Órækja og Lofthæna

Ímyndið ykkur bara að heita svona nöfnum! Lofthæna var af sumum notuð í nafnalaga umræðunni sem rök fyrir stofnun Mannanafnanefndar til að koma vitinu fyrir fólk þegar það allsgáð velur afleitt nafn. En nafnið Órækja hefur ekki verið notað á Íslandi í mannaminnum og er ekki á meðal leyfilegra nafna á mannanafnaskrá.

Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands eru í Landnámu minnst á tvær konur sem hétu Lofthæna, en önnur var dótturdóttir hinnar. Á islendingabók.is er að finna eina konu með þessu nafni. Hún hét Lofthæna Guðmundsdóttir (1842 - 1912) og bjó í Skaftafellssýslu. Karlmannsnafnið Órækja þekkist allt frá því á Sturlungaöld. Nafnið hefur lítið verið notað. Einum dreng í Vestur-Skaftafellssýslu var gefið það 1630 og öðrum 1685 og einn karl í Vestmannaeyjum bar nafnið 1801. Síðan virðist það ekki hafa verið notað.

Órækja og Lofthæna hafa semsagt einhvertíma verið gild íslensk nöfn og voru í upphafi ekki ósæmileg né niðurlægjandi. Nafnið Lofthæna var betri hliðin á Geirríði, en þessi tvö nöfn voru höfð um sömu seiðkonuna samkvæmt Fornaldarsögum Norðurlanda. Lofthæna í Vík var sögð „kvenna fríðust“ og vel menntuð samkvæmt tíðaranda þess tíma, en í gervi Geirríðar Gandvíkurekkju var henni allt öðruvísi farið.

Þá var hún „eigi hærri en sjö vetra stúlkur, en svo digur að Grímur hugði að hann mundi eigi geta feðmt hana. Hún var langleit og harðleit, bjúgnefjuð og baröxluð, svartleit og svipilkinnuð, fúlleit og framsnoðinn. Svört var hún bæði á hár og hörund. Hún var í skörpum skinnstakki. Hann tók eigi lengra en á þjóhnappa henni á bakið. Harla ókyssileg þótti hún vera því hordingull hékk ofan fyrir hvoftana á henni.“ (Gríms saga loðinkinna. Fornaldarsögur II:191) Einna líkust leðurklæddri poppstjörnu með glosssmurðar varir til að gera sig kyssilegri ef hún er færð til tíðaranda dagsins í dag. Nafnið Geirríður er á mannanafnaskrá og samkvæmt islendingabók.is hefur nafnið verið notað í gegnum tíðina.

Það virðist vera að nafnið Órækja hafi alltaf haft á sér neikvæða merkingu ef eitthvað er að marka Vísindavef Háskóla Íslands. „Nafnorðið órækja merkir sóði, mannskræfa, hirðulaus maður og sögnin er notuð í merkingunni vanrækja, það er sá sem ekki rækir eitthvað.“

Á Sturlungaöld voru mörg karlmannsnöfn algeng sem ekki þættu við hæfi í dag s.s. Órækja, Svertingi, Svarthöfði og Svartur. Órækja var sonur Snorra Sturlusonar og varla hefur honum upphaflega verið gefið nafnið til minnkunar. En sennilega hefur Órækja komið þvílíku óorði á nafn sitt að fáum hefur verið það gefið eftir hans daga. Órækja var höfðingi sem hélt um sig óaldaflokk í skjóli valda föður síns og fór um rænandi og ruplandi um stóran hluta landsins. Það má segja að Snorri sjálfur hafi að lokum orðið að gjalda fyrir son sinn. En þeir feðgarnir Sturla og Sighvatur bróðir Snorra tóku yfir veldi hans og var það ekki síst til að koma böndum á Órækju. Í Sturlungu segir frá því þegar Sturla Sighvatsson fór með þennan frænda sinn á fjöll og skólaði hann til, lét stinga í honum augun og gelda.

