Ameríski draumurinn

Það má kannski segja sem svo að "Ameríski draumurinn" um frelsið sé smá saman að breytast í stafrænu martröðina um helsið. Allavega varð raunveruleikarinn Trump að keyra flash back slogan til að komast í forsetastól um árið, -"Make America Graet Again"-.

Hvort sem næsti forseti Bandaríkjanna verður Trump eða Biden þá er nokkuð ljóst að frelsandi Bandaríki Norður-Ameríku eru á hverfandi hveli, eða kannski réttara sagt búin að skila hlutverki sínu til heimsbyggðarinnar.

Þeirra mun verða minnst í mankynssögunni sem corporate fánabera alþjóðavæðingar stórfyrirtækjanna, sem síðasta stórveldisins í aðdraganda hins hnattræna ríkis rafræna Babelsturnsins, auðkenndu með tölunni 666 í hinni helgu bók.

En hvernig hefur Ameríski draumurinn haft áhrif undanfarin mannsaldur?

Því er best svarað með því að horfa í eigin barm, svo afgerandi hafa áhrif heimsveldisins verið á líf flestra jarðbúa á öllum sviðum mest alla 20. öldina til dagsins í dag; -í skoðunum, afþreyingu, lífstíl, tónlist, húsnæði, bílum , , , , og bara nefndu það.

File0024

Það var fátt sem minnti á Ameríska drauminn upp úr 1960 á mínu bernsku heimili annað en jólin og jeppinn. Enda foreldrar mínir af íslensku bændafólki komnir, -af Héraði og úr Suður-Þingaeyjarsýslu, sem  ekki hafði látið sig dreyma um undur og stórmerki í fjaðrasófum grænum.

Foreldrar mínir byggðu skúr úr vikursteinum á Hæðinni á Egilsstöðum til að komast undir þak. En íbúðarhúsið kom seinna en vænst hafði verið, enda spilauðu í þá daga, kalt stríð, síldarhrun og viðreisnar vandræðin stóra rullu í lífi fólks.

Það var þó eitt sem minnti á Ameríku allt árið. Til var Jeep Willys á heimilinu. Mamma bjó með okkur krakkana í skúrnum en pabbi var venjulega vikum og mánuðum saman í burtu vegna vinnu í Síldarbræðslum Ríkisins á Seyðisfirði.

Þennan Willys jeppa keyrði mamma um með okkur systkinin, aðallega í heimsókn til afa og ömmu í Vallanesið, en þar átti afi líka Willys árg 46. Hún gat þurft að fjallstarta Willysnum vegna rafmagnsleysis eða snúa í gang með sveif, enda var mamma mikil kjarnorkukona með víkinga blóð í æðum.

Jeep Willys

Á myndinni hér að ofan er síðuhöfundur, frumburður móður sinnar, um fjögurra ára aldurinn með áhyggjusvip. Annað hvort yfir því að Willysinn er rafmagnslaus á jafnsléttu og mamma þarf að snúa hann í gang, eða þá að hún hefur beyglað frambrettið á nýmáluðum jeppanum. Svona verður nú minnið gloppótt þegar á ævina líður.

Það var með jólum og bílum sem Ameríski draumurinn kom til mín. Willys fyrsti bíllinn sem ég keyrði. En þó er vert að geta þess að þegar við Matthildur mín höfðum byggt okkar hús á Djúpavogi, rann það upp fyrir mér að við húsið var ekkert íslenskt nema steypan og vikursteinarnir, sem notaðir voru til að hlaða veggina.

Þó svo að ég hafi teiknað húsið sjálfur og fengið kennarann minn í iðnskóla til að gera nothæfar teikningar fyrir byggingayfirvöld þá var það mun líkara húsi á Flórída eða í Kaliforníu en húsum í gegnum tíðina á Íslandi.

Það var þá sem ég fór að huga að því að slökkva á sjónvarpinu og lesa Þjóðsögurnar. Það er nefnilega engin tilviljun hvar í heiminum við fæðumst -og nú síðari ár hafa steypa, burstir og bárujárn orðið mínar ær og kýr.

Á þessari öld hef ég markvisst unnið að því að slíta mig undan heilaþvotti heimsveldisins og er meir að segja búin að fá mér Rúmenskan Dasía Duster, samsuðu samvinnuverkefna glóbalsins allt frá Frakklandi austur til Japan. Framleiddan á lægstu lágmarkslaunum Evrópu fyrir túrista heimsins.

En ég á samt ennþá gamlan Jeep Grand Cherokee frá því á síðustu öld til að milda markvisst fráhvarfs einkennin yfir í sjálfkeyrandi batterísdrossíu rafræna Babelsturnsins með stafræna GPS navigation simcard eftirlitinu fyrir 5G, sem þessa dagana er hamast við að leggja með ljóshraða meðfram þjóðvegum landsins.

En það er semsagt aðallega í gegnum bíla sem Ameríski draumurinn hefur hlutgerst hjá mér og eitt af því fáa skemmtilega við hið rafræna eftirlitssamfélag er, -að hægt er að finna myndir af svo að segja hverju sem er hjá Gúggúl, þar á meðal bílum sem maður man eftir að hafa átt um ævina.

Ég ætla nú að kynna þá til sögunnar, -þá sem hafa eitthvað með Ameríska drauminn að gera, allavega þá bíla sem hafa verið það eftirminnilegir að viðhalda honum, þó svo að langt í frá sé um tæmandi upptalningu að ræða. 

saab_96v4_1969_web2

Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist var ekki Amerískur heldur Saab 96 árg 1969, skipti á mótorhjóli sem ég hafði klessu keyrt. Saabinn var álíka laskaður og mótorhjólið, hafði orðið fyrir því tjóni á lakki við að vera fægður í blíðskaparveðri með níðsterku Mjallarbóni, sem ekki hafði náðst að þurrka af og græni liturinn því orðið ljósgrár. Saabinn var málaður svartur í snatri og svo ekki söguna meir, -ókeyrandi með öllu.

061916-Barn-Finds-1964-AMC-Rambler-American-440-1

Fyrsti ökufæri bíllinn minn var Rambler Amerícan árg 1966. Rauður og hvítur eðalvagn nákvæmlega eins og sá á myndinni. Hann var keyptur til að fara á Laugahátíð um Verslunarmannahelgi sumarið 1979 og man ég eftir að hafa keyrt hann fram og til baka með félagana í án þess að muna fleira frá þeirri verslunarmannahelgi. Um haustið keyrði ég hann í klessu að næturlagi á götum Egilsstaða og eignaðist við það tvo bíla, gullitaða fólksvagns bjöllu í harmónikku auk Ramblersins. Var svo eftir það próflaus í góðan tíma.

1971MercuryComet02

Eftir að ég fékk bílpróf aftur upp úr tvítugt eignaðist ég Ford Mercury Comet árg 1971, sem var búin að ferðast um á milli margra feðga í stórfjölskyldunni. Liturinn á myndinni er ekki sá rétti því hann var brúnn og blár þegar ég átti hann en hafði upphaflega verið bláleitur. Þennan bíl man ég ekki eftir hvað varð um, en minnir að hann hafi dagað uppi á Neskaupstað.

1974_ford_maverick-pic-40590-1600x1200

Næsti bíll var Ford Maverick árg 1974 sem ég keypti veturinn 1984 í Reykjavík til að keyra í Hafnafjörð og múra. Hann kom að vestan með B-númeri og var merkilegur fyrir þær sakir að vera með fullkomna ræsivörn, ekki var hægt að starta honum nema með opinni bílstjórahurð, -í þá daga höfðu bílar sál. Þennan bíl endaði ég á að keyra til Djúpavogs þar sem hún Matthildur mín tók mig loks að sér og hafði það ekkert með Maverickinn að gera.

Lada Samara

Þegar ég kynntist henni Matthildi minni taldi ég Ameríska drauminn úti og þegar börnin mættu í heiminn þá keypti ég nýlega Lada Samara árg 1987, að mig minnir. Ég hafði aðallega átt ýmsa Japanska pallbíla sem vinnubíla árin á undan og eina Toyotu sem ég losaði við mig í snatri. En Ladan var vandræða gripur og kenndi mér að Ameríski draumurinn lifði góðu lífi.

Dodge Aries

Næsti fjölskyldubíll var Dodge Aries árg 1989 nýr úr kassanaum, ekki að þessi bíll hafi verið óska bíllinn, en ég gat skipt á honum og Löduni auk nýlegrar Toyotu Corolla sem ég hafði tekið upp í viðskipti. Þessi bíll var vélarvana gallagripur, allt of lágt undir hann svo hann heflaði flesta malarvegi, og af svo leiðs vegum var nóg af í kringum 1990.

Crhysler Saratoga

Árið 1991 skipti ég á Dodge Aries upp í nýjan Crhysler Saratoga, enda Jöfur með umboðið. Saratogan var bæði sprækur bíll og hátt undir hann. Eini gallinn var reim fyrir vél, altenator og viftu, sem var reyndar eitt belti fyrir allt saman. Beltið átti það til að taka inn á sig snjó og smásteina við neðsta reimhjól með þeim afleiðingum að beltið fór út af. Ef ég sá Saratoga á förnum vegi átti ég það til að leggjast flatur til að horfa undir hana til að sjá hvernig aðrir hefðu leyst vandamálið. Ég lét smíða undir hana eftir séðri fyrirmynd en allt kom fyrir ekki, á endanum var ég orðin skotfljótur að koma beltinu á og vel græjaður. Þennan bíl átti ég í átta ár og líkaði vel.

Crhysler Stradus

Það má segja að Ameríski draumurinn hafi fullkomnast árið 1999. Þá keypti ég nýjan Crhysler Stratus auk þess að vera með nýlegan Dodge Ram sem vinnubíl. Stratusinn var skemmtilega sprækur með nýstárlegri autostic skiptingu. Þennan bíl hélt ég að ég gæti átt alla leið á heimsenda. En hængur var á, bíllinn hafði verið framleiddur fyrir Evrópskan markað með flókinni ræsivörn sem bilaði eftir 10 ár. Jöfur var þá kominn á hausinn, Crhysler búið að sameinast Dalmer-Benz og aðskyljast aftur, orðinn eins og hver annar Fíat, ekki nokkur leið virtist vera til að koma bílnum í gang. Á endanum keypti ég annan Evrópskan Stradus og gat flutt tölvu á milli bíla með þeim afleiðingum að hinn bílinn var ógangfær. Þessi vandræði tóku rúmt ár og Ameríski draumurinn þá þegar orðin að stafrænni martröð. 

 Mercedes-Benz

Á meðan vandræðin stóðu yfir með Stradusinn keypti ég Mercedes-Benz árgerð 1993 á lítið, ágætis bíl. Enda var sagt þá um Benz að þú átt ekki að prófa Benz nema þú hafir efni á að kaupa hann. Benzinn átti ég í stuttan tíma eða þar til Stratusinn hrökk í gang.

Grand Cherokee

Árið 2015 keypti ég okkur Matthildi minni "fjallabíl" á minni pening en Ragnar Reykás hefur fengið Lada Sportinn á sínum tíma. Það er ótrúlegt hvað hægt er að kaupa góða Grand Cherokee á lítinn pening. Hann var reyndar frá því á síðustu öld en það var bara betra. Síðan þegar þurfti að endurnýja á honum dekkin og orðið var dýrt að koma í gegnum skoðun 2018 þá keypti ég bara annan betri sömu árgerðar með tveimur dekkja göngum á svo til dekkja verðinu.  

Jeep

Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að setja hér inn mynd af Duster eða gefa honum einkunn, hef ég þó vanist álík dós með því að keyra Kangoo í vinnunni vel á annan áratug. En það má segja að heilræðið með Benzinum hafi endað Ameríska drauminn frá því á síðustu öld, maður skyldi ekki eiga gamlan Amerískan bíl nema að hafa efni á því að keyra hann. Þó segja megi að Duster sé álíka stílbrot og Saabinn og Ladan þá er Ameríski draumurinn nú hvort eð er kominn við dauðans dyr hvernig sem covidkosningarnar fara hjá gamlingjunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Yndislegur.

Takk fyrir mig.

Kveðja úr sólinni í neðra.

Ómar Geirsson, 2.11.2020 kl. 10:17

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Einu sinni ferðast í svona Duster. Hann hét held ég reyndar Renault sá bíll. Þetta var á Indlandi fyrir nokkrum árum. Vinur minn var að gifta sig og fékk svona bíl í brúðkaupsgjöf. Fyrsta ökuferðin hjá honum endaði reyndar úti í skurði við bílaplanið og brettið beyglaðist, enda brúðguminn uppgefinn eftir þriggja daga veisluhöld og nánast engan svefn. En svo ferðuðumst við yfir þvert Indland á þessum bíl og gekk bara fínt.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.11.2020 kl. 11:10

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitið og athugasemdirnar félagar.

Bestu sólarkveðjur í neðra Ómar. Hér í efra fer lítið fyrir sólinni enda bæði orðið lágt til lofts og stutt á milli veggja á þessum árstíma, eða eins og gamli bóndinn af Úthéraði sagði þegar hann kom fyrst sinn í neðra; að það hefði komið honum mest á óvart hvað var stutt til allra átta.

Ég held að það sé alls ekki ómögulegt Þorsteinn, að Duster heiti Renault sumstaðar og Nissan annarsstaðar. Alla vega sagði vinnufélagi minn sem spilaði mig út í óskapnaðinn að Duster væri samsull af því besta úr Renault og Nissan. Ég á ekki erfitt með að trúa því að bíllinn hafi komist yfir þvert Indland eftir að hafa lent ofaní skurð. Þessir bílar hafa verið á íslenskum vegum með allskonar ökumönnum undanfarin ár án þess að maður hafi orðið var við að þeir stoppuðu lengi ofaní skurði eða úti í vegkanti. En mikið er nú Cherokee-inn samt reffilegri.

Magnús Sigurðsson, 2.11.2020 kl. 12:59

4 identicon

Skemmtilegur pistill, sem ætíð hjá þér, Magnús.

Maður finnur hinn sanna frjálsborna landa,

og anda, í þér. Sama hvað druslurnar heita, og hvaðan þær koma :-) 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 2.11.2020 kl. 13:02

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdina og innlitið Símon Pétur.

Það fer sífellt minnkandi frelsið þegar bílar eru annars vegar og á það ekki bara við hvað rafrænu stafrænuna varðar. Hvað þá að það fylgi sveif til að snúa þeim í gang á jafnsléttu í rafmagnsleysi eins og Willys forðum.

Það er t.d. ekki einu sinni hanki fyrir tóg á Grand Cherokee ef það skildi þurfa að draga hann, verður bara að panta flutningabíl á verkstæði. Það eru þó hankar aftan og framan á Dusternum hjá Rúmenunum.

Það er orðið svo að það þorir varla nokkur maður að aðstoða annan þegar bílar eru annars vegar. Enda gætu menn átt yfir höfði sér himin háar skaðabótakröfur fyrir greiðasemina komist lögfróður kaskó fræðingur á láni í málið. Heimur versnandi fer þar sem og í öðru.

Magnús Sigurðsson, 2.11.2020 kl. 18:38

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll! Og engan Buikk?

Helga Kristjánsdóttir, 3.11.2020 kl. 02:59

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Helga, nei það var engin Buik. En lét mig eitt sinn dreyma Ford Mercury Cougar án þess draumurinn rættist. 

Magnús Sigurðsson, 3.11.2020 kl. 06:10

8 Smámynd: Jóhann Elíasson

Sæll Magnús og bestu þakkir fyrir alveg stórkostlegan pistil.....

Jóhann Elíasson, 3.11.2020 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband