Góa

er fimmti mánuður vetrar gamla norræna tímatalsins og hefst á sunnudegi í átjándu viku vetrar, eða 18. til 24. febrúar. Fyrsti dagur góu er konudagur og var dagur húsfreyjunnar eins og fyrsti dagur þorra var dagur húsbóndans. Konudagur er þekktur frá miðri 19. öld. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst um miðja 20. öld. Síðasti dagur góu nefnist góuþræll en þá tekur einmánuður við.

Orðmyndin góa virðist ekki notuð fyrr en í lok 17. aldar. Áður var notuð kvenkynsmyndin gói (beygist eins og elli) allt frá því í fornu máli. Gömul saga, sem lesa má um í fyrsta kafla Orkneyingasögu, segir frá Fornjóti konungi í landi því er kallað er Finnland og Kvenland. Hann átti soninn Þorra sem aftur átti dótturina Gói og tvo syni, Nór og Gór. Þorri var mikill blótmaður og hélt á miðjum vetri ár hvert blót sem kallaðist þorrablót. Það bar til tíðinda á einu slíku blóti að Gói hvarf og fannst ekki þótt víða væri leitað.

Þremur vetrum síðar, þegar Gói var enn ófundin, strengdu bræður hennar þess heit að leita hennar, Nór um löndin en Gór um útsker og eyjar. Leituðu þeir víða og lengi um það land sem nú heitir Noregur. Loks komast þeir að því að Hrólfur nokkur úr Bjargi á Heiðmörk, sonur Svaða jötuns norðan úr Dofrum, hafði numið Gói á brott og heldur Nór til fundar við hann. Þegar Hrólfur fréttir af Nór fer hann til móts við hann og Nór býður honum til einvígis. Þeir börðust lengi og hafði hvorugur betur. Þeir sættust þá, Nór fékk systur Hrólfs en Hrólfur Gói og hafði Nór í leitinni að systur sinni lagt undir sig Noreg.

Orðin góa og gói finnast einnig í Norðurlandamálum. Í færeysku er myndin gø, í nýnorsku gjø, go, í sænskum mállýskum göja, gya og í forndönsku gue, gøj. Ásgeir Blöndal Magnússon telur orðið líklega skylt nýnorsku gjø í merkingunni "snjóföl" og forníslenska veðurheitinu gæ (í þulum).

Húsfreyjur áttu að fagna góu á sama hátt og bændur fögnuðu fyrsta degi í þorra. Þær áttu að fara fyrstar allra á fætur, ganga fáklæddar út fyrsta morgun góu og bjóða hana velkomna með þessari vísu:

Velkomin sértu, góa mín,

og gakktu í bæinn;

vertu ekki úti í vindinum

vorlangan daginn.

Þorrinn og góan þóttu erfiðastir vetrarmánaðanna þar sem oft var farið að ganga á matarbirgðir. Í söfnum Orðabókar Háskólans er þessi orðatiltæki meðal annars að finna um góuna: Hægt er að þreyja þorrann og góuna. Kerling kvað það væri óséð. ,,Því að ekki er öll góa úti enn." Góunnar er oft getið í þulum og vísum.

Við skulum þreyja þorrann

og hana góu

og fram á miðjan einmánuð;

þá ber hún Grána.

 

Heimildir;

http://is.wikipedia.org/wiki/G%C3%B3a

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=55529


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Eiga KRISTNIR menn eitthvað að vera að hengja sig utan í heiðna siði

og heiðið fólk eins og Góu?

Jón Þórhallsson, 23.2.2020 kl. 09:36

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Að fara á Þorrablót;

er það ekki eins og að trúa á Þór og Óðinn/ásatrú?

Jón Þórhallsson, 23.2.2020 kl. 09:38

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jón þú spyrð hvort kristnir menn eigi að minnast fornra siða. 

Sennilega hefði vitneskjan um Þorra og Góu glatast ef ekki væri fyrir kristna menn. Það má leiða líkum að því að fornbókmenntir norðurlanda hafi einmitt varðveist á Íslandi vegna þess að kristnir og jafnvel kirkjunnar menn sáu til þess.

Já ég held að við nútíma Íslendingar eigum að varðveita menningararfinn með því að minnast fornra góðra siða stöku sinnum á ári.

Og ekki er síðra að minnast Góu með því að færa konunni blóm á þessum degi en gera sér gamlan íslenska matarhefð að góðu á þorrablóti.

Magnús Sigurðsson, 23.2.2020 kl. 10:14

4 Smámynd: Jón Þórhallsson

Að varðveita "menningar-arfinn"?

Finnst þér mikilvægt að kenna börnum söguna um það 

þegar að einhver heiðinn höfðingi

"hjó þrælinn í herðar niður; af því að hann lá svo vel við höggi"?

Jón Þórhallsson, 23.2.2020 kl. 10:20

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Nei Jón, það finnst mér ekki, en hvort sem sögurnar eru af Agli, Síðu Halli eða Þangbrandi þá tel ég rétt að varðveita sögu forfeðranna frá landnámsöld til okkar daga.

Eða hvað finnst þér?

Magnús Sigurðsson, 23.2.2020 kl. 10:32

6 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það er búið að gera þessum sögum góð skil í allskyns nútíma-uppfærslum;

þannig að þessar sögur eru til vilji fólk kynna sér þær;

en þessar sögur nýtast fólki ekkert inn í framtíðina.

Ég myndi segja að þessar sögur íþyngdu æskunni

í grunnskólum í mikilvægara námi. (Mikið 1000 ára gamlar ættartölum á fornmáli)

Væri þá ekki gáfulegra að kenna fermingar/KRISTIBOÐS-FRÆÐSLU  í grunnskólum

þar sem að æskunni væri kennt að gera kraftaverk í nafni KRSISTS;

fyrst að við tókum upp KRISTNI árið 1000?

Jón Þórhallsson, 23.2.2020 kl. 10:48

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mér skilst að það sé unnið að því á æðstu stöðum að afnema kristni sem ríkistrú í nafni trúfrelsis.

Þegar ég var í barnaskóla voru kenndar Biblíusögur og Íslendingasögur nokkuð jöfnum höndum og mér finnst að svo hefði mátt vera áfram. 

Annars hef ég ekki kynnt mér það svo gjörla hvað kennt er í grunnskólum í dag, og ég tel að þetta blogg mitt sé ekki sett fram sem barnakennsla.

En ég er sammála þér með það að kristin siðfræði þarf að eiga sinn sess grunnskólum.

Magnús Sigurðsson, 23.2.2020 kl. 11:18

8 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það hlýtur að liggja í augum uppi að þá sé betra á allan hátt

að kenna æskunni allt um BOÐORÐIN 10

heldur en að sóa tíma á Gísla Sögu Súrsonar í gagnfræðaskólum

þar sem að fólk er höggvið niður með vopnum.

Jón Þórhallsson, 23.2.2020 kl. 12:29

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Tungumálið, íslenskan, er m.a. eitt af því sem varðveist hefur með okkar sögulegu arfleið.

Sem dæmi þá notum við orðið trúar-brögð í íslenskri tungu, og vitum að trúin og þau brögðin sem eru notuð af yfirvöldum við túlkun t.d. kristninnar er ekki alltaf af sama meiði og kenning Krists.

Ef skólar kenndu allt á einsleitan hátt án tenginga við forfeðrunar þá hefðum við týnt tungumálinu.

Við töluðum þá (sennilega) nú þegar ensku og hefðum varla hugmynd um annað en að orðið religion ætti við hvoru tveggja. 

Magnús Sigurðsson, 23.2.2020 kl. 13:22

10 Smámynd: Jón Þórhallsson

Okkar íslenska tunga myndi alveg halda sér 100% þó svo að bækur eins og 

 Gísla Saga Súrsonar og Gunnlaugssaga Ormstungu

væru teknar út úr skyldunámi okkar skóla

og álaginu þannig létt á æskunni í mikilvægara námi.

Jón Þórhallsson, 23.2.2020 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband