvammi í Breiðdal sennilega fæddur 1764. Sagður á sveitarframfæri eftir að hafa misst föður sinn sem fór niður um ís á Breiðdalsá 1772. Hann er þó skráður sá eini af fjölskyldu sinni hjá föðurbræðrum sínum í Snæhvammi 1771, svo ef til vill hefur fjölskyldunni verið tvístrað áður en faðir hans fórst. Bræður hans eru síðar skráðir niðursetningar víða um Breiðdal, en hann niðursettur að Ánastöðum 10 ára gamall og síðar í Flögu og Eyjum, en eftir það hjá Birni föðurbróðir sínum í Snæhvammi. Þennan uppstigningardag á Hvalnesi leikur grunur á að Jón hafi verið orðinn sjúkur og máttlítill. Haft var eftir Jóni Árnasyni í Fagradal sem hafði hitt nafna sinn skömmu áður, að hann hafi verið magur, en þó gangfær, og ekki kvartað um veikindi.
Eins og greina má af opinberum lýsingunum höfðu þeir félagar ekki átt sjö dagana sæla. Enda hafa þeir sem minna mega sín, allt frá fyrstu hallærum Íslandssögunar, átt verulega undir högg að sækja. Sagnir herma að fyrsta hungursneiðin eftir að land byggðist hafi verið kölluð óöld (975) Þá átu menn hrafna og melrakka og mörg óátan ill var þá étin, en sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir drepnir. Í Flateyjarbók segir að árið 990 hafi verið svo mikið hallæri á Íslandi, að fjöldi manna hafi dáið úr sulti. Þá var samþykkt á héraðsfundi í Skagafirði, að reka út á gaddinn öll gamalmenni og vanheila, og banna að veita þeim hjálp. (En Arnór kerlinganef, sem kannski var kallaður svo vegna afstöðu sinnar, kom í veg fyrir að þetta væri gert). Því þarf kannski ekki að koma á óvart, miðað við árferðið þetta vor, að þessir þrír ungu menn hafi látið sig dreyma um betra líf sem útilegumenn.
Þeir félagar Eiríkur, Gunnsteinn og Jón lögðu upp frá Hvalnesi við Stöðvarfjörð að kvöldi uppstigningardags þann 20 maí 1784, sennilega án þess að nokkur sakanaði þeirra, enda vafalaust lítið til skiptana handa gestum og gangandi í því árferði sem ríkti, hvað þá handa ómögum. Fóru þeir fyrir Hvalnesskriður(nú er algengara að kalla bróðurpart lands Hvalness við Stöðvarfjörð, Kambanes, og hluti fyrrum Hvalnesskriða er kallaður Kambaskriður). Þar hefur hafísinn lónað úti fyrir ef marka má bréf Jóns sýslumanns. Þeir fóru yfir í Snæhvamm í Breiðdal og eru sagðir hafa gist þar hjá frændum Jóns. Síðan fara þeir yfir í Þverhamar og sagði Gunnsteinn þá hafa gist í fjósinu, hafa kannski ekki gert vart við sig hjá Höskuldi hreppstjóra Breiðdælinga þar sem Gunnsteinn hafði verið niðursettur nokkru fyrr. Á þriðja degi fluttu þeir sig suður í Krossdal gegnt Breiðdalseyjum þar sem þeir hafast við í kofa eina nótt og þaðan fara þeir upp í miðja kletta í fjallinu Naphorni á Berufjarðarströnd, við Streiti syðsta bæ í Breiðdalshreppi. Þar gerðu þeir sér sér byrgi og bjuggu um sig upp í klettarák. Þegar þarna var komið var Jóni Sveinssyni ekki farið að lítast á blikuna og vildi draga sig úr félagskapnum. Enda orðin það sjúkur að hann taldi sig betur kominn í byggð. Eiríkur aftók það með öllu.
Neðst á myndinni má greina bæinn Streiti þar sem hann kúrir undir Naphorninu
Í fyrstu reyndu þeir að seðja hungrið með því að grafa upp hvannarætu ofan við klettana við Streiti, þar sem Stigi heitir, en fóru fljótlega heim að Streiti, rufu þar þak á útihúsi og stálu fiski og kjöti. Jón stóð álengdar en tók ekki þátt vegna sjúkleika og máttleysis. Vildi hann fara heim að bæ og leita þar hjálpar. En félagar hans vantreystu honum og tóku hann aftur með sér upp í klettana í Naphorninu, þar sem þeir lágu fyrir næstu daga. Jón fór þar úr öllum fötunum og fór að leit á sér lúsa. Það, og vegna þess hvað hann var orðin veikur og vælgjarn, virðist hafa orðið til þess að Eiríkur stekkur að honum, kannski í bræðikasti, hefur hann undir, sker úr honum tunguna og stingur hann síðan með hnífnum í brjóstið. Gunnsteinn segist hafa látið sem hann svæfi og ekki hafa séð svo gjörla hvað fram hafi farið á milli þeirra Eiríks og Jóns. En þarna var samt enn óljóst hvort Jón var lífs eða liðin, þegar þeir félagar yfirgáfu hann eftir að hafa hent fötum hans yfir hann.
Héldu þeir Eiríkur og Gunnsteinn síðan af stað inn Berufjörð og fengu sig ferjaða yfir fjörðinn við þiljuvelli. Segir lítið af ferðum þeirra fyrr en suður í Álftafirði, þar sem þeir voru fljótlega handteknir vegna suðaþjófnaðar á Melrakkanesi. Á Geithellum, þann 12. Júní, dæmir Jón Sveinson sýslumaður þá Eirík og Gunnstein til húðstrýkingar fyrir suðaþjófnað, en um þetta leiti hefur hann verið á ferð við Djúpavog eins og bréf hans til Stjórnarinnar í Kaupmannahöfn þann 10. júní ber með sér hér að ofan. Kannski hafa þeir tveir verið sakamennirnir sem hann telur í bréfinu að verði að dæma til Brimarhólmsvistar en endirinn á verið húðstrýking þar sem engir hestar hafi verið tiltækir til flutninga á föngum.
Þegar það svo fréttist í Breiðdal að þeir félagar hafi verið handteknir í Álftafirði vekur það undrun að Jón skuli ekki hafa verið með þeim. Gunnsteinn sagði frá því í Álftafirði að Jón hafi verið með þeim í upphafi útilegunnar en þeir hafi skilið við hann á milli Streitis og Núps þar sem hann hafði viljað leita sér hjápar vegna lasleika. Þegar Gunnsteinn kom svo aftur í Breiðdal að áliðnu sumri játaði hann fyrir séra Gísla í Eydölum og Höskuldi hreppstjóra á Þverhamri, hvar lík Jóns myndi vera að finna. Voru tveir menn á Streiti fengnir með þeim Gísla, Höskuldi og Gunnsteini til að sækja líkið eftir leiðsögn Gunnsteins. Aðkoman var ekki geðsleg, líkið var kvikt af maðki og lyktin óbærileg. Samt báru þeir það niður úr illfærum klettunum og létu það í stokk sem þeir höfðu haft meðferðis. En ekki fóru þeir með líkið strax heim að Streiti vegna myrkurs, og dróst það í tvær vikur að vitja um stokkinn. Þegar það var svo loksins gert var ekki lengur hægt að sjá neina áverka á líkinu, því maðkurinn hafði ekkert annað skilið eftir en beinin og sinarnar sem tengdu þau saman.
Eskifjörður
Samt sem áður gekkst Eiríkur við verknaðnum eftir að Gunnsteinn hafði greint frá viðskiptum þeirra Jóns. Þeir félagar voru þá fluttir til Eskifjarðar þar sem Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga fékk málið til frekari meðferðar. Að rannsókn lokinni dæmdi sýslumaður Eirík til dauða sem morðingja, en Gunnsteinn í ævilanga þrælkun sem vitorðsmann. Þar til dómur yrði staðfestur átti að geyma þá í dýflissu sýslumanns á Eskifirði. Með þeim þar í haldi var Sigurður Jónsson 18 ára unglingur úr Mjóafirði, sagður ólæs og skrifandi, sem hafði náðst á flakki og verið dæmdur vegna þjófnaðar í Helgustaðahreppi.
Þessi ungi Mjófirðingur er ekki talin hafa verið neinn venjulegur þjófur eða hreppsómagi, því þjóðsagan telur hann hafa legið úti í nokkur ár, og skýrir það kannski hvers vegna hann var fangelsaður með þeim Eiríki og Gunnsteini en ekki hýddur og sendur heim í sína sveit. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar má lesa þetta um Sigurð; gjörðist hann útileguþjófur og hafðist við í ýmsum stöðum í Suðurfjarðafjöllum, helst þó í kringum Reyðarfjörð; var oft reynt að höndla hann, en varð ekki, því þó að vart yrði við bústað hans í einhverjum stað og þar ætti að grípa hann, þá var hann allur í burt er þangað kom, en víða fundust hans menjar; til að mynda í skútum þar í fjalli einu sem kölluð eru Glámsaugu fundust átján kindagærur, enda var haldið að hann hefði þar dvalið einna lengst. En er hann hafði haldið þessu tvö eða þrjú ár kom harður vetur og varð hann þá bjargþrota og orðinn mjög klæðlaus, leitaði því ofan til byggða og fór að stela sjófangi út hjöllum þeirra Reyðfirðinga; og þá gátu þeir tekið hann og færðu hann fanginn til sýslumanns,,, Þeir þremenningar struku úr dýflissunni eina nóvember nótt, og stálu sér til matar frá sýslumanni. Félagarnir lögðu svo af stað í glórulausum hríðarbyl, daginn eftir voru þeir handteknir úti í Helgustaðahreppi eftir að bóndinn í Sigmundarhúsum hafði orðið þeirra var í útihúsum og boðið þeim heim með sér í mat um morguninn, en lét senda skilaboð til Jóns sýslumanns í laumi.
Eftir þetta voru þeir fluttir á nýjan stað, til vetursetu í byrgi sem sýslumaður lét gera við bæinn Borgir sem var sunnan Eskifjarðarár gegnt Eskifjarðarbænum. Fangageymslan var lítið annað en hola þar sem var hægt að láta mati niður um gat í þakinu. Þar tókst ekki betur til en svo að þeir Gunnsteinn og Sigurður dóu báðir úr hungri, en Eiríkur var þeirra hraustastur og át þann mat sem kom í byrgið. Talið er að hann hafi setið við gatið, þegar von var matar og félagar hans aðeins fengið naumar leifar þess sem hann ekki át. Sagt var að sýslumannsfrúin hafi séð um matarskammtinn og var haft eftir Eiríki að svo naumt hafi frúin skammtað, að maturinn hefði rétt dugað handa sér einum.
Fremur hljótt var um þennan atburð og sýslumaður var í slæmum málum vegna þessa, er jafnvel talið að hann hafi látið dysja hina horföllnu fanga með leynd undir steini skammt frá byrginu um leið og uppgötvaðist hve slysalega hafði tekist til við fangavörsluna. Þjóðsagan segir vandræði sýslumanns hafa verið mikil vegna þessa hungurmorðs: En eftir það brá svo við að Sigurður fór að ásækja sýslumann á nóttunni svo hann gat ekki sofið. Var þá tekið það ráð sem algengt var við þá er menn hugðu mundu aftur ganga, að lík Sigurðar var tekið og pjakkað af höfuðið með páli og gengu svo sýslumaður og kona hans milli bols og höfuðs á honum og höfuðið að því búnu sett við þjóin og bar ekki á Sigurði eftir það. Sagt er að skriða úr Hólmatindinum hafi rótað ofan af beinagrindum þeirra Sigurðar og Gunnsteins á 19. öld og hafi mátt sjá þar tvær hauskúpur og mannabein á stangli, liggja fyrir hunda og manna fótum allt fram undir 1940.
Um sumarið (18. júlí 1785) var kallaður saman héraðsdómur til að staðfesta dóm sýslumanns yfir Eiríki, var þar staðfest að Eiríkur skildi klipinn fimm sinnum með glóandi töngum á leið á aftökustað, þá handarhöggvinn og síðan hálshöggvinn. Hönd og höfuð skildu sett á stjaka, öðrum vandræða mönnum til eftirminnilegrar aðvörunar. Að réttum landslögum hefði Eiríkur átt að koma fyrir Öxarárþing til að staðfesta dóminn. En þar sem kostnaður sýslumanns af föngunum var nánast allar tekjur hans af sýslunni fékk hann því breytt og dómurinn var staðfestur heima í héraði, enda tvísýnt að nothæfir hestar hefðu fengist til að flytja fanga þvert yfir landið. En þetta var þó gert með þeirri viðbót að aftakan mætti ekki fara fram fyrr en fyrir lægi konungleg tilskipun. Þann 20. janúar 1786 staðfesti konungurinn í Kristjánsborg dóminn endanlega með þeirri mildun að Eiríkur yrði ekki klipinn með glóandi töngum en dómurinn skildi standa að öðru leiti. Svo virðist sem sýslumaður hafi ekki fengið tilkynningu um úrskurð konungs fyrr en undir haust og virðist því sem sýslumaður hafi setið uppi með Eirík ári lengur en hann hugðist gera með því að óska eftir að dómurinn yrði staðfestur í héraði.
Þann 30. september 1786 var Eiríkur Þorláksson tekin af lífi á Mjóeyri við Eskifjörð þá 23 ára gamall. Erfiðlega hafði gengið að fá mann í böðulsverkið, en seint og um síðir hafði verið fenginn maður að nafni Björn frá Tandrastöðum í Norðfirði og fékk hann 4 ríkisdali og 48 skildinga að launum. Hann var kallaður eftir þetta Björn Tandri eða Karkur, sagður hrikalegur á velli og hranalegur í orði. Eftir munnmælum var hann búinn að drekka talsvert áður en embættisverkið hófst. Eins segja sumar sagnir að það hafi verið eldhús saxið í Eskifjarðarbænum sem notað var til aftökunnar. Björn Tandri lagðist í flakk síðari hluta ævi sinnar og eiga börn að hafa verið hrædd við hann því að sú saga fylgdi honum að hann hefði drepið mann, enda síðasti böðullinn á Austurlandi.
Fátt er til í opinberum plöggum um aftökuna sjálfa, eða hversu fjölmennt þar var. Til siðs var að viðstaddir væru aftökur á Íslandi annað hvort biskup eða prestur, séra Jón Högnason á Hólmum við Reyðarfjörð uppfyllti þetta ákvæði og var þar allavega viðstaddur ásamt Jóni Sveinssyni sýslumanni. Varla þarf að efast um að hönd Eiríks og höfuð hafa verið fest á stangir til sýnis að aftökunni lokinni almenningi til viðvörunar. Sýslumaður hafði sett mann sem umsjónarmann verksins sem hét Oddur, og var sagður hreppstjóri frá Krossanesi við Reyðarfjörð.
Til er handrit eftir Einþór Stefánsson frá Mýrum í Skriðdal sem hann skráði niður eftir munnmælasögum um atburði þessa. Þó svo margt í þeim sögum sé ekki samkvæmt því sem fram kemur í opinberum heimildum hvað sum nöfn og atburði varðar, er þó greinilegt við hvað er átt. En í handriti Einþórs stendur þetta um það sem gerðist Eskifirði þennan haustdag.
Mjóeyri
Hófst nú Oddur handa um undirbúning aftökunnar. Skyldi hún fara fram á Mjóeyri við Eskifjörð. Böðull sýslumanns var til kvaddur, en hann færðist undan að vinna á Eiríki og kvað sig skorta hug til þess. Böðull þessi nefndist Bergþór og bjó á Bleiksá, býli við Eskifjörð. Þorsteinn hét maður úr Norðfirði, er hafði flakkað víða og var nokkuð við aldur, er þetta gerðist. Bauð hann sýslumanni að vinna böðulsverkið, og var það boð þegið. Öxi var fengin að láni hjá kaupmanni á Eskifirði.
Þegar lokið var öllum undirbúningi aftökunnar, fór Oddur hreppstjóri með tilkvadda menn að Borgum til að sækja fangann. Voru þeir allir mjög við vín. Er þangað kom, sat Eiríkur í fangelsinu og uggði ekki að sér, enda hafði honum ekki verið birtur dómurinn. Lét Oddur binda hendur hans, kvað hann eiga að skipta um verustað og lét gefa honum vín. Hresstist þá Eiríkur og varð brátt kátur mjög; þótti honum sem sinn hagur mundi nú fara batnandi. Var svo haldið af stað áleiðis til Mjóeyrar, en það er æðispöl að fara.
Gekk ferðin greitt, uns komið var í svonefnda Mjóeyrarvík. Þá mun Eirík hafa farið að gruna margt, enda hefur hann líklega séð viðbúnaðinn á Mjóeyri og menn þá, er þar biðu. Sleit hann sig þá lausan og tók á rás, en Oddur og menn hans náðu honum þegar í stað. Beittu þeir hann harðneskju og hrintu honum áleiðis til aftökustaðarins. Eggjaði Oddur menn sína með þessum orðum: Látum þann djöful hlýða oss og landslögum.
Var Eiríkur síðan hrakinn út á eyrina, þar sem biðu hans höggstokkurinn og öxin. Allmargt manna var þar saman komið, meðal þeirra skipstjóri og einhverjir skipverja af dönsku kaupfari, sem lá á firðinum. Er Eiríkur var leiddur að höggstokknum, trylltist hann og bað sér lífs með miklum fjálgleik. En Oddur og menn hans létu hann kenna aflsmunar og lögðu hann á stokkinn. Eiríkur hafði hár mikið á höfði; tók Oddur þar í báðum höndum og hélt höfðinu niðri. Skipaði hann síðan Þorsteini úr Norðfirði að vinna sitt verk. Þorsteinn brá við hart, en svo illa tókst til, að fyrsta höggið kom á herðar Eiríki og sakaði hann lítt. Þá reið af annað höggið og hið þriðja, og enn var fanginn með lífsmarki.
Oddur hreppstjóri skipaði nú böðlinum að láta hér staðar numið, eða hvað skal nú gera, mælti hann, samkvæmt lögum má ekki höggva oftar en þrisvar. Þá gekk fram skipstjórinn danski, leit á fangann, sem var að dauða kominn, og skipaði að binda skyldi endi á kvalir hans án frekari tafar. Hjó þá Þorsteinn ótt og títt, og fór af höfuðið í sjöunda höggi. Skipstjórinn leit þá til Odds og mælti: Drottinn einn veit, hvor ykkar hefur fremur átt þessa meðferð skilið, þú eða fanginn. Ef ég hefði ráðið, skyldir þú hafa fylgt honum eftir. Lík Eiríks var síðan grafið á Mjóeyri.
Um þennan atburð varð til vísan;
Öxin sem Eiríkur var höggvin með er sögð hafa verið til í verslun á Eskifirði fram til 1925 og á að hafa verið notuð þar sem kjötöxi. Í óveðrinu sem gekk yfir Austurland þann 30. desember 2015 urðu miklar skemmdir vegna sjávargangs á Eskifirði. Sjór braut þá á leiði Eiríks Þorlákssonar sem hefur verið á Mjóeyri allt frá því að þessir atburðir gerðust. Vitað var með vissu alla tíð hvar hann hvílir, þó svo að menn hafi talið sig þurft að staðfesta það með því að grafa í leiðið. Var það gert í upphafi 20. aldar að viðstöddum þáverandi héraðslækni á Eskifirði. Þá var komið niður á kassa úr óhefluðum borðum sem innhélt beinagrind af manni sem hefur verið meira en í meðallagi. Hauskúpa lá við hlið beinagrindarinnar og var hún með rautt alskegg.
Frásagnir af atburðum þessum bera það með sér að Eiríkur Þorláksson hefur verið hraustmenni sem komst lengur af en félagar hans, við ömurlegar aðstæður. Lokaorð Einars Braga rithöfundar, sem gerir þessum atburðum mun gleggri skil í I. bindi Eskju, eiga hér vel við sem lokaorð. Hinn dauði hefur sinn dóm með sér. Við nútímamenn áfellumst ekki þessa ógæfusömu drengi. Kannski hefðu þeir við hliðhollar aðstæður allir orðið nýtir menn. En þeir urðu fórnarlömb grimmilegrar aldar, sem ekkert okkar mundi vilja lifa. Meinleg forlög sendu þá í þessa byggð til þess eins að þjást og deyja.
Leiði Eiríks Þorlákssonar á Mjóeyri við Eskifjörð
Efnið í þessa frásögn er fengið úr; Öldin átjánda, Eskja I. bindi, Þjóðsögum Jóns Árnasonar, Landnámið fyrir landnám - eftir Árna Óla, handriti Einþórs Stefánssonar sem hefur birst víða og þætti Þórhalls Þorvaldssonar af síðustu aftökunni á Austurlandi.
Flokkur: Landsins-saga | Facebook
Athugasemdir
Sæll Magnús, þetta er mögnuð saga sem allt of fáir kunna skil á, ein magnaðasta saga okkar austfirðinga. Það er gott að hún sé nú komin á stafrænt form.
S Kristján Ingimarsson, 22.3.2019 kl. 23:15
Sæll Kristján og takk fyrir innlitið. Já þetta er mögnuð saga sem gerist á vofegilegum tímum sem allt of lítið má finna um á netinu.
Þessa frásögn sauð ég saman úr "Öldinni", hans Jóns Helgasonar, frásögn Einars Braga rithöfundar frá Eskifirði í Eskju, sem einnig hefur birst í bók hans "Þá var öldin önnur" og svo má finna frásögn Einars Braga í bókunum Geymdar stundir sem Ármann Halldórsson gaf út um Austfirskt efni.
Einnig blandast þjóðsögur inn í þessa frásögn hér þessum pistli, því lítið var til um Sigurð Jónsson Mjófirðing annarsstaðar. Síðan saltaði ég sultinn með annálsbrotum sem ég fann í bók Árna Óla, Landnámið fyrir landnám, um hungursneyðar á Íslandi til forna.
Loka kaflinn um aftökudaginn er svo frásögn Einþórs Stefánssonar frá Mýrum en hann tók hann saman eftir munnmælum. Einar Bragi hafði ekki frásögn Einþórs með í sinni ítarlegu samantekt sem hann byggði á opinberum heimildum.
Hann getur þess þó að sennilega sé munnmælin, sem Einþór tók saman, trúverðleg hvað aftökudaginn varðar, því samkvæmt heimildum var danskt skip á Eskifirði þennan dag og ekki ólíklegt að áhöfnin hafi fylgst með atburðinum sem og aðrir.
Magnaðastar fannst mér samt lýsingarnar á hörmungunum í landinu þegar þessar náttúruhamfarir gengu yfir og ég hef ekki rekist á margar lýsingar samtímafólks af því hvernig þetta raunverulega var, flestar lýsingar koma af opinberum skjölum s.s. bréfi Jóns Sveinssonar sýslumanns sem hann skrifar á Djúpavogi.
En þó er til frásögn eftir manni sem kallaður var Rögnvaldur halti (Jónsson), sem hann fékk prest til að skrifa upp sögu sína. Þau handrit urðu síðan tvö og tíndist eitthvað úr þeim en annað handritið lenti til vesturheims og er til frásögn soðin saman úr þessum tveim handritum í Sópdyngju, bókum Braga og Jóhanns Sveinssona frá Flögu í Eyjafirði. Þar kemur fram hrikaleg lýsing á því hvað börn þurftu að þola.
Magnús Sigurðsson, 23.3.2019 kl. 09:38
Magnús þær verða betri og betri. Þú ættir að setja þær allar inn á E bók en þetta er mikill fróðleikur sem þú hefir safnað. Ég var einmitt að hugsa áður en ég las þetta þá ef rétt verður með spádóma að í vænd séu jarðskjálftar og gos víða um heim. Einhverjir biblíumenn sérstaklega í Bandaríkjum búa sig undir svona lagað. Þetta er í raun ekkert fleipur sérstaklega eftir þennan lestur og ætti að minna fólk að reyna að vera meir sjálfbjarga.Þakka Magnús.
PS já spáðu í að gera E Bók með smásögum.
Valdimar Samúelsson, 23.3.2019 kl. 13:18
Takk fyrir innlitið Valdimar. Mér hafði ekki dottið í hug þetta með eBókina.
Ég er svolítill sérvitringur þegar ég les bækur, á það til að festast í sömu bókinni og þá búin að lesa margar aðrar sem koma inn á sama efni áður en ég lýk nokkurri bók. Hef haft svolítið gaman að því að fikra mig niður Aldirnar hans Jóns Helgasonar á þennan hátt með þjóðsögur til hliðsjónar og annan fróðleik.
Hjartanlega sammála þér með það að fólk ætti að hafa hugann mikið meira við það að verða sjálfbjarga með mat og annað. Ágætt að byrja t.d. að prófa viku og síðan auka við tímann. Ef hamfarir á við þær sem gerðust fyrr á öldum kæmu upp í dag þá gætu vel liðið einhverjar vikur sem erfitt yrði að afla nauðþurfta.
Einnig er margt í náttúrunni sem gæti gagnast í neyð. Það þarf svo sem ekki neyð til, það er virkilega gaman að því að kynna sér á hverju er hægt að lifa úr nánustu náttúru, s.s. fjallagrös, berjamó svo ekki sé talað um alla þá flóru sem við köllum illgresi en voru kannski upphaflega matjurtir sem sáðu sér út úr garðinum.
Ég get vitnað um það að svoleiðis vísindi eru skemmtileg, bragðgóð og holl, er þá skemmst að minnast berjamósins.
Magnús Sigurðsson, 23.3.2019 kl. 15:53
Þakka Magnús. Já fáir nenna að fara í Berjamó lengur hvað þá fjallagrösin en allt var þetta nýtt þegar ég var strákur. kv V
Valdimar Samúelsson, 23.3.2019 kl. 16:16
Ja hérna, þetta er mikil saga, og það úr minni gömlu sveit. Ég var í sveit í Breiðdalnum frá 1950 til '53, á bæ sem hét Ormstaðir og líkaði þar vel.
Þegar ég kom í sveitina vorið 1953, eftir skólagöngu, heyrði ég að komið hafði nýr prestur að Heydölum fyrr um vorið, og að kviknað hafði í kirkjunni og hún laskast eitthvað. Ekki hugsaði ég meira um það þá,en mörgum árum seinna las ég um þennan atburð og að ekki hafi sannast hver framdi verknaðinn.
Bestu kveðjur til ykkar.
Jón Thorberg Friðþjófsson, 23.3.2019 kl. 17:00
Sæll Jón og takk fyrir innlitið. Ekki veit ég hvort eldur kom oftar en einu sinni upp í Heydalakirkju.
Samkvæmt gúggúl brann gamla kirkjan í Heydölum, sem byggð var 1856, til kaldra kola 17. júní 1982. Hún var afhelguð 13. júlí 1975 og tekin af fornminjaskrá nokkru síðar. Yngri kirkjan sem er steinsteypt var vígð 13. júlí 1975.
Það fóru sögur af þessum kirkjubruna og vildu sumar gera að því skóna að hinn landsfrægi Breiðdælingur Helgi Hóseasson hefði átt hlut að málum. En presturinn á Heydölum þá var sr Kristinn Hóseasson bróðir Helga. Sá hinn sami og þjónaði í Heydölum þegar þú varst á Ormsstöðum.
Helgi hafði var í heimsókn hjá bróður sínum þegar þetta gerðist en gekkst aldrei við kirkjubrunanum. En það má segja sem svo að það væri stílbrot á "mótmælanda Íslands" ef hann gekkst ekki við sínu andófi.
En Helgi Hóseasson var eins og kunnugt er landsfrægur fyrir baráttu sína við að fá sig afskírðan.
Magnús Sigurðsson, 23.3.2019 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.