Úti á landi í svörtum sandi

Hjá mörgum landanum ríkir nú Þórðargleði með stöðu ferðaþjónustunnar í landinu. Heyrst hefur að hún hafi farið offari í verðlagningu og verðlagt sig út úr veskjum landsamanna. Nú í sumar gefst tækifæri á að skoða landið bláa og njóta um leið atlætis þeirra efnuðu. Síðuhafi hvetur fólk til að heimsækja Djúpavog, fólkið á Hótel Framtíð mun taka höfðinglega á móti landanum nú sem hingað til, það getur síðuhafi ábyrgst.

Bloggið hér fyrir neðan birtist hér á síðunni fyrir nokkrum árum. Síðastliðna Jónsmessunótt var vaktin staðin á Djúpavogi, þ.e. við voginn sjálfan, og rifjaðar upp sjóræningja sögur og fleiri ævintýri, sjá hér.

Þó að ferðlög séu oft tengt sumarfríi þá þarf svo alls ekki að vera. þetta sumarið hefur verið þannig veðurfarslega vaxið að ekki hefur verið ástæða til að ferðast um langan veg innanlands hvað þá til útlanda. Eins og svo oft áður hefur sumarfríinu verið varið austanlands. Þá er gott að eiga aðgang að ævintýralandinu Útlandi, eigra um svört sundin á milli eyja þar sem aldan blá blikaði áður fyrr. Sund sem nú eru full af svörtum sandi og melgresishólum.

IMG_1431

Djúpivogur við enda regnbogans

Undanfarna áratugi hef ég notið ævitýralandsins sumar sem vetur, og meðan ég bjó á Djúpavogi þurfti ég ekki annað en fara rétt út fyrir dyrnar. Nú í seinni tíð hafa ferðamenn uppgötvað þetta undraland, og ég að ævin endist ekki til að fullkanna það. Ég ætla reyna að segja í örstuttu máli og með fáeinum myndum frá ævintýralandinu sem kallað er Útland, en að fara "út á land" af innfæddum, það eru eyjar í svörtum sandi syðst á Búlandinu þar sem þorpið á Djúpavogi stendur.

Í þessum sandeyjaklasa má finna Orkneyjar, Hrísey, Úlfsey, Hvaley, Sandey, Hafnarey, Kálk og Kiðhólma svo einhverjar séu nefndar á nafn. Þessar fyrr um eyjar hafa sennileg verið taldar til Þvottáreyja á öldum áður. En eru nú orðnar landfastar við Búlandið sem gengur á milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar. Ekki eru nema 100-150 ár síðan að það þurfti að sigla á milli flestra þessara eyja.

Stækka má myndirnar með því að klikka á þær.

Út á landi

Á flugi með Stefáni Scheving um borð í TF-KHB í mars s.l.

Nú nær sandrif sunnan úr Álftafjarðarfjörum þvert fyrir Álftafjörð og eru hinar eiginlegu Þvottáreyjar orðnar örfáar í minni Hamarsfjarðar, s.s. Eskey, úti í hafinu eru svo aðrar eyjar, Ketilboðaflis og Papey, sem verður sennilega langt í að verði sandinum að bráð. Eyjarnar Stórey, Kjálki, Hróðmundarey og Hundshólmi eru nú orðnar landfastar sandrifinu Álftafjarðar megin en Hamarsfjarðar megin á Búlandinu eru flestar eyjar landfastar, einungis blá sund eftir á milli skerja og boða. 

Það er ekki lengra síðan en um 1600 sem aðalhöfnin á Búlandinu var Fúlivogur sem Brimar kaupmenn höfðu á sínum vegum. Siglt var inn í Fúlavog úr minni Hamarsfjarðar á milli innri og ytri Selabryggja. Árið 1589 fengu Hamaborgarkaupmenn kónginn í Kaupannahöfn til að veita sér verslunarleyfi á Djúpavogi við Berufjörð. Talið er að rentukamerið í Kaupmannhöfn hafi ekki áttað sig á að þarna var um sama staðinn að ræða og bjuggu því íbúar í nágrenni Djúpavogs við fágæta samkeppni í verslun um það leiti sem einokunarverslun hófst á Íslandi.

IMG_9360

Selabryggjuhólmar séðir frá flugvellinum

 

IMG_9341

Þar sem áður voru blá blikandi sund á milli eyja

 

IMG_9313

Svartur sandur, blikandi haf og Ketilboðaflis

 

IMG_9319

Stólpar á milli Sandeyjar og Kálks, Kálkur í baksýn

 

IMG_1467

Gengið upp á Sandey, greina má klettótta strönd Úlfseyjar í baksýn, og Strandafjöllin við norðanverðan Berufjörð

 

IMG_6723

Það skiptir ekki máli hvort ævintýralandið, út á landi, er skoðað sumar eða vetur; í þoku eða krapaéljum, alltaf er eitthvað skemmtilegt að sjá s.s. hreindýr við hústóft í Hrísey

 

Í minni Hamarsfjarðar á milli örfárra núverandi Þvottáreyja fer útfallið úr Álftafirði og Hamarsfirði, á fallaskiptum flóðs og fjöru. Straumurinn á fallaskiptum er líkur stórfljóti svo víðfeðmir eru þessir firðir.  Vegna þessa straumþunga hafa Álftafjörður og Hamarsfjörðu ekki enn orðið að stöðuvatni. Á myndbrotinu hér á eftir má sjá æðarkollurnar skemmta ungunum sínum í straumþungu útfallinu í Holusundi við Kiðhólmann.

 

ornefni_utland_small

Hér má nálgast kort af Útlandi. 


mbl.is Höggið mikið en treysta á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband