21.7.2020 | 05:38
Gíll og hundadagar með aukanóttum
Það er ekki beint bjart yfir landinu þessa dagana þó svo að veðurfréttamenn keppist við að halda öðru fram. En eins og flestir vita, -veðurfræðingar ljúga. Blikur á lofti fara ekki fram hjá skýjaglóp sem hefur vanið sig á að fylgjast með ferð skýanna um himinhvolfið, frekar en að góna á lygina í sjónvarpinu.
Fyrir rúmri viku síðan, nánar tiltekið aðfaranótt 13. júlí, vafraði ég eftir vatnsglasi skömmu eftir miðnættið fram í eldhús. Þegar ég leit út um gluggann sá ég fyrirbæri sem ég tel hafa verið gíl, en "sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni". Þetta fyrirbæri er á ensku kallað "sun dog" og eru haft yfir hjásólir.
Þessar aukasólir eru á því sem kallað er rosabaugur um sólu, geta verið fleiri en ein og er þá stundum talað um að sólin sé í úlfakreppu eða hjálmaböndum. Málshátturinn um gílinn og úlfinn er talin vera kominn úr fornri goðafræði. Úr þessum táknum á himni var lesið í veður og spáð fyrir um stórviðburði fyrr á öldum.
Mér varð því ekki um sel þegar ég taldi mig sjá gíl á norðurhimninum aðfaranótt fyrst hundadags sumarsins, en eins og flestir vita þá eiga þeir það til að vera einsleitir. Daginn áður hafði verið sól og 25°C á Héraði og það hafði verið glansbjart þegar ég fór að sofa skömmu fyrir miðnættið. En þarna út um eldhúsgluggann blasti við drungaleg bleik blika og gíll, en enginn úlfur.
Daginn eftir var fyrsti virki dagurinn minn í sumarfríi og hann rann hvorki upp bjartur né fagur eins og dagarnir á undan höfðu gert, heldur grár og myglulegur. Dagarnir hafa síðan verið á þann veginn. Hundadagar er tímabilið kallað frá 13.júlí til 23.ágúst og eru þeir dagar taldir bera keim af þeim fyrsta og verða hver öðrum líkir eftir það, jafnvel alveg fram að Höfuðdag, sem er 30 ágúst.
Gíll sólar, eða sun dog eins og fyrirbærið er kallað á ensku, ætti samt ekki að sjást á næturhimni þegar sól er ekki á lofti, sama á við um úlfinn. En það var hjásól augsýnileg á norðurhimninum utan við eldhúsgluggann, sem sýndi svo ekki var um villst að rosabaugur var um sólu, -að ég tel.
Ég vonaðist eftir því, allt fram að fullu tungli í gær, að veðurkerfi myndu raðast upp á hagstæðari máta fyrir sólina og að úlfur hefði elt sól á eftir gíl, sem ekki var hægt að sjá þegar sól var ekki á lofti. En nú er það að koma í ljós að norðanskotið sem yfir landið gekk með grámyglulegum dögum um helgina ætlar að verða staðfesting á einsleitni hundadaganna.
Einhverjir kynnu að álykta sem svo að orðið "hundadagar" sé komið af fyrr um konungi á Íslandi, Jörundi hundadagakonungi. En svo er ekki. Jörundur fékk þetta viðurnefni vegna þess að þeir fáu dagar valdatíma hans náðu að hluta yfir þessa daga. Hundadagar eru mun eldri ættaðir úr Rómarveldi, eða jafnvel stjörnuspeki Grikkja, og voru hafðir yfir þá daga sumarsins sem voru einsleitir hitamolludagar á norðurhveli jarðar, -semsagt gúrkutíð.
Það er fleira sem ber undarlega upp á þennan tíðindalausa árstíma en veðurleysan. Samkvæmt gömlu íslensku tímatali má segja að nú fari í hönd algjör tímaleysa á Íslandi næstu fjóra sólarhringana, eða réttara sagt tíminn er endurstilltur. Sólmánuður með sína 30 daga er nú liðinn en næsti mánuður er nefnist heyannir hefst ekki fyrr en 26.júlí, en þá telst vera komið miðsumar. Því eru næstu fjórir sólarhringar nefndir aukanætur.
Rosabaugur um sól, eða sól í hjálmaböndum. hægra megin við sólina er gíll en vinstra megin úlfur. Ljósbrotið beint fyrir ofan sólina er ekki ólíkt hjásólinni sem er á efstu myndinni, sem tekin er út um eldhúsgluggann 13.júlí s.l.
Til gamans er hér mynd sem ég tók 13.júlí 2019. Fyrsta hundadaginn 2019 var þoka á Austurlandi, en rétt áður en sólin settist á bak við Búlandstindinn á Djúpavogi rofaði til í smá stund. Það breytti samt ekki því að hundadagarnir Austanlands 2019 voru þokudagar
Ps. Efsta myndin er frá því 13.07.2020 01:15, ef einhver hefur aðrar skýringar á fyrirbærinu en að um efsta hluta rosabugs sé að ræða, væru þær vel þegnar.
Athugasemdir
Óhemju skemmtilegur og fróðlegur pistill, hafðu bestu þakkir fyrir hversu vel og skemmtilega þú kemur þessum gamla og skemmtilega fróðleik á framfæri.......
Jóhann Elíasson, 21.7.2020 kl. 09:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.