Óupplýst morð við Hafnarnes

Þetta mátti lesa í Þjóðólfi 11. júlí 1878; Morðfréttir eystra. Um fardagaleytið fóru fjórir menn á, báti úr Fáskrúðsfirði til Djúpavogs að sækja veislukost ofl.; þeir tóku út vöruna og sneru 3 heimleiðis með bátnum en 1 varð eftir. Skömmu síðar kom inn á Djúpavog frönsk jakt og hafði með sér nefndan bát og nakin lík hinna þriggja manna, og höfðu þeir sýnst myrtir (kyrktir), og sést meiðsl á, þeim öllum. Allt annað sem í bátnum átti að vera, var horfið, er Frakkar skiluðu honum, höfðu þeir sagt, að einhver dugga hefði verið að leggja frá bátnum, er þeir sáu fyrst til hans, en ekki höfðu þeir getað séð nafn á því skipinu fyrir fokku sem hékk fyrir, og ekki kannast við, að það hefði verið franskt. Kaupmaður Weywadt á Berufirði hafði þegar sent orð hinu franska herskipi, er lá þar eystra, og hafði Þá þegar lagt af stað til að leita morðingjanna.

Viku seinna var þetta í Ísafold; Morðsagan af Austfjörðum, er hér hefur gengið staflaus um hríð og komist í Þjóðólf, er eintómur tilbúningur, eftir því sem frést hefur með öðru herskipinu frakkneska (Beaumanoir), sem nú er nýkomið að austan, enda var saga þessi í sjálfu sér næsta ósennileg (morðingjarnir t. d. Látnir skilja líkin nakin ertir í bátnum í stað þess að kasta þeim í sjóinn o.s.f.v.). Sannleikurinn er sá, að bátur með þrem mönnum úr Fáskrúðsfirði hefur farist í kaupstaðarferð til Eskifjarðar (ekki Berufjarðar), og fundu Frakkar á herskipinu bátinn með mönnunum dauðum rekinn við eyna Skrúðinn, og færðu þeir líkin, sem voru alklædd og ómeidd að öllu leyti að vottorði læknisins á skipinu, til hreppstjórans á Fáskrúðsfirði.

Hafnarnes

Hafnarnes um 1952, Andey og Skrúður fyrir fjarðarmynni (mynd;Þjóðminjasafnið - Guðni Þórðarson)

Við minni Fáskrúðsfjarðar að sunnanverðu er Hafnarnes, þar var þorp langt fram eftir 20. öldinni. Mestur mun fólksfjöldin hafa verið árið 1907 eða 105 manns. Hafnarnes byggðist um 1850 og er í landi Gvendarness sem var bær á milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Þetta þorp byggði afkomu sína á sjósókn og sjálfsþurftarbúskap. Stutt var að róa til fiskjar á fengsæl mið í álunum á milli Andeyjar og Skrúðs. Í Hafnarnes komu sjómenn víða að af landinu, jafnvel frá Færeyjum til að róa þaðan yfir sumartímann, aflinn var saltaður. Innan við tangann neðst á nesinu var höfnin og hefur þar verið steinsteyptur hafnarkantur sem nú er lítið eftir af annað en einstaka brot.

Fyrstu íbúarnir á Hafnarnesi vor Guðmundur Einarsson og Þuríður Einarsdóttir. Þau komu frá Gvendarnesi og Vík. Guðmundur var annálaður sjósóknari á austfjörðum og hraustmenni. Afkomendur Guðmundar og Þuríðar settust margir að á Hafnarnesi og byggðin óx hratt. Árið 1918 voru þar 12 íbúðarhús, og 1939 var Franski spítalinn, sem byggður var inn á Fáskrúðsfirði fyrir franska sjómenn árið 1900, rifin og fluttur út í Hafnarnes.

Þar breyttist hlutverk Franska spítalans í það að verða eitt fyrsta fjölbýlishúsið á Austurlandi, auk þess sem hann var notaður sem skóli. Þegar leið á 20. öldina tók byggðinni að hnigna og var svo komið árið 1973 að engin bjó lengur í Hafnarnesi. Stærsta kennileiti byggðarinnar, Franski spítalinn, var svo fluttur þaðan aftur inn á Fáskrúðsfjörð 2010. Þar þjónar hann nú sem Fosshótel og safn um sögu franskra sjómanna við Íslandsstrendur.

Á fyrstu áratugum byggðarinnar var mikið um að franskar fiskiskútur væru viðloðandi Fáskrúðsfjörð og höfðu þær bækistöðvar inn við þorpið Búðir í botni Fáskrúðsfjarðar þar sem nú kallast í daglegu tali Fáskrúðsfjörður. Þó svo að Fransmenn hafi yfirleitt komið vel fram við heimamenn gat kastast í kekki, og ekki er víst að Fransmenn hafi alltaf komið eins vel fram við Hafnarnesmenn eins og fólkið inn á Búðum þar sem þeir voru háðari því að fá þjónustu.

Minjavernd Franski spítalinn fra.pdf - Adobe Reader

Franskir sjómenn á Fáskrúðsfirði (mynd; Minjavernd)

Eitt sinn hafði Dugga legið við ból á Árnagerðisbótinni og ekki gengið að innheimta hafnartoll. Fór Þorsteinn hreppstjóri í Höfðahúsum ásamt Guðmundi í Hafnarnesi og hásetum hans um borð. Þeir voru snarráðir, ráku frönsku hásetana og lokuðu ofaní lest. Fóru svo með skipstjórann og stýrimanninn ofaní káetu og kröfðu þá um hafnargjöldin. Það stóð ekki á því að þau væru greidd þegar svo var komið. Það sama skipti fundu þeir í lest skútunnar mann, sem horfið hafði úr landi nokkru áður, bundinn og þjakaðan, en ómeiddan.

Annað sinn var Guðmundur ásamt áhöfn sinni að vitja um línu út í álunum, þar sem Fransmenn voru komnir að með færi sín flækt í lóðin. Guðmundur bað þá að gefa eftir og láta laus lóðin, en því sinntu þeir engu. Hann lét þá áhöfn sína róa meðfram duggunni og greip færin með annarri hendinni en skar á þau með hinni. Hafði til þess franska sleddu. Frönsku sjómennirnir urðu æfir og eltu bát þeirra Hafnarnesmanna en Guðmundur stýrði á grynningar og skildi þar með þeim. Þetta sýnir vel hversu óragur og skjótur til ákvarðana Guðmundur var.

Það voru Hafnarnes menn sem voru fréttaefni stórblaðanna í höfuðstaðnum þessa júlídaga 1878 þar sem metingur var um það hvað væri satt og rétt varðandi morðin sem frétts hafði af frá Austfjörðum. Það sannasta má sennilega finna í sagnaþáttum Vigfúsar Kristjánssonar en hann hefur gert rúmlega hundrað ára sögu Hafnarnesbyggðar hvað gleggst skil á prenti. Kristinn faðir Vigfúsar var sonur Guðmundar hins hrausta frumbyggja í Hafnarnesi og var 16 ára þegar atburðir þessir gerðust er rötuðu svona misvísandi í fréttir sunnanblaðanna.

Samkvæmt sagnaþáttum Vigfúsar er hið rétta að í maí 1878 fóru tveir bátar með mönnum úr Hafnarnesi í verslunarferð til Eskifjarðar. Guðmundur var formaður í öðrum sem á voru fjórir. Maður sem hét Friðrik Finnbogason formaður á hinum bátnum, sem á voru þrír menn. Fljótlega eftir að bátarnir  yfirgáfu Hafnarnes sigldu þeir fram hjá skútu, sem Friðrik vildi fara um borð í, en Guðmundur ekki í það skipti, og var talað um að heimsækja skútuna frekar í bakaleiðinni.

Þeir sinntu kaupstaðarerindum sínum á Eskifirði og fengu sér brennivín að þeim loknum. Vildi Friðrik að þeir færu heim strax um kvöldið. Guðmundur vildi láta heimferðin bíða morguns. Þegar bátur Guðmundar kom í Hafnarnesið daginn eftir voru Friðrik og félagar ókomnir. Farið var að leita og fannst báturinn á reki milli Andeyjar og Skrúðs og mennirnir í honum látnir. Öllu hafði verið stolið úr bátnum ekki skilin eftir ein laus spýta. Mennirnir voru bundnir við þófturnar, illa útleiknir, naktir, stungnir og kyrktir. Giskað var á að þeir hefðu ætlað um borð í skútuna á heimleiðinni, en hún var horfin af þeim miðum sem hún hafði verið daginn áður.

Í kirkjubókum Kolfreyjustaðar er sagt frá því að þessir menn hafi verið jarðsungnir þann 25. maí 1878; „Friðrik Finnbogason, 33 ára, frá Garðsá í Hafnarnesi, Þórður Einarsson, 22 ára, frá Gvendarnesi, Oddur Jónsson, 27 ára, sama staðar. Þeir fundust öreindir í báti milli Andeyjar og Skrúðs.“ Þar sem Vigfús Kristinsson getur þessa atburðar í saganaþáttum sínum um Hafnarnes telur hann fullvíst að mennirnir hafi verið myrtir og færir rök fyrir því sem ekki verða uppi höfð hér.

 

Ps. Hafnarnes hefur lengi heillað ferðamenn og má sjá þá þar með myndavélar á lofti árið um kring. Það er að verða fátt sem minnir á fyrri frægð eftir að helsta kennileitið Franski spítalinn var fluttur inn á Fáskrúðsfjörð. Á þessari síðu hefur áður birst mynda blogg um Hafnarnes, sjá hér. Einnig læt ég fljóta með nokkrar myndir hér fyrir neðan.

 

Sólarupprás

Nýi og gamli vitinn í Hafnarnesi við sólarupprás

 

Skrúður

 Skrúður

 

Kolfreyjustaður

 Kirkjan á Kolfreyjustað, Hafnarnes handan fjarðar

 

Nýbær

 Frá Hafnarnesi 2009

 

Franski spítalinn austur

 Franski spítalinn á Hafnarnesi 2009

 

FossEast-33

 Franski spítalinn orðinn að Fosshóteli á Fáskrúðsfirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Skemmtileg lesning Magnús og ótrúleg morð saga. 

Valdimar Samúelsson, 19.3.2019 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband