30.10.2020 | 13:06
Íslenskt halloween
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn,
og hrærist ei.
Það birtir, það syrtir,
því máninn veður, og marvaðann treður um skýja sæinn . . .
Hver ber utan bæinn? . . .
Nú hljóðnar allt . . .
nú heyrist það aftur; það hriktir hver raftur!
Hann ríður húsinu, og hælum lemur,
það brestur, það gnestur, . . .
nú dimmir við dyrin, . . .
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur . . .
Draugurinn kemur!
Hann Grettir hitnar,
af hrolli svitnar,
því Glámur af þvertrénu gáir,
hausinn inn teygir,
og hátt upp við rjáfrið sig reigir;
hann hækkar,
hann lækkar,
en glóandi gína við skjáir;
hann hrekkur,
hann stekkur,
hann hnígur og hverfur . . .
nú hljótt er, sem fyr.
Hann Grettir bíður, og bærist ei,
heldur í feldinn,
horfir í eldinn,
og hrærist ei . . .
Nú kemur orgið sem áður!
Og skálinn riðar, en skellast dyr.
Vomurinn kominn, hann fálmar um fletið,
þrífur í feldinn, en fast er haldið . . .
Hvað veldur?
hver heldur? . . .
Hann fálmar aftur, og feldinn slítur.
Þá brestur skörin, og brotnar setið,
og Grettir réttur á gólfið hrýtur.
Svo takast þeir á,
hreystin og fordæðan forn og grá,
ofurhuginn og heiftin flá,
æskan með hamstola hetjumóð
við heiðninnar dauðablóð,
landstrúin nýfædda, blóðug og blind,
og bölheima forynju-mynd,
harkan og heimskan,
þrjóskan og þjóðin,
krafturinn og kynngin,
Kristur og Óðinn!
Þeir sækjast, þeir hamast með heljartökum,
svo húsin þau leika á þræði;
það ýlir í veggjum, það orgar í þökum,
það ískrar af heiftar bræði.
Og svo hefir Grettir sagt þar frá,
að sóknin hin ferlega gengi,
að aldregi slíka ógn, sem þá
um ævina reyna fengi.
Draugurinn skall úr dyrunum út,
dauðvona Grettir við heljarsút
horfði í hans helsjónir lengi.
Matthías Jochumsson (úr Grettisljóðum)
Athugasemdir
Ísland ætti ekki að taka upp þennan ameíska halloween-sið upp að neinu leiti.
Öll þessi ómenning leiðir til hnignunar á allan hátt.
Ég myndi taka t.d. öskudaginn úr okkar dagatali og leggja hann niður;
ef að ég fengi einhverju ráððið.
Jón Þórhallsson, 30.10.2020 kl. 17:54
Sæll Jón nú er ég hjartanlega sammála þér, það er nær að hafa sviðamessu í upphafi daga myrkurs en hrekkjavöku (halloween).
En ég mátti til með að setja þetta kvæði inn af tilefni þessarar ómenningar. Aldeilis mögnuð drápa um Grettir og Glám.
En Matthías Jochumsson er að sjálfsögðu þekktastur fyrir íslenska þjóðsönginn og ekki beint geðslegt að bendla hann við halloween, en við lifum á fordæmalausum tímum, -eða þannig.
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Magnús Sigurðsson, 30.10.2020 kl. 18:11
Samkvæmt mínu dagatali að þá á ALLRA HEILGRA MESSA
að vera nú um mánaðarmótin; samkvæmt KRSTNUM SIÐ.
Jón Þórhallsson, 30.10.2020 kl. 18:25
, , , ásamt allra sálna messu.
Magnús Sigurðsson, 30.10.2020 kl. 18:38
Sæll aftur Magnús. Ég var að reyna að finna E mail þitt en mig vantar upplýsingar um bók sem ég gæti trúað að þú visir um. Myndir þú vera svo góður að senda mér póst á valdimarsamuelsson@gmail.com þakka V
Valdimar Samúelsson, 31.10.2020 kl. 22:42
Mér skilst að Halloween séu áramótin hjá forfeðrum okkar, Keltunum, og eigi sér að baki þúsunda ára hefðir.
Allra heilagra messa er nátengd þessum hefðum. Halloween - Wikipediaen.wikipedia.org › wiki › Halloween
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 1.11.2020 kl. 00:10
Takk fyrir innlitin Valdimar og Hörður.
Sendi þér netfangið Valdimar.
Ég kom einmitt inn á þessi áramót Hörður í pistli um Gormánuð á fyrsta vetrardag. Og hátíðahöld þeim tengd hefðu verið flutt yfir á allra heilagra messu af Rómar kirkjunni.
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2256223/
Annars finnst mér skáldskapurinn hans Matthíasar bæði úr Grettisljóðum og Þjóðsöngnum eiga einstaklega vel við þessa dagana.
Þegar má næstum segja sem svo að fyrsti í fasisma hafi verið í gær við upptöku hertra reglna vegna smits í samfélaginu.
Hvað verður á endanum um eilífðarsmáblómið, fær það náðarsamlegast leyfi til að fölna og deyja úr þessum heimi?
Magnús Sigurðsson, 1.11.2020 kl. 08:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.