„Sturla reið nú á brott með Órækju upp til jökla og Svertingur með honum einn hans manna. Þeir riðu upp á Arnarvatnsheiði þar til þeir komu á Hellisfitjar. Þar fara þeir í hellinn Surt og upp á vígið. Lögðu þeir þá hendur á Órækju og kvaddi Sturla til Þorstein langabein að meiða hann. Þeir skorðuðu af spjótskaft og gerðu af hæl. Bað Sturla hann þar að ljósta út augun en Þorsteinn lést ekki við það kunna. Var þá tekin knífur og vafiður og ætlað af meir en þverfingur. Órækja kallaði á Þorlák biskup sér til hjálpar. Hann söng og í meiðslunum bænina Sancta María, mater domini nostri Jesu Christi. Þorsteinn stakk í augun knífinum upp að vafinu. En er því var lokið bað Sturla hann að minnast Arnbjargar og gelda hann. Tók hann þá burt annað eistað. Eftir það skipaði Sturla menn til að geyma hans en Svertingur var þar hjá Órækju.“ (Sturlunga saga bls 381 I bindi) Þarna er Arnbjörg kona Órækju nefnd til sögunnar þegar pyntingarnar standa sem hæst, en hún var systir Kolbeins unga Arnórssonar. Það var svo Kolbeinn ungi mágur Órækju sem sigraði og drap þá Sturlunga feðga, Sighvat og Sturlu, í Örlygsstaðabardaga.

Það má segja að nafnið Órækja hafi álíka óorð á sér og Lofthæna. Þó nafnið Sturla sé ekkert sérstaklega algengt þá hefur það lifað með reisn til dagsins í dag, þó ýmis miður falleg máltæki séu við það tengd s.s. sturlun - eða þegar sagt er „ertu alveg orðin sturlaður?“ Nafnið Geirríður sem var haft um verri hliðin á fornaldar seiðkonunni lifir einnig enn góðu lífi á mannanafnaskrá þó svo að Lofthæna, sú hlið sem átti að vera betri, hafi verið afskráð. Og kannski hefur sá sonur Snorra Sturlusonar sem var gefið nafnið Órækja einfaldlega verið óþolandi vindhani sem eyðilagði orðstír nafns síns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dæmi um leyfileg íslensk nöfn, samkvæmt Mannanafnanefnd: cool

Saxi Melrakki Snæringsson, Jeremías Engill Myrkvason, Aríel Þiðrandi Stormsson, Ljúfur Knörr Gjúkason og Þyrnir Fenrisson.

Þorsteinn Briem, 10.7.2019 kl. 11:49

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hún heitir Venus Þrá Hanna,
og hana ætti barasta að banna,
hún er of sexí,
henni vil rex í,
og öll hennar innstu lög kanna.

Þorsteinn Briem, 10.7.2019 kl. 11:51

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Steini og takk fyrir ábendingarnar og vísuna. Samkvæmt nafnaskrá mannanafnanefndar geta Eilíf, Þrá, Hugljúf, Gola, Ljúfur og Stormur vel gengið sem íslensk nöfn. En hvort að þau fengjust alltaf samþykkt með hvort öðru veit ég ekki.

Magnús Sigurðsson, 10.7.2019 kl. 12:21

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég fæ ekki séð að hægt sé að banna til að mynda nafnið Venus Þrá, þar sem bæði nöfnin eru á mannanafnaskrá. cool

Einnig nafnið Rex og nú mega bæði karlar og konur heita Rex (kóngur), rétt eins og Sigríður, og nú heitir karlmaður því nafni, Sigríður Hlynur.

Þorsteinn Briem, 10.7.2019 kl. 13:34

5 identicon

 Er "Negri" ekki ágætis nafn? Það væri jafngilt bæði fyrir karla og konur.

Pólska kvikmyndastjarnan, Pola Negri, sló í gegn á fjórða áratug 20. aldar.                       POLA NEGRI śpiewa o miłości / sings about love - Ich spür in mir               

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 10.7.2019 kl. 14:06

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nafnið Negri er ekki á mannanafnaskrá en samkvæmt V. kafla laga um mannanöfn má útlendingur sem verður íslenskur ríkisborgari halda því nafni.

Lög um mannanöfn nr. 45/1996

Þorsteinn Briem, 10.7.2019 kl. 14:19

7 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Veit ekki hvert þetta þjóðfélag er að fara!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 10.7.2019 kl. 16:15

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er spurning hvort hægt er að setja skorður við samsetningu nafna þó þau séu á nafnaskrá, þá af þeim sem skírir eða skráir. Mörg nöfn er góð og gild jafnt stök sem samsett en geta í sumum tilfellum hljómað afleitlega þegar þau eru með öðru nafni.

Ég er ekki viss um að negri hljómi jákvætt sem íslenskt nafn þó svo að það hljómi vel á öðrum tungumálum, en sjálfsagt uppfyllir það sömu reglu málfræðilega og t.d. Andri. Sennilega yrði svartur fyrr samþykkt sem íslenskt nafn.

Dæmin um Órækju og Lofthænu eru um nöfn sem ekki ganga í dag þó svo að ekkert hafi verið við þau að athuga til forna. Sem dæma má t.d. taka að Þóra Hróaldsdóttir, móðir Ásgerðar Bjarnadóttir konu Egils Skallagrímssonar,hafði viðurnefnið "hlaðönd" og ólíklegt að það hafi verið í niðrandi merkingu.

Sjálfur er ég á því að íslenskir foreldrar eigi að hafa metnað fyrir íslenskum nöfnum á börn sín. En jafnframt að gæta þess að nöfnin fylgi tíðarandanum svo þau verði ekki þeim sem þau ber til trafala og þá getur verið gott að hafa mannanafnanefnd til ráðgjafar. Órækja og Lofthæna hljóma t.d. ekki vel sem nöfn nú til dags, rétt eins og vindhani.

Magnús Sigurðsson, 10.7.2019 kl. 19:04

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ef mannanafnanefnd væri til ráðgjafar væri það svo sem í lagi. En svo er ekki.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.7.2019 kl. 19:47

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sigurður segir hér að ofan "Veit ekki hvert þetta þjóðfélag er að fara!!!"

Þorsteinn bendir á að "Ef mannanafnanefnd væri til ráðgjafar væri það svo sem í lagi. En svo er ekki."

Þetta þjóðfélag er byggt á mannanna lögum rétt eins og var á Sturlungaöld hvort sem okkur finnst þau vera sanngjörn eða ekki, það eru til lög sem eru meiri ólög en lögin um mannanöfn.

Magnús Sigurðsson, 10.7.2019 kl. 20:04

11 identicon

Þetta minnir mig á Íslandssögutímana í MR, þar sem Sveinn Skorri Höskuldsson var að segja okkur frá hinum ýmsu viðburðum og persónum sögunnar. Einhverju sinni talaði hann um Snorra Sturluson og son hans, Órækju, og sagði þá við þá bekkjarsystur mína, sem hann var að spyrja út úr um efnið: "Ef þér eignist einhvern tíma myndarlegan son, þá skuluð þér láta hann heita Órækju." Þegar ég sagði frá þessu heima hjá mér, þá sagði móðir mín: "Af hverju ekki að eignast strák og stelpu og láta þau heita Humar og Rækju?!" - Öðru sinni var Sveinn Skorri að segja frá kristnitökunni á Þingvöllum og spyrja aðra bekkjarsystur mína um gíslana, sem Noregskonungur tók til fanga í því sambandi. Þegar kom að Svertingi Runólfssyni, þá sagði Sveinn Skorri: "Ef þér eignist einhvern tíma myndarlegan son, þá skuluð þér láta hann heita Sverting." Ekki veit ég nú, hvort nokkrum manni dytti í hug að láta stráka heita þessum nöfnum í dag. En það er raun af því, þegar fólk er að láta börnin sín heita alls kyns ónefnum, sem þau þurfa að líða undan alla sína ævi. Þess vegna þarf að vera hér á landi mannanafnanefnd, sem getur stoppað slíkt, ef með þarf. Ég vona líka, að hún verði látin halda sér, en ekki leggja hana af, eins og einhverjar hugmyndir eru sífellt að koma fram.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 11.7.2019 kl. 10:30

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Guðbjörg, kannski hefur Sveinn Skorri lagt aðra merkingu í þessi nöfn en má finna nú á dögum.

Allavega hafa þessi nöfn, s.s. Svertingi eða Svertingur og Órækja, verið gefin sem eignnöfn sem uppnefni því nóg virðist hafa verið til af uppnefnum sem lýstu manninum á einhvern hátt eins og kemur t.d. fram þar sem sagt er frá pyntingum á Órækju sem Þorsteinn "langbein" framkvæmdi.

Magnús Sigurðsson, 11.7.2019 kl. 18:13

13 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Í athugasemdinni hér að ofan stendur ",,,sem eignnöfn sem uppnefni,,,," þarna vantar á milli "en ekki" -og verður þá ",,,sem eignnöfn en ekki sem uppnefni,,,". Þetta leiðréttist hér með.

Magnús Sigurðsson, 12.7.2019 kl. 09:50

14 identicon

Já, það má augljóst vera,og þannig held ég, að flestir skilji þessi nöfn, eins og þau koma fyrir í sögunni, enda standa þau ein og sér eins og hver önnur eiginnöfn. Snorri lét son sinn heita Órækju, og ég held, að mörgum hafi fundist það furðulegt, þar sem hann virðist yfirleitt hafa verið krítískur á nöfn, ef miða á við það, sem hann skrifar í Eddu sinni. Svertingur hefur líka greinilega verið látinn heita það, hvernig sem hann hefur nú verið útlits. Ég efast samt um, að nokkrum heilvita manni dytti í hug í dag að skíra börn slíkum nöfnum, - og þó veit maður aldrei. Áðan var ég að líta á lista í Jótlandspóstinum og Aftenposten yfir vinsælustu skírnarnöfnin í Danmörku og Noregi, og þar eru alls konar erlend nöfn og furðuleg nöfn efst á listanum hjá báðum kynjum. Ólafur er númer 33 á listanum yfir vinsælustu skírnarnöfn drengja í Noregi. Haraldur er þar númer 40. Sonju og Mörtu er ekki að finna á listanum yfir kvenmannsnöfnin. Einhver ensk nöfn er að finna bæði á dönsku og norsku listunum. Á danska listanum er Margrét með neðstu nöfnunum og Friðrik er þar númer 33 yfir drengjanöfn. Meira að segja Mary er númer 30 á kvennanafnalistanum. Þar er líka að vinna alls konar ónefni hreinlega, sem spurning er, hvaðan eru komin, eða hvort þau hafa verið skálduð beinlínis. Svo að á því sést, að það er alls ekki á vísan að róa í þessum efnum, hvort fólk kærir sig um að láta börn sín heita einhverjum algengum, almennilegum nöfnum. Þessi Lofthæna, sem þú minnist á í skrifum þínum, er hræðilegt nafn, og ég skil bara ekki það fólk, sem dettur í hug að láta börn sín heita svona nöfnum. Nóg eru nú tilefnin til eineltis hér í heimi, þótt þau þurfi nú ekki að börn þurfi nú ekki líða fyrir nöfnin, sem þau þurfa að bera um sína ævi. Ég minnist þess t.d., að ein frænka mín vildi láta dóttur sína heita Friðsemd eftir langömmu sinni, en það fékkst ekki samþykkt, þótt væri hægt að finna nafnið í gömlum manntölum og kirkjubókum, nema sem annað nafn, ekki sem fyrsta nafn, og við það sat. Þó er þetta ekki versta nafnið, sem ég hef séð um dagana, og vel skiljanlegt. Þetta sýnir samt, að það er nauðsynlegt að hafa einhverja til að leiðbeina sér um val á nöfnum.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 12.7.2019 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband