29.1.2020 | 06:16
Smalinn - 2. hluti
Það er stundum svo að uppákomurnar eru það lygilegar í reynsluheimi fólks, að ekki er hægt að gera þeim skil nema með þjóðsögu. Enda eru flestir málsmetandi menn það grandvarir að láta ekki frá sér fara hvaða rugl sem er, hvað þá þeir sem eiga að teljast vel upplýstir. En stundum er atburðarásin svo viðkvæm að hvergi má á hana opinberlega minnast og geymist hún þá oft sem munnmæli eða kviksögur og kemst síðar á prent, sem þjóðsaga þegar nægilegur tími er liðinn.
Svo virðist hafa verið hvað smaladrenginn í Kverkártungu á Langanesströnd varðar, þar taldi Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari sig ekki með nokkru móti getað minnast á hans örlög þó svo að um hálf öld væri liðin frá þeim atburðum þar til honum var trúað fyrir þeim. Nú rúmum 160 árum seinna, og um 100 árum eftir að Sigfús taldi ekki hægt að setja í þjóðsögu þá atburði, sem taldir eru hafa orsakað reimleikana í Kverkártungu, þarf ekki annað en að gúggla þá á netinu þá er þessu leyndarmáli gerð skil á vef Langanesstrandar.
Tungubrestur er, að öllum öðrum ólöstuðum, þekktasti draugur sveitarinnar og hefur sennilega lifað hvað lengst allra í sveitinni. Fjöldi sveitunga hans kannast vel við kauða, sem kvað sér fyrst hljóðs um miðja 19. öldina. Uppruni stráksins er reyndar eitthvað á reiki en munnmælasögur í sveitinni segja m.a. að Tungubrestur hafi verið vinnumaður eða niðursetningur hjá Páli Pálssyni bókbindara og bónda í Kverkártungu, þeim sem hann hefur jafnan verið fyrst kenndur við, og hafi hann hlotið það illa meðferð hjá honum að hún hafi dregið hann til dauða á einhvern hátt. Hann hafi eftir það ofsótt Pál og fylgt honum í Kverkártungu. Páll Pálsson (1818-1873) var léttadrengur í Geitagerði, Valþjófstaðarsókn, N-Múl. 1835. Vinnumaður á Ketilsstöðum, Vallanessókn, S-Múl. 1840 og 1842, var þar hjá foreldrum fyrri hluta árs 1843. Þegar hann synjaði fyrir barn sem honum var kennt í árslok 1845, Helga Pálsson var hann talinn vera staddur í Papey. Flutti 1848 úr Vallanessókn að Áslaugarstöðum í Vopnafirði. Bókbindari á Þorvaldsstöðum, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1850. Húsmaður og bókbindari á Breiðumýri í Vopnafirði 1855. Bóndi í Kverkártungu á Langanesströnd, N-Múl. um 1859-63, annars í vistum og húsmennsku í Vopnafirði og á Langanesströnd lengst af á árunum um 1850-73. Strákurinn Tungubrestur virðist hafa kunnað vel við sig í Kverkártungu, því eftir að Páll flúði þaðan fylgdi Tungubrestur öðrum ábúendum Kverkártungu og er síðan kenndur við hana. Tungubrestur hefur verið mesta meinleysisgrey því engar sagnir eru til um það að hann hafi gert þeim mein sem hann fylgdi eða þeim sem hans hafa orðið varir, þ.e.a.s. eftir að hann hætti að angra Pál sjálfan. Þess má geta að enginn hefur séð Tungubrest því hann gerir einungis vart við sig með hljóðum, einhvers konar smellum, höggum eða brestum og þaðan er nafnið komið. Sumir hafa lýst hljóðinu þannig að það sé eins og þegar dropar falla í stálvask.
Kverkártunga fór í eyði árið 1937 og hefur ekki verið búið þar síðan. Í I bindi bókarinnar Sveitir og Jarðir í Múlaþingi, sem kom út 1974 var þetta leyndarmál eitthvað farið að hvissast og komst á prent, sem virðist hafa fram að því lifað í munnmælum á Langanesströnd. Þar má finna þetta í kaflanum um Kverkártungu; Á síðari hluta 19. aldar bjuggu í Kverkártungu Stefán Árnason frá Hjámárströnd í Loðmundarfirði og Ingveldur Sigurðardóttir frá Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá. Sonur þeirra var Magnús skáld (Örn Arnarson) fæddur í Kverkártungu 1884. Skömmu áður en þau Stefán og Ingveldur fluttust í Kverkártungu, bjó þar Páll Pálsson bókbindari. Kom þá upp draugurinn Tungubrestur (sjá sagnir Magnúsar Stefánssonar í Gráskinnu meiri, heimildaskrá II,38). Grafkuml unglings fannst í svonefndum Snjóbotnum skammt frá túni 1920, og herma munnmæli, að þar væri grafinn sá er uppvaktist.
Á vef Langanesstrandar kemur fram að Tungu-Brestur hafi verið vinnumaður eða niðursetningur hjá Páli Pálssyni í Kverkártungu. Einnig að hann hafi síðar fylgt öðrum ábúendum Kverkártungu, jafnframt að engin hafi séð hann og hann gerir einungis vart við sig með hljóðum, einhvers konar smellum, höggum eða brestum, þaðan sé nafnið komið.
Í tímaritinu Súlur 3. árg. er frásögn eftir Hólmstein Helgason, þar sem hann segir frá Tungu-Bresti. Foreldrar Hólmsteins bjuggu í Kverkártungu árin 1905-1909, hann var þá unglingur. Frásögn Hólmsteins styðst að flestu leiti við þjóðsöguna en er merkileg fyrir þær sakir að hann segir frá því hvernig hann varð var við hljóðin í Bresti og hvernig hann fylgdi fjölskyldu meðlimum. Hann segir að Tungu-Brestur hafi fylgt sér í a.m.k. í tvo áratugi eftir að hann flutti úr Kverkártungu og síðast hafi hann orðið var við Brest árið 1961 þegar föðurbróðir hans heimsótti hann á Raufarhöfn.
Einnig segir Hólmsteinn frá því að hann hafi séð Tungu-Brest í draumsýn þegar hann kom til hans í svefnmóki í Kverkártungu-baðstofuna, og lýsir honum sem smávöxnum óttaslegnum dreng á að giska 10-12 ára, klæddum lörfum. Drengurinn hafi barið í kringum um sig með brotnu hrífuskafti og hafi verið berhöfðaður. Í frásögn Hólmsteins vitnar hann einnig í Jóhannes Jónsson, sem kallaður var Drauma-Jói.
Um Jóhannes þennan skrifaði dr. Ágúst H Bjarnason bókina Drauma-Jói, sem út kom 1915. Ágúst var skipaður prófessor í heimspeki, við Háskóla Íslands árið 1911, hann var rektor Háskóla Íslands 1918 og 1928. Ágúst var frumkvöðull í kennslu í sálfræði og ritun bóka um sálfræðileg efni á Íslandi. Í umsögn um bók sína er, á Wikipadia, hann sagður segja þetta;
Drauma-Jói var einkennilegur maður. Það var hægt að spyrja hann sofandi og þá sagði hann hluti sem áttu að vera öllum huldir. Hann ljóstraði oft upp málum sem áttu ekki að komast fyrir almenning. Hann vildi meina að draugar væru miklar víðara hugtak en menn töldu. Ég varð mér úti um bókina "Drauma-Jói" en þar gerir Ágúst skil kynnum sínum af Jóa í gegnum vísindalega úttekt á fjar-skyggni Jóhannesar í draumi, og kemst að þeirri niðurstöðu að hún sé fölskvalaus.
Bókin er engin skemmtilesning heldu fræðileg úttekt á sögum, sem til voru um Jóhannes. Þegar Ágúst gerði svefn rannsókn á Jóhannesi þá mistókst hún að mestu, enda var Jói á því að draumagáfan (sem hann gerði reyndar ekki mikið úr) hafi verið farin frá honum þegar rannsóknin var gerð. Einnig var Ágústi bent á af þeim sem helst þekktu til Jóhannesar að hann hafi séð fyrir gestakomur, fylgjur og svipi. Ágúst segir Drauma-Jóa neita þessu að mestu nema hvað varaði einstaka mann, þetta hafi þá verið meira í gamni sagt.
Í bókinni kemur berlega fram afstaða höfundar til drauga og er ekki nema u.þ.b. ein síða í allri bókinni, af 224, þar sem Ágúst fjallar um drauga-skyggni Jóa og kemst þar að þeirri niðurstöðu að Jóa hafi mistekist að segja frá mannshvörfum í draumi vegna þess að hann hafi verið líkhræddur. Þar segir hann að endingu: Jói sagði mér frá Tungu-Bresti og annað er fyrir hann hafði borið í vöku, en allt var það svo ómerkilegt, að það er ekki í frásögur færandi. Jói virðist ekki hafa neina skyggni-gáfu til að bera í vöku.
Tildrög þess að Drauma-Jói (Jóhannes) sá Tungu-Brest, segir Hólmsteinn í grein sinni í Súlum, vera þau að hann hafði farið í smölun inn af Kverkártungu ári eftir að Hólmsteinn og hans fjölskylda fluttu úr Kverkártungu. Jóhannes hafði hugsað sér að fá gistingu í Kverkártungu um kvöldið, en þegar hann kom þangað voru nýju ábúendurnir ekki heima. Þegar hann var að snúast á hlaðinu eftir að hafa bankað árangurslaust á dyr og glugga sá hann í tunglskyninu dreng, sem skálmaði viðstöðulaust þvert yfir hlaðið og hvarf fyrir fjárhús austur af bæjarhúsunum.
Þessum dreng lýsti Jóhannes þannig, að hann hafi verið fremur smár vexti, svarað til 9-11 ára aldurs, í mórauðri brók, prjónaðri, girtri niður í sokkagarma, sem signir voru niður fótleggina og í leðurskóræflum. Að ofanverðu í dökkleitri, stuttri treyju með bót á olnboga og barmi úr mórauðu prjóni og berhöfðaður. Sýndist honum hárið og fötin vera blaut. Jóhannes sá strax að ekki var mennskur maður á ferð, heldur sjálfsagt Tungu-Brestur, sem hann hafði heyrt um getið. Þó svo Jóhannes hræddist ekki drauga, enda vanur að sjá það sem aðrir sáu ekki, þá gekk hann rúmleg klukkustundar leið niður í Miðfjarðarnessel, kom þangað löngu eftir að allir voru sofnaðir, vakti upp og fékk gistingu.
Engar upplýsingar hef ég rekist á hver smalinn í Kverkártungu var, en nöturleg voru hans örlög. Í sóknarmanntölum Þjóðskjalasafns Íslands fyrir árið 1860 er Zakarías Eiríksson skráður vinnumaður í Kverkártungu hjá þeim Páli Pálssyni þá 42 ára og Helgu Friðfinnsdóttir þá 21 árs. Þar er einnig skráð Hólmfríður dóttir þeirra hjóna þá 3 ára. Aldur Zakaríasar kemur ekki fram í sóknarmanntalinu og hans er aðeins getið í þetta eina sinn í sóknarmanntölum Skeggjastaðasóknar, seint um haustið hefjast reimleikar í Kverkártungu.
Páll Pálsson virðist hafa vera sá eini sem aldrei bar því við að útskýra af hverju reimleikarnir stöfuðu, ef marka má þjóðsöguna. Ef það var vegna þess að hann vissi upp á sig það sem munnmælin ætla honum, þá voru örlög Páls enn nöturlegri fyrir þær sakir að hann hafði varið kröftum ævi sinnar í að fá réttlætinu fullnægt varðandi bróður sinn sem hvarf þegar hann var smali í Öxnadal. Það að sitja að endingu uppi með það að þurfa að urða eigin smala í túnjaðrinum eftir illa meðferð er ein og sér næg ástæða hjartaáfalls. (framhald)
Flokkur: Landsins-saga | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.